Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

VOND mamma

Þetta gengur manna á milli í netheimum með reglulegu millibili og á vel við. Mamma var nefnilega svona vond mamma og ég stefni í það líka:

Var mamma þín vond ?
Mín var það!

Við áttum verstu mömmu í heiminum !
Þegar aðrir krakkar borðuðu nammi í morgunmat fengum
við hafragraut/hollt cheerios.
Þegar aðrir krakkar fengu pepsí og súkkulaði fyrir
hádegismat fengum við samlokur.
Og menn geta bara rétt ímyndað sér hvað hún gaf okkur
í kvöldmat, -allskonar MAT.
Mamma vildi alltaf vita hvar við vorum, ALLTAF, það
hefði mátt halda að við værum í fangelsi. Hún vildi
vita hverjir voru vinir okkar og hvað við vorum að gera
með þeim.
Hún krafðist þess að ef við segðumst ætla að fara
eitthvert í klukkutíma þá væri það aldrei meira en
klukkutími.
Þegar það var FRÍ í skólanum þurftum við að vinna.
Við þurftum að þvo diskana, búa um rúmin, læra að
elda, þvo þvottinn og annast önnur leiðinleg störf.
Við héldum að hún lægi vakandi á nóttunni bara til
að pæla út hvað hún ætti að láta okkur gera daginn
eftir
Hún lét okkur alltaf segja sannleikann, allann
sannleikann og ekkert nema sannleikann.
Þegar við vorum unglingar, gat hún lesið hugsanir
okkar.
Þá var lífið ERFITT !
Þegar allir fengu að fara á djammið og skemmta sér 12
eða 13 ára, fengum við ekki að gera neitt fyrr en við
vorum 16. ára.
Mömmu vegna misstum við af fjölda mörgu og miklu sem
aðrir krakkar gerðu.
hvorugt okkar hefur verið tekin fyrir að stela úr
búðum, eyðileggja fyrir öðru fólki eða verið tekin
fyrir nokkurt afbrot af neinu tagi.
ALLT henni að kenna.
Við urðum aldrei full, kunnum ekki að reykja, fengum
ekki að vera úti allar nætur og misstum því af að gera
svo fjöldamargt sem unglingar annars fá að gera.
Núna erum við flutt að heiman.
menntuð og gott fólk.
Við gerum okkar besta að vera vondir foreldrar eins og
mamma okkar var.
Ég held að það sé það sem er að í heiminum í dag.
Það er bara ekki nóg af vondum mömmum lengur. 

 

Kannski svolítið djúpt í árinni tekið að segja að ég hafi aldrei verið full, reykt né verið tekin fyrir að stela Blush en mömmur ráða ekki öllu og geta ekki verið með manni alltaf.

Mamma var allavega rosalega góð í því að vera "vond" mamma. Upp fyrir vondum mömmum!!!


Úff púff

Stundum er svo erfitt að leyfa sér að vona því ef allt fer á versta veg verða vonbrigðin svo mikil.

Stundum er betra að vera alveg kaldur, leyfa sér ekki að finna neitt.

Og stundum stendurðu þig að því að berja vonina niður með afli af þeirri ástæðu einni að síðast þegar vonin brást var það svo sárt að þú hélst að þú hefðir dáið eitt andartak.

Stundum er vont að vona.

Annars er ég að fara að byrja á BA-rigerðinni NÚNA.


Þann 17. september 2007 ...

... skrifaði ég meðal annars þetta:

Jarðneskir englar hafa ekki vængi enda þurfa þeir þá ekki til þess að fólk þekki þá úr fjöldanum.

Það á vel við í dag.


Í alvöru talað

Í gær, allt of seint um nótt, lágum við spúsan undir dúnsængum og vorum að stikna. Stormurinn barði gluggann að utan og ekki séns að opna hann án þess að gardínan færi á flug og skelltist utan í gluggakarminn með tilheyrandi látum.

Við vorum búnar að knúsast. Knús án nokkurra orða, upp í rúmi fyrir svefninn er það besta. Sé alltaf fyrir mér tvo hesta að nudda höfðum og hálsum saman. Konan hafði komið sér fyrir eins nálægt mér og hún gat og fékk að liggja þar nokkra stund þar til líkaminn kallaði á sitt rými og hún neyddist til að færa sig yfir á sinn kodda. Ég get sjaldan sofnað með einhvern ofan í mér, hvort sem það er hundurin hennar Inam, lítill rauðhaus með kaldar tær eða rjómahvíta konan mín (fleiri eru ekki svo mikið að reyna að koma sér fyrir í hálsakotinu mínu).

Við liggjum báðar á vinstri hlið og hlustum á vindinn. Frekar vakandi eftir knús og spjall (ok einræðu frá mér). Ég finn að brækurnar eru að trufla mig, einhvers staðar er eitthvað ekki eins og það á að vera og þar sem ég ligg með báðar hendur undir vanga bið ég mjúka konu:

'Ertu til í að laga aðeins nærbuxurnar mínar'

Konan verður við bóninni og það ekki í fyrsta skipti, lagar strenginn á bakinu og eitthvað fleira. Á meðan ég nýt klórsins sem ég fæ á bakið í kaupbæti hugsa ég mér að nánara geti fólk líklega ekki verið. Lagandi nærbuxur hvors annars. Það var góð tilfinning.

Annars náði ég í Gyðuna mína klukkan hálf sjö í gær og skilaði henni um hálf tvö. Allan tímann töluðum við út í eitt. Ég drakk fyrsta kaffibollann í viku og varð svo ör að ég fann sterka löngun til þess að taka nokkur spor á kaffihúsinu. Dillaði í stað þess fæti ótt og títt og sveiflaði höndum til þess að leggja áherslu á mál mitt. Við höfðum ekki hist í viku og soguðum félagsskap hvor annarrar í okkur.

'Mér finnst frábært hvað þú talar mikið' sagði Gyðan og mér þótti vænt um það. Gyða hefur alltaf verið eins og sól í lífi mínu, skinið skært á mig síðan ég kynntist henni, fyllt daga mína birtu og yl og verið órjúfanlegur hluti af lífi mínu. Vinkonuást er sko ekki síðri en önnur ást.

Í svefnrofunum í gær fann ég fyrir heitri hendi Sprundarinnar á mjöðminni á mér, elsku snertidýrið mitt sem getur ekki sofnað án þess að koma einhvers staðar við mig. Ég fylltist svo miklum friði og hugsaði um hvað ég væri heppin. Ég datt í lukkupottinn þegar ég kynntist Oddnýju minni og hélt ekki að ég yrði svo heppinn tvisvar í viðbót. Þrjá sálufélaga á ég. Einn dökkhærðan á Akueyri, svo óralangt í burtu, einn bundinn mér á marga vegu við hlið mér í rúminu og svo þann ljóshærða með síða hárið í Vesturbænum.


Hjálp

Inn á milli gleymi ég að mestu styrkurinn felst í að viðurkenna veikleika sína og leita sér hjálpar. Ég þarf að losa mig við þær hugmyndir um sjálfa mig að ég sé aumingi og muna að það er ekki samasemmerki á milli uppgjafar og þess að leita sér hjálpar. Þvert á móti.

Ég neita að gefast upp. Það er líka miklu erfiðara en að berjast. En hjálpina þigg ég með þökkum.

Og vona svo bara að ég finni orkuna til þess að skrifa þessa blessuðu lokaritgerð svo ég geti útskrifast.

 


Strútur

Fyrir Rakel er kind og hrútur það sama. Og hrútur og strútur.

'Hvað er kind?'

'Strútur'

Og ekki orð um það meir.


Og rauðhaus söng:

Febrúar, mars, aríl, maí, júlí, júlí, ágúst, september, oktomber og þá er vikan búúúúin'

 

'Hvenær áttu afmæli'  Vildu mæður vita

'17. júní???'

Gott gisk en ekki rétt


Lús í höfði

Um áttaleytið í gær hvarf Hrund í nokkuð langa stund. Ég heimtaði að fá að vita hvað hún hefði eiginlega verið að gera þegar hún kom til baka. Jú, hún hafði verið að kemba lús úr höfði sér.

Alien

Við vorum ekki glaðar. Aldrei fékk neitt af okkur systkinunum lús og þótt við Hrund höfum eytt óteljandi dögum við vinnu á leikskóla og Rakel við leik í honum þá höfum við sloppið.

Mig byrjaði samstundis að klæja.

Hrund fór og keypti lúsasjampó og kembdi svo á mér hausinn. Ég leit vægast sagt skrautlega út að því loknu, hárið leit út eins og það væri á leiðinni af hausnum. Og það er ekki gott að kemba í gegnum hnausþykkar krullur. En hárið var alsaklaust af lúsinni. Rifum barnið líka á fætur og kembdum það hálfsofandi og volandi. Ekkert. Settum bursta, höfuðföt og úlpuna hennar Hrundar og fötin sem ég var í um daginn í poka og út í frostið. Já, fötin mín. Þar sem þau lágu í rúminu sem Hrund hafði legið í með lús og mér leið betur að vita til þess að fötin væru fryst áður en ég færi í þau aftur. Tókum af rúminu og settum á suðu og settum hreint koddaver hjá Rakel.

Maður á nú ekki að þurfa annað en að frysta höfuðföt og bursta en látið mig bara vita næst þegar þið fáið lús hvernig þið tækluðuð þetta. Hvort ykkur hafi langað til að leggjast í rúmföt þar sem grey manneskja með lús svaf næturnar á undan.

Svo var það símatalið. Til Gyðu auðvitað. Hún er eiginleg hluti af þessari fjölskyldu nátla og var hér á bæði mánudag og í gær og knúsaði Rakel í bak og fyrir og við vorum/erum ekki vissar um hvort hún væri smituð (þ.e. Rakel). Mér leið örugglega svipað og manneskju sem kemst að því að hún er með kynsjúkdóm og þarf að segja hjásvæfunni það. Baðst afsökunar á því að trufla hana úti á lífinu en hvort hún myndi nú ekki kemba sig þegar hún kæmi heim. Nei, snoðun er engin lausn. Já, ok, þú vilt ekki tala meira um lús, já, bara sorry elsku vinkona með ótrúlega síða hárið.

Wizard Stuð

Ætlaði að skrifa eitthvað ótrúlega fyndið um Rakel en man ekkert hvað það var. Skrifa það seinna.

Jú, nú man ég það. Ég bjó til sjeik handa okkur í gær, smá ís, mjólk og fullt af berjum og banana. Reyndar dó blandarinn í miðjum hræringi. Úps. En ég kom þessu í glös og þetta var ljúffengt. Rakel hins vegar gretti sig þegar ég sagði henni í kvöldmatnum að það væri sjeik í eftirrétt og ég sagði henni að það væri enginn skylda að borða hann. Hún fylgdist með gerð sjeiksins og var nokkuð hissa þegar ég hellti í glas handa henni líka.

'Á ég að fá svona líka'

'Ef þú vilt, en þú þarft ekki að borða þetta. Engin skylda að borða eftirrétt'

'En ég vil'

'Gjörðu þá svo vel. Mundu svo bara næst að fúlsa ekki við einhverju sem þú hefur ekki smakkað'

'Ég hélt bara að þetta væri kennaratyggjó'

'Kennaratyggjó?'

'Já, ég hélt að sjeik væri bleikt kennaratyggjó og ég vildi ekki þannig'

 

Bleikt kennaratyggjó.

 


Strumpur

Mæðgur sátu í sófanum og spjölluðu. Mamman þreytuleg eftir daginn, strumpurinn alltaf jafn kátur í kisunáttfötum. Buxurnar í kuðli uppi á hnjám svo skein í ótal skrámur og marbletti. Ég breiddi yfir þær teppi og rétti þeim Herra Subba að lesa á meðan ég brá mér í sturtu. Þegar ég var búin og kom aftur inn í stofu var lestri lokið og Rakel að skoða bókina og spekúlera eins og hennar er siður.

'Sjáðu þessi fótaför út um allt. Ussususs'

'Þetta eru fingraför eftir herra Subba'

'Eru þetta fótaför?'

'Fingraför'

'O þá sagði Subbi: Hamingjan sannan, ég ætla bara fara inn í bókina og setja fótaför út um allt'

'Fingraför' 

 

Gyða reyndi að taka mál barnsins upp í gær. Barnið var svo yfirspennt að það gerði lítið annað en að öskra eins og ljón upp í eyrun á Gyðu eða gubba út úr sér hátíðnihljóðum. Svo mikin var gleðin yfir Gyðunni einu sönnu.

Tilraun tvö verður gerð á morgun. Það heyrist ekkert af upptökunni nema stöku öskur í barninu.

Undanfarna viku hef ég horft á tvöfaldan heimildaþátt um barnaþrælkun, tvær heimildirmyndir um útrýmingu Síonista á Palestínuaröbum og lesið nokkrar hörmungarsögur um ástandið á landamærum Bandaríkjanna og Mexikó. Ég er bara buguð. Langar að fara í burtu í ár og hjálpa en Hrund var ekki beint hrifin af þeirri hugmynd. Hún sagði að ég mætti fara í mánuð. Hugsa að ég nýti hann til að fara til Nicaragua með Simon litla bró við fyrsta tækifæri. Hann er svo stór og sterkur að hann getur borið mig í þeirri róandi lyfjavímu sem ég þarf að vera í til þess að lifa flugið af. Sakna hans og pabba endalaust. 

Hamingjan sannan 


Frost er úti ungarnir mínir

Klukkan hálf tíu í morgun stóð ég úti á tröppum vopnuð skólatösku og með tónlist í eyrunum. Daginn er tekið að lengja og birtan lék við hvern sinn fingur, náttúruna og mig. Gufustrókurinn stóð út úr mér þar sem ég raulaði með tónunum og minnti mig á hversu afskaplega lifandi ég er. Ég var búin að moka stelpunum mínum út, drekka kaffi og kveðja Pétur, setja á mig augnblýant og bursta tennur og þegar ég fór yfir gádlista dagsins í huganum varð ég aldrei þessu vant ekki stressuð heldur fjarska glöð. Ég er bara svo helvíti heppin á mér auk þess sem ég er hörkudugleg. Lífið hefur ekkert í mig. Ég stjórna.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband