Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Vikan hjá okkur

Við erum sumst búnar að fara í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn eins og áður sagði, þrífa slotið með dunandi tónlist í eyrunum, mála, fara í vöfflukaffi til Eddu móðu, fara á bóksafnið og grúska og koma heim með haug af bókum, fara á kaffihús og hlæja, búa til grænan leir og leira úr honum öllum, fara í sund, grafa upp videospólu með Strumpunum í Laugarásvideo og horfa á myndina og borða popp og bjóða tengdapabba í sítrónukjúkling og epla- og berjapæ.

Erum að hugsa um að fara upp að Kleifarvatni á eftir og veiða og fara í mat til tengdó ef hún er til með að fá okkur. Annars er sumarfríið okkar alveg að verða búið, Rakel fer til pabba síns á sunnudaginn og við Hrund til vinnu á þriðjudaginn. En þetta síðasta sumarfrí okkar þriggja saman (næst verðum við fjórar eða fjögur) hefur verið yndislegt og sólríkt.

Var hjá fæðingarlækni í gær sem vildi að ég prófaði að sleppa lyfjunum. Ef samdrættirnir aukast ekki við það þarf ég ekkert að taka lyfin og það er auðvitað best að vera laus við þau. Er enn að gera tilraun, tók bara eina töflu í gær og varð ekki var við neina svaka aukningu, ætla að taka daginn í dag lyfjalausan líka og reyna að fylgjast vel með samdráttunum.

Núna er krílið um 34 cm frá höfði og fram á tásulinga og vegur um eitt kíló. Bara lítil manneskja. Augnlokin hafa myndast og barnið byrjar að opna augun. Krílið fer að dreyma og margir telja að meðvitund barnsins vakni um þetta leyti. Það fær líka hiksta og sparkar vel í mammí sína.

Við Rakel erum að horfa á mynd um afríska strákinn Kirikou (minnir að þetta sé skrifað svona), æðisleg teiknimynd og öðruvísi en allar hinar. Einn ungi í malla og annar mér við hlið.InLove


Aðeins af okkur stelpunum

callInitCallbacks();

Vorum heila viku á Malarrifi. Samdrættirnir eru alltaf til staðar, að meðaltali 3-4 á klukkustund, og eru að öllum líkindum komnir til að vera. Ég fer til fæðingarlæknis á fimmtudaginn þar sem staðan verður endurmetin en hugsa að ég verði áfram á lyfjunum og þurfi að passa mig. Get samt alveg gert eitthvað, verð bara að passa að ofreyna mig ekki og muna að ég get gert miklu minna en ég er vön. Það er ansi erfitt. Er með svo mikla uppsafnaða orku sem ég fæ ekki útrás fyrir að hún brýst út í málæði og ég held heilu einræðurnar fyrir Sprundina sem alltaf er til í að hlusta, líka um miðjar nætur.

Malarrif var yndislegt að venju. Við, mamma, Valdís, Einar, Guðni vinur hans og tengdapabba vorum öll fyrstu dagana en Valdís og strákarnir fóru heim á sunnudegi. Þórir fór ekki fyrr en á mánudagskvöldið og eftir að hafa farið hringinn í kringum nesið með okkur. Stoppuðum í hverjum bæ, versluðum aðeins, fórum í sund, gengum um og fórum á kaffihús. Voða gaman. Eftir mánudaginn voru það bara við stelpurnar mínar og mamma sem fór ekki fyrr en á fimmtudegi og mér fannst það einstaklega notalegt. Fórum einn daginn að veiða en vorum annars mest að dunda okkur.

Ég plataði svo Einar til að passa og mömmu og Hrund með mér á Harry Potter á föstudaginn síðastliðinn en þá komum við heim úr bústaðnum. Ekki amaleg skemmtun það. Eyddum laugardeginum hjá tengdó og sunnudeginum hjá mömmu og vorum boðnar út að borða af tengdó á sunnudagskvöldið. Alltaf dekrað við mann. Fórum í hjólatúr (eða Rakel hjólaði) niður í Laugardal í gær og skelltum okkur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn Rakelinni til mikillar gleði. Mamma passaði svo þegar við Hrund fórum í bíó (veit ekki hvað er að koma yfir Hrund, hún sem vill aldrei fara í bíó) og svo fór ég upp í rúm og bjó mig undir að rotast. Hef verið að fara allt of seint að sofa og var hreinlega að drepast úr þreytu í gær. Gat svo ekkert sofnað og er ýkt svekkt núna þar sem ég er jafn þreytt. Búhú.

Annars fór ég til ljósunnar rétt fyrir Malarrif og aftur í gær og legbotninn (stærðin á leginu) var mældur í bæði skipti. Í fyrra skiptið var hann 24 cm sem var þá jafn mikið og vikurnar eða eins og það á að vera. Í gær var ég komin 26 vikur og 5 daga en legbotninn var 29 cm!!! Var einmitt nýbúin að segja við ljósuna að mér fyndist kúlan hafa sprungið út á einni viku. 5 cm á rúmum tveimur vikum takk. Hún er líka orðin huges. Huges. Að mér finnst. Fer í sykurþolspróf í næstu viku til að athuga með sykursýki en það getur haft áhrif á vöxt krílanna. Annars er greinilegt að barnið dafnar vel. Þriðji þriðjungur byrjaður og viku betur, 3 mánuðir eða svo í krílið. 

 Oh lord.


Meira sumarfrí

Enduðum með því að eiga náttfatadag á þriðjudaginn. Lufsuðumst um á náttfötunum allan daginn, pöntuðum okkur pizzu, lékum okkur og hofðum á teiknimynd. Sprundin fór svo með Rakel í smá hjólatúr fyrir svefninn þar sem barnið var farið að skoppa um allt af uppsafnaðri orku.

Fórum í sund á miðvikudaginn og í heimsókn til ömmu og tengdó. Alltaf gott að láta bjóða sér í mat og sleppa við að fara í Bónus. Vorum svo heilmikið að stússa í gær. Fórum niður í bæ þar sem Einar er í unglingavinnu og grilluðum á opnu grilli sem krakkarnir eru með. Á meðan ég hvíldi mig í sófanum í vinnunni hjá mömmu fóru Rakel og Hrund á kanó með Einari, einnig á vegum unglingavinnunnar. Náðum í lykil að Malarrifi og rétt litum inn í Liti og föndur. Gleymdum hins vegar að setja í stöðumæli í þær 10 mín. og fengum sekt. Úps. Keyptum eitthvað smotterí í Bónus til að taka með á Malarrif og fórum svo í boði tengdapabba út að borða á Ítalíu. Eftir þetta var ég svo þreytt að ég gat varla labbað. Samdrættirnir héldu sig samt á mottunni og voru ekki fleiri en venjulega. Hrund parkeraði mér svo í sófann þegar við komum heim og sá að mestu um að taka okkur til fyrir Malarrif þótt ég gæti auðvitað ekki setið á mér og gert eitthvað.

Talaði við ljósuna í gær og hún gaf mér grænt ljós í sambandi við Malarrif. Vildi bara segja henni nákvæmlega hvernig þetta hefði verið undanfarið svo hún gæti sagt álit sig. Hún var mjög ánægð með að þetta hefði ekkert versnað og þótt ég fái einhverja samdrætti á klukkutíma allan daginn (sem er mun meira en flestar konur fá) þá getur verið að svona sé ég bara og mitt leg. Hún sagði mér því að njóta bara lífsins en auðvitað halda áfram að passa mig vel og hvíla mig.

 En nú er það sturta og svo Malarrif. Get ekki beðið. Skrifa eitthvað eftir viku líklega en veit ekki alveg hvað við verðum lengi, fer eftir mínu ástandi. Vona bara að allt verði í góðu.


Sumarfrí

Það er yndislegt að vera í sumarfríi og þurfa ekki að rífa sig á fætur klukkan sjö og rjúka út. Rjúka svo heim og sækja Rakel, elda og sinna heimilisverkum og vera svo dauðuppgefin. Gef skít í húsverk þessa dagana þar sem samdrættirnir myndu nú ekki samþykkja það og Rakel hefur sofið til að verða hálf ellefu þrjá daga í röð enda farið seint að sofa eins og sæmir í sumarfríi.

Við erum snillingar í að finna okkur eitthvað skemmtilegt að gera þar sem ég get samt setið og hvílt mig. Eyddum heilum sólardegi í garðinum hjá tengdó. Ég las, Hrund stússaði og Rakel hljóp um. Fengum grillamat og nutum þess að borða úti. Kíktum til ömmu daginn eftir og svo niður í Nauthólsvík í minnst 20 stiga hita. Ég sat mest á teppi og sólaði mig og við nutum okkur allar í botn. Enduðum daginn í mat hjá mömmu, um að gera að losna við að elda. Fórum að veiða í gær við Vífilstaðavatn. Rakel alltaf hálf úti í vatninu, ég á teppi og Hrund með veiðistöngina. Veiddum auðvitað ekki neitt en fengum okkur bara ís í staðinn. Fórum heim og hvíldum okkur og horfðum og teiknimynd (ég gleymdi að taka með mér vatn í veiðiferðina og þornaði upp í sólinni sem aftur olli því að samdrættirnir efldust svo mikið að við þurftum heim í hvíld, það góða er að hvíldin virkaði og samdrættirnir höguðu sér aftur vel) og fengum okkur svo að borða á Pítunni.

Kannski kíkjum við á bókasafnið eða í bíó í dag þar sem sólin lætur ekki sjá sig. Ég get setið á báðum stöðum. Langar ótrúlega á Harry Potter frumsýningu á morgun en það gengur ekki með svona samdrætti. Það koma einstaka samdráttalausir klukkutímar en annars er ég yfirleitt með 1-3 á klukkutíma. Þeir eru enn þá allt of margir yfir daginn og nóttina og ég þarf að passa mig rosalega vel því öll áreynsla eykur þá en ég er alveg að detta inn í 25 vikurnar og hver dagur sem krílið tollir í bumbunni lætur mér líða betur.

Farin að elda hafragraut.


Myndir

Búin að bæta myndum í bumbumyndaalbúmið. Best að smella beint á það en  ekki á myndaalbúm (sem er ofar vinstra megin) því þá sjást ekki allar myndirnar af dularfullum ástæðum. Setti líka myndir inn á síðuna hennar Rakelar og er ekkert smá pirruð yfir því að helmingurinn af myndunum er á hlið. Ég vandaði mig svo mikið við að snúa þeim öllum áður en ég setti þær inn en það virkaði greinilega ekki. Svo er ekki hægt að snúa myndum þótt ég fari inn í albúmið í stillingum hjá mér, það er bara hægt að gera allt annað. Þið verðið bara að sætta ykkur við þetta og ég ætla að fara að öskra í kodda af pirringi.

Nýjustu fréttir

Hitti ljósmóðurina mína í dag. Blóðþrýstingur fínn og legbotn eins og hann á að vera. Krílið á trilljón eins og það hefur verið undanfarið og sparkaði fast á móti dopplernum þegar ljósan var að hlusta hjartsláttinn. Fékk fleiri töflur til að reyna að halda samdráttunum eitthvað niðri og svo er það bara áframhaldandi hvíld. Er ótrúlega svekkt yfir því að við komumst ekki í útilegu en svona er þetta bara. Stelpurnar verða bara að vera duglegar að dúlla sér og ég get nú farið með þeim í heimsóknir og svona og legið fyrir þar bara. Ljósan sagði að ef þetta versnar ekkert ætti mér alveg að vera óhætt að fara á Malarrif 17. júlí og það var nú gott að heyra. Vonandi lagast þetta svo bara svo við getum farið í útilegu síðustu vikuna í sumarfríinu, við sjáum til. Mestu skiptir að krílið haldist inni í bumbunni í margar vikur í viðbót.

Annars fann mamma spark í fyrsta skipti í gær :)

Farin að taka því rólega.


Smá viðbót

Bara svo fólk fái ekki alveg hjartaáfall við lestur síðustu færslu ...

Það er sem sagt ekkert sem bendir til yfirvofandi fæðingar en það er auðvitað aldrei gott að fá samdrætti með verkjum. Mínir samdrættir virðast ekki vera að gera neitt af sér og vonandi hætta þeir (eða verða eðlilega margir á sólarhring) svo allir geti verið rólegir. Mestu skiptir að ég hvíli mig næstu daga og að verkir/samdrættir aukist ekki.

 Annars er ég búin að taka ein töflu og hún virðist allavega vera að gera góða hluti. Fylgdist með einum klukkutíma áðan og hann var samdráttalaus. Vúhú.

Vona að þetta verði bara svona gott áfram og trúi því bara, þýðir ekkert annað:)


Hvíld

Helgin var yndisleg. Vorum boðnar í mat til tengdó á föstudag og eyddum kvöldinu þar. Borðuðum úti í sumarhitanum, fórum í pottinn og spjölluðum. Skelltum okkur niður í bæ á laugardaginn, einnig með tengdó, keyptum brjóstahaldara á Hrund, fengum okkur ískaffi á kaffi París og hlustuðum aðeins á jazz á Jómfrúnni. Snæddum spænskan saltfisksrétt hjá mömmu ásamt systkinum mínum og Hlín, æskuvinkonu mömmu. Fórum ekki heim fyrr en þrjú um nóttina, þvílikt stuð og kjaftablaður. Eyddum sunnudeginum í kósýheit, fengum Hlín og mömmu aðeins í heimsókn en annars tókum við því bara rólega, horfðum á video og borðuðum indverskan kjúklingarétt sem ég eldaði.

Byrjaði svo að finna fyrir tíðum samdráttum á sunnudaginn sem hafa haldið áfram og í gær bættist við túrverkjaseyðingur með samdráttunum. Talaði við ljósuna mína og það endaði með því að við fórum upp á fæðingardeild í tjékk. Sem betur fer var leghálsinn langur og lokaður eins og hann á að vera svo að það er ekkert sem bendir til yfirvofandi fæðingar eins og stendur. Núna er bara að sjá hvað gerist á næstu dögum. Ég var send heim með töflur sem vonandi fækka samdráttunum og skipað að hvíla mig. Það er á mörkunum að krílið sé lífvænlegt núna svo það má alls ekki koma.

Mér finns þetta hrikalega erfitt. Var í svo miklu spennufalli eftir að ég kom heim að ég grét úr mér augun. Þess meðganga ætlar aldeilis að reynast mér erfið. En mér er sama hveru erfið hún er, hún má alls ekki enda strax. Núna er bara að liggja á bæn og vona að allt falli í eðlilega skorður, ég trúi því að það geri það og það sé bara aðeins verið að stríða okkur.


Bebisen

Komin 23 vikur í dag og er með svo mikinn bjúg að ég hef þyngst um 800 g á einni viku. Hef samt ekki þyngst mikið í heildina en þessi bjúgur er klikkun. Búin að bæta vatni með sítrónu á bjúglosunarlistann og passa að drekka ekki of mikið af vatni sem ég er deffinítli að gera. Væri nú gaman að vakna einn morgun og geta stigið í fæturna án þess að tárast af sársauka eða geta beygt puttana almennilega í morgunsárið. Er svo aum í höndunum að ég á tíma hjá lækni í dag. Þumalputtarnir á mér eru hættir að virka sem skyldi og það er kvöl og pína að reyna að beygja þá. Verst finnst mér að bjúgur hefur ekki góð áhrif á háþrýsting (eða öfugt, man það ekki) en þetta tvennt fer yfirleitt saman. Veit ekki hvernig ég væri ef ég væri ekki að reyna allt til að koma í veg fyrir bjúginn. Ætla að panta tíma í nálastungu á eftir, Linda gras getur hjálpað með bjúginn, og svo er ég að fara í meðgöngunudd á morgun sem getur líka gert kraftaverk. Svo er það sundið, verð að gjöra svo vel að drulla mér þangað. Af hverju ætli heitapottar hafi ekki þessi bjúglosandi áhrif sem kaldara vatnið hefur?

Annars hef ég tvisvar verið spurð (og síðast í gær þegar ég var gráti næst yfir fílamannssyndrominu og þurfti að troða mér í sandalana sem ég kemst venjulega í í ullarsokkum) hvort ég hafi lagt af. Jibbí kóla. Held reyndar að það sé bókað mál að ég hef sjálf ekki fitnað. Ég er bara eins og vatnsblaðra og svo vega baunin, legvatnið og fylgjan víst eitthvað. Ég er að reyna að vera dugleg og láta þyngdina ekki hafa áhrif á mig en þið vitið hvernig ég er. Langaði bara upp í aftur í morgun eftir vigtun og þurfti að harka af mér svo ég færi ekki að háskæla. Hef verið ánægð með mig hingað til og dáðst að bumbunni en eftir því sem ég þyngist meira á ég erfiðara með að höndla þetta allt saman. Finnst ég stundum algjör vibbi í speglinum og ekki mögulega geta litið vel út. Bara muna að þetta er allt þess virði ...

En eftir þetta kvart og kvein er gott að hugsa um krílið sem fer í kollhnísa þessa dagana inni í mér og sparkar stundum svo fast að ég hrekk við. Það er núna orðið 28 cm og 550 g, það opnar og lokar augunum, sýgur þumalinn, heyrir vel og fær hiksta. Vísir að barnatönnum er að myndast fyrir neðan vísinn að fullorðinstönnunum og línur hafa myndast í lófum og á fingrum sem verða svo að fingraförum. Taugafrumur hafa nú náð þroska og byrja bráðum að tengjast saman og mynda heilstætt taugakerfi.

Trúið þið þessu? Ég er með litla manneskju inni í mér.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband