Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Myndir

Myndir úr sumarfríinu komnar inn á síðuna hennar Rakelar!

Fríi lokið

Eða svona næstum því. Það er auðvitað helgarfrí núna og svo ætla ég að taka mér mánudaginn í frí líka. Við Rakel ætlum að heimsækja stelpurnar í vinnunni og bara eitthvað að dúlla okkur.

Ég nenni eiginlega ekkert að blogga nákvæmlega um restina af Akureyrardvölinni. Við bara höfðum það gott, tókum því einstaklega rólega. Fórum í tívolí, út að borða og út á róló, elduðum (og þá meina ég ég) dýrindis máltíð, spiluðum og spjölluðum. Rakel sló öll svefnmet og var að sofa þetta fjórtán tíma á nóttu. Það tekur bara svo á að vera í sumarfríi. Hún var orðin svo þreytt þegar kom að fríinu og í lok þess var hún aftur þreytt. Þetta er eiginlega best á veturna þegar ég er í skólanum og hún þarf ekki að vera lengi á leikskólanum. Annars var bara yndislegt að hitta Oddnýju og ekki var verra að ég náði að kaupa mér þrjá undirkjóla og svo keyptum við Hrund ullarföt og buxur og peysu á krílið.

Við komum heim að verða sex í gær. Gengum frá eins hratt og við gátum, hoppuðum í sturtu og bjuggum okkur undir Eric Clapton. Mamma kom að passa og pabbi Hrundar og föðurbróðir að sækja okkur. Barnið trompaðist þegar við mömmurnar vorum að fara. Við höfum aldrei séð annað eins, venjulega hefur hún varla tíma til þess að kveðja okkur. Í þetta skiptið öskraði hún af öllum lífs- og sálarkröftum, tárin spýttust marga metra og ekkasogin skóku litla kroppinn. Ég held að bæði hafi henni fundist hún vera að missa af einhverju af því við vorum svo mörg að fara út, þar á meðal afi Þórir sem hún hittir sjaldan, og svo er hún líka búin að vera allan sólarhringinn með mömmunum í tvær vikur og hefur verið algjörlega límd við rassgatið á okkur.

Við tókum hana báðar í fangið. Eða hún kastaði sér í fangið á okkur, litla skinnið. Við útskýrðum enn einu sinni fyrir henni hvað við værum að fara að gera, kysstum bless og opnuðum útidyrahurðina. Í öllum æsingnum var pissið farið að leka hjá krílinu svo hún stóð þarna berrössuð í kjólnum og útgrátin. Ég fann svo til með henni. Hún hafði hætt að gráta við huggunina en þegar hún sá hurðina opnast byrjaði hún aftur að öskra. Við Hrund þurftum að skilja hana þannig eftir. Ég hringdi svo í mömmu nokkrum mínútum seinna og þá hafði krílið þagnað um leið og við vorum farnar. Það er svo erfitt að vera lítill.

Tónleikarnir voru fínir. Eric er kannski ekki alveg minn tebolli og ég þekkti bara þrjú síðustu lögin. Sprundin og co skemmtu sér hins vegar konunglega og það var það sem skipti máli. Það var heitara en í helvíti í Egilshöll þar sem ekki var hægt að hafa loftræstinguna á fyrir látunum í henni. Ég verð eiginlega að segja að þessir tónleikar voru hræðilega illa haldnir þótt tónleikarnir sjálfir væru góðir. Mér fannst nú meiri stemmning í Laugardalshöllinni í gamla daga ...

Við Hrund höfðum ekki tíma til að borða áður en við fórum á tónleika og vorum að drepast úr hungri þegar við komum heim. Við pöntuðum pizzu, borðuðum hana með mömmu og horfðum á Fóstbræður. Við Hrund skriðum svo aðframkomnar úr þreytu upp í um eitt. Við erum greinilega eins og litlu börnin, getum ekki sofnað ef við erum orðnar of þreyttar. Við bara bröltum og byltum okkur og fórum í taugarnar á hvor annarri. Úff, ég er hræðilega þreytt eftir þetta frí.

Korter í sjö í morgun hringdi svo pabbi gamli. Það var rosa gaman að heyra í honum þótt ég gæti varla haldið mér vakandi. Við spjölluðum í hálftíma og svo lagðist ég til svefns aftur. Ég er alltaf lengi að sofna ef ég er vakin og var ekki sofnuð fyrr en að verða átta. Fimm mínútum seinna stóð rauðhaus við rúmgaflinn. Ég hélt ég myndi deyja. Hún var reyndar svo yndisleg að leika sér eftir morgunmat og leyfa mömmunum að hvíla sig. Eða þannig. Hún kom inn á nokkurra sek. fresti til að sýna okkur eitthvað eða biðja okkur að leika við sig. Ég gafst upp á endum, píndi mig á fætur og í slopp. Núna situr Rakel og horfir á barnatímann og ég blogga. Ætla bráðum að hella upp á kaffi og reyna að vekja Hrund. Sjitt hvað ég nenni því ekki. Ég er að hugsa um að ráða einhvern í þá vinnu.

Svo er það gangan á eftir. Ætla ekki allir að mæta? Nei, pottþétt ekki. Samkvæmt skoðanakönnun Bylgjunnar styðja 78% þjóðarinnar EKKI réttindabaráttu samkynhneigðra. Guð forði okkur líka frá því að leyfa öllum að vera hamingjusamir. Það hefur svolítið verið í umræðunni að fordómar gagnvart samkynhneigðum séu aftur að aukast. Þegar kreppir að fara allir að hatast. Náungakærleikurinn er alveg að drepa þjóðina.

Einmitt út af þessu er svo mikilvægt að við og þið hin sem ekki hugsið svona mætið í gönguna!!!

Afi minn á afmæli á eftir og hann og amma í leið brúðkaupsafmæli svo það er smá veisla heima hjá þeim um hálf fimm. Við stelpurnar ætlum þangað eftir gönguna og skemmtiatriðin en Rakel fer eftir það til pabba síns. Við Hrund erum boðnar í partý og ætlum á gayballið.

Sjáumst bara í göngunni eða á djamminu! 


Myndir ...

Nýjar myndir inni á Barnalandi. Set myndir frá sumarfríinu inn þegar því er lokið!

Útlönd

Ég get svo svarið það, okkur líður eins og við séum í útlöndum. Ég hef varla verið hérna fyrir norðan síðan ég man eftir mér og líður því eins og ég sé að koma hingað í fyrsta skipti. Fjöllin, göturnar og fólkið allt framandi og ég þarf kort til að rata.

Ferðin gekk vel. Rakel var svo stillt, horfði út um gluggann eða lék sér við ímyndaðan vin sinn (eða einhvern sem bara hún sér) og svaf svo eins og steinn í klukkutíma. Við stoppuðum einu sinni til að pissa en annars ekkert. Vorum tæpa fjóra og hálfan tíma á leiðinni og vorum komnar að verða fimm. Oddný beið með hlýjan faðm og það var yndislegt að hitta hana. Við borðuðum pasta, bjuggum um okkur fjölskylduna og spiluðum Trivial eftir að Rakelin var komin í rúmið (hún sofnaði reyndar ekki fyrr en að verða ellefu þótt hún væri komin upp í rúm klukkan níu, það gerði blundurinn fyrr um daginn). Eftir spil, bjór og spjall komum við Hrund okkur fyrir í eldgömlum svefnsófa sem er í mesta lagi 90 cm breiður. Sko, Hrund er hlý og mjúk og allt það en ég var alveg að verða klikkuð í þessum þrengslum. Aðallega af því að ég gat þá ekki sofið í fósturstellingu. Það er reyndar annar svefnsófi inn í stofu en við nennum eiginlega ekkert að færa okkur.

Þrengslin minntu mig reyndar á Baldur, fyrrverandi kærasta minn. Við vorum nú ekkert lengi saman en nógu lengi til þess að hann gisti nokkuð oft hjá mér í 90 cm breiða rúminu mínu í herberginu mínu heima hjá mömmu. Að ég skuli hafa látið mig hafa það, ég sem var eiginlega ekkert hrifin af honum (eða sko ekki fyrr en hann hætti allt í einu með mér, þá var ég svakaleg sár og móðguð og leið). Fínn strákur samt. Á meira að segja enn þá disk sem hann gaf mér með lögum með hljómsveitinni sem hann var í. Eitt lagið samdi hann handa mér eftir að hafa lesið ljóðabókina mína og hrifist svakalega af henni. Ekki amalegt.

Rakelin vaknaði allt of snemma í morgun fyrir minn smekk. Ég er bara orðin hræðilega langþreytt eftir of lítinn svefn og óþægileg rúm í þessu sumarfríi (ég veit ég hljóma vanþakklát en er það alls ekki, ég er bara drulluþreytt). Ástandið er ansi slæmt ef maður er farinn að gelta á alsaklaust barnið og hefur varla orku í að standa á fætur til að skeina það og gefa því morgunmat. Ætla því á skikkanlegum tíma að sofa í kvöld.

Allavega. Við Hrund drukkum svakalega sterkt kaffi og fórum svo út í sólina með rauðhaus. Leyfðum honum að leika sér aðeins á róló áður en við fórum í Bónus að versla og því næst á Bláu könnuna að borða hádegismat. Keyptum ullarföt á Rakel á útsölu í Janus og skruppum því næst heim með vörurnar, náðum í Oddnýju og héldum í Jólahúsið.

Rakel var yfir sig hrifin, skaust út um allt, var ofan í öllu, þurfti að koma við allt og hætti að tala við okkur, kallaði bara til okkar þótt við værum við hlið hennar, svo mikill var æsingurinn. Við keyptum englaspil og karamellur og leyfðum Rakel að rannsaka það sem garðurinn í kring um Jólahúsið hafði upp á að bjóða. 

Vaka, bróðurdóttir ömmu, býr aðeins fyrir utan bæinn og hafði boðið okkur að líta inn, sem við og gerðum. Fengum Rakel til að kveðja Jólahúsið með loforði um ævintýraskóg heima hjá Vöku. Rakel varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Vaka og Stebbi, maðurinn hennar, eru svo sannarlega með ævintýraskóg í bakgarðinum hjá sér og þar má finna allt milli himins og jarðar. Fuglahræður, vindmyllur, geiturnar þrjár og tröllið undir brúnni, fuglahús, köngulær, eplatré, maríubjöllur, álfa, lítinn torfbæ (nákvæm eftirlíking af Gilsá, bænum hennar ömmu) og svo heilt bú fyrir krakkana. Í búinu voru könnur og bollar og pottar og pönnur og skeiðar og svuntur og eldavél og svo auðvitað vatn og drulla. Rakel var hreinlega í himnaríki, setti á sig svuntu og matreiddi og hellti upp á kaffi og varð drullug upp fyrir haus. Á meðan röltum við Oddný og Hrund með Vöku um garðinn og settumst svo við eitt af borðunum úti og supum á kaffi (venjulegu og drullukaffi a la Rakel).

Rakel var áfram í paradís því hún fékk að prófa rafknúið barnafjórhjól. Hún var ekkert nema hjálmurinn (mótorhjólahjálmur í fullri stærð) þar sem hún þaut áfram á hjólinu, eitt sælubros. Hún átti hreinlega ekki til orð þegar hún steig af hjólinu, svo mikil var gleðin og upplifunin. Ég skellihló (og grét eins og alltaf þegar ég hlæ) allan tímann vitandi það að barnið mitt var að upplifa drauminn sinn.

Dætur Vöku, sem eru á aldur við Hrund, og fjögur börn þeirra (af sex) komu svo mátulega í grill sem Stebbi sá um. Við sátum öll úti og borðuðum og höfðum það gott. Aldís Vaka, barnabarn Vöku og Rakel náðu strax saman. Báðar rauðhærðar, jafn háar (Aldís er reyndar 5 ára en barnið mitt er tröllabarn) og í eins peysum. Það var kostulegt að fylgjast með þeim. Þegar sólin hvarf bak við ský færðum við okkur inn, krakkarnir inn í sjónvarpsherbergi og við hin fullorðnu að eldhúsborðinu. Við sem ætluðum rétt að líta inn fórum ekki heim fyrr en eftir fjóra tíma, Rakel þá orðin græn í framan af þreytu. Þær mæðgur hoppuðu í sturtu og ég bunaði út úr mér bænum og einu lagi, kyssti krílið og heyrði hroturnar í því um leið ég hallaði aftur hurðinni.

Við Sprundin erum að hugsa um að smyrja nesti á morgun og taka með okkur kakó og keyra svo eitthvað út fyrir bæinn. Bara aðeins út í náttúruna. Við nennum eiginlega ekkert að keyra neitt langt, ætlum bara að taka því rólega eins og maður á að gera í fríi. Nýtum líklega fimmtudaginn í rölt um bæinn, sund og jafn vel tívolí ef það verður enn opið og stefnum á að bjóða Oddnýju út að borða um kvöldið. Tökum svo stefnuna í bæinn á föstudagsmorgun.

Svo verð ég að fara að setja myndir inn á barnaland. Á eftir að setja inn heilan helling, bæði frá tíma fyrir sumarfrí og svo frá sumarfríinu sjálfu. Þið bíðið bara spennt á meðan.

Eins og það hefur verið ljúft hjá okkur í fríinu hlakka ég líka til að komast í rútínu aftur, slá inn bréfin góðu, hitta stelpurnar mínar í vinnunni og sofa í míns eigins rúmi.

Þangað til næst, knús og kossar. 


Helgin

Ætla bara rétt að segja frá helginni. Við Hrund fórum allt of seint að sofa á föstudaginn, ég var komin upp í rúm um þrjú og hún eitthvað seinna. Rakelin svaf sem betur fer til hálf tíu, annars hefði ég bara ekki meikað þetta. En við getum svo sem sjálfum okkur um kennt. Málið er bara að þegar maður er í fríi á maður það til að fara allt of seint að sofa og þarf svo að vakna með hressu barni elddsnemma. Reyndar hefur skapast sú hefð á Malarrifi að eftir spil kvöldsins fara allir að sofa og er það yfirleitt á miðnætti sem er mjög fínt.

Allavega. Við fórum í morgunkaffi til ömmu Rósu og höfðum það gott. Skruppum því næst í ríkið og í Everest til að ná í tjaldsúluna sem brotnaði í Hvalfirði en hún átti að vera sem ný á þesum tímapunkti. Barnið (ég get svo svarið það að hann leit út fyrir að vera 15 með sinn krúttlega aulasvip og unglingabólur) í búðinni tók sér um 20 mínútur til að leita að stönginni. Kom svo fram og spurði mig hvernig tjaldsúla þetta hefði verið (Að hverju var hann leita ef hann vissi ekkert hvernig súlan leit út? Var hann á klósettinu í þessar 20 mínútur?). Eftir lýsingar mínar hvarf hann aftur bakvið. Kom aftur til baka með einhverja allt aðra stöng en ég hafði komið með í viðgerð og sagði að miðinn með númerinu (ég fékk sumst númer og sama númer var límt á stöngina) væri týndur. Obbosí. Ég gat ekki bjargað því fyrir hann og spurði hann hvað hann vildi þá gera. 'Ertu nokkuð með tjaldið með þér' vildi hann vita. Nei, fjandinn hafi það, ég keyri ekkert um með tjaldið í bílnum. Hann bað mig að fara heim og ná í hina stöngina sem er alveg eins og sú laskaða og koma með hana. Ég benti honum á að þetta væri fáránleg bón og fáránleg þjónusta. Ég skyldi ná í stöngina (hann vildi sjá hvernig hún væri svo hann gæti búið til nýja) en mér dytti ekki í hug að borga fyrir viðgerðina.

Ég náði í stöngina og við fórum aftur í búðina. Við tókum reyndar eftir því að sú stöng var líka brotin svo við gáum látið gera við hana líka. Barnið ætlaði að vera fljótt að þessu en ég ákvað samt að skutlast vestur í bæ til Valdísar á meðan og koma heldur aftur. Við fórum í Vesturbæinn og náðum í bíóplaköt fyrir myndina hennar Valdísar, Sveitabrúðkaup (Valdís bað okkur að hengja plaköt upp í söluskálum á leiðinni norður). Fórum enn einu sinni í búðina og viti menn þar biðu mín tvær heilar stangir. Barnið hvar hvergi sjáanlegt svo ekki gat ég þakkað því, tók því bara við stöngunum, þakkaði pent fyrir og bauðst ekkert til að borga fyrir eitt né neitt.

Eftir þessa vitleysu héldum við til tengdó þar sem við drukkum kaffi og spjölluðum og Rakel hljóp um í garðinum. Hún skellti sér líka í pottinn með ömmu sinni og svo kom pabbi hennar og sótti hana um sex. Við Hrund brunuðum heim og skiptum um föt og fórum svo aftur til tengdó í mat. Það var ótrúlega gaman. Vinafólk tengdó var í mat og þau eru alveg brillíant fólk. Við borðuðum lambalundir og drukkum mojito (ó my lord hvað það er góður drykkur) og spiluðum svo í marga tíma. Ég var orðin heldur slompuð þegar við Hrund skröltum niður í bæ. Byrjuðum á því að fara til Ölbu á Hverfisgötunni og röltum svo á Ölstofuna. Alba skipaði okkur taka staup og það var sama hvað ég reyndi mikið að neita því, ég tók það á endanum. Maður hlýðir Ölbu. Punktur. Við enduðum svo á Q og vorum þar allt kvöldið. Seint og síðar meir var ég hætt að geta staðið í lappirnar og vissi að ég þyrfti að komast heim. Slagaði í leigubílaröðina og kom heimilisfanginu þvoglumælt til skila. Rétt náði að klæða mig úr fötunum áður en ég henti mér upp í rúm.

Ég hef aldrei í lífinu verið eins þunn og í gær þegar ég vaknaði. Vil taka það fram að ég drakk bara bjór fyrir utan eitt glas af mojito og eitt staup. Ég get bara alls ekki drukkið sterkt áfengi. Ég reyndi að borða en allt endaði í klósettskálinni og ég bara man ekki eftir því að það hafi gerst áður. Ég hreinlega skalf af vanlíðan. Skreið aftur upp í rúm á hádegi og svaf til fjögur en þá kom Rakel heim. Hrund tók líka sinn tíma ofan í klósettskálinni og var lítið hressari en ég. Einhvern veginn tókst okkur að gefa Rakel að borða og baða hana og ég fékk mér göngutúr í rigningunni til að Rósu þar sem ég vökvaði allar kryddjurtirnar hennar. Ég náði að pakka fötum fyrir mig og Rakel en lítið meira en það. Hrund gat varla hreyft sig.

Rakel vaknaði átta í morgun og við höfum verið að taka okkur til síðan. Eigum bara eftir að vaska upp og bera út í bíl og getum svo lagt af stað. Þurfum að koma við á tveimur stöðum áður en við höldum út úr bænum en erum líka á góðum tíma. Ég hlakka svo til að hitta Oddnýju að ég er að springa.

Annars skellti ég í eina vél (ég er búin að setja í sex vélar síðan á föstudag, úff) sem er ekki í frásögur færandi nema sem ég er að ganga frá þvottefninu langar mig allt í einu að lykta af því. Mér finnst lykt af þvottefni mjög góð þótt ég leggi það nú ekki í vana minn að sniffa það. Það var nefnilega það sem ég gerði. Í stað þess að lykta af efninu sogaði ég það óvart upp í nefið. ÁÁÁÁÁ. Ég hnerraði og hnerraði og hnerraði og táraðist og grét og kúgaðist og snýtti mér. Þetta var hræðilegt. Hef núna í tvo tíma kúgast af og til, snýtt mér hundrað sinnum og hnerrað STANSLAUST. Ætli ég hafi ekki bara eytt miðnesinu á einu bretti, eitthvað sem tekur kókfíkla slatta tíma að gera.

Jæja, best ég fari að vaska upp. Tek tölvuna með til Oddu poddu svo það er aldrei að vita nema ég bloggi í vikunni. Hafið það gott! 

ps. Ég týndi peysunni minni á djamminu og Hrund jakkanum sínum. Meiri helvítis vitleysan. Svo var einhver strákur að reyna við mig á Q. Finnst að maður eigi að vera laus við það rugl á þessum stað. 


Ferðasaga (svakalega löng og djúp og allt það)

Ég hef ákveðið að skrifa ferðasöguna jafn óðum. Bæði veit ég að ég á aldrei eftir að muna öll smáatriðin sem ég vil koma frá mér og sem skipta máli og svo er skrifþörfin farin að segja ansi vel til sín svona á þriðja degi skrifleysis. Í dag er:

sunnudagurinn 27. júlí 08

Við tókum því rólega fyrsta daginn í fríinu. Rakel hafið vaknað um nóttina við enn eina köngulóarmartröðina og varð ekki róleg fyrr en hún var komin á milli okkar í stóra rúmi. Það er misjafnt hvernig við mömmur sofum með bröltboltann upp í. Þessa tilteknu nótt gekk soferíið ekki vel. Klukkan fjögur um nóttina gafst ég upp, ég gat ómögulega sofið og fór Hrund með krílið yfir í sitt rúm. Um morguninn ætlaði Sprundin ekki að koma sér á fætur þrátt fyrir að Rakel vaknaði ekki fyrr en um hálf tíu. Eins og áður kenni ég því um að konan mín fer hreinlega allt of seint að sofa. Það er ekkert skrítið að hún geti ekki vaknað. Svo er ég nátla svo hardcore, urrrrrr, að ég læt mig hafa það fara meðvitundarlaus á fætur.

Rakel borðaði morgunmat á meðan ég gekk frá þvotti og vaskaði upp. Rósa frænka kom svo í kaffi og hún og Rakel skemmtu sér vel á meðan ég bloggaði. Hrund reis úr rekkju um það leyti sem Rósa var að fara og þá settum við í annan gír enda klukkan farin að nálgast hádegi. Hrund setti allt dótið í bílinn á meðan ég byrjaði að þrífa. Hún lauk svo þrifunum og við hoppuðum í sturtu og þá vorum við tilbúnar. Gud i himmelen hvað það var heitt í bílnum. Það var 22 stiga hita úti og 100 gráður í bílnum. Þið vitið nú öll að ég hef verið að stikna undanfarið, nálastungukonan hefur verið að auka blóðflæðið um líkama minn og næstum gengið af mér dauðri (auðvitað verið að laga mig samt). Ég var í síðermabol og kjól og hélt ég yrði ekki eldri. Þetta var hreinlega sársaukafullt.

Leiðin vestur á nes gekk samt vel. Tengdó lánaði okkur eitthvað ipoddót svo við gátum hlustað á ipodinn í bílnum og það var ansi ljúft. Rósa kom með okkur í bíl og sofnuðu hún og Rakel (eða misstu meðvitund í sólinni) þegar ferðin var hálfnuð. Hrund var við það að deyja úr hita svo hún reif sig úr bolnum og keyrði á brjóstahaldaranum megnið af ferðinni. Ég var þannig klædd að ég gat lítið klætt mig úr svo ég naut þess bara að finna svitann leka niður andlit og bak.

Rakel naut þess líka að geta klagað okkur mömmurnar í Rósu sína. Sagði henni frá því þegar hún fór í ísbúð með pabba sínum og fékk þennan líka fína ís. Spurði svo:´Er ís ekki góður’. Jú, það fannst Rósu jafn augljóst og henni. Rakel benti þá á mömmur sínar í framsætunum og sagði: ‘Þessar!!! fara aldrei með mig í ísbúð’
Jæja, krakkar mínir. Þetta mömmustand er bara tapað spil frá upphafi held ég.

Veðrið var fínt þegar við komum, smá gola sem var ó svo kærkomin. Orkan frá jöklinum sló mig eins og hnefahögg í magann, saltlyktin af sjónum var frískandi og vitinn bauð okkur velkomnar. Í mörg ár hefur Malarrif verið fastur punktur í lífi mínu og trúið mér, það er eitthvað sem ég hef þurft á að halda. Malarrif er rok og rigning, glampandi sól og hlýrabolur, öskrandi brim og svört fjara, kaffi á morgnana og bjór í hádeginu, núðlusúpa, flísteppi, kaldar tær og Trivial, frjókornaofnæmi og þúsund hnerrar, ísköld sturta og ömurlegt rúm, ullarsokkar og inniskór, beygla með smurosti, hreinsun í sálinni og ein fjölskylda með öllu.

Þessi ferð hefur verið óvenju tæknileg. Farsímasambandi hefur verið komið á og veit ég ekki hvað mér finnst um það. Það er gott að geta hringt í þann sem enn er ókominn og beðið hann um að taka með það sem gleymdist. En hluti af friðnum fer með þessu sambandi. Það tóku nær allir með sér tölvur og það er nú allt í lagi þótt ekkert sé netsambandið (sem er líka bara fínt). Ég, Rósa, Hrund og Elísabet Rós höfum verið að ipodast og núna er minn fullur af tónlist (Glætan samt að það sé mér að þakka, ég hef verið að reyna að læra þetta (hef samt mjög takmarkaðan áhuga á því) en það sló út á mér köldum svita þegar Hrund stakk upp á því að ég setti tónlist inn á minns eigin ipod sjálf. Systir mín sá að lokum aumur á stóru systur sinni og hjálpaði henni. Takk!!!) Við Rósa tókum báðar með okkur prjóna og svo er hér nóg af bókum og krossgátum sem er alveg hreint yndislegt. Hrund tók með sér helling af smíðadóti og föndurdóti og hefur verið að tálga úr rekaviðnum hérna og þess á milli leyft Rakel að smíða með sér. Rósa og Hrund deila fönduráhuga og hafa verið að gera hálsfestar og eyrnalokka og ég veit ekki hvað. Ég skrifa bara og les og er þá algjörlega fullnægð.

Ég hef nú ekki hugsað mér að skrifa svona mikið á tveggja til þriggja daga fresti en get ekki lofað neinu. Núna ætla ég að vista þetta og skella þessu svo inn þegar ég kem í bæinn á föstudaginn.

Rósa, Hrund, Einar Jóhann og Elísabet Rós sofa. Rakel situr upp á vatnstanki (henni er að takast að slátra þriðja skópari sumarsins með prílinu upp á þennan vatnstank, við hverja ferð skrapast fram af tánum og bráðum kemur gat) og teiknar kanínu með krítunum sínum, Valdís er eitthvað að vinna í sinni tölvu, ég skrifa og mamma les. Það er logn og sólin er að brjótast fram úr skýjunum. Rakel er búin að tilkynna okkur að þegar við erum búnar að tölvast og lesa séum við að fara að skoða brimið.

Ég er að reyna að hreinsa til í sjálfri mér og verður að segjast að þetta er besti staður í heimi til þess.

Þriðjudagurinn 29. júlí 2008

Ég sit hérna í steikjandi sólskini í þunnu pilsi, sem ég hef kuðlað saman á lærunum, og ermalausri mussu. Við hlið mér stendur krílið mitt í engu nema kjól og nærbuxum og með sólhatt á rauða kollinum sínum. Systkini mín liggja hálfber á teppi í grasinu og lesa sem og Valdís frænka. Sprundin er í göngu á brjóstahaldaranum og mamma nýtur sólarinnar í rauðu bikiníi. Örlítil gjóla bærir strá og hár og er kærkomin eftir margra tíma blankalogn og áðurnefnt sólskin. Ég hreinlega dýrka hversu fljótt veður skipast í lofti hérna á nesinu. Í gær var heldur kalt og sátu allir úti í hlýjum peysum og með teppi ofan á sér. Allt var rennblautt eftir næturrigningu og Rakel var í essinu sínu í pollagalla og stígvélum. Í dag er hreinlega baðstrandaveður. Hitinn slagar hátt í hitann í Guanacaste og þá er mikið sagt. 26 stig í skugga. Yndislegt alveg hreint.

Mikið óskaplega er ljúft að gera ekki neitt. Ég er búin að lesa þrjár bækur með áfergju, spjalla, spila á hverju kvöldi, prjóna og hlusta hlusta hlusta á tónlist, eitthvað sem ég fæ aldrei nóg af. Ég hef borðað úti í nær öll mál, enda bragðast allt betur með smá sjávarseltu og roki, og látið vitann, sjóinn og og jökulinn umvefja mig og endurnæra. Ég heillaðist svo mikið af bókinni Himnaríki og helvíti að ég þurfti að taka fram ‘skrifbókina’ mína og skrifa niður hinar mörgu fleygu og ó svo sönnu setningar sem finna á má í þessari snilldarbók. Ég bjóst hreint ekki við því að bókin myndi höfða til mín og því var það þvílík víma að sogast inn í textann, frásögnina, atburðarásina, öll dýrlegu orðin. Ekkert hefur eins mikil áhrif á mig og vel sögð orð. Úff. Ég er enn eftir mig.

Dvölin í bústaðnum er nær hálfnuð og hefur verið vægast sagt ljúf. Við Sprundin erum nú eitthvað að beila á hringferðinni. Nennum hreinlega ekki stressinu, veseninu og skipulagningunni sem henni fylgir. Hún verður bara farin seinna og þá tökum við tvær vikur í hana. Við höfum verið að velta því fyrir okkur að leggja samt af stað norður á mánudagsmorgun og halda til elsku Oddnýjar á Akureyri. Við erum að gæla við það að þiggja boð hennar um gistingu og fá jafnvel að gista þrjár nætur. Dagana myndum við svo nýta í ferðir til áhugverðra staða í kring, Mývatns, Aðaldals, Hólmavíkur ... Svo myndum við eiga margar gæðastundir með Oddnýju sem við söknum svo sárt.

Það er enginn með bústaðinn um verslunarmannhelgina svo það er aldrei að vita nema maður lengi dvölina og fari heim á laugardegi í stað föstudags. Þar sem við ætlum ekki hringinn höfum við meiri tíma þegar við komum heim, Rakel getur farið til pabba síns og verið yfir nótt, við getum þvegið og gengið frá í rólegheitum og pakkað fyrir næsta ferðalag. Eftir Akureyrardvölina (sem vonandi verður úr, eigum eftir að tala við Odddu poddu) fáum við svo helgi til að jafna okkur áður en vinnan tekur við. Við Hrund erum að fara á Eric Clapton tónleika og svo er gay pride gangan góða 9. ágúst. Allir að mæta! Vonandi getur Rakel svo farið til pabba síns um kvöldið því okkur mæðurnar langar svolítið á djammið. Það eru allavega tvö ár síðan við fórum síðast á ballið.

Ég ætla taka mér einn auka dag í frí, mánudaginn eftir fyrrnefnda helgi, og leyfa vinnufamilíunni að hitta rauðhaus. Það er alveg nauðsynlegt held ég bara. Var líka að hugsa um að grafa upp þrjú eintök af ljóðabókinni minni og gefa þeim, ég á að eiga kassa af þeim upp á lofti. Það eru ekki allir svo heppnir að fá bókina hjá mér en þær eru svo yndislegar að þær fá að kynnast þessu fyrsta barni mínu (ekki það að ljóðin séu einhver eðalljóð, ég var bara 18 ára krakkaskítur þegar hún kom út, en hún er hluti af mér).

Ætli ég segi þetta ekki gott núna. Rakel er farin með Einari og Elísabetu niður í fjöru, ég er búin að opna einn kaldan í sólinni og Hrund er að búa sig undir að fara að grilla hamborgara oní liðið.

Best ég fari og hringi í Oddnýju. Yfir og út.

Föstudagurinn 1. ágúst 2008 (kominn ágúst, ótrúlegt!)

‘Mér finnst þú ekki kúkur í framan’ gall í rauðhaus og gráblá augun horfðu rannsakandi á mig undan börðum sólhattsins. Slegin hitamet náðu hingað til okkar á Snæfellsnesið og sólin hefur bakað okkur og grillað líkt og við annað kjöt til átu. Mér finnst ég vera orðin kúkabrún í framan og veit ekki hvað mér finnst um það. Ég er ekki vön því að þurfa að díla við það á klakanum. En verði ég svona brún í sól á svona stuttum tíma er mér líklegast ætlað það. Ég þarf einhvern veginn að reyna að komast yfir það að finnast ég ljót, þessi hugsun í kolli mínu er merkilegur andskoti og þvert á það sem annað fólk segir mér. Samt er ég alltaf gapandi hissa ef einhver segir mig fallega. ‘Mér finnst þú sæt svona brún’ sagði konan mín áðan og ég heyrði votta fyrir pínulítilli þreytu í röddinni. Hún verður nebla stundum svo þreytt á því hvað ég tala illa um sjálfa mig segir hún og þegar hún segir það er hún líka sár í röddinni. Ég verð að taka á þessu.

Úff, ég er alveg að stikna. Sit hér í bol og pilsi og held ég neyðist til að rífa mig úr einhverju. Ég lá nær allan fyrradag hálfnakin í grasinu, hlustaði á tónlist, las og hugsaði. Var meira að segja ber að ofan, spéhrædda ég. Rétt huldi brjóstin þegar Guðni vinur Einars var nálægt, ekki af því að ég er kynbomba heldur af því að ég vildi ekki særa blygðunarkennd hans. Spikið á maganum hefur nú á sér ögn brúna slikju sem fær mig til að hugsa aðeins betur til þess. Ég lá líka á maganum og brúnaði bakið. Hefði betur sleppt því. Gleymi alltaf hvað það vantar mikið litarefni í húðina á bakinu, núna er ég öll í hvítum doppum.

Ég held ég verði bara að sleppa því að vera ber að ofan á næstunni. Komst nefnilega líka að því í gær að brjóst mín eru undarlega löguð. Við höfum spilað öll kvöldin í bústaðnum og nokkrum sinnum hef ég lent í sæti þar sem spegilmynd mín blasir við mér. Það er ekki alveg að gera sig. Mér til undrunar komst ég að því að ég er með miklu stærri brjóst en ég hélt. Þegar ég horfi niður eftir bringunni finnst mér þau ekkert stór en þegar þau eru brjóstahaldaralaus (mér finnst það svo ósköp notalegt) og hulin bol og peysu þá bara taka þau alla bringuna. Þau byrja einhver staðar í handarkrikunum og flæða út um allt. Ég hef enga stjórn á þeim, þau eru hreint ekki stinn og ungleg eða neitt bara. Ég hafði nú betri stjórn á þeim þegar ég var grennri og þá hreinlega af því að þau voru minni. Hann fer alveg með mig þessi líkami minn. En eins og ég segi, ég ríf mig ekki úr að ofan á næstunni.

Haldiði svo ekki að bæði Hrund og mömmu hafi tekist að taka af mér myndir sem ég er nokkurn veginn sátt við. Ég á rosalega erfitt með að skoða myndir af mér, ég verð hreinlega oft gráti næst, finnst ég koma svo illa út. Hrund verður mjööööög reið þegar ég eyði myndum sem hún hefur tekið af mér út af myndavélinni. Þetta er því annað sem ég hef verið að vinna í og ég er mjög glöð með þann áfanga minn að vera nokkuð sátt við heilar fjórar myndir af mér. Húrra fyrir mér! Ég held að ég hafi tekið fyrsta skrefið í vinnunni þegar ég sýndi vinnufamilíunni nokkrar myndir af mér (ekki af því að ég er að drepast úr athyglissýki heldur voru þetta myndir af brúnku minni sem þær eru mjög heillaðar af og svo nokkrar fyndnar af atburðum sem við höfðum talað um í vinnunni). Ég var svoleiðis með dynjandi hjartslátt allan daginn og rennsveittar hendur mínar skildu eftir sig blaut för á lyklaborðinu. Ég sat og starði á klukkuna og mannaði mig upp í að ljúka þessu af. Á endanum leið að því að Gyða var að verða búin að vinna svo það var að duga eða drepast. Og mér tókst það. Ég sýndi þeim myndirnar og það var ekkert hræðilegt.

Ég held þær viti ekki hversu stórt mál þetta var fyrir mig. Ég eyddi svo mörgum árum í að brjóta mig niður, þess fullviss að aðeins þannig gæti ég skapað mig upp á nýtt, orðið sú sem ég vildi vera. Mér tókst aldrei að breyta mér (sem betur fer), mér tókst bara næstum því að drepa mig á því að reyna það. Sem betur fer náði ég aldrei að brjóta mig alveg niður, þá hefði farið illa, en ég eyddi svo miklu af sjálfi mínu að ég er enn að reyna að púsla mér saman. Og ég veit að ég skrifa oft um þetta en það er mér eins nauðsynlegt og að draga andann.

Núna stefnir vinnufamilían á að fara í sund eftir næstu Esjugöngu. Og ég samþykkti uppástunguna! Ég hef þrisvar sinnum farið í sund síðan í fyrrasumar (þá fór ég oft og mörgum sinnum en þá var ég grennri og sáttari við sjálfa mig). Það sem af er sumri hef ég farið einu sinni á Hvolfsvelli, einu sinni í Laugardalslaugina með mömmu og einu sinni í laug í Hvalfirðinum. Ég kveið því í sturtunum að þurfa að labba fram hjá fullt af fólki til að komast ofan í og ég kveið því allan tímann ofan í að þurfa að labba fram hjá fullt af fólki til að komast inn í sturtur. Ég var fegin því að vera gleraugnalaus svo ég sæi ekki hvernig fólk horfði á mig vanþóknunaraugum (ég er klikkuð, ég veit).

Ég las í Fréttablaðinu að fitufordómar væru þeir viðurkenndustu í samfélaginu. Fólk setur samasemmerki á milli þess að vera of feitur og að vera latur, heimskur, metnaðarlaus ... Feitar konur fá minna í laun en grannar konur. Og ég er með það á heilanum að allir sem ég hitti dæmi mig fyrir að vera of feit. Skíthrædd um að fólk haldi að sé ekki neitt, geti ekki neitt. Mér er sama hvað fólki finnst um það sem ég geri, þær leiðir sem ég hef valið í lífi mínu, persónuleika minn. En ég er dugleg þótt ég sé of feit. Auðvitað á þessi ótti minn rætur að rekja til álits míns á sjálfri mér. Sem því miður er svo oggupons. Vinkonur mínar og konan mín hafa séð mig tággranna, veika, feita, þunglynda, glaða ... og nálægt þeim er ég aldrei óörugg (ok, sjaldan). Ég hef forðast það að kynnast fólki í skólanum, mér hefur fundist nógu erfitt að þurfa að standa upp í pásu og labba fram á gang, mér hefur alltaf fundist allir horfa á mig (aftur, ég veit að ég er rugluð!).

Þetta sumar hefur umbylt lífi mínu. Allt í einu er ég tilbúin að kynnast fólki, treysta einhverjum öðrum en þeim sem ég er búin að þekkja í mörg ár. Ég hef jafn vel íhugað það hvort ég sé kannski skemmtileg. Stelpurnar í vinnunni voru svo sannarlega á réttum stað á réttum tíma. Ég held að ég sé tilbúin að veita sjálfri mér eitthvað frelsi til að lifa. Hrund glæddi mig lífi og gaf mér lífsgleðina aftur og sumarið, vinnan og stelpurnar þar gáfu mér kraft til að lifa lífinu.

Það er sól og það er sumar. Dvölin hér senn á enda en líf mitt rétt að byrja. Hlakka til að sjá ykkur öll!!!

Seinna:

Við erum komnar heim. Lögðum af stað upp úr sjö og keyrðum heim í kvöldsólinni. Bárum sofandi kríli í rúmið og allt dótið inn. Vorum ekkert að ganga frá öllu þar sem við erum á leið norður á mánudaginn. Oddný sagði okkur velkomið að gera út frá sér og er ég ekkert smá spennt að hitta hana og fá loksins að sjá hvernig hún býr.

Rakel var ekki alveg á því að fara heim úr bústaðnum. Fannst það þó bót í máli að amma var að fara líka og allir hinir. Ég sagði henni að við myndum gera eitthvað skemmtilegt þegar við kæmum heim, eins og að heimsækja ömmu Sillu.'Ömmu Sillu' endurtók barnið í spurnartón, barnið sem alltaf þarf útskýringu á ömmunum sínum. 'Er það amman með hvolpinn' (tengdó var að fá sér hvolp)spurði hún og ég kinkaði kolli. 'Er það amman sem safnar dýrunum' spurði hún áfram og ég kinkaði áfram kolli. 'Er það amma dýraformaður' vildi hún vita og ég gat ekki annað en sprungið úr hlátri. Dýraformaður? Hvar nær barnið í þessi orð sín? Hún býr yfir ótrúlegum orðforða þetta undrabarn mitt. Hún týndi krækiber með ömmu sinni og vildi deila með sér eins og alltaf. Kom með nokkur í skál inn í stofu og lagði skálina á stofuborðið: 'Ég set þetta bara hérna svo að allir geti fengið sér'. Snillingur.

Annars gleymdi ég að geta þess áður hversu sjúklega ég er farin að kvíða spilakvöldi vinnufamilíunnar sem á að eiga sér stað þegar ég sný aftur úr fríi. Við höfðum hugsað okkur að spila Party og co. og fá tvo í viðbót (fyrir utan okkar fjögurra manna fjölskyldu) til að spila með. Ég er nú frekar feimin en ætlaði samt að láta slag standa. Eftir að hafa spilað umrætt spil í bústaðnum er ég eiginlega hætt við. Mér fannst nógu erfitt að þurfa að humma og leika og teikna og móta úr pípuhreinsara bara með fjölskyldunni. Ég á eftir að deyja ef ég þarf að gera þetta með einhverjum öðrum en þeim. Vinnufjölskyldan kannski sleppur en ekki einhver utanaðkomandi. Ég myndi þurfa að vera haugadrukkin og mig langar ekki að vera sú eina sem er haugadrukkin. Ég er eiginlega að vona að við getum að minnsta kosti tekið eitt spilakvöld bara fjórar. Svo ég geti æft mig og komið hægt og bítandi út úr skelinni. Við verðum bara að spila Trivial og sötra bjór. Hljómar það ekki bara vel stelpur? Ég bara veit ekki hvort ég höndla hitt.

Æ, ég held ég fari bara að koma mér í bólið. Veit ekki hvort nokkur manneskja nennir að lesa þessa ritgerð.

dr


Rauðhaus

'Er amma hennar mammíar með þér' spurði Rakelita í hálsakotið á mér í gær eftir að hafa tekið æpandi og öskrandi glöð á móti mér. 'Meinaru mamma mín, amma Alla' spurði ég. 'Já' svaraði kríli. Því miður var hún ekki með mér.

Inni í eldhúsi beið mín blár plastkaffibolli, Rakelin var búin að hella upp á kaffi handa mér. 'Þetta er kaffi handa mammíar' tilkynnti hún. Mammíar?

'Hey, mammí! Ég á hugmynd! Sagði kríli í morgun uppi í stóra rúmi. Hrund neitaði að vakna svo Rakel brá á það ráð að lækna hana (það var sumst hugmyndin). Hún náði í læknadótið sitt, setti á sig hjúkkukappa og boraði einhverju dóti inn í bakið á Hrund. (Það virkaði ekki, Hrund neitar enn á koma á fætur.) 

Rakel vildi endilega fá að taka litla nuddtækið mitt með sér inn í herbergi. Ég vildi vita af hverju þar sem þetta væri bara til að nota þegar manni væri illt í vöðvunum. 'En ég nuddir mig alltaf þegar mér er illt' sagði barnið og því til sönnunar nuddaði hún tækinu upp og niður eftir litlum handlegg. Ég sagði að hún mætti bara fá það lánað næst þegar henni væri rosa illt.

'Heitir þetta bjór?' spurði hún og lyfti upp tveggja lítra kókflösku sem af einhverjum ástæðum var inn í stofu. Nei. Nei, nei, nei.

'Ég ætlar að mælar þig' sagði hún og var mætt með málband. Mældi mig í bak og fyrir og kvað upp dóm: 'Þú ert 40 kíló mammí' (I wish!!!). 'En þú' spurði ég. Hún mældi sig og þuldi upp: 'Ég er sjöhundruð og tvö og sex kíló.' Hvorki meira né minna'

Núna er hún að gefa Rósu frænku, sem er í kaffi, sítrjónu með brauði. 'Viltu disk eða ekki' spurði hún fyrst. Náði svo í disk og sítrjónu með brauði og varaði hana við því að þetta gæti verið súrt.

'Hver er best í heimi' spurði ég hana. Það stóð ekki á svarinu: 'Ég' sagði hún. 'Hver er klárust í heimi' spurði hún'. Ég sagðist ekki vita það. 'Ég' sagði hún. 'En hvað er ég mest í heimi' vildi ég vita'. Henni varð ekki orða vant frekar en fyrri daginn: 'Þú ert, þú strjórnir mest í heimi'. Þar hafið þið það. Í hennar heimi stjórna ég mest. Eða strjórnir ég.

Áðan var hún að skoða dýrabókina sína. 'Sérðu, páull' sagði hún og benti á beinagrind af risaeðlu. Páull? 

Núna er hún að tala í símann sinn. Hún á einhvern gamlan síma sem hefur samkvæmt henni hringt stanslaust í allan morgun.

En nú verð ég að fara, ég á að fara að borða sítrjónu.

Vona bara að Sprundin fari einhvern tíma á fætur. Það væri nú skemmtilegra að hafa hana með í fríið!

Knús á stelpurnar í vinnunni.  


Freytt

Já, ég er heldur freytt (eins og rauðhaus segir) í dag. Þið vorkennið mér kannski ekkert þar sem ég er að fara í frí en hvað manneskja með barn hvílir sig og sefur út í fríi? Ég og Sprund erum aldrei eins þreyttar og í fríum.

Vinnufamilían fór á Esjuna í gær. Þetta er ekki grín. Loksins hef ég fundið einhvern sem vill ganga eitthvað með mér. Mikið svakalega fór ég samt í taugarnar á sjálfri mér þar sem klöngraðist upp. Spikið hristist, maginn dúaði og rassinn öðlaðist sjálfstæðan vilja fyrir utan það að hægja á mér. Það eina sem fór ekki í taugarnar á mér voru brjóstin enda vel reyrð undir íþróttatoppnum. (Sem bæ ðe vei er ógisslega fleginn. Af hverju í ósköpunum keypti ég mér fleginn íþróttatopp? En asnalegt. Ég hlýt innst inni að vera svona heilluð af eigin brjóstaskoru. Ég sem óskaði þess hér á árum áður að vera flatbrjósta.) Síðast þegar ég lagði í þetta fjall var ég létt sem lauf og blés varla úr nös enda í dúndurformi. Núna var annað upp á teningnum og á meðan svitinn lak niður andlit mitt og bak stóð ég á öskrinu inn í mér. Ég hljómaði í mínu eigin höfði líkt og snarbilaði austur-evrópski leikfimikennarinn minn í Melaskóla (sem var rekinn eftir að strákur í bekknum mínum drukknaði næstum því í sundi, brjálæðingurinn kenndi okkur nebla líka sund): 'Koma soooo! Ekki hætta! Ekki vera auuuuumingi! Ertu FÁVITI?' Ég var bara skíthrædd við sjálfa mig og gerði eins og mér var skipað. Enda enginn aumingi.

Vitur kona sagði mér eitt sinn að lífshamingja mín ylti á því að ég kæmi vel fram við sjálfa mig. Hún sagði mér að koma eins fram við mig og ég kæmi fram við barnið mitt. Aldrei nokkurn tíma myndi ég öskra svona á rauðhaus. Ég er greinilega ekki góð í þessu.

Við höfðum ætlað okkur upp að steini en komumst ekki alla leið vegna hnausþykkrar þoku. Áðum í staðinn og drukkum kakó og spjölluðum. Höfum hér með ákveðið að fara aftur í ágúst sem er bara frábært.

Rauðhaus kemur heim á eftir og ég er að vinna í því að setja mig í mömmugírinn. Ekki það að það eru engin handtök eins æfð hjá mér og þau sem umönnun barnsins krefst: Skeina, skera, mata, þurrka, fæða, klæða, greiða, strjúka, klappa, knúsa, breiða ofan á, kyssa, þvo og þrífa. Stelpurnar í vinnunni buðu mér að hita mig upp með því að skamma þær aðeins. Nei, djöfull er það það leiðinlegasta sem ég geri. Og þar með talið að ryksjúga. Held ég sleppi því í vinnunni.

Það verður ljúft að fara í frí. Ekki það að mér finnst ég rétt byrjuð að vinna. Þetta hefur bara verið yndislegt sumar. Núna þegar allar vinkonur mínar eru út í rassagati er kærkomið að eignast nýja vini. Stelpurnar í vinnunni eru þeir skemmtilegustu og mestu ljúflingar sem ég hef hitt lengi. Og Sprundin veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Konan hennar sem aldrei hefur þurft neinn tíma fyrir sjálfa sig og hefur á köflum verið svo necia (þurfandi) að hún hefur verið að kæfa hana (þ. e. Sprundina) talar allt í einu látlaust um vinnuna og vinina, fer á vinnudjömm og í göngur og skemmtir sér konunglega.

Ekki það að mér hafi leiðst áður. Ég var alveg sátt. Ég hins vegar fattaði ekki að ég gæti alveg verið að skemmta enn þá meira. Mér fannst bara svo yndislegt að eignast fjölskyldu, lítinn rauðhaus og mjúka konu, fallegt heimili og fjölskyldulíf, að ég gaf mig alla. Þreif og eldaði, hugsaði um konuna og barnið og lærði þess á milli. Ég fílaði það í botn og hef alveg hugsað mér að gera það áfram. Það er bara svo mikilvægt að eiga sér fleiri en eitt líf. Það er frábært að vera mamma og kærasta en ég verð líka að vera bara Díana Rós. Vona bara að Sprundin mín átti sig á því og skilji að hún er mér ekkert minna dýrmæt þótt ég sé hætt að vera svona necia. Við vorum reyndar að ræða þetta um daginn og vorum alveg sammála um að það væri kominn tími til að vera kannski aðeins meira sundur og með vinum okkar. Það að eiga maka af sama kyni getur skapað mjög sérstakar aðstæður. Það verður óneitanlega þannig að þið eigið sömu vinina og eins skemmtilegt og það er verður að passa það aðeins. Það er svo mikilvægt fyrir fólk í sambandi að eiga sína vini sem og sameiginlega.

Og þá er ég búin að koma þessum hugleiðingum frá mér.

Allavega held ég að við Sprundin höfum gott af því að fara í sumarfrí og hnoðast hvor í annarri og auðvitað afkvæminu.

Ég blogga svo bara þegar ég er búin að vera viku á Malarrifi eða jafn vel ekkert fyrr en eftir hringferðina.

Já, já, já. Ég ætla að vera dugleg við að vera betri við sjálfa mig. Ég get þetta. No hay clavo.


Magasár

Ég er alveg að fá magasár af stressi yfir öllu sem ég ætla að koma í verk í þeassari viku. Það er samt alls ekki neitt leiðinlegt, bara mikið. Á eftir ætla ég að bruna í Everest og fá nýja tjaldstöng í stað þeirrar ónýtu (eftir Hvalfjörðinn). Svo ætlum við Sprundin í bíó ef hún skiptir ekki um skoðun (hún heldur því stundum fram að henni finnist leiðinlegt í bíó). Á morgun fer ég í mat til mömmu og svo á Esjuna með vinnufamilíunni. Á fimmtudaginn þarf ég að pakka fyrir Malarrif og hitta og kveðja Kötlu sem ég sé ekki meir áður en hún flytur til Þýskalands. Á föstudaginn verð ég að þrífa aðeins, vil ekki koma heim í skít, og svo er það bara sumarfrí. Mitt yndislega Snæfellsnes með vatnsskorti og símasambandsleysi.

Núna ákalla ég veðurguðina. Vil ekki að það rigni of mikið á okkur blómarósirnar á Esjunni á morgun.

Ok. Mi madre bíður úti á bílastæði, verð að hlaupa.


Nei

Ég segi nei við fyrirsögn.

Hrund náði í krílið eftir vinnu á föstudag. Barnið talaði að sjálfsögðu látlaust alla leiðina heim. Tók það fram að hún hefði ekki fengið nammi, ekki sett það í vasann og ekki borðað það. Aumingja barnið veit að nammi er ekki í boði fyrir hana (nema í undantekningartilvikum) í stelpukotinu. Ég hef nú reynt að segja henni að hjá pabba ráði pabbi og þar sé í lagi að borða smá nammi ef hún man að bursta tennurnar vel. Barnið tók líka fram við mömmu sína að Karíus og  Baktus kæmu í tennurnar ef hún borðaði nammi. (Ekkert má maður segja, barnið fær það á heilann hvort sem það er kuldaboli, Karíus og Baktus eða eitthvað annað.) Og af orðum þess að dæma er barnið kom með nóg af þeim köllum: 'Karíus og Baktus eru bara hálfvitar'. Þar hafið þið það.

Rauðhaus var mjög ör þann tíma sem hún var hjá okkur. Það reyndist henni mjög erfitt að setja sig inn í heimilislífið og þær reglur sem því fylgja eftir langan tíma hjá pabba sínum. Ég og Hrund vorum komnar með ógeð af okkur sjálfum, endalaust eitthvað að röfla. Krílið mitt var bara ekki alveg eins og hún á að sér að vera. En ég skil það, hún er bara lítið barn og verður jafn rugluð á lífinu og aðrir. T. d. ég.

Þrátt fyrir það skemmtum við okkur vel. Fórum út að borða á Ítalíu á föstudaginn og Rakel fékk kúluís á eftir. Vildi endilega piparmyntukúlu og át hana alla þótt henni þætti bragðið augljóslega nokkuð skrítið. Hún sofnaði fast og svaf eins og engillinn sem hún er. Köngulóarfóbían hennar virðist þó vera að færa sig eitthvað upp á skaftið og núna er hún farin að fá köngulóarmartraðir. Ég vaknaði um miðja nótt við það að strumpur stóð við rúmstokkinn og sagði með kökkinn í hálsinum: 'Mammí, mammí mín, það er könguló'. Hún fékk mömmuknús og skreið aðeins upp í stóra rúm. Tilkynnti svo stuttu seinna að köngulóin væri farin og að hún væri tilbúin til að fara inn í sitt rúm. Svaf svo þar til hálf ellefu (fór að sofa klukkan hálf níu).

Um morguninn fékk Rakel að hjálpa mömmu sinni að gera kaffi handa mér sem er mesta sport í heimi. Á meðan hvíslaði hún og neyddi mömmu sína til að gera slíkt hið sama. Hún var viss um að ég væri sofandi og vildi ekki vekja mig þessi elska.

Við horfðum svo allar á Múmínálfana sem hún hafði fengið að 'kaupa' (hún skilur ekki hugtakið leigja) í sjoppunni kvöldið áður. Eftir þá tókum við okkur til og fórum niður í Nauthólsvík. Greyið stelpan hélt að við værum að fara að hitta afa Douglas. Hún hefur aldrei baðað sig svona úti (fyrir utan sund) nema úti í Svíþjóð hjá honum. Þrátt fyrir fjarveru afans skemmti hún sér konunglega. Hlýddi engu sem við sögðum og svaraði öllu með nei-i en það skríkti í henni af kátínu þar sem hún henti sér til sunds, renndi sér í rennibrautinni eða hljóp um ströndina. Bjarndís og Einar Ernir komu þegar leið á daginn og Rakel og Einar eyddu klukktíma í að renna sér á rassinum (eða maganum eða andlitinu, get svo svarið það) niður einhvern hól.

Það var svangt, 'fyst' (þyrst) og þreytt barn sem pabbinn kom að sækja. En að mér sýndist kátt og glatt. Þegar hún kemur frá honum á fimmtudaginn ætla ég að vera þolinmóð og gefa henni aðlögunartíma áður en ég minni á þær reglur sem gilda. Stundum finnst mér ég ömurleg mamma og stundum mjög góð. Yfirleitt reyni ég bara að gera mitt besta og vona að það dugi til.

Við Hrund opnuðum bjór (trúið þið þessu?) eftir að skottan var farin. Svefn sótti að Hrund og á meðan hún lagði sig drakk ég bjór, hlustaði á The Knife (mér varð svo hugsað til þín elsku Oddný mín, manstu?) í botni (sem virtist ekki trufla Hrund hið minnsta) og bara var einhverf. Hrund skreiddist á lappir og fór svo niður í bæ að hitta vinkonur sínar. Ég var ekki tilbúin að fara (klukkan eitt um nótt) og eyddi þremur tímum í að blogga, lesa blogg, hlusta á ipodinn í botni (ég hef örugglega skemmt í mér heyrnina) og taka myndir af sjálfri mér. Fór loks eftir þetta allt (eða um fjögur) niður í bæ. Eins og ég sagði í fyrri bloggum hef ég bara verið týnd í naflanum á sjálfri mér.

Hrund fór austur í gær að hitta pabba sinn og ég talaði í símann allt kvöldið. Fyrst í tvo tíma við Oddnýju og svo í tæpan einn og hálfan við Kötlu. Það var bara mjög gott og nauðsynlegt.

Ég er að vona að naflaskoðun minni sé lokið. Ég er hreinlega komin með svo mikið ógeð af sjálfri mér að ég hefst ekki við í eigin návist.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband