Navidad

Eftir að hafa lesið jólapælingar Hlífar á blogginu hennar datt mér þetta í hug:

 Mér finnst eiginlega skemmtilegast hvað fólk hefur mismunandi skoðun þegar kemur að jólum og það er ótrúlega gaman að heyra um siði og venjur annarra.

 Mamma mín er skondin skrítla og þótt hún héldi fast í sumar hefðir ár hvert (jólabað, hrein rúmföt) þá breytti hún öðru eftir hentisemi. Hún gerði tilraunir með jólamat og hafði það sem hana langaði mest í hverju sinni, fór allt í einu að hafa möndlugraut og göngutúr á jóladag. Ég vandist þessu og tók þátt í að skapa þessar 'venjur'.

Eitt árið var jólatréð komið upp hálfum mánuði fyrir jól (um að gera að nýta gripinn), næsta ár á Þorláksmessu. Það skipti engu, það var alltaf stuð.

Ég hreinlega dýrka að skapa mínar eigin hefðir eftir að ég eignaðist stelpurnar mínar. Það getur verið fjandanum erfiðara að blanda saman mínum venjum og Hrundar en stórskemmtilegt púsluspil þó.

Finnst það notaleg og nokkuð skrítin tilhugsun að með tíð og tíma verða þessar venjur að Rakelar venjum, hún á eftir að alast upp við okkar hefð. Þar sem hún er með eindæmum íhaldssöm eins og flest önnur börn á hún örugglega bara eftir að vilja hamborgarahrygg eins og ég elda hann, vilja fara í göngutúr á jóladag, skreyta á fyrsta í aðventu og borða piparkökur allan desember.

Skrítnustu jól sem ég hef upplifað voru þegar ég var eitthvað um fimm ára peð og var hjá papito í Svíþjóð. Risapálminn hans var jólatréð og jólamaturinn öðruvísi en venjulega. Vissi ekki hvert ég  ætlaði. Þetta var sko ekki eins og hjá mömmu.

Við finnum öll okkar rytma. Sumir eru í kyrrstöðu þangað til á aðfangadag og taka þá trylltan tangó, aðrir vanga inn í jólinn og enn aðrir taka rúmbu á þetta.

Ég er loksins farin að læra að meta jólin aftur. Hef ekki gert það síðan ég var krakki. Mitt eigið sálarástand og vanlíðan í mörg ár olli því að hugur minn var út á þekju. Núna hef ég hreinsað til í mér, farið út með ruslið og fundið jólandann lengst inn í skáp.

Ég hlúi að andanum mínum eins og viðkvæmu blómi. Með hverju árinu sem líður verður líf hans meira, stöðugra og brátt mun hann hætta að flökta. Svona getur maður verið duglegur þótt maður missi fótana einhvern tíma á lífsleiðinni.

Aldrei að gefast upp, alltaf að standa upp aftur. Ég get, skal og vil.

Þetta hljómar svolítið eins og ég hafi verið á kafi í dópi. Sú var nú ekki raunin. Ég var bara einhver veginn í því að éta sjálfa mig að innan í mörg ár.

Svona gerir jólandinn mann væminn. Ef ég lít út um gluggann sé ég spegilmynd mína. Lítinn, úfinn krulluhaus í náttfötum. Gleraugun hafa sigið niður á nef og það er stútur á munninum eins og alltaf þegar ég er að hugsa. Mér þykir ósköp vænt um þess veru. Ég ætla að hugsa vel um hana það sem eftir er.

Það er mín jólagjöf. Það er mitt áramótaheit. 

Í virðingu minni og ást á sjálfri mér felst öll mína geta til að vera hamingjusöm.

Það snjóar inn í mér. Jólasnjór. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband