Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Je minn

Ég er með ljóð á heilanum. Mikið ofboðslega er ég sjálfhverf þessa dagana.

Ég blogga um helgina þegar ég hef fundið leið út úr naflanum á mér. 


Neeeeeiiiiiiii

Kannski er betra að skrifa færslur þegar maður er edrú. Það sem ég var að skrifa þurrkaðist út! . Skrifaði færslu rétt áðan og veit ekkert hvað gerðist. Hún þurrkaðist allavega út. En hér er ljóð eftir mig:

Ég dáist að þessum ljóðskáldum

sem fara í viðtöl og eru

 svo vel máli farin og not orð

sem ég myndi aldrei nota  og

semja svo ljóð um minningagreinar,

fólk og fyllerí og e-ð sem heitir

endurómun uppgufunar eða e-ð

álíka. Svo er skáldið jafn gamalt mér

en svo hnyttið og

háfleygt að það hlýtur að hafa

æft sig í mörg hundruð ár.

 

Ég er bara alltof sjálfhverf til

að vera að skrifa um táfýlu

fólks út í  bæ. Og alltof einföld

sál til að geta átt í svona djúpum

samræðum. Mér finnst bara gott

að kyssa konuna mína

kaffikossi. borða pulsu með

öllu og drekka kókómjólk.

Og fínt að skrifa um það líka.

Í mesta lagi samt undir rós.

 

 

Skrifaði  meira áðan. En er búin að gleyma því! 


*Fliss*

Krakkar mínir

Var með eitthvað gott í hausnum áðan, er auðvitað búin að geyma því. Tölvan er of hæg.

Barnið aftur farið til pabba síns. Ég hef bara verið að missa mig í bjórnum síðan ég varð barnlaus.

Er núna að hlusta á 'Big girls are beautiful' með Mika. Ó, já. Það er víst satt.

'Ef þið bara vissuð' er setning sem er eins og rauður þráður í einu ljóða minna.

Og í alvöru. Ef þið bara vissuð hvað ég er að hugsa.

*Fliss*

ps. Nei, shjitt. Búin að gleyma því.

pps. Hvenær í ósköpunum verð ég fullorðin? 


Eitt það besta í heimi ...

... er að skrifa ljóð. Eða það finnst mér. Ég á ógrynni af ljóðum á lausum blöðum út um allt, í tugum dagbóka, í ljóðabókinni minni og í höfðinu. Eins og ljóð yfirleitt, eru þau einstaklega sjálfhverf og endurspegla líðan mína og hugsanir í það og það skiptið. Sá sem vill kynnast mér allri, öllu því sem ég hef til að bera, mínum kostum og göllum, ætti að lesa ljóðin mín. Það væri hins vegar kannski hægara sagt en gert þar sem ég leyfi ekki öllum að lesa þau. Ansi væri ég þá allsber eitthvað. Þegar ljóðabókin kom út leið mér á tímabili eins og ég hefði verið húðflett. Nú myndu allir sjá hvað ég væri klikkuð. Hvað var ég að pæla að sýna fólki allar mínar myrkustu hugsanir. Og hvað ef fólk áttaði sig á því hver manneskjan var sem ég orti um af svo miklum hita. Hvað ef þessi manneskja kæmist að því hún væri eldurinn sem stöðugt logaði í mér.

?

Ég var 18 ára og einstaklega dramatísk. Ég komst yfir þetta og leið ágætlega eftir að hafa verið afhjúpuð (að mér fannst, það var ekki eins og allir í heiminum hefðu lesið bókina).

Ég á ljóðum líf mitt að launa. Og það meina ég bókstaflega. Hefði ég ekki haft hæfileikann til að færa hugsanir mínar í orð hefðu mörg augnablik í lífi mínu verið mér ofviða. Erfiðustu árin mín á ég erfitt með að muna og lengi vel vildi ég ekki muna þau. Fyrir ekki svo löngu áttaði ég mig á því að ég gæti aldrei litið almennilega fram á við fyrr en ég tækist á við fortíðina. Fyrir mig virkar ekki sú aðferð að gleyma. Ég verð að muna og læra að vera sátt við allt það sem ég hef gert, þær ákvarðanir sem ég tók og fyrst og fremst verð ég að sætta mig við þetta kjánastrik sem ég var svo lengi vel. Það hefst ekkert upp úr því að hata sjálfan sig annað eymd.

Ég týndi til öll ljóð sem ég fann frá þessu tímabili og mikið lifandis skelfingar ósköp fannst mér erfitt að vera manneskja. Sérstaklega sú sem ég var. Sum ljóðin eru svo háðsk og kaldhæðin að mér varð hverft við. En sú aðferð mín að sjá spaugilegu hliðarnar á lífinu, þótt kaldhæðnar væru, fleytti mér áfram.

Í seinni tíð er bjartara yfir ljóðunum mínum. Ljóðin mín um barnið mitt einasta eru svo uppfull af gleði og ást að það hlýtur að duga öllum heiminum. Hin ótalmörgu ljóð sem ég samdi til Sprundarinnar minnar í tilhugalífinu sýna lífið sem hún kveikti í mér á ný eftir að mér hafði fundist svo lengi að ég hefði misst það frá mér.

Það var einhver ástæða fyrir því að ég byrjaði að skrifa um þetta en hún er löngu gleymd.

Með aldrinum finnst mér aðeins auðveldara að vera manneskja. Kannski af því að ég hef lært það (og er enn að læra) og er orðin aðeins betri í því.

Ég held ég hafi bara haft allt of mikinn tíma til að hugsa á meðan barnið hefur verið hjá pabba sínum og undanfarna daga hefur mér fundist pínu erfitt að vera manneskja.

Þegar ég verð stór held ég bara að ég verði flott manneskja.

ps. Ég held að það sé of mikið að hafa heilsuhorn á hverjum degi. Bara allt of mikið af upplýsingum fyrir fólk líka. Ætla því að hafa það nokkrum sinnum í viku. Er ekki búin að ákveða hversu oft enn þá. Ég get hins vegar sagt ykkur í dag að ljóð hafa einstök áhrif á geðheilsuna.

Annars kemur mömmugullið heim á eftir og verður yfir nótt. Við mömmurnar ætlum bara að knúsast í henni, ekki fara í neinar heimsóknir eða neitt heldur njóta þess að vera fjölskylda.

pps. Í dag held ég að sólin í sinninu sé risin upp frá dauðum.


Úff

Ég hef bara ekki andlega geðheilsu til að blogga neitt almennilega þessa daga. Mér líður enn þá eins og einhver hafi kippt fótunum undan mér og neiti að setja mig niður. Ég svíf því bara um í háloftunum (eins viðbjóðslega lofthrædd og ég er) ein og yfirgefin af bloggandanum.

Ég svík hins vegar ekki Hlífina og hér er heilsuhornið hennar:

KÍWI er eitthvað sem maður ætti að venja sig á að borða. Þessi krúttaði ávöxtur innheldur rúmlega þrisvar sinnum meira af C-vítamíni en appelsína eða um 180 mg í hverjum 100 g. Auk þess er það stúfullt af andoxunarefnum og öflugt í baráttunni við sýkingar. Algjört möst fyrir reykingarmenn.

Þetta, og annað í heilsuhorninu, er eftir minni bestu vitund og upplýsingum. Ekki drepa mig ef ég skrifa einhverja vitleysu. 


Handa Hlíf ...

... og öllum hinum kemur hér heilsuhornið og verður tvöfalt í dag þar sem ég skrifaði ekkert í gær:

Efni sem viturlegt væri að forðast er efnið TRICLOSAN sem finna má í nær öllum antibacterial vörum líkt og sápu, tannkremi og snyrtivörum. Efnið er oft mengað af svokölluðum dioxin efnum og eru þau krabbameinsvaldandi auk þess að geta veikt ónæmiskerfið, skert frjósemi og valdið fósturskaða.

TALKÚM sem finna má í hinum ýmsu vörum fyrir börn, í svitalyktareyði og í andlitspúðri er algjör viðbjóður. Það inniheldur kemískt efni áþekkt asbesti og getur aukið líkurnar á krabbameini í eggjaleiðurum.

Að lokum smá fróðleiksmoli: Aðeins 11 prósent af 10.500 innihaldsefnum í hinum ýmsu snyrtivörum hafa verið rannsökuð og því ekkert vitað um möguleg skaðleg áhrif þeirra.

Hallelúja.

Enginn mættur í vinnu enn og minns geðveikt einmana. Kannski er liðið að forðast mig.


Ó my lord

Undanfarna daga í lífi mínu hef ég:

-næstum fengið hjartaáfall og verið nær yfirliði

-næstum valdið annarri manneskju hjartaáfalli

-grátið

-hlegið óstjórnlega

-verið á skallanum

-upplifað þvílíkan tilfinningarússíbana að ég er örmagna

-keyrt eins og brjálæðingur

-hætt að reykja, svindlað einu sinni (hafði mjööööög góða ástæðu), hætt aftur

-komist í gegnum djamm án þess að reykja sem er þvílikt afrek

-sent billjón sms, sum skemmtilegt, önnur ekki svo skemmtileg og enn önnur verulega steikt

-verið mjög steikt og alls ekki getað einbeitt mér í vinnunni

-farið í flíspeysu sjálfviljug (ekki tilneydd vegna kulda), bara af því að mér finnst hún flott

-látið senda mér mat tvisvar heim (sem ég geri aldrei aldrei aldrei)

-þjáðst af hrikalegu hungri en átt erfitt með að borða

-liðið eins og þegar var 18 ára og líf mitt var eitt drama

-upplifað eitthvað splunkunýtt á hverjum degi, sumt skrítið, annað gott og enn annað ekki svo gott, eiginlega vont

-verið í lokuðum skóm í vinnunni í fyrsta skipti síðan ég byrjaði í júní

-fengið innilokunarkennd á tánum

-verið barnalaus (sem ég er ekki viss um að hafi góð áhrif á mig)

-skrifað í dagbókina mína

-lesið ljóðabókina mína, dáðst að henni sem og fundið til með þeirri Díönu Rós sem eitt sinn upplifði allt sem í henni stendur

-ekki getað sofið þrátt fyrir að vera leka niður úr þreytu

-ekkert ráðið við hugsanirnar sem streyma fram

-verið svo óskaplega hrædd að mig hefur langað það eitt að stinga hausnum í sandinn eða flytja á eyðieyju

-liðið eins og ég væri að deyja

-verið að springa úr hamingju

-eytt hátt í hundrað mínútum í það að stara út í loftið

-verið með svo mikinn bjúg að ég kem ekki hringunum mínum á sömu putta og venjulega (nema ég hafi hreinlega fitnað svona mikið síðan ég notaði þá síðast, það er reyndar ekkert ólíklegt)

-verið svakalega óánægð með mig (sem er ekkert nýtt) og svo strax á eftir nokkuð sátt

-dottið í stiganum heima vegna ógurlegs sársauka í bæklaða hnénu mínu

-haft miklar áhyggjur af bæklaða hnénu sem ég held að sé að gefa sig sökum líkamsþunga míns

-dottið hundrað hlutir í hug sem ég ætlaði að skrifa á bloggið en gleymt þeim svo jafn óðum

-lofað Hlífinni að hafa heilsuhorn á blogginu, ætla mér að standa við það en hef samt ekkert að skrifa í dag (og þó, mér dettur örugglega eitthvað í hug á eftir og skrifa það þá)

-hreinlega ekki verið með sjálfri mér

Og nú segi ég ekki meir. Og það þýðir ekkert að spyrja mig nánar út í ofantalið. Ég hef bara ekki orku, nennu né vilja til að ræða það.

Ó my lord.

 

-


Iss

Ég er ekki viss um að það sé skynsamlegt að vera að blogga í mínu ástandi. En það er bara stundum ógeðslegt að vera skynsamur.

Ógeðslega leiðinlegt allavega.

Það er hreinlega ekki runnið af mér enn þá síðan í gær. Svakalegt.

En byrjum á byrjuninni.

Matarvikuna miklu ætla ég að skýra síðusut viku í lífi mínu. Ekki af því að ég át svo mikið heldur af því að ég borðaði gómsætan mat á hverjum degi. Er búin að telja það upp áður en ég var ekki búin að segja ykkur frá saltfisknum.

Við fórum til mömmu eftir vinnu á föstudaginn. Við mamma bjuggum til spænskan saltfiskrétt sem er ólýsanlega góður: fisknum velt upp úr hveiti og svo steiktur með 14 (já 14) hvítlauksrifjum á pönnu. Fisknum er raðað í mót og kartöflum í sneiðum þar ofan á. Efst kemur haugur af lauk og papriku, steikt upp úr ediki, niðursoðnum tómötum og sinnepi. Yfir allt þetta stráir maður ólívum og einhverjum bragðmiklum osti. Ó my lord. Mig langar í svona núna. Ég bjó svo til austurríska eplaköku með karamellubráð og borðuðum við hana og ís með í eftirrétt. Úff. Þetta var svo gott.

Litla þreytta barnið var sofnað um hálf níu. Vaknaði sjö á laugardagsmorguninn og fór á klósettið en svo kom ég henni fyrir á mili okkar mæðranna í stóra rúmi og hún svaf til hálf tíu. Dagarnir eru svo langir hjá henni á sumrin að hún er að leka niður úr þreytu. Sem betur fer er hún komin í sumarfrí með pabba sínum núna, hún þarf á hvíldinni að halda.

Við mömmurnar vorum ekki síður þreyttar á föstudagskvöldið, Sprundin var komin upp í rúm klukkan níu og ég klukkutíma seinna. 

Við fórum í morgunkaffi til ömmu í gær og mætti bara eiginlega öll fjölskyldan mín. Það var ótrúlega gaman og Rakelin var í essinu sínu. Pabbi hennar kom svo að sækja hana rétt um eitt og var ótrúlega skrítið að kveðja rauðhaust vitandi það að við myndum ekki sjást í heila viku. En hún og pabbi hennar hafa svo gott og gaman af því vera saman.

Við Hrund brunuðum niður í bæ og náðum í skálina og bollan sem við gerðum í keramiki í byrjun júní. Ekki seinna vænna, júlí að verða hálfnaður. Fórum því næst í ríkið og byrgðum okkur upp (það verður að taka barnlausa lífið með trompi) og vorum komnar heim rétt fyrir þrjú. Ég átti von á vinnufjölskyldunni í mat um hálf sjö og vissi að ég myndi þurfa allan þennan tíma. Ég þvoði eina vél, moppaði, þreif klósett, vaska og strauk af baðherbergisgólfunum, þurrkaði af og gekk frá dóti og eldaði dýrindis súpu. Hrund var rekin að heima um hálf sjö og ég var akkúrat tilbúin þegar Kristín mætti. Gyða og Hlíf voru mættar stuttu seinna og þá hófst fjörið. Og þvílíkt fjör.

Við fengum okkur hvítvín og borðuðum súpu, Kristínarsalat, og brauð með guacamole. Færðum okkur yfir í sófann eftir matinn og opnuðum bjór. Eftir spjall og nokkra bjóra borðuðum við eftirréttinn hennar Gyðu sem var syndsamlega góður. Kláruðum rétt helminginn en eftir marga bjóra í viðbót átum við restina. Við fórum í 'ég hef aldrei' sem var svo drullugaman að þið trúið því ekki. Það var líka mjög gaman að tala og tala og tala og tala eins og okkur einum er lagið án þess að þurfa að vera með samviskubit yfir vinnunni. Gleðin var mikil. Glaumurinn var mikill. Og þegar allir voru búnir með áfengið sitt dró ég fram10 bjóra (litla samt) í viðbót (ég og Hrund keyptum ansi mikinn bjór) sem við fórum létt með að slátra.

Ég held að klukkan hafi verið orðin þrjú þegar okkur tókst loks að koma okkur niður í bæ. Fórum inn á Ellefuna til þess eins að fara strax út aftur og litum svo aðeins inn á Celtic (hvernig er þetta aftur skrifað?). Ég og Gyðan vorum búnar að vera á svakalegu trúnói (hvað er þetta með stelpur og trúnó) heima og héldum því bara áfram eftir að hinar stelpurnar fóru heim. Fórum svo og hittum Hrund og Nonna (kærastinn hennar Gyðu) og héldum heim.

Hrund fór í leigubílaröðina og í ég í Hlöllaröðina. Sú seinni gekk ekkert svo við fórum svangar heim. Reyndar var Hrund búin að borða þegar ég hitti hana en hún var aftur orðin svöng. Í boðinu hjá ömmu var verið að ræða um eggjabrauð og fannst mér nauðsynlegt að fá mér svoleiðis þegar við komum heim. Hafði reyndar enga orku í það og var búin að bursta tennurnar þegar ég sá að Sprundin var búin að draga fram pönnu og stóð í úlpunni við eldavélina, tilbúin að leggja í eldamennsku. Einhvern veginn tókst henni að búa til besta eggjabrauð sem ég hef nokkurn tíma smakkað. Ég fékk bara að koma mér fyrir í sófanum undir sæng og horfði á Harry Potterinn minn og gæddi mér á því besta sem Hrund hefur nokkurn tíma eldað.

Mett og dauðþreytt skreið ég upp í rúm klukkan sjö í morgun. Ég hins vegar gat hreinlega ekki sofið fyrir eigin hugsunum. Þær voru svo háværar að  klukkan ellefu gafst ég upp á því að sofa og var þá búin að fara þrisvar sinnum á fætur og bauka eitthvað. Ætli ég hafi ekki sofið svona tvo tíma allt í allt og ég var pínu skrautleg þegar ég byrjaði að taka til eftir kvöldið.

Það voru örugglega hátt á hundrað bjórdósir á víð og dreif um húsið, klístur út um allt gólf inn í stofu (við vorum sífellt að hella niður, sérstaklega ég og Hlíf þar sem brussugen okkur eru einstaklega sterk) og helling af leirtaui í vaskinum og á eldhúsbekknum. Ég týndi saman dósir og setti í poka, þreif klístur og vaskaði upp. Ég þurfti að vaska upp í tveimur hollum og þurrka inn milli og var að minnsta kosti klukkutíma að því. Var orðin ansi soðin á puttunum þegar ég var búin og farið að svima. Ég drakk lítra af eplasafa í einum teyg og kláraði svo að snurfusa.

Eftir tveggja tíma þrif kom ég mér fyrir upp í sófa með Kristal og tölvuna í fanginu og hér er ég enn. Veit ekki hvort ég fer aftur upp í rúm eða hvort ég þurfi að hugsa aðeins meira.

Það er stundum svo erfitt að vera fullorðinn. Ég veit stundum ekkert í minn haus.

Yfir og út. 

ps. Mikið svakalega langar mig í eggjabrauð. Bara meika ekki að búa það til.

pps. Vona að það sé ekki hrikalega mikið af innsláttarvillum í textanum. Meika heldur ekki að lesa þetta almennilega yfir. 


Matur er manns gaman

Bloggþörfin er ekki eins mikil og venjulega. Kannski vegna þess að ég segi vinnufjölskyldunni frá öllu sem ég ætla að blogga um. Ræð bara ekki við mig. Það verður bara erfitt að fara í frí, á eftir að sakna stelpnanna minna úr vinnunni. Kristín var að vinna í annarri byggingu í dag og við vorum svona hálf vængbrotnar án hennar. Svakalegt alveg hreint.

Ég bara verð samt að lýsa kræsingunum sem við fjölskyldan lögðum okkur til munns í fyrradag. Eiginleg myndi ég vilja borða eitthvað svona létt og ferskt á hverju kvöldi. Við gæddum okkur á nýbökuðu ólívubrauði, þriggja lita pestói, hvítlaukskotasælu, gómsætum íslenskum tómötum, gúrku og papriku, Havartiosti, túnfisksfylltum, spænskum ólívum, vínberjum, íslenskum gulrótum, flatkökum, soðnu brauði, hangikjöti, skyri og jarðaberjagraut með mjólk. Við borðuðum í þögn, svo mikil var nautnin sem fylgdi þessu áti. Þetta var allt létt í maga og einstaklega hollt og næringarríkt. Mmmmm.

Áðan vorum við í heimsókn hjá tengdó og ekki voru veitingarnar þar af verri endanum frekar en vanalega. Boðið var upp á rándýrar og ljúffengar, grillaðar, íslenskar nautalundir með bökuðum kartöflum, piparsósu, fersku salati og hvítlauksbrauði. Tengdó bjó líka til kalda, gríska jógúrtsósu með gúrku og hvítlauk. Ég smakkað og táraðist, svo mikill hvítlaukur var í henni. Kannski ég verði rekin úr vinnufjölskyldunni á morgun sökum hvítlauksfýlunnar sem væntanlega verður af mér. Annars erum við ekkert mikið að kyssast í vinnunni svo kannski þær lifi þetta af.

Á morgun er matur hjá mömmu og er ég búin að panta fisk. Hef ekki borðað fisk (bara fiskibollur) síðan 16. júní (er alveg með dagsetningarnar á hreinu) þar sem ekki hefur fengist frosinn þorskur í Bónus og ég borða helst ekki ýsu. Verð bara að fara að koma mér í fiskbúð, þetta gengur ekki lengur.

Á laugardaginn er svo hið margumtalaða matarboð og skrall með vinnufamilíunni. Ég verð með mína súpu, guacamole og brauð. Kristín ætlar að koma með sumarlegt salat og Gyða einhvern djúsí eftirrétt. Hlífin hefur ekki mikla trú á sér í eldhúsinu og ætlar að koma með áfengi sem er aldrei verra. Svo er það bara matur, spjall, drykkja og brjáluð skemmtun. Við byrjuðum eitthvað að grínast með að fara í 'ég hef aldrei' drykkjuleikinn. Þetta er svona leikur sem fólk stundaði grimmt í menntaskóla, allavega í mínu ungdæmi ... Það er hins vegar líka drullugaman að fara í hann þegar maður er orðinn eldri, þá hefur maður líka gert miklu fleira. Fór í hann á einu frændsystkinakvöldinu og það var mikið stuð. Þrátt fyrir að þetta hafi byrjað sem grín hjá okkur þá held ég að allt stefni í það að við förum í hann og er Hlíf orðin mjög stressuð yfir því að standast ekki væntingar okkar hinna. Ha, ha. Svo spennandi allt saman ...

Svo eru bara tvær vikur í sumarfí fjölskyldunnar. Yndislegt.

Hrund heldur í handlegginn á mér og vill fá mig nær sér. Best að ég hætti að blogga og einbeiti mér að henni aðeins. 


Fastur blettur

Það er svo margt sem mig langar að komast yfir í þessari viku en hún en bara ekki nógu löng. Á sunnudögum hugsa ég oft um hvað ég þarf að gera í komandi viku og hvað mig langar að gera. Síðastliðið sunnudagskvöld kom þetta upp í huga mér:

-Pumpa í dekkin á hjólinu svo ég geti farið út að hjóla

-Fara í Byko og skila því sem við keyptum í síðasta 'útileguholli' og sjáum engin not fyrir (keyptum t. d. fjórar hitakrúsir en okkur nægja tvær (vissum ekki að það væru tvær í pakka))

-Hitta Maríu vinkonu og krakkana hennar, fara í göngutúr í Laugardalnum með þeim og njóta blíðunnar

-Fara í heimsókn til tengdó áður en Rakel fer í tveggja vikna sumarfrí til pabba síns

-Fara í heimsókn til mömmu áður en Rakel fer í tveggja vikna sumarfrí til pabba síns

-Fara í heimsókn til ömmu áður en Rakel fer í tveggja vikna sumarfrí til pabba síns

-Versla inn í Bónus

-Grilla helst einu sinni

-Fara í bíó með Rakel og Hrund

-Þrífa bílinn 

 

Glætan bara. Allt of mikið. Við erum búnar að grilla, búnar að hitta Maríu og njóta blíðunnar, ætlum í Bónus á eftir, í heimsókn til tengdó á fimmtudaginn, mömmu á föstudaginn og ömmu á laugardaginn áður en pabbi hennar Rakelar sækir hana. Við ætlum að sleppa bíóinu og þrifum á bílnum. Ég stefni á að pumpa í dekkin á hjólinu mínu eftir Bónusferð. Svo má hitt eiga sig þar til seinna.

Veðrið var yndislegt í gær og ákváðum við því frekar að hitta Maríu en morkna í Bónus. Hún kom með litla kútinn sinn og stelpuna sína og svo röltum við Rakel og Hrund með þeim niður í Laugardal. Stelpurnar hlupu um í sólinni og skemmtu sér konunglega. Fórum í Grasagarðinn þar sem María gaf litla kút umkringd dúfum og á meðan léku Arna, stelpan hennar, og Rakel sér. Voru ótrúlega krúttlegar. Höfðu komið sér fyrir á túni og sátu þar og spjölluðu eins og gamlar kerlingar.

Ég hafði varað Rakel við gæsaskítnum í grasinu en hún lét það, eins og mörg önnur orð mín, sem vind um eyru þjóta. Brölti um í grasinu og pældi ekki í neinum skít. Við ákváðum svo að fara á kaffihúsið í garðinum og þá rak Hrund augun stóran skítablett aftan á kjólnum hennar Rakelar. Þeir voru fleiri en einn. Það var líka skítur á gammosíunum sem hún var í og þar sem þeim sleppti og berir leggir tóku við mátti finna fleiri klessur. Hrund þreif hendurnar og leggina á barninu inn á klósetti kaffihússins en við létum hitt vera. Stelpurnar gæddu sér á samlokum og við hinar spjölluðum og svo var kominn tími til að rölta heim.

Rakel varð súr á svip þegar hún sá Maríu og co. fara. Ég sagði henni að þegar hún væri búin að vera í sumarfríi með pabba þá færi hún í frí með mömmunum. Við þessi orð glennti Rakel upp augun, dró djúpt andann og svelgdist nær á í æsingnum:'Að heimsækja afa Douglas?' vildi hún vita þar sem hún tengir sumarfrí við hann. Hún var nú pínu leið þegar ég sagði henni að ekki gætum við það í sumar en lofaði henni sumarbústað nálægt sjónum og útilegu sem var þó bót í máli.

Þegar kom að því að þrífa barnið fyrir svefninn kom í ljós að skíturinn á kjólnum hafði farið í gegnum hann. Mátti finna skít á rassinum á gammosíunum líka. Þegar hún var komin úr þeim var greinilegt að skíturinn hafði farið í gegnum þær og var eins blettur á nærbuxunum. Þegar hún var komin úr þeim kom í ljós að skíturinn var kominn í gegnum þær og á rassinn á barninu. Og það var sama hvað ég skrúbbað botninn á stelpunni í sturtunni, bletturinn fór ekki úr húðinni. Ég gat ekki lagt rassinn á henni í baðkarið og makað hann út í grænsápu líkt og ég gerði við fötin svo hún þurfti að fara að sofa með daufan blett á rassinum.  Ég vona bara að þetta fari úr í næsta þvotti.

Annars er ég að velta fyrir hvar ég get komið því á framfæri að það er upprunalega hugmynd Rakelar að kalla mömmur sínar mömmu og mammí. Hún reyndi sem kríli að segja mamma Díana en það kom heldur brenglað út. Við Sprundin tókum það sem út kom og fínpússuðum það aðeins og höfðu þá búið til nýyrðið 'mammí'. Lesbíupari á leikskólanum hennar Rakelar fannst þetta svo sniðugt að þær tóku þetta upp líka. Allt í lagi með það en þegar þær voru í þættinum Fyrstu skrefin kom það út eins og þetta væri þeirra hugmynd. Það finnst mér einum of. Í gær hitti Hrund konu,sem er mamma stelpu sem var á leikskólanum sem Hrund var að vinna á, og sagði hún henni að vinkonur sínar létu strákinn sinn líka kalla sig mömmu og mammí eftir að hafa heyrt það (veit ekki hvaðan). Þetta bara breiðist út! Og mér finnst að Rakel, og við allar, ættum að fá kredit fyrir þetta orð!

Gyðan stakk upp á að ég skrifaði grein um þetta. Kannski ég geri það bara. Ef það fæðist að meðaltali eitt barn í mánuði sem á tvær mömmur þá á þetta nýyrði enn frekar eftir að breiðast út.

Annars var ég líka að velta því fyrir mér hvort það væri hlutskipti konunnar að vera sífellt með fangið fullt. Af einhverju. Eftir að ég flutti að heiman er ég endalust berandi eitthvað út um allt. Og flestar aðrar konur gera það líka. Ef þær bera ekki barn í leginu þá bera þær barn sem þær hafa ungað út, byrðar heimsins á á herðum sér, þvott, innkaupapoka, mat ...

Sjitt, er svo svöng að ég get ekki hugsað, alveg að koma kaffi!

Svo er greinilegt að við Sprundin erum farnar að kvíða því pínku smá að hafa ekki Rakel hjá okkur í tvær vikur. Þegar ég var komin upp í rúm í gær mundi ég að ég hafði gleymt að skipa Rakel á klósettið fyrir svefninn. Þar sem ég vildi ekki að hún vaknaði hlandblaut tók ég krílið í fangið og bar hana á klósettið. Hún pissaði og kúrði í hálsakotinu á mér á meðan. Fylltist ég þá svo mikilli ást að ég ákvað að taka hana aðeins inn í stóra rúm og knúsast í henni þar. Hrund gerði slíkt hið sama þegar hún kom upp í. Ég hafði ætlað að biðja Hrund um að bera Rakelitu inn í sitt rúm en á endanum tímdum við því ekki. Ákváðum bara að leyfa henni að kúra á milli okkar enda er hún búin að biðja um það nokkrum sinnum undanfarið.

'Hvernig ætli sé að eiga svona skrítnar mömmur' spurði ég Hrund þar sem við lágum sitthvoru megin við barnið og dáðumst að vel sköpuðum tám, freknum á nefi og mjúkri húðinni. 'Mömmur sem fara í dúkkuleik með sofandi barnið sitt.'

Við elskum hana bara svo ofur- og undurheitt.

Við sváfum líka allar eins og steinar. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband