Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Áhyggjuefni

Sá að Hlífin var farin að hafa áhyggjur af bloggleysi enda sjaldan sem ég tek mér svona langar pásur frá blogginu. Yfirleitt er það þannig að því duglegri sem ég er að læra, þeim mun minni tíma hef ég til að blogga en núna er það ekki ástæðan fyrir 4 blogglausum dögum heldur svæsin vöðvabólga.

Án gríns.

Eftir að ég greindist fyrst með brjósklosið og fór í langa meðferð hjá hnykkjara, hef ég verið nokkuð góð. Ég er aldrei góð eins og einstaklingur með heilbrigt bak en ekki krónískt kvalin og með klemmdar taugar. Síðastliðin tvö ár hefur bakið farið versnandi og styttra liðið milli tíma hjá hnykkjaranum (fór alltaf á svona 8-12 mánaða fresti en núna er ég orðin slæm aftur eftir þrjá).

Ég fór í október áður en við mamma fórum til Madridar en samt fór ég alveg í bakinu úti. Leið eins og aumingja, lang yngst í hópnum og labbaði eins og hölt, ef ekki soðin og steikt, hæna, og þurfti sífellt að hvíla mig. Var marga daga að jafna mig þegar ég kom heim. Hef eiginlega ekkert náð mér og er mjög slæm núna. Eins og síðast (í október) er ég komin með hræðilega vöðvabólgu með. Þegar mér er orðið svona illt í bakinu fer ég beita því hræðilega vitlaust og sef öll pinnstíf. Af því leiðir að ég fæ svo svæsna vöðvabólgu að ég get hreinlega ekki hugsað.

Í gær reyndi ég að opna flösku (af ferskum safa sem ég og Hrund bjuggum til-verð að monta mig af atorkunni). Ég gat ekki opnað flöskuna en fékk hræðilegt tak í vinsti öxlina og vöðvana þar þegar ég reyndi. Ég öskraði af sársauka og hræddi líftóruna úr elsku Siljus sem sat hjá mér við matarborðið. Óttasleginn strauk hún hendur mínar og sagði: Mamma er vöknuð núna (hún svaf á sínu græna eyra), við skulum ná í hana, hún skal opna bara, hún skal gera það.

Allan gærdaginn starði ég út í loftið með verkefni fyrir framan mig, ófær um að hugsa. Bruddi ibúfen og leið eins og ég væri lasin. Hrund nuddaði mig á sunnudaginn og í fyrrkvöld líka en það hafði engin áhrif. Varð líka ekki mikið úr nuddinu í fyrrakvöld. Um leið og Hrund snerti vöðvana byrjaði ég að veina. Hún spurði mig kalt: Ætlarðu að láta svona allan tímann (og ég gat ekki snúið mér til þess að sjá framan í hana og veit því ekki hvort hún var að grínast eða er bara svona kaldrifjuð)? Ég beit því á jaxlinn en gafst upp eftir nokkar mínútur.

Allavega, þetta var rosa löng og leiðinleg útskýring á bloggpásu.

Annars var rómó ferðin okkar Hrundar yndisleg. Laugardagurinn var pottþétt fyrsti vordagur og við kyrnur nutum góðs af. Loksins, loksins gátum við brunað eitthvað út úr bænum á nýja bílnum. Vorum enga stund á Stokkseyri, fengum okkur göngutúr í fjörunni og borðuðum nesti, fórum á Draugasafnið og létum hræða okkur, kíktum á Veiðisafnið sem var svakalegt og fórum út að borða. Gistiheimilið var mjög fínt og höfðum við staðinn út af fyrir okkur þar sem við vorum einu gestirnir. Eftir humarinn röltum við á gistiheimilið og horfðum á Friends (vorum að kaupa okkur flakkara og tókum hann með, vei, vei). Fengum okkur egg og beikon í morgunmat daginn eftir og vorum komnar í bæinn rétt fyrir þrjú. Náðum í ljúflinginn til tengdó og fórum til mömmu þar sem Rakel fór út að leika, Hrund að lesa blöð og ég að elda kjúkling og baka köku. Enduðum svo kvöldið aftur á Friends (maður verður húkt). Yndisleg helgi. 

Þetta er hundleiðinlegur pistill. Andinn situr fastur í vöðvabólgunni. Er að fara til hnykkjara á eftir, vonandi verður andinn, líkaminn og skapið betra á morgun.

Hasta luego. 


Verðið að lesa þetta

Þið hreinlega verðið að fara inn á songfuglinn.blog.is og lesa nýjustu færsluna. Þar eru hin ýmsu orðatiltæki komin í rugl. Þetta er sjúklega fyndið. Ég hringdi í mömmu og við öskruðum úr hlátri yfir þessu.

Annars heitir bloggarinn Gunnsa og er vinkona hennar Sillu minnar tengdó.


Hmm

Ég var alveg búin að sjá þennan morgun fyrir mér: Ætlaði að vakna útsofin korter fyrir sjö, taka mig til með stelpunum mínum, við Hrund færum með Rakel í leikskólann, ég keyrði Hrund í skólann og færi svo sjálf í skólann þar sem ég tæki blogghring, færi inn á mbl.is og lærði jafnvel eitthvað áður en ég færi í tíma klukkan tíu.

Hann var ekki alveg svona.

Hrökk upp tíu mínútur fyrir sjö og skildi ekki hvað hafði vakið mig (datt vekjaraklukkan ekki í hug), gerði rifu á augn svo ég sæi klukkuna í loftinu og lokaði augunum svo strax aftur. Hafð séð að klukkan var bara sex eitthvað svo ég hugsaði með mér: Jess ég má sofa lengur, hún er bara sex eitthvað, alltof snemmt til að vakna. Fattði svo rétt eftir að ég var búin að loka augunum aftur að ég átti að vakna klukkan sex eitthvað. Oj.

Hrund skreiddist á fætur hálftíma seinna og var eins og draugur upp úr öðrum draug. Kom sér í föt og drakk kaffi en þurfti sífellt að setjast niður inn á milli sökum orkuleysis og óþæginda í maga. Á endanum komst hún ekkert út úr húsi, ætlaði að leggja sig fram að hádegi og sjá hvort hún kæmist í skólann þá.

Ég fór því með Rakel á leikskólann og hálf asnalegt að vera svona snemma á ferðinn þegar ég átti ekki að mæta fyrr en eftir tvo tíma (hélt nátla að ég þyrfti að skutla Hrund).

Ákvað að nýta tímann og taka bensín. Fyrst þurfti ég að bíða mjög lengi eftir að komast að og svo var eitthvað sambandsleysi í gangi svo það var ekkert hægt að taka helvítis bensín. Niðursnjóuð keyrði ég þá í skólann.

Núna sit ég hér ein í tölvuverinu í Árnagarði og mér finnst eiginlega ekki taka því að byrja að læra. Ætlaði að skíra bloggið 'Velkomin ... í ljóðahorn Díönu Rósar' en andinn yfirgaf mig á leiðinni hingað. Núna hef ég mestar áhyggjur af því að Hrund verði lasin á morgun og við komust ekki í okkar rómó ferð. Það verður þá bara að hafa það, við frestum þá bara henni og gistingu Rakelar hjá ömmunni (því þá tími ég nátla ekki að senda hana eitt né neitt, ha, ha).

En samt væri það ógó fúlt.

Kannski er Hrund bara þreytt. Hún neitar því að vera veik sem er gott. Bara taka þetta með hugarfarinu.

Við áttum allavega kósý kvöld í gær. Við Rakel fórum til ömmu eftir skóla og fengum blóm hjá henni svona eiginlega í tilefni afmælisins. Ég og afkvæmið brunuðum svo heim og hoppuðum í sturtu og fórum svo ásamt Sprundinn út að borða á Ítalíu. Ég og Hrund horfðumst í augu yfir kertaljósi milli þess sem við spiluðum minnisspil við Rakel og skárum ofan í hana. Þetta var mjög ljúft. Þegar heim var komið fór Rakel beint í ból, ég upp í sófa að horfa á Friends og Hrund að læra stærðfræði. Eftir klukkutíma var hún gráti næst og farin að reyta hár sitt yfir óskiljanlegum dæmum svo ég bauð henni faðm minn og huggun. Það sem eftir lifði kvölds gláptum við bara og fórum aldrei þessu vant að sofa á skikkanlegum tíma.

Best ég fái mér að borða og sendi Sprundinni góðar og læknandi hugsanir. Hasta luego.


Ammæliammæli

Ég og Sprundin mín eigum þriggja ára sambandsafmæli í dag. Við erum sko alveg með dagsetninguna á hreinu. Fyrst þegar við kynntumst vorum við mikið að spá í því hvernig fólk gat haldið upp á sambandsafmæli sín einhvern sérstakan dag ef það var ekki gift sem er annað mál. Við komumst að þeirri niðurstöðu að fólk hlyti bara að biðja hvort annað um að byrja með sér eins og maður gerði þegar maður var 12 ára. Svo 6. mars fyrir þremur árum, í bílnum hennar mömmu fyrir utan húsið hennar tengdó (ó, hvað við höfum náð langt, eigum okkur eigin bíl og húsnæði núna) gerðist eftirfarandi:

'Díana, uuuhh, viltu byrja með mér' spyr feimnasta Hrundin í heiminum með augun negld í gólfið.

'Já' svara ég, glöð svo glöð.

Svo litum við á hvor aðra og sprungum úr hlátri og fannst við ógesslega fyndnar.

Síðan þá höfum við verið saman og má með sanni segja að það hafi verið í blíðu og stríðu. Einmitt eins og það á að vera.

Í morgun, í bílnum okkar fyrir utan Iðnskólann (eða hvað sem hann heitir núna, skólinn hennar mömmu myndi Rakel segja), átti eftirfarandi samtal sér stað milli mín og spúsunnar:

'Bless ástin mín, sjáumst á eftir. Kannski verð ég með smá gjöf handa þér eða eitthvað' sagði ég við sætustu konuna.

'Ha, bíddu, mat þá eða?' sagði Sprundin óörugg.

'???? Mat? Nei, einhverja gjöf kannski af því að við eigum afmæli' hló ég.

'Bíddu, gjöf sem er ekki matur eða' spurði hún áfram (annaðhvort óskaplega svöng eða full af þrá eftir eldamennsku minni þar sem ég var ekki heima í gær til að elda ofan í stelpurnar mínar).

'Nei, ekki mat, eða sko, ég get alveg gefið þér að borða líka, en ég var að meina svona eitthvað í tilefni dagsins' sagði ég orðin heldur rugluð af öllum matnum.

'Bíddu, hvað þá, hvað ætlarðu að gefa mér' hélt hún áfram.

'Bless, Hrund, elska þig, bless núna'

Ég var nú bara að hugsa um að gefa henni blóm. En kannski vill hún heldur pulsu eða eitthvað.

Ef guð lofar og allt gengur vel, eins og amma Rósa segir, ætlum við Hrund að halda upp á tveggja ára trúlofun og þriggja ára samband á laugardaginn. Þótt það sé mömmuhelgi ætlum við að nýta tækifærið þar sem Hrund er ekki í skólanum (og trúið mér, ég er rosalega nísk á helgarnar mínar með Rakel þar sem hún er bara heima aðra hvora, vil helst ekki að hún gisti annar staðar en heima og vil alls ekki djamma en þegar tilefnið er sérstakt eins og núna þá er það allt í lagi). 

Ætlum fyrst með Rakel í íþróttaskólann en svo verður hún í góðu yfirlæti hjá tengdó þangað til á sunnudag. Við Sprundin ætlum með nesti og nýja skó í átt að Stokkseyri, ganga þar í kring og borða nesti, fara svo á Draugasafnið á Stokkseyri, út á borða á Fjöruborðinu og svo eigum við pantaða gistingu á gistiheimilinu Kvöldstjörnunni. Hljómar vel, ekki satt?

Annars er ég búin að vera svooooo dugleg að læra eftir kennsluhlé. Geri allt sem ég set mér fyrir, er búin að gera ógesslega flottan fyrirlestur fyrir spænskuna með glærushjói og fíneríi, skrifa 1182 orði í spænskuritgerðinni, skrifa þriggja blaðsíðna smásögu á spænsku, vinna verkefni í íslensku af miklum eldmóð, glósa og hlusta í tímum og ég veit ekki hvað.

Húrra yfir Díönu. Í dag leit ég í spegil og fannst ég ekki fíll og hvalur heldur kannski bara þrýstin og nokkuð sæt.

Ekki amalegt það. Ég kveð með sól í hjarta sem er nauðsynlegt í svona veðráttu.


Tíkin

'Maaaaaammí, hvar ertu' argaði barnið þegar hún var nýkomin heim frá pabba sínum á sunnudaginn.

'Ég er á klósettinu' kallaði ég þar sem ég sat á klósettinu.

'Hey, sérðu hvað ég er með' hvíslaði hún í gengum litla bilið milli lokaðar hurðar og dyrakarms'

'Nei (ég sá nátla ekki neitt enda hurðin lokuð), hvað ertu með' spurði ég vitandi það að það þýddi ekkert að láta barnið bíða eftir að ég skeindi mig.

'Sérru, ég er með tík!'

'Ertu með tík????' spurði ég um leið og ég skeindi mig, girti mig, þvoði mér og reif hurðina upp, allt á methraða.

'Sérru' sagði hún og rak eitthvað framan í nefið á mér.

'Jáááááá, ertu með TÍGRA, vin Bangsímons'

 

Hún hefur leikið sér mikið með 'tíkina' sem ég fann við tiltekt á föstudaginn. Setningar eins og 'komdu tík', ekki gera þetta tík' og fleiri glymja um íbúðina.

 Í gær kom ég henni fyrir á lærinu og klippti litlar táneglur í vaskinn. Hún hékk eins og lítill apaungi í mér og bað mig vinsamlega um að klippa ekki fast. Því miður veit ég ekki hvernig maður klippir laust en sem ég er að reyna finn ég litlar hendur fikra sig frá bakinu á mér og taka svo utan um vinstra brjóstið. 'Hey, ertu með mjólk í brjóstunum núna mammí?'

Dásamlegt.


Sumar

Mér finnst eins og sumarið sé rétt handan við hornið og vorið því liggja í lofti. Verð alltaf jafn hissa þegar mér verður litið út um gluggann og sé veturkonung flatmaga yfir öllu.

Það er greinilega líka vor í Sprundinni því við vorum afar samstíga þegar við misstum okkur í þrifum á föstudagskvöldið. Það var ólund í mér af ýmsum ástæðum á föstudaginn svo ég gaf lærdóm upp á bátinn og fór til ömmu sem er allra meina bót. Dröslaði mér svo heim rétt fyrir sjö þar sem Hrund beið sem og þrif á íbúð. Höfðum slugsað það í vikunni (þrífum alltaf á eins og hálfs vikna fresti) og ástandið orðið svo slæmt að varast þurfti að draga djúpt að sér andann svo rykhnoðrar fylgdu ekki innöndun og yllu köfnum auk þess sem best var að ganga um með lokuð augu svo skíturinn ylli ekki vanlíðan og ógleði.

Ok. Það var kannski ekki svona slæmt en einhverra hluta vegna vorum við báðar í stuði og enduðum á því að gera vorhreingerningu sem stóð í þrjá og hálfan tíma. Gerðum allt sem við erum vanar og það extra vel og svo allt hitt sem við nennum aldrei eins og fara í gegnum allar hirslur og endurraða og taka takkana af eldavélinni og þrífa þá. Íbúðin hefur líklega aldrei verið eins hrein. Þegar ég var búin að skúra yfir eldhúsgólfið var ég farin að titra að þreytu og næringarskorti. Við fengum okkur að borða og vorum komnar í rúmið á miðnætti, örmagna.

Á laugardaginn fór Hrund í skólann og ég fór til Eddu frænku að elda súpu fyrir níræðisafmælið hennar ömmu. Við Hrund fórum svo í bleika köku hjá Rósu frænku sem var að verða 24 og enduðum heima hjá tengdó þar sem við eyddum kvöldinu í eitthvað dútl.

Á sunnudag var svo veislan. Rakel kom snemma heim frá pabba sínum og við fórum allar þrjá í okkar bestu föt og brunuðum í veisluna. Hún heppnaðist ótrúlega vel í alla staði. Við frændsystkinin (sem höldum áðurnefnd frændsystkinakvöld) fengum Hrund til að taka myndir af okkur út í hrauni um daginn, völdum eina og tengdó lét svo prenta hana á striga í vinnunni. Gáfum ömmu myndina í afmælisgjöf og var hún að vonum ánægð.

Litla systir Hrundar lánaði okkur flakkarinn sinn svo gærkvöldinu eyddum við spúsan í að horfa á Friends.

Góðar stundir.

Annar hóstar Rakel eins og ég veit ekki hvað. Hef aldrei heyrt annað eins. Hún er því heima og er að leira, litla ljósið. Eigum tíma hjá lækni á eftir, aldrei að taka áhættur með blessuð börnin.

En ég var búin að lofa mér að vera dugleg að læra í dag. Verð að fara að byrja á þessari 4500 orða spænskuritgerð sem ég á að skila í byrjun apríl. Mierda. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband