Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010
31.1.2010 | 22:40
Kósý
Oh, þessi helgi var svo dásamleg ...
Vagnabarnið svaf á sínu græna eyra þegar Sprundin kom heim úr vinnunni á föstudag og ég var búin að elda. Sátum við sitthvorn enda eldhúsborðsins í fallega eldhúsinu okkar með kertaljós og kræsingar á milli okkar. Spjölluðum um daginn og veginn og horfðumst í augu. Röskva vaknaði svo akkúrat þegar við vorum búnar að borða, fékk knús, pela, bleiu og spjall og fór svo að sofa. Lá inni í rúmi og spjallaði við hnefana á sér og reyndi að sparka af sér sænginni á meðan við konan borðuðum heimabakaða eplaköku með ís. Hrund fór svo að sækja mömmu út á flugvöll en hún var að koma úr húsmæðraorlofi í Berlín, átti það nú meira en skilið.
Við Röskva læddumst fram á laugardagsmorguninn og leyfðum Hrund að sofa. Hún skellti sér svo í grúskferð í Kolaportið og út á Gróttu að taka myndir en við Röskva tókum á móti mömmu og Elísabetu sem komu færandi hendi úr bakaríinu. Þær eyddu með okkur deginum og kvöldinu og borðuðu með okkur Hrund kvöldmat á meðan Röskva svaf úti í frostinu.
Ég fékk svo að sofa út í morgun þegar ég var búin að gefa Röskvu brjóst og spjalla við hana. Skreið á fætur að verða eitt og færði Hrundinni sem dormaði í sófanum kaffi. Vagnabarnið mikla svaf að sjáflsögðu út á svölum. Eftir uppvask, pela og bleiuskipti pökkuðum við Röskvu enn einu sinni ofan í vagn og röltum niður í Skeifu. Fórum á opið hús hjá Ismbambus og keyptur nýjar, geggjaðar taubleiur á Aðalbjörgina. Sátum svo í hlýjunni á Tandoori, indverskum veitingastað í Skeifunni sem ég verð að mæla með. Hann er mjög ódýr og maturinn ljúffengur. Hægt að fá nokkurs konar nanbrauðssamlokur með kjúkling eða kebab á 1100 krónur og maður verður sprengsaddur. Röskva svaf í vagninum, hvar annars staðar, og kom rétt inn til að drekka pela. Töltum okkur svo yfir í Hagkaup og keyptum skírnargjöf og annað smávægilegt á útsölu og leyfðum Röskvu að sitja aðeins uppréttri í vagninum og skoða heiminn.
Hún fór svo í sturtu í fyrsta skipti áðan og undi sér vel í mömmufangi. Hefur líka farið í bað með mér og fílaði það í tætlur. Fór svo tandurhrein og södd upp í rúm og var þar bara með smá sporðdrekastæla (eitthvað að vargatítlast) en sofnaði svo.
Hún er svo sperrt og flott að við mömmur erum að rifna úr monti. Svo er ekkert eins yndislegt eins og þegar ég tek hana í fangið og hún leggur litla höfuðið í hálsakotið mitt, á þeim stundum er ég viss um að hún skilur hver ég er.
Ákváðum áðan að hafa nafngiftar- og gleðiveislu fyrir hana. Fer í það á morgun að redda sal og síðasta helgin í febrúar og fyrstu þrjár í mars koma til greina (tengdó er reyndar að fara af landi brott einhverja daga í mars svo það þarf auðvitað að tékka á því fyrst, má ekki vanta eina ömmuna). Ætlum sumst að leigja sal og líklega myndi þetta verða um 30 manna veisla. Ætlum líka að láta blessa Röskvu og erum að fara að hitta Hjört Magna, prest í Fríkirkjunni á þriðjudag. Erum ekki í þjóðkirkjunni og Fríkirkjan hefur alltaf lagt baráttumálum samkynhneigðra lið.
Hrund er á kaffihúsi með stelpunum í skólanum og ég leigði mér mynd sem ég er að hugsa um að fara að horfa á. Ætla að brjóta þvott sem er alls ekki svo leiðinlegt þar sem þetta eru nú föt af stelpunum mínum þremur og borða hnetusmjörs mogm sem mamma keypti í fríhöfninni. Veit ekkert betra.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.1.2010 | 13:54
Vagnaspekúlasjónir
Rakel vildi aldrei sofa í vagni og svaf eins og engillinn sem hún er inni. Ég hef bara aldrei verið neitt að troða Röskvu út í vagn, hefur bara fundist hún of mikið peð og verið of stressuð einhvern veginn. Þarf auðvitað alltaf að skutla henni út í vagn til að ná í Rakel á leikskólann en hef svo tekið burðarrúmið inn þegar við erum allar komnar heim.
Hún hefur alveg sofið ágætlega í vagninum, er stundum smá stund að sofna og vaknar gjarnan ef ég stoppa en svo hefur sko orðið breyting á. Prófaði að láta hana vera áfram úti í vagninum (hún var úti í garði og svo var ég með barnapíutæki í vagninum) eftir að við komum heim úr leikskólanum og hún svaf í þrjá tíma! Og hefur gert hvern einasta dag í þessari viku. Hún fer út í vagn um þrjú og sefur í þrjá tíma.
Sem er gott og blessað nema að mér líður ekkert vel með þetta. Ég myndi helst vilja að hún svæfi bara inni en hún bara sefur ekki langa blundi inni. Gæti alveg tekið 4 ofurstutta blundi til þrjú og ég er sko búin að lesa Draumaland (bók með svefnráðgjöf) og prófa allt sem mér dettur í hug til að reyna að fá hana til að sofa lengri blundi en ekkert gengur. EKKERT. Þegar líður á daginn öskrar hún bara út í eitt af þreytu svo vagninn hefur alveg bjargað okkur.
Ég vil bara ekki að hún geti bara sofið í vagninum, hún verður að geta sofið inni líka. Og svo hef ég áhyggjur af því að hún andi að sér köldu lofti sem ertir lungun, hún hefur verið stífluð alla morgna síðan hún fór að sofa úti. Mér finnst eðlilegt að setja hana út í vagn því að það er alveg normið í samfélaginu en á sama tíma finnst mér það alveg klikkað. Álíka klikkað og að fara í útilegu á þessum árstíma og láta fjölskylduna sofa í tjaldi ...
Ég á ekki til orð.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.1.2010 | 21:48
Hlátur
Aðalbjörgin litla Röskva velti sér tvisvar af mallakút og yfir á bak í morgun og hló sínum fyrsta alvöru hlátri.
Geggjað.
Svo þið haldið ekki að ég elski Rakelina mína eitthvað minna þá vil ég líka segja eitthvað um hana. Hún sagði að ég væri sæt og svo valhoppaði hún af lífsgleði og hjarta mitt hoppaði með.
26.1.2010 | 17:14
Súkkulaðikaka
Ég bara fæ ekki nóg af henni, súkkulaðiköku það er að segja.
Röskvan er í svefnæfingabúðum. Vorum byrjaðar (og næstum búnar) að færa háttatímann hennar frá 2 á nóttunni til 9 á kvöldin þegar hún fór skyndilega að láta voðalega illa á kvöldin. Vona að það sé að mestu yfirstaðið núna og þessi kveisa farin til langtíburtistan. Hún er sem sagt farin að sofa um 9 en yfirleitt mótmælir hún því hressilega að vera lögð í rúmið eða það gengur sæmó að svæfa en hún vaknar eftir klukkutíma og mótmælir þá (stundum er það nú samt loftið að angra hana). Hrund hefur verið að leggja hana, hún hefur betra úthald en ég í að liggja hjá henni og taka við orginu. Á meðan stika ég um gólf inn í stofu og óska þess að gráturinn hætti. Vonandi bara nokkur kvöld í það að hún fari sátt að sofa.
Það gengur vel (eða svona ...) að gefa brjóstið, hún fær það svona 2-3, einu sinni á nóttunni og einu sinni til tvisvar á morgnanna. Svo drekkur hún brjóstamjólk úr pelanum eins og enginn sé morgundagurinn og hún er algjör svelgur stelpan. Ég bara sé hana fitna og finn alveg þegar ég held á henni að hún er að þyngjast. Frábært. Svo er það kannski bara ímyndum og kemur í ljós í 3 mánaða skoðun að hún heldur sinni kúrfu og þyngist lítið. Kemur í ljós í næstu viku.
Rakelin er heima í dag með hor heimsins í nös og hósta. Var með hita í gær svo hún er bara að dúllast með mér og Röskvunni. Röskva svaf aldrei þessu vant langan dúr fyrir hádegi (kannski er prógrammið að virka) svo ég náði að þrífa, elda handa Rakel og ýmislegt fleira. Er ekki vön að hafa svona tíma þar sem Röskvu finnst yfirleitt óþarfi að sofa svo ég nýt hans í botn þótt ég eyði honum í að skola úr kúkableium og brjóta þvott.
Fórum í okkar fyrstu bæjarferð allar fjórar á sunnudaginn. Létum ekki bandvitlaust veður stoppa okkar og lokaðar búðir á Laugaveginum, skelltum pinklum, vagni og börnum í bílinn og brunuðum niður í bæ. Fórum í Eymundsson og skoðuðum bækur og geisladiska, löbbuðum niður á Tjörn og gáfum fiðurfénu í skítakulda og drukkum kakó og átum kleinur á kaffihúsi á meðan Röskvan svaf á sínu græna í vagninum. Enduðum daginn í kjúlla hjá mömmu. Yndislegt alveg hreint.
Annars er ég bara að njóta þess að hafa smá tíma fyrir sjálfa mig á kvöldin núna þegar Röskva fer svona snemma að sofa. Voða ljúft að sitja í sófanum í náttkjól, brjóta þvott og horfa á sjónvarp með öðru og fylgjast með Sprundinni að læra með hinu. Fá mér kannski súkkulaðiköku og ískalda mjólk og dæsa yfir bumbunni sem neitar að fara (súkkulaðikökubumba). Njóta þess að þurfa ekkert að læra heima og lesa Harry Potter.
Langar óskaplega til Svíþjóðar í sumar en veit ekki hvort ég get doblað Hrundina. Rakel langar líka mikið. Getum ekki beðið eftir því að fara í útilegu með ungana og á Malarrif.
Sprundin er komin heim. Hlakka alltaf til að tala við einhvern fullorðinn eftir daginn ...
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2010 | 10:18
Breytingar
Og í fyrsta skipti í hundrað, billjón ár drakk barnið án áreynslu og ég gat slakað á. Ekkert loft að trufla hana og svo ropaði hún á eftir og var svo sæl.
Ég gæti grenjað ...
... af gleði
Þetta gekk bara ekki lengur með brjóstið, ég var orðin þunglynd og leið hrikalega illa og ekki leið Röskvunni vel þar sem hún rembdist við að drekka og var fyrir sjálfri sér og illt af öllu loftinu sem hún gleypti. Það fylgir því mikill tregi og söknuður að taka þetta skref en ef ég vil að barnið mitt nærist almennilega er ekkert annað í stöðunni. Ég stefni á það að mjólka mig og gefa henni mömmumjólk í hverri gjöf og það SKAL ganga (ég ætla samt að reyna að vera ekki of svekkt ef ég neyðist einhvern tímann til að gefa henni þurrmjólk líka, það er allavega ekki hægt að segja að ég hafi ekki reynt).
Síðan á þriðjudag hef ég því gefið Röskvunni pela en hún fær áfram brjóst ef hún vaknar á nóttunni og fyrst á morgnana því einu skiptin sem henni tekst vel að drekka er þegar hún er hálfsofandi. Ég mjólka mig 5-6 sinnum á dag og er á fullu að örva framleiðsluna svo ég fái með tímanum meira í hvert skipti og þurfi ekki að vera neitt stressuð yfir því að mjólka örugglega nóg fyrir hana (og get þá jafnvel safnað í frystinn líka).
Það fylgir þessu svoooo mikill léttir og frelsi. Núna hlakka ég til að gefa henni og nýt dagsins og mér finnast mér allir vegir færir þar sem ég þarf ekki að kvíða því að gefa henni á almannafæri lengur. Ég gat loks sætt mig við að skipta yfir í pela eftir að brjóstaráðgjafinn stakk upp á því þar sem ég var hreinlega búin að reyna allt bara. Gestur Páls sagði svo að Röskva væri greinilega með mjög þröngt magaop og ætti erfitt með að losa loft og því væri peli góð lausn og eina lausnin í rauninni nema ég vildi fara að dæla í hana lyfjum. Ég fór til hans í gær og svo hringdi hann í dag til að tékka hvernig gengi (ÉG ELSKA ÞENNA DÚLLUMANN) og hrósaði mér í bak og fyrir. Eins og hann sagði skiptir mestu að Röskva fái brjóstamjólkina, ekki hvernig hún fær hana.
Ég er helaum í túttunum eftir allt pumpið og enn þá pínu óörugg en ég er samt hamingjusöm. Núna get ég loksins notið þess almennilega að vera með krílinu mínu og þarf ekki að horfa á hana pirrast.
Þótt mér finnist mjög sárt að geta ekki verið með hana á brjósti þá verð ég bara að gera það besta úr stöðunni. Mér finnst yndislegt ef ég get gefið henni brjóstamjólkina áfram.
Er þetta ekki æðislegt?
15.1.2010 | 15:05
Mont
Gleymdi montinu áðan en ...
... Röskva velti sér í fyrsta skipti af maganum og yfir á bakið í dag!!! Er akkúrat 11 vikna í dag, stóra stelpan mín.
Hefði örugglega verið búin að þess fyrir löngu ef ég hefði verið duglegri að setja hana á magann á leikteppinu. Hef helst gert það á skiptiborðinu og þá hefur hún verið að æfa sig og náð að snúa sér hálfhring en stoppað á hliðinni á skiptiborðinu (sem er uppblásin og hefur því verið fyrir). Í morgun passaði ég að hún væri með nóg pláss og skottan snéri sér um leið.
Duglegust.
15.1.2010 | 10:00
2010
Já, ég hef ekki skrifað síðan í fyrra og er það einfaldlega vegna tímaskorts. Bloggið er neðarlega á forgangslistanum, fyrir ofan það eru hlutir eins og brjóstagjöf, bleiuskiptingar, þrif á fötum og sjálfri mér og borða. Kemst sjaldan yfir þetta allt.
Ég ákvað að vera ekkert í neinu námskeiði á þessari önn, átti nóg með þetta fyrir áramót. Erum að vinna í því að fá Röskvuna til að sofna fyrr á nóttunni og vonandi kemst smám sama rútína á blundina á daginn. Annars fer dagurinn í allt og ekki neitt. Brjóstgjöfin er að gera mig geðveika, Röskva gleypir svo mikið loft á brjóstinu og ræður illa við ofsafengið flæði úr túttunum. Er búin að fara til brjóstaráðgjafa og er reyna að komast upp á lagið með að stemma flæðið af svo barnið drukkni ekki í mjólk. Það gengur eitthvað held ég, annars er það bara að hoppa út um gluggann í örvæntingu.
Pabbi stefnir að því að heimsækja okkur í mars og ég vona svo sannarlega að það verði eitthvað úr því.
Við Hrund látum okkur dreyma um að komast til Svíþjóðar í sumar en kannski verður það aldrei neitt annað en draumur.
Okkur dreymir líka um að fara á Malarrif og það er ekki eins fjarlægur draumur. Við stefnum vestur með hækkandi sól og hlýnandi veðri og getum ekki beðið. Fengum líka svo hrikalega flotta kameru í jólagjöf og hennar manndómsvígsla verður að sjálfsögðu á Nesinu. Geti hún ekki fangað hamingjuaugnablikin í fókus er ég illa svikin.
Mamma er alltaf best í heimi, bara svona ef einhver skyldi vera búin að gleyma því. Ég væri hoppandi um á öðrum fæti án hennar, með hennar hjálp stend ég í báða fætur.
Svo er ég bara að reyna að tækla lífið. Vera góð mamma og reyna að fara í göngutúra og svo hlakka ég til þegar ég hef smá tíma fyrir sjálf mig á kvöldin (þegar Röskva fer að sofa milli níu og tíu). Man varla eftir sjálfri mér lengur, ætli ég sé skemmtileg?
Kíkið á Barnaland, ætla að setja inn myndir núna.
Vil enda þetta með því að segja gleðileg jól og nýtt ár og setja inn mynd af fallegustu skottulottum í heimi:
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar