Mamma fyndna

Mamma mín er best í heimi. Hún er bara svo viðbjóðslega fyndin og sjúklega klár (undarlegt val á lýsingarorðum hjá mér) og blanda af þessu tvennu er pottþétt.

Ég sit hérna í vinnunni hjá mömmu og er að vinna (eða sko er alveg að fara að vinna). Við ætlum í hádegismat á eftir og svo þarf ég upp í skóla og í nálastungur svo ég ákvað að ég gæti alveg eins verið komin í bæinn snemma. Er líka orðin pínu leið á því að hanga ein heima. Hrund hringdi áðan til að ráðfæra sig eitthvað við mömmu. 'Hrund, þú veist að konur verða ljótar af því að hugsa of mikið'. Sagði mamma. Bahhh. Kostulegt. Mamma gæti ekki verið meira ósammála þessu. Ég meina, hvenær hugsa konur oooof mikið. Ef konur væru ekki síhugsandi væru við öll skítdauð (eða steindauð).

Frumsýning á myndinni hennar Valdísar í kvöld. Þarna verður elíta Íslands og fjölmiðlar svo ég stend mig að því að stara inn í fataskápinn í von um að finna eitthvað til að vera í. Ætli kápan mín sé ekki flottasta flíkin mín svo kannski ég verði í henni. Og nakin innan undir bara. Eftir myndina er partý og læti, rautt og hvítt og bjór og gleði gleði.

Við keyptum fjórða skópar sumarsins á Rakel í gær og svaka fína kuldaskó. Þá eigum við flíspeysu og buxur, pollagalla og kuldskó, allt glænýtt á lager. Hún á úlpu en þarf nýjar snjóbuxur. Kannski pabbinn taki það að sér.

Hvar á maður að sækja þessi strætókort maður. Meira vesenið að fá þessi kort. Svo hef ég ekki hugmynd um það hvort kortið er tilbúið eður ei.

Fór út að ganga í gær í yndislegu veðri. Nennti ekki í rigningu dagsins en fór eftir að Rakel var komin í rúmið. Labbaði í 50 mínútur og djöfull var það gott. Svo upplifði ég svo magnað augnablik í Laugardalnum. Var að labba fram hjá íþróttavellinum og einhver fótboltaleikur var í gangi. Ég var með ipodinn í eyrunum og var að hlusta á svo skemmtilegt lag. Sólin var alveg að setjast og hékk í augnhæð. Það var eins og ég gengi inn í sólarlagið, púlsinn var á fullu, ilmur af blautu grasi, tónlistin dunaði og út undan mér heyrði ég fagnaðarlæti fólks í stúkunni. Hamingjan skaust um líkamam minn og fyllti hvern krók og kima og lífsgleðin gaf mér aukna orku svo ég gaf aðeins í. Þetta var örstutt augnablik en ó svo kærkomið. Það er yndislegt þegar fólk fagnar: Nýju lífi, marki, sigri, ástvinum ...

En núna ætla ég ekki að blogga meira. Og mér finnst þið ekki nógu dugleg að kommenta hérna. Ég sakna Hlífar sem alltaf kommentar (en er í útlöndum).

Takk fyrir mig!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ég átti svona augnablik í gær þegar landsliðið í handboltanum kom heim :) allir svo fínir og sætir og glaðir! En heyrðu... síminn minn er dáinn... vildi bara láta vita af því. Ég er að vinna í því að grafa upp einhvern gamlan síma til að nota... vesenisvesen! þetta er glænýr sími!

Gyða 28.8.2008 kl. 14:14

2 identicon

Hvurslags. Síminn bara andvana. Finnst þér þú ekki bara vera handa- og fótalaus? Ég sendi þér einmitt sms um það að við Kristín værum að stíla inn á bíóferðina á morgun. Á ég að senda þér póst til þess að ná í þig eða? Nenni því nú varla. Kannski þú fáir lánaðan síma og bjallir í mig á morgun svo við getum ákveðið stað og stund. Og mynd. Og svo ef þú vilt hringja upp á gamla mátann, í heimasímann, þá er númerið 5347169.

díana rós 28.8.2008 kl. 14:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband