Rútína

Þá er rútína lífs míns að byrja aftur og mér finnst það bara ósköp notalegt. Við stelpurnar fórum í Bónus áðan og versluðum allt sem gerir lífið hversdagslegt, mjúkt og öruggt: kaffi, tannkrem, klósettpappír, grænmeti, ávexti, fisk ... Mér finnst yndislegt að hafa eitthvað hlutverk, skyldum að gegna, vinnu að vinna, skóla að ljúka, fólk að elska. Það er einmitt það sem gerir mig að manneskju og eftir að hafa nýlega (eða fyrir örfáum árum) komist að því að það þarf ekkert að vera helvíti að vera manneskja  þá hreinlega fíla ég það í tætlur.

Svo finnst mér líka sjúklega gaman að hitta fólk og spila og spjalla og dansa og djamma. Þá er rosa gaman að vera bara Díana en ekki kærasta og mamma. 

Svo vil ég leiðrétta staðreyndavillu í fyrra bloggi mínu. Mér heyrðist 78% vera andvíg réttindabaráttu samkynhneigðra en þessi prósent voru víst andvíg því að eyða fullt af pening í björgunaraðgerðir ísbjarna. Gaurinn í útvarpinu var sumst að tilkynna niðurstöðu fyrri kosningar og sagði svo frá þeirri næstu sem var hverjir styddu réttindabaráttuna. Það eru víst 65% svo húrra fyrir því!!!  

Annars var gangan bara æði og gaman á djamminu um kvöldið. Við Rakel áttum kósý dag í dag og fórum og heimsóttum skytturnar þrjár í vinnunni. Mikið var það gaman. Rakel sló að sjálfsögðu í gegn og við trufluðum stelpurnar í tvo og hálfan tíma. Svo bara byrja ég að vinna á morgun og hreint ekki neitt að því, þvert á móti.

Mig langar að deila með ykkur perlunum sem heilluðu mig mest í Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson:

 

 Það sem er sætt í gegn gerir okkur iðulega döpur að endingu

 

 ... helvíti er hafa handleggi en engan til að faðma.

 

 „Hjartað er ... eini vöðvinn sem getur gert okkur andvaka

 

 „Augun svo björt að hjá henni er aldrei nótt ...

 

 „Ekkert er mér indælt utan þín“(Er úr Paradísarmissi.)

 

 „Sum orð geta hugsanleg breytt heiminum ...

 

 „Við þurfum kannski ekki á orðum að halda til að komast af, en við þurfum hins vegar orðin til þess að lifa.

 

 „Sá sem á sér enga drauma er í hættu staddur.

 

 „Gleði, hamingja, funheit ástin er þrenningin sem gerir okkur að manneskjum, sem réttlætir lífið og gerir það stærra en dauðann ...

 

 „Tímarnir eru margir og klukkan mælir sjaldan þann tíma sem líður innra með okkur, hinn raunverulega líftíma ...

 

 ... því á milli fólks liggja ósýnilegir þræðir og við finnum þegar þeir slitna.

 

 „Helvíti er dáin manneskja.

 

 „Það er lífshættulegt að lesa ljóð.

 

 „Getur verið að tilfinningar kvenna liggi ofar og því nær hörundinu en hjá körlum?

 

 Hér er líf, um líf, frá lífi, til dauða.

 

 „... ekki alltaf skjól í draumum, stundum alls ekki neitt.“

 

 „Helvíti er að vita ekki hvort við erum lifandi eða dáin.“

 

 „Tilgangur, er það bláminn sem við snertum aldrei?

 

 „Helvíti er að vera dáinn og átta sig á því að þú sinntir ekki lífinu á meðan þú hafðir tækifæri til þess.

 

 „Hvursu mörg ár rúmast í einum degi, einum sólarhring?

 

 „... nokkur tár, nokkrir smábátar sem renna niður kinnarnar með fullfermi af sorg.

 

 „Fjöllin eru ekki hluti af landslaginu, þau eru landslagið.

 

 „... með víninu kemur syndin og hömluleysið.“ (Innskot dr: Og andartaks, augnabliks frelsi.)

 

 „... hinar barnslegu spurningar sem geta fært okkur nær upphafinu.

 

 „... það er svo ótrúlega gott að eiga vin í þessum heimi, þá ertu ekki alveg eins varnarlaus, þú getur talað við einhvern og hlustað án þess að þurfa að verja hjartað um um leið.“ (Innskot dr: Halelúja. Vinir eru óskir sem rætast.)

 

 „... velvild er ekki smámynt sem þú finnur úti á götu.

 

 Geirþrúður: „Ég er því miður ekki venjuleg, og ég er því miður ekki stúlka.

 

 „Draumarnir leysa okkur stundum frá lífinu. Þeir eru sólskinið á bak við heiminn.

 

 „...veruleikinn hleypir þér aldrei langt frá þér.

 

 „... við verðum oft að halda um e-ð til að týnast ekki eða steypast framaf, það má vera handrið en þó helst önnur hönd.

 

 „Jæja er áreiðanlega stærsta orð sem til er á íslensku, það getur á augabragði tengt saman tvær ókunnugar manneskjur.

 

 „... að lifa er að spyrja.

 

 „(En samt er hún bara tuttugu og eins árs) og lífið nötrar inn í henni.“ (Innskot dr: Það er svo gott þegar lífsgleðin er svo mikil að hún breytist í kraft sem nötrar inni í þér.)

 

 „... við erum hugrakkari þegar við hugsum ekki neitt, hikið, fumið, kemur með hugsuninni.“ (Innskot dr: Þetta er svo satt, svo satt.)

 

 „... gráta eins og drukknað fólk grætur og þessvegna er sjórinn saltur.

 

 „Guð lét í þig gott og fallegt hjarta en steingleymdi alveg herslunni utan um það.

 

 „... eins og lífið: nokkrar ljómandi stundir slitnar sundur af dimmum dögum.

 

 „... það er gott að aga sig ...“ (Innskot dr: Og stundum er ekkert eins yndislegt og auðvelt og að sleppa því.)

 

 „Það er oft einhver heiðríkja yfir bernskuvinum, birta og sakleysi.

 

 „Hann hikar, og í hikinu drukknar hann.“ (Innskot dr: Hikið hefur drekkt mér en fljótfærnin jafn oft.)

 

 „... þeir sem minna mega sín mæta iðulega afgangi.

 

 „... það er ekki hægt að reikna út ástina. Við komumst aldrei til botns í henni.“ (Innskot dr: Og ættum ekki að reyna það finnst mér - ég viðurkenni það fúslega að ég hef alltaf hræðst valdið sem ástin hefur, og hefur alltaf haft, yfir mér.)

 

 „... stundum þarf ein veröld að farast svo önnur geti orðið til.“ (Innskot dr: Þessi maður (höfundur) hefur algjörlega höndlað sannleikann, hann hefur tekið hugsanir mínar og notað þær í bók sem hann skrifaði fyrir ári.)

 

 „... óvissan er eyðandi afl.“ (Innskot dr: Hún getur farið um fólks eins og stormsveipur og svipt því öllu á einu andartaki, öllu nema stingandi óvissunni.)

 

 „Skáldskapurinn er eins og hafið og hafið er myrkt og djúpt, en líka blátt og undurfagurt, þar synda margir fiskar og þar lifa allskyns skepnur og ekki allar góðar.

 ...kannski er helvíti bókasafn og þú ert blindur.

 Þegar val stendur á milli lífs og dauða velja flestir lífið.

 ... á kvöldin þegar myrkrið hefur mýkt heiminn og farið út í geim eftir stjörnunum.

 ... kannski eiga þau bara ágætlega saman; hann blindur og hún siðblind.

 Og samt var það engin von heldur miklu frekar tálsýn. Tálvon.

 Augun eru vandmeðfarin ... Allt okkar líf streymir út um augun, og þau geta því verið fallbyssa, tónlist, fuglasöngur, stríðsöskur. Þau geta komið upp um okkur, þau geta bjargað þér, gert út af við þig. Ég sá augu þín og líf mitt breyttist.“ (Innskot dr: Ég fæ gæsahúð á eyrnasneplana við að lesa síðustu setninguna. Hafið þið upplifað þetta? Að líta í augu einhvers og vita um leið að allt væri breytt? Og það þarf ekkert að vera að þú sért að líta í augu þessarar manneskju í fyrsta skipti, heldur að líta í þau öðruvísi. Það er svakalegt.)

  Orð geta haft mátt trölla og þau geta drepið guði, þau geta bjargað lífum og eytt þeim.

 Þögnin eftir langa frásögn segir til um hvort hún hafi skipt einhverju máli eða verið sögð til einskins ...

 ... við eigum að sinna þeim sem skipta okkur máli og hafa gott til að bera, og helst aldrei að fresta því ...

 Þú sérð því að fótatak getur sagt margt um manneskjuna: gakktu til mín og þá veit ég kannski hvort ég elska þig. (Innskot dr: Mér hefur alltaf fundist hlátur og göngulag fólks koma upp um það, ef þú svo nærð að fanga einlægt augnatillit þeirra þá veistu meira.)

 ... það er eitt að geta lesið, annað að kunna að lesa ...

 ... það sem er hvítt og alveg beint verður leiðingjarnt til lengdar. Án syndar er ekkert líf. 

 

 

Þar hafið þið það.  

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mmmm... Þessi bók er konfektkassi! Og þú ert búin að birta alla bestu molana hér á blogginu :) „...kannski er helvíti bókasafn og þú ert blindur.“ Mér finnst þessi setning best... Hún er svo góð að þetta bara hlýtur að vera satt!

Gyða 12.8.2008 kl. 09:20

2 identicon

Jamm. Mér finnst þessi bók vera eins og ljóð: orðin virðast vera svo vel valin og setningarnar svo oft þrungnar merkingu. Enda var ég lengi að lesa hana þó hún sé ekki þykk.

Hlíf 12.8.2008 kl. 12:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband