Púff

Svo ég haldi aðeins áfram ...

Atli á verkstæðinu sagðist viss um að bílaumboðið myndi borga dráttarbíl svo við hringdum og losnuðum við að draga bílinn sjálfar.

Morguninn var sveittur og erfiður. Hrund ætlaði sér í skólann og skellti sér í sturtu. Ég fór inn á bað til að tala við hana og kom að henni þar sem hún hékk utan í sturtuveggnum.'Það er að líða yfir mig' stundi hún náhvít í framan. Ég hellti í hana hreinum appelsínusafa til að ná upp blóðskykrinum og svo baksaði hún (eða er það bagsa?) dágóða stund við að koma sér í föt. Ég hafði sem betur fer tekið þá ákvörðun að hætta mér ekki í sturtu.

Rakel var hress og bollaði mig með bolluvendinum sínum. Ég rauk svo með hana í leikskólann á snjóþotunni og var löðursveitt og magnvana þegar ég kom heim. Hrund fór og lét kallana á dráttarbílnum fá bíllykilinn, játaði sig sigraða og lagðist fyrir. Ég reyndi eftir fremsta megni að prófarkalesa spænskufyrirlesturinn minn og náði að byrja á úrdrættinum fyrir hina nemendurna. Svo gat ég ekki meir. Skreið upp í sófa og glápti aðeins á video og fór því næst upp í rúm og svaf af mér daginn með Hrund.

Við skreiddumst svo á fætur og náðum í molann og fórum á læknavaktina. Vorum vissar um að við værum komnar með streptókokka. Sem reyndist rétt. Og reyndar Rakel líka. Sem betur fer er hún ekkert lasin og pensilínið kemur líklega í veg fyrir það. Hún verður samt að vera heima á morgun þar sem hún smitar enn þá.

Við drusluðumst og náðum í bílinn. Rafgeymirinn var orðinn lélegur svo nýr var settur í sem er alveg fyrirtak. Þetta gerðist allt á hárréttum tíma. Bílaumboðið borgar svo brúsann.

Ég fór og keypti hamborgara handa okkur Rakel þar sem ég get ekki fyrir mitt litla líf hugsað, hvað þá matreitt. Hrund hélt sig inn í stofu á meðan við borðuðum og reyndi að þræla í sig appelsínu. Hún er svo hræðilega klígjugjörn svona lasin og með viðurstyggilega hálsbólgu. Hún skilur ekkert í því að ég geti borðað. Hálskirtlarnir á mér eru helmingi bólgnari en hennar, það blæðir úr þeim og þeir lafa niður í kokið. Jammí. Ég sagði henni að lystarleysi hrjáði mig sjaldan, því miður.

Ein af ömmunum reddaði okkur grímubúning, barnið verður læknir og er það bara gott og blessað. Sá ekki fyrir mér að við hefðum orku eða tíma til að vesenast í þessu.

Er að hugsa um að leggjast í fangið á Sprundinni og horfa á fréttir. Á eftir verð ég að sjálfsögðu að framleiða bollur fyrir barnið.

Púff, hvað allt vex mér í augum. Og ég sem var frekar löt í síðustu viku og veik í þessari hef ansi mikið að vinna upp í skólanum.

Best ég taki einn dag í einu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband