Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Englar

Stelpurnar voru uppgefnar eftir daginn. Ég stakk því upp á því að þær færu saman upp í stóra rúm að knúsast og gætu svo sofnað saman. Þær liggja þarna báðar tandurhreinar, saddar og sælar og ég elska þær undur- og ofurheitt. Klukkan rétt hálf níu og tveir englar sofa í faðmlögum í fallegustu og hlýlegustu íbúðinni í götunni. Ég vaki yfir þeim og allt um kring.

Veðurguð/-ir ákallaður/-ir

Já, næst á dagskrá er að fórna einhverjum í von um að sólin brjótist fram úr skýjunum. Kannski ég fórni einum þegar dauðum kjúklingi.

Það er nefnilega svo að við stelpur hér á bæ stefnum á útilegu með Bjarndísi, Kjartani og Einari um næstu helgi. Veðurspáin er hins vegar glötuð. Það er ekki hægt að tjalda í rigningu. Allt getur hins vegar gerst enn þá svo við höldum okkar striki. Ég og Bjarndís erum búnar að gera innkaupalista og lista yfir allt annað sem þarf að taka með. Við Hrund erum búnar að fara í til tengdó og fá lánaða stóla og borð og lukt og prímus og ferðagasgrill og pottasett og svefnpoka og kælitösku. Bjarndís og co. taka rest af lífsnauðsynlegu dóti með. Svo er bara að muna eftir fötum. Og auðvitað börnunum og öllu því sem þeim fylgir. Kjartan og Hrund fá það hlutverk að bera dót, tjalda (þeim finnst hvort sem er hundleiðinlegt að tjalda með mér og Bjarndísi, halda því fram að við verðum pirraðar og séum fyrir) og grilla. Svo geta þau rumið karlmannlega inn á milli, þagað saman eða spáð í viði og áferð hans.

Ég er í alvöru ekki að gera grín að þeim. Þau eru bara svo fáránleg lík og  ótrúleg krúttleg og að sjálfsögðu elskuð. Við Bjarndís erum reyndar líka svo líkar (tveir hrútar af bestu gerð) að það hræðir Hrund held ég.

Við Bjarndís erum búnar að fara í Útilíf og horfa á allt útilegudótið sem okkur langar í en höfum ekki efni á. Það tekur tíma að sanka að sér. Á meðan er leitað á náðir tengdó sem vill allt fyrir okkur gera.

Helgin var góð, svo við komum aðeins að henni. Rakel hjá pabbanum og haldiði ekki að ég og Hrund höfum opnað bjór, og þá fleiri en tvo og fleiri en þrjá og kannski fleiri en fjóra en ekki fleiri en fimm. Við höfum ekki drukkið bjór að ráði síðan í afmælinu mínu og ekki farið út að skemmta okkur í allavega tvo og hálfan mánuð. Sátum fyrst hér heima og skemmtum hvor annarri, fórum svo til Tinnu og Ölbu að spjalla og svo bara tvær niður í bæ að dansa. Það var mjög skemmtilegt og við vorum eins og tveir ástfangnir úllar. Fullir úllar.

Tókum fyrri part laugardagsins rólega og en seinnipartinn komu Bjarndís og co. Rakel var eins og áður sagði fjarri góðu gamni en við hin grilluðum og spjölluðum og horfðum á Evróvisjón. Bjarndís varð svo eftir hjá okkur þegar strákarnir hennar fóru heim. Var reyndar hjá okkur til fjögur um nóttina. Við Bjarndís eigum það til að ná hátt í tólf tímum saman svo nú er okkur farið að líða eins og það sé hálfgerð skylda að ná að minnsta kosti tíu tímum í einni lotu.

Á sunnudaginn fór Hrundin að smíða og ég með mömmu í Kringluna. Langar svo í sundföt en þau koma víst bara í mínistærðum. Keypti mér hins vegar jakka og sandala fyrir hluta af afmælispeningnum og tel það mikið afrek.

Enn bólar ekkert á pósti frá Haraldi þar sem hann boðar mig í vinnu. Ég nýt daganna á meðan í stað þess að pirra mig. Rakel var heima í gær og við fórum með Bjarndísi á kaffihús og svo í Janus að kaupa ullarföt. Rakel passar enn þá í ullarbuxurnar sínar en við Dísa vorum svo heppnar að ná í boli á krakkana á útsölu. Ég gat meira að segja keypt gammosíur og bol á mig (í stærstu barnastrærðunum) og var gleðin svo mikil að við minntum á tvær gamlar kerlingar á útsölu.

Við Hrund og Rakel fórum svo til tengdó í gær (að ná í útilegudótið) og létum hana næra okkur. Stefnum á að fara til mömmu á miðvikudag og láta hana gera slíkt hið sama. Reyndar er matur ekki ástæðan heldur vilja ömmur sjá barnabörn sín, og öfugt, sem oftast og þar sem við verðum úti á landi um helgina verður að bæta það upp. Sem er hið besta og skemmtilegasta mál.

Jæja er búin að vera svo dugleg eitthvað í morgun að ég ætla að koma mér fyrir í sófanum og horfa á einhverja mynd.

Vonandi fer ég nú að byrja að vinna bráðum ... 


Einkannir ...

.... neeeeeei djók. Ætli margir hafi fengið hland fyrir hjartað. Ha, ha, ha.

Annars sagði mamma mér frá kennara sem kenndi henni í vetur og talaði um einkannir. Háskólakennarar ættu nú að kunna að fara með þetta orð finnst mér. Ég spurði mömmu hvort hann segði þá 'einkann' í eintölu. Hún sagðist halda ekki. Hann segir því einkunn en svo einkannir í fleirtölu. Það verður bara að gæta samræmis. Ef hann ætlar segja þetta vitlaust verður hann að segja einkann og einkannir. 

 Ég veit ekkert um neinar einkannir en hef hins vegar fengið tvær einkunnir í viðbót. Ég fékk 8 í spænskri málfræði II og er ánægð með það. Tók bara eitt annarpróf af þremur og var ekki alveg nógu dugleg síðustu vikurnar, birtuþunglyndið farið að hrjá mig á þeim tíma. Það voru fimm sem féllu og 18 sem stóðust. Við vorum tveir nemendur með átta og bara tveir sem fengu hærra en við svo bara helvíti flott hjá mér.

Það sem er enn þá betra er að ég fékk fo***** 8,5 í Íslensku máli að fornu II. JEEEEEESSSSSS. Ég sem rétt marði það að fá 7 í I og var þá samt einum yfir meðaleinkunn í námskeiðinu. Núna var algengasta einkunn 7,5. Af þeim sem tóku prófið voru tveir sem féllu en 35 náðu. Þar af voru sex með sömu einkunn og ég og aðeins þrír nemendur með hærra en það, tveir með níu og einn með 10 (whot?).

Halelúja. Montkaflinn búinn.

Núna á ég bara eftir að fá eina einkunn. Kvíði henni frekar en hitt. Hef ekki miklar áhuggjur af að ég falli en samt. Þetta er prófið sem ég náði ekki að klára að læra fyrir, gat ekki allt á prófinu og var að sofna og þurfti að fara fram og skvetta framan í mig vatni. Menning, þjóðlíf og saga Rómönsku-Ameríku.

Föstudagur, konan á leiðinni heim, ég fæ enn þá góðar einkunnir. Best ég brosi pínulítið. 


Lukka

Við komumst nú aldrei í Grasagarðinn á mánudaginn þar sem það var farið að dropa þegar við komum út og þar sem skjótt skipast veður í lofti hér á landi og því allt eins von á úrhelli ákváðum við að Jói Fel væri betri kostur. Rakel hjólaði með elegans niður í Holtagarða. Fór samviskusamlega af hjólinu og dröslaði því yfir litlar götur og hélt í Bjarndísarhönd yfir Sæbrautarbrjálæðið og leyfði mér náðarsamlegast að sjá um hjólið.

Barnið er samt svo fyndið á hjólinu. Hún er að venjast hjálpardekkjunum og lafir ekki lengur öll á annarri hliðinni. Hins vegar gleymir hún stundum hvernig á að bremsa og tekur þríhjólsstælinn á þetta: lyftir fótunum af pedulunum og ætlar að draga þær eftir jörðinni til að stoppa sig. Það er hins vegar hægara sagt en gert þar sem hún nær ekki svo glatt niður í götuna þegar hún situr á hnakknum. 'Bremsaðu Rakel, bremsaðu, þú verður að bremsa' er setning sem ég hef sagt oft undanfarna daga. Oftar en ekki kastar hún fótunum upp í loftið og horfir svo upp í loftið líka. Ég hef ekki hugmynd um af hverju hún starir upp í himininn þegar hún þykist vera að bremsa. Kannski er hún að ákalla guð. Inn á milli æfum við okkur og hún bremsar með stæl. Þegar á reynir panikerar hún og stoppar því ekkki fyrr en ég rykki í hjólið eða það, og hún með því, lendir á einhverju, til dæmis vegg. Hún hefur nú sloppið ómeidd hingað til og ég er bara ótrúlega stolt af tröllabarninu mínu.

Við komumst til Jóa og fengum okkur brauð og safa. Rakel borðaði sitt brauð, gleypti það í sig væri nær lagi. 'Ére búin, takk fyrir mig, södd, má ég fara' bað hún og fékk leyfi mitt til að fara út og kíkja á hjólið sem stóð við innganginn. Næsta klukkutímann var hún úti og klappaði hjólinu og strauk því, talaði við það, safnaði þurrkuðum ánamöðkum og mosa eða guð má vita hverju í körfuna framan á því og mátaði sig á hnakknum. Hún kom inn og þáði kanilsnúð en borðaði hann auðvitað úti. Sem betur fór var ekki rigning því hún hefði aldrei tekið það í mál að vera inni. Hún hafði ekki einu sinni tíma til að drekka kókómjólkina sína og þá er mikið sagt því rauðhaus hefur alltaf tíma til að þamba.

Við Bjarndís höfðum það því náðugt og spjölluðum þangaði til tími var kominn til að hjóla heim aftur.

Rakel lék sér á meðan ég eldaði bestu súpu í heimi (hógværðin alveg að drepa mig) og gerði eplaköku með aðstoð Bjarndísar. Einar Ernir sonur hennar, ári yngri en Rakel, kom svo í heimsókn eftir leikskólann og krílinn smullu strax saman. Við Bjarndís sjáum fyrir okkur hjónaband.

Þegar Hrund kom heim úr vinnunni var orðið aðeins of glatt á hjalla inni í barnaherbergi svo hún var rekin út að leika með börnin. Hún nýtti tímann til að bera á svalahúsgögnin okkar. Eða ég hélt að hún ætlaði að gera það. Núna eru þau í 50 pörtum upp á verkstæði hjá henni því hún ætlar að pússa þau og ég veit ekki hvað áður en hún bæsar. Ekkert hálfkák.

Við gæddum okkur því næst á súpu og enduðu börnin saman í baði áður en pabbi Einars kom að sækja hann. Þau voru svoooo sææææt. Tveir litlir, næpuhvítir, saklausir, englakroppar að busla. Ég og Bjarndís héngum yfir þeim og dáðumst að þeim og vorum alveg að kafna úr ást og stolti.

Kvöldinu eyddum við Hrund og Bjarndís í að spila og borða eplaköku og ís. Næsti hittingur á að vera á laugardaginn. Við Hrund ætlum svona einu sinni að horfa á Evróvisjon, grilla með Bjarndísi og skemmta okkur.

Í gær fór ég á fund með Jóhannesi Gísla, konu frá Orðabókinni og svo öðrum umsækjanda. Það kom nú í ljós að ég og hinn umsækjandinn (kona) höfðum báðar augastað á verkefni Jóhannesar og Haralds sem felst í að lesa bréf frá 19. öld og slá þau stafrétt inn. Hljómar kannski leiðinlega en þessi bréf eru algjör gullnáma og svo langaði mig líka að prófa eitthvað öðruvísi en ég var að gera í fyrra. Það endaði með því að Jóhannes kastaði upp á hver fengi það verkefni (aumingja konan á Orðabókinni með verkefni sem hvorug hafði sérstakan áhuga á). Ég leyfði konunni að velja og valdi hún skjaldarmerkið. Ég hef aldrei kastað upp á neitt í lífi mínu og var að vonum spennt. Upp komu FISKARNIR. Ég fékk þá vinnu sem mig langaði í. Jeij!

Það væri reyndar fínt að fá að byrja í henni bráðum. Fór á fund með Haraldi í dag sem er ekki í frásögur færandi. Hann er hins vegar ekki alveg tilbúinn, ætlar að hafa samband í næstu viku og á von á því að ég geti byrjað að vinna þá. Vona að ég geti byrjað á mánudaginn...

Fór eftir fundinn í hádegismat niðri í bæ með mömmunni. Fengum okkur ís í eftirrétt og svo las ég blöðin, drakk kaffi og truflaði mömmu áður en ég tók strætó heim og náði í krílið mitt.

Þreif hér nær allt hátt og lágt, Hrund ætlar að klára að renna yfir gólfinn á morgun. Ég sagði að hún mætti alveg fara snemma til mömmu sinnar að smíða, ég skyldi sjá um Rakel. Það er ekki nóg að vinna við þetta, nauðsynlegt að smíða líka að minnsta kosti þrjú kvöld í viku Tounge

Skil það svo sem. Ég vil helst elda á hverjum degi. Ekki alltaf samt. Í gær borðuðum við pizzu. Það var reyndar ótrúlega krúttlegt þar sem klukkan var orðin frekar margt og við ákváðum að hafa það kósý og borða inn í stofu. Rakel fékk litla borðið sitt og stólinn inní stofu og svo horfðum við allar á Emil í Kattholti. Rakel var mjög niðursokkin í myndina og átti í mesta basli með að borða (minnist þess reyndar ekki að hún hafi nokkur tíma borðað fyrir framan sjónvarp áður svo það er kannski ekki skrítið). Hún hitti ekki upp í sig, gleymdi að borða pizzuna og borðaði bara kartöflubáta með tómatsósu sem var á endanum komin út á kinn og upp á enni, framan á alla blússuna hennar, út af disknum, á borðið og á Paddingtondiskamottuna. Hún er bara sætust.

Við skelltum henni í bað og horfðum svo á undankeppnina í Evróvisjon (til þess að vera inni í þessu á laugardaginn, kannski skemmtilegra þannig). Rakel sá nokkur lög, þar á meðal steikta lagið frá Bosníu-Hers. Hún kom akkúrat inn í stofu þegar það lag var í spilun og sagði kát: Hey, sérru álfinn!' og átti við karlkynssöngvara lagsins. Ég og Hrund krumpuðumst af hlátri.

Jæja, ætla að halda áfram að horfa á Friends og njóta þess að vera í fríi. 

 


Frí

Ég er enn þá í fríi og það er unaðslegt. Sérstaklega eftir að allt komst á hreint með vinnuna. Er að fara á fund á morgun og byrja líklega á fimmtudaginn.

Laugardagurinn var notalegur. Skemmtum okkur allar konunglega á Maxímús. Rakel sat kyrr í fanginu á mér allan tímann og var alveg heilluð. Mér finnst þetta frábært framlag og mætti gera þetta oftar. Ég myndi fara með Rakel á alla svona barnatónleika sem í boði væru. Mér, og Hrund reyndar líka, finnst tónlistaruppeldi svo mikilvægt. Mín 12 ár í píanói hafa hjálpað mér á hundrað vegu í lífinu fyrir utan hvað það er gaman að kunna á hljóðfæri. Ein helsta ástæðan fyrir því að við Hrund erum að mennta okkur er til að geta boðið barninu okkar upp á tónlistarnám og íþróttaiðkun. Svo er auðvitað nauðsynlegt að læra og víkka sjóndeildarhringinn.

Það er aldrei að vita nema Rakel verði lítill píanósnillingur. Eða gítarsnillingur. Eða söngsnillingur. Eða spunasnillingur. Eða fótboltasnillingur. Auðvitað þarf hún ekkert að vera snillingur, ég meina það ekki þannig en krílið mitt elskar að glamra á gítarinn hennar mömmu sinnar og láta okkur syngja með, spilar alltaf á píanóið heima hjá mömmu minni (elsku fína píanóið 'mitt' sem var keypt þegar égnvar átta ára svo ég gæti spilað) og syngur frumsamin lög í takt við glamrið, hún sparkar boltum hér um allt hús og heldur fyrir okkur marga spuna á hverjum degi. Það síðastnefnda finnst mér eiginlega skemmtilegast. Hún sönglar bókstaflega allan daginn og semur textana um leið, tekur jafn vel nokkur dansspor. Það er guðdómlegt.

Við fengum okkur kakó og kaffi og brauð og kökur á kaffihúsinu í Þjóðminjasafninu og skoðuðum ljósmyndasýninguna á neðri hæðinni áður en við héldum heim. Svo bara borðuðum við góðan mat og ávaxtasalat á eftir og höfðum það gott.

Í gær dúlluðum við okkur á náttfötunum fyrir hádegi og gæddum okkur svo á nýrri útgáfu minni af Costa Rica pönnsum sem eru að sjálfsögðu með speltu hveiti og agave sýrópi. Hrund fór svo til mömmu sinnar að smíða og tók Rakel með sér. Á meðan Hrund smíðaði dúkkuhúsgögn og Rakel lék sér út í garði fór ég með mömmu í Ikea að útrétta. Stelpurnar komu svo til mömmu seinni partinn og vorum við þar í mat og kósýheitum fram að háttatíma.

Rakelin svaf til hálf tíu í morgun. Kannski ekki skrítið þar sem hún vaknaði rétt um sex í gærmorgun, mér til mikillar mæðu. Hún pissaði og ég skóflaði henni aftur upp í rúmið sitt og sagði henni að það væri engan veginn kominn morgun. Rúmlega sjö heyrði ég enn í henni bröltið, játaði mig sigraði og fór á fætur. Þar sem hún er almennt hin mesta svefnpurka var hún að vonum dauðþreytt í gær.

Ég leyfði rauðhaus að ráða hvort hún færi í leikskólann eða væri í fríi með mér. Hún er algjör leikskólakerling en valdi það þó í þetta skiptið að vera heima. Við fengum okkur morgunmat og hún horfði á Bangsímon á meðan ég setti saman rúmfatageymslu. Var að verða gjörsamlega klikkuð og hætt að finnast hún svona sniðug eins og í búðinni. Ég kom henni saman á þrjóskunni einni saman og er ansi stolt af mér. Yfirleitt tekst mér að skrúfa allt vitlaust saman og skera mig á skrúfu áður en ég treð þessum Ikeapúsluspilum saman .Í þetta skiptið hélt ég mig við að blóta öllu og öllum í sand og ösku og vona að Bangsímon í hungangsleit hafi haldið athygli barnsins frá því sjónarspili. 

Núna er Rakel komin í pils og mussu þar sem við erum búnar að ákveða að það muni ekki rigna. Bjarndís er á leiðinni og ætlum við að leyfa Rakel að hjóla niður í Grasagarð á nýja hjólinu sínu og fá okkur hádegismat þar. Svo er það grænmetissúpa og tilheyrandi í kvöld.

Ó, ég gleymdi. Mamma gaf mér þriggja hnífa sett í gær og einnig svona hníf með tveimur sveigðum brúnum sem er tilvalinn til að saxa krydd og annað mjög smátt. Ég borgaði henni tvær krónur fyrir herlegheitin eins og maður á að gera (ég meina að borga fyrir hnífa svo þeir færi þér ekki ólukku) og núna þarf ég bara að fara aftur í Ikea og kaupa stálplötu til að festa á vegginn svo ég geti fest hnífana þar á því ekki komast þeir í mitt aumingjalega hnífastatíf.

Mig klæjar í fingurna eftir að byrja að elda súpuna og saxa og skera og malla og krydda og smakka ... 


Uppfærsla

Það var orðið, takk fyrir þýðinguna tengdó. Eins gott að ég þurfti ekki að hugsa eða ná mér í orðabók.

Bjarndís vinkona ruglaðist á dögum og var að vinna í gær svo matarboðið bíður betri tíma, stefnum á mánudag í staðinn. Hún hefur pantað rótsterka grænmetissúpu hjá mér og hef ég hugsað mér að verða við þeirri bón hennar. Rakel og Einar, strákurinn hennar, fá þá eigin súpu þar sem chillíinu verður sleppt. Svo ætla ég að hafa eplaköku úr speltdegi og hrásykri og lífrænum eplum í eftirrétt. Það er sjúklega gott að nota spelt hveiti og hrásykur í svona köku. Prófaði það í fyrsta skipti um daginn heima hjá mömmu og það var borðað í þögn. Kannski stunið af nautn öðru hverju. Meira að segja Rakel bað um meira en það gerir hún nær aldrei, hún lætur sér alltaf mjög lítinn skammt af öllu sætu duga. 

Ég naut þess að vera í fríi í gær. Kona í vinnu og barn á leikskóla. Vaskaði upp og bjó um rúmið en lét annars heimilisstörf vera. Eftir vinnu hjá sér fór Hrund fór og náði í miðana á sinfoníutónleikana sem við erum að fara á á eftir og ég hófst handa við eldamennsku með Rakelina sönglandi inn í herbergi. Syngjandi barn er hamingjusamt barn og mikið óskaplega er hún dóttir mín alltaf kát og glöð.

Eins og oft hefur komið fram veit ég fátt skemmtilegra en að elda. Eini matreiðsluþátturinn sem ég hef gaman af er þátturinn hennar Nigellu. Hún eldar af svo mikilli ástríðu, hún getur verið eldfljót og hún lítur út fyrir að borða matinn sinn, ekki bara elda hann handa öðrum.

Í gær upplifði ég mig eins og Nigellu þar sem ég náði á tæpum klukkutíma að steikja kjúkling og skella honum í olíu, kryddi og sítrónu inn í ofn, sjóða villihrísgrjón, vaska allt upp eftir eldamennskuna, búa til salat, leggja á borð, sjóða rababara, þeyta egg og hrásykur, skella þessu í form og inn í ofn, setja matinn á borðið og kalla svo á stelpurnar mínar í mat. I am a superwoman. Hrund er alltaf jafn gáttuð á mér.

Kannski ég sé ofvirk.

Við borðuðum gómsætan sítrónukjúkling, salat og grjón, fórum allar í sturtu (Erum með svo fínt system, önnur byrjar í sturtu og tekur barnið með sér, hin tekur skrúbbað barnið úr sturtunni, þerrar það, greiðir því, makar á það kókosolíu og treður í nærskyrtu. Sú fyrri er þá búin í sturtu og leyfir þeirri seinna að komast að.) og fengum okkur svo rababarapæ, súkkulaðiís og fersk jarðarber. Namminamm.

Ég leyfði þreytta verkamanninum að sofa aðeins í morgun og dundaði mér við að búa til appelsínusafa úr girnilegu, lífrænu appelsínunum mínum. Við Rakel borðuðum morgunmat, hún horfði á sjónvarpið og ég þvoði eina vél og dundaði mér í tölvunni. Við knúsuðum svo Hrund þar til hún neyddist til að vakna.

Hún skrapp til mömmu með hina umræddu kommóðu sem hún smíðaði en Elísabet Rós ætlar að geyma hana inni í herberginu sínu þar til við hjónakyrnur erum komnar í stærra húsnæði. Rakel leikur ljón inni í herberginu sínu með tilheyrandi hljóðum. Við vorum svo að hugsa um að fá okkur hádegismat á Á næstu grösum og svo er það Maxímús Músíkús og sinfoníuhljómsveitin klukkan tvö.

Svo er ég auðvitað farin að hlakka til að elda á eftir. Ætla að hafa safaríkar svínalundir með beikoni, lauk, sveppum og döðlum. Og baka þetta allt í ofni í einhverri góðri sósu. Ég nota nú aldrei rjóma í matargerð en hugsa að ég búi til eitthvað úr sýrðum rjóma, kotasælu og kannski smá rjómaosti eða kaffirjóma. Hugsa að ég hafi svo ávexti í eftirrétt.

Ég vil alltaf eiga full af ávöxtum. Núna eru þrjár ávaxtaskálar á borðinu: fjögur lífræn epli, tvö mangó, fullt af bönunum, jarðarber, vínber, græn epli og svo ein lárpera. Í morgun voru þar líka átta lífrænar appelsínur. Rakel kom í gær á meðan ég var að elda og tíndi vínber af grein og stakk í munn. Svona vil ég einmitt hafa það, vil að hún venjist því að borða fullt af ávöxtum og komist auðveldlega í þá sjálf. Þess vegna er tilvalið að þvo vínber og hafa þau í skál þar sem hún nær í þau. Og best ef ávextirnir eru lífrænir svo hún geti borðað t.d. epli með hýðinu.

Auðvitað er nauðsynlegt að eiga líka alltaf fullt af grænmet. Ég þekki fá börn sem þarf að biðja um klára ekki allt salatið sitt fyrst heldur borða líka eitthvað af matnum. Svoleiðis er hún fullkomna dóttir mín, raðar í sig öllu grænmeti af bestu lyst.

Æ, mig langar bara í svona risa búr eins og Nigella á. 'Einn daginn' sagði Sprundin við mig í gær þegar ég deildi þessum draum með henni. Það held ég nú, búr og bókaherbergi fyrir mig, bílskúr fyrir Hrund og stór garður fyrir okkur allar.

Annar er allt að skýrast með vinnuna. Sá sem átti að boða mig á fund var bara að drukkna í vinnu go búinn að gleyma þessu. Ég sendi því Jóhannesi Gísla sem ég vann fyrir síðasta sumar póst og hann fór strax að vinna í þessu. Og þetta var nú meira ruglið. Fyrst kom í ljós að í staðinn fyrir að við værum þrjár um þrjú verkefni þá vorum við þrjár um tvö verkefni. Svo kom í ljós að ein stelpnanna var búin að ráða sig í aðra vinnu svo það endar kannski með því að við verðum tvær með of mikla vinnu. Ég fæ allavega eins mikla vinnu og ég vil en hef hugsað mér að taka samtals fjögurra vikna frí, eitthvað með Sprundinni (ef það er mögulegt, kannski allavega langar helgar og ein vika á Malarrifi) og eitthvað bara með rauðhaus. Svo verð ég að öllum líkindum að vinna aftur fyrir Jóhannes Gísla, í þetta skipti við að lesa gömul bréf og slá þau inn og er ég bara mjög sátt við það. Jóhannes er voða fínn karl og fínt að fá að prófa annað verkefni en í fyrra.

Jæja, best ég fari að klæða mig og Rakel. Hún er orðin eitthvað eirðarlaus, búin að koma mörgum sinnum inn í stofu og gefa mér að 'borða' og láta mig klappa hestinum sínum.

Góða helgi. 


Hvernig ...

... myndi maður þýða updeit yfir á íslensku?

Höfum haft það svo gott í vikunni eins og kom fram í síðustu færslu. Það er svo sérstakt að vera kominn á fætur um átta og út stuttu seinna. Náðum að útrétta endalaust mikið í gær: fórum í Húsasmiðjuna og keyptum tveggja hæða verkfæratösku, í Markið og keyptum geðveikt tvíhjól handa Rakelitu (tröllabarni, hjólið er fyrir 5-7 ára en með hjálpardekkjum og hún er ótrúlega dugleg að hjóla), fórum á Sorpu með dót, í Hagkaup að borða pulsu, í Spron að tæma baukinn hennar Rakelar (og fékk hún lítið tjald í glaðning), í Fífu að kaupa sólhatt handa rauðhaus og svo í Krónuna að versla. Fórum heim og náðum í hjólin okkar Hrundar upp á háaloft, fórum í hjólatúr með Rakel á nýja hjólinu (hún hjólað út í sjoppu til að ná sér í mynd með múmínálfunum) og vorum komanr út í garð að tjalda tjaldinu um þrjú. Geri aðrir betur.

Eftir að hafa bakað okkur í sólinni, drukkið saft og borðað kanelsnúða fórum við og skoluðum af okkur rykið og fórum svo í mat til Kristínar vinkonu. Borðuðum indverskan mat og Rakel lék við Júníönu,tæplega árs gamla dóttur Kristínar.

Við Rakel keyrðum Hrund í vinnuna í morgun og vorum mættar í nálastungur klukkan hálf níu. Rakel litaði á meðan Linda styrkti það sem styrkja þurfti.  Þetta er mesta snilld sem ég hef kynnst á ævinni. Konan þarf ekki annað en að taka púlsinn og finnur einhvern veginn eða les úr honum hvað þarf að laga og stilla. Og þetta svínvirkar. Það var svo allt á fullu í líkamanum á eftir og samkvæmt ráði Lindu nálastungukonu fór ég heim með krílið að taka því rólega.

Hún horði á fyrrnefnda múmínálfaspólu og ég las. Við borðuðum hádegismat og sleiktum ís, fórum í Bónus og keyptum það sem gleymdist í Krónunni og enduðum út í garði hjá ömmu Rósu. Höfðum það gott þar í nokkra tíma og fórum svo inn og gæddum okkur á kexi og mjólk. Robbi koma að sækja stelpuna sína upp úr fjögur og ég fór að sækja Hrund í vinnuna.

Við Sprundin ákváðum að ná okkur í pizzu sem var gott þar sem það var útsölumarkaður Next í húsinu við hliðina á Dominos. Ég keypti kjól á mig og á Rakel og auk þess pils og peysu á rauðhaus á samtals 5000 krónur. Það var 40% afsláttur af öllu og þú borgar bara fyrir tvær af fjórum flíkum. Venjulega hefði þetta átt að kosta rúmar 15000 krónur. Kostakaup.

Það hefur verið lítið um svör þegar kemur að sumavinnunni. Fékk svar í tölvupósti áðan: á að tala við Jóhannes Gísla. Af hverju veit ég ekki en er búin að senda honum póst. Hef hugsað mér að byrja á mánudaginn og mæti bara þá.

Fékk 7,5 í  Íslenskri hljóðfræði og hljóðkerfisfræði. Ég er svo einkunnagráðug að ég vildi nátla fá hærra en meðaleinkunnin var víst 6,8 svo ég stóð mig ágætlega. Auk þess gerði ég sömu mistök og margir: svaraði a og b lið þriðju spurningar en átti að velja annan. Sökum þessa náði ég ekki að klára prófið. Ætti því í rauninni að vera nokkuð sátt.

Eigum von á Bjarndísi vinkonu í mat á morgun. Verð víst að fara aftur í Bónus og versla. En það er allt í lagi. Alltaf gaman að elda.

Held að Hrund sé að verða geðveik á pikkinu á lyklaborðið, hún er að reyna að horfa á sjónvarpið. Best ég hætti og horfi sjálf á þáttinn sem ég hef verið að bíða eftir.

 


AAAhhhh

Þá er maður búinn í prófum. Fór í það síðasta á laugardaginn og eyddi svo deginum með Símoni og Hrund og Rakel (fengum hana aðeins lánaða). Við fórum á geðveika bílsýningu og 'fikade' á eftir, eins og maður segir á sænsku (það er að fá sér eitthvað í drekkutímanum). Við Símon spjölluðum og spjölluðum og það var yndislega gaman.

Kennararnir buðu svo mér og mömmu út að borða um kvöldið í þakklætisskydi fyrir alla aðstoðina sem við höfum veitt þeim við undirbúninginn. Hrund fékk að fljóta með og varð úr þessu hin besta skemmtun.

Við Hrund eyddum restinni af kvöldinu í að gera ekki neitt. Ósköp var það ljúft. Opnuðum bjór, ég hékk í tölvunni og hún horfði á sjónvarpið. Það eru ár og dagar síðan ég hef gert 'ekki neitt'.

Ég fór til mömmu á sunnudaginn og eyddi honum öllum í að setja myndir inn á flakkarann og inn á Barnaland. Hrund var að smíða en kom svo til mömmu í mat sem og Rakel sem var hjá pabba sínum um helgina. 

Í gær átti Sprundin afmæli og fékk að sofa út. Við Rakel fórum út og keyptum blóm og fórum í bakarí. Vöktum Hrund svo með afmælissöng og köku. Við höfðum það gott við morgunverðarborðið og Hrund opnaði gjöfina frá okkur, fékk föt sem hana langaði í.

Við fórum svo og náðum í pabba hennar Hrundar og fórum og skoðuðum Kerið. Rakel var eins og lítil fjallageit og prílaði um allt. Kastaði líka steinum af öllu afli í vatnið og með svo miklum tilþrifum að maður átti fótum sínum fjör að launa og náði krílið að grýta mömmu sína oftar en einu sinni. Við héldum svo í Þrastarlund og borðuðum nesti og lékum okkur í gróðrinum í kring. Það var sól og blíða á Selfossi og eftir að hafa borðað héldum við þangað og út í garð til tengdapabba. Eftir útiveru brunuðum við heim til tengdmömmu, fórum í pottinn og borðuðum dýrindis afmælismat. Takk fyrir það tengdamamma og bæ ðe vei þá skrifaði ég rosa langa athugasemd við færsluna þína frá 12 maí, endilega kíkja á það!

Við Hrund erum ekkert byrjaðar að vinna (og enginn að drífa sig neitt að hafa samband við mig út af vinnunni) sem hentar vel þar sem það er starfsdagur á leikskólanum hennar Rakelar bæði í dag og á morgun. Við höfðum það rosa gott í dag, fengum okkur hádegismat á kaffihúsi, fórum á listasýningu í Gerðubergi og enduðum í keilu. Núna er Rakel að horfa á Múmínálfana og við Hrund erum að búa okkur undir að fara að grilla.

Eitthvað ætlum við að dúlla okkur á morgun, Hrund byrjar að vinna á fimmtudaginn en það er aldrei að vita nema við Rakel höldum áfram að dúlla okkur saman út vikuna.

Ég spurði Rakel í gær hvort henni væri ekki saman þótt ég færi til Nicaragua og væri svolítið lengi, í nokkra mánuði, hún myndi vera hjá mömmu og pabba á meðan. Henni leist ekkert á það og hafði engan húmor fyrir einhverju svoleiðis tali.

Ekki eins og ég sé að fara neitt. Mig bara dreymir um að fara og vonandi rætist sá draumur einn daginn.

Ætla að fara að grillstússast eitthvað. 


Myndir!

Var að setja fullt af myndum inn á barnalandssíðuna hennar Rakelar!!!

Leiðrétting

Í færslunni hér á undan hefði ég frekar átt að tala um tæknisæðingu og tæknifrjóvgun en það síðarnefnda felur í sér bæði glasfrjóvgun og smásjárfrjóvgun.

Vildi bara koma því til skila. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband