10.5.2008 | 21:48
Pæling
Datt inn á síðu áðan þar sem verið var að ræða réttindi samkynhneigðra. Það er bæði vont og gott að lesa svona umræður. Það er yndislegt hvað það eru margir sem fagna hvers kyns mannréttindum, hvort sem það er konum, samkynhneigðum, börnum eða öðrum til handa. Svo er alltaf erfitt að lesa það neikvæða. Það er sama hvað maður brynjar sig, manni er aldrei alveg sama.
Það var til dæmis verið að tala um tæknisæðingu og tækinfrjóvgun en samkynhneigðir öðluðust réttindi til þess nýta sér aðstoð Art Medica fyrir tveimur árum. Umræðan byrjaði á því að einhver stelpa sagðist glöð yfir þessum áfangasigri samkynhneigðra en hafði jafnframt áhyggjur af því að biðlistar lengdust og framlög ríkisins yrðu ekki aukin í samræmi við afspurn svo niðurgreiðsla tæknisæðingar og glasa- og tæknifrjóvgunar minnkaði.
Eins og margir bentu á þá felst jafnrétti ekki í því að taka rétt frá einhverjum og gefa hann einhverjum öðrum heldur er markmiðið af fólk hafi jöfn réttindi. Réttindi okkar samkynhneigðra eru ekki á kostnað gagnkynhneigðra.
Sumum fannst að samkynhneigðir ættu vera á eftir gagnkynhneigðum á biðlista þar sem lesbíur eigi ekki við eiginlegt frjósemisvandamál að stríða. Við lessurnar gætum eignast börn á 'eðlilegan máta' og því væri það ekki ófrjósemi sem hrjáði okkur heldur reðurleysi. Lesbíur gætu leitað utan sambandsins, sofið hjá karlamanni og orðið óléttar.
Ef karlmenn í sambandi eru með slappa sundkappa geta þeirra konur líka leitað utan sambandsins, sofið hjá karlmanni og orðið óléttar. Þetta er því sama dæmið. Auk þess geta konur, burtséð frá því hvort þær eru gagnkynhneigðar eða samkynhneigðar, verið ófrjóar og því þurft aðstoð til þess að verða óléttar.
Tæknisæðing, tæknifrjóvgun og glasafjóvgun er fyrir þá sem þurfa aðstoð við að geta barn. Það þarf ekkert að skilgreina ástæðurnar að baki: er konan ófrjó, er karlinn ófrjór, eru þau bæði ófrjó, eru það lesbíur sem um ræðir? Það er ekki skilyrði fyrir því að fá aðstoð að þurfa fyrst að leita utan sambandsins að sæði.
Af hverju ættu lesbíur eitthvað frekar að vilja sofa hjá einhverjum öðrum en maka sínum?
Svo var rætt um það að lesbíur hafi sjálfar valið sér sína 'ófrjósemi'.
Stendur fólk enn þá í þeirri trú að kynhneigð sé eitthvað sem þú velur?
Það getur vel verið að stundum sé í tísku að vera hommi, fara í sleik við vinkonu sína á djamminu eða þá að það þyki spennandi og dulúðugt að vera tvíkynhneigður.
Þetta er ekki spurning um hvort fólk 'getur hugsað sér' að sofa hjá fólki af sama kyni. Ok, ef það getur hugsað sér það og jafnvel notið þess þá er það gott mál. Endilega láta sér líða vel. En erum við svo kynlífsfixeruð að við höldum að það eitt dugi til þess að byggja upp samband?
Það er ekki málið hvort þú getur það heldur hvort þig langar. Spurningin er hvort þú getur ímyndað þér að vera í sambandi með manneskju af sama kyni án þess að hafa kynlíf sem einhvern útgangspunkt. Langar þig, (ef við gefum okkur að þú, lesandi góður, sért kona), að koma heim og taka utan um konuna þína. Langar þig að leiða hana niður Laugaveginn þar sem þú snertir varla jörðina af monti yfir þinni heittelskuðu. Sérðu fyrir þér að deila öllum þínum sorgum og gleði með konunni þinni. Langar þig að eignast börn með henni. Langar þig að eiga framtíð með henni.
?
Ef svo er, þá myndi ég segja að þú værir lesbía. Og þar sem þú værir lesbía langaði þig væntanlega að stunda kynlíf með konunni þinni svo það kæmi af sjálfu sér.
Og þú myndir ekki girnast karlmenn. Og þú myndir gráta allan tímann ef þú þyrftir að sofa hjá karlmanni til að geta konunni þinni barn.
Ég fyrir minn part á erfitt með að trúa því að fólk velji það að vera samkynhneigt. Fólki er afneitað af fjölskyldum sínum, verður fyrir daglegum fordómum, er í minnihlutahóp og gæti sumstaðar týnt lífi sínu fyrir að laðast að fólki af sama kyni. Er það aðlaðandi hugmynd?
Ég valdi það ekki að vera samkynhneigð þótt ég sé hamingjusöm í dag, sátt við sjálfa mig og lífið og myndi aldrei breyta nokkrum hlut gæfist mér tækifæri til þess. Ekki hvað mig varðar. Hins vegar á ég dagbækur frá unglingsárum, þeim árum þar sem mig fór fyrst að gruna að ég væri lesbía, og sálarangistin er svo mikil að ég finn aftur til við lesturinn. Ég gat ekki hugsað mér að vera samkynhneigð, vildi frekar deyja. Þrátt fyrir að vera alin upp hjá fordómalausri og umburðarlyndri mömmu voru skilboð samfélagsins önnur en hennar: ef þú þarft að vera með svona vesen og vera samkynhneigð þá munum við gera þér lífið leitt. Fordómar geta verið svo duldir.
Ég valdi það ekki að vaka í billjón nætur og hugsa um það sem mér fannst þá ömurlegt hlutskipti. Ég valdi það ekki að hrífast af vinkonu minni og hata sjálfa mig fyrir það, ég valdi það ekki að kveljast og þjást af óvissu yfir því hvernig fjölskyldan myndi bregðast við, að geta aldrei verið alveg viss um hver viðbrögð þeirra yrðu (sem voru í öllum tilfellum góð, ég á svo yndislega fjölskyldu), ég valdi það ekki að geta kannski aldrei sagt föðurfjölskyldunni minni frá ástinni í lífi mínu því ég veit ekki hvernig kaþólikkar í Nicaragua bregðast við samkynhneigð innan fjölskyldunnar, ég valdi það ekki að geta ekki átt börn með 'eðlilegum' hætti, ég valdi það ekki að neyða Rakelina mín til að skera sig úr af því að hún á tvær mömmur (og get ekki annað en vonað að viðbrögðin við því verði áfram jafn góð og þau hafa verið hingað til), ég valdi það ekki að verða bráð klámiðnaðarins þar sem kynlíf tveggja kvenna selst eins og heitar lummur, ég valdi það ekki verða sífellt fyrir áreiti á djamminu af kynóðum karlmönnun sem bera enga virðingu fyrir einu né neinu (auðvitað eru ekki allir slæmir, langt í frá) og neyðast til þess að sleppa að dansa við konuna mína og kyssa hana vilji ég fá að vera í friði. Og ég valdi ekki hundrað atriði í viðbót.
Ég valdi það að leyfa mér að elska og lifa frjáls. Ég valdi það að vera stolt af konunni minni og sjálfri mér og öllu því sem við höfum afrekað saman.
Allt fyrir ástina sagði Páll Óskar.
Ég vil ekki láta skilgreina allt líf mitt út frá kynhneigð minni.
Ég er ekki hér til að lúskra á gagnkynhneigðu fólki og taka eitthvað frá þeim. Þetta er ekki keppni.
Elskum friðinn elskurnar mínar.
Gleðjumst yfir hverju kraftaverkabarni burtséð frá því hvers kyns foreldrar eru. Efumst aldrei um þrána að baki. Réttmæta þrá.
Er samkynhneigð eitthvað vandamál?
Það finnst mér ekki.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2008 | 10:01
Auðvitað ...
... á ég að vera að læra en bloggið er svo góð ástæða til að taka sér pásu.
Í dag er merkisdagur: Síðasti dagur helgaður próflærdómi í bili. Guð almáttugur hvað ég hlakka til að vera búin.
Hrund er í síðasta prófinu sína í töluðum orðum. Sendum henni góða strauma.
Gekk skítsæmilega í spænskuprófinu á miðvikudag. Það er hins vegar ekkert eins frústrerandi og að læra vitlaust fyrir próf. Eða missa af síðasta tímanum í námskeiðinu og vita því ekki mikilvæg atriði. Eins og að þessi hundrað atriði á listanum sem ég fór eftir giltu bara 20% á prófinu. Þær sem höfðu verið í menningu, þjóðlífi og sögu Spánar, sem er eins uppbyggt námskeið, bara um Spán, lærðu allt öðruvísi en ég. Þær lásu ekkert greinarnar heldur tóku öll dæmin um rtigerðarspurningar sem við fengum og bjuggu til svör við þeim sem þær svo lærðu. Það gerði ég ekki og kunni því atriðaorðalistann vel en gat tæplega skrifað tvær og þrjár blaðsíður um einhver ákeðin efni. Vona að ég hafi nú marið þetta og verði ekki lækkuð fyrir lélega spænsku þar sem ég var algjörlega heiladauð og að sofna í prófinu. Var svo þreytt að ég þurfi að fara fram og pissa og fá mér drekka og reyna að vekja mig.
Tók mér svo pásu eftir prófið, ætlaði að læra en var svo þreytt eitthvað. Lagði mig pínu stund og var svo öfugsnúin og með ólund þegar ég vaknaði. Eins mikið og það er hægt í kringum stelpurnar mínar sem kunna ekki við mig svona dapra og kjassa mig og elska. Hrund reddaði kvöldmat og sá um Rakel og leyfði mér að þusa við sjálfa mig. Fór svo til mömmu sinnar að smíða dúkkuhúsgögn eins og hin kvöld þessarar viku. Ég gafst upp á að reyna að læra og hringdi bara í Oddnýju bestuvinkonu og blaðraði frá mér allt vit.
Símon, elsku, fallegi bróðir minn (sem býr í Svíþjóð, erum samfeðra) er í skólaferðalagi hérna með bekknum sínum. Gaf skít í lærdóminn og ég, Hrund og mamma fórum með þeim um Reykjavík í gær í hlutverki gæda. Kvaddi þau um hádegi og fór til mömmu að læra og var bara ýkt dugleg. Náði að einbeita mér og ég veit ekki hvað. Elsku, yndislega konan mín sá um heimili og barn á meðan. Þreif allt hátt og lágt og var að skúra þegar ég kom heim klukkan níu um kvöldið. Búin að þvo nokkrar vélar og hvítskrúbba allt. Blómið mitt var inn í rúmi og þóttist vera sofandi og bylti sér og brölti. Fór inn og knúsaði hana og kyssti og var varla komin út úr herberginu þegar hún var byrjuð að hrjóta. Hún gerir þetta yfirleitt, í þá örfáu skipti sem ég hef ekki verið heima þegar hún fer að sofa vakir hún þangað til ég kem heim. Ef ég kem mjög seint heim tekur það hana að minnsta kosti dágóða stund að sofna. Það er nú svolítið krúttlegt, að geta ekki sofnað nema fá mammí sína. Ég er rútínan í hennar lífi og sé ég ekki til staðar veit krílið varla í hvorn fótinn það á að stíga.
Seinna um kvöldið fór ég inn til hennar og strauk heitar tærnar sem stóðu undan sænginni, strauk rauða hárið frá enninu og skoðað litlu freknurnar á nebbanum. Signdi hana og kyssti á ennið og fylltist svo miklu þakklæti og hamingju. Í hvert skipti sem ég lít barnið mitt augum finnst mér ég hafa heiminn í höndum mér, þess litla mannvera er einmitt það sem gerir heiminn góðan, mig að betri manneskju og veitir lífi mínu svo mikinn tilgang.
Þegar ég hringdi í hana frá mömmu um kvöldmatarleytið til að bjóða henni góða nótt gerði hún slíkt hið sama á sinn sérstaka máta: 'Góða nótt og sofðu vel, ég kalla ekki oft á þig'.
Hrund fór að smíða og ég lærði aðeins meira, náði að fara yfir helminginn svo ég ætti að hafa tíma í dag til að renna yfir allt aftur og vera ágætlega undirbúin fyrir prófið.
Rakel verður hjá pabba sínum um helgina en við fáum hana lánaða í nokkra tíma á morgun. Ætlum að eyða þeim með Símoni og finna okkur eitthvað til dundurs.
Svo á Sprundin mín afmæli á mánudag og ætlum við stelpurnar mínar að njóta þess í botn að vera allar þrjár saman í fríi í fyrsta skipti í þrjár vikur. Halelúja.
Best ég haldi áfram að vera svona dugleg.
Enn veit ég ekkert um vinnuna í sumar og er þetta orðið svolítið spennandi: hvenær skyldi ég byra, með hverjum ætli ég sé að vinna, í hvaða verkefni verð ég að vinna ....
?
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.5.2008 | 14:19
Óður til gleðinnar
Hér á bæ ríkir gleði yfir og allt um kring. Hrund er búin með kommóðuna!!! Við höfum verið bænheyrðar, Hrund fær námslán og við báðar sleppum við áunna geðveilu.
Hrund hringdi í gær til að segja mér gleðifréttirnar. Ég þurfti að taka síman frá eyranu og gefa frá mér gleðiöskur. Þvílíkur léttir. Við fórum út að borða til að fagna þessu og sleiktum ís á eftir. Eftir að hafa kysst stelpurnar mínar bless fór ég til mömmu að klára að læra fyrir hljóðfrprófið. Var í því áðan og gekk sæmilega. Náði ekki alveg klára það, of stuttur tími, en held ég slefi nú.
Menning, þjóðlíf og saga í spænsku á morgun. Kem mér ekki til þess að læra. Er nú þegar búin að eyða fjórum dögum í þetta og hef ekki enn komist yfir allt efnið. Ég er alveg að gefast upp. Er svo þreytt. Lagði mig í klukkutíma áðan og sit núna inni hjá litlusystur og meika ekki lærdóm. Voða gott að fleygja sér upp í rúmið hennar og kvarta fyir lærdómi. Hún gerir svo það sama þar sem hún í er í prófum í MH.
Ég get, ég skal, ég vil.
ps. Hrund er búin að fá einkunnirnar sínar, nema úr þessu eina prófi sem hún á eftir.Toppeinkunnir, t.d 9,5 í stærðfræði go 9,3 í dönsku. Svo fékk hún 7 fyrir stiga og fyrir kommóðuna sem er mjög gott miðað við það að hún hefur aldrei unnið við þetta. Hún hafði áhyggjur af því að falla í húsgagnaviðgerðum þar sem prófið var eitthvað ósnngjarnt eða öðruvísi en hún bjóst en hún náði því. Fékk líka hrós í gær frá kennara sem er yfirleitt spar á hrósin. Hann sagði að hún myndi verða góður smiður og ætti framtíðina fyiri sér.
Konan mín, gott fólk!
Sem er núna hjá mömmu sinni að smíða guð veit hvað.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.5.2008 | 13:39
Stutt
Ekki það að ég sé þekkt fyrir að skrifa stuttar færslur. Ég er hins vegar stutt í annan endann og að jafnaði er ansi stuttur í mér þráðurinn.
Að sum leyti er ég algjör latina. Ég hef t.d. latinovöxtinn frá föðurfjölskyldunni, fitan sest jafnt á allan líkamann og þar af leiðir að mjaðmir og brjóst auka umfang sitt heldur betur þegar ég fitna. Hef sjaldan orðið eins hissa og í mið-Ameríku þegar ég komst að því að karlmönnum fannst ég kynbomba. Ég fór út grindhoruð og fannst ég flott, fitnaði um 10 kíló og þótti fyrst þá ómótstæðileg þarna úti. Í fyrstu skiptin sem flautað var á eftir mér eða verkamennirnir hættu að vinna og slökktu á útvarpinu til að geta kallað til mín, snéri ég mér í hringi til að athuga hvern verið væri að flauta á og kalla til. Ég varð steinhissa og glöð með að einhverjum þætti ég flott þótt mér þætti ekki áreitið með tímanum heldur leiðinlegt. Var sífellt með spólgraða gaura utan í mér á djamminu sem vissu ekki að ég var skotin í stelpunni sem ég var að dansa við. Gekk meira að segja svo langt að tía Mary, föðursystir mín, barði einhverja stráka með handtöskunni þegar við vorum á gangi í Nicaragua. Hún átti ekki orð yfir þessum tittlingum.
Allavega. Þetta var kannski eins og lofræða um sjálfa mig en átti ekki að vera það. Vöxtur minn á bara svo miklu betur heima þar en hér. Næst vil ég nefna tónlist. Ég ólst upp við salsa, marenge, cumbia og allt það. Alveg frá því að ég var baun í bumbu og mun það alltaf vera mín uppáhaldstónlist og minn uppáhaldsdans. Sem minnir mig á að ég verð að fara að skella mér í Alþjóðahúsið að dansa salsa.
Svo er það fjölskylduformið. Ég hefði átt, og ætti, að búa með stórfjölskyldunni, öll undir sama þaki. Ég vil hafa eril, ys og þys, tónlist, matarlykt og hlátur þegar ég kem heim. Ég vil elda í stórum pottum og skammta á tíu diska, mat og allri minni ást. Ég fer ósjaldan til mömmu og elda þar, geri í raun allt það sama og ég væri að gera heima, elda og sé um barnið. Mér finnst frekar leiðinlegt að elda bara ofan í mig og Rakel og okkur finnst báðum miklu skemmtilegra að vera innan um fólk. Sprundin fílar þetta líka í tætlur, stingur oft upp á að við förum til mömmu vitleysings (þú ert vitleysingur, það er það sem ég elska mest við þig, auk þess er ég alveg eins og þú) þar sem ég elda ofan í allt liðið og mala af ánægju á meðan.
Fórum einmitt til mömmu á föstudagskvöldið, Hrund að verða vitlaus af kommóðusmíði sem virðist engan enda ætla að taka og ég í spennufalli eftir próf. Það er ekkert eins græðandi fyrir sálina og góður matur eldaður af alúð og hlý og mjúk fjölskylda.
Rakel fékk að fara í heimsókn til mömmu á laugardag þar sem við Hrund þurftum að læra. Rakel var búin að lýsa því yfir að hún ætlaði ein þangað, fyrst akandi en þegar við sögðum það af og frá þá hélt hún því fram að hún gæti gengið þangað. Við fengum nú að keyra hana á endanum og tylla okkur til þess að fá okkur ristað brauð og kaffi áður en við fórum að læra. Komum svo aftur um kvöldmatarleytið og fengum gott í kroppinn hjá mömmu og í leið smá pásu frá lærdómnum. Ég var eiginlega alveg sprunginn eftir daginn og þar sem ég hafði verið svo dugleg tók ég því rólega um kvöldið.
Á sunnudaginn var svo komið að hinni ömmunni að fá barnið í heimsókn og var það að sjálfsögðu líf og fjör. Hrund náði í Rakel um fimm og ég mokaði grjónagraut og flatkökum með hangikjöti í liðið. Við Sprundin lærðum svo aðeins eftir að baunin var komin í bólið og svo lufsaðist ég upp í rúm. Er aldrei eins þreytt og í prófum.
Fékk mér magic áðan og fannst það ekki duga til. Fékk mér því grænt orkute í von um að geta haldið mér vakandi. Þar sem ég drekk yfirleitt jurtate gleymdi ég mér alveg þegar ég var að búa græna teið til. Mokaði jafn miklu og venjulega í tesíuna og lét það bíða í hátt í tíu mín. Þá var það hins vegar orðið viðbjóðslega beiskt og ódrekkandi svo ég þurfti að bæta slatta af vatni út í. Þegar ég fæ mér te úr valhumli (eða er það ekki humli???), blóðbergi eða brenninetlu set ég eina góða teskeið í síuna og læt bíða í minnst tíu mínútur. Það gerir maður víst ekki við venjulegt te.
Ég neyðist víst til að halda áfram að læra. Þarf svoleiðis að pína mig til að lesa fyrir þessa hljóðkerfisfræði. Mér finnst hljóðfræði fín en heimspeki hljóðkerfisfræðinnar höfðar ekki til mín. Ég vil eitt rétt svar, ef ég þarf að velta hlutunum fyrir mér fram og til baka á prófi næ ég ekki að klára það.
Hrund er ekki enn búin með kommóðun. Fer í tvö próf í dag og ætlar að smíða þess á milli. Það er ekki víst að hún nái þessu sem þýðir að við fáum enga pengina, engin námslán. Prófálagið veldur því að ég brest sífellt í grát. Fór að háskæla í gær þegar við vorum að tala um þessa kommóðu sem bæ ðe vei veldur mér martröðum. Hrund þurfti að taka mig í fangið og sussa og bía og lofa mér því að allt yrði í lagi.
Ég meika ekki svona peningaáhyggjur. Það er alltaf eitthvað svakalegt að gerast þegar ég er í prófum.
En það er víst lífið.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2008 | 11:18
Ótrúlegt!
Ég hreinlega trúi þessu ekki. Ég get svo svarið það að mér gekk vel í prófinu í forna málinu áðan. Sat meira að segja bara tvo af þremur tímum. Ótrúlegt! Gleðilegt!
Sprundin vonast til að klára kommóðuna í dag. Fór aftur með hana upp í skóla á þriðjudag að smíða og var líka að smíða á miðvikudag. Var svo í stærðfræðiprófi í morgun og ætlar að smíða eftir það. Kennarinn hennar veit að það er lífið sem liggur við, hún hafi fyrir konu og barni að sjá og megi ekki við því að missa námslánin. Greyið er sú eina í námskeiðinu sem hefur ekki unnið við þetta svo hún er helmingi lengur að öllu. Hún fer hins vegar að vinna eftir prófin svo þetta er allt að koma.
Ég er bara svo glöð að hafa fengið hana heim. Eftir fjórar nætur hjá mömmu sinni að passa og mörg kvöld upp í skóla fengum við loksins að eigast og knúsast á þriðjudagskvöldið (hún kom heim að verða ellefu um kvöldið). Við sofnuðum í einni flækju og sváfum eins og steinar. Svo miklu betra en að sofa einn og þótt Rakel sé sætust er efitt að hafa hana upp í. Hún talar látlaust upp úr svefni og rekur upp öskur með reglulegu millibili (veit ekki hvers konar draumfarir þetta eru eiginlega) eins og himinn og jörð sé að farast og svo hún vill bara sofa á mínum kodda og hafa höndina í andlitinu á mér. Samt yndisleg.
Svo fór hún í sveitaferð með leikskólanum á miðvikudaginn (við mömmur komumst ekki með sökum prófa og var hún held ég eina barnið án foreldra, sniff) og datt úr rútunni á andlitið, eins og henni einni er lagið. Er öll í sárum í kringum munn og enni og bætast þau sár við marið á gagnaugunum og sárið sem því fylgdi þar sem það er stutt síðan hún stangaði gólfið á leikskólanum og labbaði á stiga hjá pabba sínum.
Fórum í afmæli til Einsa bró í gær. Sólin skein og allir voru glaðir og það var yndislegt að hafa afsökun fyrir því að vera ekki að læra. Rakel fór svo til pabba síns og við Hrund heim að læra og svo í mat til tengdó.
Verðum báðar að læra stíft um helgina svo Rakel eyðir líklega einhverjum tíma með ömmunum.
Tvö próf búin, þrjú eftir. Í íslenskunni er það hljóðfræði (hjálp, kann ekkert, kann einhver hljóðfræði?) og tvö í spænsku. Kvíði þeim nú ekkert þótt ég sjái ekki fram á að ná að lesa allt efnið fyrir prófið í menningu, sögu og þjóðlífi Rómönsku-Ameríku. Ekki gott en verður að duga.
Sól og sumar.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2008 | 18:38
Fljótt skipast veður ...
Lundin er léttari.
Átti gott samtal í morgun og einhvern veginn hvarf þunginn úr sálinni og drunginn úr höfðinu. Samt var þetta bara við konu út í bæ. Stundum þarf ekki meira.
Komst loooooksins í prófgír. Kláraði að glósa forna málið svo ég hef góðan tíma til að lesa það yfir fyrir prófið á föstudaginn. Er tilbúin fyrir ritþjálfunarprófið á morgun, kvíði því ekkert þar sem ég get vel skrifað á spænsku eins og á íslensku.
Sprundin er hins vegar ekki búin með gripinn og er því ekki enn komin heim. Þarf líklegast að smíða á morgun og hinn líka svo hún falli nú ekki í þessu og fái engin námslán (shjitt shjitt, gæti dáið úr stressi yfir þeirri tilhugsun). Svo þarf hún að finna sér tíma til að læra fyrir stærðfræðiprófið sem hún fer í á föstudaginn. Og ég verð víst að halda áfram að taka mér pásur og sjá um krílið mitt.
En þetta verður í lagi. Ég segi mér það einu sinni á mínútu.
Við getum þetta. Við náum báðar þrátt fyrir allt vesenið og fáum okkar lán og endum ekki á götunni.
Ætla að gefa mér og rauðhaus að borða, lesa, biðja bænir, syngja, kyssa og læra svo fyrir spænsku. Glósa eins og mother fo**** til miðnættis og fara þá að sofa.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2008 | 09:14
Algjör ...
... geðveiki. Segi ekki meir. Eða jú.
Þessi prófatörn hefur verið algjör vitleysa. Og lítið um lærdóm. Það er svo skrítið þegar allt hringsnýst í höfðinu á manni og utanaðkomandi öfl gera manni erfitt fyrir. Þegar tilfinningarnar vilja vera með í íslenskri útrás og reyna að brjótast út úr líkamanum með látum. Mér hefur verið troðið í rússíbana, ég bundin niður og ýtt af stað. Ég get ekkert gert nema beðið eftir því að ferðinni ljúki, vonað að ég lifi þetta af, veit að ég lifi þetta af þótt mér líði ekki þannig. Og á meðan þýtur allt fram hjá og ég heyri ekkert nema öskrið í vindinum sem reynir að þrengja sér inn í eyrun.
Hrund hefur verið að smíða sig í hel hjá mömmu sinni síðan á föstudag. Hún svaf fjóra tíma aðfararnótt sunnudags, ekkert í fyrrinótt og kvaddi mig í gær glær í augum og föl á vangann. Hún var að fara að smíða. Í alla nótt. Síðasti dagurinn í dag.
Við hittumst á sunnudaginn og okkur leið eins og við hefðum ekki hist í viku. Ég hef þarfnast hennar svo mikið þessa helgi til þess að halda í höndina á mér og hana langað það svo mikið en aðstæður bara leyfðu það ekki. Hún kemur heim á eftir og þá ætla ég að baða hana og gefa henni að borða, leggja hana í bólið og breiða yfir hana svo hún geti sofið í hundrað ár.
Það er alveg sama hvað maður verður fullorðinn, maður ræður stundum ekkert við sig. Æpir á barnið sitt af þreytu af því maður var andvaka og svaf í þrjá tíma eða fer að gráta af því að allt er svo erfitt og maður á svo bágt og langar mest að hvíla sig og láta hugsa um sig.
En það er bara ekkert í boði.
Það verður engum að kenna nema sjálfri mér ef ég þarf að taka endurtektarpróf í öllu.
Elsku litli kúturinn minn sagðist ætla að passa mig. Labbaði svefndrukkin og alveg sjálf á klósettið í fyrrinótt þar sem ég er svo slæm í bakinu að ég lofta henni ekki. Kyssir á bágtið þegar ég emja í miðri skeiningu, svo vont að beygja sig svona yfir hana. Prílar sjálf í og upp úr baðinu og kyssir mig á kinnina af því að hún heldur að ég sé lasin. Og sefur í mömmubóli þegar hún er í burtu og svæfir mig með andardrætti sínum.
Þessum undraverða andardrætti sem segir mér að allt verði í lagi, Hrund muni ná að klára verkefnið og fá námslán, ég muni ná prófunum og geð mitt muni aftur komast í jafnvægi svo ég geti haldið áfram að vera kletturinn í lífi stelpnanna minna.
Þangað til er best að ég drekki mikið kaffi og reyna að glósa eitthvað fjandinn hafi það.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2008 | 10:38
Þung í skapi
Pabbi er í Ástralíu, mamma er í svaðilför upp á jökli, tengdó er í Berlínarferð, Rakel er hjá pabba sínum, Oddný er á Akureyri (af hverju, af hverju, af hverju, lífið er innantómt án þín), Sprundin sefur, garðurinn vill láta taka til í sér, bíllinn vill láta skiptu um peru í framljósi og lífið í formi slöngu hefur vafið sig um háls mér og herðir að.
Ég get ekki andað.
Ég er með tak í bakinu og klemmda taug sem veldur mér hræðilegum kvölum.
Ég lít hræðilega út í bikiní.
Ég lít hræðilega út.
Ég er á eftir áætlun í lærdómi.
Kaffið mitt er vont.
Ég er að bíða. Alltaf að bíða og vona.
Hrund bara smíðar og passar systkini sín hjá mömmu sinni í fjarveru hennar.
Vorið fyrir utan gluggann hæðist að mér.
Ég vil fá mömmu mína.
23.4.2008 | 23:15
Kvart
Ég get svo svarið það að próf eyðileggja fyrir mér námið. Ég hreinlega þoli þetta ekki. Ok, ég fæ pínu kikk út úr því að læra í tólf tíma á dag í þrjár vikur, taka fullt af prófum og ganga út eftir síðasta prófið FRJÁLS MANNESKJA. En biðin eftir þessari tilfinningu er heldur löng.
Er bara búin að læra á fullu í þrjá daga og langar tússa með yfirstrikunarpennanum yfir allar glósurnar, tússa, tússa, fast og fastar þangað til það kemur gat á blaðið og svo berst ég við löngunina til að stinga skrúfblýantinum í handarbakið á mér í von um að sársaukinn dragi athygli frá sársaukanum í heilanum sem veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið og neitar að taka við öllum þessum upplýsingum.
Kannski ég sé allt of þreytt núna. Var nú hressari í morgun.
Hrund er að labba inn úr dyrunum með ís. Ísbúðin í hverfinu er opin til tólf á miðnætti.
Hallelúja. Geðheilsu minni er bjargað.
Í bili.
22.4.2008 | 12:08
Prófatörn
Ætla ekki að hafa mörg orð um helgina þar sem hún var í einu orði sagt dásamleg. Malarrif er uppáhalds staðurinn minn í heiminum.
Þarna voru ég og stelpurnar mínar, mamma og systkini mín, Edda móða og Unnur og Rósa, dætur hennar, og svo Valdís móða. Við eyddum allri helginni úti og létum orkuna frá jöklinum umvefja okkur og endurnæra. Rakel var í úti í tólf tíma á dag og var aldrei svöng og þurfti aldrei að pissa. Hún fór líklega í nálægt 500 gönguferðir með hinum ýmsu fjölskyldumeðlimum og ég hef aldrei vitað til þess að ein manneskja, hvað þá kríli eins og hún, geti búið yfir jafn endalausri orku.
Ég tók mér langan göngutúr meðfram fjörunni og tók svo hraunið á leið til baka. Var löðursveitt og hamingjusöm þegar ég kom til baka. Svo var bara lesið og spilað og spjallað og drukkið kaffi og borðað. Yndislegt.
Ég náði meira að segja að lesa tvær langar greinar í spænsku. Húrra fyrir mér.
Síðasti dagur Hrundar í skólanum er á miðvikudaginn. Þar sem hún var veik alla síðustu viku hefur hún bara fram á miðvikudagskvöld til að klára kommóðuna sína. Hún á víst eftir að gera allar skúffurna. Hún býr því upp í skóla núna og ég tek mér pásu frá lærdómnum og sé um Rakelina. Í staðinn tekur Hrund hana að sér á sumardaginn fyrsta og líklega eitthvað í næstu viku þótt hún þurfi auðvitað líka að læra sjálf.
Það er svolítið sérstakt að vera í prófum þegar maður á barn. Allur lærdómur verður að vera skipulagðir í kringum þarfir þess og svo kemur tími þar sem þú sérð það ekert og ert algjörlega vængbrotinn. Sem betur fer er þetta bara tvisvar á ári og svo fer ég nú kannski líka að klára þetta nám. Þetta eru síðustu prófin mín á vorönn. Þangað til ég fer að læra eitthvað meira.
Við Hrund ætluðum að vakna eldsnemma í morgun, hún ætlaði að vera komin í skólann klukkan átta og byrja að smíða og ég ætlaði að byrja að læra þar sem það tekur endalausan tíma að lesa allar þessar greinar. Við vöknuðum hins vegar um fimm í morgun við mjálmið í pissublautu og eldhressu barni. Skiptum á rúmi og skipuðum barninu í það aftur að sofa. Vorum allar þrjár lengi að sofna aftur og sváfum allar til hálf tíu. Ég er ekki enn byrjuð að læra. Þurfti að stússast eitthvað og fá mér að borða.
Það hefur hvorki gefist tími til að þrífa né versla ansi lengi núna. Það átti að gerast í síðustu viku en Hrundin lá fyrir og ég var ekkert að vasast í þessu ein. Mér ofbauð skíturinn áðan, náði mér í Clif hreinsiklút og þurrkaði mesta skítinn, vaskaði upp og setti í vél. Maður losnar víst ekki við það þótt maður sé að læra. Í gær borðuðum við Rakel hjá mömmu, á eftir ætlum við að ná okkur í pizzu og á sumardaginn fyrsta förum við í mat til tengdó. Ég hef ekki enn fundið út úr morgundeginum. Það verður naglasúpa líklega. Á föstudaginn vonast ég til að við getum látið setja sumardekkin undir bílinn (við gleymdum alveg að nýi bíll var ekki á heilsársdekkjum og svo þegar við ætluðum að gera það varð Hrund veik og allt það) og keypt inn.
Gud i himmelen. Bæði litli og stóri vísirinn er á tólf og ég ekki enn byrjuð að fræðast. Yfir og út.
Aðeins inn aftur: ég er ekki enn orðin veik svo ég vona að ég hafi sloppið við þessa inflúensu og Rakel líka. Djöfull erum við hraustar. Það er af því að við tökum alltaf vítamín og lýsi og drekkum nýpressaðann appelsínusafa með. Það gerir Hrund ekki en neitar að það skipti máli í þessu tilfelli. Ég hélt öðru fram um daginn og varð ekki vinsæl. Hún vill ekki að ég röfli í henni út af þessu svo ég geri það bara hér:
Taktu vítamín Hrund og hættu þessari vitleysu!
Ha, ha. Út aftur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar