Opinberun

Það er alltaf svo mikil opinberun fyrir mig að fara til átröskunarsérfræðingsins. Það þarf svo oft að segja mér einföldustu atriði, rétt eins og litlu barni. Við vorum að tala um bataferlið mitt í gær og ég var að segja henni að mér fyndist ég í raun ekki hafa náð neinum árangri. Ég bara hætti að æla og að mestu að svelta mig eftir að ég kynntist Hrund og hrósaði sigri, fannst ég megadugleg að vera orðin svona frísk. Og auðvitað var þetta rosalega stórt skref fyrir mig og óþarfi að gera lítið úr því en mér hefur bara liðið alveg jafn fjandi illa allan tímann og púkarnir láta mig aldrei aldrei aldrei í friði. Eins og sérfræðingurinn benti mér á var þetta eins og þegar alki fer í meðferð og þurrkar sig upp en lagar ekki það sem er í raun og veru að í lífi hans. Hvað gerist? Hann fellur. Og ég hef fallið ítrekað, aftur og aftur. Ég fer aldrei eins langt niður og áður og ég er smám saman að þokast upp á við en það er rosalega erfitt að falla svona og ég fitna og fitna.

Ég reyndi í fyrsta skipti af fullri einlægni að leita mér hjálpar fyrir tveimur árum. Þá komst ég ágætlega af stað en það var svo margt sem ég þurfti að vinna úr og bæta í mínu daglega og persónulega lífi að bataferlið var kæft í fæðingu. Ef mér líður illa og finnst ég ekki hafa stjórn á aðstæðum þá þarf ég dópið mitt (mat). Og eins og sérfræðingurinn sagði þá hefur fíknin, átröskunin, líklega bjargað lífi mínu á sínum tíma því ég hefði ekki höndlað dagana án þess að vera í vímu. Það hefði verið of erfitt.

Þótt það sé gott að vera í vímu er fallið á eftir svo erfitt og mig langar svo að vera frísk. Langar svo að geta tæklað eitthvað óvænt án þess að finnast ég vera að kafna.

Gott dæmi. Fórum allar saman í Bónus um daginn (ég hef verið að skjótast ein eftir að Röskva fæddist) og ég var búin að plana að við myndum taka kerruna með fyrir hana og þá myndi þetta ganga upp því hún er of lítil fyrir sætin í innkaupakerrunum. Við gleymdum kerrunni. Og vonleysið og kvíðinn skall á mér eins og risa alda. Hvað í ósköpunum áttum við þá að gera. Halda á Röskvu stakk Hrund upp á skyldi ekki dramað í mér. Það var ekki í planinu og ég gat ekki endurforritað mig á staðnum, ég vildi fara heim. Hrund náði að róa mig og auðvitað gekk allt vel. En hvernig haldið þið að það sé að vera svo obsest af því að plana hverja sekúndu í lífinu að hæfileikinn til að leika af fingrum fram, spinna, lifa eðlilega, glatast? Eða er eðlilegt að hata dyrabjölluna því hún boðar óvæntan gest sem var ekki inn í planinu? Það skiptir ekki máli þótt ég sé glöð að sjá gestinn, angistin fer alltaf af stað inn í mér.

Núna er ég af öllum mætti að vinna í að bæta allt í lífi mínu sem þarf að bæta svo ég geti átt möguleika á því að vera frísk. Eins frísk og hægt er. Púkarnir fara ekki en ég þarf að hafa kraftinn til að ignora þá, til þess að þurfa ekki á þeim að halda. Ég vil ekki þurfa að deyfa mig heldur geta tekist á við hlutina. Á meðan ég vinn í mínum málum reyni ég að borða allar máltíðir dagsins. Hrósa mér fyrir hverja máltíð sem ég borða. Gefast ekki upp þótt einhver máltíð verði ekki eins og ég ætlaði heldur halda ótrauð áfram og fá mér næstu. Hver máltíð er nýtt tækifæri. Smám saman hætti ég að missa mig á kvöldin, missa mig í veislum, missa mig þegar ég er ein. Hef tíma til að hugsa um eitthvað annað og einbeita mér að þeim hluta af mér sem í raun og veru er sveltur. Sálinni, eins væmið og það nú hljómar. Fara út og vera bara Díana Rós, ekki mamma og maki, og njóta allra vinanna eða sjálfrar mín hreinlega. Fara á stefnumót með Hrund og vinna í okkar ást og sambandi því það hefur svo mikil áhrif á mína líðan.

Og hlusta svo á sjálfa mig. Á tilfinningar mínar og líkamann. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

<3

Bjarndís 14.5.2010 kl. 08:48

2 identicon

Faðm til þín Díana.

Gyða 14.5.2010 kl. 22:46

3 identicon

heyrði setningu um helgina sem "meikaði sens" fyrir mig og held að þú þurfir á að halda að heyra líka.

"Það skyptir ekki máli hvað röddin í hausnum (púkarnir) segir, heldur hvað sá sem hlustar á hana meðtekur, hann stjórnar hvað fer inn og út", þú ert sterkari en þú heldur elsku frænka.

knús

R.Tanja 19.5.2010 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband