14.12.2007 | 10:21
Ofsaveður
Þetta er nú meiri veðráttan. Heitapottar, fellihýsi og grill fjúka um eins og lauf í vindi. Dótagræðgin kemur aftan að okkur og munaðurinn feykist um og hlær. Þeir sem ekki hafa látið neyslugeðveikina hlaupa með sig í gönur sitja sallarólegir á sínum rassi og hafa ekki áhyggjur af því að neitt fjúki nema kannski aðhaldskrafturinn sem einkenndi þá í byrjun desember. Allir vilja komast í jólafötin.
Sem er bæ ðe vei stórundarlegt. Kaupir fólk sér í alvöru of lítil föt fyrir jólin og er svo sveitt við að grenna sig í þau allan desember? Ég kaupi mér nú bara föt í réttri stærð og slepp við svitann.
Þetta er svona álíka fáránlegt og þegar konur eru spurðar hvort þær vilji frekar, súkkulaði eða kynlíf (sbr. t. d. How to lood good naked síðast). Lenda einhverjar konur í alvöru í þeirri aðstöðu að þurfa að velja á mili? Eru kallarnir bara hey! ég sef ekki hjá þér nema þú hættir að gúffa í þig súkkulaði, mér býður við þessari súkkulaðifýlu af þér!
Ég segi nú bara bæði betra og myndi gefa Hrundinni mjög illt augnaráð ef hún væri eitthvað neyða mig til að velja á milli.
Annars er Rakelita orðin frísk. Fór á leikskólann í gær í sparifötum enda jólaball. Fékk að hafa með sér piparkökur í poka eins og háttur er á jólaballsdegi leikskólans. Barnið ætlaði að tryllast úr gleði þegar ég sýndi henni pokann um morguninn, hentist í fötin og bað svo um 'næstið' sitt (af einhverjum ástæðum kallar hún allt gott, t. d. eftirrétt, nesti eða 'næsti'). Eftir miklar fortölur fékkst hún þó til að borða sínar lífrænu kornflexflögur og geyma næstið þangað til í hádeginu.
Ég var burtu allan daginn í gær að læra og kom ekki heim fyrr en um miðnætti. Hringdi í stelpurnar mínar um kvöldmatarleytið alveg veik af söknuði. Rakel tilkynnti mér óðamála í símann að hún hefði fengið vasaljós frá Skyrgám(i) og Kjötgám(i) í leikskólanum. Kjötgámur? Vissi ekki að jólasveinarnir væru orðinr 14, svona fylgist maður illa með.
Eins ógirnilega og það hljómar er Rakel með svokallaðar flökkuvörtur. Þetta eru týpískar leikskólavörtur sem svo oft herja á börn á leikskólaaldri nema þessar flakka (ertu ekki að grínast?). Tókum fyrst eftir einni fyrir svona einum mánuði rétt hjá vinstra handarkrikanum. Stuttu seinna voru þær orðnar fleiri og hertóku litla handarkrikann. Við fórum með hana til læknis sem sagði að best væri að kreista vörturnar eins og bólur, þ. e. þessar stærstu, og þá myndu þær minni fara. Alveg er ég viss um að ekki nokkur einasti læknir sem ráðleggur þetta hefur reynt að framkvæma þessa aðgerð á sínu eigin barni. Svitinn lak af okkur Hrund á meðan önnur hélt barninu og hin kreisti og reyndi að stinga á. Barnið öskraði og barðist um og tilkynnti okkur að pabbi hennar þyrfti sko ekkert að skoða eða meiða hana. Við vondu mömmurnar.
Rakel var fljót að jafna sig en ég og Hrund skulfum af vanlíðan og samviskubiti. Það er hræðilegt að meiða barnið sitt svona. Ætluðum ekki að geta hætt að knúsa stelpuna okkar, biðja hana fyrirgefningar og reyna að útskýra af hverju við hefðum verið að þessu. Sögðumst vissar að jólasveinnin gæfi henni eitthvað extra flott í skóinn þar sem hún hefði verið svo dugleg.
Árangurinn af þessu helvíti: ENGINN.
Rakel fékk hins vegar bók í skóinn og var alsæl.
Hef svo gaman af því hvernig Rakel talar. Hún hefur svo skemmtilegan orðaforða. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft (er þetta ekki svona?). Á tímabili var ég með 'óskaplega' á heilanum. Á sama tíma var Rakel alltaf ósklilega (lesist óskaplega) þreytt og óskilega svöng. Þegar hún var spurð að því hvað hún væri að gera svaraði hún því til að hún væri 'að skottast um'. Stekkjastaur gaf henni litabók með jólasveinamyndum sem hún þurfti nátla helst að lita allar áður en hún fór í leikskólann. Sem hún flettir bókinni rekur hún augun í mynd sem vekur áhuga hennar: Hey, sérru, Glýra og Leppilúði. Þetta er nú eitthvað kunnulegt.
Mikið er gaman að barnið mitt skuli skottast um og reka augun öðru hverju í eitthvað óskaplega kunnulegt.
Hef verið að læra forna málið undanfarna tvo daga. Gud í himmelen. Það er ekki málið að ég skilji þetta ekki. Þetta er allt mjög rökrétt og áhugavert. En mér finnst ekki mennskt að láta okkur leggja þetta allt á minnið. Ætti að vera hjálpargagnapróf. Það væri alveg hægt að prófa skilning okkar á efninu þótt við fengjum að fletta einhverju upp. Eins og alltaf í hjálpargagnaprófum þarf maður að skilja og vita hvar á að leyta til að ná prófinu. En eins og þetta verður er verið að prófa hvernig dagsformið er þennan tiltekna prófdag og hversu minnug við erum.
Í dag er það hins vegar bókmenntafræði aftur og gott að fá tilbreytingu. Um sex ætla ég svo að drífa mig heim og föndra afmæliskórónu handa stelpunni minni með konunni. Risahjúmongus veisla verður svo haldin á morgun og er ég bara farin að hlakka til. Hrund ætlar að snurfusa aðeins heima í dag og svo verður mölluð súpa í kvöld og bökuð glæsileg speltbangsaafmæliskaka, skreytt með mislitum glassúr. Það sem maður gerir ekki fyrir afkvæmi sín.
Jæja. Bókmenntafræðin kallar: Hey, ertu ekki að koma þú þarna égnenniekkiaðlæralangarbaraaðhorfaávideoundirsæng. Mig langar nú að svara einhverju óprenthæfu en læt það vera. Skráði mig sjálf í þetta nám. Hvernig gerðist það nú aftur?
Djöfull var Kjötgámur heppinn á sér að komast til byggða áður en aftakaveðrið hélt innreið sína.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:27 | Facebook
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.