Rétt aðeins

Ég er á fullu að læra og á ekkert að vera að eyða tíma í að blogga. Var að læra fyrir spænskuprófið alla helgina og tek daginn í dag og á morgun í það líka. Það er svakalegt að frumlesa allt efnið svona og það á spænsku. Fyrir utan hvað þetta er ógesslega mikið. BA-ritgerðin er því á hold þangað til á föstudaginn því á miðvikudaginn er ég að fara að hitta stelpurnar í spænsku og við ætlum saman yfir efnið og svo er prófið á fimmtudaginn.

Jói var samt sáttur við það sem ég er búin með í ritgerðinni. Þetta er allt á góðri leið og þótt ég myndi sætta mig við 7,5 úr því sem komið er þá sagði Jói litlar líkur á að ég fengi svo lágt. Ég hoppa hæð mína af gleði ef ég fæ 8, í fyrsta lagi er það fín einkunn (þótt ég hefði örugglega getað fengið betri) og í öðru lagi er hún sérstakelga góð með tilliti til alls sem hefur verið í gangi í mínu lífi. Ég efast samt um að ég nái að klára hana, hef einhverja rúma viku frá og með föstudeginum til að klára og skila og það er of tæpt líklega. Mér finnst rosalega erfitt að sjá fram á að ná ekki að útskrifast, hef líka svo miklar áhyggjur af fæðingarstyrknum (venjulega hafa einingar vorannar og sumarannar verið taldar saman og verði það gert í haust líka fæ ég styrk, þær sögðu samt hjá sóðnum að þær væru ekki vissar hvort reglunum yrði breytt sökum hrunsins og ég höndla ekki svona óvissu) en ég ætla samt að stefna að því að klára ritgerðina í maí og halda girllveislu og hoppa af gleði eftir skilin.

Jói virtist eitthvað voða hissa yfir því hvað ég var með háa meðaleinkunn, spurði hvort ég fengi hærri einkunnir í spænsku en íslensku. Ég var hálfmóðguð, ég er nefnilega með betri einkunnir í íslensku. Bara með fínar einkunnir almennt. Hnuss. Annars er Jói fínn kall, búinn að styðja mig helling í þessum skrifum from hell.

Svo verð ég að hætta að hafa svo sjúklegar peningaáhyggjur. Ég er með allt of háan blóðþrýsting og er undir eftirliti í mæðraverndinni vegna þess og svo er ég svo stíf í öllum vöðvum, sérstaklega í herðum að ég fæ höfuðverki endalaust og er ómöguleg. Fór í andlits- og herðanudd (afmælisgjöf) á fimmtudaginn og konan átti ekki til orð yfir vöðvabólgunni, mælti með sjúkraþjálfun.

Annars fékk ég kjúkling í sterkri, indverskri sósu á föstudaginn, ég og Sprundin borðuðum á Shalimar.

Svo finnst mér alveg glatað að börn skuli ekki vera kennd við báða foreldra sína, GLAAAAAATAÐ. Finnst t.d. að Rakel ætti að vera svona: Rakel H. Róbertsdóttir. Hún er væntanlega Hrundardóttir líka fyrir nú utan það að alast upp hjá henni (og mér). Ætla að reyna að fá það í gegn að breyta þessu, hef oft talað við Hrund um þetta en henni virðist alveg sama. Það væri líka gaman út af komandi barni þar sem það mun verða Hrundarson/dóttir Rivera. Þá bæru Rakel og krílus sama eftirnafn (annað af tveimur). Þarf að fara að ýta á Hrund. Robbi getur varlað neitað því að barnið verði kennt við báða (blóð) foreldra sína.

Og hvað í fjandanum er málið með það að eftirnöfn erfist ekki í kvenlegg???. Ég þarf því að nefna ófædda krílið Rivera, það fær það ekki sjálfkrafa sem eftirnafn AF ÞVÍ AÐ ÉG ER KONA. Fock it segi ég nú bara. Á ekki til orð yfir þessu misrétti. Langar að hrækja á einhvern bara. 

Og annað alveg til skammar er þetta kennitöluæði í Íslendingum. Helvítis persónunjósnir og ekkert annað. Maður er varla búin að opna munninn þegar maður hringir í opinberar stofnanir eða á friggin bókasafnið liggur við áður en maður er krafinn um kennitölu. Af hverju þarf kennitölu á inneignarnótur? Þær eru ekki bættar ef þú glatar þeim og það er ekkert athugað hver notar nótuna. Á þessu hefur Edda móða gert könnun. Hún fékk það líka í gegn að kenntölur voru teknar út af heimasíðu lansans minnir mig, átti að vera til þæginda en til hvers í ósköpum þarf almenningur að vita kennitölu starfsmanna? Er heimilisfang og sími ekki nóg? Ef þú kaupir gjafakort í Kringlunni þarftu líka að gefa upp kennitölu en samt er tekið fram á heimsíðu Kringlunnar að kortin eru EKKI bætt ef þú týnir þeim og til hvers þá að hafa kennitölu. Það sem þær þrættu við okkur mömmu stelpurnar á þjónustuborðinu út af þessu. Voru alltaf að koma með nýjar skýringar af því að mamma hrakti hinar og vissu ekkert um þetta. Gátu bara sagt að þetta væru tilmæli frá Fjármálaeftirlitinu sem er fjandi ótrúlegt og hver er trygging viðskiptavina fyrir því að bara Fjármálaeftirlitið fái kennitöluna? Jú, stelpurnar gátu 'eiginlega lofað okkur því að þetta færi bara í kerfi Kringlunnar.' Þær gátu hins vegar ekki svarað því hvað væri gert við upplýsingar í þessu kerfi Kringlunnar og hvort Fjármálaeftirlitið sækti þær þangað. Mamma ætlar að komast til botns í þessu. Og munið svo að það er ekkert eðlilegt að þurfa alltaf að gefa upp kennitölu og maður á að spyrja af hverju maður þarf að gefa hana upp. Stundum er um brot á lögum um persónuvernd að ræða.

En já. Verð að fara að læra. Ætlum allar í klippingu á eftir svo við verðum fínar á þrítugsafmælinu hennar Hrundar á morgun. Ætlum fjölskyldan út að borða og svo heim að horfa á undankeppina í Júróvisjón og borða heimatilbúna eplaköku. Vorum að hugsa að fara kannski í smá piknik með pabba hennar Hrundar á laugardaginn sem verður þá einskonar framhald af afmælinu. Annars þarf ég svo bara að skrifa ritgerð á sunnudaginn.

Yfir og út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jeij! Gott að heyra með fínu ritgerðina þína! Gangi þér svo vel með rest og ég hlakka til að heyra í þér í alvörunni bráðum (ég klára á morgun) :)

Gyða 11.5.2009 kl. 10:50

2 identicon

Oh, öfund. Mér finnst hræðilegt að hugsa til þess að þegar ég er búin í prófinu sé ég bara alls ekkert búin í skólanum heldur þurfi að vera í honum út maí þannig lagað. Gubb. En ég hlakka ekkert smá til að hitta ykkur í vinnunni. Verð líklegast ekki viðræðuhæf fyrr en eftir ritgerðarskil.

Nemi þið ætlið á próflokadjamm? Ég myndi kannski koma á það.

dr 11.5.2009 kl. 11:02

3 identicon

já já já!! Vei, það er sko fullt af eðalfólki búið að boða komu sína á umrætt próflokadjamm, hitti m.a.s. Anton í hádeginu og hann ætlar að koma :D

Gyða 11.5.2009 kl. 13:45

4 identicon

Ég fæ oft svona peningaáhyggjusjokkilltímagannhraðanhjartslátteitthvað og ég hata það. Ég hata peninga ó svo mikið og ég hata hvað þeir hafa mikið að segja.

Ekki vissi ég þetta með eftirnafnið....djöfull er það kjánalegt! Mitt bebe (ef ég eignast einhvern tímann svoleiðis) skal svo sannarlega fá að bera Yasin nafnið, að sjálfsögðu!

Gangi þér miss Díana með próf og ritgerð og meðgöngu og allt!

inam 11.5.2009 kl. 15:26

5 identicon

Gyðus: Ef ég er í stuði kem ég pottþétt!!!

Inam: Ég get svo svarið það að ég er farin að fá hjartsláttatruflanir. Hef ekki fundið fyrir þessum aukahjartaslögum eða hvað þetta nú er í mörg ár. En það er víst eðilegt núna út af miklu blóðflæði og þar sem hjartað er að pumpa aukalega. En ég kenni samt illa þefjandi peningum um.

Og já ég veit, glatað með þetta eftirnafn. Auðvitað mun barnið mitt vera Rivera mar.

dr 11.5.2009 kl. 15:44

6 identicon

Whawhawhaaat?! Þetta er fáránlegt með ættarnafnið. Mamma hans Jóa er einmitt með ættarnafnið Richter og við héldum að það væri búið að breyta reglunum þannig að Jói og bræður hans gætu fengið ættarnafnið. Ég googlaði þetta (http://www.rettarheimild.is/DomsOgKirkjumala/Mannanafnaskra/Um_nofn/#Meginreglur_um_mannanofn) og það lítur út fyrir að það sé ekki búið að breyta þessu. Fáránlegt. Ekki það að Jói né bræður hans hafi verið að plana það að taka ættarnafnið, þetta var meira bara pæling. En veistu hvernig það er ef kúrilíusinn þinn er strákur og eignast svo strák, verður hann þá líka nefndur Rivera þ.e. fær ekki ættarnafnið? Iss

Tinna Rós 11.5.2009 kl. 19:12

7 identicon

Tinnita: Ef Rivera verður að vera hluti að nafni ófædda barnsins, en ekki eiginlegt eftirnafn, þá erfist það líklega ekki ef krílus er strákur og eignast strák.

Þetta er GLATAÐ. Þvílíkt misrétti.

dr 12.5.2009 kl. 12:40

8 identicon

Þetta með ættarnafnið er náttúrulega rugl!

Við lenntum í álíka rugli því við vorum ekki skráð í sambúð þegar ég var ólétt. Barnið væri Rakelardóttir/son við fæðingu og ég nota ekki einusinni þetta nafn! Við vildum að barnið yrði Antonsson/dóttir við fæðingu og fórum til sýslumanns til að skrifa upp á einhverja pappíra. Mín, lítandi út eins og hvalur, komin 34vikur og fór ekki fram hjá neinum að ég bæri barn undir belti var beðin um staðfestingu á þungun frá ljósmóður eða lækni. hahaha

Og ekki nó með það heldur fengum við bréf heim viku seinna þar sem fram kom að við hefðum komið til sýslumanns og ég krafið Anton um meðlag, þetta væri staðfest í vitna viðurvist. Einmitt já, akkurat það sem við vorum að gera þarna. Og dóttirin fæddist Rakelardóttir þrátt fyrir allt.

R.Tanja 13.5.2009 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband