Úff

Ég veit ekki hvað er að gerast með mig. Held að það hafi nær aldrei liðið svona langt milli færslna hjá mér. Það er ekki það að ég hafi ekki haft tíma, ég hef bara hvorki haft nennu né áhuga.

Ég vil byrja á því að skrifa hér fleyga setningu frá mömmu sem nýtist vel þegar fólk er reyna að finna út hvenær á að skrifa annaðhvort/annað hvort í einu eða tveimur orðum: Annaðhvort gerir annað hvort ykkar það eða ég geri það sjálf.

Algjör snilld. Mömmu hennar Oddnýjar finnst ég nota hvert tækifæri til málverndunar. Ég veit ekki hvort ég er sammála. Reyndar hafði ég aldrei pælt í því svoleiðis. Ég hef bara brennandi áhuga á íslensku.

 Næst á dagskrá. Hvað hef ég verið að gera? Sofa, vakna, pissa, bursta, vekja kríli, vekja konu, gefa lýsi, taka lýsi, drekka lífrænan safa með, hella upp á kaffi, klæða mig á hlaupum, berjast við hárið á mér, taka poka poka, tösku, tösku, síma, veski, lykla, kyssa konu, fara með barn á leikskóla, knúsa barn, keyra í vinnu, kveikja á tölvu, lesa, vinna, hugsa, bruna heim, sækja barn, elda, setja í vél, baða barn, láta það pissa, missa af fréttum, missa af veðri, reyna að sitja kyrr á meðan Hrund vaskar upp, fara í náttkjól, skríða undir sæng, lesa lesa lesa, kyssa konu góða nótt, lesa meira, slökkva ljós, sofa.

Sofa illa. Ég vorkenni mér hræðilega þegar ég hugsa um hversu illa ég sef endalaust. Á föstudaginn fékk ég mér í glas og þá er ég alltaf að drepast úr þreytu þegar ég vakna allt of snemma. Á laugardaginn lagði ég mig í tvo tíma en gat samt varla haldið augum opnum. Fór að sofa á skikkanlegum tíma. Gat ekki sofnað. Sofnaði. Vaknaði í svitabaði. Sofnaði loks aftur. Vaknaði hundrað billjón sinnum. Fór á fætur með Rakel og var nær dauða en lífi. Var að sofna í allan gærdag. Fór að sofa á skikkanlegum tíma. Gat ekki sofnað. Sofnaði. Vaknaði þegar Hrund fór að sofa. Gat ekki sofnað. Sofnaði loks. Vaknaði við þetta:

Rakel:' Mammmmmíííí, það er norn.'

Ég: 'Var þig að dreyma illa engill.'

Rakel:' Nei, ég sá norn.'

Ég: 'Á ég að koma og breiða ofan á þig.' (Froskurinn stóð við rúmgaflinn minn.)

Rakel:'Nei, ég vil koma upp á.' (Það er upp í.)

Ég (lít á klukku, hún er fjögur, veit að ég mun ekkert sofa næstu þrjá tíma ef ég tek hana upp í):'Ég skal koma og breiða ofan á þig, þetta er allt í lagi. Það eru ekki til neinar nornir í alvörunni.' (Ekki það ég viti rass um það.)

Rakel: 'Jú.' (Það skiptir ekki máli þótt það sé mið nótt og hún standi þarna á nærbrókinni með rautt hárið út um allt, hún hefur ALLTAF rétt fyrir sér.)

Ég (komin á fætur og leiði hana inn í rúm):'Nei, ástin mín. Nornir eru bara til í bókum (gleymdi að segja líka bíómyndum), ekki í alvörunni.'

Rakel:'Jú. Og líka draugar.' (Ó my lord.)

Ég (nú er það ég sem stend við hennar rúmgafl í nærbrókinni einni fata með hárið út um allt og alveg að frjósa úr kulda):'Draugar og nornir eru bara til í þykjustunni, bara í bókum, eins og Einar Áskell sem bara er til í bók en ekki í alvörunni.'

Rakel (náði þessari skýringu):' Viltu halla hurðinni svo ég sjái ekki nornina.'

Ég:'Hvar sástu nornina, inni á baði?´ (Hún sér hinar ýmsu kynjaverur þar greyið.) 'Á ég að loka inn á bað?'

Barnið kinkaði kolli og ég lokaði hurðinni. Eða mér tókst að skella henni mjög harkalega og heyrði eitthvað þungt skella í gólfið. Ég gat hvorki hugsað mér að kveikja ljósið né fara að sofa án þess að komast að því hvað skall í gólfið svo ég eyddi dágóðri stund í að finna hlutinn í mykrinu. Stækkunarglerið hennar Hrundar lá á gólfinu og ég þakkaði öllum góðum vættum fyrir að það skyldi ekki brotna.

Fór aftur upp í rúm. Var alveg að festa svefn þegar ég hrökk upp við þetta:

Rakel: 'Mammmmíííí.'

Ég (þolinmæði mín á þrotum):'Já, Rakel Silja.'

Rakel: 'Ég þarf að fara á klóstið'.

Ég: 'Farðu þá á klósettið'.

Ég rak Hrund á fætur að skeina hana. Og táraðist þegar vekjaraklukkan hringdi. Hvernig verður þetta þegar ég verð gömul kona? Það er alveg sama hversu þreytt ég er ég sef alltaf illa. Eða næstum því alltaf. Aumingja ég.

Það var spilakvöld hjá vinnufamilíunni á föstudaginn. Gyða var gestgjafi að þessu sinni og stóð sig vel. Við borðuðum og spjölluðum og bjuggum svo til mojito með ferskri myntu úr gróðurhúsi tengdó. Mjög ljúffengt. Trivial var upphitunarspil en Partý og co. aðalspilið. Þrátt fyrir fögur fyrirheit og heilmikið áfengi í blóði mínu hrökk ég í algjöran baklás í spilinu og gat hvorki leikið, hummað, mótað, né teiknað. Mér fannst þetta svo erfitt að mig langaði heim á tímabili (þessi feimni er svakaleg). Mér tókst reyndar einu sinni að teikna en Gyða (greyið var með mér í liði) var ekki nálægt því að finna út úr krotinu mínu. Þrátt fyrir þetta unnum við tvo leiki af þremur svo þetta var ekki alslæmt. Við fengum líka allar mesta hláturskast sem nokkurn tíma hefur fæðst í vinahópi (bara hlýtur að vera). Við öskruðum úr hlátri og köfnuðum næstum því og er það allt Kristínu að þakka sem kom með svo sjúklega fyndið 'gisk; þegar Hlíf var að reyna að túlka 'kabarett'.

Svo rústaði ég Hlíf og Gyðu í sjómann.

Helgin hefur bara ekki farið í neitt nema rólegheit. Ég fékk að sofa út á laugardaginn (gafst nú frekar snemma upp á því að reyna að sofa). Við mæðgur þrjár horfðum á leikinn og ég var í mestu vandræðum með sjálfa mig. Ég blótaði svo mikið sem er ekki gott þegar krílið fylgist með. Ég afsakaði mig í bak og fyrir allan leikinn og gormurinn hló að mér! Henni fannst þetta bara ýkt fyndið.

Innskot: Ohhhhh. Það var verið að biðja okkur um að hafa lágt þar sem sumarpróf eru í gangi núna. Hverslag eiginlega skíta vinnuaðstaða er þetta eiginlega? Ég skil eiginlega ekki að við skulum láta bjóða okkur þetta. Við höfum ekkert afdrep og þurfum að nota almenna tölvurýmið. Í sumar hafa verið endalaus námskeið og læti og svo er það bara annað fólk sem má vera með læti, ekki við. Við eigum bara að halda kjafti. Og svo get ég ekki einu sinni skilið tölvuna eftir þegar ég fer í mat og kaffi heldur þarf að burðast (já burðast, tölvan er hundgömul og þung eftir því) með hana á bakinu út um allt eins og einhver fáviti. Já, ég er bara öskuvond yfir þessu.

Allavega. Hrund og Rakel tóku hús á ömmu Sillu á meðan ég lagði mig. Ég tók svo á móti þeim með sítrónukjúlla og ís og jarðaberjum í eftirrétt. Sunnudaginn fékk Hrund fyrir sig, hún svaf, fór í einhverjar smíða- og föndurbúðir, til mömmu sinnar og loks til Ölbu vinkonu sinnar. Við Rakel fórum til mömmu og höfðum það gott. Ég eldaði til þess að róa taugar og sál, las Harry Potter af áfergju og spjallaði um allt við ömmu sem er best í heimi.

Já, ég er genginn í ókeypis bókaklúbbinn Gyðu. Ég get fengið eins og eina til tvær bækur í viku lánaðar sem er frábært. Ég veit nú ekki hvort Gyðu er skemmt en hún getur alltaf neitað mér áskrift.

Svo er krílið að fara í þriggja og hálfs árs skoðun á morgun. Það verður gaman að sjá hvar hún er á kúrfunni, sérstaklega hvað varðar hæð. Hæð hennar er ekki í neinu samræmi við mína enda kom hún ekki út úr mér og hefur ekki mín gen í sér. En það er allt í lagi. Hún er lík mammí sinni í anda.

Núna er þessi færsla orðin óhóflega löng. Verð samt að láta ykkur hlusta á æðislega söngkonu, ADELE. Ég hreinlega dýrka hana. Uppgötvaði hana á Malarrifi og hef hlustað á hana síðan. Hún er með geggjaða rödd og hér er uppáhaldslagið mitt með henni:

Þetta er nátla ekkert myndband en þið getið hlustað á lagið. Hér er annað mjög gott lag með henni og þar sjáið þig hana sjálfa betur:

Finnst ykkur hún ekki góð?

Jæja, það líður að kaffi. Fáið ykkur kaffi, lesið og hlustið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ha? Unnuð þið tvo leiki af þremur? Mér finnst eins og við Kristín höfum unnið alla leikina...

Þú fékkst nú líka mjög erfitt orð til að teikna:)

Hlíf 18.8.2008 kl. 11:08

2 identicon

Hahahaha... Ég fór að skellihlæja ein með sjálfri mér þegar ég rifjaði upp gremlins dansinn hennar Hlífar! Ég var næstum dáin úr hlátri! Engar áhyggjur Díana mín, þú verður ekki rekin úr bókaklúbbnum, mér finnst bara gott að einhver sé að lesa bækurnar mínar :)

Gyða 19.8.2008 kl. 16:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Díana Rós og Hrund og dæturnar Rakel og Röskva
Díana Rós og Hrund og dæturnar Rakel og Röskva
Hér skráir Díana Rós fyrir hönd litlu fjölskyldunnar hinar ýmsu athafnir hennar og deilir með ykkur sögum úr stelpukotinu þeirra í Skipasundi

Myndaalbúm

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 56513

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband