Er að læra ...

... svo ég hef þetta örsnöggt. Er búin að skrifa þetta líka svaðalega formlega bréf á spænsku til ímyndaðs tölvufyrirtækis en það er hluti af 10% verkefni sem ég þarf að skila í ritþjálfun á föstudaginn. Helsta áskorunin í  bréfinu var að skrifa eitthvað tölvumál, biðja um áveðna gerð af tölvu, harðan disk, megbæt, bla, bla , bla. Netið bjargaði mér eins og svo oft áður.

Held að það sé aðallega skíðafólk og barnafólk sem þráir stöðugt snjó og kulda. Eftir að Rakel kom inn í líf mitt stend ég mig að því að glápa á veðurfréttir hvert kvöld í von um að nógu kalt sé til þess að engin von sé á rigningu. Væri möguleiki að dagurinn liði án úrkomu myndi ég vona það auðvitað en úrkomulausir dagar þykja til tíðinda á skerinu. Ég vil miklu frekar þurfa að skafa af bílnum og frjósa á tánum heldur en þurfa að sækja skítahaug í stað barns á leikskólann. Ekki nóg með að hún sé með drullu í eyrunum og augunum og öllu andlitinu heldur þarf ég að þvo pollagallann á hverjum degi (sem er ekki bara drullugur utan á heldur inn í líka), þvo húfuna og vettlingana í höndunum (ullin má ekki fara í vélina), þurrka stígvél og innlegg, þvo öll fötin sem hún var í og aukafötin sem hún er komin í og auðvitað skrúbba skítahauginn. Allt ofantalið er þakið sandi svo þið getið ímyndað ykkur hvernig gólfin hérna heima eru eftir að ég dreg þetta inn dag hvern. Ef yndislegur snjór liggur yfir öllu get ég bara sótt barnið mitt og klætt það í kuldaúlpu.

Auðvitað er ég þakklát fyrir að barnið er heilbrigt og kátt og glatt og fullt orku. En ég á erfitt með að hrósa henni þegar hún lýsir afrekum dagsins fyrir mér sem felast í hoppi í polla. Hún þreytist ekki á því að segja mér hvernig hún og Stefán Steinar hoppuðu eins mikið og þau gátu í pollinum og lögðust svo í hann á eftir. Hvað á maður að segja? 'Flott hjá þér, dugleg ertu' eða bara 'plís nenniru að róla eða hjóla í útiveru og hætta þessu pollastússi áðurn en ég missi vitið og trampa á pollagallanum og ríf húfuna í sundur í æðiskasti'. Best að halda bara kjafti held ég.

Ég og Hrund fórum með Rakel í klippingu áðan (vorum reyndar bara að láta særa, ég vil sítt hár sem ég get leikið með mér). Hún var auðvitað ógisslega dugleg og þar sem hún hefur farið þangað áður vissi hún vel að verðlaun voru í boði. Hún var ekki sein á sér þegar hún var komin úr stólnum að reka nefið ofan í plastfötuna sem hún vissi að innihélt blöðrur. Klippikonan reyndi eitthvað að bjóða henni hring en Rakel vildi bara blöðru. Það eru alltaf ´stelpu-' og 'strákaverðlaun' í boði. T. d. glingur fyrir stelpur og boltar fyrir stráka. Auðvitað er börnum ekki bannað að velja það sem 'ætlað' hefur verið fyrir hitt kynið en þetta er bara ein enn pirrandi sönnun þess að börn eru hlutverkaþvegin og kynjaþvegin frá frumbernsku. Mér finnst æðislegt að Rakel skuli alltaf velja sér bolta eða blöðrur ef það er í boði, finnist skemmtilegast í heimi að vera skítug og klár eins og Lína langsokkur og finnast ekkert eins kúl eins og Spiderman. Mér finnst líka frábært að henni finnist gaman að vera í pilsi og leyfa mér að greiða sér og setja borða í hárið. Það sem skiptir mig öllu er að hún hafi frelsi til að velja og að samfélagið hafi ekki áhrif á hennar skoðanir.

Þess vegna er ekkert sérhannað stelpudót á þessu heimili, þess vegna hömpum við Línu langsokk, þess vegna ölum við upp í henni sjálfstæði og sjálfsöryggi. Svo enginn eða eitthvað nái nokkurn tíma að brjóta vilja hennar á bak aftur.

Áróðri lokið. Verð að fara að sækja Rakel. Fór ekki með úlpuna hennar á leikskólann í dag þar sem við löbbuðum þangað í grenjandi rigningu og hún var í pollagalla. Núna hefur hins vegar snjóað síðan um eitt leytið. Frábært. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bara að kasta á þig kveðju skvís, alltaf gaman að lesa bloggið þitt :)

Kv. Arna

Arna 19.2.2008 kl. 18:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband