Ungamamma

Argiparg. Ég kvíði því svo að fara að vinna. Er svo hrædd um að missa af miklu á meðan. Röskva fer örugglega að skríða og tala og labba á meðan og eitthvað. Og ég veit að það er asnalegt en mig langar svo að fá fyrsta orðið. Mammí. Reyndar held ég að fyrsta orðið hennar Rakelar hafi verið bubbi sem þýddi nafli en mamma var nú samt fremst í röðinni. Kannski Röskva kalli mig bara mömmu þar sem margir aðrir gera það. Það skiptir mig nú engu máli hvað hún kallar mig þannig.

Æ, ég get ekki útskýrt þetta. Ég fékk bara aldrei að vera heima með Rakel og njóta hennar sem smábarns og ég vildi óska að ég gæti verið lengur heima með Röskvu. Ég mistti til dæmis af því þegar Rakel byrjaði að skríða og kannski verður það eins með Röskvu. Samt hef ég verið að detta svolítið niður í geðinu. Núna er hún bara farin að borða og sofa og drekka svo vel og það er sól úti og ég get farið með hana út í kerru. Akkúrat þegar allt er að verða létt og skemmtilegt þarf ég að rjúka út á morgnana í vinnu, finna á mig föt og blóta á mér maganum sem er eins og ég veit ekki hvað eftir meðgönguna. Búin að basla í allan vetur í kuldanum með vagninn og að berjast við Röskvu til að fá hana til að sofa og næra sig en núna er allt komið í góða rútínu og fjör. En auðvitað verður ofsa gaman fyrir Hrund að fá að vera heima með skottuna sína, hlýtur líka að hafa verið erfitt fyrir hana að fara að vinna á sínum tíma, bæði með Rakel og Röskvu.

Haldið þið ekki að þetta verði bara fínt þegar ég er byrjuð að vinna?

Annars fór ég að hitta mömmuhópinn minn í gær sem er bestastur og skemmtilegastur. Það er dásamlegt að fylgjast með Röskvu leika við önnur börn. Röskva er líka orðin svo duglega að sitja sjálf og er bara orðin svo stór eitthvað. Og þótt barnið mitt sé algjör chela (hvít) þá talaði ein mamman um það í gær hvað hennar stelpa væri hvít miðað við mína. Haha. Röskva er sem sagt 'brún' á smábarnamælikvarða.

Mjólka mig núna tvisvar á dag og það dugir í þessa fjóra pela sem Röskva fær. Hún er enn að smakka mat á fullu en er orðin algjör gikkur. Hún hefur fengið að smakka rísgraut, sætar kartöflur, lárperu, gulrætur, banana, sveskjur, perur, epli, brokkolí, mangó, quinoagraut, rófur og grasker. Best af öllu finnst henni lárpera og banani saman og sætar kartöflur og gulrætur saman er voða gott líka. Annars er hún dugleg að loka bara munninum eða puðra út úr sér. Mömmurnar gefast samt ekki upp og plata matinn ofan í hana. Til þess að koma ofan í hana rófum í gær bjó ég til graut og setti út í hann lárperu, banana og rófur og Röskva gleypti þetta á núll einni en hefur annars ekki verið par hrifin af rófunum.

Rakel og Röskva eru dásamlegar saman. Kemst ekki yfir það.

Rakel er svo dugleg. Áttum yndislega helgi og ég og Rakel bjuggum meðal annars til hollar kókoskúlur (döðlur, kókosolía, lífrænt kakó og kókos) saman og kjötbollur sem voru, þótt ég segi sjálf frá, bestu kjötbollur sem ég hef smakkað. Fórum í Húsdýragarðinn þar sem Rakel réð sér ekki fyrir kæti, sérstaklega í fallturninum (get ekki beðið eftir að sjá Rakel (aftur) í tívolíinu í Svíþjóð), höfðum kósý spilakvöld og bröns, fórum í göngutúr í sólinni og fórum í mat til mömmu. Bara yndislegt.

Kíktum í pottin til tengdó á uppstigningardag. Garðurinn hennar er svo frábær og ég hlakka til að fylgjast með skottunum mínum þar í sumar. Kíktum í pottinn og það fer alveg að koma að því að Röskva geti komið með.

Ljúfa líf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta verður allt í lagi þegar þú ferð að vinna Díana mín. Auðvitað er Röskva komin á skemmtilegan aldur og farin að gera ýmislegt en þessir tveir mánuðir sem þú verður í fullri vinnu verða fljótir að líða og þetta er bara 5 af 7 dögum vikunnar. Ég skil þig samt alveg. Og hún fer ekki að segja neitt af viti fyrr en eftir 1 árs aldurinn og ég er nokkuð viss um að hún mun gera greinarmun á mömmu og mammí eins og Rakel. Hún spyr nú stundum ef maður segir henni að láta mömmu gera eitthvað þá spyr hún: Ertu að meina Hrund. En hún er alveg með á hreinu hver er Mammí. Þið eruð allar velkomnar í garðinn og pottinn hvenær sem er. Tengdó

Tengdó 18.5.2010 kl. 12:25

2 identicon

Takk fyrir hughreystinguna. Ég veit alveg að ég er að mikla þetta fyrir mér og að þetta verður allt í lagi.

En haha. Rakel og þetta Hrundardæmi er mjög spes. Það virðist vera mjög ríkt í henni að kalla mömmu sína Hrund sem mamman er aftur ekki alveg að gúddera.

'Hrund, ég meina mamma' segir skottið stundum. 

dr 18.5.2010 kl. 12:44

3 identicon

Auðvitað verður fínt þegar þú byrjar að vinna! Bara verst að ég verð ekki þar eins og síðustu sumur...! Ég sé samt fram á að verða þarna eitthvað, við erum að vinna fyrir bandarísku og svo á ég eftir að gera fyrirlestur fyrir Svergie. Og hei, svo er þetta örugglega sveigjanlegur vinnutími og svona þannig að ef þú ert komin með barna-fráhvarfseinkenni þá geturðu pottþétt verið heima í nokkra daga :)

 Hlakka til að sjá þig á morgun!

Gyða 19.5.2010 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband