Gaman, ekki svo gaman, gaman

Við áttum ljúft föstudagskvöld, vinnufjölskyldan og viðhengi. Hlfí var reyndar fjarri góðu gamni og nýjasti meðlimur fjölskyldunnar, Anton, einnig en við hin skemmtum okkur vel. Grilluðum og spiluðum og spjölluðum. Stúlkur gáfu mér nudd hjá 9 mánuðum í útskriftargjöf. Takk aftur fyrir það.

Við Hrund keyrðum svo Gyðu og Kjartan heim og Kristínu niður í bæ og fórum sjálfar á smá rölt. Það var mjög kósý. Vorum ekki beint í dansstuði en fundum okkur sæti á Q, tuggðum tyggjó og fylgdumst með mannlífinu. Hrund hélt utan um mig og kúlusúkk og mér leið eitthvað svo vel. Röltum á fleiri staði en nenntum ómögulega að bíða í röð svo við fengum okkur Nonnabát og fórum heim að horfa á mynd. Fínt djamm bara.

Vaknaði svo í gær og byrjaði daginn ekki vel. Var eitthvað að færa tölvuna til og fór einhvern veginn að því að missa hana. Ofan á tána á mér. Hornið á tölvunni ofan á stórutána á mér. Mér verður illt aftur bara af því að skrifa þetta. Ég vissi ekki hvernig ég átti að vera þetta var svo vont. Missti andann í dágóða stund og lá í keng á gólfinu. Fann krílið sparka, vissi greinilega ekkert hvað var að mammí sín. Sat svo næsta klukkutímann með poka af frosnum berjum á tánni. Allur fóturinn frá hnénu bólgnði upp og tærnar á fætinum litu út eins og litlar kokteilpulsur. Ökklinn og fóturinn sjálfur voru svo bólgnir að heilbrigði fóturinn leit út eins og aumingi við hliðina á honum. Fékk svo sár og vænt mar á tána og nöglina og var draghölt í allan gærdag.

Kveikti hrædd á tölvunni og sem betur fer virtist hún í lagi. Komst að því seinnipartinn þegar ég kom heim úr verslunarferð að það voru komin einhver ólæti í hana. Þótt táin hafi dempað fallið og tölvan ekki skollið í gólfið, aðeins runnið að af tánni, þá beyglaðist hún eitthvað á hliðinni. Það var greinilega nóg að detta á tána á mér. Núna heyrist frekar hátt í viftunni (held ég) en annars virkar tölvan fínt. Ég er samt svo leið fyrir þessu. Kannski er Hrund líka barasta reið út af þessu. Hún var allavega ekki glöð þegar hún var að segja mér nýjustu tölvufréttir. Þetta var samt alveg óvart.Frown

Ég druslaði mér samt í búðir með mömmu og Bebe eins og við vorum búnar að ákveða fyrir löngu. Ætlaði að eyða einhverju af útskriftarpeningunum í föt á sjálfa mig. Byrjaði á því að kaupa brjóstahaldara og lét mæla mig í fyrsta skiptið. Er víst í F skálum ekki C skálum og þarf miklu minna utan um mig en ég hélt. Brjóstin á mér gætu drepið mann í nýja haldaranum. Ofurtúttur.

Fórum eftir það í Kringluna og ég fann mér óléttuleggings- og sundbol (ekkert smá flottan) og grænan skokk eða mussu sem ég ætla að spara fram að útskrift og byrja svo að nota af fullum krafti. Keypti líka peysu og stuttbuxur á Rakel og ýmislegt alveg nauðsynlegt í Tiger. Var mjög ánægð með þessa ferð. Yndislegt að geta farið að versla með peninga í vasanum. Eða peninga í veskinu hennar mömmu því ég treysti mér ekki fyrir svona hárri upphæð.

Hrund var að stússast með pabba sínum en þegar við vorum báðar komnar heim um kvöldið fórum við að blómast. Komum jarðaberjaplöntunum frá tengdó fyrir í flotta blómapottabalnum okkar og settum út á svalir. Settum tómatplöntuna, myntu og eitthvað sem ég veit ekki hvað er saman í ílanga körfu og undir gluggann frammi í holi. Salvían fékk að kúra úti með jarðarberjunum og grasalauknum. Sáðum sólblómfræjum og rauðu blómi í pott (gerðum það líka um daginn en það kom aldrei neitt upp) og færðum blóm innan úr eldhúsi og yfir í einu lausu gluggakistuna í stofunni. Það er plöntur og jurtir út um allt, einmitt eins og við viljum hafa það. Ég ætla svo að drusla mér í garðinn fljótlega og mamma sæta ætlar að koma og sýna mér nokkur handtök. Vonandi kemur Sprundin líka út þegar hún vaknar svo við getum sett niður útsæðið. Gaman að þessu.

Aumingja táin mín og tölvan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

á! Fékk samúðarverk í tærnar af því að lesa um tölvuslysið! Aumingja þú og tölvan. Æðislega fínar bumbumyndir :) Takk fyrir síðast! Svaka notó hjá okkur og viðhengjunum :)

Gyða 7.6.2009 kl. 10:25

2 identicon

Bara varðandi tómatplöntuna...það er víst ekki æskilegt að hafa svoleiðis nálægt neinum öðrum plöntum...einhver sagði mér þetta eða ég las þetta einhversstaðar...og settu frekar myntuna út en salvíuna....bara smá ráð frá annars yfirleitt ráðalausri tengdamömmu...og flottar kúlumyndirnar þínar, vildi að Hrund hefði verið svona dugleg þegar hún gekk með Rakel. Ég vona líka að tásan skáni fljótt og ef það er eitthvað óhljóð í tölvunni látið endilega kíkja á hana, þetta þarf ekki að vera neitt alvarlegt. Verra með kaffivélina mína sem bara algjörlega neitar að búa til kaffi og stefni á verkstæðið á morgun. Luv ya...

tengdó 7.6.2009 kl. 20:36

3 identicon

Tengdó: Ég er búin að redda þessu með plönturnara. Annars eru þær algjörlega Hrundar hlið og ég veit ekki neitt um þetta græna dót. Vökva aldrei eða neitt, þetta er sumst eitt af verkefnum Hrundar. En ég hef afskaplega gaman að þessu og reyni að vera eitthvað hjálpleg.

Vona að það verði í lagi með tölvuna. Legg hvorki í þig kaffilausa né Hrund tölvulausa svo eins gott að þessi verkstæði verði fljót að kippa þessu í liðinn. Annars sendi ég Hrund heim til þín í tölvuna ...

Svo tek ég til baka að það sé ómögulegt að gefa mér pening. Ég virðist eitthvað geta keypt mér og haft gaman af því. Miklu skemmtilegra að versla ólétt en ekki ólétt.

Já, ég vildi sko að það væru til svona fínar bumbumyndir af Hrund, ég hef bara séð eina sem var tekin á lokasprettinum. Það er stundum eins og hún hafi bara ekkert verið ólétt. Enda dreymir hana um að vera það seinna meir og vonandi rætist það.

Sjáumst fljótlega. Við erum að fara á Malarrif næstu helgi svo það er nauðsynlegt að við kíkjum á þig í vikunni.

Knús.

dr 8.6.2009 kl. 08:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband