Pínu kreppukvíði

Ég er nú ekkert að stressa mig í hel yfir þessu öllu saman þar sem það er lítið sem ég get gert nema taka einn dag í einu, hætta að kaupa lífrænt og hafa kjötfars einu sinni í viku.  Ef ég eyði tíma í að velta þessu fyrir mér verður mér samt óglatt. Nú erum við Hrund að borga af bíl og íbúð og hafa afborganirnar alltaf verið alveg nógu háar, við höfum ráðið við þær og samt átt pening eftir en það verður mjög erfitt að borga af þessu ef afborganirnar rjúka upp úr öllu valdi. Þar sem við lifum að öllu leyti mjög sparsömu lífi er ekki mikilla breytinga þörf. Gætum drukkið minni bjór og djammað minna. Kostnaði við jólagjafir verður haldið í lágmarki og mikið af þeim verða heimatilbúnar.

Það er bara svo hryllilegt að þjóðin skuli vera gjaldþrota. Hver ætlar að lána okkur og hver í ósköpunum verða skilyrðin? Ég er skíthrædd við þessi skilyrði. Allur gróði í þjóðfélaginu er einkavæddur og svo tekur ríkið við gjaldþrotinu. Það sem ég er hræddust við er atvinnuleysið. Hvað ef útlendingarnir sem lán okkur vilja losa sig við alla ríkisstarfsmenn sem þeim er alveg sama um? Mamma og co. rekin. Hvað ef Hrund og þau á verkstæðinu fá ekkert að gera? Allt í steik. O.s.frv. Og ég er ekkert bara að hugsa um mig og mína heldur alla. Ríkið verður auðvitað að gera eitthvað, það er ekki hægt að láta allt fara á hausinn. Eins og mamma segir er ótrúlega klikkað að brjáluð neysla skuli skila hagvexti. Svo þegar enginn hefur efni á neinu lengur þá stöðvast allt og það má ekki gerast núna. Hvað verður um námslánið mitt? Mun ég kvíða hverri einustu afborgun að loknu námi?

Það er spurning um að flytja til Svíþjóðar eftir BA-námið ef þetta verður enn þá svona. En þá verðum við nú að geta keypt gjaldeyri ...

Sick Óglatt

Að öðru. Önn hálfnuð, búin að vera brjáluð, á eftir að verða enn þá meira kreisí.

Ótrúlega merkilegt að eftir því sem Rakelita verður eldri því meira þarf hún á mæðrum sínum að halda. Áður voru það bara grunnþarfir, peli, bleiuskipti, bað, snerting. Núna má hún bara ekki af okkur sjá. 'Er mamma heima, hvar er hún, hvenær kemur hún, af hverju er hún ekki heima, af hverju er hún ekki komin, hvað er klukkan, klukkan hvað kemur mamma ...?' Svo þegar ég fer í ræktina: 'Hvert ertu fara, er mamma að fara með þér, má ég koma með, ég vil koma með búhú, hvenær kemurðu aftur, verð ég sofnuð, verðuru hérna þegar ég vakna, af hverju ertu alltaf að fara ...?' Hún vill hafa okkur báðar hjá sér og þótt hún sé ótrúlega dugleg að dunda sér þá þarf að passa að veita henni 100% athygli í X-langan tíma á hverjum degi eftir leikskóla og leika við hana.

Var að tala um þessi merkilegaheit við mömmu og þennan 'hvert ertu að fara ekki skilja mig eftir-kvíða'. Mamma rifjaði þá þá upp þegar hún fór til Finnlands í vinnuferð og Elísabet fallegasta Rósin var tæpra fjögurra ára. Barnið var skelfingu lostið yfir því að mamma væri að yfirgefa hana og þrábað hana að gleyma því ekki í útlöndum að hún ætti börn. Barnið var ekki alið upp í öryggisleysi og aldrei nokkurn tíma hafði mamma skilið hana eftir.

Við Hrund pössum því að veita Rakel alla þá umhyggju og ást sem hún þarf. Ég hef farið í seinna lagi í ræktina á þriðjudögum og jafn vel sleppt henni á fimmtudögum til þess að við gætum átt góða stund allar saman. Rakel er ekki alveg að fíla það að bara önnur sé heima og hin í kvöldskóla eða ræktinni.

Í gær ákvað ég að það besta við kreppukvíðanum væri að sækja Rakel snemma og dúlla mér með henni. Náði í hana upp úr þrjú og við hófumst handa við að baka. Gerðum nokkurs konar eplaböku úr lífrænum höfrum og hrásykri. Rakel fékk að hnoða smjöri út í þetta og raða eplum ofan á og var alsæl. Ég bjó svo til gartöflugratín og sallat og skellti svína-einhverju inn í ofn. Ég er að segja ykkur, ef maður gramsar nóg í Bónus þá finnur maður góðan kreppumat. Fann til dæmis þessi svínabuff falin í einhverri hillunni, voru þrjú í pakka og á 40% afslætti svo á endanum borgaði ég 200 kr. fyrir þau. Og þau voru mjög góð. Við höfðum meira að segja djús með matnum í tilefni dagsins og skemmtum okkur vel yfir þessum veislumat. Eftir hann komum við okkur allar fyrir upp í sófa og undir sæng og horfðum á Kirikou og villidýrin, yndisleg mynd um lítinn strák í Afríku. Og Rakel átti varla til orð yfir því að vera að horfa á baratímann í miðri viku (hún fær bara að horfa um helgar hér heima núorðið og gerir enga athugasemd við það). Við fengum okkur svo eplaböku og ís í eftirrétt, Rakelin fór í sturtu með mömmu sinni og fékk svo sögu, söng, bænir og koss hjá mér.

Það er svo fyndið hvað Rakel hefur gaman af því að láta mig leika fyrir sig. Hún dýrkar þegar ég segi henni sögur með tilþrifum og þá sögur sem ég segi en les ekki eins og Geiturnar þrjár og þvíumlíkt. Svo á hún þrjár músabækur sem eru ekki með neinum texta en í hverri bók er ákveðið þema (langt síðan bækurnar komu út, mörg ár). Í gær las/lék/skáldaði ég bókina um litina. Barnið mitt var eitt bros allan tímann og hló og skríkti, henni finnst þetta það besta í heimi. Og aumingja þeir sem reyna að leika þetta eftir, hún til dæmis leiðréttir mömmu sína alltaf þegar hún er að reyna að leika þetta fyrir hana: 'ekki soooona, mammí gerir aldrei sona ...'

Þegar ég þarf ekki að mæta eldsnemma í skólann leyfi ég Rakel að vekja mig. Hún er eins og klukka og vaknar alltaf rétt um átta. Þar sem hún þarf á svo mikilli mömmuást að halda þessa dagana er hún farin að skríða upp í mömmuholu (mamman þá farin á fætur og er á leið í vinnu) og nudda sér upp við mig. Stríkur köldum tám eftir lærinu á mér, vefur liltum handleggjum um hálsinn og mér og kemur höfði fyrir í hálskoti. Besta vekjaraklukka í heimi.

Áðan var hún að kyssa mömmu sína bless og að kossi loknum sagði hún:´Þetta var nú blautur koss'. Ég veit ekki af hverju henni finnst mömmukossar okkar svona oft blautir en hún segir þetta líka oft á leikskólanum, hátt og snjallt. Pínu vandræðalegt þegar hún talar um þessa blautu kossaBlush

Jæja, þá er ég búin að svara spurningum úr þeirri mest brútal, spænsku mynd sem ég hef séð. Ætla að fara að lesa bók fyrir spænsku áður en ég fer í skólann.

Í dag held ég svo að það eina í stöðunni sé að fara í partý. Svei mér þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband