7.3.2008 | 09:09
Hmm
Ég var alveg búin að sjá þennan morgun fyrir mér: Ætlaði að vakna útsofin korter fyrir sjö, taka mig til með stelpunum mínum, við Hrund færum með Rakel í leikskólann, ég keyrði Hrund í skólann og færi svo sjálf í skólann þar sem ég tæki blogghring, færi inn á mbl.is og lærði jafnvel eitthvað áður en ég færi í tíma klukkan tíu.
Hann var ekki alveg svona.
Hrökk upp tíu mínútur fyrir sjö og skildi ekki hvað hafði vakið mig (datt vekjaraklukkan ekki í hug), gerði rifu á augn svo ég sæi klukkuna í loftinu og lokaði augunum svo strax aftur. Hafð séð að klukkan var bara sex eitthvað svo ég hugsaði með mér: Jess ég má sofa lengur, hún er bara sex eitthvað, alltof snemmt til að vakna. Fattði svo rétt eftir að ég var búin að loka augunum aftur að ég átti að vakna klukkan sex eitthvað. Oj.
Hrund skreiddist á fætur hálftíma seinna og var eins og draugur upp úr öðrum draug. Kom sér í föt og drakk kaffi en þurfti sífellt að setjast niður inn á milli sökum orkuleysis og óþæginda í maga. Á endanum komst hún ekkert út úr húsi, ætlaði að leggja sig fram að hádegi og sjá hvort hún kæmist í skólann þá.
Ég fór því með Rakel á leikskólann og hálf asnalegt að vera svona snemma á ferðinn þegar ég átti ekki að mæta fyrr en eftir tvo tíma (hélt nátla að ég þyrfti að skutla Hrund).
Ákvað að nýta tímann og taka bensín. Fyrst þurfti ég að bíða mjög lengi eftir að komast að og svo var eitthvað sambandsleysi í gangi svo það var ekkert hægt að taka helvítis bensín. Niðursnjóuð keyrði ég þá í skólann.
Núna sit ég hér ein í tölvuverinu í Árnagarði og mér finnst eiginlega ekki taka því að byrja að læra. Ætlaði að skíra bloggið 'Velkomin ... í ljóðahorn Díönu Rósar' en andinn yfirgaf mig á leiðinni hingað. Núna hef ég mestar áhyggjur af því að Hrund verði lasin á morgun og við komust ekki í okkar rómó ferð. Það verður þá bara að hafa það, við frestum þá bara henni og gistingu Rakelar hjá ömmunni (því þá tími ég nátla ekki að senda hana eitt né neitt, ha, ha).
En samt væri það ógó fúlt.
Kannski er Hrund bara þreytt. Hún neitar því að vera veik sem er gott. Bara taka þetta með hugarfarinu.
Við áttum allavega kósý kvöld í gær. Við Rakel fórum til ömmu eftir skóla og fengum blóm hjá henni svona eiginlega í tilefni afmælisins. Ég og afkvæmið brunuðum svo heim og hoppuðum í sturtu og fórum svo ásamt Sprundinn út að borða á Ítalíu. Ég og Hrund horfðumst í augu yfir kertaljósi milli þess sem við spiluðum minnisspil við Rakel og skárum ofan í hana. Þetta var mjög ljúft. Þegar heim var komið fór Rakel beint í ból, ég upp í sófa að horfa á Friends og Hrund að læra stærðfræði. Eftir klukkutíma var hún gráti næst og farin að reyta hár sitt yfir óskiljanlegum dæmum svo ég bauð henni faðm minn og huggun. Það sem eftir lifði kvölds gláptum við bara og fórum aldrei þessu vant að sofa á skikkanlegum tíma.
Best ég fái mér að borða og sendi Sprundinni góðar og læknandi hugsanir. Hasta luego.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2008 | 10:31
Ammæliammæli
Ég og Sprundin mín eigum þriggja ára sambandsafmæli í dag. Við erum sko alveg með dagsetninguna á hreinu. Fyrst þegar við kynntumst vorum við mikið að spá í því hvernig fólk gat haldið upp á sambandsafmæli sín einhvern sérstakan dag ef það var ekki gift sem er annað mál. Við komumst að þeirri niðurstöðu að fólk hlyti bara að biðja hvort annað um að byrja með sér eins og maður gerði þegar maður var 12 ára. Svo 6. mars fyrir þremur árum, í bílnum hennar mömmu fyrir utan húsið hennar tengdó (ó, hvað við höfum náð langt, eigum okkur eigin bíl og húsnæði núna) gerðist eftirfarandi:
'Díana, uuuhh, viltu byrja með mér' spyr feimnasta Hrundin í heiminum með augun negld í gólfið.
'Já' svara ég, glöð svo glöð.
Svo litum við á hvor aðra og sprungum úr hlátri og fannst við ógesslega fyndnar.
Síðan þá höfum við verið saman og má með sanni segja að það hafi verið í blíðu og stríðu. Einmitt eins og það á að vera.
Í morgun, í bílnum okkar fyrir utan Iðnskólann (eða hvað sem hann heitir núna, skólinn hennar mömmu myndi Rakel segja), átti eftirfarandi samtal sér stað milli mín og spúsunnar:
'Bless ástin mín, sjáumst á eftir. Kannski verð ég með smá gjöf handa þér eða eitthvað' sagði ég við sætustu konuna.
'Ha, bíddu, mat þá eða?' sagði Sprundin óörugg.
'???? Mat? Nei, einhverja gjöf kannski af því að við eigum afmæli' hló ég.
'Bíddu, gjöf sem er ekki matur eða' spurði hún áfram (annaðhvort óskaplega svöng eða full af þrá eftir eldamennsku minni þar sem ég var ekki heima í gær til að elda ofan í stelpurnar mínar).
'Nei, ekki mat, eða sko, ég get alveg gefið þér að borða líka, en ég var að meina svona eitthvað í tilefni dagsins' sagði ég orðin heldur rugluð af öllum matnum.
'Bíddu, hvað þá, hvað ætlarðu að gefa mér' hélt hún áfram.
'Bless, Hrund, elska þig, bless núna'
Ég var nú bara að hugsa um að gefa henni blóm. En kannski vill hún heldur pulsu eða eitthvað.
Ef guð lofar og allt gengur vel, eins og amma Rósa segir, ætlum við Hrund að halda upp á tveggja ára trúlofun og þriggja ára samband á laugardaginn. Þótt það sé mömmuhelgi ætlum við að nýta tækifærið þar sem Hrund er ekki í skólanum (og trúið mér, ég er rosalega nísk á helgarnar mínar með Rakel þar sem hún er bara heima aðra hvora, vil helst ekki að hún gisti annar staðar en heima og vil alls ekki djamma en þegar tilefnið er sérstakt eins og núna þá er það allt í lagi).
Ætlum fyrst með Rakel í íþróttaskólann en svo verður hún í góðu yfirlæti hjá tengdó þangað til á sunnudag. Við Sprundin ætlum með nesti og nýja skó í átt að Stokkseyri, ganga þar í kring og borða nesti, fara svo á Draugasafnið á Stokkseyri, út á borða á Fjöruborðinu og svo eigum við pantaða gistingu á gistiheimilinu Kvöldstjörnunni. Hljómar vel, ekki satt?
Annars er ég búin að vera svooooo dugleg að læra eftir kennsluhlé. Geri allt sem ég set mér fyrir, er búin að gera ógesslega flottan fyrirlestur fyrir spænskuna með glærushjói og fíneríi, skrifa 1182 orði í spænskuritgerðinni, skrifa þriggja blaðsíðna smásögu á spænsku, vinna verkefni í íslensku af miklum eldmóð, glósa og hlusta í tímum og ég veit ekki hvað.
Húrra yfir Díönu. Í dag leit ég í spegil og fannst ég ekki fíll og hvalur heldur kannski bara þrýstin og nokkuð sæt.
Ekki amalegt það. Ég kveð með sól í hjarta sem er nauðsynlegt í svona veðráttu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.3.2008 | 16:18
Tíkin
'Maaaaaammí, hvar ertu' argaði barnið þegar hún var nýkomin heim frá pabba sínum á sunnudaginn.
'Ég er á klósettinu' kallaði ég þar sem ég sat á klósettinu.
'Hey, sérðu hvað ég er með' hvíslaði hún í gengum litla bilið milli lokaðar hurðar og dyrakarms'
'Nei (ég sá nátla ekki neitt enda hurðin lokuð), hvað ertu með' spurði ég vitandi það að það þýddi ekkert að láta barnið bíða eftir að ég skeindi mig.
'Sérru, ég er með tík!'
'Ertu með tík????' spurði ég um leið og ég skeindi mig, girti mig, þvoði mér og reif hurðina upp, allt á methraða.
'Sérru' sagði hún og rak eitthvað framan í nefið á mér.
'Jáááááá, ertu með TÍGRA, vin Bangsímons'
Hún hefur leikið sér mikið með 'tíkina' sem ég fann við tiltekt á föstudaginn. Setningar eins og 'komdu tík', ekki gera þetta tík' og fleiri glymja um íbúðina.
Í gær kom ég henni fyrir á lærinu og klippti litlar táneglur í vaskinn. Hún hékk eins og lítill apaungi í mér og bað mig vinsamlega um að klippa ekki fast. Því miður veit ég ekki hvernig maður klippir laust en sem ég er að reyna finn ég litlar hendur fikra sig frá bakinu á mér og taka svo utan um vinstra brjóstið. 'Hey, ertu með mjólk í brjóstunum núna mammí?'
Dásamlegt.
3.3.2008 | 10:07
Sumar
Mér finnst eins og sumarið sé rétt handan við hornið og vorið því liggja í lofti. Verð alltaf jafn hissa þegar mér verður litið út um gluggann og sé veturkonung flatmaga yfir öllu.
Það er greinilega líka vor í Sprundinni því við vorum afar samstíga þegar við misstum okkur í þrifum á föstudagskvöldið. Það var ólund í mér af ýmsum ástæðum á föstudaginn svo ég gaf lærdóm upp á bátinn og fór til ömmu sem er allra meina bót. Dröslaði mér svo heim rétt fyrir sjö þar sem Hrund beið sem og þrif á íbúð. Höfðum slugsað það í vikunni (þrífum alltaf á eins og hálfs vikna fresti) og ástandið orðið svo slæmt að varast þurfti að draga djúpt að sér andann svo rykhnoðrar fylgdu ekki innöndun og yllu köfnum auk þess sem best var að ganga um með lokuð augu svo skíturinn ylli ekki vanlíðan og ógleði.
Ok. Það var kannski ekki svona slæmt en einhverra hluta vegna vorum við báðar í stuði og enduðum á því að gera vorhreingerningu sem stóð í þrjá og hálfan tíma. Gerðum allt sem við erum vanar og það extra vel og svo allt hitt sem við nennum aldrei eins og fara í gegnum allar hirslur og endurraða og taka takkana af eldavélinni og þrífa þá. Íbúðin hefur líklega aldrei verið eins hrein. Þegar ég var búin að skúra yfir eldhúsgólfið var ég farin að titra að þreytu og næringarskorti. Við fengum okkur að borða og vorum komnar í rúmið á miðnætti, örmagna.
Á laugardaginn fór Hrund í skólann og ég fór til Eddu frænku að elda súpu fyrir níræðisafmælið hennar ömmu. Við Hrund fórum svo í bleika köku hjá Rósu frænku sem var að verða 24 og enduðum heima hjá tengdó þar sem við eyddum kvöldinu í eitthvað dútl.
Á sunnudag var svo veislan. Rakel kom snemma heim frá pabba sínum og við fórum allar þrjá í okkar bestu föt og brunuðum í veisluna. Hún heppnaðist ótrúlega vel í alla staði. Við frændsystkinin (sem höldum áðurnefnd frændsystkinakvöld) fengum Hrund til að taka myndir af okkur út í hrauni um daginn, völdum eina og tengdó lét svo prenta hana á striga í vinnunni. Gáfum ömmu myndina í afmælisgjöf og var hún að vonum ánægð.
Litla systir Hrundar lánaði okkur flakkarinn sinn svo gærkvöldinu eyddum við spúsan í að horfa á Friends.
Góðar stundir.
Annar hóstar Rakel eins og ég veit ekki hvað. Hef aldrei heyrt annað eins. Hún er því heima og er að leira, litla ljósið. Eigum tíma hjá lækni á eftir, aldrei að taka áhættur með blessuð börnin.
En ég var búin að lofa mér að vera dugleg að læra í dag. Verð að fara að byrja á þessari 4500 orða spænskuritgerð sem ég á að skila í byrjun apríl. Mierda.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.2.2008 | 09:21
vangaveltur
Sem ég sit hér í tölvuverinu í Árnagarði, borða stærstu skonsu í heimi og drekk súrmjólk með velti ég því fyrir mér:
- Hvenær verkefni á borð við það sem ég er að vinna núna muni gagnast mér en mér er skylt að finna út og rökstyðja hvort nefhljóð eru sjálfstæð hljóðön eða kannski hljóðbrigði sama hljóðans.
- Hvort ég muni halda áfram að fitna þangað til ég spring úr offitu og skil þá allt eftir í líkamsleifum eða enda með því að setjast á Hrund og nær kæfa hana án þess að taka eftir því.
- Hvort ég muni einhvern tíma hafa tíma og eiga peninga til að byrja aftur að spila á píanó og þá jafnvel klára 7. stigið.
- Hvort ég muni einhvern tíma læra söng eins og mig hefur alltaf langað til eða hvort ég syngi bara hörmulega og ætti því að gleyma þessu.
- Hvar öll fötin sem mig langar svo í og veit hvernig eiga að líta út eru eiginlega því ég finn þau aldrei.
- Hvort ég sé góð mamma og eiginkona og hvort Rakel og Hrund myndu vappa um eins og hauslausar hænur ef mín nyti ekki við.
- Hvort ekki ætti að skylda alla feður dætra sinna til að fara á námskeið þar sem þeim er kennt að greiða fagurt hár þeirra.
- Hvort ég geti einhvern tíma lært að slaka á svo ég sleppi við stressmagaverki annan hvern dag.
- Hvort ég muni geti skrifað 4500 orð á spænsku og skilað þeim inn sem ritgerð.
- Hvort Hrund verði í skólanum 29. mars þegar ég ætla að halda upp á afmælið mitt og hún muni því ekki geta trítað mig eins og Lafði Díönu sæmir.
- Hvort BA-rigerðin muni ganga af mér lifandi dauðri þegar ég loks byrja á henni.
- Hvort það verður alvöru sumar í sumar eins og var í fyrrasumar
- Hvort við stelpurnar mínar getum farið í eitthvað sumarfrí saman.
- Hvort ég eigi ekki bara bestu mömmu og bestu tengdmömmu í heimi þótt ég bjóði í hvoruga reiða (jú reyndar held ég að ég bjóði í þær, get orðið eins reið og þær).
- Hvort barnið mitt sé ekki eins fullkomið og barn getur orðið.
- Hvort konan mín sé ekki ólík öllum sem ég hef kynnst.
- Hvort ég eigi einhvern tíma eftir að búa í Svíþjóð, Svíþjóð, ó fagra Svíþjóð.
- Hvort ég sakni pabba míns ekki meira eftir að ég eltist og við urðum vinir.
- Hvort spænska sé ekki eitt fallegasta mál í heimi.
- Hvort það sé ekki svo mikill viðbjóður í heiminum að mannkynið eigi sér ekki viðreisnar von.
- Hvort ég gæti ekki samið milljón svona spurningar
- Hvort mér finnist ásættanlegt að vera að blogga þegar á að vera að læra.
Síðustu spurningunni ætla ég að svara: Það er óásættanlegt, Díana Rós Rivera, að þú skulir ekki beina öllum þínum kröftum að hinni undursamlegu gátu um nefhljóðin. Bráðum byrjar tími hjá þér og þá þýðir ekkert að grenja yfir sjáfsköpuðum óförum.
Akkúrat núna langar mig til að labba út á heimsenda í frostinu, syngja fyrir sjálfa mig á leiðinni og þegar á endann er komið sækja mér þá einstöku orku sem mín bíður þar, rölta svo til baka með nýjan dag og ný tækifæri í fararteskinu, trúna á sjálfa mig og óttaleysi við framtíðina.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.2.2008 | 11:50
Kyrnur
Síðastliðnir tveir dagar hafa verið algjörir hjónkyrnudagar. Á mánudaginn sótti Robbi Rakel í leikskólann (venjulega sækir hann hana heim til okkar (á mánudögum eftir mömmuhelgar) þegar hann er búinn að vinna um sex og fer með hana í leikskólanum daginn eftir en þetta skiptið fékk hann að fara fyrr) svo við Hrund þurftum ekkert að gera neitt sérstakt. Hrund náði í mig í skólann um hálf fjögur, við útréttuðum og enduðum svo heima með pítu og videomyndir. Eyddum öllu kvöldinu í knús og gláp (Hrund reyndar fór allt í einu að vaska upp um hálf ellefu) og höfðum það gott.
Þegar ég vaknaði til að fara í skólann á þriðjudagsmorguninn (Hrund hraut enn inn í rúmi) beið mín lítið ástarbréf og eyrnalokkur og hringur sem Hrund hafði búið til kvöldið áður (eftir að ég var farin að sofa). Ég missti mig á móti í miðum, skrifaði fyrst einn sætan um hvað ég elskaði hana og límdi á spegilinn inn á baði, setti svo annan á kaffivélina þar sem allt var tilbúið (þurfti bara að ýta á takkann) og svo annan á videspólurnar frá kvöldinu áður, var að minna hana á að skila þeim. Var kannski orðið heldur órómantískt svona í lokinn.
Í gærkvöldi þegar kúturinn var sofnaður héldum við knúsinu og glápinu áfram. Vorum eins og tveir ástfangnir unglingar.
Ég er alltaf voða skotin í Hrundinni minni og hún í mér en það er ótrúlega gaman að upplifa daga þar sem maður má ekki sjá af ástinni sinni.
Það er gott að muna þessa daga á morgnana þegar við vöknum óguðlega snemma og eins morgunfúlar og við Hrund erum liggur oft við að við bítum hausinn af hvor annarri þótt við stillum okkur við barnið sem syngur og trallar nær án undantekninga frá því að hún opnar augun.
Guði sé lof fyrir gsm, með þeim má senda mörg falleg skilaboðin einni mínútu eftir að maður er mættur í skólann og pirringurinn út af ekki neinu fokinn út í veður og vind.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2008 | 18:01
Snillingur
'Manstu' spurði Rakel mömmu sína. Hrund var þá nýbúin að biðja hana að vera ekki að fikta í öllum sköpuðum hlut í Smáralindinni.
'Man ég hvað' spurði mamman.
'Þegar þú varst lítil'
'Já, svona eitthvað allavega' hélt Hrund.
'Hugsaðu málið' sagði þá Rakel.
Kannski Hrund þurfi að fara að rifja upp hvernig var að vera lítill og handóður. En hvernig í ósköpunum barninu datt í hug að segja þetta veit ég ekki. Hún er algjör snillingur. Henni var allavega ekki bannað meir. Mamma hennar var of upptekin við að hlæja.
Ég var ekki með, aldrei þessu vant, af ástæðum sem ég mun brátt koma að.
Oddný vinkona kom í bæinn á fimmtudaginn og fengum við Hrund mömmu til að passa svo við gætum heimsótt hana og Kötlu á föstudagskvöldið. Hrund átti ekki að vera í skólanum daginn eftir svo við ætluðum að fara allar þrjár, Skipasundstelpurnar, í íþróttaskólann. Fyrir misskilning hélt ég að þetta yrði eina skiptið sem Hrund kæmist (komst að því heima hjá Kötlu að það var misskilningur) og ætlaði því ekkert með stelpunum á djammið. Þeim tókst nú að plata mig samt til að fá mér bjór og sannfærðu mig um að Rakel yrði ekki sködduð á sálinni þótt ég færi ekki með henni og Hrund í fimleikana þrátt fyrir loforð um það að við myndum allar fara (sem er toppurinn).
Ég drakk þrjá bjóra og stóð varla í lappirnar. Við Hrund fórum heim, hún til að taka við af mömmu og ég til að skipta um föt og fá mömmu til að skutla mér niður í bæ til stelpnanna. Það eina sem ég gat hugsað mér var hins vegar að fara að sofa, mér leið hörmulega og eins og áður sagði var ég algjörlega á sneplunum af þessum þremur bjórum.
Ég svaf líka illa, vaknaði klukkan sjö (af hverju, af hverju, af hverju) og dormaði þangað til klukkan hennar Hrundar hringdi, tími til kominn að búa sig undir fimleikana. Ég ákvað að þar sem ég hafði beilað á bestu vinkonum mínum ætlaði ég ekki að beila á barninu mínu, skreið fram úr, í föt og með þeim í hoppið og skoppið. Enn þá leið mér viðbjóðslega. Eins og ég hefði skotið heila tekílaflösku kvöldið áður.
Eftir hoppið (úff, mér var svo flökurt) náðum við okkur í pizzu (megavika) og svo fékk ég að skríða upp í rúm (takk, elsku besta kona í heimi) en Hrund og Rakel fóru í heimsókn til tengdó. Var það með henni sem þær fóru í Smáralind og Rakel lét út úr sér fyrrnefnt gullkorn. Á meðan svaf ég órólegum svefni, þjáð af magaverk og svitaköstum. Ég hef bara aldrei vitað annað eins.
Við fórum svo til mömmu seinnipartinn, ég náhvít í framan og enn illa haldin en stelpurnar mínar hressar og kátar. Ég og mamma elduðum guðdómlegan saltfiskrétt sem ég er að hugsa um að hafa í afmælinu mínu. Vorum svo þarna fram eftir kvöldi og höfðum það gott.
Í dag er konudagur. Sögðum Rakel það í morgun sem var viss um að það væri líka barnadagur. Við héldum því upp á konu-og barnadag. Fengum okkur djús gerðan í nýju safapressunni, fórum niður í bæ í góða veðrinu og gáfum öndunum brauð og fengum okkur í svanginn á kaffihúsi. Við enduðum svo í Gerðubergi í heimi Sigrúnar Eldjárn. Fórum í heimsókn til Málfríðar og mömmu hennar, fengum að keyra skordýrabílinn þeirra, prófa eldflaug og sáum tölvuskrímslið. Ótrúlegt stuð. Náðum okkur í Múmínálfanna út á videoleigu, fórum heim og allar í sunnudagsbað og sitjum núna ilmandi upp í sófa og horfum. Svona á þetta að vera.
Ég er sem sagt búin að ákveða hvernig ég ætla að haga afmælisveisluhöldum. Ætla að hafa fjölskyldukaffi helgina fyrir afmælið mitt (fólk kemur þá í páska- og afmælisboð) og bjóða svo vinum í mat 29. mars. Hugsa að konan sé með eitthvað surprise um daginn (hefur venjulega verið æði) svo ég er að hugsa um að byrja á því að fara til mömmu og búa saltfiskréttinn til, hafa það gott með Hrund yfir daginn og bjóða svo vinunum heim til mömmu (kem ekki svona mörgum fyrir við matarborðið heima hjá mér) um sjö. Er bara farin að hlakka til.
Í síðustu færslu skrifaði ég 'skyldi' í einu af þremur tilfellum með 'y'. Mjög skrítið þar sem ég veit að orðið er skrifað með 'y'. Ég skammast mín.
Annars líður tíminn svo hratt. Febrúar að verða búinn, önnin hálfnuð, farið að birta, ég að verða 25, bráðum kemur sumar ...
Konunni minni finnst ég flottust í heimi og barnið mitt elskar mig skilyrðislaust. Gerist ekki betra.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.2.2008 | 17:25
Hoppað í dullupolli
Fór að sækja krílið áðan. Var með fiðrildi í maganum. Skyldi allt vera ofurdrullugt (snjórinn er svo svakalega blautur), skyldu kennararnir gefa mér illt auga, skyldi Rakel vera skemmd á sálinni eftir að hafa verið neitað um að moka drullu?
Labbaði upp tröppurnar, sá í gegnum glerið á hurðinni að engin drulluföt voru í poka. Var barnið mitt eitthvað veikt? Hræddust kennararnir illsku mína það mikið að þeir neituðu barninu um útiveru?
Sá svo glitta í skítuga vettlinga í poka. Fjúff, hún hafði farið út. Stóð nokkra stund og starði á hólfið hennar. Gat verið að ekkert væri drullugt í poka nema vettlingar. Hafði hún verið látin hjóla í hringi alla útveruna í von um að halda henni frá drullunni? Var hún orðin félagslegt outkast eftir að ég bannaði henni að vera í drullunni, fær ekki að vera með neinum og neyðist til moka sand og éta hann ein?
Rakelin var hins vegar hress og kát. Af úfnu hárinu að dæma var greinilegt að hún hafði farið út. Af einhverjum ástæðum safnast allt hár á hausnum á henni saman í einn haug aftan á hnakkanum undir húfunni í útiveru og breytist í einn stóran rembihnút. Gormur brokkaði til mín og gaf mér knús. Kennarinn sem varð vitni að pirringi mínum í gær sagði:´Jæja, hún er ekki eins drullug og í gær'. Ég reyndi að gefa henni bros. Leið eins og ég hefði tekið æðiskast og verið dónaleg í gær sem ég var alls ekki (Allir kennararnir þarna eru yndislegir og ég vona að þeir skilji að ég er ekkert pirruð út í þá prívat og persónulega heldur FO***** DRULLUNA.) Við vorum sammála um að það væri eiginlega ótrúlegt hvað krakkarnir hefðu allir verið þurrir þegar þeir komu inn.
Pollagallinn hennar Rakel var einmitt þurr. Hennar aldur fer út eftir hádegi svo að venjulega eru útifötin allavega enn þá rök þegar ég kem að sækja hana. Mér leið eins og það væri eitthvað verið að focka í mér.
Sem betur fer voru stígvélin aðeins blaut inn í. Hún fór sem sagt út.
'Varstu bara alveg þurr eftir útiveruna?' spurði ég Rakel þegar ég var að draga hana heim á snjóþotunni.
'Já, alveg þurr'
'Hvað varstu að gera úti?'
'Ég var að hoppa í drullupolli' sagði barnið hýrt á svip og með stolti í röddinni.
Ég stoppaði á göngunni og leit á hana. Hún horði á mig, pínulítið óörugg, var örugglega að hugsa 'bíddu, átti ég ekki að hoppa í drullupolli (eins og allir vita snýst felst sem maður segir við í höfðum barna manns'. Sagði svo:
'Bara pínu að hoppa'
Ég byrjaði eitthvað að segja að það mætti alveg hoppa pínu í pollum sem væru úr vatni en ekki vera að drullumalla. Hætti svo bara þessu leiðindablaðri, brosti mínu breiðasta til gormsins og sagði:
'Rosalega varstu dugleg að hoppa bara pínu í drullupolli. Og alveg án þess að blotna. Flott þér duglega stelpan mín'
Barnið mitt brosti og trallaði alla leiðina heim.
Spænsk ritþjálfun II er eins skemmtilega og I var hræðilega leiðinleg. Í fyrsta lagi er kennarinn svo fyndinn og ákafur og í öðru lagi eru tímarnir alveg eins og ég hafði ímyndað mér að þeir ættu að vera. Við lærum um lýsingar og sögumann og frásögn og bara allt sem tengist því að skrifa. Í fyrri tímanum kennir kennarinn okkur eitthvað nýtt en í seinni tímanum æfum við okkur í að skrifa í hópum. Það er æði. Hann kannski gefur okkur stað sem við eigum að lýsa 'oooog BYRJA'. Maður þarf að hugsa hratt, nota ímyndunaraflið og reyna að muna orð sem maður vill nota á spænsku. Við erum líka búin að læra að skrifa formleg bréf og beiðnir. Í dag skrifaði ég mína fyrstu örsögu á spænsku. Trúiði þessu?
Annars tók ég strætó í skólann. Horfði fyrst á einn þjóta fram hjá þar sem ég átti nokkra metra eftir að stoppistöðinni. Strætóinn var þremur mínútum á UNDAN áætlun. Hvað er málið með það. Það er bara andstætt allri reynslu minni af strætó. Ég þurfti því að bíða eftir næsta. Sem betur fer var ég með ipodinn hans Einsa bró. Fann lagið 'Hold the line' og var alveg að kafna úr nostalgíu við hlustunina. Spiluðum þetta í fyrri hljómsveitinni af tveimur sem ég var í í lýðháskólanum. Það var svo drullugaman. Ég spila á píanó í þessu lagi (sem ég gerði oft en ég söng líka og spilaði einu sinni á bassa) og það er bara fjandanum erfiðara að taka introið. Bæði að passa taktinn og að spila nákvæmlega þetta á píanó. Ahhhh, ljúfir dagar þegar maður var enn yngri og skemmtilega vitlaus.
Bleikjan bíður. Leyfði Hrund að velja milli tveggja uppskrifta (sem ég hafði valið úr fjórum) og hún valdi Hnetubleikju. Ætla að fara að mylja hnetur. Nei, bíddu, fyrst þarf að úrbeina.
Ég er ekki frá því að ég sé pínu stressuð.
Vinir og fjölskylda | Breytt 24.2.2008 kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2008 | 18:30
Heitt í hamsi
Ok. Ég geri mér grein fyrir því að ég á barn á leikskóla sem elskar að vera úti og sækir í mesta skítinn á svæðinu. Allt á sér hins vegar takmörk. Ég fékk alveg nóg í dag þegar ég kom að ná í hana. Hún var akkúrat að koma inn. Búið var að troða pollafötunum í poka þar sem þau voru ógeðsleg. Allt annað, sem og Rakel sjálf, var þakið drullu. Þar með taldir SKÓRNIR hennar. Ef það er veður fyrir pollagalla, er þá ekki líka verður fyrir STÍGVÉL. Sérstaklega þegar vitað er að Rakel Silja gerir ekki annað en leita uppi bleytu og drullu. Skórnir voru óþekkjanlegir. Ég held það hafi ekki farið fram hjá neinum að það fauk í mig þótt ég segði ekkert svo sem. Sagði bara að ég væri orðin svo þreytt á þessu og að ég vissi ekki hvernig ég ætti að þrífa þessa kuldaskó. Kennararnir sögðu mér hvernig börnin sæktu í kartöflugarðana og velti sér upp úr drullunni þar. Af hverju eru kartöflugarðar inn á (eða við) lóð leikskólans??? Og af hverju er ekki hægt að sanda yfir drulluna. Ég skal kaupa helvítis sandinn.
Síðastliðinn hálftíma hefur Hrund setið inn á baði, mokað drullu upp úr skónum og reynt að þrífa þá með blautum þvottapoka. Þar sem pollagallinn var ekki drullugur að INNAN eins og venjulega lét ég duga að þrífa hann með þvottapoka að utan. Ég þarf hvort sem er að þvo hann á morgun. Skil heldur ekki af hverju göllunum er troðið í poka og maður sendur með þá heim ef þeir eru skítugir. Mega þeir ekki vera skítugir að utan? Þar hrinur af þeim. Almáttugur.
Ég hef nú ekki talið það eftir mér að þvo af barninu en ég er að missa vitið. Ég bannaði Rakel áðan að leika sér í drullunni. Hefði frekar viljað að kennararnir ræddu við krakkana og segðu þeim að það mætti ekki vera að grafa holur og skemma þannig garðinn. Það er miklu betra heldur en ég þurfi að vera ógeðslega leiðinleg og banna barninu mínu sérstaklega að velta sér upp úr drullunni. Þetta er bara ekki hægt.
Er ég ömurleg? Annars er þetta frábær leikskóli.
Litli skítahaugurinn sagði mér áðan að litli bróðir hennar væri dökkhærður en samt ekki með krublur eins og ég. Og hann heitir Júlíus. Þegar hinn margumtalaði bróðir fæðist (sem ég er farin að trúa statt og stöðugt eftir heilaþvott Rakelar) vona ég samt að við Hrund höfum eitthvað um nafnið á honum að segja.
Það er svo gaman að læra eitthvað nýtt. Lærði að prjóna sokka fyrir áramót, rifjaði upp heklið með ömmu fyrir ekki svo löngu, er að æfa mig í að elda fisk og sauma núna. Afi gaf mér eðal bleikju áðan sem hann veiddi sjálfur. Þetta er algjör munaðarvara svo ég ætla að hafa hana í föstudagsmatinn á morgun Áðan kenndi amma mér að hreinsa beinin úr eftir að hafa spurt hvumsa: 'Hefurður aldrei unnið í fiski?'. Veit ekki alveg hvar það hefði átt að vera. Út á Granda? En núna held ég að ég kunni þetta. Klára að úrbeina á morgun og vona svo að mér takist vel upp við eldamennskuna.
Við amma hjálpuðumst svo að við að sníða náttkjól handa Rakel. Amma lánaði mér saumvél og núna þarf ég bara að læra að þræða hana. Á meðan við vorum inn í eldhúsi að sníða var Rakel inn í sofu og galaði á okkur ömmu til skiptist. Svona hundraði billjón sinnum. Bjáluð útiveran tekur sinn toll. Tekur enn þá meira á núna heldur en þegar snjór var yfir öllu. Eftir leikskóla er barnið úrvinda, brestur í grát upp úr þurru, neitar að taka til eftir sig, öskar á okkur endalaust að koma og sjá eitthvað, nennir ekki að leika sér í baði, treður í sig kvöldmatnum svo stendur í því og svona fram eftir götum. Eftir lestur, þegar upp í rúm er komið, er ormurinn hins vegar sprækari en allt sem sprækt er. Eða hún heldur það. Syngur og trallar og leikur sér með koddann og ég veit ekki hvað.
En svona eru blessuð börnin og ekki vildi ég hafa hana Rakel mína öðruvísi en hún er. Maður bara stendur upp einu sinni á mínútu og skoðar eitthvað sem hún er að gera, knúsar hana þegar hún brestur í grát yfir því að spilinn hennar duttu í gólfið, minnir hana á að anda í matnum og skemmtir henni í baði.
Best ég fari að huga að því að baða skítahauginn og elda. Hrund er núna að hreinsa sandinn og drulluna úr franska rennilásnum á skónum með naglaskærum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2008 | 20:02
Söngfugl?
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar