Krosslagðir fingur

Sprundin fór læknavaktina áðan þar sem henni hefur versnað eftir því sem liðið hefur á vikuna. Sjúkdómsgreining: inflúensa. Og ekkert við því að gera nema bíða. Ég trúi þessu ekki. Ég sárfinn til með konunni minni sem er eitthvert óþekkjanlegt hrúgald, annaðhvort í sófa eða rúmi. Man líka hvernig þetta var í janúar í fyrra þegar ég fékk inflúensu, var með 40 stiga hita og grét af vanlíðan, fullorðin manneskjan. Sprundin hjúkraði mér og varð svo sjálf veik þótt það væri ekki fyrr en rúmri viku eftir að ég lagðist í rúmið.

Ég get því enn þá átt von á því að verða veik. Og þá get ég ekkert lært og prófin fara í vaskinn og líf mitt endar og allt það. 

Sprundin er sem betur fer ekki eins veik og ég var í fyrra.  

Er ekki frá því að ég finni fyrir hausverk.

Nei. Og aftur nei. Ég ætla ekki að verða veik.

Annars varð Sprundin skyndilega sprækari áðan. Varð sjálfri sér lík og deildi sínum einkahúmor með mér. Núna situr hún hér hjá mér og unir sér í Playstaition (eða hvernig sem þetta er skrifað). Úr því hún getur farið í bílaleik þá hlýtur hún að verða frísk bráðum.

Eins gott líka því við erum að fara á Malarrif á morgun. Er búin að pakka fyrir okkur og ætlum að reyna að leggja af stað upp úr hádegi.

Engill er hjá pabba sínum. Ég stakk upp í því að við breyttum kerfinu og hún færi til hans annan hvern fimmtudag (yfir nótt) og annan hvern föstudag (yfir helgi). Þannig hittast þau einu sinni í viku en áður fór hún til hans aðra hverja helgi og svo á mánudegi eftir mömmuhelgi sem þýddi að þau hittust tvisvar í sömu viku og svo ekkert í rúma viku. Betra svona held ég.

Er bara að draga það á langinn að fara að sofa. Þori ekki að vakna á morgun ef ég skyldi vakna veik.

Annars lærði ég ekkert í dag. Gott hjá mér. 

Ljósi punkturinn þessa stundina er brósi minn sem brilleraði á sýningunni í gær þar sem hann lék af tærri snilld og söng Allt fyrir ástina. Kvenfólkið í fjölskyldu hans (í meiri hluta eins og alltaf) plús afi og pabbi hans fylltist stolti þegar drengurinn steig nýklipptur og spangarlaus á svið, eins og snýttur út úr nös á mömmu en hafði þó yfir sér sama sjarmann og pabbi hans. Svo vel upp alinn, góðhjartaður og vel skapur í alla staði.

Ég sé þann dag fyrir mér þegar hann hefur lokið hraðbraut, útskrifast úr leiklist og leikið aðalhlutverkið í kvikmynd sem Davíð frændi framleiðir og Valdís frænka klippir. Hann mun stíga á stokk á frumsýningu og þakka móður sinni og systrum tveimur, en án þeirra hefði hann ekki orðið sá maður sem hann væri í dag, þær væru allar kjarnakonur og hefði hann alist upp í faðmi þeirra, sem blómi í eggi og ætlaði hann sér í ókominni framtíð að skýra dóttur sína því nafni sem aðalkonurnar í lífi hans bera allar, Rós.

Ég tárast. 


Hvað er í gangi?

Það hefur engin skrifað athugasemd við síðustu fjórar færslur! Óvenjulegt.

Mamma benti mér á að ég hafði skrifað 'sýna' með einföldu í einhverri færslunni. Svona villu myndi ég aldrei gera ef ég væri að skrifa á blað. Mér finnst í alvöru heilinn á mér virka öðruvísi þegar ég nota lyklaborð. Hann er alltaf kominn á undan mér. Ég held til dæmis að ég hafi verið að hugsa um orðið 'mínum' sem kom seinna í setningunni (sýna stelpunum mínum) og þess vegna skrifað með einföldu. Eða eitthvað álíka. Ég hef allavega aldrei átt í vandræðum með einfalt og ufsilon.

Mér líður ekki vel með þetta. Ímyndið ykkur að þið mynduð finna einhvern óeðlilegan hnúð á öðrum fótleggnum. Þið væruð viss um að hann væri ekki hættulegur en samt sem áður væri hann óútskýranlegur og pirrandi. Þannig líður mér þegar ég geri undarlega stafsetningarvillu á blogginu.

Sprundin er lasin. Ég er ógesslega leiðinleg og banna henni að anda með opin munn nálægt mér svo ég smitist ekki. Það er hins vegar nær ógerlegt fyrir greyið þar sem nefið er alveg stíflað.

Innskot: Elísabet Rós systir rifjaði upp fyrir mér í fyrradag að grey þýðir útriðin hundstík. Kannski óþarfi að kalla konuna sína það. Ekki það að útriðnar hundstíkur eiga alveg örugglega bágt.

Sprundin kom heim úr skólanum á mánudagsmorguninn (rétt eftir að ég var búin að blogga síðast)og rétt hafði það upp stigann inn í íbúðina. Hún lagðist svo undir sæng og svaf til sex um kvöldið. Ég og Rakel vorum hins vegar úti að leika okkur og nýttum frídaginn okkar vel saman.

Tókum strætó niður í bæ og fórum út hjá Háskólanum. Rakel skottaðist með mér að skila verkefni í Nýja-Garði og svo löbbuðum við niður á Austurvöll og fórum í vinnuna til mömmu. Hún bauð okkur í hádegismat með hinu Alþingisliðinu og gaf okkur ís í eftirrétt.

Meðan ég drakk kaffi á skrifstofunni hennar mömmu sat Rakel og skrifaði. Hún er svo mikill snillingur, blessað barnið. Hún heldur eins á blýanti og ég. Hún er þriggja ára! Það þarf að kenna mörgum börnum í sex ára bekk að halda rétt á blýanti. Svo skrifaði hún og sagði stafina og orðin sem hún var að skrifa upphátt. Hvert orð samanstóð af misstórum hringjum. Þetta var glæsilegt hjá henni og mamma hengdi myndina upp hjá sér, alveg að rifna úr stolti yfir rauðhausnum sínum.

Innskot: Ég sit hérna í tölvuverinu í Árnagarði og þykist vera að hlusta á aukatíma í forna málinu á netinu. Það er hins vegar mjög erfitt þegar ég er að blogga um leið ...

Ég og snillingurinn fórum svo og keyptum brauð og gáfum öndunum. Héldum því næst út á stoppustöð, valið stóð á milli þess að taka einn strætó upp á Hlemm og skipta svo eða labba aftur út í Háskóla. Við gerðum það og undrabarnið sýndi engin merki um þreytu þrátt fyrir allt labbið. Eða skoppið í hennar tilfelli. Ég var oft við það að fara úr axlarlið þegar ég leiddi hana þar sem hún tók sífelllt einhverjar skyndilegt dýfur og hoppaði og prílaði upp á allt sem á vegi hennar varð. Hún fékk að leika lausum hala, eins mikið á hægt er niður í miðbæ, og naut sín í botn. Hún var samt orðin lúin í strætó á leið heim, sagði varla orð en það gerist bara þegar hún er orðin mjög þreytt, annars stoppar hún ekki í malinu.

Við ákváðum að fara bara heim til mömmu og gefa lasaranum frið heima. Gripum því bara eitthvað dót þegar við komum heim og vorum svo farnar aftur. Við fórum í sturtu heima hjá mömmu og svo eldaði ég nokkra lítra af grjónagraut á meðan Rakel lék sér. Hún kvartaði yfir þreytu og þurfti aðeins að pústa í mammíarfangi áður en hún gat haldið áfram að leika sér. Það er hægt að segja að hún hafi sofnað vel, litli ástarengillinn minn.

Sprundin var alveg jafn slöpp í gær, hef sjaldan séð hana svona lasna og vona og bið til guðs að ég smitist ekki, má ekki alls ekki vera veik í próflestrinum sem byrjar á morgun. Á morgun. Ég trúi þessu ekki. Get ekki sagt að ég sé í einhverjum próflestragír.

Allavega. Við horfðum á spólu undir sæng og svo skreiddist hún í skólann og ég lærði. Hún ætlaði að nýta flest kvöld þessarar viku til þess að leggja lokahönd á kommmóðu sem hún er að smíða í einu námskeiðinu. Heilsan hefur hins vegar ekki leyft það. Hún var alveg búin á því eftir tímann í gær og hafði enga orku til þess að smíða meira. Hún kom því bara heim í konufaðminn sem gerir allt betra.

Klukkan sex í kvöld er sýning hjá Einsa bró í Sönglistinni. Núna er hann kominn í framhaldshóp og það verður gaman að sjá  framfarirnar hjá honum. Hann losnaði við spangirnar í gær og mamma ætlaði eitthvað að snyrta á honum krullulubbann svo ég er viss um að hann verð glæsilegur í kvöld. Hrund kvíðir því að yfirgnæfa krakkana á sviðinu með hnerrum og snýtingum. Hún vill þó ekki missa af þessu.

Svo er aldrei að vita nema við kíkjum vestur á Snæfellsnes um helgina, á Malarrif, besta stað í heimi. Ég er búin að reikna nákvæmlega út hvað ég þarf marga daga í mesta lagi til að læra fyrir prófin og hef komist að því að ég ætti að hafa efni á því að kíkja í sumarbústað. Ætla nú samt að hafa með mér efni til að lesa svo mér líði betur.

Róandi rödd Jóns kennara er eins og lækjarniður í eyrum mér og bara ansi gott að skrifa með hann berandi fram hina undarlegustu forníslensku.

Skólinn að verða búinn. Er að fara í síðasta tímann. Tilfinningin 'ég skil ekki neitt í neinu og hvað er ég eiginlega búin að vera að gera í öllum þessum tímum og ég á eftir að falla í öllu af því að ég er hvorki góð í spænsku né íslensku' er að færast yfir mig.

Eða kannsi ég sé bara svöng.

Best ég fái mér eitthvað að borða um leið og Jón Axel er búinn að tala.

 


Síðustu dagarnir ...

... í skólanum framundan. Ótrúlegt.

Við höfðum það gott um helgina, Rakel í sveit með pabba sínum og við kyrnur hér heima. Vorum boðnar í partý á föstudagskvöldið en þreytan eftir vikuna varð viljanum til að fara yfirsterkari og við sátum heima og spjölluðum. Vorum komnar snemma í bólið sem er alltaf gott.

Hrund fór í skólann á laugardagsmorguninn og ég mamma þeyttumst um allt og útréttuðum. Fengum okkur svo brunch á Gráa kettinum og litum inn á magnaða myndlistarsýningu hjá Óla Lár, pabba hans Davíðs frænda. Fórum líka í Ikea og mamma keypti það sem hana vantaði. Núorðið ýtir maður Ikeaferðum á undan sér. Þetta er svo út í rassgati eitthvað. Hér áður þegar verslunin var í Holtagörðum fór maður alltaf einn hring eftir að hafa keypt inn í Bónus.

Hrund eyddi kvöldinu hjá mömmu sinni og ég hjá minni. Alltaf gott að fá tíma í sitthvoru lagi og láta mömmurnar dekra við sig. Í staðin eyddum við spúsan sunnudeginum saman og höfðum það ótrúlega kósý. Vorum vaknaðar snemma og náðum okkur í spólur og ís og héldum heim. Fengum okkur indverska súpu og brauð og ísinn í eftirrétt. Horfðum á sjónvarpið og stússuðumst og fyrr en varði var Rakelin komin heim.

Eftir kjötbolluát var Rakel svo illt í maganum, sagðist hafa borðað grjót. Verkurinn fór eftir strokur og loforð um tvær bækur fyrir svefninn. Hrund fór með hana inn í rúm og söng og bað bænir. Ég leit inn og sá Hrundina krjúpa á gólfinu við rúmstokkinn og knúsa krílið. Gat ekki setið á mér og lagðist á bakið á Hrund og faðmaði stelpurnar mínar báðar í einu. Rakel var fljót að stoppa það: 'Hey, mammí, bara einn í einu, fyrst mamma, svo þú.' Ok, ok. Fyndið hvernig hún byrjar allar setningar á Hey!

Mamma og Edda frænka komu aðeins í heimsókn um kvöldið sem var mjög skemmtilegt. Á meðan Hrund dúllaði sér í tölvunni bjó ég til heimagert bodyscrup. Lífrænt bodyscrub er svo dýrt og en þar sem við notum bara lífrænar snyrtivörur kom ekkert annað til greina. Ég ákvað því að malla þetta sjálf. Setti himalayasalt í krukku og bætti lífrænni möndlu- og ólívuolíu út í. Bætti svo olíum frá Kollu gras út í (hver olía hefur sína lykt og sinn mátt) og voila: ilmandi og heilnæmur skrúbbur tilbúinn.

Ætla í sturtu í kvöld og skrúbba mig frá toppi til táar.

Þar sem prófin eru að byrja og ég ekki í skólanum í dag, ákvað ég að eyða deginum með Rakel. Hef svo lítinn tíma fyrir hana í prófunum svo það er um að gera að nýta tímann þangað til. Við erum búnar að borða og klæða okkur og hún bíður óþreyjufull inn í herbergi eftir því að komast út. Ætlum að taka strætó niður í bæ og fá okkur hádegismat með mömmu, gefa öndunum brauð og eitthvað fleira.

Mér er ekki til setunnar boðið, adios. 


Pínupistill

Þetta hefur verið erilsöm vika, eða þannig, vorloftið fyllir fjölskylduna atorku og gleði svo löngunin til að hanga heima eftir daginn er ekki mikil.

Rakel fór til pabba síns á mánudaginn og ég lærði á meðan Hrund var í skólanum. Hún var að heiman frá 17 til 22 svo ég hafði íbúðina út af fyrir mig. Það er allt öðruvísi að vera ein heima og geta gert það sem ég vil heldur en að vera heima að læra. Þá er ekkert í boði að dúlla við sig. Ég naut mín því í botn, búin að læra, enginn barnarass að þrífa eða kvöldmatur að elda og ég gat verið ein með hugsunum mínum. Fékk mér samloku í kvöldmat, dúllaði mér í tölvunni, sýslaði eitthvað og horfði á sjónvarpið. Yndislegt.

Það var líka yndislegt að fá konuna heim. Ekkert eins gott og að liggja í kuðli upp í sófa með henni, allar flæktar saman. Og ekkert eins skemmtilegt og láta hana fríka út með því að horfa á hana. Hún bara höndlar það ekki þegar ég glápi svona ástaraugum (eða stíðnisaugum á hana). Augun fara að flökta og hún roðnar af feimni, svo þurrkar hún sér um munninn ef vera skyldi að einhverjar matarleifar væru þar, fingurnir fara á flakk og hún byrjar að klóra sér og dæsa af óöryggi. Þetta er sætast í heimi. Mér finnst æðislega krúttlegt að hún skuli enn þá verða feimin við mig eins og þegar við kynntumst fyrst.

Við kíktum í heimsókn til tengdó á þriðjudaginn, sníktum spjall og pizzur og Rakel brunaði um húsið á plastbílnum sínum (sem guði sé lof er ekki pláss fyrir heima, það eru bölvuð læti í honum). Á miðvikudaginn var veðrið slíkt að það kom ekki til greina að fara heim og fórum við í staðinn niður að Tjörn og gáfum aggresívum gæsum og scary svönum brauð. Vorum í lífshættu á tímabili og Rakel kvartaði yfir því að komast ekki að vatninu til að gefa öndunum (vegna óðra, hvæsandi gæsa sem Hrund var farin að stugga ansi harkalega í burtu á endanum). Fengum okkur kvöldmat á Icelandic fish and chips sem var guðdómlega gott. Fyrir þá sem ekki vita er allt hráefni lífrænt, fiskurinn steiktur upp úr repjuolíu og deigið búið til úr bankabyggi. Svo er hægt að fá ofnbakaðar kartöflur eða laukhringi og margar tegundir af salati með, skyronessósur (búnar til úr skyri, ekki majonesi), heimatilbúið límonaði og rjómalagað skyr með fíkjum eða berjum í eftirrétt. Og verðið er viðráðanlegt.

Haldiði svo að ég hafi ekki unnið 25% afslátt af mat á staðnum á Núinu áðan.

Í gær var ömmu- og afadagur á leikskólanum og fékk Rakel mæðraömmur sínar í heimsókn. Við Rakel fórum svo til ömmu sem er alltaf notalegt og núna er helgin framundan.

Ljúfa líf, ljúfa líf.

Annars réðst á mig aspassúpa á miðvikudaginn. Var búin að hella sjóðandi vatni í bolla og hellti duftinu úti (þetta var bollasúpa). Gaus þá ekki upp sjóðheitur aspasstrókur og lenti á mér og allt um kring. Í gær opnaði ég skápinn fyrir neðan slysstaðinn og fann aspassúpu í plastboxi sem og þornaðan aspassúpublett á hillunni. Það var aðeins lögg eftir í bollanum að gosi loknu. Mér finnst að það ætti að vara við þessu á umbúðunum.

Farin í tíma. Góða helgi.


Viðbjóður

Mæli með því að þið farið inn á vefritid.is og lesið grein Evu um mannréttindabrotin í Tíbet. Djöfulsins, helvítis viðbjóður alltaf hreint. Afsakið orðbragðið.

Engin skepna leggst eins lágt og maðurinn. Værum við vara sem væri nýkomin á markað værum við bönnuð hið snarasta. Innihald okkar er stórhættulegt okkur og öðrum.

Eitt sinn vorum við lífrænt ræktuð. Nú samanstöndum við af kemískum efnum og kemískum efnum einungis. Við brotnum ekki einu sinni niður í náttúrunni, svo fjarri erum við henni. 

Við lifum eins og sníkudýr hvert á öðru.

Við eigum að skammast okkar.

Annars eru komnar nýja myndir inn á rakelsilja.barnaland.is. Þið sem viljið lykilorð, sendið mér póst á drr1@hi.is 


Tíminn líður ...

... svo hratt finnst mér og sífellt hraðar eftir því sem ég eldist. Mér finnst hann sérstaklega líða hratt eftir að ég byrjaði í Háskólanum. Núna er t. d. önnin að verða búin, rétt vika eftir og svo skella prófin á af öllum sínum þunga.

Er búin að vera með fiðrildi og söknuð í maga það sem af er degi. Strákur sem er með mér í Menningu, sögu og þjóðlífi Rómönsku-Ameríku hélt smá fyrirlestur um Costa Rica í dag. Hann er sjálfur þaðan og bara að heyra hann tala, heyra sérstakan r-framburðinn, var nóg til þess að nostalgían helltist yfir mig. Var svo með tárin í augunum allan fyrirlesturinn, það var svo skrítið að sjá myndir af stöðum þar sem ég hafði verið, hvað þá borginni þar sem ég bjó meðal annars, af torginu mínu þar sem við vorum vön að hittast og finna okkur eitthvað að gera. Úff. Mig langaði að rjúka út úr stofunni, ræna Sprundinni úr skólanum og fljúga út í sólina, spænskuna og þykkt loftið. Rakel myndi vera heima þar sem ég þori ekki að fara til Mið-Ameríku með barnið. Væri allt of hrædd um hana. Það yrði nógu erfitt að vera með ljóshærðri, fullorðinni manneskju.

En mig dreymir um að sína stelpunum mínum Costa Rica sem ég elska, dýrka og dái. Og auðvitað Nicaragua sem er allt öðruvísi og líka svo stór hluti af mér. Sniff.

Var líka hálf angurvær um helgina. Komst að því í tíma á föstudaginn að spænskukennarinn minn notar einhvern rakspíra sem kallar fram minningar frá Costa Rica. Það er eittvað við lyktina sem fær minningarnar til að streyma fram og ég get heyrt röddina í abuelu á fincunni minni í Guanacaste og fundið bragðið af tortillunum hennar og ég man hitann og svitann og lykt af dýrum og mold og ég sé herbergið mitt fyrir mér, pínkulitla herbergið mitt með bláu gluggahlerunum og gardínu í stað hurðar.

Þessir myndir voru í huga mér alla helgina og það var bara gaman. Við fjölskyldan gerðum heilmikið eins og alltaf um helgar. Sumir vinir okkar hafa reynt að líta við ,oftar en einu sinni, um helgar og við aldrei verið heima. Það þýðir ekkert að koma án þess að hringja á undan sér. Um helgar erum við ávallt að fjölskyldast út um allar trissur. Að minnsta kosti um mömmuhelgar.

Við fórum í íþróttaskólann á laugardaginn. Þetta var síðasti tíminn og Rakel fékk viðurkenningarskjal, kex og epli. Við fórum svo í morgunkaffi til ömmu minnar þar sem búið var að dúka þvílíkt veisluborð inn í stofu. Útbelgdar keyptum við inn í Bónus og fórum svo í heimsókn til Maríu vinkonu sem er alveg komin á steypirinn og er fallegri en nokkru sinni. Finnst okkur. Ekki henni sem er aðframkomin af þreytu.

Á sunnudaginn var það fermingarveisla í skíðaskálanum í Hveradölum og kvöldmatur hjá mömmu.

Rakelin tók tvö grenjuköst um helgina sem rekja mátti beint til sykuráts fyrir utan að vera ekki mjög meðfærileg (sem hún er venjulega, ég veit að hún er bara kútur og hún má alveg vera með vesen en það er munur á venjulegu veseni og svo algjörum stælum í kjölfar sykuráts). Ekki að hún hafi fengið nammi, ekki í boði á þessum bæ. En kexkakan á laugardaginn og kökusneið hjá ömmu var nóg til þess að hún breyttist í annað barn. Og kökusneið og síðdegislúr á sunnudag var nóg til þess rugla hana alveg í ríminu. Það kemur nær aldrei fyrir að hún fái svona mikið bakkelsi á tveimur dögum. Og hún hreinlega ræður ekki við sykurinn. Ég held að þau séu ekki eins ströng á sykrinum hjá pabba hennar og skil hreinlega ekki hvernig þau afbera það.

Mér finnst nóg um þegar hún fær íspinna í leikskólanum, ég sé alltaf mun á henni þegar hún hefur borðað eitthvað með sykri og fullt af aukaefnum. Það er ekki einu sinni til hvítur sykur á þessu heimili og krakki eins og hún sem er alin upp við hollustu hreinlega ræður ekki við þetta eitur. Fæst börn gera það auðvitað en það er hægt að venja þau á hvað sem er.

Og burt með þessar helvítis Mcdonalds auglýsingar sem beint er að börnum. Þetta á að vera bannað. Ég vil ekki sjá að Rakel borði á svona skyndibitastöðum. Og burt með þessar Latabæjarauglýsingar. Mér finnst hugmyndin um hollt mataræði og hreyfingu fín en ég þoli ekki þessa markaðssetningu þeirra. Auglýsingar þeirra sem beint er til barna og fataherferð fer í taugarnar á mér. Ég bara vil ekki að reynt sé að selja börnum hugmyndir, auglýsingum á að vera beint til fullorðinna enda þeir sem taka ákvörðun og kaupa.

Ég vil að þessum heilaþvotti verði hætt. Og ég vil ekki hafa ís í afmælum á leikskólanum. Ég vil hafa spelt pasta og lífrænan mat og ávexti í veislum.

 AAAAHHHH. AAARRRRG.


Japanskt bað

Ég var búin að segja ykkur frá dekrinu sem ég fékk í afmælisgjöf og að Hrund fékk líka sem fyrirfram afmælisgjöf frá mömmu. Við skelltum okkur sumst í dekrið, japanskt bað, á miðvikudaginn. Áttum tíma klukkan fjögur og mamma tók því Rakel að sér. Við vorum settar í sturtu og skrúbbaðar og þvegnar. Sátum þarna á evuklæðunum og lyftum höndum og fótum eftir skipun. Gott fyrir mann að neyðast til að líta á líkama sinn sem einmitt það sem hann er og hætta að vera svona sjálfsmeðvitaður. Hef ekki verið skrúbbuð svona af annarri manneskju síðan ég var lítil og mamma þvoði mér.

Vorum svo settar í bleyti í sjóðandi heitan pott og þegar við vorum að yfirliði komnar sökum hita var komið að nuddi. Svæðanuddi. Og ég fékk powernudd. Ég hélt ég myndi deyja úr sársauka. Hef aldrei upplifað annað eins. Ég lá á dýnu á gólfinu og konan notað olnbogana og allan sinn líkamþunga til þess að nudda einhverja orkupunkta á rasskinnunum. Tárin láku ofan í koddann og ég var farin að biðjast vægðar. Hún tók allan líkamann minn svona. Bak, læri og kálfa að aftan og svo snéri ég mér við og það sama tók við hinum megin. Hún nuddaði líka kirtlana í holhöndinni og ég hélt að hún myndi slíta af mér brjóstin þegar hún var að sýna mér hvernig ég gæti komið í veg fyrir brjóstakrabbamein með því að nudda eitlana. Nakin, að sjálfsögðu, og löðrandi í olíu var mér svo komið fyrir í stól og punkar í andliti örvaðir. Allan tímann talaði konan látlaust, margt var speki og annað, að mér fannst, bull. Hrund sem fékk venjulegt svæðanudd lá í slökun í næsta herbergi.

Hún var nú ekki í vandræðum með að lesa okkur, konan sem nuddaði mig og sem á þetta japanska bað. Í lokin vissi hún allt um okkar hagi. Við fórum svo í sloppa og borðuðum heimatilbúin mat og hvíldum okkur. Við vorum rúma þrjá tíma í þessu og það verður að segjast að við vorum heldur betur endurnærðar og eiginlega agndofa að þessu loknu. Ég fékk líka að vita að það væri ekkert að mér, öll líffæri í góðu standi, mjaðmagrindin breið og ég því sköpuð til að eiga börn og að ég ætti að láta af þessari fullkomnunaráráttu sem væri að plaga mig. Ég veit.

Ég mæli með þessu. Þó ekki nema væri fyrir lífsreynsluna. Við kyrnur fórum svo í bíó á eftir og ræktuðum sambandið enn meir. Yndislegt að fara svona út í miðri viku og gera eitthvað skemmtilegt.

Í gær var ég voða skrítin. Held að orkustöðvarnar hafi verið of opnar. Var eiginlega hálf geðveik af tilfinningarugli. Tókst þrátt fyrir það að leggja lokahönd á ritgerðina í spænsku með hjálp mömmu sem prófarkalas. Hún er tilbúin!

Í dag var ég skárri, hamingjusöm og full orku eins og konan sagði að ég myndi vera. Kom heim, tók smá stund fyrir sjálfa mig og hófst svo handa við að þrífa. Eins og ég hef áður sagt þrífum við Hrund á eins og hálfs vikna fresti. Í þau fáu skipti sem það bregst og lengra líður á milli endum við yfirleitt með því að þrífa svakalega vel. Sú var raunin í dag. Ég tók til og þreif allt hátt og lágt. Gerði pásu til að drösla þríhjólinu á leikskólann og leyfa Rakel á hjóla heim. Hún sat svo inn í herbergi og teiknaði en ég setti óperur á fóninn, opnaði alla glugga til að hleypa vorinu inn og stillti svo græjurnar í botn svo hverfið gæti notið með okkur Rakel. Við fíluðum okkur í tætlur og tókum undir sönginn í sitthvoru herbergi. Rakel byggði svo marblett (?) úr kubbum og er líklega eina manneskjan sem hefur tekist það. Meðan ég lagði lokahönd á þrifin steig hún dans inn í stofu með hettu á höfðinu og var vægast sagt kostuleg.

Hrund kom heim að verða sex og er nú að ryksjúga. Rakel horfir á Litlu folana og ég er búin að henda sítrónukjúlla inn í ofn. Ætla núna að fara að gera kúskús og njóta lífsins.

Rétt föstudagur og heil helgi framundan. Ég bið ekki um meira. 


Litli gullmolinn

Ég elska litla rauðhaus þótt hann geti auðvitað gert mig hálf geðveika stundum sem aftur veldur því að ég skamma hann sem hefur þær afleiðingar ég fæ gífurlegt samviskubit sem endist mér daginn á meðan molinn er löngu búinn að gleyma og syngur inn í herbergi.

Í gær prílaði ég upp á háaloft og náði í þríhjólið hennar Rakelar. Fann þó hvergi hjálminn hennar svo ég gat ekki leyft henni að hjóla heim af leikskólanum. Hún reyndi að sannfæra mig um að húfa væri nægileg vörn en ég stóð fast á mínu. Það á að hjóla með hjálm og eins gott að hún venjist á það frá byrjun. Ég keypti mér meira að segja sjálf hjálm um leið og við urðum okkur úti um hjól og stól aftan á fyrir hana, svona til að sýna gott fordæmi.

Þrátt fyrir dauðaleit fannst hjálmur hvergi og var barnið að rifna úr spenningi yfir hjólinu. Vappaði í kringum um það og hringdi bjöllunni (hjólið stóð í holinu) og minnti mig endalaust á að ef hjálmurinn fyndist mætti hún hjóla á morgun.

Ég ákvað að setja skítahauginn snemma í bað. Þessi orkubolti kemur alltaf löðursveittur og með sand í rassi og hári úr útiveru. Það er hið besta mál, það eru drulluföt og drullupollar sem ég hatast við.

Krílið reif sig úr fötunum og kom þá í ljós að búið var að pissa í buxur og greinilegt var að einhver hafði farið á klósettið og skeint sig sjálfur eftir að hafa kúkað og það með miður góðum árangri miðað við útlit nærbuxna. Barnið var komið ofan í baðið þegar ég tók eftir þessu en ég neyddist til að draga hana upp úr og láta hana pissa svo hún pissaði ekki í baðið. Hélt líka fyrirlestur um að hún væri allt of gömul til að vera sífellt að pissa í buxur, hún yrði að gefa sér tíma til að sinna þessum þörfum sínum þótt lífið væri spennandi. Rauðhaus var stórmóðgaður yfir að vera rifinn upp úr baði auk þess að halda að ástæða þess væri sú að ég væri æf af reiði. Sú var nú ekki rauninn en hún þurfti að gráta soldið og ég að hækka róminn og það finnst okkur báðum leiðinlegt.

Eftir þessi dramaköst okkur beggja lagðist hún aftur í bleyti og ég réðist til atlögu við fisk inn í eldhúsi. Ákvað svo að líta inn til hennar, tjá henni ást mína og athuga hvort ekki væri allt í lagi. Því miður kom ég að henni þar sem hún var að drekka baðvatnið úr bolla. Því miður gerist þetta í hvert einasta skipti sem hún fer í bað. Því miður verð ég ekki glöð þegar ég sé þetta. Hélt langa ræðu yfir henni um það sem væri í vatninu. Mér er nokk sama um lífrænar olíur og baðsalt, hún lifir það af. Hins vegar er öllu ógeðfelldara að drekka vatn sem inniheldur klístrað tásukusk, sand sem áður var í rassi, í höfuðleðri, eyrum og nefi, hor úr nefi, og þær leyfar sem eftir urðu þegar krílið reyndi að skeina sig sjálft. Fyrir utan það var hún svo skítug á höndunum (gaman að vita til þess að hún þvoi sér ekki eftir útveru og fyrir drekkutíma og borði svo drullublandað brauð, ekki það baðvatnið sé eitthvað skárra) að hún skildi drullurákir eftir hvar sem hún snerti baðkarið. Hún harðneitaði að þetta væri allt í baðinu og hundleiddist röflið í mér. Vonandi heyrði hún eitthvað og hún brast að minnsta kosti ekki í grát.

Þetta átti að vera svo kósý stund hjá okkur en fór bara í eitthvað uppeldi og siðavandanir sem ég verð stundum svo þreytt á. Sérstaklega ef ég er þreytt og næ ekki að koma boðum og bönnum til skila á skemmtilega hátt eins og mér tekst stundum.

Allavega. Hrund leitaði að hjálmi án árangurs. Ég var komin upp í rúm að lesa og braut heilann um hvar hann gæti eiginlega verið. Kom allt í einu skápur í hug og viti menn, þarna voru hjálmar okkar beggja.

Þegar ég vakti álfinn í morgun hvíslaði ég í hálsakotið að við hefðum fundið hjálmið. Barnið rauk upp með svo miklum látum að við lá að hún skallaði mig. Hún henti sér í fangið á mér og ég bar þennan heita böggull fram í hol þar sem hjól og hjálmur stóðu. Hún var himinlifandi. Ég sagði henni að ef við værum fljótar gæti hún fengið að hjóla. Allt gekk eins og í sögu þangað til ég var að greiða henni (sem gengur yfirleitt mjög vel, síðan stráin á hausnum urðu tvö hef ég greitt í tagl og fléttað og ég veit ekki hvað og tek minnst 10 mínútur í þetta á hverjum morgni). Kannski var það það að ég fékk að velja greiðsluna (nenni ekki að gera Línu langsokks fléttur á hverjum einasta degi) og athyglin því ekkert of mikil eða þá að mamma hennar var einmitt að koma úr sturtu sem var of mikil truflun fyrir hana. Hún var að minnsta kosti sífellt á iði og snéri höfði í ýmsar áttir sem gerði mér erfitt um vik. 'Horfðu fram Rakel' sagði ég í sífellu, 'þú verður að horfa beint fram'. Hún tautaði eitthvað svar í hvert skipti, ég veitti því enga sérstaka eftirtekt, hún er vön að þusa á móti þegar ég þusa. Á endanum ofbauð henni þó horfðu fram-skipunin og sagði:´Ég get ekki horft fram, mamma er búin að loka hurðinni.' Sem var alveg rétt. Við vorum inn á baði og snérum að hurðinni. Þar sem mamma hennar lokaði hurðinni fram á gang þegar hún kom úr sturtu gat Rakel eðlilega ekki horft fram. Hurðin var fyrir eins og henni sjálfri varð að orði.

Sniðugur krakki. Við Hrund áttum hins vega í basli með að útskýra muninn á því að horfa fram og horfa fram á gang. Kannski að því að við börðumst við hláturinn.

Anginn minn fékk svo að hjóla í leikskólann. Hún horfði annaðhvort beint niður í götuna eða aftur og ég átti fótum mínum fjör að launa. Auk þess tók ég eftir því að hún er orðin svo stór að stækki hún um tvo sentimetra í viðbót mun hún reka hnén í stýrið. Sé ekki alveg þriggja ára barn fyrir mér á tvíhjóli.

Rakelin mín var samt svo glöð og það er það eina sem skiptir máli.


Afmæliafmæli

Hef bara ekki komist til að skrifa, öll helgin fór í gleði og glaum. Við Sprundin brunuðum í Ríkið á föstudagskvöldið og svo til mömmu. Vorum þar að dúlla okkur við skattaskýrslu og ekki skrítið að við skulum hafa þurft að fá okkur nokkra bjóra við þá iðju. Kom nefnilega í ljós að í íbúðalánin okkar eru í dag tveimur milljónum hærri en þegar við tókum þau sökum verðbólgu. Og það þrátt fyrir að við höfum borgað tæpar 800000 krónur á síðasta ári í afborganir. Og eitthvað svipað árið 2006. Maður verður svo fjandi frústreraður.

Allavega. Með nokkra bjóra í malla ákváðum við spúsan að skella okkur niður í bæ. Hittum Kötlu og Arnar kærastann hennar og fórum á Hressó þar sem Tryggvi frændi bættist í hópinn. Þetta varð hið skemmtilegasta djamm. Dönsuðum og dönsuðum á Hressó og svo á Apótekinu og ég skemmti mér vægast sagt konunglega.

Á laugardaginn vaknaði ég og ákvað að vera ekkert þunn. Fékk mér ristað brauð og saft og rölti svo til mömmu að ná í bílinn. Það var góður 20 mínútna göngutúr og ég hresstist öll við. Þegar ég kom heim var fallega konan mín vöknuð og sat í stofunni með gítar og söng sinni englaröddu. Hún söng fyrir mig meðan ég fór í sturtu og tók mig til og þegar hún var klár kom mamma og náði í okkur og keyrði okkur heim til sín þar sem afmælisveislan átti að eiga sér stað (það komust ekki allir við borðstofuborðið mitt). Við lögðum á borð og snurfusuðum og skelltum spænska saltfisksréttinum sem ég hafði undirbúið kvöldið áður í ofninn. Gestirnir komu um sjö og skáluðu með mér í freyðivíni. Maturinn var gómsætur, gjafirnar mína frábærar, vínið og bjórinn góður og samræður stórskemmtilegar. Ég hef ekki skemmt mér svona vel í háa herrans tíð, ef nokkurn tíma. Þetta var æði.  Um eitt var vínið búið og Einar og mamma komin heim. Við héldum þá til Rósu frænku og Gests þar sem margir kassar af bjór biðu okkar. Við spiluðum á spil og gítar, drukkum örugglega allan bjórinn í heiminum, hlógum og spjölluðum. Tryggvi, Katla og Davíð fóru í bæinn milli tvö og þrjú og við Hrund skakklöppuðumst heim um fjögur, að ég held, ánægðar með að vera bara í Skipasundinu (þar sem Rósa og Gestur búa líka).

Ég var ekki hress þegar ég vaknaði á hádegi en hafði það samt gott það sem eftir lifði dags. Borðaði núðlur með chilli og horfði á Friends og lagði mig svo þangaði til litli ljósgeislinn minn kom heim. Hrund skrapp svo út og kom heim með spólur og meiri sterkar núðlur. Það má með sanni segja að hún hafi gefið mér alla sína ást og athygli undanarið (ekki að hún geri það ekki yfirleitt en afmælisstelpuna mig hefur hún virkilega trítað).

Í dag bauð mamma mér í afmælishádegisverð og núna er við stelpurnar mína hér hjá mömmu í pizzuveislu. Ég er svo glöð og sæl að ég snerti varla jörðina.

 Takk allir sem hafa glaðst með mér. Þetta stórafmæli mitt hefur sannarlega verið eftirminnilegt. Og eftir rúma tvo tíma verð ég formlega orðin 25 ára.

Hasta luego.


Veikindi ...

... eru ástæða bloggleysis. Hef varla getað skeint mig sjálf svo orkulaus hef ég verið. Hefði nátla getað nýtt mér vilja Rakelar til að skeina mig og látið hana gera það en gekk ekki svo langt. Í staðinn hef ég síðan á miðvikudag legið eins og klessa upp í sófa og notið þess að eiga yndislega konu sem sér um allt.

Ég er eitthvað borubrattari í dag, er mætt í skólann og langar að öskra af stressi. Missti af forna málinu og hljóðfræði á miðvikudag og sé ekki fram á að hafa tíma til að hlusta á bæði á netinu, missti af áhugverðum fyrirlestri um konur í rómönsku Ameríku í gær og tíma í spænskri málfræði. Þetta er annar tíminn í röð sem ég missi af í þessu námskeiði og næsta fimmtudag er próf sem er ekki gott þar sem mig vantar svör við einhverjum fjórum verkefnum og veit því ekkert í minn haus. Í dag á ég líka að skila 10% verkefni í Ritþjálfum sem ég er ekki búin að gera og held ég neyðist til að sleppa.

Ég kem til greina í sumarvinnu í Háskólanum í sumar og hefði átt að mæta á fund varðandi vinnu í gær en opnaði fyrst bréf þess efnis áðan. Auk þess verða úrslit smásagnakeppni Mímis gerð kunn í partýi í kvöld sem ég hef hvorki orku né tíma til að mæta í. Þarf að undirbúa matinn fyrir morgundaginn í kvöld (afmælisveisla!) og gera skattaskýrsluna mína og efast um að ég hafi orku til að gera meira.

Þetta er ekki sanngjarnt. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband