Ha?

'Hæ!'

Ég hrökk upp úr hugleiðingun mínum þar sem ég stikaði í átt að skólanum þegar ég heyrði glaðlega kveðjuna. Leit upp og sá strák sem ég þekkti ekki.

'Hvað segirðu gott?'

Ég starði á hann og reyndi að koma honum fyrir mig. Var þetta vinur minn? Skólafélagi? Gamalt hösl? Velti því smástund fyrir mér hvort ég ætti að þykjast þekkja hann en var hreinlega of uppgefin. Ákvað að segja satt.

'Veistu, ég man bara ekkert eftir þér.'

Núna var það hann sem starði á mig. Skrítinn á svip.

'Neeeei, djók. Ég er að rugla, þú lítur bara alveg eins út og stelpa sem ég var að kynnast í gær!'

Fjúkket. Ég hélt að meðgönguþokan væri orðin svo slæm að ég þekkti ekki lengur mína eigin vini en svo hafði þessi strákur bara kynnst óléttri, hálflatinu, með gleraugu og krullur daginn áður.

 

Ég var svo hrikalega ólétt í gær. Svaf illa nóttina áður. Vaknaði eins og venjulega til að pissa og emjaði lágt þegar ég þurfti að stíga í fæturna. Það sem eitt sinn voru fætur en er núna orðið að samkomustað alls vökva í líkamanum. Lá svo heillengi andvaka og reyndi að finna góða stellingu sem ég gat andað í og þrýsti ekki á magann því þá vill maturinn koma upp úr mér. Maginn er líklega kominn upp að lungum á þessum tímapunkti.

Vaknaði úrill og var pirruð við stelpurnar mínar. Plantaði mér í sófann eftir að þær voru farnar og lærði. Var búin á hádegi og fékk mér þá að borða og sá að ég hafði 45 mín. til að leggja mig. Sofnaði um leið en var allt of heitt og svaf illa. Vaknaði sveitt og með svo öran hjartslátt að ég hélt að hjartað væri á leið út úr brjóstinu. Bjúgskoðun leiddi í ljós enn verri bjúg en um morguninn.

Stóð um stund og horfði á baðkarið. Velti því fyrir mér hvort væri minna erfitt að sturta mig í því eða leggjast í það og ákvað að fara í stutt bað. Lét renna allt of heitt vatn í baðið og var alveg að stikna. Gleymdi að þvo mér um hárið. Ætlaði aldrei að komast upp úr karinu.

Dauðbrá þegar ég leit í spegil eftir að hafa klætt mig og greitt mér. Hárið enn undarlega úfið og andlitið eins og gasblaðra. Bjúgurinn farinn að setjast á andlitið líka og búa til poka undir augunum. Meira að segja varirnar voru eins og ég væri með bráðaofnæmi. Allt einhvern veginn svo þrútið og of stórt fyrir andlitið. Reyndi að setja á mig augnblýant til þess að lappa upp á útlitið en var svo sveitt eftir allt of heitt baðið að allt rann til.

Afi var kominn að sækja mig, var á leið í vaxtasónar. Ein, því Sprundin komst ekki með. Reyndi að koma mér í einu skóna sem ég get notað þess dagana. Velkta leðursandala sem ég keypti í Costa Rica. Eru venjulega hólkvíðir og notalegir. Nota þá alltaf á Malarrifi á veturna, þá í hnausþykkum ullarsokkum. Kom hægri fæti með naumindum í skóinn en fann böndin skerast inn í ristina. Allt stoppaði á miðri rist á vinstra fæti. Hökti niður stigann hálf í skónum og löðursveitt. Þurfit svo mikið að pissa. Eða leið þannig. Vissi að barnið var bara að hnoðast á blöðrunni.

Skrúfaði niður rúðuna í bílnum hjá afa og hékk hálf út úr bílnum alla leiðina. Mætti stelpu í dyrunum á fósturgreiningardeild og fannst hún gefa mér undarlegt auga. Hún var greinilega að koma úr 12 vikna sónar, engin bumba sjáanleg, allt útlit hraustlegt og hún fersk með bros á vör og sónarmyndir í hendi. Sá smá óöryggi í augum hennar þegar hún sá mig, svona 'sjitt á ég eftir að líta svona út eftir 20 vikur eða nennir þessi gella ekkert að gera fyrir útlitið lengur ...'

Ljósan var svo mikið að drífa sig að ég varla sá barnið mitt. Ég sem var búin að hlakka svo til. Hún mældi bumbuling og höfuð en ég sá varla nokkuð annað en misgráa fleti. Jú, einu sinni sá ég tvo fætur standa beint upp í loftið og lítið nef gægjast út á milli. Óþekktaranginn sem var kominn í höfuðstöðu er búinn að snúa sér og situr á rassinum með fæturna upp undir rifbeinum á mér! Þegar ég hélt að það væri að skorða sig með látum um daginn hefur það verið að snúa sér! Ég ætla rétt að vona að það snúi sér aftur, ég fæ kvíðakast af því að hugsa um keisara. Sá svo rétt glitta í bollukinnar og svo var allt búð. Þurfti bókstaflega að draga upplýsingarnar upp úr konunni. Hún sagði að allt væri eðlilegt en ég vildi vita hversu stórt krílið er. Það er tæp tvö kíló, aðeins undir meðallagi og ætti að vera um 14 merkur ef það fæðist eftir fulla meðgöngu. Svo eru auðvitað alltaf einhver skekkjumörk. Gott að vita að háþrýstingurinn hefur ekki slæm áhrif og það nærist vel. Anginn minn litli.

Hökti út og afi keyrði mig upp í skóla. Var glöð að hitta Anton eftir að hafa hitt ókunna strákinn fyrir utan og við röltum okkur í tíma. Ég var svo syfjuð að ég heyrði varla orð, barðist bara við að halda mér vakandi. Hugsaði mér gott til glóðarinnar í pásunni og bjó mig undir að fara að kaupa mér rjúkandi heitt kaffi þegar Anton benti mér á að kaffistofan væri lokuð. Ég get svo svarið það að ég táraðist. Var komin með svo mikinn bjúg eftir að sitja með fæturnar niður í svona langan tíma að þegar tímanum lauk gat ég varla gengið. Og skammaðist mín. Ökklar hvergi sjáanlegir og fætur jafnbreiðir frá hné og niður. Um kvöldið náði bjúgurinn sögulegu hámarki og ég kallaði á Hrund til að sýna henni Frankensteinbýfurnar. Hafði lúmskt gaman af viðbrögðunum. Hún var alvarlega sjokkeruð.

Þrátt fyrir miserfiða daga er ég algjörlega ástfangin af bumbunni minni. Óléttan hefur svo sannarlega tekið á en er samt það besta sem ég hef upplifað. Það tók mig smá tíma að leyfa mér að vera þreytt á henni stundum, það er mjög algengt hjá fólki sem hefur haft svona mikið fyrir óléttunni að því finnist það ekki hafa rétt á að barma sér. Kvarta pínu.

Ég gæti hreinlega ekki verið óléttari og þrátt fyrir að það taki á er það himneskt um leið.

Væri samt alveg sátt þótt fæturnir á mér litu ekki svona út (holurnar hjá ökklunum eru eftir sokkana):

 

p9080005.jpg

p9080004.jpg

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá!!! Þetta eru myndarlegir fætur! Sjitt sko! Getur ekki verið það þægilegasta að ganga um svona! Samúð til þín :)

Gyða 9.9.2009 kl. 21:13

2 identicon

held að þú verðir bara að hætta að ganga í skóm og fá þér þrenna víða ullarsokka í staðinn, eða vera bara berfætt. Þetta er rosalegt!!

luv u

Oddný 10.9.2009 kl. 00:24

3 identicon

Þetta er svolítið mikið rosalegt!

Hlíf 10.9.2009 kl. 09:55

4 identicon

Ganga um berfætt í sandölum og ermalausum bol....skemmtilegt blogg hjá þér Díana, eins og alltaf þegar þú kemst í skriftargírinn...

Kannski svoldið mikill bjúgur sem þú ert með, en í alvörunni ég hef séð það verra. Man eftir konu á Selfossi sem var hreinlega eins og blöðruselur af bjúg - sem sérstaklega settist á andlitið á henni. Ekki að það bæti neitt óþægindin fyrir þig. Nú er bara að þrauka þessar fáu vikur sem eftir eru. Þetta er erfiðasti tíminn sem þú á eftir...ekki beint uppörvandi...en akkúrat tíminn til að láta sjana við sig og slaka á, sem ég veit að þú ert svo góð í:-).

tengdó 10.9.2009 kl. 13:42

5 identicon

Það er kannski kvikyndislegt en ég hló pínu upphátt. Bæði við lýsingarnar og myndirnar. Það er samt ekki af því að ég vilji þér neitt illt heldur vegna þess að það er svo agalega stutt síðan ég var svona. Einu sinni var ég svo slæm að ég potaði aðeins í öklann á mér og efir puttan var svo djúp hola að ég hefði sennilega getað borðað seríós úr henni! Þannig að ég þekki þessar þjáningar Díana mín en sem betur fer tekur þetta enda og nokkrum vikum (mánuðum í mínu tilfelli) færðu aftur ökla.

Bjarndís 11.9.2009 kl. 08:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband