Þreytt

Já, ég er endalaust þreytt eitthvað og nenni engan veginn þessum prófum. Finnst ég ekkert hafa komist í neinn prófgír, að minnsta kosti ekki hingað til. Veit ekkert hvað er að gerast með mig.

Hef verið svolítið mikið hjá mömmu að læra. Það er mjög þægilegt. Oftast hef ég verið mest heima í prófum, kannski tekið tarnir á Hlöðunni en annars læri ég mjög vel hérna í kotinu mínu. Núna hefur það ekki gengið eins vel. Næ ekki að einbeita mér. Finnst því gott að fara til mömmu. Litla systir situr inn í herbergi og lærir fyrir sín próf og öðru hverju spjöllum við um hvað við nennum þessu ekki.

Hrund er búin í sínum prófum og er komin í frí. Kannski þess vegna sem ég næ ekki að einbeita mér hér heima. Miklu meira spennandi að tala við hana heldur en að læra. Kannski líka þess vegna sem ég er að drepast úr þreytu. Hún vakir fram eftir og ég kem mér ekki í rúmið. Horfi með henni á sjónvarpið eða held yfir henni einræður eins og mér einni er lagið (þegar ég spyr þessa elsku hvort ég tali of mikið segir hún alltaf nei, hún nennir alltaf að hlusta á blaðrið í mér).

Var við það að fá taugáfall yfir afmælinu hennar Rakelar í vikunni. Við ætlum að halda það næsta laugardag. Ef allir mæta eru þetta um þrjátíu manns með okkur Hrund og Rakel. Sprundin náði að róa mig. Ætlar með mér að versla og hjálpa mér með undirbúning veislunnar kvöldið áður. Fjölskyldan mín er í fyrra hollinu um hádegisbilið og fær súpa (lagaða kvöldið áður svo það þarf bara að hita hana upp daginn eftir) og brauð. Fjölskylda Hrundar mætir svo um hálf þrjú og fær kökur og kaffi. Get ekki eldað súpu fyrir svona marga. Mamma ætlar að koma með eina köku og ætla að biðja tengdó um að bjarga geðheilsu minni og koma með eina köku og einn brauðrétt eða svo. Davíð frændi heldur svo upp á 25 ára afmælið sitt sama dag og byrjar veislan  hjá honum klukkan fimm. Það er því nóg að gera. Ég er að fara í bókmenntafræðipróf mánudaginn á eftir og kvíði því hræðilega. Aðallega þess vegna sem ég hef verið svona stressuð. Þarf að finna tíma til að gera allt sem gera þarf fyrir afmælið. Sem betur fer er Sprundin í fríi og léttir á mér álagið. Ef ég væri ekki í prófum myndi ég njóta undirbúningsins í botn, baka mitt eigið brauð og gera hummus í stað þess að kaupa það. En það verður ekki á allt kosið. Þetta verður örugglega svaka stuð.

Búin með eitt próf. Fór í spænska málfræði í gær og held mér hafi bara gengið ágætlega. Kvíði prófinu í spænskri ritþjálfum miklu meira (það er 21. des). Ólíkt því sem heiti námskeiðsins gefur til kynna er við ekki að æfa okkur í að skrifa heldur að stafsetja. Það er til endalust af áherslureglum og reglum um hvenær skrifað er v, b, h, g, j og svo framvegis. Fjandanum erfiðara þótt það hljómi ekki svoleiðis. Ég er búin að læra svolítið fyrir það. Hef bara 20. des eftir hádegi til að klára lærdóminn. Núna þarf ég að einbeita mér að bókmenntafræðinni og forna málinu. Ó mæ lordí hvað ég er stressuð.

Þar sem ég hef farið svo seint að sofa í vikunni og náði næstum ekkert að sofa fyrir stressi nóttina fyrir prófið var ég að leka niður úr þreytu í gær. Við Hrund fórum til mömmu með gjöf handa Elísabetu Rós sem varð 16 í gær. Stóra litla systir. Hrund fór svo heim með Val, pabba krakkanna, sem setti upp ný blöndunartæki inni á baði hjá okkur. Núna er ekki lengur hætta á því að Rakel skrúfi frá heita vatninu Þegar hún er í baði og grilli sig. Nýju tækin eru með hitastilli. Ég neyddi mig í Kringlugeðveikina og kláraði að kaupa jólagjöfina hennar Hrundar. Var svo í mat hjá mömmu en var komin snemma heim, gat ekki haldið mér vakandi.

Sprundin er búin að smíða hillur í neðri skápana inn í eldhúsi og í skápana undir súðinni frammi í holi. Dugleg. Loksins er hægt að raða eitthvað inn í þessa skápa og ég get hætt að bölsótast yfir þessu. Dauðöfunda Hrund yfir fríinu. Hún er búin að fá lánaða tölvuleiki hjá bróður sínum og er horfin inn í tölvuleikjaheiminn. Hún getur spilað endalaust. Ég lái henni það ekki. Hún fær örsjaldan tækifæri til að hanga í tölvunni svo hún nýtur þess í botn núna.

Guð, hvað ég sé jólafríið í hillingum. Það verður yndislegt að rölta með stelpunum mínum niður í bæ á Þorláksmessu og vakna með þeim á aðfangadag. Dunda mér við að elda á meðan ég hlusta á hláturinn í þeim fram í stofu. Pabbi Hrundar kemur í mat og kannski föðurbróðir hennar líka. Í fyrra var Robbi hjá okkur en í ár ætlar hann að vera með sinni fjölskyldu og í staðinn fer Rakel til hans á gamlársdag/kvöld. Þetta verður yndislegt.

Eftir tvo daga fer ég að leika jólasvein. Hlakka svo til að gefa Rakel í skóinn. Vorum búnar að finna til ýmist smádót, freyðibað í líki frosks, tvær litlar bækur, sokkabuxur, límmiða og þvíumlíkt en ég er alltaf að sjá eitthvað sætt svo ég hef bætt við barbapabbaglasi og skeið, vettlingum, endurskinsmerki og einhverju fleiru. Það er lang skemmtilegast að gefa krökkum á þessum aldri í skóinn segir mamma. Barnið mitt á eftir að verða svo glatt. Hún er alveg jafn glöð yfir dagatalinu sínu og í fyrra. Við kaupum súkkulaðidagatal og tökum súkkulaðið úr en setjum rúsínur í staðinn. Eins og hennar er háttur gefur Rakel okkur alltaf með sér þótt við hvetjum hana til að borða rúslurnar sínar sjálf. Það er ekki til níska í henni og hún virðist njóta betur ef hún gefur með sér.

En núna er ég farin að skrifa ógesslega langa færslu bara af því að ég nenni ekki að byrja að læra fyrir bókmenntafræði og veit ekki hvernig ég á að gera það.

Hrund sefur mjúk og mjólkurhvít inn í rúmi. Þvottavélin malar og tölvan andvarpar. Það er jólasnjór úti og algjör sunnudagur í götunni. Enginn á ferli.

Stelpan mín kemur heim á eftir, er að halda upp á afmælið sitt hjá pabba sínum. Hún verður örugglega í sykursjokki og alsæl. Og bráðum verður hún þriggja ára. Finnst eins og það hafi verið í gær sem ég, 21 árs, grönn, ó svo grönn, leit hana fyrst augum. Litla sköllótta búddistann með útstæðu eyrun. Það var ást við fyrstu sýn. Hafði einungis gerst einu sinni áður. Nokkrum dögum áður þegar ég hitti Hrund. Ljóshærða, hávaxna og með frekjuskarð. Með bleikan topp (hún var nýbúin að vera hármódel) og þykkar varir. Mér fannst hún í svo stórum og ljótum skóm og var viss um að ég gæti aldrei verið með stelpu í svona skóm.

Ég vissi ekki að ég gæti, vissi ekki að ég myndi, vissi ekki að ég kynni, vissi ekki að ég vildi.

En ég er hér enn. Mamma og sambýliskona. Lifi drauminn sem mig dreymdi aldrei um að dreyma. Vissi ekki að mig dreymdi um.

Kaffibollinn er tómur. Glærurnar um bókmenntafræði horfa ásakandi á mig. Mér er ekki til setunnar boðið. Það er eitthvað ljúfsárt við þennan dag. Við þetta tímabil í lífi mínu. Líður eins og það séu breytingar í vændum. Góðar breytingar. En það er alltaf ákveðinn tregi sem fylgir því að klára kafla í lífi sínu. Æ, ég veit ekkert hvað ég er að tala um og ekki þið heldur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En hvað þetta er falleg færsla. Þú ert alltaf svo góð að skrifa. Og það er alvegt satt hjá þér, það er sunnudagur í götunni.

Rósa 9.12.2007 kl. 23:10

2 identicon

Fyrirgefðu, ég er ekki búin að lesa alla færsluna, en ég verð að kommenta strax. Þess vegna getur verið að ég kommenti aftur:)

Í alvörunni!? Stafsetning í ritþjálfun!??? Nákvæmlega það sem allt námskeiðið fór í þegar ég tók þetta, í engu samræmi við það sem stóð í námsáætluninni. Það fyndna var að lokaverkefnið hjá okkur var ekki próf, heldur ritgerð (sem hefði passað ágætlega við það sem stóð í áætlunni, en ekki við það sem var kennt). Ég hélt samt að þetta hefði bara farið svona af því að henni var hent í að kenna okkur eftir að önnin var byrjuð og því var hún illa undirbúin. En þúst. Af hverju að kenna bara stafsetningu í ritþjálfun? Mér finnst það allavega asnalegt

Hlíf 10.12.2007 kl. 11:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband