Eitt og annað

Dagurinn í gær var stórskemmtilegur. Fórum til mömmu á hádegi og fengum okkur brauð og kókómjólk áður en hafist var handa við baksturinn. Rakel var með sín eigin form og kökukefli sem amma Silla gaf henni. Henni fannst samt ekkert mjög gaman að fletja út sjálf þar sem útflatningar hennar (eins og ég kalla þetta) voru of litlir fannst henni. Hún vildi stóra. Þá þurfti hún hins vegar að bíða á meðan við flöttum út fyrir hana. Það var heldur ekki nógu gott. 'Mér leiðist amma' sagði prinsessan og amman setti í fimmta gír við að fletja út.

Rakel smakkaði líka ótt og títt og varð smakkið alltaf stærra og stærra. Ég bað hana um að borða ekki alveg svona mikið deig en hún kom með þau rök að hún væri bara að smakka. 'Soldið eins og pizza' sagði hún. Aldeilis sérstakt deig sem hún var með.

Deigsmakkið var nú ekkert miðað við glassúrátið. Við notum venjulega tannstöngla til að skreyta en þar sem hún var komin með hendurnar á kaf í skálarnar í leit að tannstönglunum og búin að blanda öllum litum saman létum við hana fá skeið. Ekki góð hugmynd. Núna gat hún bara borðað upp úr skálunum með skeið. Þetta var nú svona líka í fyrra og er svo sem ferlega krúttlegt. Hafði helst áhyggjur af maganum á henni.

Við fórum heim eftir kvöldmat hjá mömmu, allar að leka niður úr þreytu. Ég og Hrund fórum að sofa um fjögur bæði aðfaranótt laugardags og sunnudags. Ekki sniðugt ef þú ætlar að vakna snemma á laugardegi til að kaupa jólagjafir og þarft að vakna með árrisulu barni þínu á sunnudegi. Rakel var dauðþreytt eins og börn verða eftir athafnasama daga. Komum henni í rúmið og ætluðum sjálfar snemma að sofa. Ég endaði þó í saumaskap og uppskriftarpælingum á meðan Hrund var í tölvunni. Um hálf ellefu ákváðum við að hundskast í rúmið og settum Rakel á klósettið fyrst (svo hún pissi ekki í rúmið, litlar þvagblöðrur halda bara út í nokkra klukkutíma í einu). Hún var þá rokin upp í hita og byrjaði að hósta hræðilegum hósta á klósettinu. Grét svo vansæl og hás og þurfti að fá kúra smá í mömmu og mammíar bóli.

Hún var því heima hjá mér í dag. Búin að vera ósköp góð en frekar lítil í sér. Lagði sig í tæpa tvo tíma þrátt fyrir að vera löngu hætt að sofa á daginn svo ekki er hún frísk þótt hún sé ekki með eins háan hita  og í gærkvöldi. Krílið mitt.

Annars er ég farin að hallast að því að svaðaleg vöðvabólga valdi þessum hausverk sem ég er stanslaust með. Trúi ekki að ég sé eitthvað lasin ennþá.

Og:

Mér er illa við lokapróf sem gilda þetta 45-55%. Ég þarf að fara yfir alveg jafn mikið námsefni þegar ég er að lesa fyrir prófið. Þá vil ég alveg eins sleppa einhverjum litlum prófum á önninni (sem gilda á móti lokaprófi) sem ég hef aldrei tíma til að læra fyrir og taka bara stærra lokapróf. Það eru t. d. tvö spænskupróf í þessari viku og eins og venjulega er ég bara stressuð og fúl fyrir því að þurfa að finna mér tíma til að læra fyrir þau.

Mér er vel við megaviku á Dominos. Pizzur eru svo fáránlega dýrar en eitthvað aðeins ódýrari í þessari viku hjá þeim. Þótt þeir séu alltaf að hækka verðið.

 

Best að byrja að læra fyrir próf 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ hæ

Vildi bara segja að það er alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt, kíki á hverjum degi.  Þú ert líka svo dugleg að blogga

Arna 20.11.2007 kl. 10:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband