Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Einmitt

Heyriði, þetta verður bara betra og betra. Annaðhvort er þvottavélin okkar að gefa sig eða öll greinin. Við vorum að þvo í gær þegar rafmagninu (hefur maður þetta kannski ekki í þessu falli?) sló endalaust út. Gátum þurrkað en greinilega ekki þvegið. Setti í vél áðan og þegar ég setti hana af stað kom bara blossi. Prófaði að setja rafmagnið á og kveikja aftur, það sama gerðist. Þar sem þetta gerist bara þegar við ætlum að þvo hlýtur þetta að vera þvottavélin. Ég veit ekki hvort er verra, að þurfa að kaupa nýja þvottavél ef það er hún sem veldur usla eða fá rafvirkja til þess að laga draslið ef greinin er ónýt.

Þannig að. Takk fyrir mig líf, þú ert heldur betur skemmtilegt núna.


Sumir dagar

Já, sumir dagar sko. Það er svo skrítið að ef maður er neikvæður þá gengur bara allt á afturfótunum. Eftir að hafa grenjað úr mér augun í gær yfir ipodmissi fór ég niður bæ til þess að skoða gleraugu. Var svo utan við mig að ég keyrði inn einstefnugötu, rétt náði að forðast árekstur og skaut mér inn í eitthvað húsasund. Var svo æst í skapinu að ég gat ekki keyrt meir og mamma, sem var niðri í bæ til þess að hitta mig, þurfti að koma og bakka bílnum fyrir mig.

Var svo of sein í tíma og þurfti að halda fyrirlestur með grátbólgin augu og illilega úfið hár. Fór eftir tímann að horfa á mynd fyrir spænsku og var búin að prófa þrjár tölvur þegar ég fattaði að það var amerískt kerfi á myndinni. Sem betur fer hjálpaði ljúf stelpa mér þegar ég var farin að froðufella af bræði. Var svo að drepast úr hungri og ekki með neitt nema súkkulaði sem mamman mín sæta gaf mér og át það. Fékk svo logandi samviskubit og gat varla einbeitt mér að myndinni.

Fór og náði í mömmu (var á bílnum hennar þar sem ég þurfti til læknisins fyrr um daginn) og við fórum í apótek. Það var rétt búið að loka. Fór heim og fattaði eftir smá stund að ég hafði gleymt gemsanum í bílnum hjá mömmu. Sprundin fór og náði í hann fyrir mig og ég þreif aðeins á meðan og reyndi að láta rjúka úr mér. Fór svo í sturtu og ætlaði aldrei að geta ákveðið í hvað ég átti að fara. Fannst ég ekkert nema fitubolla en lét mig hafa það að fara út enda afmæli hjá Gyðunni.

Afmælið var gott. Skemmtilegt og gott fyrir geðheilsuna.

Hrund var orðin lasin og með hita þegar ég kom heim. Núna lifi ég í stöðugum ótta við að fá flensu í prófunum. Vorkenni samt auðvitað Sprundinn minni svona ómögulegri.

Vaknaði í morgun og hófst handa við að hringja. Hrindi í Appelumboðið til þess að fá að vita hversu mikið ipodinn minn kostaði. Hringdi í tryggingar og fékk leiðbeiningar við að tilkynna tjónið, hringdi niður á löggustöð og fékk þær upplýsingar að ég þyrfti að koma niður á stöð til að kæra. Fór út og í apótek. Keyrði niður á Hverfisgötu og setti í stöðumæli. Fattaði að það er búið að færa almenna afgreiðslu niður í Borgartún. Ætlaði þangað en komst ekki inn í bílinn þar sem fjarstýringin virkaði ekki. Náði að draga lykilinn úr henni (þarf eitthvað svaka fiff til) en ætlaði aldrei að ná stykkinu af hurðarhúninum en undir því var skráargatið að finna. Var farin að öskra af bræði þegar ég loksins komst inn, þá búin að beygla alla lyklana mína við að reyna að ná stykkinu af og alveg að verða of sein í tíma fyrir utan það að vera algjörlega frosin. Fór í Borgartúni en þar sem hjóli eða álíka var ekki stolið af mér átti ég að gjöra svo vel að fara niður á Hverfisgötu. Fór þangað AFTUR og í sama stæði og áður, kærði stuldinn, brunaði í skólann, keypti mér samloku og hentist í tíma.

Eftir tíma fór ég og náði í Rakel og við fórum svo í vinnuna til tengdó sem var búin að prenta út passamynd handa mér til að fara með í bankann (Silla vinnur sumst hjá Samskiptum og ég þurfti að koma með nýja mynd til þess að fá nýtt kort, hin myndin er orðin of gömul). Fór í bankann með Rakel og sótti um kort og hún fékk glös, diska og dúk fyrir komandi afmæli sitt. Var svo næstum lent í árekstri aftur þar sem mottan undir pedulunum í bílnum flettist upp og kom í veg fyrir að ég gæti bremsað. Tókst þó á endanum að snarbremsa og ég og Rakel hentumst til og allt dótið í bílnum, þar á meðal tölvan, datt í gólfið.

Náðum í lasna Hrund og fórum í Bónus og stórversluðum. Fyrir jólin og allt. Þurfum bara að versla smá þegar nær dregur afmælinu margumtalaða. Fórum heim og ég ryksaug eins og vitleysingur þar sem Sprundin var of lasin til þess. Ég ætla ekki að lýsa því fyrir ykkur hversu illt mér var í bakinu eftir það. Var með grísasteik, kartöflugratín, guacamole og salat í matinn, langaði að hafa gott að borða þar sem ég á ekki eftir að hafa tíma til þess að elda svoleiðis aftur fyrr en á aðfangadag. Vaskaði upp á undan og á eftir. Setti Rakel í bað, fór í sturtu, bjó til tvöfalda uppskrift af deigi í ólívubollur, var með ís og ávexti í eftirrétt, setti deig utan um 56 ólívur, gekk frá og hneig niður í sófann. Mundi þá að ég var með þvott í vél og setti í þurrkara. Svo hefur rafmagnið farið 4x í kvöld og Hrund farið jafn oft niður að vesenast í rafmagnstöflunni. Rafmagin hérna er algjört grín og stórhættulegt örugglega.

Endaði svo kvöldið á því að plana afmæli Rakelar með Robba. Núna ætla ég upp í rúm að lúlla því á morgun ætlum við að skreyta allt. Eftir það fer Rakel til Sillu og við Hrund að klára jólagjafainnkaup. Ef Rakel er til í það gistir hún hjá Sillu og ég er að hugsa um að REYNA að læra kannski á sunnudaginn.

Díses.

Og já. Beiðninni minni var hafnað. Fæ ekkert frá tryggingunum.


Mannskepna

Já, það er nú meira hvað sumir eru miklar skepnur. Í dag gleymdi ég veskinu mínu á biðstofu læknastofu. Þegar ég fór út frá lækninum fattaði ég að ég var ekki með veskið og leitaði út um allt. Einhver hafði verið svo vænn að fara með það í afgreiðsluna en tekið ansi mikið þjórfé fyrir það eða IPODINN MINN. Helvítið hefur farið í gegnum veskið og tekið ipodinn þar sem það var nákvæmlega ekki neitt annað í því. Ég talaði við stúlkuna í afgreiðslunni og við vorum sammála um að það kæmu bara tvö pör til greina sem hefðu geta tekið ipodinn (miðað við tímasetningar) nema einhver random manneskja hafi labbað þarna inn.

Ég ætla að kæra þennan þjófnað til lögreglu.

Verst þykir mér þó að missa ipodinn minn sem ég hef eytt mörgun dögum í að setja tónlsit inn á. Auk þess var hann gjöf frá tengdó (ég hefði aldrei haft efni á að kaupa mér hann) og ég hef ekki efni á því að kaupa mér nýjan. Ef það hefði ekki verið fyrir þennan blessaða ipod hefði ég ekki lifað það af að taka endalaust strætó í skólann. Ég var með alla uppáhdalstónlistina mína inn á, alls konar sögur og lög fyrir Rakel og jóladiskana tvo sem við mamma keyptum fyrir hundrað árum og ég ætlaði að hlusta á um helgina þegar við værum að skreyta (þessir diskar og jóladiskurinn með Baggalút er eina jólatónlistin sem ég nenni að hlusta á).

Ég er búin að grenja úr mér augun af leiða og reiði. Núna er mér bara illt af svekkelsi.

Sakna þín elsku poddinn minn.

Og svo hækkar þetta bílahelvítislán endalaust.


Spekúlasjónir

Rakel alltaf að spá eins og áður sagði. Þegar ég fór að ná í brandarakallinn í baðið um daginn vildi hún vita hvað gerðist þegar pokarottur dræpust. Og ég útskýrði rotnunarferlið og hvernig við yrðum öll að mold og enginn lifði að eilífu. Rakel skildi það, við yrðum útdauð eins og risaeðlurnar.

Eftir lestur og bænir sungum við Krummi svaf í klettagjá eins og venjulega. Rakel vill læra öll erindin svo ég er smám saman að bæta við. Svo þarf ég að útskýra hvert einasta orð: gogg, byggð og bú, hjú, stél, ýfði, sálaður, krás ... Sem er allt í lagi, mér finnst æði að hún vilji vita svona mikið.

Rauðhaus hleypur alltaf frá hliðinu á leikskólanum, upp göngustíginn og út að gangstéttinni í Skipasundinu. Ég hef ekki tölu á því hversu oft hún hefur dottið, bæði þar og í lífinu yfir höfuð. Oftast vegna þess að hún horfir alls ekkert fram fyrir sig heldur aftur. Í gær datt hún á litlu hnén og ég mat það svo að fallið hefði ekki verið mjög alvarlegt og sagði henni að standa bara upp, hún væri svo dugleg. Hún lá enn í götunni þegar hún kallaði til mín að hún hefði sko víst 'horft fram hjá sér', hún hefði bara samt dottið. Við mæður hennar erum óduglegar að benda henni á mikilvægi þess að horfa fram fyrir sig og kennum því að hún geri það ekki mjög oft um endalaus föll hennar. Hún ætlaði greinilega að koma í veg fyrir að ég væri ekki að ásaka hana um það núna, ég meina hún horfði fram hjá sér.

Áðan skokkaði hún á undan mér heim og stoppaði með reglulegu millbili eins og hlýðinn hundur og beið eftir mér. Eitt skiptið þegar ég var komin alveg upp að henni studdi hún höndum á mjaðmir og blés úr nös með tilþrifum. 'Ætlarðu ekki að hlaupa meira' spurði ég. 'Nei, ég ætla aðeins að hækka á mér fyrst svo ég fái ekki illt hérna sagði hún og benti á síðuna'. Hækka á sér já. 'Ætlarðu að hægja á þér svo þú fáir ekki hlaupasting' spurði ég. 'Já, og líka svo ég fái ekki labbusting'. Erfiður þessi labbustingur.

Það getur verið mjög erfitt að gera litlu vargatítlunni til hæfis stundum. Hún  er svo yfir sig hneiksluð stundum á fattleysi og hreinni og beinni heimsku mæðra sinna að maður skammast sín fyrir sjálfan sig. En hún er svo sem bara með sína hluti á hreinu. Settist á klósettið áðan og var búin að sitja þar allan tímann sem ég var að blogga þegar ég spurði hvort hún væri ekki að verða búin.

'Nei! Ég SAGÐI að ég þyrfti að kúka OG pissa.'

Já, já, afsakið yðar hátign. Var ekkert að segja henni að það að hugsa væri ekki það sama og að tala, ég vissi bara ekki hvað hún var að hugsa um að gera þarna inni.

Hún hélt áfram að dóla sér, ákallaði pissið í formi söngs, piss piss piss og pelamál púðursykur og króna ...

'Ertu viss um að þú þurfir að pissa aftur Rakel mín, þú varst að pissa á leikskólanum.'

'Já, mér er illt í maganum.'

Og besta ráðið við magaverk er að pissa eða?

'Veistu, manni verður yfirleitt ekki illt í maganum af því að þurfa að pissa, frekar ef maður þarf að kúka og er búin að halda lengi í sér og þú ert búin að kúka núna.'

Og það varð þögn.

Brakaði í litla heilanum.

Komst svo greinilega að þeirri niðurstöðu að ég hefði rétt fyrir mér.

'Ó! Þá er ég búin ... Ég er búúúúúiiiiiin.'

Annars finnst mér sætast í heimi þegar hún tekur í taumana af mikilli festu. Eins og í gær þegar mamma hennar var að bursta í henni tennurnar og stríða mér í leiðinni. Og þá stríddi ég henni til baka og þá greiddi Hrund á mér húðina með burstanum hennar Rakelar og ég æjaði og Hrund hló. Rakel sem stóð á kollinum sínum og var nokkurn veginn í okkar hæð var ekki lengi að stía okkur í sundur, ýtti Hrund frá með annarri hendinni og mér með hinni. 'Viltu gjöra svo vel að hætta þessu' fær maður oft að heyra. Svo vill hún auðvitað vera viss um að allir séu vinir. 'Kysstu hana' skipar hún okkur eftir 'áflog' okkar mæðranna. 'Knúst þú núna hana' bætir hún svo við. Þegar við erum eitthvað að knúsast þrjár passar hún alltaf að enginn verði útundan. Ef við Hrund kysstumst á að kyssa hana. Ef önnur mamman gefur henni koss smellir hún líka kossi á hina. Og best er auðvitað hópknúsið.

Inn á milli þusar hún svo næstum af sér hausinn. Ef hún fær ekki að gera eitthvað hengir hún haus á dramtískan hátt, stappar inn í herbergi (hún labbar ekki heldur stappar niður fótunum í hverju skrefi) og upphefur þusið: 'Ég má bara ekki gera neitt og þá ætla ég bara að stija hér og ég finn ekki bangsann og þessi bók er leiðinleg ...' Um daginn bannaði ég henni að gera lest úr öllum stólunum inni í stofu þar sem glerskápurinn var í hættu daginn áður þegar hún bjó til lest. Hún byrjaði sitt litla drama og þusaði og þusaði inni í herbergi. Heyrði svo að hún var orðin gráti næst svo ég fór og leit inn til hennar. Barnið var þá að basla við að búa um rúmið sitt (þetta var sumst snemma um morgun) og alveg að fara að grenja, svo frústreruð var hún yfir að ráða ekkert við sængina. Enginn að biðja hana að búa um sko.

En hún má sko eiga það að hún hlýðir mér. Hún er búin að eyða nógu miklum tíma með mér til þess að vita að það þýðir ekkert annað.

Í gær var krílið á leið upp í rúm og ætlaði mamman að lesa. Ég og Hrund vorum svaka mikið að spjalla saman, ég með hendurnar um hálsinn á Hrund og hún með sínar um mittið á mér. Það fór svakalega í taugarnar á Rakel, í þetta skipið ekki af því að hún vildi vera með heldur af því að það var komið að heilagri lestrarstund. Hún hefur sjálfsagt verið búin að kalla til okkar nokkrum sinnum, stundum getur verið slæmt að vera búin að þróa með sér mömmuheyrn sem lýsir sér í algjöru heyrnarleysi stundum þegar börnin kalla og kalla. Rauðhaus gafst að minnsta kosti upp á endanum, henti sér upp í rúm svo brakaði í, rykkti til sín sænginni og dúndraði sínum tveimur böngsum sitthvoru megin við sig í rúminu: 'Ég ligg þá bara hérna ein með Rósu og Kanínu (bansarnir) ef ENGINN vill tala við mig, þusiþusiþusi.' Var samt varla búin að ljúka setningunni þegar hún gafst upp á fýlunni: 'Elsku mamma mín.' Hún fékk sinn lestur.

En þetta átti ekki að vera svona langt. Langaði bara aðeins að deila barninu mínu með ykkur.


Ammilisbarn

Hæ hó jibbí jei og jibbí jei!

Nei.

Hún ammil'í dag, hún á ammil'í dag, hún á ammil'ún Gyyyyyyðaaaaa, hún á ammil'í dag

Til hamingju með ammil Wizard

Af því að hún er svo sérstök á hún ammil ekki ammæl'í dag. Það er gjöfin mín til hennar, hahaha.


Rakel besta barn og fl.

Já, Rakel er ekki bara besta barnið, hún er líka viðurstyggilega fyndin.

Einn morgun í síðustu viku stóð hún uppi á kollinum sínum inni á baði og fylgdist með í speglinum þegar mamma hennar greiddi henni (núna þegar Hrund á ekki að mæta fyrr en 9 er hún farin að geta farið með Rakel á leikskólann og þá morgna sem ég mæti snemma sér hún líka um að greiða henni). Þegar greiðslu var lokið spurði mamman hvort hún væri ekki fín og Rakel var svo sannarlega sammála því:

'Ég er bara alveg eins og dramadrottning' sagði hún alsæl með sjálfa sig.

Var ég annars búin að segja ykkur að Rakel er á af hverju-tímabilinu, hún spyr eeeeeendalaust og yfirleitt spurninga sem er erfitt að svara eins og af hverju við erum í nærbuxum eða af hverju kertið er gult en ekki svart. Úff. Litli rassálfur.

Annan morgun í liðinni viku var hún eins og svo oft að velta henni mammí sinni fyrir sér (ég var farin í skólann). 'Er hún ekki með nest' vildi hún vita. Hrund sagðist halda það (gekk að því vísu að nest væri nesti). 'Af hverju er pokinn hennar þá hérna heima, gleymdi hún að taka með sér nest' hélt Rakel áfram. Hún hafði rekið augun í litla, græna Tigerpokann minn sem ég nota venjulega undir nesti. Skarpa stelpa. Og ég var ekki með neitt nest.

Í morgun var hún varla komin fram úr þegar spurningflóðið hófst og sat Hrund fyrir svörum þar sem ég var farin í strætó. 'Búum við í einbýlishúsi' vildi Rakel vita. Hrund sagði okkur búa í þríbýli sem þýddi að þrjár fjölskyldur væru í húsinu. 'Höfum við þá bara pláss fyrir svoooooona lítinn hvolp' spurði Rakel og sýndi Hrund með höndunum hversu lítið kvikindi hún ætti við. Nei, hún getur víst ekki fengið hvolp en við erum ekkert smá spenntar yfir að gefa henni gaukinn.

Var ég annars búin að segja ykkur frá því þegar Rakel hrasaði á leið úr sturtu um daginn og gat alls ekki stigið í fótinn af því að hún hafði slasað 'armbeygjuna'. Fyrir þá sem ekki vita er hana að finna á ilinni. Rakel rannsakaði líka fætur mæðra sinna og komst að þeirri niðurstöðu að það væri í lagi með okkar armbeygjur. Fjúkket.

Áðan var Rakel að segja mér sögu á meðan ég vaskaði upp:

'Einu sinni var stelpa sem hét Rauðhetta og úlfurinn kom að kofanum og gleypti ömmuna. Svo gleypti hann Rauðhettu. Svo datt hann í sjóinn og missti andfæluna. 'Hvað er það nú eiginlega, andfæla' vildi ég vita. 'Það er svona þegar hann missir andann' sagði Rakel, greip fyrir nefið og sýndi mér með tilþrifum hvernig úlfurinn missti andfæluna. 'Svo björguðust Rauðhetta og amman og Rauðhetta spurði hvar er úlfurinn og amman sagði hann er dáinn elskan mín.'

Rakel var svo væn að skreyta afmæliskort fyrir mig áðan handa afmælisbarni morgundagsins, Gyðunni. Eftir matinn var hún heilmikið að stússa við að lita og brjóta saman blöð og kom með reglulegu millibili fram í eldhús með 'borðskortin' sem hún hafði gert handa mér og Hrund. Gaman að láta brjóða sér svona mikið ...

Ég ætla svo ekki einu sinni að byrja að tala um allar málfræðivillurnar og skringilegheitin í hennar máli sem er auðvitað alveg eðlilegt en líka alveg hryllilega fyndið fyrirbæri.

W00t

Upplestur tókst vel og ég er bara ánægð með mig. Ég og Sprundin fórum á eftir með íslenskuliðinu á djamm og skemmtum okkur að sjálfsögðu vel. Vorum bara nokkuð hressar á laugardaginn og fórum til tengdó að læra þar sem við þurftum sitthvora tölvuna. Ég kláraði íslenskuverkefni og hjálpaði svo Sprundinni að skrifa eitt stykki ritgerð um parket, í alvörunni nokkuð áhugavert. Vorum ekki komnar heim fyrr en að verða eitt og urðum þá skyndilega svo svangar að við fórum og keyptum okkur gæðaloku. Nutum þess í botn að vera barnlausar og geta borðað um miðja nótt, horft á mynd og farið ýkt seint að sofa vitandi það að við mættum sofa út.

Ég var því miður andvaka til sjö um morguninn og vaknaði svo við vekjaraklukku, þurfti að skrifa ritgerð. Sem ég kláraði!!! Víííí. Og ég er svo ánægð með hana að ég verð ýkt svekkt ef ég fæ ekki ágætis einkunn fyrir hana.

Var svo aftur andvaka í nótt og var rétt búin að festa svefn þegar Hrund kom upp í og ég hrökk upp. Ætlaði aldrei að geta sofnað aftur og var einmitt nýsofnuð þegar klukkan hringdi. Ég bara höndla þetta ekki. Svefninn í heild þess helgi var bara ekkert eðlilega lítill. Mamma kom með þá hugmynd að þetta væri tengt blóðþrýstingnum en hár svoleiðis getur valdið svefnleysi og ég hef alltaf verið með háan blóðþrýsting. Mér bara tekst ekkert að lækka hann að ráði. Hann var mjöööööög slæmur þegar ég var sem veikust af átröskuninni, alveg í efstu mörkum,  og hefur skánað síðan en er samt alltaf hár, ekki nógu hár til þess að ég sé sett á lyf en of hár fyrir svona unga manneskju. Þetta er örugglega eitthvað úr pabbafjölskyldu því mamma t.d. er með þrýsting eins og unglingur. Það breytist ekkert þótt ég hætti að reykja, hreyfi mig og passi mataræðið. Ætla að biðja um eitthvað jurtadót hjá henni Lindu gras næst þegar ég fer til hennar.

Og af því að ég er búin að vera svo roooooosalega dugleg að læra og er á undan áætlun (á bara eftir að gera einn fyrirlestur fyrir fimmtudag og svara spruningum úr þremur bíómyndum sem tekur ekki svo langa stund) þá leyfði ég mér að leggja mig í dag. Er samt enn þá svo þreytt að ég kem mér ekki í ræktina. Ætla því bara að gefa mér frí frá lærdómi og rækt í dag og reyna að hafa ekki samviskubit yfir því.

Best að ég fari nú og taki litla brandarkallinn minn upp úr baðinu.

Besos.


Jess!

Á bara eftir rétt um 500 orð í ritgerðinni svo ég er á undan áætlun. Ætti vel að geta gert 1000 orða verkefnið í íslensku og klárað ritgerðina um helgina. Og hjálpað Sprundinni með ritgerðina sína um parket (manneskjan neitar því að hafa heyrt um inngang, meginmál og lokaorð en ég segi að hún sé þrjóskari en allt og kunni þetta víst). Þá ætti ég að hafa tíma til þess að gera fyrirlestur um ritgerðina í næstu viku, horfa á eina bíómynd fyrir spænsku og gera þrjú verkefni fyrir spænskar kvikmyndir. Já já já.

Mikið svakalega er ég samt með mikla minnimáttarkennd gagnvart sumum sem ég er með í íslensku. Það sem var gott við að vera alltaf að dúlla mér ein í þessu námi var að enginn spurði nokkurn tíma spurninga sem trufluðu mig og ég vissi ekkert hvað annað fólk var að fá í einkunn. Var bara mjög ánægð með mínar. Sætti mig við það að þótt ég hefði fengið svaka fína einkunnir á fyrstu önnunum þá væru bara sum námskeið erfiðari en önnur og þótt ég fengi ekki alltaf 9,5 og 9 þá væri það samt allt í lagi. Ég er ekki ánægð lengur. Mér finnst ég oft á tíðum bara vitlaus og held að ég sé alveg hætt við að fara í master í málfræði.

Ég verð samt að hafa einhverja trú á mér í kvöld þegar ég les upp ljóðin mín. Sprundin ætlar að koma og tengdó og veit ekki með mömmu gömlu, hún er alltaf svo bissí konan.

Þetta átti að vera ógisslega jákvæður pistill en ég man ekkert hvað ég ætlaði að segja. Ég er allavega öll að koma til eftir magapestina þótt maginn snúist stundum í hringi og ég drepist næstum því af því að reyna að komast upp stigana í Árnagarði.

Æ, best ég fari bara að læra.


Búhú

Meira ógeðið. Það endaði með því að það kom upp úr mér og niður úr mér stanslaust milli sjö og ellefu í gær. Mest samt upp úr mér og ég hélt bara að ég myndi missa meðvitund á tímabili. Freistaðist til þess að fá mér klaka og nokkra sopa af eplasafa en það vildi út um leið. Eftir það gafst ég algjörlega upp á því að fá mér eitthvað og er búin að vera að drepast úr þorsta hreinlega.

Náði einhvern veginn að sofna í gær og svaf að sjálfsögðu hræðilega. Klukkan sex í morgun byrjaði ég svo að fá einhverja magakrampa sem fengu mig til að engjast um og vola í tvo tíma (Hrund til mikillar gleði). Náði að drekka nokkra sopa af vatni og um átta voru verkirnir að fara. Þá var kominn tími til að fara á fætur. Lufsaðist hér um með æluna í kokinu og greiddi Rakel og eitthvað meira sem ég man ekki.

Ég bara trúi ekki að ég þurfi að skrifa ritgerð í allan dag. Ég er svo illa sofin og orkulaus. Var að fatta að það fer að verða liðinn sólarhringur síðan ég borðað samloku (með túnfiskssalati, ælti það hafi verið magapest í henni?) og það er kannski pínu langur tími án þess að borða nokkuð. Fékk mér nokkra sopa af bláum Gatorade áðan sem við eigum enn eftir að Rakel var veik og á víst að bæta manni upp sölt og svona sem maður missir með ælunni. Mikið er þetta vont gutl. Krossa svo bara putta núna og vona að ég þurfi ekki að skila þessu eftir smá stund.

Mér finnst þetta ekki sanngjarnt. Ég gæti mjög vel grenjað en þá myndi ég líklegast ofþorna alvarlega.


OOOOOOOOJJJJJJJJJJ

Annaðhvort er ég orðin veik af stressi eða komin með magapest. Var mjög flökurt áðan þegar ég var að læra og það skánaði ekki við að fá sér þúsundasta kaffibollann í þessari viku (einhvern veginn verð ég að halda mér vakandi). Var svo búin að fá mér nokkra bita af kvöldmatnum þegar ég byrjaði að kúgast. Endaði uppi í sófa með æluna í hálsinum og þurfti svo að rjúka fram á klósett áðan.

Þarf að fara núna, held ég þurfi að æla aftur ...

Kláraði samt að læra sko. Dugir ekkert annað en hardcore.


Sjæse

Ég er um það bil að kálast úr stressi. Í þessari viku þarf ég að:

- Horfa á mynd fyrir spænskar kvikmyndir

-svara spurningum úr tveimur myndum fyrir spænskar kvikmyndir og skila

-lesa greinar fyrir umræðutíma í Straumum og stefnum

-klára að læra fyrir próf í spænskri málfræði og taka það 

-klára bók fyrir bókmenntir rómönsku Ameríku

-skrifa tæpa hálfa ritgerð á spænsku (sjiiiiiiiiiit)

Man ekki meira einu sinni.

 

Í gær sleppti ég ræktinni þar sem ég hafði ekki tíma fyrir hana. Var allan daginn að skrifa ritgerð og fór svo að heimilast og mammast eitthvað. Varð við þeirri bón Mímis að lesa upp ljóð á upplestrarkvöldi á föstudaginn (guð, hvað ég vona að frægu höfundarnir verði farnir þegar ég les mitt dótarí) og ég fæ magatruflanir, kvíðakast og svitakast (ef það er til) af því að hugsa um það. Ég ætla samt að gera það af því að ég hef rosalega gott af því.

Og eftir að ég var búin að koma barninu í rúmið í gær sauð ég eitthvað saman, grúskaði í mínum óteljandi stílabókum og dagbókum í leit að frambærilegum ljóðum. Er tilbúin með þetta og þarf bara að æfa mig það sem eftir er vikunar. Annars líður yfir mig.

Eftir þetta allt saman lærði ég fyrir próf í spænskri málfræði þangað til ég gat ekki haldið mér vakandi.

Og í alvöru. Ég verð að kvarta. ÉG SEF ALDREI HEILA NÓTT ÁN ÞESS AÐ VAKNA. Ég er 25 ára, ég er of ung til þess að sofa aldrei vel. Rakel hefur tekið upp á því að pissa minnst tvisvar á nóttunni, henni finnst það greinilega eitthvað sport þar sem hún kemst vel í gegnum nótt án þess að pissa. Mér finnst það ógisslega erfitt. Maður á ekkert að þurfa að fara á fætur um miðja nótt. Svo eru draumfarir hennar, eins og annarra barna, miklar og háværar, og maður hrekkur ósjaldan upp við vein og gól og garg og þarf kannski líka að standa upp og sussa og bía. Ég veit, ég veit, ég á yndislegt barn en ég má stundum kvarta. Auk þess vakna ég hvort sem hún vekur mig eða ekki. Vakna allt upp í sjö sinnum á nóttu sem er algjör klikkun. Er svo gráti næst af þreytu hvern einasta helvítis morgun.

Ok, búin að kvarta.

Í dag verð ég að fara í tíma og klára að læra fyrir próf og fara í próf og horfa á mynd fyrir spænsku. Til þess að spara tíma ætla ég aftur að sleppa ræktinni en fara frekar út að ganga, ég verð að nýta allan þann tíma sem ég hef. Kannski ég sendi líka póst á Gumma í spænskum kvikmyndum og grenji út frest. Það sem mér finnst erfiðast er að í byrjun næstu viku á ég að skila ritgerðinni og halda 10 mínútna fyrirlestur um hana. Ef ég mætti skila þessari ritgerð í lok næstu viku væri það miklu betra.

Magasár.

Og samt er ég sjúklega skipulögð og slugsa ekki (mikið) þegar kemur að lærdómi. Þetta er bara of  mikið stundum. Verð að drulla mér í strætó.

Hvað svo ef fólki finnst ljóðin mín glötuð? Æ, það hefur sig þá bara.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband