Sáuð þið ...

... heimildarmyndina um nunnuna í gær? Hún var mjög áhugaverð. Þegar ég var yngri velti ég því, án gríns, stundum fyrir mér að ganga í klaustur. Ég er svo sem alveg nógu trúuð til þess en það er erfitt að flokka mína trú undir einhver ákveðin trúarbrögð svo ég vissi ekki alveg í hvað klaustur ég ætti þá að ganga. Fyrir mér var þetta bara svo tilvalin leið til þess að þurfa ekki að takast á við lífið sem var að sliga mig.

Ég geri mér grein fyrir því að það er ekkert grín að eyða lífi sínu í klaustri. Þú þarft að vera virkilega sterk manneskja til þess að vera í klaustri eins og stelpan í heimildarmyndinni: mátt bara tala í klukkutíma á dag, hitta fjölskylduna þín sjö sinnum ári (með rimla á milli ykkar) og mátt aldrei aldrei aldrei fara út fyrir klaustursveggina. Þvílík einangrun og ærandi þögn.

Hins vegar þarftu aldrei að takast á við svo margt sem fylgir hinu daglega lífi. T. d. ástina. Og þá meina ég ekki ást til fjölskyldunnar þinnar heldur ástina sem fylgir því að vera ástfangin. Nunnan sagði að við værum sköpuð til að vera með annarri manneskju, að það væri ákveðið svigrúm í sálinni fyrir aðra mannesku en nunnur tileinkuðu guði þetta svigrúm. Ég er sammála því að við erum sköpuð til að vera með annarri mannesku, hvort sem það er í stuttan tíma eða alla ævina. Það hlýtur að vera, annars væru tilfinningarnar sem fylgja því að vera ástfanginn ekki svona sterkar. Eða er það bara ég sem verð svona ofsalega ástfangin?

Þótt það geti verið erfitt að finna að guð gefi þér allt til baka og miklu meira en það sem þú fórnar fyrir hann með því að ganga í klaustur þá ímynda ég mér að það sé miklu erfiðara að eiga við manneskju af holdi og blóði. Þola höfnun, svik, trúnaðarbrest, niðurlægingu. Eða þá að ástin er endurgoldin og hún lyftir þér hærra en nokkuð annað, svo hátt að ef hún brestur getur fallið verið banvænt.

Ef þú eyðir öllum tíma þínum í að biðja til guðs hefurðu þá tíma til þess að hugsa illa um þig sjálfan? Ef ég gengi í klaustur myndi ég þá vakna á morgnana og skammast mín fyrir líkama minn eða eitthvað sem ég sagði? Ef ég væri fullkomlega sátt við þá ákvörðun mína að verða nunna væri ég þá fullkomlega sátt við lífið sem ég lifði?

Ef ég þyrfti ekki á peningum, vinnu, vinum, íbúð, bíl, fatnaði, kynlífi, ást að halda væri þá eitthvað eftir til þess að hafa áhyggjur af?

Ég myndi ekki vilja skipta. En stundum myndi ég vilja fá að kíkja í heimsókn í klaustur í viku og hvíla mig.

Annars sagði vinkona mín við mig í gær að ein tilfinning útilokaði ekki aðra. Mikið svakalega er þetta vel orðað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband