Ferðasagan

Rakel (í örvængtinartón):Mammí, ég er að pissa í mig!

Ég (í svefnrofunum): Á mig. Maður segir pissa á sig!

Rakel: Mammí, ég er að pissa á mig!

Ég: Hruuuund! Ástin mín!

Sprundin fór með Rakelina á klósettið. Klukkan var að verða níu. Við mömmurnar vorum grænar í framan af þreytu. Ofsarok hafði haldið fyrir okkur vöku mest alla nóttina. Neyddumst til að fara á fætur um fjögur leytið og festa fortjaldið niður. Hælarnir höfðu togast upp úr jörðinni í rokinu og því lá fortjaldið á svefntjaldinu.

Við vorum Þórisstöðum í Hvalfirði. Nutum þessa að keyra fjörðinn í veðurblíðunni á föstudaginn. Mikið er hann fallegur. Þegar við mættum á svæðið var pínu rok en sól og sumar þrátt fyrir það. Við komum tjaldinu upp á meðan Rakel lék sér og grilluðum svo hamborgara. Fórum allar í háttinn á sama tíma og sofnuðum fljótt. Við Sprundin vöknuðum eins og áður sagði við storminn sem skók tjaldið svo að það small í því.

Laugardagurinn var ansi vindasamur og tjaldið hélt áfram að bogna í vindinum. Við létum það ekki á okkur fá. Klæddum okkur eftir veðri, borðuðum góðan morgunmat og komum flugdrekanum hennar Rakelar á loft. Litla kjánastrikið sleppti honum svo hann fauk út í veður og vind og var sorgin svakaleg. Við fengum okkur því göngtúr og leituðum að flugdrekanum. Leitin var nú til málamynda, aðallega til að róa litla sál, en ótrúlegt en satt þá fundum við drekann. Við keyrðum svo niður að sjó. Rannsökuðum fjöruna og hlustuðum á gargið í fuglunum. Fórum aftur á tjaldstæðið og fengum okkur 'nælusúpu' og 'sponsur' eins og Rakel kallar núðlusúpu og skonsur.

Efti matinn skelltum við okkur í sund og ó my lord hvað það var kalt. Vindurinn blés ískaldur en Rakel lét sig hafa það og fór hundrað ferðir í rennibrautinni. Var orðin blá á vörunum þegar við neyddum hana upp úr. Þegar við komum til baka á tjaldstæðið höfðu bönd slitnað, allt var galopið og dótið í fortjaldinu út um allt. Við vorum að hugsa um að gefast upp þegar við sáum blett sem var í skjóli við hliðina á húsbíl. Færðum því bara tjaldið og sátum svo í skjólinu og sólinni og grilluðum og lékum okkur.

Vindurinn færðist í aukana þegar leið á kvöldið þvert ofan í allar spár. Ég ætlaði aldrei að sofna fyrir öskrinu í vindinum og bröltinu í Rakel sem var greinilega að endurupplifa sundferðina. Bannaði okkur að hoppa í lauginni og veinaði þess á milli. Svefn okkar Sprundarinnar var slitróttur og ég ætlaði ekki að geta opnað augun í morgun. Hresstist þó við kaffisopa og eftir að hafa pakkað öllu saman fórum við í göngutúr. Rokið var svo mikið að gangan tók heilmikið á. Við vorum niðri við vatn og öldurnar voru eins og úti á rúmsjó. Eftir gönguna héldum við heim á leið. Komum við í Ferstikluskála og borðuðum og fórum svo göngin til baka.

Þrátt fyrir ofsarok var helgin yndisleg og skemmtileg og dásamleg. Fái Hrund frí stefnum við á hringinn í sumar. Við þurfum hins vegar fyrst að kaupa nýja hæla sem flestir eru bognir eftri óveðrið og svo brotnaði ein súla við álagið. Það á nú að vera lífstíðarábyrgð á tjaldinu svo súluna ættum við að fá okkur að kostnaðarlausu.

Við tókum okkur góðan tíma í að ganga frá og fengum okkur svo skyr og bláber. Rakel lá í baðinu í einn og hálfan klukkutíma og eftir burstun, bænir, lestur og söng rotaðiast hún rétt um sjö. Hrundin er að koma úr sturtu, ég er búin að fara í bað. Sófinn er svo mjúkur og sængin svo hlý og hér er nær ekkert rok. Ætlum að horfa á eina mynd og svo ætla ég að skríða upp í.

En ótrúlega ljúft. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hehe já mér heyrist þið nú heldur betur tilbúnar í hringferðalag. Brotnar tjaldsúlur og læti en samt farnar að spá í næsta ferðalagi, þannig á þetta að vera;)
En annars hlakka ég til að sjá ykkur næstu helgi:)

 

Tryggvi Stefansson 30.6.2008 kl. 01:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband