Iss

Ég er ekki viss um að það sé skynsamlegt að vera að blogga í mínu ástandi. En það er bara stundum ógeðslegt að vera skynsamur.

Ógeðslega leiðinlegt allavega.

Það er hreinlega ekki runnið af mér enn þá síðan í gær. Svakalegt.

En byrjum á byrjuninni.

Matarvikuna miklu ætla ég að skýra síðusut viku í lífi mínu. Ekki af því að ég át svo mikið heldur af því að ég borðaði gómsætan mat á hverjum degi. Er búin að telja það upp áður en ég var ekki búin að segja ykkur frá saltfisknum.

Við fórum til mömmu eftir vinnu á föstudaginn. Við mamma bjuggum til spænskan saltfiskrétt sem er ólýsanlega góður: fisknum velt upp úr hveiti og svo steiktur með 14 (já 14) hvítlauksrifjum á pönnu. Fisknum er raðað í mót og kartöflum í sneiðum þar ofan á. Efst kemur haugur af lauk og papriku, steikt upp úr ediki, niðursoðnum tómötum og sinnepi. Yfir allt þetta stráir maður ólívum og einhverjum bragðmiklum osti. Ó my lord. Mig langar í svona núna. Ég bjó svo til austurríska eplaköku með karamellubráð og borðuðum við hana og ís með í eftirrétt. Úff. Þetta var svo gott.

Litla þreytta barnið var sofnað um hálf níu. Vaknaði sjö á laugardagsmorguninn og fór á klósettið en svo kom ég henni fyrir á mili okkar mæðranna í stóra rúmi og hún svaf til hálf tíu. Dagarnir eru svo langir hjá henni á sumrin að hún er að leka niður úr þreytu. Sem betur fer er hún komin í sumarfrí með pabba sínum núna, hún þarf á hvíldinni að halda.

Við mömmurnar vorum ekki síður þreyttar á föstudagskvöldið, Sprundin var komin upp í rúm klukkan níu og ég klukkutíma seinna. 

Við fórum í morgunkaffi til ömmu í gær og mætti bara eiginlega öll fjölskyldan mín. Það var ótrúlega gaman og Rakelin var í essinu sínu. Pabbi hennar kom svo að sækja hana rétt um eitt og var ótrúlega skrítið að kveðja rauðhaust vitandi það að við myndum ekki sjást í heila viku. En hún og pabbi hennar hafa svo gott og gaman af því vera saman.

Við Hrund brunuðum niður í bæ og náðum í skálina og bollan sem við gerðum í keramiki í byrjun júní. Ekki seinna vænna, júlí að verða hálfnaður. Fórum því næst í ríkið og byrgðum okkur upp (það verður að taka barnlausa lífið með trompi) og vorum komnar heim rétt fyrir þrjú. Ég átti von á vinnufjölskyldunni í mat um hálf sjö og vissi að ég myndi þurfa allan þennan tíma. Ég þvoði eina vél, moppaði, þreif klósett, vaska og strauk af baðherbergisgólfunum, þurrkaði af og gekk frá dóti og eldaði dýrindis súpu. Hrund var rekin að heima um hálf sjö og ég var akkúrat tilbúin þegar Kristín mætti. Gyða og Hlíf voru mættar stuttu seinna og þá hófst fjörið. Og þvílíkt fjör.

Við fengum okkur hvítvín og borðuðum súpu, Kristínarsalat, og brauð með guacamole. Færðum okkur yfir í sófann eftir matinn og opnuðum bjór. Eftir spjall og nokkra bjóra borðuðum við eftirréttinn hennar Gyðu sem var syndsamlega góður. Kláruðum rétt helminginn en eftir marga bjóra í viðbót átum við restina. Við fórum í 'ég hef aldrei' sem var svo drullugaman að þið trúið því ekki. Það var líka mjög gaman að tala og tala og tala og tala eins og okkur einum er lagið án þess að þurfa að vera með samviskubit yfir vinnunni. Gleðin var mikil. Glaumurinn var mikill. Og þegar allir voru búnir með áfengið sitt dró ég fram10 bjóra (litla samt) í viðbót (ég og Hrund keyptum ansi mikinn bjór) sem við fórum létt með að slátra.

Ég held að klukkan hafi verið orðin þrjú þegar okkur tókst loks að koma okkur niður í bæ. Fórum inn á Ellefuna til þess eins að fara strax út aftur og litum svo aðeins inn á Celtic (hvernig er þetta aftur skrifað?). Ég og Gyðan vorum búnar að vera á svakalegu trúnói (hvað er þetta með stelpur og trúnó) heima og héldum því bara áfram eftir að hinar stelpurnar fóru heim. Fórum svo og hittum Hrund og Nonna (kærastinn hennar Gyðu) og héldum heim.

Hrund fór í leigubílaröðina og í ég í Hlöllaröðina. Sú seinni gekk ekkert svo við fórum svangar heim. Reyndar var Hrund búin að borða þegar ég hitti hana en hún var aftur orðin svöng. Í boðinu hjá ömmu var verið að ræða um eggjabrauð og fannst mér nauðsynlegt að fá mér svoleiðis þegar við komum heim. Hafði reyndar enga orku í það og var búin að bursta tennurnar þegar ég sá að Sprundin var búin að draga fram pönnu og stóð í úlpunni við eldavélina, tilbúin að leggja í eldamennsku. Einhvern veginn tókst henni að búa til besta eggjabrauð sem ég hef nokkurn tíma smakkað. Ég fékk bara að koma mér fyrir í sófanum undir sæng og horfði á Harry Potterinn minn og gæddi mér á því besta sem Hrund hefur nokkurn tíma eldað.

Mett og dauðþreytt skreið ég upp í rúm klukkan sjö í morgun. Ég hins vegar gat hreinlega ekki sofið fyrir eigin hugsunum. Þær voru svo háværar að  klukkan ellefu gafst ég upp á því að sofa og var þá búin að fara þrisvar sinnum á fætur og bauka eitthvað. Ætli ég hafi ekki sofið svona tvo tíma allt í allt og ég var pínu skrautleg þegar ég byrjaði að taka til eftir kvöldið.

Það voru örugglega hátt á hundrað bjórdósir á víð og dreif um húsið, klístur út um allt gólf inn í stofu (við vorum sífellt að hella niður, sérstaklega ég og Hlíf þar sem brussugen okkur eru einstaklega sterk) og helling af leirtaui í vaskinum og á eldhúsbekknum. Ég týndi saman dósir og setti í poka, þreif klístur og vaskaði upp. Ég þurfti að vaska upp í tveimur hollum og þurrka inn milli og var að minnsta kosti klukkutíma að því. Var orðin ansi soðin á puttunum þegar ég var búin og farið að svima. Ég drakk lítra af eplasafa í einum teyg og kláraði svo að snurfusa.

Eftir tveggja tíma þrif kom ég mér fyrir upp í sófa með Kristal og tölvuna í fanginu og hér er ég enn. Veit ekki hvort ég fer aftur upp í rúm eða hvort ég þurfi að hugsa aðeins meira.

Það er stundum svo erfitt að vera fullorðinn. Ég veit stundum ekkert í minn haus.

Yfir og út. 

ps. Mikið svakalega langar mig í eggjabrauð. Bara meika ekki að búa það til.

pps. Vona að það sé ekki hrikalega mikið af innsláttarvillum í textanum. Meika heldur ekki að lesa þetta almennilega yfir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ó guð... þú þurftir að vaska upp.. sjitt ég hefði ekki getað það í mínu ástandi í dag. Er búin að vera MEGA þunn. Ógjó.

 En takk fyrir gærkvöldið, það var rosa gaman:)

Hlíf 13.7.2008 kl. 18:05

2 identicon

úff... auuuuuumingja Díana að þurfa að þrífa eftir okkur! Takk fyrir gærkvöldið stelpur, matinn, bjórinn, spjallið og samveruna, tær snilld :)

Sjáumst hressar á morgun! 

Gyða 13.7.2008 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband