Stjörnumerki

Mikið óskaplega er gaman að velta stjörnumerkjum fyrir sér. Ég prófaði að para mitt merki (hrútinn) saman við öll hin merkin á mlb.is til þess að komast að því hvernig ég og fólk í öðrum merkjum ættum saman.

Þetta erum við Hrund:

'Hrútur og Naut eiga það til að festast saman á hornunum og þá er aldrei að vita hvernig fer. Hrúturinn sést ekki fyrir og hvikar ekki frá fyrirætlunum sínum, en Nautið er ennþá þrjóskara og lætur ekki haggast, hvað sem á dynur. Ef Hrúturinn beitir persónutöfrunum, getur hann yfirleitt fengið Nautið til að gleyma að því mislíkar við hann, en hjónaband verður aldrei átakalaust.'

Hahahahahaha. Ég las þetta fyrir Hrund sem hló við og sagði mér svo bara að gleyma því að reyna að hafa einhver áhrif á hana með persónutöfrum, það myndi ekkert ganga. Nei, nei, það á bara að valta yfir mann. Aldrei átakalaust. Je minn eini. Svo er yngri brósi minn líka naut og aldrei nokkurn tíma hef ég lent í veseni með þann fullkomna og yndislega dreng.

Við tengdó erum báðar frábærar og ákveðnar konur og held ég að það hafi tekið okkur báðar nokkurn tíma að átta okkur hvor á annarri. Held líka að við höfum komist að því að við gætum skemmt okkur vel saman og núna finnst mér traust og einlægni einkenna okkar samband. Hér erum við:

'Hér rekast saman eldur og vatn, svo fullrar aðgátar er þörf. Hrúturinn verður að umgangast Sporðdrekann af fullri virðingu og tillitssemi og draga úr meðfæddum eldmóði sínum og Drekinn verður að reyna að vera heiðarlegur og hreinskilinn. Það er ólíklegt að fólk í þessum merkjum geti eignast langvarandi og traust samband, til þess er eðlið of ólíkt.'

Ég er alveg sammála því að hér rekast eldur og vatn saman. Og þvílíkt fjör sem fylgir því. Það getur vel verið að það hentaði mér ekki að giftast sporðdreka en tengdó er sporðdreki að mínu skapi.

Þetta fann ég um mig og Oddnýju bestu vinkonu:

'Hrútur og Tvíburi eru alltaf að þræta, en það er kannski meira í nösunum á þeim, því báðir eru fljótir að fyrirgefa og gleyma öllum rifrildum. Þessi tvö merki laðast yfirleitt hvort að öðru og finna til sterkrar samstöðu. Hjónabandið gæti orðið gott, því báðum finnst hinn aðilinn skemmtilegur, spennandi og indæll, en hrútnum gæti þótt kynlífið heldur leiðigjarnt og tvíburinn of málglaður í bólinu!'

Þetta á bara mjög vel við okkur. Já, já, já. Það hefur nú ekkert reynt á bólfimina svo við losnum við leiðindin sem væntanlega fylgdu því.

Ég sá líka og að ég og Hlífin eigum vel saman en það hef ég nú alltaf vitað (ertu ekki örugglega vatnsberi Hlíf?):

'Vatnsberi og Hrútur heillast hvor af öðrum, enda trúa báðir statt og stöðugt á framtíðina. Báðir eru trygglyndir og öll sambönd þeirra á milli ættu að verða djúp og einlæg, hversu lengi sem þau endast. Hvorugur veltir sér uppúr gömlum misklíðarefnum og samkomulagið er yfirleitt mjög gott.'

Ég veit nú ekki alveg hvort þetta á við mig og papito en kannski væri allt öðruvísi ef ég hefði alist upp hjá honum. Okkar samband verður samt alltaf betra með árunum og hann er nú meira krúttið. 

Síðast en ekki síst, ég og mamman mín:

'Eins og allir vita, laðast andstæður hver að annarri, svo það er ekki að furða að Hrútur og Krabbi felli oft hugi saman. Hrúturinn vill auðvitað vera sá sem ræður í sambandinu og hinn ofurviðkvæmi Krabbi lætur sér það vel líka - upp að vissu marki. Hrútur og Krabbi geta verið ágætis vinir, en ef til hjónabands kemur, er einungis um tvennt að ræða: Gullbrúðkaup eða skilnað aldarinnar!'

Við andstæðurnar höfum nú oft æst okkur hvor við aðra en mamma er gull og samband okkar á ekki eftir að enda með neinum skilnaði. 

Ég ætla nú ekkert að setja allt inn. Veit núna að ef ég vil lifa brjáluðu og villtu kynlífi (sem ég myndi nú engan veginn nenna að standa í) þá ætti ég að gera mér dælt við ljón.

Samkvæmt mbl. is eru þau tvö merkin sem eiga einstaklega vel við mitt, annað er vog:

'Hrútur og Vog eru eins og sköpuð fyrir hvort annað! Blíðlyndi og sáttfýsi Vogarinnar hefur róandi áhrif á eldseðli Hrútsins, en hann þarf aftur á móti að læra að beita Vogina ekki yfirgangi, því þá er hún vís með að fara. Þessi tvö merki laðast strax hvort að öðru og öll sambönd geta orðið langvarandi og traust, jafnt í ástum og starfi.'

Ég bara veit ekki hvort ég þekki einhverja vog! Man reyndar hvorki í hvað merki Kristín í vinnufamilínunni né Tinna Rós eru í. Verð að komast að því. Hitt merkið er bogmaður:

'Bogmaður og Hrútur eiga margt sameiginlegt. Báðir eru heiðarlegir og hreinskiptnir, hafa gaman af íþróttum og eru gæddir mikilli athafnaþrá. Sambönd milli þeirra einkennast eflaust af háværum deilum og kappræðum um allt milli himins og jarðar, en báðir hafa gaman af slíku. Þessi tvö merki eiga einkar vel saman og öll sambönd þeirra á milli væru báðum til ánægju.'

Ég þekki slatta af bogmönnum og allt er það fólk sem mér þykir mjög vænt um og met mikils. Litla sys t.d., Arna æskuvinkona, barnið mitt einasta, Gyða, Davíð frændi ... Auk þess var fyrsta ástin mín bogmaður og okkar samband var æði. Það var æðisgengið, æðislega skemmtilegt og við vorum æðislega klikkaðar. Ef við hefðum ekki verið pínu ruglaðar hefði það bara verið frábært (þú veist hver þú ert!!!).

Mig langar rosalega að láta gera stjörnukort fyrir mig ... 

Annars gifti ég mig varla eða hvað? Kvænist ég ekki? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband