Mánudagur

'Það er eins og ég sé drukkin' sagði ég þar sem ég hrasaði um skótauið á leið minni út úr dyrunum.

'Þú ert bara drukkin af gleði' sagði konan mín blíðlega og brosti til mín.

Ég var boðin í afmæli hjá einni í mömmuklúbbnum á laugardaginn og þar sem ég hef nú farið ansi sjaldan út síðan 2008 án þess að vera ólétt og/eða alveg edrú hlakkaði ég mikið til. Ég drakk þrjá litla bjóra, spjallaði frá mér allt vit og hló og hló og hló. Kom heim um þrjú, gaf Röskvu brjóst og rotaðist. Var svo að farast úr þreytu í gær en andlega var ég í toppformi. Þessi mömmuklúbbur er skemmtilegastur í heimi, var áður bumbuhópur en er núna mömmuhópur og við náum allar svo vel saman. Skemmti mér alltaf konunglega með þeim.

Helgin var góð. Fórum á víkingasafnið í Perlunni allar fjórar og Röskva var í fyrsta skipti í kerru. Hún undi sér vel og var svo væn að sofa á meðan við vorum á safninu. Við fengum okkur svo kaffi og með því á kaffihúsinu áður en við Röskva fórum til mömmu og Hrund og Rakel í skógarferð í Öskjuhlíð. Á sunnudaginn skelltum við Rakel okkur í sund með mömmu og Hrund fór hér um eins og hvítur stormsveipur. Setti í hundrað vélar, vaskaði upp, sá um Röskvu og þreif meira að segja glerið í eldhússkápnum. Eldaði svo kvöldmat á meðan ég bjó til sjúklega góðan súkkulaðibúðing úr lárperum, banönum, kakó, agave og kókosolíu. Elska fjölskyldulífið.

Við Röskva örkuðum út að verða ellefu í morgun og stefndum á Laugardalinn. Ég fór í fyrsta skiptið í kerrupúl og sjiiiiiiiiit hvað það var erfitt. Þetta er ekkert rölt með kerrurnar. Við stikuðum á örugglega 50 km hraða um Dalinn, hlupum og skokkuðum, gerðum armbeygjur, hnébeygjur og ég veit ekki hvað og sprettum inn á milli á meðan börnin hossuðust í vagninum. Ég hélt ég myndi gefa upp öndina á leiðinni heim og handleggirnir á mér titruðu þegar ég var að bera Röskvu upp stigann. Geggjað og aftur geggjað. Verð þrisvar í viku í 8 vikur og djöfull mun ég vera komin í gott form.

Er alveg að verða geðbiluð á þessum vagni og Röskvu sofandi í honum. Hún sefur alltaf svo laust, það má varla hreyfa vagninn og svo er hún sífellt að rumska og stundum finnst mér ég eyða heilu dögunum í það að standa út á svölum eða hlaupa upp og niður stigann þegar hún sefur úti á palli. Ég er þakklát fyrir að hún sofi eitthvað en ég fer ekki ofan af því að það væri MIKLU MIKLU þægilegra ef barnið væri til í að sofa inni. Reyndi það aftur um daginn og ekki séns. Oh.

Pabbi kemur í næstu viku og svo fer ég bráðum að gefa Röskvu smá matarsmakk í hádeginu. Kannski þegar hún er svona 5 og hálfs mánaða. Hún hefur engan áhuga á pelanum sínum lengur og maður er hálftíma að koma mjólkinni ofan í hana. Held að hún sé alveg að verða tilbúin að fá smá sæta kartöflu eða lárperu.

Svo eru það bara páskar. Og ekki of mikið af páskaeggjum.

 


Jesús var ávöxtur

Trú er yndisleg en trúarbrögð geta verið algjör hringavitleysa. Rakelin spáir mikið í þessu eins og öðru og er mikið í mun að vita hverju ég trúi þótt hún sé eitt spurningamerki þegar ég reyni að útskýra trú mína fyrir henni. Ég trúi því að Jesú hafi verið til, finnst það allavega líklegt en ég trúi ekki að hann hafi verið sonur guðs og hef lítin áhuga á því sem stendur í Biblíunni. Fyrir mér er guð allt það góða í heiminum og bænir okkar orka sem hlýtur að skila sér til baka. Ég trúi ekki á himnaríki né helvíti og alls ekki á erfðasyndina.

Ég reyni alltaf að segja Rakel að hver manneskja eigi sér sinn guð og hún megi ákveða hvernig hennar er. Það er rosalega erfitt að veita barninu sínu ákveðið trúarlegt uppeldi þegar farið er í kirkjur í skólum og leikskólum og eitthvað sagt sem maður er alls ekki sammála. Ég er samt frekar róleg yfir þessu, þegar þroskinn og skilningurinn verður meiri getur Rakel fundið út úr þessu sjálf, hverju hún vill trúa. Þangað til heyrir hún eitt heima hjá sér, annað hjá pabba sínum og enn eitt í leikskólanum.

Á miðvikudögum er Hrund í skólanum og mamma er svo yndisleg að bjóða okkur alltaf í mat og hjálpar mér með stelpurnar. Í gær svæfði ég kút og hún las fyrir Rakel og fór með bænirnar með henni. Það var eitthvað um trú í vísunum sem mamma var að lesa og Rakel var í miklu uppnámi yfir þessu öllu saman. Mömmu fannst eins og hún upplifði það þannig að af því að ég og Hrund trúum því ekki endilega að Jesú hafi verið sonur guðs og trúm ekki á engla og himnaríki þá munum við hreinlega fara til helvítis! Það er svolítið svakalegt og enn ein rökin fyrir því að það á ekkert að vera að troða trú í leikskóla. Reyndar veit ég að amma hennar pabba megin er trúuð og hefur kennt Rakel ýmislegt. Allt í góðu með það þótt ég sé ekki sammála öllu en slæmt að Rakelin skuli taka þetta allt svona nærri sér. Hún fór svo ekki ofan af því að mammí trúði því sko að Jesú hefði verið ÁVÖXTUR. Hahahaha. Ég veit ekki alveg hvað hún hafði í huga og reyndi að leiðrétta þetta í morgun. Hún horfði aðeins í augun á mér, sagði já og skipti svo snögglega um umræðuefni. Alveg komin með nóg af þessu rugli barnið.

Annars er ég að fara að byrja í kerrupúli líklega á mánudaginn. Það verður geggjað! Ég hef þá reyndar minni tíma til að vaska upp og sjá um þvott en ég er líka komin með gubbuna af því að sjá alfarið um það. GUUUUUUUBBBBBB. Finn að það er komið ákveðið eirðarleysi í mig, er búin að vera heima í bráðum 5 mánuði og þar á undan var ég líka heima með óléttubumbu. Ég þarf að hafa eitthvað meira að gera. Átröskunarpúkinn hefur líka látið á sér kræla með stæl aftur og ég er alveg að missa tökin hérna ein með ísskápnum. Er farin að verða svolítið smeyk og veit að kerrupúl þrisvar í viku mun koma mér á strik aftur.  Ég rölti þá  með vagninn niður í Laugardal og svo gerir maður sérstakar æfingar sem eru hannaðar fyrir mömmur með barnavagna. Aaaaaalgjör snilld.

Pabbi er svo að koma ef tæpar tvær vikur og það verður æði. Stefnum á eina Þingvallaferð, smá kökuboð heima hjá mömmu og svo skiptumst við á að elda og eiga kósý kvöldmáltíðir. Íha.

Best að fara að milchen sie tuten eins og maður segir á lélegri þýsku. Ætla sumst að fara að mjólka mig. Sem bæ ðe vei gengur svaka vel, mjólka um 900 ml ofan í skottuna á dag og hún blæs út og blómstrar og er farin að æfa sig í að sitja, litla montstrikið. Getur setið sjálf ef hún styður lófunum við gólfið og kannski í tvær sekúndur ef hún situr upprétt. Hún sat í fyrsta skipti í barnastól í gær. Góðum IKEA stól heima hjá mömmu. Ætlum að kaupa þannig fyrir hana að vera í þangað til hún verður eins og hálfs hér um bil. Þeir eru mjög traustir og ekki hægt að spyrna í borðið og steypa sér aftur og svo er auðvelt að pakka honum saman og taka með í heimsóknir. Hún er orðin svo stóóór. Eftir mánuð fer ég að gefa henni að smakka mat. Sjæse.

Farin að mjólka.


Étið úti

Ég og spúsan ætlum út að borða í kvöld. Höfum ekki gert eitthvað bara tvær síðan ég var ólétt. Ætlum að halda upp á sambandsafmæli, blessun og lífið og tilveruna og reyna að vera svolítið rómantískar. Í hamagangi og rútínu dagsins er stundum eins og maður eigi herbergisfélaga eða samstarfsmann frekar en lífsförunaut. Það er bara alltaf svo margt sem þarf að gera. Maður er orðinn vanur að tala í stuttu máli, hækka röddina og láta ekki trufla sig þótt einhver lítill hangi í manni á meðan. Uppáhaldsstundirnar mínar eru í kvöldmatnum þegar við stelpurnar mínar ræðum saman og svo er líka notalega þegar skotturnar eru sofnaðar og við Sprundin geyspum saman yfir einhverjum sjónvarpsþætti eða kjöftum frá okkur allt vit. Það er góðs viti í sambandi þegar umræðuefnin eru óþrjótandi. Okkur Hrund gefst sjaldan tími til að tala um allt sem við viljum.

Annars erum við ekki nógu duglegar að finna okkur eitthvað að gera saman. Einfaldlega vegna skorts á hugmyndum (og tíma að sjálfsögðu). Ég viðraði þessar vangaveltur mínar eitt sinn við mömmu sem benti mér réttilega á að tilhugalíf okkar Hrundar hefði bæði verið stutt og svo áttum við aldrei neitt líf saman barnlausar. Við djömmuðum um helgar og fórum í bíltúra og knúsuðumst en við fórum aldrei á dansnámskeið eða í ferðalög eða ræktuðum sameiginleg áhugamál. Við bjuggum okkur til líf saman með Rakelina sem kjarna. Mér finnst við stundum enn vera að kynnast hreinlega.

En það er líka bara gaman. Það verður allavega étið úti í kvöld og mamma ætlar að passa. Það er líka stórt og mikilvægt skref fyrir mig að fá einhvern til að passa og fara út (Hrund finnst það reyndar ekkert merkilegt en ég er voða stolt af mér) frá minni unganum. Röskva verður sofnuð svo það einfaldar hlutina enda myndi hún seint sætta sig við að einhver annar en við Hrund svæfðum hana held ég. Hún er líka bara peð. Næst mun pössunar verða þörf þegar við förum á frumsýningu á Kóngavegi 7, myndinni hennar Valdísar og ég vona heitt og innilega að það byrji ekki fyrr en eftir átta. Ég er bara ekki tilbúin til að láta einhvern annan svæfa. Ég er kannski algjör ungamamma en mér er alveg sama. 

Ég má vera það.


Blessun

Í gær, á 5 ára sambandsafmæli okkar Hrundar, var Aðalbjörg Röskva blessuð. Hjörtur Magni, Fríkirkjuprestur, kom heim til okkar og blessaði hana og vorum það bara við fjölskyldan og svo mömmur okkar Hrundar. Afslappað, notalegt og yndislega fallegt.

Ég er búin að setja inn nýtt albúm á Barnaland með myndum frá gærdeginum en hér er ein af mér og blessuðu barninu:

 img_4638_967690.jpg


Dans

Núna erum við Röskva búnar að dansa okkur sveittar við salsa. Hef ekki verið nógu dugleg að hlusta á salsa með henni því hún fílaði það sko í bumbunni og spriklaði þegar ég var að fíla mig.

Ég dansaði venjulegt salsa og gerði extra mikla mjaðmahnykki til að auka brennsluna og gerði svo æfingar fyrir grindarbotninn. Þetta reyndi miklu meira á en þegar ég fer út í kraftgöngu.

Núna liggur Röskvan á teppinu og hlustar og skríkir af kátínu og starir á græjurnar eins og hún geti séð hljóðið koma úr þeim. Hún er ekki dóttir móður sinnar fyrir ekki neitt. Hún er kannski algjör chela (hvít) enn sem komið er en hún er með latinoblóð í sér þrátt fyrir það.

Við Röskvan sváfum svo vel í nótt og það gerir svo mikið fyrir geðheilsuna mína. Ég er búin að fara hérna um íbúðina eins og stormsveipur og þrífa og skipta á rúmum og setja í vélar oooog slaka á og borða hollt með nýrökuðu lappirnar mínar. Fann loksins tíma og nennu til að taka hárin í gær og líður miklu betur. Ætla að skella smá naglalakki á táneglurnar á eftir og þá er ég bara flott mamma.

Vá, ég þurfti að stoppa til að fíla mig. Ég fæ gæsahúð á allan kroppinn þegar ég hlusta á salsa ...


Myndir

Nýtt albúm á Barnalandi. Kvittið endilega í gestabók ef þið skoðið.

Annars er ég bara ömurlega þreytt og Röskvan búin að vera pirruð.is og meirapirruð.com síðan í gær þegar hún grét næstum afmælið út í gegn og ég er bara búin á því.

Fékk mér pizzu í gær sem er svindl í hollustumataræðinu og líður bara illa með það.


Skoðun

Aðalbjörgin Röskva var í 4 mánaða skoðun áðan og er orðin 6,16 kíló og 63 cm. Skottan tók sig til og þyngdist um KILÓ á fjórum vikum sem er persónulegt met þar sem hún hefur verið að þyngjast um þetta 300 gr á mánuði. Hún skaut sér því aftur upp á meðaltalslínuna en er aðeins yfir í hæðinni. Hún er þá búin að þyngjast um rúm 2,5 kíló frá fæðingu og stækka um 14 cm. Bara flott!!!

Annars á amma Rósa afmæli í dag og allir boðnir í vöfflukaffi af því tilefni. Ég er búin að pakka (dí, hvað það þarf alltaf mikið dót fyrir börnin mín tvö) og gera allt klárt og ætla að skutlast þetta með stelpunum mínum í strætó í góða veðrinu.

Later ...


Gubb

Meeeeen, hvað ég er útæld í dag. Röskva sló öll met í ælu hreinlega.

Vá, hvað það getur gert mikið fyrir geðið að laga á sér hárið, setja á sig smááá sólarpúður og maskara og fara í kjól. Ég verð bara allt önnur manneskja.

Mikið svakalega get ég orðið sveitt þegar ég þarf að mæta eitthvað með Röskvu. Plana dúrinn, vekja, gefa að drekka, skipta, klæða í útiföt, troða í henni í bílstólinn sem hún hatar, klæða hana úr hjá lækni, fara í apótek, gleyma að klæða hana í gallann hjá lækninum og gera það í apótekinu, berjast við hana brjálaða þar sem hún vill ekki í galla og vill ekki húfu og vill ekki stól, finna snuðin sem mig vantaði að kaupa, fara með lyfseðil, leyta að veski, troða barni í stól, troða stól í bílinn hans afa, henda öllu frá mér þegar ég kem heim, klæða úr, hita pela, gefa pela, skipta um bleiu, klæða aftur í, drösla vagni niður á pall, troða barni í beisli og vagn, vaska upp, mjólka mig, borða, blogga og svona núna út að ná í Rakel.

Hlakka til þegar snjórinn fer alveg. Er ekkert að fíla neitt rosalega vel að torfærast með vagninn í honum.

Farin út með æluna á öxlinni.


Jæks

Ég verð víst 27 ára í þessum mánuði.

Röskva er orðin 4 mánaða.

Rakel fer í skóla í haust.

Hrund er að verða þrjátíu OG eins árs.

Pínu gömul svona.

Sko ég.


Djúsað

Ég fór á fyrsta djammið, ALVÖRU djammið í gær síðan í svona nóvember 2008. Þá fékk ég mér sem sagt síðast í glas og fór niður í bæ að dansa.

Me, oh men hvað það var gaman.

Vinnufjöldkyldan hittist og át, spilaði, spjallaði og sötraði frá sér allt vit og rölti svo niður í bæ. Gyða sveik mig ekki um dansinn (var búin að lofa að dansa með mér) og við dönsuðum á Barböru þangað til ljósun voru kveikt. Ég skreið svo inn úr dyrunum upp úr sex um morguninn og fílaði mig í tætlur. Reyndar var ég mjög fegin að vera drukkin því brjóstin á mér voru að SPRINGA af mjólk með tilheyrandi sársauka sem áfengið deyfði. Ég þurfi að tappa af áður en ég fór að sofa og nokkrum sinnum eftir það sem sleit svefninn svolítið í sundur en ...

það SKIPTIR EKKI MÁLI  því ég var að DJAMMA.

Treysti mér loks til að gefa Röskvu mjólkina mína að verða fimm um daginn (maður verður að vera aaaaalveg edrú og ég vildi ekki taka neina sénsa). Ég var búin að safna mjólk í marga daga og plana mig þvílíkt og vera stressuð og kvíða því að fara frá Röskvu en það var allt þessi virði.

Fékk svo indverskan og rótsterkan mat um kvöldið í boði Hrundar og nammi á eftir (nammidagur á laugardögum) og Sprundin sá að mestu um krílið. Hún fór svo á djammið um kvöldið og Röskvan var góð við mömmu sína og vaknaði EKKERT nema til að drekka. Það hefur ekki gerst í allavega þrjár vikur.

Núna er ég bara uppfull orku og svo glöð og hress og finnst ég get sigrað allan heiminn. Ég er samt ekki á leiðinni á neitt fylleríisdjamm neitt á næstunni aftur, það er alltof mikið vesen þegar maður er með barn á brjósti.

Þetta var ÆÐI. Nauðsynlegt að nota mikið af hástöfum til þess að lýsa þessu. Reyndar held ég að Oddný mín og Katla hafi verið á djamminu sama kvöld bara fyrir Norðan og ég rétt missti af Títu á Barböru en ég held að við höfum allar djammað saman í anda (höfum ekki djammað saman í einhver ár, get svo svarið það).

Vá.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband