Hor í nös

Ég er enn aumingi með hor. Ligg svo sem ekkert fyrir enda ekki þekkt fyrir það en orkan klárast á svona fimm mínútum.

Helgin var í rólegri kantinum. Skruppum í Ikea og keyptum hirslur fyrir allt dótið hennar Rakelar sem er ansi mikið eftir jól og afmæli (Nú hefur hver hlutur sinn stað, allir kubbar í einni fötu, bílar og fígúrur í annarri, lestin og teinarnir í enn einni og svo framvegis. Hún getur því valið sér eitthvað eitt að leika sér með og ef hún vill skipta gengur hún frá hinu fyrst. Engillinn var fljótur að skilja kerfið og fer eftir því að mestu. Duglegust), versluðum á hana stígvél í boði mömmu og eyddum svo restinni af deginum hjá henni. Hrund er að fara að smíða skáp inn á bað fyrir hana í skólanum og hélt sig því mest inn á baði við mælingar og pælingar með mömmu. Á meðan lék rauðhaus sér og ég svaf í sófanum uppgefin eftir daginn. Við tókum því rólega fram eftir degi á sunnudaginn og litum svo við hjá tengdó. Vorum komnar snemma heim enda Hrund líka farin að finna fyrir flensueinkennum. Rakelitan er sem betur fer hress og kát.

Ég er ekkert í skólanum á mánudögum svo ég gat sofið með góðri samvisku í dag. Er ekki frá því að ég sé ögn skárri eftir hvíldina. Náði að læra smá spænsku og stinga í vél áður en ég náði í Rakel á leikskólann og við fórum svo ásamt Sprundinni að ná okkur í vetrardekk undir nýja bílinn. Hann var nefnilega á sumardekkjum sem er ekki alveg málið núna. Við fengum beiðni hjá bílaumboðinu og nú bíður nýja gullið okkar úti, tilbúið í slaginn. Ég mæli eindregið með B og L bílaumboðinu. Þeir veittu okkur frábæra þjónustu. Eins og áður sagði gáfu þeir okkur vetrardekk og þar sem það fer að koma tími á nýja tímareim og smurningu bjóða þeir líka upp á viðgerð á verkstæði. Í leiðinni verður löm á hurðinni bílsjórameginn löguð en annars er engu fleiru ábótavant. Notaði bílinn verður því eins og nýr.

Ég er búin að fá fleiri einkunnir. Fékk 7,5 í spænskri ritþjálfun sem er heilum meira en ég bjóst við. Það sem við vorum að læra var ekki svo flókið en hins vegar fjandanum erfiðara að koma því til skila á prófi og fá rétt fyrir. Var hreint ekkert ánægð með þessi próf. Náði þó greinilega ágætis árangri á lokaprófinu sem gilti 50% þar sem ég var bara með 7 í hinum 50 prósentunum sem ég lauk á önninni.

Ég fékk svo 9 í bókmenntafræði og er ánægð með það. Núna get ég sent kennaranum tölvupóst og sagt honum að ég hafi verið ein að þeim sem var með gífurlega fordóma gagnvart bókmenntafræði áður en ég fór í námskeið í henni. Kennarinn náði heldur betur að glæða áhuga minn og ég hef ekki fengið neitt nema níur fyrir ritgerðir og próf, bæði í þessu námskeiði og því sem ég lauk á síðustu önn. Hann á alveg skilið að vita að kennsla hans ber árangur.

Við Sprundin erum alltaf í því að telja krónurnar. Búum svo vel að eiga sparireikning og vera duglegar að leggja inn á hann. Hrund þurfti því ekki að taka yfirdrátt heldur fékk lánað af reikningum síðustu önn og borgaði svo til baka núna þegar hún fékk námslánin. Ég átti pening þegar ég hóf nám svo ég hef heldur aldrei þurft að taka yfirdrátt. Og það munar heldur betur um það. Nú er bara að sjá hvort peningarnir dugi ekki til að hafa sama háttinn á fyrir Sprundina á þessari önn. Okkur sýnist það nú sem er alveg ljómandi. Barnalukkan, eins og við köllum barnabætur (sem er undarlegt orð, óþarfi að bæta manni það að eiga barn) bjargar okkur svo eins og fyrri daginn. Þeir peningar fara beint inn á sparireikninginn og gera okkur vonandi kleift að gera eitthvað í sumarfríinu. Helst viljum við taka hringinn á bílnum og tjalda í guðsgrænni náttúrunni. En nú er ég komin fram úr sjálfri mér eins og alltaf. Ekki skrítið að ég sé með of háan blóðþrýsting og fái magaverki af stressi.

Mamma stakk upp á því að flensan hefði látið á sér kræla einmitt vegna þess að nú er að byrja ný önn. Mér finnst ekkert ótrúlegt að stressið brjótist svona út. Óþarfa stress að sjálfsögðu.

Ég tek bara einn dag í einu og reyni að líta á björtu hliðarnar sem eru margar í mínu lífi.

Annars á ég eftir að fá út úr prófinu í forna málinu og kvíði því óskaplega. Er skíthrædd um að vera fallin

Held ég verði að leggjast fyrir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband