19.2.2008 | 19:35
Gleymdi
Ég hef gleymt að segja ykkur í meira en viku að ég er búin að setja nýjar myndir inn á Barnaland. Ef ykkur vantar lykilorð sendið mér póst á drr1@hi.is
Og Hlífin: þú ert ekki stalker. Þú ert skemmtileg. Ef við hittumst oftar myndum við teljast vinkonur. Ætlum við séum það ekki bara. Allavega, kíktu á síðuna hjá Rakel og skemmtu þér.
Þið hin líka og endilega kvitta í gestabókina hennar.
19.2.2008 | 16:22
Er að læra ...
... svo ég hef þetta örsnöggt. Er búin að skrifa þetta líka svaðalega formlega bréf á spænsku til ímyndaðs tölvufyrirtækis en það er hluti af 10% verkefni sem ég þarf að skila í ritþjálfun á föstudaginn. Helsta áskorunin í bréfinu var að skrifa eitthvað tölvumál, biðja um áveðna gerð af tölvu, harðan disk, megbæt, bla, bla , bla. Netið bjargaði mér eins og svo oft áður.
Held að það sé aðallega skíðafólk og barnafólk sem þráir stöðugt snjó og kulda. Eftir að Rakel kom inn í líf mitt stend ég mig að því að glápa á veðurfréttir hvert kvöld í von um að nógu kalt sé til þess að engin von sé á rigningu. Væri möguleiki að dagurinn liði án úrkomu myndi ég vona það auðvitað en úrkomulausir dagar þykja til tíðinda á skerinu. Ég vil miklu frekar þurfa að skafa af bílnum og frjósa á tánum heldur en þurfa að sækja skítahaug í stað barns á leikskólann. Ekki nóg með að hún sé með drullu í eyrunum og augunum og öllu andlitinu heldur þarf ég að þvo pollagallann á hverjum degi (sem er ekki bara drullugur utan á heldur inn í líka), þvo húfuna og vettlingana í höndunum (ullin má ekki fara í vélina), þurrka stígvél og innlegg, þvo öll fötin sem hún var í og aukafötin sem hún er komin í og auðvitað skrúbba skítahauginn. Allt ofantalið er þakið sandi svo þið getið ímyndað ykkur hvernig gólfin hérna heima eru eftir að ég dreg þetta inn dag hvern. Ef yndislegur snjór liggur yfir öllu get ég bara sótt barnið mitt og klætt það í kuldaúlpu.
Auðvitað er ég þakklát fyrir að barnið er heilbrigt og kátt og glatt og fullt orku. En ég á erfitt með að hrósa henni þegar hún lýsir afrekum dagsins fyrir mér sem felast í hoppi í polla. Hún þreytist ekki á því að segja mér hvernig hún og Stefán Steinar hoppuðu eins mikið og þau gátu í pollinum og lögðust svo í hann á eftir. Hvað á maður að segja? 'Flott hjá þér, dugleg ertu' eða bara 'plís nenniru að róla eða hjóla í útiveru og hætta þessu pollastússi áðurn en ég missi vitið og trampa á pollagallanum og ríf húfuna í sundur í æðiskasti'. Best að halda bara kjafti held ég.
Ég og Hrund fórum með Rakel í klippingu áðan (vorum reyndar bara að láta særa, ég vil sítt hár sem ég get leikið með mér). Hún var auðvitað ógisslega dugleg og þar sem hún hefur farið þangað áður vissi hún vel að verðlaun voru í boði. Hún var ekki sein á sér þegar hún var komin úr stólnum að reka nefið ofan í plastfötuna sem hún vissi að innihélt blöðrur. Klippikonan reyndi eitthvað að bjóða henni hring en Rakel vildi bara blöðru. Það eru alltaf ´stelpu-' og 'strákaverðlaun' í boði. T. d. glingur fyrir stelpur og boltar fyrir stráka. Auðvitað er börnum ekki bannað að velja það sem 'ætlað' hefur verið fyrir hitt kynið en þetta er bara ein enn pirrandi sönnun þess að börn eru hlutverkaþvegin og kynjaþvegin frá frumbernsku. Mér finnst æðislegt að Rakel skuli alltaf velja sér bolta eða blöðrur ef það er í boði, finnist skemmtilegast í heimi að vera skítug og klár eins og Lína langsokkur og finnast ekkert eins kúl eins og Spiderman. Mér finnst líka frábært að henni finnist gaman að vera í pilsi og leyfa mér að greiða sér og setja borða í hárið. Það sem skiptir mig öllu er að hún hafi frelsi til að velja og að samfélagið hafi ekki áhrif á hennar skoðanir.
Þess vegna er ekkert sérhannað stelpudót á þessu heimili, þess vegna hömpum við Línu langsokk, þess vegna ölum við upp í henni sjálfstæði og sjálfsöryggi. Svo enginn eða eitthvað nái nokkurn tíma að brjóta vilja hennar á bak aftur.
Áróðri lokið. Verð að fara að sækja Rakel. Fór ekki með úlpuna hennar á leikskólann í dag þar sem við löbbuðum þangað í grenjandi rigningu og hún var í pollagalla. Núna hefur hins vegar snjóað síðan um eitt leytið. Frábært.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.2.2008 | 15:06
Hvernig er þetta ...
... með mig og innsláttarvillur. Ég les alltaf yfir færslurnar áður en ég vista þær en samt eru villurnar óteljandi. Sérstaklega virðist hrjá mig sú árátta að sleppan n-um í lok orða. Nær öll sem eiga að enda á tveimur n-um enda á einu og það er ekki af því að ég kann ekki reglurnar.
Svo lengi sem þið vitið að ég kann víst reglurnar þá er þetta í lagi.
Ég veit ekki hvernig mér datt í hug að fara í þennan göngutúr um daginn. Líklega vegna þess að ég hef þann einstaka hæfileika að geta framkvæmt án þess að hugsa.
Fór með molann til ömmu á fimmtudaginn eins og við erum vanar. Tryggvi frændi var þar að læra fyrir sína verkfæði eins og hann er vanur. Hann hefur nú formlega verið tekinn í guðatölu af Rakel. Sem hún var að troða í sig kremkexi fyrir rúmri viku sýnir Tryggvi henni hvernig hægt er að taka kexið í sundur, vera þá kominn með tvö kex og sleikja svo kremið af. Þetta var Rakel svo mikil opinberum og hefði hún ekki verið of upptekin við að sleikja krem hefði hún örugglega hneigt sig fyrir Tryggva. Núna á fimmtudaginn borðaði hún sitt brauð áður en hún fékk næstarétt (eftirrétt). Hún fékk sitt kremkex og ég spurði hana hvort ég ætti að hjálpa henni að taka það í sundur. Hún leit ekki á mig þegar hún sagði: 'Nei, Tryggvi' og lotninginn í röddinni fór ekki fram hjá neinum. Tryggvi kexguð.
Á föstudaginn fórum við molinn til tannlæknis í þriggja ára skoðun. Rakel gapti eftir skipum og sýndi sínar glæsilegu og ávallt vel burstuðu tennur. Bitið var líka í lagi og Rakel svo dugleg og ég horði bara á krílið mitt og þakkaði guði í billjónasta skipti fyrir að lána mér þetta barn.
Á föstudagkvöldið rölti ég til Rósu frænku sem býr í sömu götu. Við heimsækjum aldrei hvor aðra, líklega búum við of nálægt hvor annarri. Á meðan sat Hrund heima í tölvunni og fékk svo frænda sinn í heimsókn svo tvö pör af tvímenningum ræddu málin í sitthvoru húsi í sömu götu.
Í gær fór í göngtúr. Ég var nokkuð fljót að koma mér í rúllupylsuátfittið enda að verða komin í æfingu. Ég valdi nýjan flokk laga á playlistanum og með Muse öskrandi í eyrun á mér arkaði ég áfram. Ég tók góðan klukkutíma í labbið, tók sama hringinn og í gönguferðinni þarna from hell og bætti svo öðrum við. Ég labbaði sum sé mun fleiri kílómetra í þessari göngu en hinni margrómuðu.
Við Hrund skelltum okkur svo í Ikea og keyptum eitthvað dúll sem okkur fannst nauðsynlega vanta og í Egginu fengum við glæsilega brauðrist og safapressu í stíl fyrir inneignarnótu sem við fengum í jólagjöf. Ég er búin að stilla þessu upp inn í eldhúsi og endurraða ögn að sjálfsögðu. Fer öðru hvoru inn í eldhús og horfi á nýju hlutina mína. Og sparka í sjálfa mig fyrir að hafa ekki keypt appelsínur í Bónus á föstudag, þá gæti ég fengið mér ristað brauð og nýpressaðan appelsínusafa.
Hrund skutlaði mér, Tryggva og Rósu svo til Davíðs þar sem við héldum frænsystkinakvöld. Við höldum þau tvisvar til þrisvar á ári. Í því eins og stendur er Davíð (25),ég (24),Rósa (23) og Tryggvi (21). Við höfum ákveðið að aldurstakmarkið sé 18 svo Unnur kemur inn á næsta ári, Elísabet á þarnæsta og Einsi bró eftir þrjú ár.
Við skemmtum okkur við það í gær búa til innvígsluprógram, datt í hug að krúnaraka þau og troða upp í þau bjórtrekt og svo gætum við bara skiluð þau eftir ef við vildum fara niður í bæ, enda greyin ekki komin með aldur. Svo mundum við okkur þykir ansi vænt um krílin og ætlum bara að leyfa þeim elda.
Það var nátla drullugaman. Borðuðum indverskan mat og slökktum chillibrunann með bjór, kjöftuðum og enduðum svo niðrí bæ um eitt. Hittum Sprundina þar og fórum í eitthvað Vesturportspartý með celebrityfólki. Þarna var auðvitað Vesturportsliðið, Elsa María úr Kastljósinu og fleiri sem ég kann ekki að nefna. Þarna var líka Gael García sem er mjög lítill og mjög sætur. Svo voru þarnga billjón litlar brennivínsflöskur í bala fullum af klaka. Ó, ó, ó.
Tryggvi var svo sannarlega í fíling. Svo æstur í dansinum og hoppaði um gólandi. Hann hélt bara uppi rífandi stemmningu. Við Hrund dönsuðum líka af okkur rassinn. Dj-inn sýndist mér einhver fyrri hluta nætur en svo tóku hinir ýmsu við. Og voru með ipod. Og kunnu ekki meira á það tæki ég. Þeir náðu kannski að byrja eitthvað lag og allir urðu trylltir og voru bara' hey þetta er uppáhalds lagið mitt' eða 'hey þetta var uppáhalds lagið mitt einu sinni' (hvert lag var uppáhalds lag einhvers einhvern tíma svo gleðin var alltaf jafn mikil) en svo gerðist eitthvað og lagið hætti. Svo byrjaði það aftur. Og hætti. Og svo byrjaði það aftur og svo var allt í einu komið annað lag. Allir fengu sér brennivín upp á það.
Við fórum svo á Hressó og héldum fjörinu áfram og allt í einu var bara verið að sópa okkur út, búið að loka. Ég hef ekki látið sópa mér út síðan í menntaskóla. Ég, Tryggvi og Hrund löbbuðum í mígandi, helvítis rigningu í Bogahlíðina heim til Tryggva. Við Sprundin tókum leigubíl þaðan. Sem var gott. Við vorum komnar upp í rúm rétt fyrir átta og fínt að það var ekki seinna.
Ég sef nebla aldrei neitt lengur eftir djamm þótt ég fari að sofa undir morgun. Ég vaknaði upp úr hádegi og slík var líðanin að ég hélt ég væri kannski dáinn. Það var ég ekki og fannst mér það miður um stund. Eftir vatn og ískaldan trönuberja og vínberjasafa var ég komin í gír. Stússgír. Ég dett stundum í hann á virkum dögum sem er fínt en að hanga svona í honum skelþunn skil ég bara ekki. Ég botna ekkert í sjálfri mér. Ég setti í vél, braut þvott, þvoði vaskinn inn á baði, tók saman dótið hennar Rakel fyrir leikskólann, raðaði skóm og öllu öðru sem hægt var að raða, fór í gegnum skóladót, heftaði, gataði og setti í möppu, vaskaði upp, tók til í veskinu mínu og eiginlega í öllu húsinu.
Það suðar fyrir eyrunum á mér. Ég verð að taka úr vélinni og fá mér einhverja næringu.
Annars eigum við Hrund afmæli, höfum verið trúlofaðar í tvö ár í dag. Eftir örfáar vikur höfum við verið saman í þrjú ár svo við höfum hugsað að gera okkur glaðan dag á næstunni. Vííí.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.2.2008 | 11:05
Háskaför
Þeir eru yndislegir dagarnir sem maður nennir að læra. Ég hreinlega fyllist fítonskrafti hafi ég fylgt algjörlega því plani sem ég bjó mér til fyrir daginn, mætt stundvíslega og Í alla tímana, fylgst með og glósað og komist yfir allt sem ég ætlaði mér. Tala nú ekki um ef ég borða ógó hollt. Ég svíf fitt (að mér finnst þótt það eigi sér enga stoð í raunveruleikanum) um ganga skólans og út á bílaplan, hlæ upp í frískandi rokið, sest inn í tryllitækið mitt og stilli tónlistina það hátt að bíllinn nötrar. Ég lít svo á að hann sé dansa með mér.
Það var svona dagur í gær. Hann var meira að segja óvenju skemmtilegur þar sem ég hitti Hlífina á kaffistofunni og við gátum skipst á sögum. Ég held henni finnist ég svolítið fyndin sem er gott fyrir sálartetrið. Ég var líka í óvenju góðu skapi, hafði rétt á undan klárað verkefnin í forna málinu og hljóðfræði. Hafði verið að geyma það sem ég skildi ekki en eftir tíma í báðum fögum rann loks upp fyrir mér ljós.
Eftir samtal okkar Hlífar og skil á verkefnum trylltist ég heim og bjó mig undir að fara í göngutúr í góða veðrinu. Ég gróf upp leikfimibuxurnar mínar sem guði sé lof eru úr teygjuefni svo þrátt fyrir fögur aukakíló passa þær enn fínt. Tróð mér ansi í þröngan íþróttatopp og með brjóstin upp undir höku skellti ég mér í bol og lopapeysu. Yfir öll herleginheitin fór ég svo í vindgallan minn. Buxurnar voru rétt mátulegar þegar ég keypti þær síðastliðið vor. Þær eru ekki mátulegar lengur. Strengurinn hefur reyndar alltaf verið pínu þröngur en núna er hann nánst hættulegur. Ég dró buxurnar eins langt upp í mitti og ég gat (sem var mjög lekkert) en þrátt fyrir að þær væru þá utan um mig þar sem ég er grennst á minni bumbu ollu þær mér nokkurri andnauð.
Jakkann komst ég áfallalaust í en gönguskórnir þvældust ögn fyrir mér. Ekki af því að ég kann ekki að reima heldur vegna þess að þegar ég beygði mig fram (ég sat á stigaskörinni) þrýstist buxnastrengurinn inn í magann á undarlegum stað og skapaði undarlegar fellingar á maganum sem komu í veg fyrir að ég gæti almennilega beygt mig. Ég var örg út í spikið á mér þegar ég skellti á eftir mér hurðinni.
Ég komst samt afur í gott skap þegar ég kom út þótt komið væri hífandi rok. Ég fékk ipodinn hans Einsa bró lánaðann um daginn og var ótrúlega spennt yfir græjunni og tónlistinni sem hún innihélt. Mér tókst að kveikja (mundi leiðbeiningar Einars) og finna playlistann. '90´s lög' hugsaði ég, 'hvað ætli það sé'. Fram streymdu lög sem voru vinsæl bæði þegar ég var úlli í sálarkreppu í gagnfræðiskóla og þegar ég var menntskælingur heltekinn krónískri sálrangist. Radiohead, Prodigy, Creed, Nirvana, Fugees, etc. Það er skondin tilhugsun að systkini mín ólust ekki upp við þessi lög, lög sem nú teljast til 90's kynslóðar laga en eru ekki 'lög núsins' ef þið skiljið mig. Mér finnst svo stutt síðan ég hlustaði á þetta allt að það geti bara alls ekki hafa verið fyrir aldamót, fyrir áratug.
Allavega. Göngutúrin varð ekki sú orkuganga sem hann átti að vera. Hann var hrein og bein háskaför. Með vindbuxurnar sleiktar yfir rassinn (svo sá í útlínur nærbuxna og hefur líklega mátt fylgjast með því hvernig þær þrjóskuðust við að halda sig á rasskinnum og færðu sig í þvermóðskunni sífellt nær boru) og vindinn í andlitið hökti ég áfram. Það var glerhált. Klaki út um allt og vatn yfir öllu. Ég hafði ekki gert ráð fyrir þessu. Það var ekki mikil reisn yfir mér á göngunni, ég rann sífellt til og gaf frá mér hina ýmsu skræki í hvert sinn sem ég var nær dottinn og ég labbaði eins og spýtukarl þar sem ég spennti hvern einasta vöðva við að reyna að halda mér lóðréttri. Ég endaði á því að þræða alla skafla sem ég sá og sem lágu meðfram gangstéttunum. Væri auður blettur á ganstéttinni eða örfá sandkorn nýtti ég mér það. Ég hef verið eins og fáviti, hoppandi og skoppandi og skrækjandi.
Þetta var aðeins betra þegar ég var komin niður í Laugardal og á Laugarásvegi var ég komin á gott skrið. Ég var eiginlega hálf örmagna þegar ég kom heim og var að drepast í fótunum langt fram eftir kvöldi. Sem var góð tilginning.
Þegar ég kom heim gat ég ekki slökkt á ipodinum. Hrund kunni það ekki heldur. Ég hringdi í litlu systur mína sem ég held að hafi ekki trúað sínum eigin eyrum, hvað þá tæknifötlun minni:
'Hæ Elísabet. Hvernig slekk ég eiginlega á svona ipodi?
'Hlátur (sem í fólst undrun áður en hann var snögglega kæfður)'. Þú ýtir bara á stopptakkann niðri'
'Það er enginn stopptakki niðri'
'Ýttu þá á stopptakkann uppi'
'Það er enginn stopptakki uppi, bara playtakki'
'Hvernig ipod ertu eiginleg með?' (orðin pínu óþolinmóð)' Rabis eða travis eða gimli ...'
'Ég veit það ekki. Einars ipod!!! ´(gríp ég fram í örvæntingarfull)
''Ýttu þá á playtakkann'
'Ef ég geri það kemur bara eins og skuggi yfir allt en það slokknar ekki á honum'
'Haltu honum inni'
'Já. já, já. Ég gat það, það slokknaði honum. Ok, takk, bless.'
Ég er hipp og kúl nútímakona sem fer í gönguferðir mér til heilsubótar með fancy ipod.
'
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.2.2008 | 12:29
Þrjár þreyttar
Við, hinar þrjár þreyttu, viljum biðjast þess að samfélagið hætti að krefjast þess af okkur að við vöknum klukkan hálf sjö á morgnana eða eitthvað álíka. Það getur hreinlega flosnað upp úr samböndum og heilu fjölskyldurnar orðið að engu sé þessu haldið áfram. Morgunfýla, óréttmætur pirringur út í fjölskyldumeðlimi og sambandsleysi milli heila og tauga getur verið bæði nánustu og öðru fólki hættulegt.
Svefn til átta! er slagorð dagsins.
'Heldurðu að þú eigir einhvern tíma eftir að eignast lítið systkini' spurði ég molann við matarborðið í gær. 'Já' svaraði hún án þess að hika. 'Hvort heldurðu að það verði í mallanum á mömmu eða mammí?' hélt ég áfram. Barnið leit á mig og svaraði í þannig tón að ekki var um að villast að henni fannst spurningin kjánaleg: 'Þééér'. Já, já, hvernig spyr ég. 'Hvort heldurðu að það verði strákur eða stelpa' spurði ég. 'Strákur' sagði hún um leið og hún mokaði upp í sig jógúrt.
'Þetta hljómar eins og spádómur´sagði ég við Hrund sem var mér sammmála. Ég sagði við Rakel að kannski myndi hún eignast lítinn bróður einhvern tíma en núna væri ekkert barn í maganum á mér. 'Já, sveinna (lesist: seinna), á morgun þegar ég er búin að sofa þá er litili bróðir í maganum' sagði hún óðamála. Já, já, á morgun, sveinna, kemur í ljós.
Það eru sem sagt allir með lítil börn á heilanum í kotinu og eggjahljóðin í okkur Hrund eru líkt og krónískt lag sem fylgir okkur hvert fótmál. Við höfum nú ekkert rætt barnalöngunina neitt sérstaklega við Rakel en hún ákvað það allt í einu að hún væri að fara eignast lítinn bróður eins og augljóst ætti að vera af fyrri lýsingum á orðum hennar og gjörðum.
Um helgin tók svo steininn úr þegar hún vildi að litli bróði kæmi með í bílinn. Þegar ég kom inn í herbergi til að ná í hana var hún að tala við hann. 'Litli bróðir kemur með' sagði hún og benti á það sem í mínum augum var veggur. Ég vék mér undan því að svara, umlaði eitthvað bara. Þegar ég ætlaði svo að festa hana í bílstólinn vildi hún að ég hjálpaði litla bróður fyrst inn í bílinn. Gud i himmelen.
Það sem er spúkí við þetta er að Rakel hefur alltaf verið skyggn, eins og flest börn, og er það mjög greinilegt að hún sér eitthvað. Svoleiðis hefur það verið síðan hún var ponsu og þegar hún var rétt um eins árs þurftum við að fá mann til að losa hana við fólk sem var að trufla hana. Fyrst þá fór hún að sofa og leika sér í herberginu sínu. Það kemur enn þá fyrir að hún vaknar upp og talar um menn sem trufla hana og á það til að vinka einhverjum fram í forstofu þegar við sitjum við matarborðið.
Þetta með bróðurinn er einstakt. Auðvitað gæti hann verið ímyndaður og ekkert óeðlilegt við það. Hins vegar er það miklu skemmtilegri tilhugsun að hún sjái bróður sinn sem koma skal (ef svo má orða), næsta barn okkar Hrundar sem ég mun ganga með.
Ég hef velt orðinu 'tekjur' fyrir mér undanfarið. Ég ætlaði að vera búin að fletta því upp í orðbaók en gleymi því alltaf. Sá skilningur sem ég legg í orðið er sá að tekjur séu ákveðin innkoma (er þetta kannski viðbjóðsleg sletta?). Hægt sé að hafa tekjur AF einhverju, líkt og vinnu. Kannski er þetta hinn mesti misskilningur hjá mér. Þegar hringt er í mig frá Gallup og svipuðum fyrirtækjum er jafnan spurt um tekjur þegar ég lendi í úrtaki. Fyrst svaraði ég einatt að þær væru engar (ég hef ekki tekjur af neinu), hins vegar væri ég í námi og hefði tekið lán, hvort það teldust tekjur? Mér hefur yfirleitt verið svaraði játandi. Eina konu setti reyndar hljóða og sagðist hún bara aldrei hafa velt þessu fyrir sér. Var hún sammála mér í því að lán gæti varla flokkast sem tekjur.
Það væri nátla æðislegt ef lán væri sama og tekjur og ég þyrfti því ekki að borga neitt til baka að loknu námi.
Að lokum: ég meinti að ég hefði skrifað þrjár örsögur, ekki smásögur miðað við nokkuð almenna skilgreiningu á fyrrnefndum hugtökum. Ég sendi reyndar Mími, félagi íslenskunema, póst áðan og bað um nánari útskýringu á hugtakinu smásaga í þeirra huga þar sem í gangi er smásögukeppni. Það liggur alls ekki fyrir mér að skrifa smásögur (sögur sem eru meira ein til ein og hálf blaðsíða) en fátt veit ég skemmtilegra en að skrifa örsögur, sérstaklega í tíma. Skólastofa er staðurinn þar sem andinn kemur oftast fyrir mig.
Eins og alltaf á ég að vera að læra. Kannski ég byrji á því núna. Ætlað líka að fara í göngutúr á eftir og þrífa íbúðina með Hrund svo ég má engan tíma missa.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.2.2008 | 23:25
Ótrúlegt
Ég trúi því ekki fjandinn hafi það að önnin sé að verða hálfnuð. Í næstu viku er kennsluhlé og svo helmingurinn eftir. Venjulega er ég metnaðurfull og samviskusöm fyrri hluta annar en eftir kennsluhlé finnst mér önnin eiginlega vera búin og bíð bara eftir prófunum.
Núna finnst mér ég bara hafa eytt vikum í birtuþunglyndi, streptókokka og veikt barn. Hef hreint ekki lært mikið og hef ekki haft nennu til eins né neins. Hef mest setið og starað út í loftið, horft á kennara tala og ekki meðtekið orð, stunið (og stundum öskrað) yfir verkefnum heima við og oft á tíðum gefist upp. Farið í staðinn að horfa á sjónvarpið eða skilað ófullkomnum verkefnum.
Þjáist af þreytu og ógleði. Væru ekki ár og dagar síðan ég var síðast við karlmann kennd væri ég núna að pissa á spjald.
Í dag ætlaði ég loksins að stunda einhverja hreyfingu. Ætlaði upphaflega að taka nýja árið með trompi. Það er að verða komið fram í miðjan febrúar og ég hef eytt tímanum í að fitna. Eftir að hafa lagst yfir myndir um helgina og komist að þeirri niðurstöðu að undirhakan mín sést nú þrátt fyrir að ég horfi beint fram (þ. e. ekki niður en þá má sjá undirhöku á flestum) ákvað ég að þetta gengi ekki lengur. Náði mér líka loks á strik í mataræðinu um helgina en það hefur verið undarlegt á því herrans ári 2008.
Ekkert varð úr hreyfingunni í dag þar sem ég var að drepast úr ógleði.
Núna er ég að drepast úr þreytu.
Ég er reyndar búin að gera einn fyrirlestur í spænsku á undanförnum vikum.
Ég hef líka sett í óteljandi þvottavélar, vaskað upp og skeint barnarass.
Skrifað þrjár smásögur og lesið nokkrar bækur.
Og heimsótt ömmu og afa mörgum sinnum.
En ég veit ekkert hvað ég vil gera á afmælinu mínu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.2.2008 | 21:34
Fin de semana
Sit hérna nýböðuð upp í sófa með tölvuna mína og blogga. Hrund er að læra stærðfræði og skemmtir sér konunglega. Hef sjaldan séð manneskju læra af jafn mikilli áfergju. Heyrði hana setja kaffivélina í ganga áðan og fór inn í eldhús til hennar að gefa okkur pensilín. 'Hvort ertu að fara mála eða læra' spurði ég þar sem aðeins annað hvort kemur til greina þegar hún drekkur kaffi á kvöldin. Það var lærdómur að þessu sinni.
Helgin var ljúf. Hrund fór í skólann á laugardaginn og á meðan skelltum við molinn okkur í íþróttaskólann og á eftir í afmælisgjafakaup. Þegar Hrund var kominn heim fórum við svo í afmæli til Helenu frænku (sem varð þriggja ára), dóttur móðurbróður hennar Hrundar. Þær stöllur, Rakel og Helena, fóru á kostum og léku sér þangað til þær voru sveittar og þreyttar. Við enduðum daginn heima hjá mömmu í saltkjöti og baunum en loksins varð eitthvað úr því áti.
Í dag byrjuðum við á því að fara með Einari upp á hól hjá Breiðagerðisskóla og renna okkur á snjóþotu. Djöfull er það ógeðslega gaman. Einar, Hrund og Rakel fóru svo út í garð hjá mömmu og byggðu þetta líka svakalega snjóhús með göngum í gegn og ég veit ekki hvað. Meira að segja Hrund gat setið upprétt í því. Á meðan lærðu mamma og Elísabet (auðvitað ekki ég, ég nenni ekkert að læra) og ég bjó til eggjasallat, tók fram brauð og álegg, bakaði Costa Rica pönnsur (endurbætta útgáfu með spelti, agave sýrópi og lífrænu lyftidufti) og bjó til heitt súkkulaði.
Eftir átið héldu kvennsurnar áfram lærdómi á meðan við Einar, Hrund og Rakel komum okkur fyrir í sófanum og horfðum á teiknimynd. Reyndar var það aðeins Rakel sem horfði á meðan við hin dottuðum.
Svo bara dúlluðum við okkur. Rakel lék sér eins og engill, sníkti það hjá Elísabetu að fá að hlusta á uppáhaldslagið sitt með The Knife: Is it medicin or socialskills. Svo söng hún þetta látlaust og dansaði með sem var kostuleg sjón.
Eftir pizzuát drifum við okkur heim og hér erum við. Er að hugsa um að vista myndir inn á disk. Tölvan er farin að frjósa svo oft og er hrædd um að hún hrynji hvað úr hverju. Vil alls ekki glata myndunum.
Svo bíður mín mánudagur á morgun og allur sá lærdómur sem honum fylgir. ÚJE.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2008 | 14:16
Vangaveltur
Mér finnst frekar leiðinlegt þegar verið er að hringja í mig í kosningum til stúdentaráðs og fólk að sækjast eftir atkvæði mínu. Ég skil það hins vegar vel og sé farið rétt að því er það í lagi. Það má alveg spyrja mig hvort ég hafi myndað mér skoðun eða hafi áhuga á því að heyra baráttumál viðkomandi. Mér finnst hins vegar fyrir neðan allar hellur þegar frambjóðendur kynna sig með nafni og segjast vera með manni í þessum og þessum tíma (ég kveiki yfirleitt ekki á neinum perum þar sem ég er með afbrigðum félagslega heft og þekki fæsta sem eru með mér í tímum) og 'ætlaði bara að athuga hvort ég hefði ekki þinn stuðning?'. Því miður, nei, það hefurðu ekki. En hlakka til að sjá þig í næsta tíma vinkona. Öööhhh. (tveir sætir strákar komu heim til mín í gær með atkvæðaseðil og leyfðu mér að kjósa, eins og siður er víst þegar fólkt er veikt heima, snilld).
Druslaðist í skólann í dag þótt þreytan og slappleikinn neiti að yfirgefa mig. Glápti mest út í loftið, ófær um að hugsa og meðtaka spænskuna sem vall út úr kennaranum. Er haldin annarlegum (þ. e. ekki í merkingunni undarlegum heldur 'önn' í ef.-legum= annarlegum) skólaleiða. Hann kemur og fer. Yfirleitt tekur brennandi áhugi og metnaður við. Bíð því kaflaskila.
Fór og fékk mér fiskisúpu og mömmu eftir tíma. Fiskisúpu fyrir kaldan kroppinn og mömmu fyrir sálina. Er hressari eftir það. Komin heim, tilbúin í forna málið og hljóðfræði. Á í vandræðum með það seinna. Finnst verkefnin fjandanum erfiðari. Ekki spillir fyrir að ég held að Einar Freyr kærasti Hlífar ,sem var að vinna með mér í sumar (og kærastinn hennar líka þótt hann væri í öðru verkefni), sé aðstoðarkennari. Hef á tilfinningunni að álit hans á færni minni í íslensku og almennu brjóstviti verði orðið að engu í lok annar (ég veit að það er ógesslega asnalegt að lesa um sig í 3. persónu Hlíf, er nokkuð viss um að þú lesir þessa færslu). Það er bara svo skrítið að vera með aðstoðarkennara sem kannski voru með manni í tímum eða að vinna með manni. Fannst ýkt fyndið að hitta Hlíf í sumar og vinna með henni þar sem hún hafði verið aðstoðarkennari í einhverju námskeiði á hverri önn síðan ég byrjaði í skólanum. Manni finnst maður hálf berrassaður og kjánalegur og verður ýkt feimin. Allavega ég.
Ég vildi að ég yrði ekki alltaf svona sjóveik. Var að skoða bækling frá Norrænu og jösses hvað ég væri til í að ferðast með henni og taka svo Lególand og elsku Sverige áður en haldið yrði heim aftur. Við gætum allar þrjár verið í blómakjólum og með sumarhatta eins á myndinni í bæklingnum.
Ég hef reynt sjóveikisarmbönd og sjóveikispillur. Síðast þegar ég tók frerju var það með lýðháskólanum í Danmörku, við vorum að koma frá Prag og tókum ferju yfir til Danmerkur einhvers staðar frá. Fyrst tókum við nátla ferju frá Danmörku og þá tók ég eina pillu. Lá á klósettgólfinu alla ferðina og kúgaðist án þess að æla. Oddný vinkona lá á næsta bás. Á leiðinni til baka ákváðum við að taka tvær. Ég hef aldrei farið í aðra eins vímu á ævi minni. Við stauluðumst um borð í ferjuna ó svo hátt upp á sjóveikispillum og lágum svo á gólfinu í setustofunni algjörlega rotaðar og slefuðum í vímunni. Mér var flökurt í marga daga á eftir.
Og svo get ég alls ekki flogið lengur. Grenja bara eins og krakki og er með ólæti. Það vantar bara að ég geri í buxurnar af hræðslu.
Ég verð að fara að læra menn og konur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.2.2008 | 12:22
Hugmyndsnauð
Get ekki varpað fram neinum fyrirsögnum, hugsanir mínar eru seigfljótandi. Öll orka líkamans fer í að lækna mig. Hélt að ég myndi vera nokkuð hress í dag en er alveg jafn slöpp og í gær.
Get ekki lært spænsku. Horfi bara á verkefnið og skil ekki neitt. Neyddi mig til að hlusta tíma á netinu sem ég missti af í morgun og held ég láti það duga. Fékk svo mikið samviskubit yfir slugsi (sem er nátla ekki slugs þegar maður er veikur) að ég hringdi í mömmu. Hún getur alltaf róað mig. Hún sagði að það skiptu mesta máli að ég yrði frísk, svo gæti ég lært. Rétt hjá henni. Ég held ég leggi mig. Get ekki haldið augunum opnum.
Rakelin hefur beðið spennt efir 'sprengjudegi'. Ég held hún tengi hann við flugelda en þá kallar hún sprengjur. Við reyndum að segja henni í gær að það væri sprengidagur og að það þýddi að þá borðaði maður þangað til maður væri að springa. Hún meðtók þetta ekki alveg. Og þó. Ég hafði ekki orku í meira en að hita franskar og pizzu handa krílinu í kvöldamt (mér finnst hræðilegt að hafa ekki orku í að gefa henni almennilegt að borða, fiskt og kartöflur og sallat og þannig) og hún át tvær pizzusneiðar (sem hún gerir aldrei, sérstaklega ekki ef það er eitthvað með, hún er ekkert rosalega hrifin af pizzu) og bað um meira af frönskum og svo borðaði hún hálfa bolludagsbollu með öllu tilheyrandi. Og þambaði bæði vatn og mjólk. Ég er ekki vön að leyfa henni að borða svona mikið (enda gerir hún það sjaldan, nema kannski þegar hún borðar haustkex eða cheerios, þetta tvennt er það besta sem hún veit og það verður að skammta henni) en ég varð í gær, þetta var mjög áhugavert.
'Er sprengjudagur búinn' spurði hún hálf leið í morgun. Við sögðum hann liðinn en nú væri hins vegar öskudagur og hún mætti fara í búninginn sinn. Hún var svo öskrandi glöð og hoppaði um og á okkur Hrund sem kveinkuðum okkur. Hún fór himinsæl í leikskólann, sætasti læknirinn í bænum.
Barnið var að drepast úr leiðindum þegar leið á daginn í gær, sérstaklega þar sem við höfðum ekki nógu mikla orku til að leika við hana. 'Má ég ekki bara fara til pabba' bað hún seinnipartinn þegar henni fannst nóg um athafnaleysið í mæðrum sínum. Eftir kvöldmat og bað sögðum við að hún mætti leika sér á meðan við horfðum á fréttirnar og svo myndum við lesa. Fimm mínútum síðar var hún mætt inn í stofu: 'Ég er alveg búin að leika mér svona og svona og svona mikið' sagði hún og notaði putta og hendur til að sýna okkur umfang leiksins. Við sögðum að það væri nú ekki mikið annað að gera en að fara þá að sofa. 'Góða nótt' sagði þá ormurinn, fór inn í herbergi, slökkti ljósin og lagðist upp í rúm. Whot?
Við héldum inn á eftir henni skömmu seinna og sögðum henni að klukkan væri bara tíu mínútur yfir sjö. Hún ætti líka eftir að fá meðalið og bursta tennurnar. Hún sættist á það að taka með sér bækur inn í stofu og skoða upp í sófa á meðan við horfðum á hrömungarnar í sjónvarpinu. Svo las hún hátt og snjallt fyrir sjálfa sig og hló undarlegum hlátri, skríkti og veinaði og ég veit ekki hvað.
Við heyrðum ekki orð af fréttunum.
Barnið er snillingur.
5.2.2008 | 13:32
Aumingja við
Það er ekki laust við að sjálfsvorkunnin sé alveg að fara með okkur hérna í kotinu. Við Sprundin stynjum í kór og drögum á eftir okkur lapprinar þegar við neyðumst til að standa upp.
Rakel er ýkt dugleg, farin að taka lyf í töfluformi. Gott að sleppa við bragðvonda vökvann. Svo troðum við í okkur Ab-mjólk og asidofílustöflum (nenni ekki að gá hvernig þetta er skrifað) til þess að vinna á móti sveppamyndun og öllu því sem fylgir pensilíni. Þetta er ekki það besta fyrir magan og flóruna þar. En hallelúja. Hálsbólgan er að hjaðna!
Rakelin er heima þar sem hún smitar þótt hún sé annars frísk. Streptókokkar er algjör faraldur á leikskólanum. Þegar ég hringdi þangað í morgun til að tilkynna hana veika var þegar búið að tilkynna þrjú önnur börn með þetta.
Það tekur á að sinna henni en sem betur fer en hún yndislegur dundari. Kemur fram öðru hvoru og biður um fá að hlusta á eitthvað eða bara til að fá knús. Situr núna inni í tjaldinu sínu og perlar og hlustar á dýrin í Hálsaskógi. Var að minnsta kosti að því. Nú berast undarlegir dynkir frá herberginu hennar sem segja mér að hún sitji ekki róleg og stillt.
Ég afrekaði það að vaska upp áðan. Það hefur ekki verið gert lengi sökum veikinda. Ég tók þetta í tveimur hollum og gat varla staðið upprétt á meðan. En það hafðist.
Æ, ógesslega leiðinlegur pistill.
'Mamma og mammí' gall í barninu á læknavaktinni í gær. 'Hafið þið aldrei eignast barn?' spurði hún. Ég sagði henni að við ættum hana og spurði hvort hún væri ekki barn. Hún sagðist vera það en fannst mun merkilegra að hún væri með barn í maganum. 'Það er aaalveg að brjótast út' sagði hún og blés út magann. Barnið er með börn á heilanum.
Um daginn þuklaði hún brjóstin á mér og velti því fyrir sér hvort það væri mjólk í þeim.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar