Vor og strigaskór

'Er komið vor mammí' vildi ungi vita í gærmorgun.

'Já, það er það nú eiginlega.'

'Má ég þá ekki fara í nýju strigaskónum' sagði hann spenntur.

Úps. Ég hafði víst sagt í hálfkæringi að þegar vorið kæmi mætti hún fara í strigaskónum, ég hafði gleymt því en barnið með límheilann ekki. Ég gat sannfært hana um að bíða ögn lengur, meira vor og strigaskór vær handan við hornið.

Laugardagurinn okkar var kósý. Eyddum honum í búðarráp með tengdó og enduðum svo í mat hjá mömmu. Á sunnudaginn var það ferming fyrir austan, ekki beint uppáhaldið mitt en veislan var ágæt bara. Veðrið var guðdómlegt og Rakel skottaðist úti með afa Þóri.

Ég og Hrund veltum fremingunni hennar Rakelar fyrir okkur og fengum hnút í magann, þyrftum við að bjóða hálfu Íslandi? Ég vona innilega að hún fermi sig ekki, við mæður erum ekki einu sinni í þjóðkirkju og þar sem það er búið að ferma systkini mín á ég ekki von á því að fara í kirkju næstu árin, vil ekkert með hana hafa né það sem hún stendur fyrir. Við Hrund trúum á eitthvað æðra manninum, einhvern alheimsanda og miðlum þeirri trú til Rakelar. Hún kann nokkrar bænir sem fela í sér ósk um vernd á næturnar en eru ekki guði til lofs og dýrðar. Ég er ekki hrifin af faðirvorinu af þeim sökum. Eignumst við Hrund fleiri unga verða þeir ekki skírðir höfum við ákveðið, vil ekki hafa mína unga í söfnuði. Ég réði víst litlu um Rakel svo hún er í þjóðkirkjunni, hún getur þá breytt því seinna ef hún vill. Skipulögð trúarbrögð og rit eins og Biblían mættu hverfa fyrir mér og ég held að fólk ætti að vera meðvitaðra um hvað skírn og ferming felur í sér. Fólk setur sig oft á háan hest og dæmir t.d. múslima og hversu samofið allt þeirra líf er trúnni. En hvað með kristna trú, hún loðir við ALLT í okkar samfélagi og ekki á góðan hátt finnst mér.

En nóg um þetta í bili. Sem betur fer eru 10 ár í fermingu Rakelar. Eða ekki.

Við tókum einn rúnt í IKEA eftir fermingu og keypt sitthvað til að fegra heimilið. Borðuðum ódýran kvöldmat í kaffeteríunni og fórum svo heim að skreyta fyrir páskana. Eða Rakel. Hún hoppaði um af spenningi, hvað þá þegar við fórum út að klippa greinar sem við settum svo í vasa og hún fékk að skreyta. Henni fannst 'yndislegt að skutlast svona út' tilkynnti hún. Um kvöldið las ég langa bók sem af einhverjum sökum hafði týnst í bókaflóðinu í hillunum hennar. Mikið fjör að lesa nýja bók. Svo sagði ég henni frá páskaegginu sem hún fengi frá mæðrum, pappaegg og inni í því væru hin ýmsu leyndarmál. Það síðasta hvíslaði ég og augun í barninu urðu eins og undirskálar. Hún vildi endilega leita úti að egginu svo ætli við mæður 'skutlumst' ekki út og felum eggið plús einhver fleiri lítil sem verða eingöngu fyllt rúsínum. Í stóra egginum verður líklega lítið súkkulaðiegg í álpappír, rúsínur og múmínálfakex, jafnvel eitthvað lífrænt nammi án sykurs að sjálfsögðu.

Krílið verður hjá pabba sínum yfir páskana en við fáum hana á annan í páskum og höldum okkar páska þá. Verðum með góðan mat, páskaeggjaleit- og át. Við tókum þá ákvörðun fyrir einhverjum árum að vera alltaf bara heima á páskunum, á jólunum reynum við að heimsækja fjölskyldur okkar og fá í heimsókn og skipta okkur samviskusamlega á milli en á páskunum erum við bara þrjár. Við Hrund ákváðum að borða á páskadag í sitthvoru lagi og hjá okkar mæðrum, verður gaman að breyta til og prófa það. Og vá hvað ég hlakka til að borða páskaegg. Hrund keypti eitthvað risaegg handa okkur í vinnunni sem er víst stútfullt af nammi. Jeij.

Ætla að skila spænskuritgerð á morgun og um eða eftir páska fer ég að einbeita mér aftur að BA-ritgerðinni. Ég næ nú líklega ekki að klára hana fyrr en í sumar en betra er seint er aldrei.

Þetta er allt að koma.

(Sem er bæ ðe vei titill á bók eftir Hallgrím Helgason sem allir verða að lesa).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þetta kólus-egg? sem þið Hrund eigið?

Heldurð'að þið sleppið nokkuð við að halda fermingu? Börn sem vilja ekki fermast í kirkju fermast bara borgaralega. Eða það gera allavega þau börn sem ég þekki. Og bara gott um það að segja, að mínu mati:) Er ekki bara gaman að þurfa einu sinni að halda stóra veislu og bjóða hálfu Íslandi? Þið getið byrjað að safna núna:)

Vinkona mín fékk alltaf svona pappaegg sent frá pabba sínum í Noregi. Það fannst mér mjög kúl.

Hlíf 7.4.2009 kl. 11:25

2 identicon

Skírn og ferming og æðri máttarvöld.

Held að vísan sem ég skrifaði inní kortið hans Tristan eigi alltaf við

Trúðu á tvennt í heimi

tign sem æðsta ber

guð í alheimsgeimi

guð í sjálfum þér.

Ég held að það sé engu barni til ills eða slæms að vera skírt. Það er svo alfarið barnið sjálft sem hlýtur að ákveða hvort það vill fermast eða ekki. Það eru nú 10 ár í það að Rakel komist á fermingaraldur svo ég held að það sé algjör óþarfi að vera að velta sér mikið upp úr því. Borgaraleg ferming er það mesta bull sem ég veit. Ferming er staðfesting skírnarinnar og ákvörðum um hvort barn vill tilheyra kristinni trú eða ekki. Borgaraleg ferming er bara til að fá gjafir, það er allavega mín tilfinning og skil ekki alveg að fólk sem sér ekkert athugavert við hana. 

Og Biblían er nokkuð góð bók. Það er svo annað mál hvernig hún er túlkuð. Ég er t.d. algjörlega á öndverðum meiði við Gunnar í Krossinum sem túlkar biblíuna á sinn hátt og telur að samkynhneigð sé eitthvað sem ekki er Guði þóknanlegt. Í mínum huga er Guð ekki einhver kall á himnum heldur það góða í manneskjunni og fyrirgefningin er það stærsta sem kristin trú hefur gefið okkur því án fyrirgefningar liði okkur ansi illa.

Öfgar í trú leiða aldrei til neins góðs og ég held að Jesús Kristur og Múhammeð hafi hvorugur búist við eða ætlast til þess að orð þeirra væru túlkuð eins og þau eru túlkuð á mörgum stöðum í heiminum í dag. Ég held að það standi hvergi í kóraninum að karlar eigi að kúga konur sínar t.d. Og flest stríð heimsins hafa verið háð í krafti trúarinnar því miður. Öfgar geta aldrei leitt til neins góðs.

Það er gott fyrir alla að eiga þá trú að eitthvað sé æðra manni sjálfum og það er gott að hafa bænina sem hjálpar á erfiðum stundum.

Og ég held að fólk sé nokkuð meðvitað um hvað skírn og ferming er. Og íslenska þjóðkirkjan er ekki það versta sem til er. Ef þú tilheyrðir kaþólsku kirkjunni eða múslimatrú held ég að þú fengir aldrei að gifta þig í kirkju. Að þessu leyti er Ísland fremst í flokki. Ekki í nokkru landi öðru svo ég viti til er samkynhneigðum leyft að gifta sig í kirkju eða gifta sig yfir höfuð, ættleiða börn eða eignast börn eftir öðrum leiðum.

 Og SPRON var alveg jafnspillt og hinir bankarnir. Ástæðan fyrir því að þeir voru yfirteknir var vegna 13 MILLJARÐA arðgreiðslna til örfárra stofnfjáreigenda og svo koma þeir vælandi og vilja fá 11 MILLJARÐA til að redda rekstrinum. Held að SPRON sé komið í góðar hendur hjá MP banka sem einn fárra banka var ekki í þessari græðgi og útrás eins og hinir bankarnir. Bara að bíða róleg eftir því að FME samþykki kaupin og þá getur þú farið aftur yfir til betri og heiðarlegri banka.

Nóg í bili af rausi.

Luv ya

Tengdó

Tengdó 7.4.2009 kl. 12:21

3 identicon

Er hægt að vera kristinnar trúar án þess að vera hluti af söfnuði og eiga sér kirkju? Ef svo er ætti borgaralega ferming að ganga upp. Þá gætu börn staðfest sína trú óháð einhverjum söfnuði. Hvort það er hægt veit ég ekki og sjálf veit ég ekki svo sem hvort ég er ákveðinnar trúar, ég trúi á alheimsandann og hann er ekkert frekar kristinn en eitthvað annað. Ég vel þessar bænir og kenni barninu en ég gæti svo sem bara samið bæn sjálf og kennt því, hitt var bara handhægara þar sem ég er alin upp í kristnu samfélagi hvort sem mér líkar betur eða verr. 

Ég myndi hins vegar aldrei gifta mig í kirkju. Málið er að andúð mín á kirkjunni hefur bara eiginlega ekkert með samkynhneigð að gera og er t.d. ekki ástæðan fyrir því að ég sagði mig úr henni, ég var búin að ákveða að gera það löngu, löngu áður en ég áttaði mig á samkynhneigð minni og fór eitthvað að pæla í réttindabaráttu samkynhneigðra. Mér fanns afstaða kirkjunnar til samkynhneigðar ekkert skrítin þar sem Biblíian er helsta rit hennar. Ég sagði mig fyrst og fremst úr kirkjunni þar sem mér dettur ekki í hug að borga til kirkjunnar, þá peninga vil ég fá í Háskólann. Í leiðinni fannst mér gott að segja mig úr því kristna samfélagi sem ég var skírð inni í, ég er ekki hrifin af því og líður betur að vera ekki í því, það þýðir ekki að ég sé trúleysingi. Það þýðir meðal annars að ég vil ekki vera hluti af samfélagi þar sem vitnað er í Biblíuna og sögur úr Gamla testamentinu sagðar í barnamessu. Mér finnst trúarrit óþarfi í trú þótt Biblían sé stórkostleg söguheimild og einmitt bara það fyrir mér. Það er frábært að samkynhneigðir megi gifta sig í kirkju, sjálfsagt að hafa möguleikann og ég held að það hafi fyrst og fremst fengist í gegn vegna viðhorfs fólks í landinu sem segir okkur það sem flestir vita að Íslendingar eru ekkert bókstafstrúarfólk og allt og gott og blessað með það.

Ég efast líka um að skírn hafi gert nokkru barni eitthvað slæmt en hefur það að vera ekki skírt gert því eitthvað frekar? Af hverju ekki að gefa barninu val seinna? Ég vil að minnsta kosti gera það. Hins vegar held ég að fólk sé alls ekki nógu meðvitað um hvað skírn er, ég veit t.d. ekki hversu stór hluti fólks heldur skírnina vera nafngiftina sjálfa og talar um börn hafi verið skírð einhverju nafni. Þau hafa væntanlega verið nefnd og svo skírð, engan veginn sami hluturinn. Og ég veit ekki hversu marga ég þekki sem segja að ef fermingaraldurinn væri 16 ára eða eldir þá hefðu þeir ekki fermt sig, hópsálin er oft ekki alveg eins sterk í eldri börnum og þau færari um að taka sjálfstæða ákvörðun. Ég hefði t.d. ekki fermt mig þrátt fyrir að ég sé trúuð en fyrir mér kom ekki annað til greina þegar ég var þetta 14 ára peð.

Það er allt í lagi að vera ósammála, við getum verið sammála um það, börnum fylgir ábyrgð og ákvarðanataka og ég geri það sem ég, og við Hrund,  teljum best fyrrir okkar börn. Þótt kirkjan hér og trúabragðaiðkun sé kannski skömminni skárri en í öðrum löndum þá felur úrsögn mín úr þjóðkirkjunni að hluta til í sér mótmæli gegn skipulögðum trúarbrögðum og stríðum háðum í þeirra nafni. Ég vil ekki vera hluti af þessu punktur.

Og með bankana. Eins og ég sagði sjálf er þetta meira og minna allt sama drullumallið og ég tel SPRON langt í frá heilagana banka. En ég líð það ekki að sitja hjá þjónustufulltrúa Kaupþings, sem er klæddur fötum og glingri sem kostar líklega meira heldur en öll mín föt samanlagt, og hlusta á hann gera lítið úr SPRON. Hvurslags vinnuhættir eru það eiginlega? Og það eru fleiri en ég sem hafa kvartað yfir orðum starfsfólks KB banka í garð SPRON, það er alveg á hreinu. Ég fer ekki ofan af því að KB banki var hvað mest í útrásinni og ætti að passa hrokann þegar hann fer að setja út á SPRON. Og það við fyrrum viðskiptavini. Ég vil ekki vera í viðskiptum við banka af því tagi.

Yfir og út.

dr 7.4.2009 kl. 14:59

4 identicon

Þetta hljómar eins og hitamál miðað við lengd kommentanna:)

Um borgaralegu ferminguna vil ég segja þetta: Jú, auðvitað er þetta rangnefni, þetta er auðvitað ekki staðfesting á skírninni eða trú, þar sem borgarlega fermingin hefur bara ekkert með trú að gera. Og jú, ég er líka sammála því að borgarlega fermingin sé aðallega til að krakkarnir fái gjafir... en kirkjufermingin snýst nú ansi mikið um gjafirnar líka. Mig grunar að fermingabörnin væru ansi mikið færri ef ekki væri hefð að gefa svona fínar fermingargjafir.

Ég sé ekkert að því að veita þennan valkost: Að fermingarbörn hafi fleiri en tvo valkosti: að staðfesta trú sína (á einhverju sem þau hafa kannski ekki trú), eða missa algjörlega af þessum atburði, gjöfunum og því öllu saman, en ferming er gríðarlegur félagslegur viðburður fyrir krakka. Að sleppa því bara að fermast er ROSALEG ákvörðun ... jafnvel þó að fermingarbarnið sé kannski algjörlega trúlaust.

Ferming gegnir í þjóðfélagi okkar ekki bara þessum trúartilgangi (þó að hún ætti að gera það), þetta er einhverskonar manndómsvígsla, vígsla inn í fullorðinna manna tölu (kannski að litlu leyti samt). Borgarleg ferming þjónar þessum tilgangi. Á námskeiðinu fyrir borgarlega fermingu fá börnin líka ýmiskonar fræðslu (tekið af heimasíðu siðmenntar: Meðal annars er fjallað um mannleg samskipti, siðfræði, að taka ákvarðanir, um mismunandi lífsskoðanir og lífsstíl, trúarheimspeki, tilfinningar, skaðsemi vímuefna, ofbeli og einelti, samskipti kynjanna, hvað gefur lífinu gildi, í hverju hamingjan felist, að bera virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu og að vera unglingur í auglýsinga- og neyslusamfélagi). Mér finnst þetta eiginlega mun mikilvægari hlutir heldur en kristinfræðsla...! (þó að prestarnir fjalli örugglega um sumt af þessu líka í fermingarfræðslunni).

Af þessum ástæðum finnst mér borgaraleg ferming eiga fullkomlega rétt á sér, til jafns við venjulega fermingu. Hins vegar finnst mér fermingar yfir höfuð of yfirdrifnar og krakkarnir fá allt of stórar gjafir!:)

Ég held, eins og þið segið að það geri engu barni illt að vera skírt, né heldur að vera ekki skírt. Ég hugsa samt að ég lendi í svolítilli krísu ef ég (vonandi) eignast einhvern tíman börn. Ég er trúlaus sjálf, en mér finnst erfitt að ákveða að skíra ekki barn... þetta er eitthvað svo samofið menningunni og mér finnst athöfnin sjálf falleg. Og ég er svosem alveg sammála mörgu í kristinni siðfræði... ég er bara á móti trúarbrögðunum sjálfum.

Æ, þetta varð líka langt hjá mér:)

Hlíf 7.4.2009 kl. 16:40

5 identicon

ok er þetta annað blogg ?????

er ekki Hrund örugglega enn að vinna í leikskóla ??? og eru leikskólarnir orðnir páskaeggjasölustaðir?

Nenni ekki að röfla neitt.. hvað þá um trúmál....allt fellst þetta bara í því að virða skoðanir og val annara og ekki halda að manns eigin skoðanir séu "hinn heilagi sanneikur"!!!

Oddný 7.4.2009 kl. 16:55

6 identicon

ps Kaupþing er og var alltaf skítabanki og þar var samansafn af fólki sem kunni ekkert varðandi peninga annað en að eiða þeim og borga aldrei til baka... veit hverslags fjármálaóreiðu fólk var ráðið þarna og hef haldið þessu fram í mörg ár.

Oddný 7.4.2009 kl. 17:02

7 identicon

Þetta eru bara nokkuð skemmtilegar umræður. Ég veit alveg Díana mín hvað þú ert að meina með þjóðkirkjunni og öllu þessu trúarfargani. Íslenska þjóðarsálin hefur sína trú sem er reyndar mjög samofin kristinni trú og ýmsar hefðir hafa skapast í samfélaginu sem tengjast henni og ég er sammála Hlíf vinkonu þinni að mér finnst skírnin falleg athöfn og meira til að blessa barnið en endilega að þroða upp á það ákveðinni trú. Hrund var t.d. ekki skírð í kirkju en ég tel mig vera kristna manneskju og vill ala börnin mín upp í trúnni á Jesú Krist. En það er ekki þar með sagt að ég hafi nokkurn rétt á því að vera að skipta mér af því hvað þið stelpurnar gerið. Ég virði algjörlega ykkar skoðun á þessu.

Og svo Spron og KB banki. Ég hef ekki þurft að hafa samskipti við Kb banka og ég skil alveg að þú sért pirruð yfir því ef starfsmenn KB eru með einhvert skítkast um Spron. Ég held að spillingin hafi verið mest í KB þó nóg hafi verið af henni í hinum bönkunum. Bara vonandi að Spron geti aftur fengið að vera Spron með því starfsfólki sem þar var. Ég er bara ekki alveg að skilja hvar búsáhaldaliðið er núna...get ekki séð að þessi stjórn sé að gera eitt eða neitt til hjálpar fólkinu í landinu...en nú þegja allir.

Og það er skemmtilegt að geta skipst á skoðunum hér á blogginu þínu.

Ciao

She

Tengdó 7.4.2009 kl. 18:12

8 identicon

Er það ekki einmitt það sem er gott við okkur tengdó, við erum ekki alltaf sammála en virðum skoðanir hvor annarrar.

Ég held ég leggi nú ekki í pólitískar samræður, þar erum við of ósammála ;)

Annars trúi ég líka alveg að Jésú hafi verið til. Bara ekki að hann hafi verið guðssonur og því finnst mér óþarfi að trúa sérstaklega á hann, hann er fyrir mér hluti af sögunni. Og mér finnst sjálfsagt að Rakel og komandi börn okkar Hrundar kynnist kristinni trú, hún er stór hluti af menningu okkar, ég vil hins vegar að hún læri um hana til jafns við önnur trúarbrögð og það er erfitt að framkvæma þar sem kristin trú er yfir og allt um kring í samfélaginu og oft tekið fram fyrir hendurnar á manni þegar kemur að uppfræðslu barna.

Það er allavega á hreinu að flest okkar viljum við það sem er krílunum fyrir bestu. Og frið á jörðu að sjálfsögðu og allt það.

dr 7.4.2009 kl. 19:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband