Ljúft

Helgin var einstaklega ljúf. Pínu svekkelsi reyndar á föstudaginn þar sem ég byrjaði að fá reglulega samdrætti með verkjum rétt fyrir sex um morguninn og hélt ég væri að malla af stað en 10 tímum seinna þegar rétt um 4 mín. voru á milli samdrátta datt allt niður!!! ARG!!! Vona svo sannarlega að allir þessir samdrættir hafi unnið einhverja undirbúningsvinnu og ég eigi minna eftir þegar ég fer af stað fyrir alvöru.

Samt gott að finna að um leið og ég hélt að ég væri að fara af stað þá helltist yfir mig ró og friður og ég kveið fæðingunni ekki neitt, var bara spennt. Fór að taka til og snurfusa hérna heima og lá í lavenderbaði og las á meðan ég fylgdist með kúlunni harðna reglulega og krílinu á fullu. Barnið hefur bara verið á útopnu síðastliðnar vikur hvað varðar hreyfingar, auðvitað lítið pláss eftir en það bara stoppar ekki og slær sífellt ný met sem er bara skemmtilegt.

Við Sprundin ákváðum að fá okkur göngutúr um kvöldmatarleytið, hún orðin mygluð af viku veikindainniveru og ég vildi freista þess að labba samdrættina í gang aftur. Röltum út í sjoppu og litum vægast sagt út eins og gömul hjón á kvöldgöngu. Höktum meira en gengum, ég að farast í grindinni þar sem barnið þrýstir svo með litla kollinum sínum á allt og Hrund löðursveitt við áreynsluna, ekki alveg orðin góð kannski. Náðum okkur í spólur, höktum til baka og fórum svo og fengum okkur að borða á Culiacan. Ákváðum að kíkja á tengdó og fá lánaða myndavélina hennar (okkar er svo léleg) ef ég skyldi fara af stað, viljum eiga góðar myndir úr fæðingunni. Áttum svo kósýkvöld heima upp í sófa.

Ætlaði að vera rosa dugleg og klára verkefni í íslensku á föstudeginum en það fór allt í rugl út af samdráttunum sem áttu hug minn allan. Tók samt þá ákvörðun að leyfa mér að vera í fríi þessa pabbahelgi sem ég ætla rétt að vona að sé síðasta barnalausa helgin, vil ekki vera ólétt enn þá eftir hálfan mánuð. Eyddi laugardeginum með mömmunni minni, sem er alltaf yndislegt, og sötraði kaffi hjá ömmu. Fór svo heim og eldaði kjúkling handa okkur Sprundinni og við kúrðum aftur upp í sófa og höfðum það gott. Ákvaðum að fá okkur bröns á sunnudeginum sem var ótrúlega notalegt og fórum aðeins í Kolaportið með Kötlu og Oddu poddu sem er í bænum þessa dagana. Spjölluðum á kaffihúsi dágóða stund sem var svo gaman, veit ekki hvað það er langt síðan við vorum svona fjórar saman. Við Hrund fengum okkur svo kvöldmat og fórum snemma í rúmið aldrei þessu vant.

En svo gat ég bara ekkert sofið. Veit ekki hvort ég er orðin svona óþolinmóð og yfirspennt en ég var andvaka meira og minna alla nóttina. Held ég rumpi þessu verkefni af núna og sinni nokkrum heimilisverkum og leggi mig svo.

Rakel besta barn kemur heim á eftir og ég get ekki beðið. Hún er mesti snillingur sem ég þekki og ég vildi stundum að ég gæti tekið hana upp heilu dagana, gullmolarnir velta upp úr henni. Við mömmurnar söknum hennar alltaf meira og meira um pabbahelgar eftir því sem hún eldist. Það verður yndislegt að fá rauðhausinn í fangið og spjalla um daginn og veginn og veltast um af hlátri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og er ekkert að gerast ljúfan mín????

Sigurlaug Helga Emilsdottir 26.10.2009 kl. 15:40

2 identicon

Nákvæmlega ekki neitt!!!

dr 26.10.2009 kl. 16:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband