Háskaför

Þeir eru yndislegir dagarnir sem maður nennir að læra. Ég hreinlega fyllist fítonskrafti hafi ég fylgt algjörlega því plani sem ég bjó mér til fyrir daginn, mætt stundvíslega og Í alla tímana, fylgst með og glósað og komist yfir allt sem ég ætlaði mér. Tala nú ekki um ef ég borða ógó hollt. Ég svíf fitt (að mér finnst þótt það eigi sér enga stoð í raunveruleikanum) um ganga skólans og út á bílaplan, hlæ upp í frískandi rokið, sest inn í tryllitækið mitt og stilli tónlistina það hátt að bíllinn nötrar. Ég lít svo á að hann sé dansa með mér.

Það var svona dagur í gær. Hann var meira að segja óvenju skemmtilegur þar sem ég hitti Hlífina á kaffistofunni og við gátum skipst á sögum. Ég held henni finnist ég svolítið fyndin sem er gott fyrir sálartetrið. Ég var líka í óvenju góðu skapi, hafði rétt á undan klárað verkefnin í forna málinu og hljóðfræði. Hafði verið að geyma það sem ég skildi ekki en eftir tíma í báðum fögum rann loks upp fyrir mér ljós.

Eftir samtal okkar Hlífar og skil á verkefnum trylltist ég heim og bjó mig undir að fara í göngutúr í góða veðrinu. Ég gróf upp leikfimibuxurnar mínar  sem guði sé lof eru úr teygjuefni svo þrátt fyrir fögur aukakíló passa þær enn fínt. Tróð mér ansi í þröngan íþróttatopp og með brjóstin upp undir höku skellti ég mér í bol og lopapeysu. Yfir öll herleginheitin fór ég svo í vindgallan minn. Buxurnar voru rétt mátulegar þegar ég keypti þær síðastliðið vor. Þær eru ekki mátulegar lengur. Strengurinn hefur reyndar alltaf verið pínu þröngur en núna er hann nánst hættulegur. Ég dró buxurnar eins langt upp í mitti og ég gat (sem var mjög lekkert) en þrátt fyrir að þær væru þá utan um mig þar sem ég er grennst á minni bumbu ollu þær mér nokkurri andnauð.

Jakkann komst ég áfallalaust í en gönguskórnir þvældust ögn fyrir mér. Ekki af því að ég kann ekki að reima heldur vegna þess að þegar ég beygði mig fram (ég sat á stigaskörinni) þrýstist buxnastrengurinn inn í magann á undarlegum stað og skapaði undarlegar fellingar á maganum sem komu í veg fyrir að ég gæti almennilega beygt mig. Ég var örg út í spikið á mér þegar ég skellti á eftir mér hurðinni.

Ég komst samt afur í gott skap þegar ég kom út þótt komið væri hífandi rok. Ég fékk ipodinn hans Einsa bró lánaðann um daginn og var ótrúlega spennt yfir græjunni og tónlistinni sem hún innihélt. Mér tókst að kveikja (mundi leiðbeiningar Einars) og finna playlistann. '90´s lög' hugsaði ég, 'hvað ætli það sé'. Fram streymdu lög sem voru vinsæl bæði þegar ég var úlli í sálarkreppu í gagnfræðiskóla og þegar ég var menntskælingur heltekinn krónískri sálrangist. Radiohead, Prodigy, Creed, Nirvana, Fugees, etc. Það er skondin tilhugsun að systkini mín ólust ekki upp við þessi lög, lög sem nú teljast til 90's kynslóðar laga en eru ekki 'lög núsins' ef þið skiljið mig. Mér finnst svo stutt síðan ég hlustaði á þetta allt að það geti bara alls ekki hafa verið fyrir aldamót, fyrir áratug.

Allavega. Göngutúrin varð ekki sú orkuganga sem hann átti að vera. Hann var hrein og bein háskaför. Með vindbuxurnar sleiktar yfir rassinn (svo sá í útlínur nærbuxna og hefur líklega mátt fylgjast með því hvernig þær þrjóskuðust við að halda sig á rasskinnum og færðu sig í þvermóðskunni sífellt nær boru) og vindinn í andlitið hökti ég áfram. Það var glerhált. Klaki út um allt og vatn yfir öllu. Ég hafði ekki gert ráð fyrir þessu. Það var ekki mikil reisn yfir mér á göngunni, ég rann sífellt til og gaf frá mér hina ýmsu skræki í hvert sinn sem ég var nær dottinn og ég labbaði eins og spýtukarl þar sem ég spennti hvern einasta vöðva við að reyna að halda mér lóðréttri. Ég endaði á því að þræða alla skafla sem ég sá og sem lágu meðfram gangstéttunum. Væri auður blettur á ganstéttinni eða örfá sandkorn nýtti ég mér það. Ég hef verið eins og fáviti, hoppandi og skoppandi og skrækjandi.

Þetta var aðeins betra þegar ég var komin niður í Laugardal og á Laugarásvegi var ég komin á gott skrið. Ég var eiginlega hálf örmagna þegar ég kom heim og var að drepast í fótunum langt fram eftir kvöldi. Sem var góð tilginning.

Þegar ég kom heim gat ég ekki slökkt á ipodinum. Hrund kunni það ekki heldur. Ég hringdi í litlu systur mína sem ég held að hafi ekki trúað sínum eigin eyrum, hvað þá tæknifötlun minni:

'Hæ Elísabet. Hvernig slekk ég eiginlega á svona ipodi?

'Hlátur (sem í fólst undrun áður en hann var snögglega kæfður)'. Þú ýtir bara á stopptakkann niðri'

'Það er enginn stopptakki niðri'

'Ýttu þá á stopptakkann uppi'

'Það er enginn stopptakki uppi, bara playtakki'

'Hvernig ipod ertu eiginleg með?' (orðin pínu óþolinmóð)' Rabis eða travis eða gimli ...'

'Ég veit það ekki. Einars ipod!!! ´(gríp ég fram í örvæntingarfull)

''Ýttu þá á playtakkann'

'Ef ég geri það kemur bara eins og skuggi yfir allt en það slokknar ekki á honum'

'Haltu honum inni'

'Já. já, já. Ég gat það, það slokknaði honum. Ok, takk, bless.'

Ég er hipp og kúl nútímakona sem fer í gönguferðir mér til heilsubótar með fancy ipod.

'


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hahahahaha. Þú ERT fyndin.

Ókey, þetta er svolítið hallærislegt af því ég sit við hliðina á þér. Þú hefur kannski tekið eftir því að ég er að reyna að kæfa niður hláturinn. Hahahaha lýsingarnar á kraftgöngunni. Sjitt ég skil þig svo vel samt sko.

Hlíf 14.2.2008 kl. 11:11

2 identicon

mikið ógisslega komst ég í gott skap við að lesa þetta, lýt höfði í auðmýkt og þakka almættinu fyrir að lána mér svo fyndin og vel gerð börn, þú ert fyndnasta og fallegasta verðandi 25 ára dóttir í heimi og nei, nei, ég verð seint sökuð um hlutdrægni.

En hvernig er þetta í hí er bara verið að blogga í tímum!!!

ps. það vantar alveg á lyklaborðin öfug greinarmerki, ætli þau séu sérsmíðuð fyrir spánverja?

múttistinn 14.2.2008 kl. 14:40

3 identicon

hvernig datt þér í hug að fara út að labba í svona færi !!!!!!!

þessa gönguferð hefur þú tekið á þrjóskunni, ef ég þekki þig rétt. Mikið hefði ég gefið fyrir að vera áhorfandi, ekki hefði mér dottið í hug að labba,eins og þú veist skemmir það línurnar.

HVað varðar tæknifötlunina þá skil ég þig vel, sat í hugmyndavinnu tíma um dagin og hlustaði með hluttekningu á börnin lýsa því hvernig maður nær í lög á netið, fanst ég svolítið gömul þeg að ég sá hneikslunar svipinn og efasemdina þegar þær komust að því að ég og KENNARINN  kunnum þetta ekki!!!!!!

sakkna ykkar "ógó" mikið og bið að heilsa mömmu þinni (sem ég held að sé haldin greinamerkjaþráhyggju) sjáumst um næstu helgi.

Odda Podda 15.2.2008 kl. 18:41

4 identicon

Bwahaha, Díana! Þú ert óbærilega fyndin.... verð að vera sammála Oddu. Hefði gjarnan viljað vera áhorfandi af kraftgöngunni!

inam 16.2.2008 kl. 16:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband