Sól í sinni

Ég er svo hamingjusöm eitthvað í dag. Er það nú oftast en þið vitið hvernig þetta er, dagar eru misgóðir.

Fórum með stubbulínu til læknis í morgun til að láta hlusta hana og skoða í eyrun. Eitthvað sem við vöndum okkur á að gera í hvert skipti sem hún varð veik þegar hún var lítil. Það var oftast þannig að ef hún fékk kvef fór það niður í lungu og stundum fékk hún eyrnabólgu. Það gladdi hjörtu okkar því óskaplega þegar læknirinn sagði hana stálhrausta fyrir utan þennan vírus sem hún er með. Þarf ekkert að fá pensillínviðbjóð. Húrra!

Pabbi hennar er vanur að taka hana á mánudögum eftir mömmuhelgar og skila henni morguninn eftir. Þar sem hún var svona veik síðastliðinn mánudag vildum við bara hafa hana heima og hjúkra henni. Hann tekur hana því einum degi fyrr þessa pabbahelgi, kemur eftir vinnu á eftir og fer með Rakel til mömmu sinnar. Hún verður svo hjá henni á morgun, enginn leikskóli þessa vikuna. Vonandi nær hún að hrista þetta af sér um helgina. Hún er að verða brjáluð á inniveru.

Ótrúlegt hvað ég hef náð að læra þótt ég hafi verið með hana heima. Fór í próf áðan og gekk ágætlega. Þarf bara ekkert að læra fyrr en á morgun. Ætla allavega ekki að gera það. Er uppgefin.

Að áeggjan Sprundarinnar neyddi ég sjálfa mig til að slaka á í gær, sleppa hendinni  af lærdómnum og skella mér á frænkukvöld. Þar var ótrúlega gaman. Fórum í meirháttar skemmtilegan menningartúr um miðbæinn með Birnu Þórðar og enduðum svo á Tapasbarnum.

Fór í umræðutíma í gær og var í hóp með sama strák (og annarri stelpu) og venjulega. Það er nú ekki í frásögur færandi nema af því að mig dreymdi svo fáránlegan draum um hann í nótt. Ætla ekkert að útlista hann fyrir ykkur. Hann var nú ekkert dónalegur samt, mest fyndin. Við skulum bara segja að í draumnum vissi hann ekki að ég ætti konu og var allt í einu orðinn ber að ofan. Ég kunni alls ekki að meta þetta. Það er samt ekkert að marka mig, strákurinn er gullfallegur. Þegar ég sagði honum sem var klæddi hann sig bara aftur í bolinn og hélt áfram að horfa á video með okkur Hrund.

Fór áðan í bakaríið í Glæsibæ að kaupa brauð handa stelpunum mínum og fyrir utan stóð ungur strákur og spilaði á harmonikku. Ég hélt hann væri enn einn aumingjans Rúmeninn að reyna að sjá fyrir sér en allt í einu heilsar hann mér á spænsku. Hann var þess fullviss að ég talaði spænsku. Sem ég geri. Vildi vita hvert hann gæti farið til að sækja um leyfi til að standa og spila. Ég hélt ekki að það væri hægt og laug því að honum. Hrund sagði mér svo að hægt væri að sækja um leyfi en það þyrfti að borga skatt af því. Efa að þessi ungi strákur eða nokkur annar sem vinnur fyrir sér á þennan hátt hafi efni á því að borga skatt. Mig langaði mest að bjóða spanjólanum heim í súpu. Það er svo hryllilega kalt úti.

 Ískyggileg þögn lagðist yfir íbúðina áðan. Rakel hlaut að vera að gera eitthvað af sér. Hún þegir alltaf á meðan. 'Hvað ertu að gera?' kallaði mamma hennar. 'Ég veit það ekki' gargaði hún örg. Stuttu seina heyrðist dynkur, væl í henni og hún kom fram til að láta mig kyssa á meiddið. Litli klifurköttur. Hún sagði stólinn hafa rekist í sig og ég sagði hann ansi dónalegan að dirfast það. Eftir að ég hafði huggað hana sagðist hún tilbúin til að leika sér aftur við stólinn.

Hrund er að reyna að taka undarlegar myndir af mér. 'Má ég sjá brjóstaskoruna' biður hún. Nei. Það máttu ekki. Farðu eitthvert annað að leika þér.

Best að fara að gefa þessum börnum að borða áður en þær slasa sig. Fyrst:

Mér finnst gaman þegar Hrund kemur á móti mér í dyrunum þegar ég kem heim. Þetta er eins og að eiga lítinn sætan hund sem alltaf tekur þér fagnandi. Og svo lítið ljón sem kemur aftan að þér, stekkur á þig og neitar að sleppa. Það myndi vera rauðhaus.

Mér er illa við sprunguna sem er í framrúðunni á bílnum okkar. Hrund segist aldrei hafa fengið stein í rúðuna upp á heiði nema með mér. Hún horfði á mig illu auga þegar hún sagði þetta. Ég neita að bera ábyrgð á þessum steinum. Fengum stein í rúðuna í fyrra. Skiptum um rúðu. Aftur núna um daginn. Höfum ekki enn skipt um rúðu. Erum í afneitun. 


Þriðjudagur

Mér datt bara engin önnur fyrirsögn í hug ...

Það var gott að fá Sprundina heim í gær. Hún kom færandi hendi heim úr skólanum, með rjúkandi heitar pizzur og lék svo við Rakel eftir matinn á meðan ég lærði. Einasta konan mín lét svo renna í bað fyrir mig (já, aftur) og kveikti á kertum og ég lá svo í vatninu í hátt í tvo tíma og las fyrir spænskuprófið.  Fékk veitingar og allt, þær mæðgur færðu mér heitt kakó og súkkulaði. Algjör lúxus. Þegar ég kom úr baði var Hrund búin að leggja Rakel og ég plataði hana til að nudda mig. Við fengum okkur svo kvöldkaffi (allt of mikið af því, skoðuðum bumburnar okkar á eftir og fannst þær hafa stækkað) og skriðum upp í rúm. Svona eiga kvöld að vera. Myrkur, kertaljós og seríuljós (búnar að hengja eina upp í stofugluggann), barnarhrotur berast innan úr herbergi og þú í fanginu á þinni heittelskaðri, nýböðuð og nudduð.  

Rakel er enn lasin. Vaknaði með hita í morgun og hóstinn er ennþá jafn slæmur. Hún er nú sæmilega hress fyrir því. Ég minnist þess nú ekki að hún hafi nokkurn tíma verið neitt sérstaklega óhress þótt hún væri lasin. Fyrsta árið sitt var hún veik heima í þriðju hverri viku að minnsta kosti og alltaf með hósta, astma, kvef eða eyrnabólgu. Hún fór svo að skána eftir eins árs og hefur verið stálhraust síðan hún var eins og hálfs, 7-9-13. En ekki einu sinni þegar hún var peð var hún mjög vansæl með hita. Það var aðallega hóstinn sem reif í litla bringu og lítinn háls og þá grét hún stundum af kvölum. Til þess að hún sé kyrr og móki þarf hún að vera með allavega 39 stiga hita. Orkubolti.

Krílið svaf samt til níu, skreið þá upp í til mín og sofnaði aftur í 45 mín. Hún borðaði vel í morgunmatnum og sat svo inn í stofu og las upphátt fyrir mig úr öllum Einar Áskels bókunum sínum á meðan ég lærði fyrir próf. Það gekk ótrúlega vel hjá mér. Eins og ég hef sagt áður hef ég þróað með mér þann hæfileika að geta útilokað hljóð. Þannig gat ég lært allan síðasta vetur á meðan hún horfði á barnatímann eða var í baði (og Hrund var í kvöldskólanum). Hún fékk svo að horfa á Dýrin í Hálsaskógi (hvað gerði ég án þessarar pössunarpíu) og á meðan sat  ég inn í eldhúsi og lærði. 

Gormurinn lagði sig svo aðeins eftir hádegismat. Gott að hvíla sig þótt maður sofni ekki. Hún söng fyrir sjálfa sig í hátt í klukkutíma á meðan ég kláraði að læra. Núna er hún að leika sér með fingrabrúðurnar sem ég keypti í Madrid. Svo stillt og góð.

Ég veit hins vegar ekkert hvað ég á af mér að gera. Er endalaust slöpp, skil ekki hvað er að mér. Myndi helst vilja skríða upp í rúm en það er nú ekki í boði. Búin að læra fyrir próf, ekkert uppvask, þvoði í gær, búin að búa um. Ætlaði að vera svo dugleg og hlusta á tímann sem ég missti af í gær en hann er ekki kominn inn á netið. Það er tími í forna málinu akkúrat núna svo ekki kemur hann inn á netið strax og ég get eiginleg ekki gert verkefni 10 (síðasta verkefnið, halelúja) fyrr en ég er búin að horfa á tímann. Og ég get eiginlega ekki gert leikritagreininguna sem ég á að skila í næstu viku fyrr en ég er búin að hlust á tímann sem var í bókmenntafræði í gær og hefur ekki enn verið settur á netið. Á ég að vera aðgerðarlaus bara eða?

Hugvísindastofnunarpakkasendingarráðgátan er ráðin. Ég skrifaði mig víst (pottþétt vegna múgæsings) á einhvern lista í einhverjum tíma og sagðist vilja verða áskrifandi að Ritinu. Fékk hina pésana í kaupbæti. Talaði við indæla konu í gær sem gaf mér upp ekki svo indælt ársverð fyrir Ritið. Reyndi að ná í hana áðan til þess að segja henni að mér þætti vænt um ef ég mætti bara sleppa þessu. Og skila þessum ritum sem ég fékk send. Það svaraði enginn. 

Ekki meira núna nema:

Mér er mjög vel við sængina mína og koddann minn og svefnherbergið mitt og þögn og ró og hvíld og svefn ... ég er svo þreytt ...

Mér er illa við að skila ekki verkefnum í skólanum. Það gerðist nú reyndar í fyrsta skipti núna í dag síðan ég byrjaði í háskólanum. Hef annars alltaf skilað öllum verkefnum í öllum námskeiðum. En ég náði ekki að klára verkefnið í forna málinu fyrir daginn í dag þar sem ég var veik í síðustu viku og Rakel núna og bara eitthvað. Bara náði því ekki. Hræðilegt. Það gildir reyndar bara 3% af lokaeinkunn eða svo en alveg sama. Hræðilegt. 

ps. Rakel kom inní stofu rétt í þessu og bað um að fá að hlusta á tónlist. Dró svo geisladisk með amerískum jólalögum út úr hillunni. Í fyrsta lagi veit ég ekki hvernig jólatónlist af þessu tagi komst inn í mitt hús, ekki alveg minn tebolli, í öðru lagi er eitthvað súrrealískt við að horfa á veika barnið með hor og úfið hár dansa um stofuna á ullarbrókunum sínum og innleggsinniskónum og með klút um hálsinn. Á ég þetta litla lukkutröll? 


Eitt og annað

Dagurinn í gær var stórskemmtilegur. Fórum til mömmu á hádegi og fengum okkur brauð og kókómjólk áður en hafist var handa við baksturinn. Rakel var með sín eigin form og kökukefli sem amma Silla gaf henni. Henni fannst samt ekkert mjög gaman að fletja út sjálf þar sem útflatningar hennar (eins og ég kalla þetta) voru of litlir fannst henni. Hún vildi stóra. Þá þurfti hún hins vegar að bíða á meðan við flöttum út fyrir hana. Það var heldur ekki nógu gott. 'Mér leiðist amma' sagði prinsessan og amman setti í fimmta gír við að fletja út.

Rakel smakkaði líka ótt og títt og varð smakkið alltaf stærra og stærra. Ég bað hana um að borða ekki alveg svona mikið deig en hún kom með þau rök að hún væri bara að smakka. 'Soldið eins og pizza' sagði hún. Aldeilis sérstakt deig sem hún var með.

Deigsmakkið var nú ekkert miðað við glassúrátið. Við notum venjulega tannstöngla til að skreyta en þar sem hún var komin með hendurnar á kaf í skálarnar í leit að tannstönglunum og búin að blanda öllum litum saman létum við hana fá skeið. Ekki góð hugmynd. Núna gat hún bara borðað upp úr skálunum með skeið. Þetta var nú svona líka í fyrra og er svo sem ferlega krúttlegt. Hafði helst áhyggjur af maganum á henni.

Við fórum heim eftir kvöldmat hjá mömmu, allar að leka niður úr þreytu. Ég og Hrund fórum að sofa um fjögur bæði aðfaranótt laugardags og sunnudags. Ekki sniðugt ef þú ætlar að vakna snemma á laugardegi til að kaupa jólagjafir og þarft að vakna með árrisulu barni þínu á sunnudegi. Rakel var dauðþreytt eins og börn verða eftir athafnasama daga. Komum henni í rúmið og ætluðum sjálfar snemma að sofa. Ég endaði þó í saumaskap og uppskriftarpælingum á meðan Hrund var í tölvunni. Um hálf ellefu ákváðum við að hundskast í rúmið og settum Rakel á klósettið fyrst (svo hún pissi ekki í rúmið, litlar þvagblöðrur halda bara út í nokkra klukkutíma í einu). Hún var þá rokin upp í hita og byrjaði að hósta hræðilegum hósta á klósettinu. Grét svo vansæl og hás og þurfti að fá kúra smá í mömmu og mammíar bóli.

Hún var því heima hjá mér í dag. Búin að vera ósköp góð en frekar lítil í sér. Lagði sig í tæpa tvo tíma þrátt fyrir að vera löngu hætt að sofa á daginn svo ekki er hún frísk þótt hún sé ekki með eins háan hita  og í gærkvöldi. Krílið mitt.

Annars er ég farin að hallast að því að svaðaleg vöðvabólga valdi þessum hausverk sem ég er stanslaust með. Trúi ekki að ég sé eitthvað lasin ennþá.

Og:

Mér er illa við lokapróf sem gilda þetta 45-55%. Ég þarf að fara yfir alveg jafn mikið námsefni þegar ég er að lesa fyrir prófið. Þá vil ég alveg eins sleppa einhverjum litlum prófum á önninni (sem gilda á móti lokaprófi) sem ég hef aldrei tíma til að læra fyrir og taka bara stærra lokapróf. Það eru t. d. tvö spænskupróf í þessari viku og eins og venjulega er ég bara stressuð og fúl fyrir því að þurfa að finna mér tíma til að læra fyrir þau.

Mér er vel við megaviku á Dominos. Pizzur eru svo fáránlega dýrar en eitthvað aðeins ódýrari í þessari viku hjá þeim. Þótt þeir séu alltaf að hækka verðið.

 

Best að byrja að læra fyrir próf 

 


Við erum ...

... dugnaðarforkar við kyrnurnar. Hrund ofurnámsmaður er búin að klára eitt námskeiðið í skólanum. Búin með borðið sem hún átti að gera svo framvegis er hún í fríi á föstudögum. Hún var því heima með mér í gær í veikindum mínum og við sátum undir sæng og horfðum á spólu. Barnið var á leikskólanum, mátti að sjálfsögðu ekki missa af göngutúr um hverfið með liðinu. Var svaka spennt þegar ég sagði henni hvað væri á dagskrá: 'Verð ég í skikkju?' spurði hún. Ég sagðist halda að hún yrði í pollagalla í rigningunni.

Eftir parkódín, kaffi og sturtu lagði ég í Ikea með stelpunum mínum, það var að duga eða drepast og gefa veikindunum langt nef. Keyptum nýtt fatahengi og skóstand, skóskáp, jóladót og fleira dúllerí. Rakel fékk að fara í barnagæsluna í Ikea í klukkutíma. Þegar við komum að ná í hana var hún að horfa á sjónvarpið. Skil bara ekki af hverju það þarf að vera sjónvarp í öllum svona gæslum. Þar sem við brunuðum í gegnum búðina sáum við hana fyrir okkar sæla í boltalandinu, ekki á rassinum fyrir framan sjónvarpið. Það verður bara að fá fólk sem treystir sér til að passa börn sem hreyfa sig. Fríka allir út ef þau sitja ekki á rassinum eða? Þar sem hún er ekki orðin þriggja ára þurfti ég að sannfæra strákinn í gæslunni um að leyfa henni að vera. Get ekki séð að barnið verði eitthvað öðruvísi eftir mánuð þegar það er orðið þriggja. Hann spurði mig hvort hún væri enn með bleyju. Nei, hún er ekki með bleyju. Hún verður þriggja eftir mánuð, hvað er þetta manneskja.

Eftir glápið hljóp hún með okkur um búðina. Prílaði upp á allt sem hægt var, tók spretti um lagerinn og söng eins hátt og hún gat. Hún er samt ótrúlega meðfærileg barnið ef maður leyfir henni bara að vera með pínu læti sem er eðlilegt fyrir lífsglaða fjörkálfa. Og ef mömmurnar kveða 'komdu niður', 'passaðu þig', 'ekki sleikja þetta' og 'stattu upp úr gólfinu' þá hlýðir hún yfirleitt alltaf. Það er það sem skiptir máli.

Hæstánægðar með kaupin brunuðum við heim og hófumst handa. Settum saman, boruðum, fórum með dót upp á loft, röðuðum, endurskipulögðum og fengum okkur bjór eins og alvöru verkamenn. Þetta var eftir að við lánuðum Rakel til ömmu Sillu. Við erum ábyrgar.

Hringdum svo í mömmu klukkan hálf tólf um kvöldið og heimtuðum að hún kæmi að sjá. Þá var öllu lokið og við að springa úr gleði og stolti. Mamma kom í náttsloppnum og með Einsa bró undir handleggnum. Þeim fannst svaka flott eins og þig getið lesið í kommentinu frá mömmu við síðustu færslu. Það er nátla svakalega kósý hjá okkur.

Í morgun vakti ég svo konuna mína með kaffi. Ef hún er mjög þreytt tekur góðan hálftíma að vekja hana. Hún spjallar þó um heima og geima á meðan. Upp úr svefni. Ég spurði hana hvort hún vildi ekki kaffi. Nei takk, hún vildi ekki gaffal. Kaffi ítrekaði ég, viltu kaffi. Nei takk, hún vildi ekki gaffal í kaffið. Ég gafst upp og náði í kaffið. Sagði við hana að það væri náttborðinu. Ég vil fá Spidermanbollan minn sagði manneskjan þá. Ég sagði hana ekki eiga neinn slíkan og bað hana að opna augun. Hún sagðist ekki geta það, það myndi rigna inn í þau. Þá sagði ég mjööög hátt og hvellt og með mikilli ákveðni í röddinn: Hrund!!! Hún vaknaði.

Við tókum það. Tókum það bara. Allar jólagjafirnar í höfn. Keyptum meira að segja líka fyrir báðar ömmurnar og aðra langömmuna handa Rakel. Djöfull erum við öflugar.

Við náðum svo í gríslinginn til ömmu sinnar og ég eldaði dýrindis mat á meðan Hrund baðaði Rakel. Hún fékk kósýbað: ljósin slökkt og bara kertljós. Ég skellti svo matnum í ofninn og þá var Sprundin búin að láta renna í bað fyrir mig, kveikja á öllum kertum sem við eigum og skreyta baðherbergið með þeim. Yndislegt. Meðan maturinn mallaði lét ég þreytuna líða úr mér.

Núna er hin óstöðvandi Hrund að pússa eldhúsinnréttinguna hjá mömmu sinni. Mamma og Einsi bró voru að mæta vopnuð Þristum og við erum að fara á horfa á Harry Potter. Á morgun er piparkökubakstur og skreyting heima hjá mömmu og Skipasundsstelpurnar svaka spenntar.

Hins vegar er ég ennþá veik. Dónalegt að leyfa mér ekki að vera frísk.

Og:

Mér er mjög vel við Harry Potter. Veit hreinlega ekki hvað það er. Tók mig langan tíma að lesa allar bækurnar en drakk hverja í mig um leið og ég byrjaði á henni. Eitthvað við myndirnar hrífur mig og Hrund segir að enginn á jörðinni hafi horft á myndirnar jafn oft og ég. Ég á fyrstu fjórar og vonast eftir fimmtu í jólagjöf.

Mér líkar ekki að ákveðnar manneskjur í ákveðnum þætti (íslenskum og leiðinlegum) skuli vera með þágufallssýki. Eins og þátturinn sé ekki nógu slæmur fyrir. 


Pakkinn er enn óútskýrður. Hlíf stakk upp á að hafa samband við Hugvísindadeild og benda þeim á að þeir hljóti að hafa gert einhver mistök. Mig langar allavega ekki það mikið í þessi rit að ég sé tilbúin til þess að borga þau.

Ég er ennþá algjör lasarus. Þoli það ekki. Er að sjálfsögðu með nagandi samviskubit yfir að missa af tímum og vera eftir á í lærdómi. Þegar ég er svona lasin skil ég ekki einu sinni fyrirmælin í heimaverkefninu í forna málinu, hvað þá að ég geti leyst það. Ætla að sjá til hvort ég hundskast í tíma á morgun eða reyni að sofa eitthvað og ná þessu úr mér. Get huggað mig við að ég hef aðeins misst af tveimur tímum í ritþjálfun og engum í forna málinu (þetta eru tímarnir sem ég er að fara í á morgun). Æ, ég veit ekki.

Rakel hefur verið yndisleg við mig í veikindum mínum. Þegar ég styn og andvarpa og vorkenni sjálfri mér strýkur hún mér og segir huggunarorðin sem ég segi við hana á erfiðum stundum: 'Þetta verður allt í lagi mammí mín, ég skal passa þig'. Manni líður strax betur. Hún bauðst líka til að hjálpa mér inn í rúm þegar við komum heim úr leikskólanum í gær og byrjaði að klæða mig úr. Ég kann nú ekki við að leggja mig þegar ég er ein með barnið svo ég skellti brosi á andlitið og sagðist vera hress. Börnum finnst vont að sjá vanlíðan foreldra sinna. 

Eftir að hafa eldað í gær hneig ég niður við eldhúsborðið og fannst vera að líða yfir mig. Spurði Hrund hvort hún gæti séð um barnið ef ég legðist í sófann. Auðvitað, sagði Hrund, þótt fyrr hefði verið. Hún beindi svo orðum sínum til Rakelar og sagði að stundum þyrfti að hjálpa mammí að slaka á. Segja henni að setjast niður og hvíla sig og strjúka henni svo. Þetta er víst rétt. Ég þyrfti t. d. að vera nær dauða en lífi til að elda ekki fyrir stelpurnar mínar þrátt fyrir að þær myndu ekki mótmæla því að borða skyr svona einu sinni. Og ekki lét ég svima og höfuðverk aftra mér frá því að þrífa í gær.

Mér er minnistætt þegar ég kom frá Danmörku, fór beint til læknis og var greind með brjósklos og var send í tveggja vikna veikindaleyfi stuttu seinna eftir að bakið á mér læstist. Ég bjó heima á þessum tíma og var að passa systkini mín á meðan mamma var í útlöndum. Daginn áður en hún kom heim gat ég ekki setið kyrr lengur. Tók mínar vöðvaslakandi og parkódín forte og þreif allt húsið í vímu. Vildi ekki að mamma kæmi heim í skít. Fjölskyldan átti ekki til eitt einasta orð yfir vitleysunni í mér né ég sjálf þegar fór að renna af mér og mér farið að líða eins og djöfullinn sjálfur hefði tekið sér bólfestu í bakinu á mér. Það er nátla ekki í lagi með mig.

Í dag var ég þó nokkuð skynsöm. Tók því rólega, var ófær um að læra og lá því mest upp í sófa. Náði í krakkagorminn og við fengum okkur flatkökur og mjólk í eldhúsinu. Hún heimtaði reyndar pasta en mér fannst það ekki við hæfi klukkan þrjú. Við keyptum okkur kleinuhringi út í Rangá í eftirrétt og var Rakel mjög spennt. Vildi helst ekki flatköku. 'Má ég bara fá eina baun og svo snúðahring' spurði hún vongóð. Ég sagðist því miður ekki eiga neinar baunir, flatkökuna skyldi hún borða. Hún lét sig hafa það.

Við horfðum svo á Lottu Astridar Lindgren og ég lék Vidda vísifingur fyrir Rakel. Rakel finnst vísifingurinn á mér hryllilega fyndinn þegar hann breytist í Vidda og hló þangað til henni lá við köfnun.

Í gærkvöldi var ég nú ekki svona vinsæl. Ég brölti upp úr sófanum til að gera ég veit ekki hvað. Fór inn á bað til Rakelar strípalings sem var á leið í sturtu með mömmu sinni. 'Þú ætlar líka í sturtu' sagði hún og horfði á mig spyrjandi. 'Nei, mamma ætlar með þér', sagði ég. 'Já, mamma getur allt' sagði hún með áhersluna á mamma. 'Ég líka víst get allt víst', sagði ég og í veikindum var orðaröðin ekki alveg á hreinu. Rakel horfði bara á mig. No komment.

Ég las svo fyrir hana Hvar endar Einar Áskell sem er nýleg bók í þeim bókaflokki. Textinn er nokkuð flókinn og öðruvísi en í hinum bókunum. Þegar lestri lauk og ég sagði henni að fara inn í rúm sagði hún mjööög sár: 'En það á eftir að lesa fyrir mig!'. Held að henni hafi bara fundist ég vera að bulla eitthvað og vildi fá alvöru lestur. Kannski ég fari að lesa þessa bók oftar.

Rakelita hefur mikinn áhuga á mjólkurfernunum þessa dagana enda skreyttar myndum af jólasveinunum. Í drekkutímanum áðan las utan á fernuna um Grýlu og Leppalúða og íslensku jólasveinana. Rakel endursagði svo allt fyrir mig eins og hennar er venja. Reyndar í nokkuð breyttri útgáfu þar sem hún talaði um Grýlu, Leppalúða og íslensku jólapakkanna. Er barnið strax komið með pakka á heilann?

Áðan tókst mér svo að eyðileggja kósý stund. Eftir allt mjólkurþambið ákvað ég að skynsamlegt væri að stoppa myndina og pissa. Ég fór á undan,án þess að gera mér grein fyrir því að við værum í keppni, inn á bað. 'En ég ætla að pissa' sagði barnið móðgað. 'Ég var á undan' sagði ég gríni eins og hún gerir svo oft, 'þú pissar svo'. Þá rak barnið upp skaðræðisvein og grét með ekka. Að ég skyldi dirfast. Við jöfnuðum okkur þó á endanum.

Er að fara í Þjóðleikhúsið á eftir á sýninguna Óhapp. Allir í námskeiðinu Bókmenntafræði eiga að fara og skrifa svo skýrslu. Ég ætti kannski að fletta upp hugtakinu hvörf sem er eitt af því sem við eigum að skrifa um. Stundum gleymi ég eyrunum heima þegar ég fer í tíma.

Hef undanfarið gleymt þessu:

Mér er líkar hrísmjólk með karamellu alveg einstakleg vel. Ekki það hollasta en heldur ekki það óhollasta. Þegar mig langar í eitthvað sætt og gott finnst mér mjög fínt að fá mér hrísmjólk. Mæli með henni.

Mér er illa við veikindi. Þoli ekki að geta ekki gert það sem ég vil, þoli ekki að horfa á drasl heima hjá mér og hafa ekki orku í að taka það til, þoli ekki að geta ekki slappað af þar sem það eina sem ég get hugsað um er skólinn og þoli ekki að það þurfi ofurmannlegt átak til að koma sér sturtu. Veikindi eru ekki fyrir örar manneskjur eins og mig. 

 


Hjálp

Maður í rauðri úlpu var rétt í þessu að hringja bjöllunni ákaft. Rétti mér pakka og hvarf út í myrkrið.  Áður en ég reif upp pakkann náði ég að reka augun í það að hann var frá Hugvísindadeild. Það fór um mig. Voru þetta einhver tuttugu ársrit sem ég vegna múgæsings samþykkti að kaupa og munu nú kosta mig jólamatinn og gjöfina handa konunni? Í pakkanum voru eftirfarandi pésar:

Ársrit Sögufélags Ísfirðina 2003 (af hverju af hverju af hverju?)

Ritið:1/2007. Tímarit Hugvísindastofnunar 

Milli himins og jarðar (Guðfræðideild og heimspekideild Háskóla Íslands) 

Er þett gjöf? Af hverju þá? Vann í ég hugvísindadeildarlottói? Ég man ekki eftir því að hafa keypt mér miða. Er verið að múta mér til að hætta námi? Þá vil ég frekar Íslenska orðsifjabók. Á ég eftir að borga þetta? Hvað kostar þetta? Er ég farin að vafra á netinu í svefni og í því að misþyrma visakortinu? Bað ég í alvöru um þetta?

Þar sem ég er haldin ýmsum þráhyggjum og sjúklegri skipulagsáráttu er mér illa við óvæntar uppákomur. Held ég sé farin að ofanda. Fjandas plastvæðing. Á engan bréfpoka til að anda í. Umbúðapappír. Verð að finna umbúðapappír.

Hjálp. Hlíf sem veist allt. Ég treysti á þig. Er þetta gjöf í tilefni föstudagsins? 


Nigella ...

... er í sjónvarpinu. Ég hef mjög gaman af henni. Hún eldar af svo mikilli ástríðu og lítur út fyrir að borða einhvern tíma það sem hún eldar. Ég elda helst ekki eftir uppskrift en les þær stundum til að fá hugmyndir. Nigella er til ofan í skúffu hjá mér og hefur aldrei brugðist mér.

Ég er hins vegar ekki sjónvarpinu. Hef ekki verið það síðan ég var tíu ára og spilaði á píanó í tónlistarþætti. Núna ligg ég bara upp í sófa í Bangsímonnáttkjólnum mínum með flísteppi og tölvuna í fanginu. Er eitthvað lasin. Búin að að læra, fara í skólann, sækja barnið, baða barnið og elda og líður eins og ég hafi klifið Everest. Algjörlega búin. Hrundin er að vaska upp og Rakelita syngur inn í herbergi og þykist vera að taka til.

Gleymdi alltaf að segja hvað við gáfum tengdó í afmælisgjöf. Fundum fjóra, litla, þríhyrningslaga striga sem Hrund málaði og skrifaði svo á ljóð eftir mig. Tengdó varð klökk og mjög ánægð.

Mér finnst ég oft togast á milli tveggja heima. Háskólaheimsins og fjölskylduheimsins. Föstudagurinn er ekta dæmi. Dagur íslenskrar tungu og allir íslenskunemar sem og aðrir áhugmenn um ástkæra ylhýra ættu að mæta á skipulagða dagskrá. Við kyrnurnar vorum hins vegar búnar að sjá að þetta væri eini dagurinn fram að jólum sem við gætum tekið í Ikeatúr. Langar að kíkja á jólaglingur og umbúðapappír og vantar skóskáp og fatahengi, eitthvað sem við höfum loksins efni á og ætlum því að leyfa okkur. Ætlum að sækja Rakel snemma og leyfa henni að skottast um, kannski fá okkur ís og bara hafa gaman. 

Ég væri alveg til að fagna degi íslenskrar tungu en get eiginlega ekki sleppt fjölskyldustússinu. Svo er ég að fara með Bókmenntafræði í leikhús um kvöldið og örugglega margir sem fara á djammið eftir það og halda áfram að fagna deginum með íslenskunemum. Ég var nú að hugsa um að fara bara heim. Laugardaginn á að taka snemma í von um að geta klárað jólainnkaupin. Það er bara miklu flóknara að vera hluti af fjölskyldu en barnlaus einstaklingur. Og fjölskylduna tek ég nær alltaf fram yfir húllumhæ og í þessu tilfelli áhugaverða dagskrá. Verst að geta ekki verið á tveimur stöðum í einu. Það er þó bót í máli að hafa afrekað það að eiga ljóð í ljóðabók sem var gefin út á þessum merkisdegi fyrir einhverjum árum. Stolt af því.

Ætli málið sé ekki að mér finnst ég þurfa afsaka það að taka ekki þátt í öllu sem tengist íslensku, hafa ekki áhuga á öllu sem henni viðkemur og vita ekki endaluast um hana. Stundum finnst mér samnemendur mínir uppfylla þessar kröfur. En það er kannski bara bull. Ég hef hins vegar óbilandi áhuga á íslensku máli. Bara líka á fjölskyldunni minni. 

Nennir kannski enginn að lesa þetta blogg lengur? 


ARRRG

Í dag er mér ekki vel við neitt og er hreint ekkert glöð. Mér er hins vegar einstaklega illa við VÍTAHRINGI. Einhver sagði mér að hástafir á bloggi þýddi að maður væri að öskra. Það passar. Þessi bíll sem við eigum hefur oft komið að góðum notum. Við höfum hins vegar eytt tugum þúsunda í viðgerðir á honum. Eyddum t.d. 40.000 í síðasta mánuði. Í dag er augljóst að bremsuborðarnir eru algjörlega búnir plús eitthvað meira sem veldur því að sarghljóðið í bílnum yfirgnæfir hugsanir manns sem og allt annað hljóð Í HEIMINUM. Við höfum ekki efni á ENDALAUSUM VIÐGERÐUM. Og við höfum EKKI efni á nýjum bíl. Ef ég væri ekki með barn myndi ég bara vera bíllaus.  MIERDA.

Helgi

Alltaf gott þegar helgi er í nánd. Ætla að njóta hennar í botn þar sem prófatörnin nálgast óðfluga og þá renna virkir dagar saman við helgina. Ekkert frí. Ef það er einhver sem ég hefi ekki sagt þetta ennþá (ólíklegt, held að ég sé búin að pirra mig á þessu við alla) þá er ég í síðasta prófinu á síðasta prófdeginu. Búin seint 21. des. Þess vegna klára ég helst allan jólaundirbúning í nóvember.

Er að fara að versla með mömmu á eftir, þarf að klára afmælisgjöf handa Bebe (eins og Rakel kallar Elísabetu Rós systur) og jólagjöfina handa Hrund. Næsti laugardagur er svo frátekinn í jólinnkaup okkar Hrundar. Vantar afmælis- og jólagjöf handa Rakelitu og eitthvað handa pöbbunum. Svo erum við búnar.  Reyndar talaði Rakel að fyrra bragði um skóinn í glugganum um daginn. Höfum velt því mikið fyrir okkur hvort við eigum að gefa henni í skóinn. Hún er nátla yngst af 3 ára börnunum sem eru með henni á deildinni, þau flest orðin 3 1/2 og fá örugglega í skóinn. Hugsa að Rakel sé það skörp að henni geti fundist hún útundan þegar árlega 'hvað fékkstu í skóinn?' leikskólatalið byrjar. Við Sprundin stefnum því á hárskraut, límmiða og mandarínur. Eitthvað lítið bara. Barnið á nú eftir að hoppa af kæti ef hún fær eina rúsínu svo þetta verður ekkert mál. Bara að venja hana á strax að skógjafirnar eru litlar.

Annars óttast ég að hún veruleikafirrist. Haldi að það sé bara alltaf partý og gjafir. Gjafir í skóinn, risa afmælisveisla hjá okkur eina helgi og pabbanum næstu og svo sú mesta jólapakkageðveiki sem ég hef séð. Ef jólin í fyrra voru það sem koma skal. Svo hefur hún engan áhuga á því að opna pakka. Er eins og nægjusömu systkini mín þegar þau voru lítil, gleymir sér í leik eftir einn pakka og maður situr sjálfur sveittur og opnar. Og hrýs hugur við því að þurfa að koma öllu flóðinu fyrir inn í barnaherberginu. Kannski þetta breytist þegar barnabörnin í fjölskyldunni verða fleiri (ég er ekki ólett), fólk hefur einfaldlega ekki efni á að eyða tugum þúsunda í hvert barn (Hrund er heldur ekki ólett). En takk samt allir fyrir yndislegar gjafir handa yndislega barninu. Bækur, púsl, geisladiskar, dvd (ekki heilsuspillandi efni), leir, perlur o.s.frv. er vel þegið. Og bílar. Og sérstaklega mótórhjól. Rakel elskar mótórhjól og spinnur heilu sögurnar um sig á mótórhjóli. Enginn í litlu fjölskyldunni er voða hrifinn af barbí (nei), Bratz (nei, nei) og dúkkudóti. Þar sem við Hrund fáum ennþá að hafa vit fyrir barninu viljum við helst þroskaleikföng og ekkert úr Latabæjarmafíunni. Þá vitið þið það. Vona að ég sé ekkert dónaleg. Vil bara það sem er barninu mínu fyrir bestu og nú hafiði fengið hugmyndir. Afmælið verður snemma í desember, nánari upplýsingar seinna. Já, föt. Alltaf vel þegin. Gracias.

Ætla að gista hjá mömmu í nótt, prjóna og láta hana stjana við mig. Finnst vont að vera ein heima, er svo myrkfælin. Rakel er að fara til pabba síns og Hrund ætlar austur að breyta herbergi pabba síns með góðu eða illu og fara í gegnum myndasafn afa síns heitins. Ég er nú að verða eins og hann var. Er illa við að ástvinir mínur séu að væflast eitthvað yfir þessa heiði. Vil bara hafa þá hjá mér. Helst í bómul í vasanum.

Á morgun er svo tengdó búin að bjóða okkur á dekur og djamm með Léttsveitinni. Höfum farið undanfarin tvö ár og skemmt okkur konunglega.

Er að reyna að klambra saman einhverri sögugreiningu. Gengur hvorki né rekur. Væri fínt að fara að fá ljóðgreininguna til baka svo ég geri ekki bara sömu villurnar aftur. Annars er ég voða róleg yfir þessu.

Í breska matarþættinum sem er í sjónvarpinu á mánudögum má finna ýmsan fróðleik. T. d. vissi ég ekki að omega-3 fitusýrur hefð áhrif á stress. Vissi að þær væru rosa góðar fyrir heila og tek þess vegna svoleiðis lýsispillur á hverjum morgni með fjölvítamíninu og hreina appelsínusafanum (dugleg stelpa). Sá svo í þættinum um daginn að fitusýrurnar auka gífulega andstresshormón í líkamanum og minnka stresshormón. Var gerð svaka tilraun á leigubílstjórum sem voru látnir borða mikinn feitan fisk í tvo mánuði og mumurinn var gífurlegur. Þeir voru pollrólegir. Eins og ég er farin að verða. Þekki varla sjálfa mig. Hvar er Díana sem svitnaði við tilhugsunina um svefn, fannst hann tímasóun og gat hvort sem er aldrei sofnað vegna hugsana um allt sem beið hennar. Farin! Eða allavega mun skárri á geði. Omega-3!!!

Komið að því:

Mér er vel við dimma föstudagsmorgna, einu dagana sem við vöknum allar saman í Skipasundinu. Það er svo notalegt að fá sér kaffi með Sprundinni, leiðast svo allar þrjár á leikskólann og kveðjast. Við Hrund leiðumst líka alltaf til baka og erum ótrúlega miklar hjónkyrnur. Ég keyri hana svo í skólann vitandi það að þegar ég kem að sækja hana erum við komnar í frí. Það er eitthvað ljóðrænt við föstudaga.

Ég höndla ekki hár í niðurfalli. Ég get þrifið ælu og kúk en mér líður eins og ég muni deyja ef ég þarf að draga blauta hárorma upp úr niðurföllum. Oj.

 


Spurningaflóð

Eins og eðlilegt forvitið barn spyr Rakel mikið. Mörgum spurningum er ómögulegt að svara. T. d. ef ég er að keyra hún situr aftur í og bendir á eitthvað sem hún sér: 'Hvað er þetta?' spyr hún og ég veit ekkert hvað hún er að tala um. Hún skilur það auðvitað ekki og finnst ég bara leiðinleg að svara ekki.

Í gær vildi hún fá að vita HVER þetta væri sem sæti á bekknum í strætóskýlinu og hvað hann væri að gera. Við mömmurnar gátum svarað seinni spurningunni, maðurinn væri líklega að bíða eftir strætó. Rakel velti þessi mikið fyrir sér og sagði ljóðrænt á leið upp stigann heima: 'Á bekk sat maður og beið og beið og beið'.

Knúsa þarf maður að sjálfsögðu að gera eftir skipun á heimilinu. Ekki það að við séum ekki endalaust að knúsast en Rakel vill að við knúsumst allar í einu. Ef ég og Hrund leyfum okkur að kyssast og knúsast finnur hún það á sér, kemur hlaupandi úr herberginu sínu með stút á munni og útrétta arma. Og auðvitað höfum við ekkert á móti hópknúsi. Í gær var ég eitthvað að knúsast í Rakel við matarborðið. Það er auðvitað ekki ásættanlegt að mamma verði útundan svo Rakel tók málin í sínar hendur:' Knústu hann' sagði hún. Og ég knústi hann Hrund.

Ég og Rakelita erum að bíða eftir að Hrund komi heim úr skólanum. Ætlum til tengdó með afmælisgjöf og kort. Get ekki sagt hver gjöfin er ef hún skyldi lesa bloggið áður en við komum. En hún er heimagerð og mjög flott.

Undanförnum þremur kvöldum hef ég eytt í að hjálpa Hrund með bévítans Lífsleiknina. Fyrst aðstoðaði ég hana með ritgerð sem var alls ekkert leiðinleg, það er bara óbærilegt að vera í lífsleikni þegar maður er orðinn þetta gamall. Í gær og fyrrakvöld sló ég inn verkefni, mér finnst þau hafa verið billjón, og Hrund leysti þau jafnóðum. Sprundin fer sér hægt á lyklaborðinu eins og í öðrum þáttum lífsins. Hún hvarf inn í herbergi snemma kvölds með tölvuna. Þegar ég leit til hennar (hljómar eins og hún sé barnið mitt sem ég þarf að líta til með) klukkustund síðar var hún að byrja á verkefni 2. Hún var búin að slá eitt inn. Ég ýtti henni í burtu og hóf mína hríðskotaárás á lyklaborðið. Eftir það gekk allt mun hraðar. Við þurftum hins vegar báðar að blóta mikið, fá okkur bjór og hlægja svakalega (betra en að gráta) áður en þessi 32 BILLJÓN verkefni voru í höfn. Eins gott að hún fái 10 í þessu. Persónulega fannst mér spurningar í verkefnunum fyrir neðan allar hellur. Verst fannst okkur Hrund þó að geta ekki svarað þeim öllum án þess að leita okkur upplýsinga. Við erum kannski alveg ófærar í lífinu. Höfum enga leikni til að bera.

Þá er komið að þessu:

Mér finnst skemmtilegast í heimi að elda. Ef ég fæ eitt bjórglas með og salsa á fóninn þjappast öll hamingja heimsins saman í brjóstinu á mér á meðan ég hræri og sker og malla. Þetta er magnað

Mér er illa við föt sem rafmagnast til andskotans í þvotti. Þori varla að hreyfa mig í fína kjólnum sem loðir við mig og hefur á undraverðan hátt tekist að troða sér inn í naflann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband