Loksins

Ég var nú ekkert að rembast við að skrifa til ykkar í Madrid, nóg annað að gera. Það var frábært að láta gamlan draum rætast með mömmunni. Höfum ætlað saman í borgarferð svo lengi og núna varð loksins eitthvað úr því.

Flugið út var reyndar viðbjóður. Ég er orðin svo flughræd með aldrinum. Ég sem flaug ein til pabba á hverju ári þegar ég var peð og aldrei nokkuð mál. Núna hins vegar var ég alveg að fara á taugum. Vélin hristist svo mikið og lengi og ég varð svo hrædd að tárin láku niður kinnarnar á mér og mamma þurfti að róa mig og hugga eins og í gamla daga. Það var því ekkert sofið í vélinni sem var slæmt þar sem við sváfum tvo tíma nóttina áður. En við erum hardcore og rétt skiptum um föt þegar komið var upp á hóteli og héldum svo út með bauga undir augunum.

Ég ætla ekkert að lýsa hverju smáatriði, það er aldrei hægt. Það var iðandi mannlíf og mátulegur hiti, mengun og stórar umferðargötur, endalaust af torgum og töfrandi byggingum, örmjóum götum og þvotti á snúru. Við drukkum bjór og vín og borðuðum tapas, duttum inn í spennandi búðir og fundum flottustu kápu í heimi sem ég að sjálfsögðu keypti, fórum á þrjú söfn þar sem ég féll í stafi yfir meisturum Dalí, Picasso, Bosch og myndlistakonan Paula Rego snerti streng í brjósti mér. Við gengum um skrúðgarða og skoðuðum hitabeltisfrumskóg inn í miðri lestarstöð, létum spá fyrir okkur og ókum um borgina í tvílyftum strætó. Og hlógum. Og glöddumst. Og það var gott og gaman.

Hrundin beið mín um miðja nótt og ætlaði aldrei að sleppa mér. Hefur eiginlega ekki sleppt mér enn þá. Rakelita rumskaði við kossa mína og fagnaði mér með innilegu brosi. Vafði bústnum örmum um háls mér og þrýsti vanga sínum að mínum: 'viltu vera hjá mér' sagði hún og lygndi aftur augunum. Hafði gætur á mér daginn eftir og var svo hrædd um að ég hefði yfirgefið hana þegar ég fór í sturtu að hún þurfti að koma og kíkja á mig. Manns var saknað, það er augljóst.

 Annars lést hann afi Dói hennar Hrundar í síðustu viku og er Sprundin mín svo sorgmædd að mig langar bara að taka hana og stinga henni í vasann þangaði til hún er tilbúin að koma út aftur. Það er sorg í augunum á henni og ég get ekkert gert nema knúsað hana. Dói var krúttlegur ljúflingur. Tók á móti mér í stuttbuxunum sínum á Selfossi, búinn að greiða sér og setja ilm á sig. Hann hafði mjúkan faðm og þýða rödd. Honum fannst ég merkileg og kallaði mig alltaf lögfræðinginn. Þakkaði mér alltaf fyrir að sýna sér hvar mið-Ameríka er á korti og í leiðinni kenna honum eitthvað nýtt á gamals aldri. Hann talaði við mig um Ólöfu sína sálugu og sagði að það væri eitthvað sérstakt við mig eins og hana. Hann var alltaf svo óskaplega glaður yfir því að við Hrund hefðum kynnst. Blómið hans bjarta var farið blómstra. Hann vildi ekki sjá að við værum að keyra yfir heiðina nema í sól og björtu og við þurftum alltaf að hringja þegar við komum í bæinn. Hann dekraði við Rakel og strauk okkur Hrund um vangann. Við fórum austur í sumar og tókum myndir. Ég þakka guði fyrir það. Hann var fallegur hann Dói.     

                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er dyggur lesandi, Er núna orðin veik eins og hálfur bæirnn. Enginn nútímamaður þolir smá snjó lengur, þá leggjast allir í bælið greinilega. Gott að heyra að það var æðislegt í Madrid og leitt að heyra með afa hennar Hrundar. Yndisleg færsla hjá þér, Díana mín.

Rósa 30.10.2007 kl. 12:11

2 identicon

Kannast ekkert við þennan frumskóg. Kannski er hann nýr. Kannski ekki.

Leiðinlegt með afann. 

hlíf 30.10.2007 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband