Navidad

Eftir að hafa lesið jólapælingar Hlífar á blogginu hennar datt mér þetta í hug:

 Mér finnst eiginlega skemmtilegast hvað fólk hefur mismunandi skoðun þegar kemur að jólum og það er ótrúlega gaman að heyra um siði og venjur annarra.

 Mamma mín er skondin skrítla og þótt hún héldi fast í sumar hefðir ár hvert (jólabað, hrein rúmföt) þá breytti hún öðru eftir hentisemi. Hún gerði tilraunir með jólamat og hafði það sem hana langaði mest í hverju sinni, fór allt í einu að hafa möndlugraut og göngutúr á jóladag. Ég vandist þessu og tók þátt í að skapa þessar 'venjur'.

Eitt árið var jólatréð komið upp hálfum mánuði fyrir jól (um að gera að nýta gripinn), næsta ár á Þorláksmessu. Það skipti engu, það var alltaf stuð.

Ég hreinlega dýrka að skapa mínar eigin hefðir eftir að ég eignaðist stelpurnar mínar. Það getur verið fjandanum erfiðara að blanda saman mínum venjum og Hrundar en stórskemmtilegt púsluspil þó.

Finnst það notaleg og nokkuð skrítin tilhugsun að með tíð og tíma verða þessar venjur að Rakelar venjum, hún á eftir að alast upp við okkar hefð. Þar sem hún er með eindæmum íhaldssöm eins og flest önnur börn á hún örugglega bara eftir að vilja hamborgarahrygg eins og ég elda hann, vilja fara í göngutúr á jóladag, skreyta á fyrsta í aðventu og borða piparkökur allan desember.

Skrítnustu jól sem ég hef upplifað voru þegar ég var eitthvað um fimm ára peð og var hjá papito í Svíþjóð. Risapálminn hans var jólatréð og jólamaturinn öðruvísi en venjulega. Vissi ekki hvert ég  ætlaði. Þetta var sko ekki eins og hjá mömmu.

Við finnum öll okkar rytma. Sumir eru í kyrrstöðu þangað til á aðfangadag og taka þá trylltan tangó, aðrir vanga inn í jólinn og enn aðrir taka rúmbu á þetta.

Ég er loksins farin að læra að meta jólin aftur. Hef ekki gert það síðan ég var krakki. Mitt eigið sálarástand og vanlíðan í mörg ár olli því að hugur minn var út á þekju. Núna hef ég hreinsað til í mér, farið út með ruslið og fundið jólandann lengst inn í skáp.

Ég hlúi að andanum mínum eins og viðkvæmu blómi. Með hverju árinu sem líður verður líf hans meira, stöðugra og brátt mun hann hætta að flökta. Svona getur maður verið duglegur þótt maður missi fótana einhvern tíma á lífsleiðinni.

Aldrei að gefast upp, alltaf að standa upp aftur. Ég get, skal og vil.

Þetta hljómar svolítið eins og ég hafi verið á kafi í dópi. Sú var nú ekki raunin. Ég var bara einhver veginn í því að éta sjálfa mig að innan í mörg ár.

Svona gerir jólandinn mann væminn. Ef ég lít út um gluggann sé ég spegilmynd mína. Lítinn, úfinn krulluhaus í náttfötum. Gleraugun hafa sigið niður á nef og það er stútur á munninum eins og alltaf þegar ég er að hugsa. Mér þykir ósköp vænt um þess veru. Ég ætla að hugsa vel um hana það sem eftir er.

Það er mín jólagjöf. Það er mitt áramótaheit. 

Í virðingu minni og ást á sjálfri mér felst öll mína geta til að vera hamingjusöm.

Það snjóar inn í mér. Jólasnjór. 

 


Finally

Búin að finna sjálfa mig. Hef endurheimt mig. Þekki mig aftur. Um leið og ég byrjaði að læra fyrir íslensku í gær hentist ég í prófgírinn af svo miklum krafti að það var hálf óhugnalegt. Gleymdi að pissa, gleymdi að borða, gleymdi stað og stund. Stoppaði bara til að setja nýtt blý í skrúfblýantinn og hélt svo áfram. Glósaði eins og ég ætti lífið að leysa. Af svo miklum krafti að eldglæringar stóðu í allar áttir. Bætti mér upp alla þá daga í síðustu viku sem ég var ekki í prófgír og lærði í 7 tíma án þess að anda. Næstum.

Rankaði við mér þegar Sprundin var mætt að sækja inniskóna sína sem ég hafði stolið. Komumst þá að því að ég var hálf kalin á tánum. Hrund tók mig í yndislegt fótanudd og hlýjaði mér. Ég hætti að sjálfsögðu ekki að glósa á meðan. Þessi kafli í stílabókinni er pínulítið hristur.

Ég vona að þetta verði ekki svona í framtíðinni. Að ég lufsist eitthvað áfram þegar ég er að læra fyrir spænsku. Eftir þess önn er ég bara búin með (ef guð lofar og allt gengur vel) 5 einingar af 30 í spænsku. Og mér finnst þetta ekki leiðinlegt (ok, reyndar er ritþjálfun pínu asnó), bara kann ekkert að fara í spænskan prófgír. Bara íslenskan.

 Hlíf kommentaði um ritþjálfunarnámskeiðið sem ég skrifaði um síðast. Hún hélt að námskeiðið hefði verið svona lélegt þegar hún var í því af því að kennarinn var þá að kenna það í fyrsta skipti. Sei,sei, nei. Það er enn þá svona. Og meðaleinkunin á prófunum á önninni hlýtur að rétt slefa í fimm. Prófin eru undarleg. Fullt af orðum sem enginn (nema þeir alla hörðustu) skilja. Ég er með 3,5 stig í af 5 í þeim 50% sem ég er búin að klára. Hvað sem það þýðir. Vona bara að ég nái lokaprófinu. Mierda.

En nenni ekki að hugsa um það núna. Eftir lærutörnina í gær fengum við Hrund okkur ís og svo tók hún mig í allsherjar nudd. Ég lá makindalega upp í rúmi sem Sprundin hafði hitað með heitum grjónapokum og sötraði grænt orkute meðan Hrund fór um mig mjúkum höndum. Höndunum sínum með ljósinu eins og einhver miðill sagði. Guðdómlegt. Og soldið vont af því að þetta var svæðanudd og það er frekar sársaukafullt. Hún ýtti á punkta til að lækka blóðþrýstinginn og lækna hnéð.  Las mig svo í svefn.

Annars er litla lús aftur orðin veik. Bara tvær vikur síðan hún var veik síðast. Kom veik frá pabba sínum í gær. Með 39,5 stiga hita. Öll ósköp lítil og aum. Þær mæðgur höfðu það gott heima í dag á meðan ég lærði eins og mother fo**** heima hjá mömmu í 9 tíma. 

Ætla núna að fá mér ólívubollur og horfa breska heimildarmynd.

Ó ritþjálfun. Þú veldur mér martröð. 


Þreytt

Já, ég er endalaust þreytt eitthvað og nenni engan veginn þessum prófum. Finnst ég ekkert hafa komist í neinn prófgír, að minnsta kosti ekki hingað til. Veit ekkert hvað er að gerast með mig.

Hef verið svolítið mikið hjá mömmu að læra. Það er mjög þægilegt. Oftast hef ég verið mest heima í prófum, kannski tekið tarnir á Hlöðunni en annars læri ég mjög vel hérna í kotinu mínu. Núna hefur það ekki gengið eins vel. Næ ekki að einbeita mér. Finnst því gott að fara til mömmu. Litla systir situr inn í herbergi og lærir fyrir sín próf og öðru hverju spjöllum við um hvað við nennum þessu ekki.

Hrund er búin í sínum prófum og er komin í frí. Kannski þess vegna sem ég næ ekki að einbeita mér hér heima. Miklu meira spennandi að tala við hana heldur en að læra. Kannski líka þess vegna sem ég er að drepast úr þreytu. Hún vakir fram eftir og ég kem mér ekki í rúmið. Horfi með henni á sjónvarpið eða held yfir henni einræður eins og mér einni er lagið (þegar ég spyr þessa elsku hvort ég tali of mikið segir hún alltaf nei, hún nennir alltaf að hlusta á blaðrið í mér).

Var við það að fá taugáfall yfir afmælinu hennar Rakelar í vikunni. Við ætlum að halda það næsta laugardag. Ef allir mæta eru þetta um þrjátíu manns með okkur Hrund og Rakel. Sprundin náði að róa mig. Ætlar með mér að versla og hjálpa mér með undirbúning veislunnar kvöldið áður. Fjölskyldan mín er í fyrra hollinu um hádegisbilið og fær súpa (lagaða kvöldið áður svo það þarf bara að hita hana upp daginn eftir) og brauð. Fjölskylda Hrundar mætir svo um hálf þrjú og fær kökur og kaffi. Get ekki eldað súpu fyrir svona marga. Mamma ætlar að koma með eina köku og ætla að biðja tengdó um að bjarga geðheilsu minni og koma með eina köku og einn brauðrétt eða svo. Davíð frændi heldur svo upp á 25 ára afmælið sitt sama dag og byrjar veislan  hjá honum klukkan fimm. Það er því nóg að gera. Ég er að fara í bókmenntafræðipróf mánudaginn á eftir og kvíði því hræðilega. Aðallega þess vegna sem ég hef verið svona stressuð. Þarf að finna tíma til að gera allt sem gera þarf fyrir afmælið. Sem betur fer er Sprundin í fríi og léttir á mér álagið. Ef ég væri ekki í prófum myndi ég njóta undirbúningsins í botn, baka mitt eigið brauð og gera hummus í stað þess að kaupa það. En það verður ekki á allt kosið. Þetta verður örugglega svaka stuð.

Búin með eitt próf. Fór í spænska málfræði í gær og held mér hafi bara gengið ágætlega. Kvíði prófinu í spænskri ritþjálfum miklu meira (það er 21. des). Ólíkt því sem heiti námskeiðsins gefur til kynna er við ekki að æfa okkur í að skrifa heldur að stafsetja. Það er til endalust af áherslureglum og reglum um hvenær skrifað er v, b, h, g, j og svo framvegis. Fjandanum erfiðara þótt það hljómi ekki svoleiðis. Ég er búin að læra svolítið fyrir það. Hef bara 20. des eftir hádegi til að klára lærdóminn. Núna þarf ég að einbeita mér að bókmenntafræðinni og forna málinu. Ó mæ lordí hvað ég er stressuð.

Þar sem ég hef farið svo seint að sofa í vikunni og náði næstum ekkert að sofa fyrir stressi nóttina fyrir prófið var ég að leka niður úr þreytu í gær. Við Hrund fórum til mömmu með gjöf handa Elísabetu Rós sem varð 16 í gær. Stóra litla systir. Hrund fór svo heim með Val, pabba krakkanna, sem setti upp ný blöndunartæki inni á baði hjá okkur. Núna er ekki lengur hætta á því að Rakel skrúfi frá heita vatninu Þegar hún er í baði og grilli sig. Nýju tækin eru með hitastilli. Ég neyddi mig í Kringlugeðveikina og kláraði að kaupa jólagjöfina hennar Hrundar. Var svo í mat hjá mömmu en var komin snemma heim, gat ekki haldið mér vakandi.

Sprundin er búin að smíða hillur í neðri skápana inn í eldhúsi og í skápana undir súðinni frammi í holi. Dugleg. Loksins er hægt að raða eitthvað inn í þessa skápa og ég get hætt að bölsótast yfir þessu. Dauðöfunda Hrund yfir fríinu. Hún er búin að fá lánaða tölvuleiki hjá bróður sínum og er horfin inn í tölvuleikjaheiminn. Hún getur spilað endalaust. Ég lái henni það ekki. Hún fær örsjaldan tækifæri til að hanga í tölvunni svo hún nýtur þess í botn núna.

Guð, hvað ég sé jólafríið í hillingum. Það verður yndislegt að rölta með stelpunum mínum niður í bæ á Þorláksmessu og vakna með þeim á aðfangadag. Dunda mér við að elda á meðan ég hlusta á hláturinn í þeim fram í stofu. Pabbi Hrundar kemur í mat og kannski föðurbróðir hennar líka. Í fyrra var Robbi hjá okkur en í ár ætlar hann að vera með sinni fjölskyldu og í staðinn fer Rakel til hans á gamlársdag/kvöld. Þetta verður yndislegt.

Eftir tvo daga fer ég að leika jólasvein. Hlakka svo til að gefa Rakel í skóinn. Vorum búnar að finna til ýmist smádót, freyðibað í líki frosks, tvær litlar bækur, sokkabuxur, límmiða og þvíumlíkt en ég er alltaf að sjá eitthvað sætt svo ég hef bætt við barbapabbaglasi og skeið, vettlingum, endurskinsmerki og einhverju fleiru. Það er lang skemmtilegast að gefa krökkum á þessum aldri í skóinn segir mamma. Barnið mitt á eftir að verða svo glatt. Hún er alveg jafn glöð yfir dagatalinu sínu og í fyrra. Við kaupum súkkulaðidagatal og tökum súkkulaðið úr en setjum rúsínur í staðinn. Eins og hennar er háttur gefur Rakel okkur alltaf með sér þótt við hvetjum hana til að borða rúslurnar sínar sjálf. Það er ekki til níska í henni og hún virðist njóta betur ef hún gefur með sér.

En núna er ég farin að skrifa ógesslega langa færslu bara af því að ég nenni ekki að byrja að læra fyrir bókmenntafræði og veit ekki hvernig ég á að gera það.

Hrund sefur mjúk og mjólkurhvít inn í rúmi. Þvottavélin malar og tölvan andvarpar. Það er jólasnjór úti og algjör sunnudagur í götunni. Enginn á ferli.

Stelpan mín kemur heim á eftir, er að halda upp á afmælið sitt hjá pabba sínum. Hún verður örugglega í sykursjokki og alsæl. Og bráðum verður hún þriggja ára. Finnst eins og það hafi verið í gær sem ég, 21 árs, grönn, ó svo grönn, leit hana fyrst augum. Litla sköllótta búddistann með útstæðu eyrun. Það var ást við fyrstu sýn. Hafði einungis gerst einu sinni áður. Nokkrum dögum áður þegar ég hitti Hrund. Ljóshærða, hávaxna og með frekjuskarð. Með bleikan topp (hún var nýbúin að vera hármódel) og þykkar varir. Mér fannst hún í svo stórum og ljótum skóm og var viss um að ég gæti aldrei verið með stelpu í svona skóm.

Ég vissi ekki að ég gæti, vissi ekki að ég myndi, vissi ekki að ég kynni, vissi ekki að ég vildi.

En ég er hér enn. Mamma og sambýliskona. Lifi drauminn sem mig dreymdi aldrei um að dreyma. Vissi ekki að mig dreymdi um.

Kaffibollinn er tómur. Glærurnar um bókmenntafræði horfa ásakandi á mig. Mér er ekki til setunnar boðið. Það er eitthvað ljúfsárt við þennan dag. Við þetta tímabil í lífi mínu. Líður eins og það séu breytingar í vændum. Góðar breytingar. En það er alltaf ákveðinn tregi sem fylgir því að klára kafla í lífi sínu. Æ, ég veit ekkert hvað ég er að tala um og ekki þið heldur.


God

Hlfí hefur bjargað deginum í dag. Var að lesa í kommentunum á blogginu hennar að ég væri hennar guð þegar kæmi að hollu og ódýru. Jess! I am god. Það er jarðneskur hollustuguð svo ég gerist ekki sek um guðspjall.

 Annars hef ég beðið mikið til míns guðs undanfarið. Um styrk. Ekki nýjan bíl eða flatan maga. Kann nú ekki við það. Ég bið guð aðallega um styrk. Og hef fengið hann hingað til. Ég er hér enn og á góðu róli. Eða eitthvað.

Um miðjan dag í gær gafst ég upp á lærdómi. Ég trúi þessu ekki. Ég var bara komin í svona 'ég skil ekki, veit ekki, get ekki' stuð og fór bara og lagði mig. Hef aldrei í lífinu gert þetta í miðjum prófum. Veit ekki hvað er að gerast með mig.

Og ég var að læra fyrir spænsku. Hvernig get ég verið svona léleg í spænskri málfræði. Þar sem ég er sjúklegur perfectionisti þá höndla ég ekki að neyðast til að gera eitthvað í marga klukkutíma sem ég er léleg í.

Þegar ég lagðist í rúmið fannst mér ég heimskur, lítill múmínálfur. Horfði nebla á mig í spegli um daginn og sá að ég er grunsamlega lík múmínálfi. Það er eins og ég segi. Lágvöxnu fólki er ekki ætlað að vera fitubollur. Ég verð að komast í How to look good naked og breyta hugarfarinu. Ég er alveg að fríka út á sjálfri mér. Eftir heilaþvott þar myndi mér örugglega finnast ég sæt og bústin snorkstelpa.

Aaaarg. Farðu að læra Díana Rós. Hvað er að þér eiginlega?

Djók. Ég á tíma í klippingu eftir smá. Verð að hlaupa í orðsins fyllstu. Er ekki á bíl. 


Einsi bró

Þessi færsla er tileinkuð litla bróður mínum, honum Einari Jóhanni. Einsi bró er reyndar ekkert svo lítill lengur, kominn í 9. bekk, en hann er samt alltaf lítill fyrir mér. Var eitthvað að stússsast með honum og mömmu um daginn. Við vorum á mömmu bíl og af gömlum vana ætlaði Einar að setjast í farþegasætið fram í. 'Heyrðu Einsi minn, ertu ekki að ruglast eitthvað?' gall í mömmu. Ég nýt þess að vera frumburðurinn og eiga framsætið í hvert skipti sem ég er með þeim för. 'Jú, úps, ég er bara svo vanur að vera fram í' sagði barnið. 'Þú veist að ég fæ alltaf framsætið', sagði ég við hann, 'ég er stærri, sterkari og frekari'. Áður en hann skaut sér aftur í leit hann á mig: 'Ég er nú reyndar stærri en þú' baunaði hann á mig. Ég varð kjaftstopp. Auðvitað er hann orðin miklu stærri en ég.

Stóri litli bróðir er ein ljúfasta manneskja sem ég hef á ævinni kynnst. Svoleiðis hefur hann alltaf verið. Þegar hann var lítill, bústinn kútur var hann mjög lítill í sér, hræddist ryk og vildi helst komast inn í mömmu sína aftur. Ég var mjög mikið með hann, bæði systkini mín reyndar, þegar hann var krakki og hann var sér á báti. Leikskólakennarar og aðir kennarar áttu ekki til orð yfir ljúfmennskunni og börn slóust um að fá að koma í afmælið hans. 

Hann er enn þá svona. Þegar ég og stelpurnar höfum verið í heimsókn hjá mömmu og erum að fara kemur hann alltaf fram og kveður okkur. Hann faðmar okkur allar og kyssir. Hrund vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið þegar úllinn greip hana í fangið og smellti á hana kossi eftir stutt kynni.

Einsi bró býr líka yfir hafsjó alls kyns staðreyndum og upplýsingum. Þegar hann var lítill var það besta sem hann vissi að skoða bækur. Um leið og hann gat lesið lagði hann það sem hann las á minnið. Og hann las bækur um manninn, sjö furðuverk veraldar, vísindabók barnanna og þvíumlíkt. Seinna tóku Lifandi vísindi við og krakkinn lærir tímaritin bara utan að. Svo byrjar hann: 'Hey, Díana, vissur þú að það er til ánamaðkur í Húlú sem getur breytt um lit?' Stundum reyndar veit ég það af því að við Hrund erum líka áskrifandi að Lifandi vísindum. Ha ha.

Ástæðan fyrir því að ég er að skrifa um brósa núna er að í gær fór ég á magnaða sýningu hjá honum. Hann hefur verið á námskeiði sem heitir Sönglist og er haldið í Borgarleikhúsinu. Hann hefur því verið að læra söng og leik í vetur. Það flottasta er að hann er eini strákurinn í hópnum sínum. Ég tek ofan fyrir honum, strák í 9. bekk, sem lætur sig hafa það að sitja námskeið með eintómum stelpum. Feiminn og óframfærinn eins og hann er. Húrra. Fyrir utan það að leikritið/söngleikurinn þeirra var svo flottur. Og mér dauðbrá þegar litlli bróðir minn hóf upp raust sína og söng dimmri karlmannsröddu. Whot? Þegar ég sá stelpurnar sem hann lék með gerði ég mér eiginlega fyrst grein fyrir því hvað hann væri orðinn gamall. All grown up!

Bravó Einar Jóhann! Hver segir svo að það sé ekki gott að alast upp hjá eintómum kvenmönnum? 


Skemmtilegt

Þessi spurningalisti er nú eitthvað fyrir mig. Náði í hann á síðunni hennar Hlífar og ætla að svara honum að áeggjan hennar:

 1. Harðspjalda eða kilja og hvers vegna?

Erfitt að segja. Mér finnst harðspjalda eigulegri og þær tengjast jólunum, þá fæ ég sjaldan kiljur. Hins vegar eru kiljur svo meðfærilegar og hægt að lesa þær hvar og hvenær sem er. Ég segi harðspjalda í gjöf og kiljur þegar ég kaupi sjálf (nema bókin sé þeim mun sérstakari). 

2. Ef ég ætti bókabúð myndi ég kalla hana ...

Vá, ég væri alveg til í að eiga bókabúð. Ætli ég myndi ekki kalla hana Kotið. Við það orð tengi ég eitthvað notalegt, spennandi og áhugavert. 

3. Uppáhalds frasinn minn úr bók (nefnið titilinn einnig)

Góðar stelpur. Gæða sér á guðsgjöfunum og bursta tennurnar á eftir. Góðar stelpur. Passið ykkur bara á mér. (Sérstakur dagur eftir Kristínu Ómarsdóttur).

4. Höfundurinn (lifandi eða dauður) sem ég myndi helst vilja borða hádegismat með

Kristín Ómarsdóttir 

5. Ef ég væri að fara á eyðieyju og mætti bara taka með mér eina bók ...

Einu sinni sögur eftir Kristínu Ómarsdóttur. Eina bókin sem ég hef byrjað strax aftur á eftir að ég lauk henni. Alltaf jafn sjúklega góð.

6. Það væri frábært ef einhver fyndi upp svona bókatæki sem ...

Hreinsaði bækur og gerði við þær. Þá gæti maður bara sett þvældu, uppáhalds bókina sína sem kannski er með matarslettum (svo gott að lesa um leið og maður borðar) og einhverjum krumpuðum síðum í tækið og hún kæmi út eins og ný. Þessi viðgerð fæli ekki í sér að bókailmur hennar þurrkaðist út. Lyktin af gömlum bókum er svo góð. 

7. Lyktin af gamalli bók minnir mig á ...

Allt það góða í lífi mínu, bæði í fortíðinni og núinu. Ég get tengt svo margt í lífi mínu við bækur af því að þær lita það allt. 

8. Ef ég gæti verið aðalhetjan í bók (nefnið titilinn) væri ég ...

Emma í Emmubókunum, Arnþrúður í Z ástarsaga, Anna í Z ástarsaga.

9. Ofmetnasta bók allra tíma er ...

Verð að vera sammála Hlíf, Laxness kallinn og allar hans bækur. Mér finnst reyndar Salka Valka góð en annars finnst mér þessi dýrkun á honum kjánaleg. Mamma segir að það sé líklega best að lesa hann þegar maður er svona 12-15, þá er maður svo hrifnæmur. Ég las einmitt Sölku Völku á þeim aldri. Það sem ég hef lesið eftir hann síðan þá hefur mér ekki líkað. 

10. Ég þoli ekki þegar bækur ... 

... sem ég fæ í jólagjöf og ég hef sérstaklega beðið um eru leiðinlegar. Ég verð svo hræðilega svekkt. 

 


Jólasnjór

Í gær sögðum við Rakel að þegar hún vaknaði á morgun yrði kominn fyrsti desember og þá mætti hún opna fyrsta gluggann á dagatalinu sínu. 'Þá byrjar að snjóa' sagði hún vongóð. Blessað barnið hefur beðið eftir snjónum síðan í sumar.

Eitt kvöldið í vikunni fengum við okkur vínber eftir kvöldmatinn. Rakel raðaði í sig af miklu kappi, svo miklu að við þurftum að stoppa hana af. Hún var nú ekki á því, þurfti sífellt að smakka eitt í viðbót, bara eina baun (minnsta mælieining sem hún getur hugsað sér). Í lokinn var allt búið nema örfá skemmd ber sem við höfðum tekið frá. Rakel var ekki sein að grípa eitt og ætlaði að stinga því í munnsann sinn þegar við sögðum henni að það mætti hún ekki, þessi ber væru skemmd. Hún horfði forviða á okkur: 'Hver skemmdi þau? sagði hún hneiksluð.

Eins og oft áður vorum við eitthvað að spyrja hana hvernig hefði verið í leikskólanum og hvað hún hefði fengið í hádegismat. 'Ég veit það ekki, ég bulla bara' sagði hún. Við héldum nú ekki og spurðum aftur. Hún studdi hönd undir kinn og andvarpaði. Teygði svo hendurnar út og lagði og á sinn hvorn handlegg okkar Hrundar: 'Þið eruð svo góðIR' sagði hún blítt í von um að losna við að svara. Við þökkuðum fyrir og spurðum hvort hún væri alveg búin að gleyma hvað hún hefði fengið að borða á leikskólanum. 'Ég er ekki á leikskólanum' sagði hún snöggt og þar með var málið útrætt. Óþarfi að vera að tala um leikskólann þegar maður er ekki í honum.

Við Hrund erum búnar að gera ólívubollurnar og þær bíða girnilegar inn í frysti. Við náðum líka að taka einn jólahring í Ikea daginn eftir magakveisu Rakelar. Keyptum eitt nýtt jólaskraut eins og við gerum fyrir hver jól og eitthvað meira glingur. Rakel eignaðist vini í jólalandinu og hélt sig þar mest allan tímann.

Ég lærði eins og brjálæðingur fyrir spænskuprófið en til einskins. Reyndar gat ég það sem ég hafði lært en restin af spurningunum á prófinu voru ekki í neinu samræmi við það sem við höfum lært, enda var ég ekki ein um að vera að skíta á mig. Fólk ákallaði guð og stundi í gegnum allt prófið. Við ætlum að tala við kennarann í næsta tíma (það er aukatími af einhverjum ástæðum eftir viku) og benda honum á hvað þetta er ósanngjarnt. Öllum gekk illa. Ég er ekki einu sinni viss um að ég hafi náð. Því miður gildir prófið 20% af lokaeinkunn. Er farin að sjá fram að fá frekar lélegar einkunnir í spænsku. Það er alltaf erfiðara að læra annað tungumál en þitt eigið. Allavega finnst mér það.

Við stelpurnar áttum gæðastund í gær. Um að gera þar sem prófatörnin er hér með hafin. Fórum í keilu og út að borða á Á næstu grösum og fengum okkur svo ís í eftirrétt.

Núna eru Sprundin og Rakel á leið til ömmu Sillu og ég er að fara að læra. Á morgun ætlum við að skreyta og kveikja á fyrsta kertinu í aðventustjakanum og svo er komið að mér að vera með Rakel á meðan Hrund lærir. Annars er konan mín svo mikill snillingur að hún þarf bara í eitt próf, sleppur við hin sökum góðs árangurs á önninni. Stoltið er alveg að drepa mig. Um miðjan desember fer hún svo að sækja búslóðina sem hún hefur smíðað í skólanum. Ætli við verðum ekki að kaupa okkur nýtt hús fyrir þann tíma svo við komum öllu fyrir.

Lærdómurinn bíður. Fyrst:

Mér líka helgarnar þegar Rakel er heima svo vel. Að finna að þú ert hluti að fjölskyldu, elska og vera elskaður er ómetanlegt. Þetta er lífið og hamingjuaugnablikin eru flest með stelpunum mínum.

Mér er illa við ósanngjörn próf. Það kemur aldrei fyrir að ég geti varla svarað helming af prófi. Eða falli. Gud i himmelen.

Farin að læra! 


Skellur

Rakel féll mörgum sinnum með skelli í gær. Ekki þó í neinum prófum heldur á leið í leikskólann. Það var fljúgandi hálka og hún var eins og belja á svelli. Ég átti fullt í fangi með að halda henni nokkurn veginn uppi og meiruhluta leiðarinnar dró ég hana áfram á einum handlegg. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að halda á henni. Er fegin því að ég kippti henni ekki úr lið. Þegar hún var yngri fór hún nokkrum sinnum úr olnbogalið. Stundum gerðist það þegar við leiddum hana og hún datt og svo einu sinni þegar Hrund var að leika við hana. Fyrst vorum við skíthræddar þar sem barnið öskraði af sársauka og við vissum ekkert hvað var að. Seinna lærðum við inn á þetta og oftast nær kippti hún sér sjálf í lið með brussuskapnum í sér. Algjör snillingur.

Við Rakel sváfum yfir okkur í gærmorgun.  Barnið sofnaði fyrir átta og svaf til korter yfir níu. Þar sem ég þurfti ekki í skólann fyrr en eftir hádegi leyfði ég henni að sofa og vera í fríi fyrir hádegi. Það var voða ljúft. Við fengum okkur morgunmat og komum okkur svo fyrir í sófanum undir teppi og horfðum á teiknimynd. Hún var sjúklega fyndin og við hlógum okkur máttlausar. Rakel hefur mest smitandi hlátur í heimi, svo ótrúlega dillandi. Hún mætti akkúrat í hádegismat í leikskólanum og ég fór heim að vaska upp.

 Þótt Hrund væri eitthvað búin að laga rörin undir vaskinum vissum við alveg að það þyrfti að gera þetta betur. Þegar ég var búin að vaska upp sá ég að allt heila klabbið hriplak. Úps. Enn einu sinni ákváðum við að fresta ræktinni og fara og versla rör í Húsasmiðjunni. Hrund var búin að teikna öll rörin upp og mæla og ég veit ekki hvað svo við myndum örugglega kaupa allt rétt. Það er hins vegar ótrúlegt hvað það gengur stundum illa að komast í ræktina. Við höfum ekki farið í þrjár vikur. Við vorum reyndar mjög duglegar þar á undan en svo höfum við endalaust verið að útrétta eða einhver verið veikur. Þriðjudagar henta okkur lang best til að útrétta.

Málið er bara að ég er sjúklega hrædd um að halda áfram að fitna og enda í hundrað kílóum. -Varð allt í einu svo stressuð að ég fór og viktaði mig, ég hef ekki þyngst-. Ég er hins vegar að æfa mig í því að láta þetta ekki skipta mig svona miklu máli. Þeir sem þekkja mig vita að einu sinni voru þessar fitupælingar eitur í huga mér. Vitinu var komið fyrir mig og ég ætla aldrei til baka. Ég verð líka að hætta að skammast mín fyrir að vera ekki grönn. Og vera góð við sjálfa mig. En ég ætlaði nú ekki að skrifa um þetta. Ok. Takk fyrir mig.

Sumst. Ég náði í Rakel á leikskólan og við brunuðum upp í Iðnskóla að sækja Hrund. Við vorum þó varla komnar inn í Blómval (ákváðum að taka einn jólahring þar og enda í Húsasmiðjunni) þegar Rakel fékk skot í magann og við æddum með hana inn á klósett. Gerðum svo aðra tilraun til að hefja hringinn en barnið gólaði af magaverk. Það var því ekkert annað í stöðunni en að bruna heim og setja krílið á klósettið. Hún fékk svo bláberjasúpu og eplasafa þar sem það er svo stemmandi og var orðin hress á kát í morgun. 

Klukkan er allt í einu orðin ellefu og ég ekki byrjuð að læra fyrir próf sem ég er að fara í á föstudaginn. Ég sveiflast á milli þess að vera pollróleg og svima af stressi. En svona er þetta bara. Að lokum:

Mér líka ólívubollur einstaklega vel. Það er eitt það besta sem ég fæ og þær eru ótrúlega einfaldar í framleiðslu. Við Sprundin stefnum á bakstur í kvöld. Svo er bara að koma þessu í frystinn og þá er hægt að gera sér glaðan dag á aðventunni.

Mér er illa við fólk sem blaðrar í símann á meðan það keyrir. Það er eitt að svara og segjast hringja seinna en annað að skipuleggja næsta árið í símann á meðan þú stýrir með annarri hendi og veist ekkert hvað er að gerast í kringum þig. Þegar ég bölsótast yfir einhverjum stórhættulegum fávita í umferðinni og keyri svo fram hjá honum bregst sjaldan að ég sjái mannesku sem er með alla athyglina við gemsann. Óþolandi og hættulegt. 


Matarstund

Odda podda bestavinkona bjargaði mér á föstudagskvöldið. Sem ég er að hugsa um að fara í bubblubað og borða froðuna í sjálfsvorkun minni eða eitthvað álíka hringir Oddný í mig og boðar komu sína. Sprundin var að sinna einhverju jólastússi og var því fjarri góðu gamni. Ég og Oddný opnuðum bjór og stúderuðum forna málið aðeins. Skoðað með bjór í maga var það eiginlega bara fyndið hvað það er erfitt.

Það var nú bara allt svo fyndið hjá okkur að kvöld sem átti að vera rólegt hjá mér og fara í lærdóm breyttist í tveggja manna partý. Hrund bættist svo í hópinn og við enduðum á tjúttinu. Eins og ég er orðin leið á því og leiðinlegum stöðum þá skemmti ég mér konunglega. Ég dansaði stanslaust frá tvö til fimm án þess einu sinni að stoppa til að pissa. Svitinn lak af mér og einu sinni hneig ég niður með svakalegan hlaupasting. Hélt í smá stund að hann væri banvænn en svo byrjaði eitthvað rassadilliscostaricajuanesseanpaullag og ég trylltist. Ég hræði sjálfa mig stundum.

Hrund svaf ógesslega lengi á laugardaginn svo ég dundaði mér eitthvað sjálf, enginn til að leika við mig. Við Sprundin fórum svo út að borða og í bíó og höfðum það gott. Tókum sunnudaginn með trompi. Hentumst í Bónus, tróðum fullt af drasli í bílinn og á meðan ég gekk frá vörunum brunaði Hrund í Sorpu með allt draslið. Hrund snurfusaði svo og vaskaði upp á meðan ég bakaði spelt súkkulaðiköku, setti læri í ofninn og bjó til sósu, sallat og kartöflugratín. Lagnirnar undir vaskinum gáfu sig skyndilega og miður góð lykt gaus upp. Hrund fór í Húsasmiðjuna og keypti einhver rör og náði í systkini mín sem við höfðum boðið í mat. Móðir mín hefur miklar áhyggjur af krílunum svona móðurlausum á meðan hún vinnur allar helgar og fram á nótt. Veit ekki hvort fólk á þingi gerir sér grein fyrir því hvað það er að gera elsku mömmu minni. Fyrir þá sem ekki vita vinnur mamma hjá fjárlaganefnd Alþingis.

Litli ljósálfur kom heim frá pabba sínum í gær, mátulega í veislumatinn. Ég sakna hennar svo hræðilega þegar hún er í burtu og ég Hrund erum hálf vængbrotnar án hennar. Hún er ljúfasti engillinn minn.

Rakel hefur tekið það upp að kalla kvöldmat matarstund. Studdi að minnsta kosti hönd undir kinn í gær og andvarpaði eftir að hafa klárað matinn sinn: 'Núna er matarstundin búin og ég er svooo þreytt'. Við kústuðum því tennur, báðum bænir og hún sofnaði á örskotsstundu í bólinu sínu.

Síðasta vika annarinnar er hafin. Þegar ég brjálast úr stressi verður mér ekkert úr verki. Ég bara líð um, get ekki hugsað og læri að sjálfsögðu ekki neitt. Sem betur fer standa þessi tímabil stutt yfir. Brátt nær adrenalínið hámarki og þá rústa ég þessum lærdómi. Rústa þessum prófum. Aaaahhh!

Ég og Hrund ætlum að skreppa í eitthvað moll (oj) og finna okkur jólaflík. Viljum ekki fara í jólaköttinn.

Í dag ætla ég að gera orð Elíasar í Elíasarbókunum að mínum:

'Ég hlakka til í fætinum'

Ég kann að segja ég hlakka til og fætinum ekki fótnum. Allt verður í góðu lagi. 

 


Huh

Það er sko engin sól í sinni núna. Bara helv**** ský á himni. Ég höndla einfaldlega ekki þessi heimaverkefni í forna málinu. Hef verið að vinna verkefni 10 frá því klukkan tvö í dag. Á næstum fjórum tímum hefur mér tekist að fá móðursýkiskast yfir væntanlegu lokaprófi (skoðaði prófasafnið á netinu áðan, velti því fyrir mér hvort það borgi sig eitthvað að læra fyrir það eða hvort það sé betra að sleppa því bara, hætta í skólanum, gefast upp á lífinu), grenjukast, leggjast í sjálfsvorkun og finnast ég heimsk, fá illt í magann af stressi, drekka kaffi, skoða allt sem mér datt í hug að hægt væri að skoða á netinu og stara fram fyrir mig á Word skjalið. Ó! Ekki má gleyma að ég hef líka skrifað tvær setningar. Sem sagt  búin með 1/100 af verkefninu. Bravó Díana!

Eins og ég er búin að vera afslöppuð þessa önnina og njóta námsins eiga einhverjar stresshamfarir sér stað innra með mér þessa dagana. Ég fæ hræðileg svimaköst og er við það að líða út af í tíma, magaverk, er með krónískan hausverk og brest í grát þess á milli. Metnaður minn er mikill sem og kröfur til mín sjálfrar. Mig langar til að útskrifast með ágætiseinkunn (9 og yfir í meðaleinkunn). Er horfin frá því þar sem það er frekar óraunhæft þótt ég fái mjög góðar einkunnir. Hef verið með svona 8,8-8,9 undanfarið. Stefnan héðan í frá er mjög líklega niður á við. Kannski fell ég með skelli.

Það er örugglega enginn sem trúir þessu röfli í mér því alltaf gengur mér betur en ég átti von á. Ég er hins vegar full vanmáttar gagnvart forna málinu. Mér hefur aldrei liðið svona gagnvart neinu í mínu námi áður. Kannski aðeins gagnvart setningafræði en ástandið var ekki eins alvarlegt þá og það er núna. Sei, sei, nei. Ég get ekki munað þetta allt. Ég get ekki skilið þetta allt. Mér finnst verkefni 10 óyfirstíganlegt og held ég geti einfaldlega ekki leyst það. Myndi í mesta lagi fá einn af þremur. Veit ekki hvort það er þess virði að eyða þá 20 klukkustundum í það.

Ég held ég þurfi á áfallahjálp að halda. Mín eigin vangeta og heimska er að drepa mig. Sniff. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband