Svíþjóð

Við erum búnar að kaupa miða til Svíþjóðar í ágúst.

Vúhú!!!


Brrr

Oj þessu veðri. Ekkert tillit tekið til þess að maður er með vagnabarn sem sefur bara í vagninum á daginn og hvergi annars staðar. Trúi því varla en svo virðist sem ég hafi náð að plata hana. Hún liggur í léttum útigalla og með húfu  í vagninum inni á baði með galopinn glugga. Snjóar og blæs á hana. Búin að sofa í einn og hálfan tíma sem er frábært. Barnið var líka úrvinda eftir erfiða (en skemmtilega helgi). Vorum í afmæli á laugardag og skírn í gær og lúrarnir hennar fóru allir í rugl. Á meðn nýskírði, 10 dögum yngri frændinn svaf á sínu græna eyra í bílstólnum í miðri veislu tók Röskva svefntrylling og öskraði úr sér lungun af þreytu enda vagninn fjarri góðu gamni. Rotaðist á endanum í fanginu á ömmu sinni Aðalbjörgu þar sem hún vildi ekki sjá þessar mæður sem neituðu henni um gærupokann og notalegan vagninn.

Krílið svaf svo í fyrsta skipti í eigin rúmi í nótt. Settum saman rimlarúmið og komum því fyrir við hliðina á mér og hún var bara sátt við það. Átti svo erfiða nótt (sem gerist stundu  og er ekki tengt nýja rúminu held ég) og var sífellt að rumska og vola og væla og öskra og enginn veit af hverju svo ég náði ekki beint að njóta mín í öllu plássinu í rúminu. Hefur átt soldið margar svona nætur undanfarið og ég held að ég hafi aldrei verið eins þreytt í lífinu. Ég legg mig ekki á daginn þegar hún er úti í vagninum, kann ekki við það, svo ég skrökti hérna um eins og uppvakningur. Svona er að vera krílamamma.

Annars heyrist mér kútur eitthvað að vera að rumska.

Bolludagur í dag og ég hef enga nennu til að baka. Bara borða. Stelpurnar fá báðar bollur í leikskólanum og mamman mín keypti bollur handa mér sem ég borðaði með bestu lyst.

Fór í partý á laugardaginn. Var edrú og hress og skemmti mér konunglega með mömmugrúppunni minni. Gaman að komast út. Ekki gaman að finna föt á mig þar sem ég er svo mikil feitabolla. Er alveg að fara að finna kraftinn til að gera eitthvað í þessu. Ég og matur. Þið vitið hvernig þetta er. Kann ekkert með hann að fara.

Ætla að setja aðeins í sófann og stara út í loftið. Ætti að vera að sækja um sumarvinnur en er of þreytt til að vera til.


Hlátur

Röskvu finnst ekkert eins fyndið og æðislegt í heimnum eins og Rakel Silja stóra systir. Hún brosir alltaf þegar hún sér hana og á sunnudaginn fékk hún algjört hláturskast. Hún hló alvöru barnahlátri í annað skiptið á ævinni og við erum að tala um að hún skellihló að Rakel sem var að fíflast við hana. Ég hef sjaldan heyrt neitt eins fallegt og tárin bara streymdu úr augunum á mér.

Í gær eftir kvöldmat var mikið sturtu session hjá fjölskyldunni. Fyrst fór Hrund í sturtu og Rakel með og svo hoppaði Hrund út og ég inn og Rakel var áfram með mér í sturtu. Röskva bættist svo í hópinn eftir blundinn sinn og hafði það gott í mammíarfangi með bununa á bakinu. Alltí einu fer hún að stríða Rakel, ég sver það, barnið varið að stríða! Hún tróð litlu tásunum sínum í andlitið og upp í Rakel sem hló og hló og Röskva hló og hló. Þetta var yndislegt stund. Ég var með litla kútinn minn í fanginu og stóra kútinn við hlið mér og öll fjölskyldan skellhló.

Tárin ætluðu aldrei að hætta að sreyma, bæði var ég svo upprifin yfir þessu öllu saman og hamingusöm og svo grenja ég alltaf þegar ég hlæ.

Best í heimi.


Fram og til baka

Á nokkrum dögum höfum við ákveðið að hafa gleðiveislu handa Röskvu (ætluðum alltaf að láta blessa hana en vorum ekki vissar með veislu), hætt við það og skipt svo aftur um skoðun eftir fund með Hirti Magna og pantað sal. Svo held ég núna að við munum endanlega hætta við þetta þar sem við fengum vitlaust verð gefið upp og myndi salurinn með öllu kosta okkur minnst 20.000 krónum meira en við bjuggumst við og þá eru veitingarnar eftir. Þetta er að verða aðeins of dýrt fyrir okkur. Á eftir að ræða þetta við Hrund (var bara að komast að þessu áðan) en ætli við endum ekki á því að hafa blessunina heima og bjóða mömmu og Sillu að vera viðstaddar. Kannski væri gaman ef við fjölskyldan og þær kíktum út að borða á eftir bara. Betra að nota stóóóru summuna sem átti að fara í veisluna í sumarfríið bara.

Annars gleymdi ég alltaf að segja ykkur að ég er búin að setja inn myndir af fallegustu fjölskyldunni á rakelogroskva.barnaland.is

Gleymdi líka að segja ykkur að Röskva var í 3 mánaða skoðun í gær og hún er búin að þyngjast um tæp 1600 gr og lengjast um 12 cm! Hún fékk toppeinkunn frá lækninum og mikið hrós fyrir að hafa velt sér svona snemma. Ég var auðvitað að rifna úr monti ...


Kósý

Oh, þessi helgi var svo dásamleg ...

 Vagnabarnið svaf á sínu græna eyra þegar Sprundin kom heim úr vinnunni á föstudag og ég var búin að elda. Sátum við sitthvorn enda eldhúsborðsins í fallega eldhúsinu okkar með kertaljós og kræsingar á milli okkar. Spjölluðum um daginn og veginn og horfðumst í augu. Röskva vaknaði svo akkúrat þegar við vorum búnar að borða, fékk knús, pela, bleiu og spjall og fór svo að sofa. Lá inni í rúmi og spjallaði við hnefana á sér og reyndi að sparka af sér sænginni á meðan við konan borðuðum heimabakaða eplaköku með ís. Hrund fór svo að sækja mömmu út á flugvöll en hún var að koma úr húsmæðraorlofi í Berlín, átti það nú meira en skilið.

Við Röskva læddumst fram á laugardagsmorguninn og leyfðum Hrund að sofa. Hún skellti sér svo í grúskferð í Kolaportið og út á Gróttu að taka myndir en við Röskva tókum á móti mömmu og Elísabetu sem komu færandi hendi úr bakaríinu. Þær eyddu með okkur deginum og kvöldinu og borðuðu með okkur Hrund kvöldmat á meðan Röskva svaf úti í frostinu.

Ég fékk svo að sofa út í morgun þegar ég var búin að gefa Röskvu brjóst og spjalla við hana. Skreið á fætur að verða eitt og færði Hrundinni sem dormaði í sófanum kaffi. Vagnabarnið mikla svaf að sjáflsögðu út á svölum. Eftir uppvask, pela og bleiuskipti pökkuðum við Röskvu enn einu sinni ofan í vagn og röltum niður í Skeifu. Fórum á opið hús hjá Ismbambus og keyptur nýjar, geggjaðar taubleiur á Aðalbjörgina. Sátum svo í hlýjunni á Tandoori, indverskum veitingastað í Skeifunni sem ég verð að mæla með. Hann er mjög ódýr og maturinn ljúffengur. Hægt að fá nokkurs konar nanbrauðssamlokur með kjúkling eða kebab á 1100 krónur og maður verður sprengsaddur. Röskva svaf í vagninum, hvar annars staðar, og kom rétt inn til að drekka pela. Töltum okkur svo yfir í Hagkaup og keyptum skírnargjöf og annað smávægilegt á útsölu og leyfðum Röskvu að sitja aðeins uppréttri í vagninum og skoða heiminn. 

Hún fór svo í sturtu í fyrsta skipti áðan og undi sér vel í mömmufangi. Hefur líka farið í bað með mér og fílaði það í tætlur. Fór svo tandurhrein og södd upp í rúm og var þar bara með smá sporðdrekastæla (eitthvað að vargatítlast) en sofnaði svo. 

Hún er svo sperrt og flott að við mömmur erum að rifna úr monti. Svo er ekkert eins yndislegt eins og þegar ég tek hana í fangið og hún leggur litla höfuðið í hálsakotið mitt, á þeim stundum er ég viss um að hún skilur hver ég er.

Ákváðum áðan að hafa nafngiftar- og gleðiveislu fyrir hana. Fer í það á morgun að redda sal og síðasta helgin í febrúar og fyrstu þrjár í mars koma til greina (tengdó er reyndar að fara af landi brott einhverja daga í mars svo það þarf auðvitað að tékka á því fyrst, má ekki vanta eina ömmuna). Ætlum sumst að leigja sal og líklega myndi þetta verða um 30 manna veisla. Ætlum líka að láta blessa Röskvu og erum að fara að hitta Hjört Magna, prest í Fríkirkjunni á þriðjudag. Erum ekki í þjóðkirkjunni og Fríkirkjan hefur alltaf lagt baráttumálum samkynhneigðra lið.

Hrund er á kaffihúsi með stelpunum í skólanum og ég leigði mér mynd sem ég er að hugsa um að fara að horfa á. Ætla að brjóta þvott sem er alls ekki svo leiðinlegt þar sem þetta eru nú föt af stelpunum mínum þremur og borða hnetusmjörs mogm sem mamma keypti í fríhöfninni. Veit ekkert betra.


Vagnaspekúlasjónir

Ég er svo mikið að pæla í vagninum og því að láta krílin sofa úti :12: Ég hef aldrei skilið þetta fyrirbæri, að láta lítil börn sofa úti í kulda (skil alveg af hverju það var gert hér áður fyrr) þótt ég hafi alveg gert mér grein fyrir því að sum sofa hreinlega betur þegar þau eru dúðuð og svona.

Rakel vildi aldrei sofa í vagni og svaf eins og engillinn sem hún er inni. Ég hef bara aldrei verið neitt að troða Röskvu út í vagn, hefur bara fundist hún of mikið peð og verið of stressuð einhvern veginn. Þarf auðvitað alltaf að skutla henni út í vagn til að ná í Rakel á leikskólann en hef svo tekið burðarrúmið inn þegar við erum allar komnar heim.

Hún hefur alveg sofið ágætlega í vagninum, er stundum smá stund að sofna og vaknar gjarnan ef ég stoppa en svo hefur sko orðið breyting á. Prófaði að láta hana vera áfram úti í vagninum (hún var úti í garði og svo var ég með barnapíutæki í vagninum) eftir að við komum heim úr leikskólanum og hún svaf í þrjá tíma! Og hefur gert hvern einasta dag í þessari viku. Hún fer út í vagn um þrjú og sefur í þrjá tíma.

Sem er gott og blessað nema að mér líður ekkert vel með þetta. Ég myndi helst vilja að hún svæfi bara inni en hún bara sefur ekki langa blundi inni. Gæti alveg tekið 4 ofurstutta blundi til þrjú og ég er sko búin að lesa Draumaland (bók með svefnráðgjöf) og prófa allt sem mér dettur í hug til að reyna að fá hana til að sofa lengri blundi en ekkert gengur. EKKERT. Þegar líður á daginn öskrar hún bara út í eitt af þreytu svo vagninn hefur alveg bjargað okkur.

Ég vil bara ekki að hún geti bara sofið í vagninum, hún verður að geta sofið inni líka. Og svo hef ég áhyggjur af því að hún andi að sér köldu lofti sem ertir lungun, hún hefur verið stífluð alla morgna síðan hún fór að sofa úti. Mér finnst eðlilegt að setja hana út í vagn því að það er alveg normið í samfélaginu en á sama tíma finnst mér það alveg klikkað. Álíka klikkað og að fara í útilegu á þessum árstíma og láta fjölskylduna sofa í tjaldi ...
 
Ég, sem hef aldrei fílað þennan útisvefn barna (og ekkert okkar systkinanna svaf úti t.d.), þarf nú að éta allar stóru yfirlýsingarnar ofan í mig. Ég er kannski fáviti en ég hélt í alvöru að þetta væri spurning um vana og ef ég vendi Röskvu á að sofa alltaf inni þá bara fílaði hún það. En nei. Hún má samt eiga það að hún sofnar sjálf klukkan níu á kvöldin og sefur í 12 klukkutíma meða einni drykkjupásu. En hún er stundum eins og lítið skrímsli á daginn. Fallegasta og sköllóttasta skrímslið í bænum auðvitað en mér finnst hrikalegt að barnið gargi bara á mig úr þreytu en sofi svo samt bara í 20 mín.
 
En mér sýnist á öllu að ég hafi fætt af mér vagnabarn, trúi þessu varla. Prófaði að láta hana sofa í vagninum inni áðan og hún sofnaði strax en svaf bara í hálftíma. Reyndi að rugga henni aftur í svefn en það gekk ekki. Svo drakk hún, fékk hreina bleiu og ég skutlaði henni út í vagn. Hún var smá stund að sofna og vaknaði og grenjaði smá eftir hálftíma en sofnaði svo aftur. Og sefur enn, búin að sofa í tvo tíma.

Ég á ekki til orð.
 
Fíla þetta ekki og fíla á sama tíma. 
 
En núna er vagnabarnið vaknað.


Hlátur

Aðalbjörgin litla Röskva velti sér tvisvar af mallakút og yfir á bak í morgun og hló sínum fyrsta alvöru hlátri.

Geggjað.

Svo þið haldið ekki að ég elski Rakelina mína eitthvað minna þá vil ég líka segja eitthvað um hana. Hún sagði að ég væri sæt og svo valhoppaði hún af lífsgleði og hjarta mitt hoppaði með.


Súkkulaðikaka

Ég bara fæ ekki nóg af henni, súkkulaðiköku það er að segja.

Röskvan er í svefnæfingabúðum. Vorum byrjaðar (og næstum búnar) að færa háttatímann hennar frá 2 á nóttunni til 9 á kvöldin þegar hún fór skyndilega að láta voðalega illa á kvöldin. Vona að það sé að mestu yfirstaðið núna og þessi kveisa farin til langtíburtistan. Hún er sem sagt farin að sofa um 9 en yfirleitt mótmælir hún því hressilega að vera lögð í rúmið eða það gengur sæmó að svæfa en hún vaknar eftir klukkutíma og mótmælir þá (stundum er það nú samt loftið að angra hana). Hrund hefur verið að leggja hana, hún hefur betra úthald en ég í að liggja hjá henni og taka við orginu. Á meðan stika ég um gólf inn í stofu og óska þess að gráturinn hætti. Vonandi bara nokkur kvöld í það að hún fari sátt að sofa.

Það gengur vel (eða svona ...) að gefa brjóstið, hún fær það svona 2-3, einu sinni á nóttunni og einu sinni til tvisvar á morgnanna. Svo drekkur hún brjóstamjólk úr pelanum eins og enginn sé morgundagurinn og hún er algjör svelgur stelpan. Ég bara sé hana fitna og finn alveg þegar ég held á henni að hún er að þyngjast. Frábært. Svo er það kannski bara ímyndum og kemur í ljós í 3 mánaða skoðun að hún heldur sinni kúrfu og þyngist lítið. Kemur í ljós í næstu viku.

Rakelin er heima í dag með hor heimsins í nös og hósta. Var með hita í gær svo hún er bara að dúllast með mér og Röskvunni. Röskva svaf aldrei þessu vant langan dúr fyrir hádegi (kannski er prógrammið að virka) svo ég náði að þrífa, elda handa Rakel og ýmislegt fleira. Er ekki vön að hafa svona tíma þar sem Röskvu finnst yfirleitt óþarfi að sofa svo ég nýt hans í botn þótt ég eyði honum í að skola úr kúkableium og brjóta þvott.

Fórum í okkar fyrstu bæjarferð allar fjórar á sunnudaginn. Létum ekki bandvitlaust veður stoppa okkar og lokaðar búðir á Laugaveginum, skelltum pinklum, vagni og börnum í bílinn og brunuðum niður í  bæ. Fórum í Eymundsson og skoðuðum bækur og geisladiska, löbbuðum niður á Tjörn og gáfum fiðurfénu í skítakulda og drukkum kakó og átum kleinur á kaffihúsi á meðan Röskvan svaf á sínu græna í vagninum. Enduðum daginn í kjúlla hjá mömmu. Yndislegt alveg hreint.

Annars er ég bara að njóta þess að hafa smá tíma fyrir sjálfa mig á kvöldin núna þegar Röskva fer svona snemma að sofa. Voða ljúft að sitja í sófanum í náttkjól, brjóta þvott og horfa á sjónvarp með öðru og fylgjast með Sprundinni að læra með hinu. Fá mér kannski súkkulaðiköku og ískalda mjólk og dæsa yfir bumbunni sem neitar að fara (súkkulaðikökubumba). Njóta þess að þurfa ekkert að læra heima og lesa Harry Potter.

Langar óskaplega til Svíþjóðar í sumar en veit ekki hvort ég get doblað Hrundina. Rakel langar líka mikið. Getum ekki beðið eftir því að fara í útilegu með ungana og á Malarrif.

Sprundin er komin heim. Hlakka alltaf til að tala við einhvern fullorðinn eftir daginn ...


Breytingar

Eftir tæpar 12 vikur, miklar rökræður við brjóstaráðgjafa (í þriðja skipti síðan í desember) og för með barnið til Gests Pálssonar, meltingarsérfræðings, leigði ég mjaltavél í fyrradag, keypti pumpusett og svaka flottan pela, mjólkaði mig og gaf Röskvunni herlegheitin.

Og í fyrsta skipti í hundrað, billjón ár drakk barnið án áreynslu og ég gat slakað á. Ekkert loft að trufla hana og svo ropaði hún á eftir og var svo sæl.

Ég gæti grenjað ...

... af gleði :28:

Þetta gekk bara ekki lengur með brjóstið, ég var orðin þunglynd og leið hrikalega illa og ekki leið Röskvunni vel þar sem hún rembdist við að drekka og var fyrir sjálfri sér og illt af öllu loftinu sem hún gleypti. Það fylgir því mikill tregi og söknuður að taka þetta skref en ef ég vil að barnið mitt nærist almennilega er ekkert annað í stöðunni. Ég stefni á það að mjólka mig og gefa henni mömmumjólk í hverri gjöf og það SKAL ganga (ég ætla samt að reyna að vera ekki of svekkt ef ég neyðist einhvern tímann til að gefa henni þurrmjólk líka, það er allavega ekki hægt að segja að ég hafi ekki reynt).

Síðan á þriðjudag hef ég því gefið Röskvunni pela en hún fær áfram brjóst ef hún vaknar á nóttunni og fyrst á morgnana því einu skiptin sem henni tekst vel að drekka er þegar hún er hálfsofandi.  Ég mjólka mig 5-6 sinnum á dag og er á fullu að örva framleiðsluna svo ég fái með tímanum meira í hvert skipti og þurfi ekki að vera neitt stressuð yfir því að mjólka örugglega nóg fyrir hana (og get þá jafnvel safnað í frystinn líka).

Það fylgir þessu svoooo mikill léttir og frelsi. Núna hlakka ég til að gefa henni og nýt dagsins og mér finnast mér allir vegir færir þar sem ég þarf ekki að kvíða því að gefa henni á almannafæri lengur. Ég gat loks sætt mig við að skipta yfir í pela eftir að brjóstaráðgjafinn stakk upp á því þar sem ég var hreinlega búin að reyna allt bara. Gestur Páls sagði svo að Röskva væri greinilega með mjög þröngt magaop og ætti erfitt með að losa loft og því væri peli góð lausn og eina lausnin í rauninni nema ég vildi fara að dæla í hana lyfjum. Ég fór til hans í gær og svo hringdi hann í dag til að tékka hvernig gengi (ÉG ELSKA ÞENNA DÚLLUMANN) og hrósaði mér í bak og fyrir. Eins og hann sagði skiptir mestu að Röskva fái brjóstamjólkina, ekki hvernig hún fær hana.

Ég er helaum í túttunum eftir allt pumpið og enn þá pínu óörugg en ég er samt hamingjusöm. Núna get ég loksins notið þess almennilega að vera með krílinu mínu og þarf ekki að horfa á hana pirrast.

Þótt mér finnist mjög sárt að geta ekki verið með hana á brjósti þá verð ég bara að gera það besta úr stöðunni. Mér finnst yndislegt ef ég get gefið henni brjóstamjólkina áfram.

Er þetta ekki æðislegt? :26:

Mont

Gleymdi montinu áðan en ...

 ... Röskva velti sér í fyrsta skipti af maganum og yfir á bakið í dag!!! Er akkúrat 11 vikna í dag, stóra stelpan mín.

Hefði örugglega verið búin að þess fyrir löngu ef ég hefði verið duglegri að setja hana á magann á leikteppinu. Hef helst gert það á skiptiborðinu og þá hefur hún verið að æfa sig og náð að snúa sér hálfhring en stoppað á hliðinni á skiptiborðinu (sem er uppblásin og hefur því verið fyrir). Í morgun passaði ég að hún væri með nóg pláss og skottan snéri sér um leið.

Duglegust.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband