Afkastamiklar

Við afköstuðum svo sannarlega miklu um helgina. Fórum í IKEA á laugardaginn og fundum fína kommóðu og fleira sem okkur vantaði. Fengum okkur að borða á veitingastaðnum og fórum svo í bíó á UP, yndislega skemmtileg mynd og svo falleg ástasrsaga í henni að tárin láku niður kinnarnar á mér. Enduðum í læri hjá mömmu og við mömmurnar dormuðum í sófanum eftir svefnlitla nótt. Ég nuddaði axlirnar á Hrund og Rakel fór í læknisleik með fæturna á mér. Eitthvað sem ég gerði við mömmu þegar ég var lítil og fæ að njóta núna. Rakel nuddaði tærnar og strauk með blautri 'bónil' (bómull), dásamlegt alveg hreint.

Eyddum svo þremur tímum í tiltekt þegar unginn var sofnaður. Hrund þreif inni á baði (og það var miiiiiikið að þrífa eftir að flísalagninguna og allt hitt) og ég fór í gegnum baðskápinn og hirslur inni á baði og frammi á gangi og gerði fínt. Ólýsanlega góð tilfinning að hafa fínt inni á baðherbergi aftur. Kannski tveir dagar í að við getum farið í sturtu, vantar bara fúgu og málningu. Jibbí!!!

Fórum í fjórar búðir í gær að versla ýmislegt sem okkur vanhagaði um. Og það eftir að hafa skriðið um uppi á háalofti og leitað að sæng og rúmfötum fyrir barnið sem var svo ekkert þar. Það er dótið. Ég var enn þá þreytt eftir ferðina í IKEA og tiltekt gærdagsins og fór áfram á þrjóskunni einni saman. Er samt svo ánægð með hvað við vorum duglegar. Gerðum smá pásu og borðuðum á Energia. Við Hrund fengum okkur uppáhalds pastaréttinn okkar sem hefur fylgt okkur síðan við kynntumst og Rakel fékk skyr, brauð og kakó. Föttuðum í miðri máltíð að við Hrund áttum 4 1/2 árs sambandsafmæli og ekki slæmur dagur til þess að halda upp á það. Með Rakelina okkar og að stússa fyrir kotið okkar. Eftir allar búðarferðinar drifum við okkur í sund og komum allar uppgefnar heim um kvöldið. Rakel fór beint að sofa og Hrund að dútla við smáatriði í eldhúsinu. Ótrúlegt hvað þau taka langan tíma. Það er ekki til neitt sem heitir einfalt í svona framkvæmdum ... Við horfðum svo á  Miss Congeniality með hinni ofurflottu Söndru Bullock í tilefni dagsins og knúsuðumst ærlega og leið svo vel.

Núna fer þetta allt að koma hérna heima. Parketlistarnir á dagskrá í vikunni og auðvitað sturtan og svo verður bráðum hægt að þrífa rækilega og gera fínt.

Vaxtasónar og tími í skólanum á morgun. Bíð spennt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að sjá þig áðan!! Það styttist heldur betur í bebe!! Ég er orðin ótrúlega spennt! Get rétt ímyndað mér hvernig ykkur líður ;) Gott að blóðþrýstingurinn er ekki verri og vonandi kemstu bráðum í sturtu mín kæra!

Kristín 8.9.2009 kl. 18:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband