Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

OH

Þá er ég orðin veik. Í fyrsta skipti á þessari meðgöngu reyndar en ekki alveg á besta tíma. Er reyndar ekki með hita og vona að ég fái hann ekki, líður alveg nógu illa takk. Er með alveg svakalegan hósta og svo illt í lungum og brjóstkassa að ég veit bara ekki hvaðan á mig stendur veðrið. Er svo líka með hausverk og þyngsli í höfðinu. Þetta plús óléttan er alveg meira en nóg, var alveg að fara að skæla áðan þegar Sprundin var að knúsa mig, átti hrikalega bágt.

Rakelin er hins vegar mun hressari. Hitinn fór aðeins að lækka í gær og er enn lægri í dag svo hún syngur og trallar og skottast út um allt hús og talar endalaust. Hátt, að mér finnst. Væri alveg til í að hafa hana aðeins rólegri.

Nú er bara að vona að ég verði ekki veikari en þetta og nái þessu sem fyrst úr mér. Ég ætti allavega að vera orðin frísk þegar ég fer af stað (svo lengi sem það verður ekki í þessari viku) sem skiptir öllu.


Jibbí kóla

Var hjá ljósunni áðan og barnið er búið að skorða sig!!! Hlaut að vera miðað við verkina sem ég var með um daginn.

Annars væri fínt að eiga bara um næstu helgi því þá get ég fengið ljósuna mína í heimaþjónustu. Hún er nefnilega að fara í frí 1. nóv svo ef ég á settum tíma eða þar rétt í kring þarf ég að fá einhverja ókunnuga af spítalanum.

38 vikur er flott, þá er barnið bakað. 

Svo er bara að bíða og sjá, gæti alveg átt 5 vikur eftir, oh my.

Er spennt en samt ekki beint óþolinmóð. Finnst bara fínt að allt sé tilbúið en nýt bara daganna, á líka eftir að mála aðeins og þrífa íbúðina og svona (Hrund sem sagt þar sem blóðþrýstingurinn er aðeins að hækka og ljósan sagði mér að reyna nú að vera kyrr).

Bráðum verð ég tveggja barna mamma.

Glætan.


Treyttur

Voðalega er maður þreyttur eitthvað. Ég og Rakelin höfðum það kósý á föstudaginn þar sem það var lokað í leikskólanum hjá henni. Horfðum á teiknimynd og borðuðum saltstangir og fórum í langa heimsókn til ömmu. Komum svo heim og Hrund málaði gluggakarma og útidyrahurðina og Rakel fékk að hjálpa. Erum á leiðinni að fara að setja upp nýjar gardínur og viljum hafa gluggana fína og það er sko alveg kominn tími á þessar hurðir. Ég eldaði sítrónukjúkling á meðan sem við borðuðum svo með bestu lyst.

Rakel fór á fyrstu fótboltaæfinguna í gær, stóð sig vel og skemmti sér vel. Skruppum í Bónus á eftir að versla því ég var búin að bjóða Þóri tengdapabba í mat. Ég fékk svo að leggja mig þar sem ég var alveg aðframkomin. Ég kemst bara ekki í gegnum daginn án þess að leggja mig og ég var orðin ansi slæm í skapinu. Hrund fór að hjálpa móðursystur sinni að flytja og Rakel fór til Sillu og fékk að fara út að ganga með hundana.

Eftir blund bjó ég til skyrköku og hófst handa við að matreiða fisk og fínu kartöflurnar okkar. Áttum góða stund saman við matarborðið nema að því leyti að Rakelin kom sjóðheit heim frá ömmu sinni, hafði greinilega rokið upp í hita og var alveg hundlasin. Var svo lasin að hún var sofnuð fyrir átta og átti erfitt kvöld, var þyrst, pissaði í rúmið skinnið litla og volaði yfir því að sér væri illt. Gáfum henni hitalækkandi stíl um miðnætti og hún svaf nóttina eftir það. Ég drullaði mér ekki í rúmið fyrr en hálf þrjú og Hrund enn seinna svo núna veit ég ekki hvort ég er líka að verða veik eða hvort ég er svona þreytt. Hrund sefur inn í rúmi en við gerðum díl, ég fæ að leggja mig á eftir. Ég sit því inn í sófa með sjóðheitt barnið mér við hlið að horfa á barnatímann. Fæ illt í mömmuhjartað við að sjá sjúklinginn minn. Ætli hún sé ekki bara með svínó, allavega með öll einkenni hennar.

Núna er ég nátla að farast úr stressi yfir því að verða veik. Ég varð reyndar ekki veik þegar Hrund fékk svínó eða hvað það nú var um daginn en unginn minn er bókstaflega búin að hósta nokkrum sinnum upp í mig þegar ég hef verið að sinna honum. Vil ekki fá svínó af því að ég vil ekki neitt taimflu eða hvað það heitir. Og svo finn ég fyrir nægum óþægindum þótt ég fái ekki 40 stiga hita líka fyrir nú utan það að krílinu mun þá líða illa. Svo vil ég bara alls ekki vera veik í fæðingu. Vonandi klára ég þá bara veikindin áður en ég fer af stað.

Amma segist hafa fengið sterkt á tilfinninguna að ég fari af stað um næstu helgi, gengin tæpar 38 vikur. Ég er alveg til í að ná 38 vikum en svo má krílið alveg koma. Verður gaman að sjá hvort amma gamla hefur rétt fyrir sér en hún sagði þetta líka geta verið óskhyggju. Annars er mamma á þessu líka og ég líka, þ.e. að það sé ekki svo langt í þetta, en ég held að ég haldi það vegna þess að mamma gekk ekki 40 vikur með neitt okkar systkinanna.

Jæja. Ég vona að rauðhaus verði frísk sem fyrst og að hvorki ég né Hrund verði veik. Það er allavega nær allt tilbúið fyrir ungann svo ég get verið róleg.

Æ, er of þreytt ti að læra. Þoli ekki þegar maður á að fá viku til að gera verkefni en þau eru svo sett tveimur dögum of seint inn á netið án þess að skilafrestur sé lengdur. Þoli heldur ekki að fá verkefnin ekki til baka á réttum tíma. Arg.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband