15.1.2010 | 10:00
2010
Já, ég hef ekki skrifað síðan í fyrra og er það einfaldlega vegna tímaskorts. Bloggið er neðarlega á forgangslistanum, fyrir ofan það eru hlutir eins og brjóstagjöf, bleiuskiptingar, þrif á fötum og sjálfri mér og borða. Kemst sjaldan yfir þetta allt.
Ég ákvað að vera ekkert í neinu námskeiði á þessari önn, átti nóg með þetta fyrir áramót. Erum að vinna í því að fá Röskvuna til að sofna fyrr á nóttunni og vonandi kemst smám sama rútína á blundina á daginn. Annars fer dagurinn í allt og ekki neitt. Brjóstgjöfin er að gera mig geðveika, Röskva gleypir svo mikið loft á brjóstinu og ræður illa við ofsafengið flæði úr túttunum. Er búin að fara til brjóstaráðgjafa og er reyna að komast upp á lagið með að stemma flæðið af svo barnið drukkni ekki í mjólk. Það gengur eitthvað held ég, annars er það bara að hoppa út um gluggann í örvæntingu.
Pabbi stefnir að því að heimsækja okkur í mars og ég vona svo sannarlega að það verði eitthvað úr því.
Við Hrund látum okkur dreyma um að komast til Svíþjóðar í sumar en kannski verður það aldrei neitt annað en draumur.
Okkur dreymir líka um að fara á Malarrif og það er ekki eins fjarlægur draumur. Við stefnum vestur með hækkandi sól og hlýnandi veðri og getum ekki beðið. Fengum líka svo hrikalega flotta kameru í jólagjöf og hennar manndómsvígsla verður að sjálfsögðu á Nesinu. Geti hún ekki fangað hamingjuaugnablikin í fókus er ég illa svikin.
Mamma er alltaf best í heimi, bara svona ef einhver skyldi vera búin að gleyma því. Ég væri hoppandi um á öðrum fæti án hennar, með hennar hjálp stend ég í báða fætur.
Svo er ég bara að reyna að tækla lífið. Vera góð mamma og reyna að fara í göngutúra og svo hlakka ég til þegar ég hef smá tíma fyrir sjálf mig á kvöldin (þegar Röskva fer að sofa milli níu og tíu). Man varla eftir sjálfri mér lengur, ætli ég sé skemmtileg?
Kíkið á Barnaland, ætla að setja inn myndir núna.
Vil enda þetta með því að segja gleðileg jól og nýtt ár og setja inn mynd af fallegustu skottulottum í heimi:
17.12.2009 | 12:59
Á morgun ...
... verður rauðhausinn 5 ára og Röskva mín 7 vikna. Þær eru báðar orðnar svo stórar að ég trúi því ekki. Hvað þá að minns eigi þær. Kraftaverkin mín.
Afmælisveislan tókst vel, tveir tímar af svaka fjöri og batmanköku. Mestu skiptir að Rakelin var himinlifandi. Gjöf okkar mæðra sló í gegn og krakkarnir hlustuðu á örugglega alla diskana sem hún fékk með geislaspilaranum í afmælinu. Vorum svo líka með opið hús og heitt á könunni fyrir ættinga á þriðjudaginn sem gátu þá komið við og gefið pakka og knús. Rakelin fékk legó og bækur og bíla og var hæstánægð með það. Best fannst henni þó held ég að fá að borða piparkökurnar sem við bökuðum og skreyttum síðustu helgi hjá mömmu ...
Vorum bara á ferðinni síðustu helgi, Röskvan orðin svo stór. Vorum eins og áður sagði i bakstri hjá mömmu og fórum líka í heimsókn til tengdó þar sem Röskvulingur svaf á meðan við hinar fórum í pottinn.
Ætlum allar að kaupa jólatré á eftir og svo jafnvel í laufabrauðsútskurð til mömmu (hún vinnur niðri á þingi svo það er nú ekki víst að hún komist neitt heim til sín).
Um helgina vonast Sprundin til að komast út að kaupa gjafir handa systkinum sínum og mér. Það eru rúmar tvær vikur frá hnéaðgerðinni og hún er enn þá kvalin og kemst ekki í vinnu og er læknirinn ekki sáttur með það. Sprundin höktir um og sem betur fer er Röskva það vær að ég gat stokkið út og keypt allar gjafir og undirbúið jólin þar sem það er lítil hjálp í litla fatlafólinu. Desember hins vegar þýtur hjá og ég á enn eftir að baka tvær sortir og gera ólvíubollur, stefni á það um helgina. Svo þarf víst að pakka inn en það finnst mér ömurlega leiðinlegt. Hrund finnst það skemmtilegt en hún er svoooooo lengi að dútla við þetta að hún nær þremur pökkum á meðan ég pakka inn rest og reyti hár mitt yfir því hvað þeir eru ljótir hjá mér.
Röskvan er að skána af hormónabólunum og er svo falleg og brosir svo mikið og hjalar að ég gæti grenjað. Læt mér nægja að tárast. Finn samt hvernig hjartað vill út úr brjóstinu af stolti þegar ég skoða myndir af yndislegu stelpunum mínum. Elska kvöldin þegar ég fer að sofa og heyri léttan andardrátt Röskvunnar við hlið mér í rúminu og gnístrið í tönnunum (og stöku hróp og köll því barnið talar og æpir endalaust upp úr svefni) í rauðhaus í herberginu á móti.
Það er sko hamingja.
Var að setja myndir af gullunum mínum inn á Barnaland, allir að kíkja. Hér smá forsmekkur:
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.12.2009 | 13:18
Hahaha
Fyrst samt eitt sem er ekki hahaha. Hvernig getið þið ekki kommentað á yndisfagurt bros hinnar fullkomnu dóttur minnar (þú tekur þetta ekki til þín Gyða? Maður er bara stórmóðgaður!
Annars er hin dóttir mín jafnfullkomin og hryllilega fyndin. Hún fékk leyfi til að bjóða þremur vinum í afmælið sitt sem við ætlum að halda komandi sunnudag. Hún vill bara bjóða strákum, þessi elska. Og vonast eftir bílateppi og sjóræningjalegói í afmælisgjöf. Ég er viss um að fólk heldur að við ölum þetta upp í henni og séum eitthvað að stjórna henni. En neineinei. Ég margspurði hana t.d. hvort hún vildi ekki bjóða neinni stelpu en hún sagði 'nei, bara strákum.' Og við höfu reynt að bjóða henni dúkku, bara svona til að hafa örugglega boðið henni það. En hún vildi frekar plasthest. Held samt að þau séu 5 sem leika sér mikið saman, strákrnir sem boðnir verða í afmælið og ein stelpa auk Rakelar. Spurning um að bæta einum krakka við og bjóða stelpunni líka svo maður sé ekki að leysa upp neitt teymi.
Ég hlakka svo til að gefa henni afmælis- og jólagjöf. Reyndar hlökkuðum við líka mikið til að gefa henni Pétur í fyrra sem var pínu flopp þar sem hún átti von á litlum bróður. Og svo er Pétur sérstakur fugl sem hefur ekki mikinn áhuga á fólki. Við elskum hann samt. Allavega, við ætlum að gefa henni geislapspilara í afmælisgjöf og nokkra diska með (nýja strumpadiskinn og svo skrifaða diska með uppáhaldinu hennar, Valla og snæálfunum og Valla og eitthvað fullt annað). Þá getur hún hlustað á diska, kasetturnar sínar og útvarpið inni í herbergi. Hún hefur verið að nota gamla tækið mitt sem ég fékk frá pabba mínum þegar ég var 5 ára og gæðin eftir því. Ekkert hægt að hlusta á útvarp og augljóslega enginn geislaspilari. Í jólagjöf fær hún svo umrætt bílateppi og nokkra mjög svo svala bíla.
Rakel er bara svo svöl.
Og núna er ég farin að læra. Langar að klára lokaverkefnið í dag helst. Hrund er enn svo slæm í hnénu eftir aðgerðina að hún er heima í dag og sér um ungann núna (þær sofa báðar) svo ég verð að nýta tímann.Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2009 | 19:03
Fyrsta brosið
Eða allavega fyrsta brosið sem náðist á filmu og hún hefur pottþétt aldrei brosað svona breytt. Hún hafði farið í sinn fyrsta göngutúr í vagninum (undarleg setning, göngutúr í vagni) um daginn, komið inn og drukkið og sofnaði svo og svaf í þrjá tíma í vöggunni í engu nema bleiu og ullargalla frá Janus. Vaknað yndislega úthvíld og hamingjusöm og brosti og hjalaði framan í mæður sínar. Og ég var hálfgrenjandi á meðan, þetta var svo æðislegt stund. Litli 'einusinnifrostpinninn minn', ástarengillinn minn, Röskvan mín, dóttir mín ... Öll útsteypt í hormónabólum og orðin hálfsköllótt en það fallegasta sem ég veit.
1.12.2009 | 17:21
Nokkrar mínútur
Já, mér líður eiginlega eins og það séu nokkrar mínútur í deginum enda verður mér ekkert úr honum. Eða það er ekki satt. Ég gef barninu mínu brjóst og skipti á því og knúsa það og við reynum stundum að leggja okkur. Ég set yfirleitt í vél og reyni að borða með barnið á handleggnum. Stundum næ ég að vaska upp. Svo eyði ég miklum tíma í að stressa mig út af jólaundirbúningi og lokaverkefni sem ég hef engan tíma til að sinna. Röskvu finnst algjör óþarfi að ég geri nokkuð annað en spjalla við hana á daginn. Hún vill alltaf vera vakandi þegar ég borða og helst vera með læti og hún móðgast mjög ef ég set hana sofandi í vögguna og vaknar med det samme. Hún dormar stundum í ömmustólnum sínum en passar að ég gleymi ekki að rugga honum. Amma hennar var að fara að skutla Rakel í afmæli og dúllan svaf á meðan hún var hér. Sofnaði í fanginu á henni og svaf svo í 45 mín. alsæl í vöggunni. Um leið og amman lokaði hurðinni á eftir sér og ég settist niður við tölvuna vaknaði hún og nú vill hún í mitt fang og engar refjar. Ég er hins vegar ekkert mjög góð í að skrifa með einari (eða með annarri hendi eins og sumir segja) og þess vegna hef ég ekki bloggað lengi né skrifað staf í lokaverkefni.
Ég væri ekkert að basla með að vera í skólanum ef ég þyrfti þess ekki vegna námslánanna, ég verð að fá lán fyrir þess önn, annars yrði ég að selja mig eftir áramót til að eiga fyrir salti í grautinn. Ég var að hugsa um að taka eitt fag eftir áramót en ég er jafn vel á því að sleppa því bara, mig langar bara að njóta Röskvunnar minnar og þurfa ekki að vera með eilíft samviskubit og áhyggjur.
Annars erum við búnar að skreyta, kaupa í tvær smákökusortir og ólívubollur sem og slatta af jólagjöfum svo ég þarf ekkert að vera stressuð. En svona er ég bara. Venjulega er ég samt í prófum þangað til korteri fyrir jól svo ég ætti að hafa meiri tíma. En ég bara hef það ekki. Röskva tekur hann allan eins og hún á að gera.
Náði loksins að breyta Barnalandssíðunni hennar Rakelar í systrasíðu. Sleppti því að borða og fara í sturtu á meðan barnið svaf í ömmustólnum og gat þá gert síðuna. ALLAN tíma þurfti ég að rugga unganum. Ef ég stoppaði vældi hún. Náði svo bara að klára af því að mamma og co. komu í heimsókn og gátu tekið ungann í fangið. En slóðin er sem sagt: rakelogroskva.barnaland.is og lykilorðið það sama og áður. Ef einhvern vantar það er bara að senda mér póst á drr1@hi.is og grenja það út. Settin inn albúm merkt Röskvu þar sem við eigum svoooo mikið af myndum af henni sem ég vil deila með ykkur. Í framtíðinni verða albúmin sameiginleg.
Annars erum við bara búnar að hafa það rosa gott. Er alltaf á leið út að ganga með Röskvu í vagninum. Ætluðum síðustu helgi en þá var hún svo hrikalega kvefuð (og er reyndar enn). Sprundin er á leiðinni í hnéaðgerð á morgun eftir að hafa verið draghölt í mánuði og ekki hlýtt konunni sem skipaði henni til læknis (ég reyndar pantaði tímann hjá bæklunarlækninum og hún druslaði sér en þá var það of seint fyrir greyið, það þarf að skera) svo ekki erum við á leið í göngu um næstu helgi. Þarf eiginlega að hafa hana með til að æfa mig svo ég geti svo seinna farið ein. Svo finnst mér líka erfið tilhugsun að fara með hana út í kuldann, er algjör ungamamma en það verður bara að hafa það. Það fer að koma að þessu öllu.
Rakelin er yndisleg eins og alltaf. Hef grun um að þær systur verði svolítið ólíkar. Rakel hefur alltaf verið svo sjálfstæð og lítil mömmustelpa, það er helst í seinni tíð sem hún er mikið fyrir knús og svona. Röskva er hins vegar aaaalgjör mömmustelpa og þá sérstaklega mammíarstelpa. Hún er auðvitað bara glæný enn þá en ég held að þetta sé það sem koma skal. Og allt í lagi með það. Stelpurnar mínar eru báðar fullkomnar.
Kemst ekki yfir það hvað Rakel er dugleg. Vaknar um helgar og tekur allt til sjálf fyrir morgunmatinn, skammtar sér sjálf og borðar og gengur frá. Hún er ómetanleg hjálp þegar ég er ein með báðar dótlurnar, nær í bleiur og snuð og huggar litlusystur og bara gerir allt sem ég bið hana um. Held að hún geri sér ekki grein fyrir því hvað ég er stolt af henni þótt ég reyni að segja henni það.
Sem sagt. Við lifum í lukku en ekki í krukku. Eigum fallegasta og yndislegasta stelpuheimilið í bænum. Vonandi get ég bloggað fljótlega en núna orgar unginn á athygli. Kíkið endilega á myndirnar.
Yfir og út.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.11.2009 | 23:24
ok
Undanfarnar tvær nætur hefur Röskva vakað til að verða fimm um nóttina. Hún sefur yfirleitt mjög stutt í einu á daginn og kvöldin og tekur svo tvo langa dúra yfir nóttina. Einn frá svona tvö til fimm (give or take) og svo eftir að hafa sopið og fengið hreina bleiu sefur hún til svona átta (give or take). Í drekkutíma, bleiu, smá spjall og svoleiðis fer yfirleitt eitthvað um klukkutími, stystur tími á nóttunni. Eftir næturblundina tvo tekur hún yfirleitt einn órólegan blund fram að hádegi eða lengur, fer eftir því hvenær hún sofnar. Hún sefur svo órólega að ég held oft að hún sé vöknuð og hef skellt henni á tútturnar (þá sjálf mjög sofandi) og tekið svo eftir því að barnið er steinsofandi en bara með svona mikinn rembing í svefni. Sem sagt, þetta er hennar svefnmunstur ef þið vilduð vita það.
Anywho. Síðastliðin tvö kvöld svaf hún óvenju mikið og var greinilega EKKERT þreytt eftir það. Tók smá org, lét ganga með sig og sofnaði en það var bara í plati og hún vaknaði eftir 10 mín. power napping (eða er bara eitt p í þessu orði?). Svo var hún alveg róleg næstu fimm tímana en glaðvakandi. Kvartaði smá öðru hvoru bara svona til að tryggja að við mæður værum ekkert sofnaðar.
Þar sem hún er alveg að verða mánaðargömul (oh my) ákváðum við að prófa í kvöld að halda henni vakandi í tvo tíma eða svo fyrir nóttina eins og fólk virðist almennt gera til að koma reglu á svefn ungra barna. Hún vaknaði eins og venjulega eftir smá blund um níu, drakk og fékk hreina bleiu og svona. Öskraði pínu á skiptiborðinu til að styrkja lungun og SOFNAÐi svo. Ó já, þrátt fyrir tilraunir okkar mæðra til þess að koma í veg fyrir það. Reyndar eyddum við mestum tíma í það að velta fyrir okkur hvernig í fjandanum fólk héldi pínkulitlum peðum vakandi. Við settum hana í ömmustól, prófuðum að hrista hann, hafa hann kyrran, taka snuðið, sýna bangsa, gefa frá okkur furðuhljóð. Barnið gargaði á allar tilraunir þar til það fékk snuðið og rotaðist svo í korter. Rétt um ellefu. Vaknaði svo aftur rúmlega ellefu. Power napping. Núna hefur hún þrek til að skoða heiminn næstu fjóra tímana. Og við mæður vægast sagt þreyttar.
Ég er ekki beint að kvarta. Mér finnst yndislegt ef henni líður vel og það er frábært að hún geti (þegar hana langar) sofið á nóttunni. Væri bara enn þá betra ef hún gæti farið aaaaaaðeins fyrr að sofa.
Og þið hefðuð átt að sjá barnið þegar við vorum að reyna að halda henni vakandi. Miðað við augnaráðið sem hún gaf okkur hélt hún okkur búnar að missa vitið.
Ó nei, hún er sofnuð aftur. Mikið ansi á hún eftir að vera hress á eftir þegar hún vaknar á miðnætti, tilbúin í vökupartý.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.11.2009 | 17:24
Ég er alveg á leiðinni ...
... að fara að setja inn myndir. Set kannski einhverjar inn hér en ætla annars að breyta barnalandssíðunni hennar Rakelar í sameiginlega síðu fyrir þær systur og skella þar inn einu albúmi tileinkuðu Röskvu þar sem við eigum svo svakalega mikið af myndum af henni. Annars mun ég bara hafa eitt albúm fyrir þær báðar í framtíðinni. Slóðin verður þá rakelogröskva.barnaland.is og lykilorðið það sama. Vantar bara myndavélina hjá tengdó svo ég geti sett myndirnar sem eru þar inn á flakkarann og þá get ég gert þetta.
Síðasti tími annarinnar á morgun (held ég, ætti kannski að gá að því). Aldrei að vita nema ég fari ef mamma fær frí til að passa. Þetta er samt frekar langur tími en ég myndi bara vera með kveikt á símanum. Annars hef ég nú alveg verið að skreppa frá Röskvulingnum stund og stund. Farið í Bónus t.d. og á dekur og djamm hjá Léttsveitinni. Fór svo á laugardaginn með mömmu og Elísabetu niður í bæ og keypti tvær jólagjafir. Sat með þeim á kaffihúsi og spjallaði og gat verið eitthvað annað en mamma í smá stund. Gaf bara unganum áður en ég fór, skyldi hann sofandi eftir hjá mömmu sinni og vissi að ég hefði þá alveg tvo tíma. Fór líka út á sunnudeginum í smá stund. Ég og mamma kíktum í Gerðuberg þar sem konur voru að lesa upp úr bókum sínum, eldhúsáhaldasafn Þórarins Eldjárns var til sýnis og sýning í gangi tileinkuðu bókinni Óreiða á striga eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Ótrúlega gaman.
Þetta var bara svo kósý helgi. Við sváfum og knúsuðumst þrjár uppi í rúmi (rauðhaus hjá pabba sínum). Við mömmurnar þurftum ekkert að deila athyglinni á skotturnar og (sem getur verið smá ögrun) og spjölluðum við ungann sem er farin að brosa til okkar engillinn sem hún er. Ég var í miklu húsmóðurstuði og þvoði örugglega sex vélar, skellti í vöfflur og súkkulaðiköku og var með heitan kvöldmat og alles. Vaskaði upp eins og herforingi á milli þess sem ég skellti barninu á tútturnar. Við spúsan eyddum svo kvöldunum uppi í sófa við sjónvarpsgláp. Það er vesen með Skjá 1, okkur vantar réttan myndlykil og á meðan horfum við bara á RÚV. Og það er bara fullt að horfa á, miklu meira en hefur verið.
Hrund er farin að vinna aftur svo við Röskvan erum hér tvær á daginn. Það er bara kósý. Unginn vill helst vera í fangi alla daga og öll kvöld en sefur svo eins og steinn í vöggunni á nóttunni (yfirleitt) svo maður getur ekki kvartað. Er bara með hana í burðarsjalinu á daginn svo é geti aðeins um frjálst höfuð strokið. Hjúkkan kom áðan og vigtaði krílið og skoðaði og eins og venjulega fékk það toppeinkunn. Það er ekki að spyrja að þeim sem eitt sinn voru frostpinnar, hvað geta þeir annað verið en hörkuduglegir? Hvað þá ef þeir eru með skvettu af mínum genum.
Er svo heppin að Rósa frænka getur sótt Rakel á leikskólann núna þegar Hrund er byrjuð að vinna. Svo fer ég að prófa að fara með ungann í göngutúr í vagninum og sækja rauðhaus sjálf þegar veður leyfir. Er ekki alveg tilbúin enn þá, ungamamman sem ég er. Ætli við tökum ekki fyrsta göngutúrinn um helgina allar fjórar mæðgurnar.
Þarna sé ég eldri dótluna mína með frænku sinni. Skrifa meira seinna.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.11.2009 | 22:27
Skotturnar mínar
Unginn minn orðin tveggja vikna og alveg að verða þriggja vikna. Ætlaði að skrifa þetta daginn sem hún varð tveggja vikna en hann, eins og aðrir daga, hvarf næstum án þess að ég yrði hans vör. Ætla að reyna skrifa smá blogg þegar hún verður þriggja vikna og kannski setja myndir með. Er líka alltaf á leiðinni að breyta síðunni hennar Rakelar í systrasíðu (á eftir að fá góðfúslegt leyfi hjá Robba) og setja inn albúm merkt Rösvkunni. Hún stækkar svo hratt!!! Og mikið er hún alltaf falleg og yndisleg. Mömmuhjartað alveg springur af ást þegar ég horfi á hana. Svo dásamleg.
Alltaf jafn skrítið að strjúka yfir litla kollin og gæla við silkmjúkar kinnarnar og gera svo slíkt hið sama við rauðhaus rétt á eftir, þvílíkur munur! Var að sniffa píslina eftir baðið hennar um daginn og fór svo strax og strauk hinni dótlunni minni sem svaf inni í rúmi. Mér fannst rauðhaus vera tröllahaus hreinlega en ég elska þessa tvo hausa í tætlur. Höfuð, myndi amma segja sem bannar mér að kalla barnahöfuð hausa.
Var í Bónus um daginn með mömmu. Hrund búin að gera grín að því hvað ég var spennt að fara að kaupa inn. Búin að greiða mér og fara í pils og setja á mig vellyktandi og hreinlega klæjaði í fingurna að komast út og vera ein með mömmu og öðru fullorðnu fólki. Hringdi úr búðinni til að biðja Sprundina að setja kartöflur yfir. Hrund vildi þá vita hvað væri í matinn þar sem rauðhaus hafði spurt hana að því stuttu áður. Þegar Sprundin sagðist ekki vita það dæsti Rakelin og fannst það ekkert skrítið þar sem eldabuskan væri í Bónus! Já, takk, ég er eldabuskan á þessu heimili
Annars bara léttist ég og léttist. Þyngdist um 12 kíló á meðgöngunni og hreinlega gleymdi að vigta mig eftir fæðingu. Held ég hafi gert það einhverjum 4-5 dögum eftir hana og átti þá tæp fjögur kíló eftir í þá þyngd sem ég var í fyrir meðgöngu. Vigtaði mig nokkrum dögum síðar og þá var þetta 1,5 kíló. Tveimur dögum seinna 1 kíló og í gær var ég allt í einu 1 kíló léttari en ég var áður. Ég sem var svo handviss um að ég myndi þyngjast með barn á brjósti. Það gæti nú alveg gerst samt og þá bara hefur það sig. Var búin að lofa mér að pæla ekki í þyngdinni eftir fæðingu (ekki strax allavega), rétt eins og á meðgöngunni, og ætla mér að standa við það.
Svo er önnin bara að verða búin og lokaverkefnið bíður mín. Verður yndislegt að hafa meiri tíma en venjulega í jólastúss þar sem ég er 'bara' (dugir mér alveg og meira en það) í einu námskeiði. Sé mig alveg fyrir mér að baka og skreyta á daginn með ungann hjalandi í ömmustólnum. Fá svo pössun og skjótast með Sprundinni út í frostið að kaupa einhverjar gjafir. Og vera fjórar á jólunum, get ekki beðið.
Hef lúmskt gaman af því að eiga heima á algjöru stelpuheimili og geta áfram talað um 'stelpurnar' mínar. Ætli fyrsti typpalingurinn verði ekki bara ættleiddur frá Kenýa og nefndur Júlíus. Það væri nú ekki leiðinlegt.
Ætla að skríða upp í sófa, sitja með fætur konunna í fanginu og glápa á skjáinn þar til sætu svefnhljóðin sem berast úr vöggunnin breytast í kvart og svo stuttu seinna í dramatískt org á tútturnar mínar. Það er ekki eins og maður gegni ekki mikilvægu hlutverki hérna.
Yfir og út.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.11.2009 | 15:09
Kannist þið við svona? Dagbók sveittrar mömmu ...
...
'Hún vildi bara ekki taka mig inn, sagði að ég væri það sein að allur dagurinn myndi riðlast' stamaði ég og reyndi að hemja kökkinn í hálsinum. 'Við erum að tala um 10 mín.', bætti ég við og röddin brast.
Mamma fann til með mér og átti ekki til orð yfir því hvað konan var eitthvað stíf.
'Ég fann ekkert innganginn. Hún er flutt á Skólavörðustíg og ég átti að ganga inn frá Óðinsgötu en inngangurinn var ekki merktur.'
Ég hafði átt að vera hjá grasalækni klukkan eitt, hafði beðið eftir tímanum í viku og vonaði að læknirinn gæti hjálpað mér að hækka aftur í blóði eftir blóðmissinn í fæðingu.
'Hún sagði að þetta væri merkt inni í gangi en það hjálpar mér ekki neitt, ég gekk þarna í hringi og leitaði að innganginum' kjökraði ég og þurrkaði tárin sem láku og ég réð ekkert við.
Ég stóð inni í barnafataverslun og þuklaði rándýr barnaföt, Davíð frændi varð pabbi í gær og ég vildi kaupa gjöf. Ætlaði að fara endurnærð eftir nálastunguna en stóð í staðinn og titraði af geðshræringu milli rekkanna, vælandi í mömmu sem reyndi að hugga mig í gegnum tólið.
Gafst upp og fór út þegar ég símtalinu lauk, andaði að mér svölu loftinu og reyndi að stilla mig. Hugsaði með mér að það væri greinilega langt síðan læknirinn var nýbökuð mamma því hún gerði sér engan veginn grein fyrir átakinu sem fylgdi því að reyna að mæta eitthvert stundvíslega þegar maður er með 12 daga gamalt barn á brjósti. Hún hafði reyndar boðið mér tíma daginn eftir en bíllinn átti að standa á verkstæði þá svo ég kæmist ekki. Auk þess var ég bara vond út í hana og hraus hugur við því að þurfa aftur að mæta eitthvert á slaginu.
Röskvulingur fær stundum pínu í magann og átti erfitt í nótt sem leið. Gjöf, bleiuskipti, spjall og rugg í svefn tók tvo tíma og unginn kominn í ból að verða 02. Vaknaði svo aftur stuttu síðar og kvartaði yfir lofti í maga og mæður reyndu að sussa og bía og gefa brjóst og allan pakkann. Barnið komst samt ekki í almennilega ró fyrr en að verða sex um morguninn og klukkan átta hringdi svo vekjaraklukkan, tími til kominn að fara með eldri stelpuna í leikskólann (við höfum verið að reyna að halda einhverri rútínu og láta hana borða í leikskólanum og svona eins og áður, gengur misvel).
Röskvan vildi líka sitt og svo var þvottavélin með vesen, hleypti ekki niður af sér vatninu og við konan búnar að bauka við að laga hana í einhverja tíma kvöldið áður. Vesenið hélt áfram í morgun og til að gera langa sögu stutta var allt komið á flot og ég að verða of sein í nálastungu.
Stóð algjörlega svefnvana í sturtunni og reyndi að muna hvað ég var að gera þarna. Varð litið niður á loðna kálfa og ákvað að ég yrði að raka leggina ekki seinna en núna. Er algjörlega komin úr æfingu og endaði með nokkur blæðandi sár áður en yfir lauk. Hafði varla orku í að þurrka mér. Konan var komin undir þvottavélina og ég reyndi að þurrka mér hratt með brjóstin lekandi eins og venjulega. Fékk mér útrunna langloku að borða og fór svo inn að vekja lítinn, heitan kút. Gaf brjóst með augun límd við klukkuna, fljót Röskva, fljót. Fór algjörlega andlaus í flísbuxur og bol og kom lekavörninni góðu fyrir framan á túttunum. Jakki, skór, trefill. Var orðin sveitt af áreynslu þegar ég kyssti Sprundina bless.
Gluggapóstur í stiganum. Bankinn að tilkynna mér fallega að ég hefði ekki borgað visareikninginn og því bættust vextir ofan á. Þetta á að skuldfærast, fjandinn hafi það! Ansi gróft þegar bankinn gerir mistök og rukkar kúnnann um þau.
Var óörugg þegar ég startaði bílnum. Sullaði á mig sjóðheitu kaffinu sem ég hafði með mér í ferðamáli. Þótt ég sé komin úr 75 og upp í 89 í blóði þá er ég vön að vera í 120 og er því enn þá vægast sagt orkulaus. Var pínu hrædd um að líða út af í miðjum akstri en krossaði putta og keyrði af stað. Örugglega lengstu leið í heimi niður í bæ þar sem ég gleymdi mörgum sinnum á leiðinni hvert ég var að fara. Fann stæði, borgaði og labbaði, með stjörnur fyrir augunum, eins hratt og ég gat til grasalæknisins til þess eins að vera vísað burt.
Hrökklaðist á endanum út úr dýru barnafatabúðinni fyrrnefndu og inn í aðra. Álíka dýr. Rölti í átt að bílnum og datt í leiðinni inn í búð með íslenskri hönnun. Dýrust þeirra allra en mikið var allt fallegt þarna. Stóð þarna með höfuðverk og brjóstin lekandi og kreisti sveittan 5000 kallinn í lófanum. Varð hugsað til þess að viðgerðin á bílnum átti að kosta 50.000 en Davíð verður bara einu sinni pabbi. Fann tvær gullfallegar flíkur handa Glænýjum Davíðssyni og hafði það í bílinn. Skellti hurðinni fast á eftir mér og hlustaði svo á Muse í botni. Ímyndaði mér sjálfa mig að berja trommurnar aftur og aftur og aftur.
Ákvað að taka bensíns þar sem það var 5 krónu afsláttur í dag en fattaði á miðri leið að ég var ekki með dælulykilinn. Hækkaði aðeins í Muse. Kom heim, hringdi í kvensjúkdómalækninn minn og vildi panta tíma í eftirskoðun eftir einhverjar vikur. Það var upppantað út árið. Konunni á símanum hefur þó líklega brugðið við örvæntinguna í röddinni minni því skyndilega fann hún tíma 3. des. Skrifaði færslu á bloggið og held ég hafi fundið æð springa í höfðinu þegar hún datt út af því að ég ýtti á vitlausan takka.
Ég held ég haldi mig bara heima og knúsi kútinn minn á morgun. Svona útstáelsi er ekki gott fyrir geðheilsuna.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.11.2009 | 19:57
Fæðingarsagan og nýjar myndir
Var að skrifa fæðingarsöguna fyrir sjálfa mig og langar að deila henni með þeim sem vilja lesa:
Fæðingarsagan
Ég átti tíma hjá ljósunni á settum degi og þegar ég mætti í skoðun kom í ljós að blóðþrýstingurinn hafði hækkað og neðri mörkin voru komin yfir 100. Ég hef verið með háan blóðþrýsting síðan hann var mældur fyrst þegar ég var 17 ára og aldrei fundið neitt fyrir því, held að það sé mér bara eðlilegt. Hann hafði líka haldið sér nær alla meðgönguna og meira að segja lækkað á öðrum þriðjungi hennar. Ég var svo búin að vera á lyfjum við honum frá 35. viku þegar hann fór aðeins að stíga en hann hafði haldið sig á mottunni þangað til. Ljósan ákvað þennan umrædda dag að senda mig í dagönn og ég mætti niður á deild nokkrum tímum seinna.
Ég var klukkutíma í mónitor og mældust töluverðir samdrættir á meðan. Blóðþrýstingurinn hélst jafn hár og eftir að það mældust tveir plúsar í þvagi hjá mér var ég úrskurðuð með meðgöngueitrun og ákveðið að setja mig af stað daginn eftir. Það er óneitanleg skrítin tilfinning að fá að vita fyrir víst að maður fái ungann sinn í hendurnar eftir einn til tvo daga! Ég var að springa úr spenningi þegar ég hringdi í konuna mína og mömmu til að segja þeim fréttirnar, kannski yrði komið barn á morgun!
Við tók undirbúningur fyrir gangsetninguna og spítalavist, stóra systir látin vita af fréttunum sem og pössunarpían og svo var bara að bíða. Þar sem ég var með samdrætti með verkjum ákvað ég að taka verkjatöflu, fara í sturtu og reyna að sofa og það tókst bara ágætlega. Spúsan var hins vegar eins og hengd upp á þráð og alveg að farast úr stressi og sat alla nóttina inni í stofu og bjó til stuttmynd í tölvunni.
Við áttum kósý morgun með stelpunni okkar og fengum góða vinkonu í heimsókn sem var ágætt til að dreifa huganum. Vorum svo mættar með allt okkar hafurtask niður á deild á slaginu eitt. Það var búið að segja mér að mæta bara með maka og hringja svo í mömmu þegar eitthvað færi að gerast en við vorum löngu búnar að ákveða á hún yrði viðstödd þessa merkisstund. Það var mikið að gera niðri á deild og við látnar bíða í meira en hálftíma frammi á gangi. Þá var okkur loks vísað á herbergi, nokkurs konar biðherbergi en þar áttum við að vera þangað til fæðingin færi að malla í gang. Þar sem ég var með meðgöngueitrun mátti ég ekki eiga í Hreiðrinu sem var pínu svekkjandi en sem betur fer var herbergið sem við fengum æðislegt, tvö stór, stillanlega rúm, sjónvarp (eina herbergið með sjónvarpi) og stórt baðherbergi. Ég var sett í mónitor og klukkan þrjú fékk ég fyrstu gangsetningartöfluna. Við krossuðum putta og vonuðum að ég þyrfti bara eina.
Stuttu seinna kom ljósan til okkar með þær fréttir að viðbúnaðarstig spítalans hefði verið fært á hæsta stig vegna svínaflensunnar, lokað hefði verið fyrir allar heimsóknir og bara einn mátti vera viðstaddur fæðinguna. Mér leið eins og ég hefði verið kýld í magann og ljósan hafði varlað lokað dyrunum þegar ég byrjaði að háskæla af vonbrigðum. Mig hafði dreymt svo lengi um að deila þessari stund með mömmu og svo fannst mér líka sárt að Rakel fengi ekki að koma upp á deild að sjá barnið nýfætt. Ég held ég hafi grátið stanslaust í klukkutíma og treysti mér ekki til að segja mömmu fréttirnar svo Hrund sá um það. Mamma var að vonum svekkt en við skildum alveg afhverju þurfti að gera þessar ráðstafanir, það var pakkað á gjörgæslu og berskjaldaðir nýburar í húsinu.
Ég náði aðeins að jafna mig og þá var komið að næstu töflu, fimm tímum frá þeirri fyrstu. Eftir hana fór ég að fá reglulega og sterka samdrætti og voru um 5 mín. á milli. Ný og yndisleg ljósa var komin á vakt og tilkynnti mér að leghálsinn væri fullstyttur og mjúkur og ég komin með 1 í útvíkkun. Þegar þriðja ljósan kom á vakt á miðnætti ákvað hún að færa okkur yfir á fæðingargang þar sem hún átti von á því að útvíkkunin væri orðin meiri og hægt yrði að sprengja belginn. Aftur vorum við heppnar og fengum stærsta fæðingarherbergið með baðkari sem var einmitt það sem ég hafði beðið um. Því miður var leghálsinn alveg eins og því ekki hægt að reyna að sprengja belginn. Samdrættirnir voru meira og minna dottnir niður en ég var með stöðuga verki svo ég fékk verkjatöflu, þriðju gangsetningartöfluna og skipun um að reyna að sofa. Verkirnir og spenningurinn héldu fyrir mér vöku og auk þess þurfti stöðugt að vera að mæla blóðþrýstinginn og setja mig í mónitor svo það var lítill svefnfriður. Klukkan þrjú fékk ég fjórðu gangsetningartöfluna og þær fréttir að það væru ekki gefnar fleiri en fimm, eftir það væri gripið til annarra ráðstafanna. Ég var orðin úrvinda af verkjum og þreytu og bað og vonaði að það þyrfti ekki fleiri töflur.
Áður en ljósan fór af vakt ákvað hún að reyna að sprengja belginn en það hafðist ekkert upp úr því nema hrikalegur sársauki fyrir mig. Það var kominn bjúgur í leghálsinn þar sem hann hafði verið fullstyttur svo lengi en samdrættirnir dottnir niður. Ég fékk aftur verkjatöflu og nýja ljósu á vakt og náði þetta skiptið að sofa í um einn og hálfan tíma.
Sem betur fer náði ég að hvílast aðeins því ballið var að byrja. Ég vissi ekki fyrr en inn komu tveir læknar og ljósan með þær fréttir að það eigi að gera aðra tilraun til að sprengja belginn. Hálfsofandi geri ég mig klára og en vakna snögglega við nístandi sársauka. Annar læknirinn ýtti barninu ofan í grindina á meðan hinn læknirinn notaði alla sína krafta til að komast inn fyrir og sprengja belginn. Eftir óratíma fann ég loks vatnið seytla en þessi meðferð hafði það í för með sér að í hvert skipti eftir þetta sem ég var skoðuð ætluðu augun út úr höfðinu á mér af sársauka, ég var öll svo aum.
Samdrættirnir hrukku í gang. Þarna var klukkan rétt um tíu á föstudagsmorgni, 17 tímar frá fyrstu gangsetningartöflu. Ljósan hafði ákveðið að bíða með að gefa mér hríðaukandi dreypi þar sem ég var með samdrætti en eftir einn og hálfan tíma höfðu þeir ekkert aukist svo dreypið var sett upp. Þá fór sko allt í gang.
Fyrst rólega og ég andaði mig gegnum verkina. Eftir því sem dreypið var aukið hertust verkirnir og ég bað um að fá að fara í baðið þar sem mér var farið að vera mjög illt. Læknarnir vildu hins vegar ekki leyfa mér það, bæði var ég með dreypi í æð og mónitor um mig miðja en svo var blóðþrýstingurinn líka farinn að hækka svo mikið. Ég fékk blóðrþýstingslyf í töfluformi og í æð en þrýstingurinn var áfram hár. Dreypið var aukið og allt í einu ruddust verkirnir fram. Ég greyp andann á lofti í hverri hríð og fannst eins og bakið væri að brotna. Mér var svo illt að ég stóð ekki í fæturna og engdist því um sitjandi í rúminu. Á klukkutíma urðu verkirnir óbærilegir og ég missti mig algjörlega. Grét og veinaði í hverri hríð og leið eins og ég væri að deyja, þvílíkur sársauki. Elsku Hrund var alveg miður sín en ljósan var fljót að átta sig og sagði kominn tíma á mænudeyfingu. Bæði var þrýstingurinn svo hár (og mænudeyfing besta meðalið við því) og svo sá hún að ég gat ekki meir. Það er víst ekki óalgengt að svona fari í gangsetningu, sóttin verður allt öðruvísi en þegar maður fer sjálfur af stað.
Þessi yndislega ljósa (hún var uppáhaldið mitt af þeim sex sem unnu sínar vaktir á meðan öllu stóð) var 5 mínútur að ná í svæfingarlækni og hann var 4 mínútur að setja upp deyfinguna og svo ég var ekkert smá heppin með það. Þetta gekk eins og í sögu og klukkan tvö lá ég í rúminu og mestu verkirnir farnir. Deyfingin tekur reyndar ekki þrýstinginn sem er líka sársaukafullur en ég réð vel við hann. Við Hrund fengum okkar að borða og ég gat dottað.
Um hálf fjögur var tekin blóðprufa úr kollinum á krílinu og útvíkkunin skoðuð en hún var þá komin í 5-6. Ég fékk ábót á deyfinguna og nýja ljósu og ljósmóðurnema. Verkirnir hertust svo skyndilega og um leið og það var hægt fékk ég ábót á deyfingua og þær yndislegu fréttir að útvíkkunin væri fullkláruð og aðeins smá brún eftir. Útvíkkunin hafði farið úr 5 í 10 á einhverjum klukkutíma. Deyfingin virkaði takmarkað og ég var byrjuð að fá rembingstilfinningu. Blóðþrýstingurin rauk upp úr öllu valdi og allt einu fór hjartsláttur ungans að taka dýfur. Það var hræðilegasta stund lífs míns þegar ég heyrði hvernig hægðist á honum og svo datt hann skyndilega út þrátt fyrir að elektróða (fyrir þá sem ekki vita virkar hún eins og móntor og mælir hjartsláttinn nema hún er fest beint við barnið) væri tengd við kollinn á krílinu. Læknirinn sem hafði fylgst með blóðþrýstingum og dælt í mig blóðþrýstingslyfjum í æð undanfarna tvo tímana ákvað að það væri kominn tími á sogklukku. Ég mátti svo bara rembast þegar ég vildi og ég var byrjuð að rembast áður en sogklukkunni var komið fyrir.
Þegar allt var klárt tók það þrjár hríðar að koma unganum út. Miðað við sársaukann í hríðunum áður en ég fékk mænudeyfinguna var rembingurinn lítið mál þótt það væri frekar sárt að vera með kollinn á milli fótanna. Léttirinn þegar barnið skaust út og ég fékk það upp á magann var ólýsanlegur. Fyrir einhvern misskilning héldum við Hrund í smá stund að við hefðum fengið strák, ég get svo svarið að mér heyrðist einhver segja það. Ljósan spurði svo hvort við værum búnar að kíkja á kynið og þá sáum við að þetta var þess gullfallega stelpa!
Ég var búin að gleyma að ég þurfti að fæða fylgjuna og dauðbrá þegar þær byrjuðu að ýta á magann á mér. Fylgjan kom og tonn af blóði með. Þar sem fæðingin hafði verið svo lengi í gang var legið orðið mjög þreytt og við fæðingu fylgjunnar sprungu æðar í því. Blæðingin ætlaði aldrei að hætta og í klukkutíma hömuðust tvær ljósur á maganum á mér til þess að fá legið til að dragast saman. Ég fékk lyf í æð sem átti að hjálpa til og Hrund reyndi að róa stelpuna sem var sármóðguð yfir því að fá ekki brjóst.
Sársaukinn við hnoðið var meiri en í hríðunum og rembingnum samanlagt. Ég lá bara þarna og tárin láku niður kinnarnar á mér og ég hélt ég myndi ekki hafa þetta af. Sem betur fer tekur allt enda og loksins minnkaði blæðingin og það var hægt að sauma mig. Þrátt fyrir sogklukkuna rifnaði ég lítið sem ekkert og mér var líka nokkuð sama þar sem ég fékk að gefa stelpunni á meðan lappað var upp á mig. Við Hrund vorum búnar að ákveða nafn svo hún var nefnd í fanginu á mér og það var ólýsanleg tilfinning að halda á Aðalbjörgu Röskvu í fyrsta skipti.
Þrátt fyrir að fæðingin tæki 27 tíma frá gangsetninu tók hún enga stund þegar hríðarnar loksins byrjuðu eða rétt um 4-5 tíma. Mér var rúllað niður á sængurkvennagang og við mæðgurnar þrjár fengum smá stund áður en Hrund þurfti að fara heim. Það var erfitt að vera ein um nóttina og Sprundin gat ekki haldið aftur af tárunum þegar hún þurfti að fara. Röskva grét þangað til ég tók hana upp í en þar svaf hún eins og steinn. Við fengum svo að fara heim á hádegi daginn eftir þar sem blóðþrýstingurinn lækkaði fljótt eftir fæðingu og ég var öll að koma til.
Við fundum ekki fyrir því að það væri niðurskurður á spítalanum þar sem allir sýndu natni og mikla umhyggju og ljósurnar voru hver annarri frábærari. Þar sem ég missti um 1 lítra af blóði er ég búin að vera lengi að jafna mig en brjóstagjöfin gengur vel og Röskva er algjör draumur.
Læt fylgja nokkrar nýjar myndir:
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar