Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Þrjár þreyttar

Við, hinar þrjár þreyttu, viljum biðjast þess að samfélagið hætti að krefjast þess af okkur að við vöknum klukkan hálf sjö á morgnana eða eitthvað álíka. Það getur hreinlega flosnað upp úr samböndum og heilu fjölskyldurnar orðið að engu sé þessu haldið áfram. Morgunfýla, óréttmætur pirringur út í fjölskyldumeðlimi og sambandsleysi milli heila og tauga getur verið bæði nánustu og öðru fólki hættulegt.

Svefn til átta! er slagorð dagsins.

'Heldurðu að þú eigir einhvern tíma eftir að eignast lítið systkini' spurði ég molann við matarborðið í gær. 'Já' svaraði hún án þess að hika. 'Hvort heldurðu að það verði í mallanum á mömmu eða mammí?' hélt ég áfram. Barnið leit á mig og svaraði í þannig tón að ekki var um að villast að henni fannst spurningin kjánaleg: 'Þééér'. Já, já, hvernig spyr ég. 'Hvort heldurðu að það verði strákur eða stelpa' spurði ég. 'Strákur' sagði hún um leið og hún mokaði upp í sig jógúrt.

'Þetta hljómar eins og spádómur´sagði ég við Hrund sem var mér sammmála. Ég sagði við Rakel að kannski myndi hún eignast lítinn bróður einhvern tíma en núna væri ekkert barn í maganum á mér. 'Já, sveinna (lesist: seinna), á morgun þegar ég er búin að sofa þá er litili bróðir í maganum' sagði hún óðamála. Já, já, á morgun, sveinna, kemur í ljós.

Það eru sem sagt allir með lítil börn á heilanum í kotinu og eggjahljóðin í okkur Hrund eru líkt og krónískt lag sem fylgir okkur hvert fótmál. Við höfum nú ekkert rætt barnalöngunina neitt sérstaklega við Rakel en hún ákvað það allt í einu að hún væri að fara eignast lítinn bróður eins og augljóst ætti að vera af fyrri lýsingum á orðum hennar og gjörðum.

Um helgin tók svo steininn úr þegar hún vildi að litli bróði kæmi með í bílinn. Þegar ég kom inn í herbergi til að ná í hana var hún að tala við hann. 'Litli bróðir kemur með' sagði hún og benti á það sem í mínum augum var veggur. Ég vék mér undan því að svara, umlaði eitthvað bara. Þegar ég ætlaði svo að festa hana í bílstólinn vildi hún að ég hjálpaði litla bróður fyrst inn í bílinn. Gud i himmelen.

Það sem er spúkí við þetta er að Rakel hefur alltaf verið skyggn, eins og flest börn, og er það mjög greinilegt að hún sér eitthvað. Svoleiðis hefur það verið síðan hún var ponsu og þegar hún var rétt um eins árs þurftum við að fá mann til að losa hana við fólk sem var að trufla hana. Fyrst þá fór hún að sofa og leika sér í herberginu sínu. Það kemur enn þá fyrir að hún vaknar upp og talar um menn sem trufla hana og á það til að vinka einhverjum fram í forstofu þegar við sitjum við matarborðið.

Þetta með bróðurinn er einstakt. Auðvitað gæti hann verið ímyndaður og ekkert óeðlilegt við það. Hins vegar er það miklu skemmtilegri tilhugsun að hún sjái bróður sinn sem koma skal (ef svo má orða), næsta barn okkar Hrundar sem ég mun ganga með.

Ég hef velt orðinu 'tekjur' fyrir mér undanfarið. Ég ætlaði að vera búin að fletta því upp í orðbaók en gleymi því alltaf. Sá skilningur sem ég legg í orðið er sá að tekjur séu ákveðin innkoma (er þetta kannski viðbjóðsleg sletta?). Hægt sé að hafa tekjur AF einhverju, líkt og vinnu. Kannski er þetta hinn mesti misskilningur hjá mér. Þegar hringt er í mig frá Gallup og svipuðum fyrirtækjum er jafnan spurt um tekjur þegar ég lendi í úrtaki. Fyrst svaraði ég einatt að þær væru engar (ég hef ekki tekjur af neinu), hins vegar væri ég í námi og hefði tekið lán, hvort það teldust tekjur? Mér hefur yfirleitt verið svaraði játandi. Eina konu setti reyndar hljóða og sagðist hún bara aldrei hafa velt þessu fyrir sér. Var hún sammála mér í því að lán gæti varla flokkast sem tekjur.

Það væri nátla æðislegt ef lán væri sama og tekjur og ég þyrfti því ekki að borga neitt til baka að loknu námi.

Að lokum: ég meinti að ég hefði skrifað þrjár örsögur, ekki smásögur miðað við nokkuð almenna skilgreiningu á fyrrnefndum hugtökum. Ég sendi reyndar Mími, félagi íslenskunema, póst áðan og bað um nánari útskýringu á hugtakinu smásaga í þeirra huga þar sem í gangi er smásögukeppni. Það liggur alls ekki fyrir mér að skrifa smásögur (sögur sem eru meira ein til ein og hálf blaðsíða) en fátt veit ég skemmtilegra en að skrifa örsögur, sérstaklega í tíma. Skólastofa er staðurinn þar sem andinn kemur oftast fyrir mig.

Eins og alltaf á ég að vera að læra. Kannski ég byrji á því núna. Ætlað líka að fara í göngutúr á eftir og þrífa íbúðina með Hrund svo ég má engan tíma missa.


Ótrúlegt

Ég trúi því ekki fjandinn hafi það að önnin sé að verða hálfnuð. Í næstu viku er kennsluhlé og svo helmingurinn eftir. Venjulega er ég metnaðurfull og samviskusöm fyrri hluta annar en eftir kennsluhlé finnst mér önnin eiginlega vera búin og bíð bara eftir prófunum.

Núna finnst mér ég bara hafa eytt vikum í birtuþunglyndi, streptókokka og veikt barn. Hef hreint ekki lært mikið og hef ekki haft nennu til eins né neins. Hef mest setið og starað út í loftið, horft á kennara tala og ekki meðtekið orð, stunið (og stundum öskrað) yfir verkefnum heima við og oft á tíðum gefist upp. Farið í staðinn að horfa á sjónvarpið eða skilað ófullkomnum verkefnum.

Þjáist af þreytu og ógleði. Væru ekki ár og dagar síðan ég var síðast við karlmann kennd væri ég núna að pissa á spjald.

Í dag ætlaði ég loksins að stunda einhverja hreyfingu. Ætlaði upphaflega að taka nýja árið með trompi. Það er að verða komið fram í miðjan febrúar og ég hef eytt tímanum í að fitna. Eftir að hafa lagst yfir myndir um helgina og komist að þeirri niðurstöðu að undirhakan mín sést nú þrátt fyrir að ég horfi beint fram (þ. e. ekki niður en þá má sjá undirhöku á flestum) ákvað ég að þetta gengi ekki lengur. Náði mér líka loks á strik í mataræðinu um helgina en það hefur verið undarlegt á því herrans ári 2008.

Ekkert varð úr hreyfingunni í dag þar sem ég var að drepast úr ógleði.

Núna er ég að drepast úr þreytu.

Ég er reyndar búin að gera einn fyrirlestur í spænsku á undanförnum vikum.

Ég hef líka sett í óteljandi þvottavélar, vaskað upp og skeint barnarass. 

Skrifað þrjár smásögur og lesið nokkrar bækur.

Og heimsótt ömmu og afa mörgum sinnum.

 

En ég veit ekkert hvað ég vil gera á afmælinu mínu. 


Fin de semana

Sit hérna nýböðuð upp í sófa með tölvuna mína og blogga. Hrund er að læra stærðfræði og skemmtir sér konunglega. Hef sjaldan séð manneskju læra af jafn mikilli áfergju. Heyrði hana setja kaffivélina í ganga áðan og fór inn í eldhús til hennar að gefa okkur pensilín. 'Hvort ertu að fara mála eða læra' spurði ég þar sem aðeins annað hvort kemur til greina þegar hún drekkur kaffi á kvöldin. Það var lærdómur að þessu sinni.

Helgin var ljúf. Hrund fór í skólann á laugardaginn og á meðan skelltum við molinn okkur í íþróttaskólann og á eftir í afmælisgjafakaup. Þegar Hrund var kominn heim fórum við svo í afmæli til Helenu frænku (sem varð þriggja ára), dóttur móðurbróður hennar Hrundar. Þær stöllur, Rakel og Helena, fóru á kostum og léku sér þangað til þær voru sveittar og þreyttar. Við enduðum daginn heima hjá mömmu í saltkjöti og baunum en loksins varð eitthvað úr því áti. 

Í dag byrjuðum við á því að fara með Einari upp á hól hjá Breiðagerðisskóla og renna okkur á snjóþotu. Djöfull er það ógeðslega gaman. Einar, Hrund og Rakel fóru svo út í garð hjá mömmu og byggðu þetta líka svakalega snjóhús með göngum í gegn og ég veit ekki hvað. Meira að segja Hrund gat setið upprétt í því. Á meðan lærðu mamma og Elísabet (auðvitað ekki ég, ég nenni ekkert að læra) og ég bjó til eggjasallat, tók fram brauð og álegg, bakaði Costa Rica pönnsur (endurbætta útgáfu með spelti, agave sýrópi og lífrænu lyftidufti) og bjó til heitt súkkulaði.

Eftir átið héldu kvennsurnar áfram lærdómi á meðan við Einar, Hrund og Rakel komum okkur fyrir í sófanum og horfðum á teiknimynd. Reyndar var það aðeins Rakel sem horfði á meðan við hin dottuðum.

Svo bara dúlluðum við okkur. Rakel lék sér eins og engill, sníkti það hjá Elísabetu að fá að hlusta á uppáhaldslagið sitt með The Knife: Is it medicin or socialskills. Svo söng hún þetta látlaust og dansaði með sem var kostuleg sjón.

Eftir pizzuát drifum við okkur heim og hér erum við. Er að hugsa um að vista myndir inn á disk. Tölvan er farin að frjósa svo oft og er hrædd um að hún hrynji hvað úr hverju. Vil alls ekki glata myndunum.

Svo bíður mín mánudagur á morgun og allur sá lærdómur sem honum fylgir. ÚJE. 


Vangaveltur

Mér finnst frekar leiðinlegt þegar verið er að hringja í mig í kosningum til stúdentaráðs og fólk að sækjast eftir atkvæði mínu. Ég skil það hins vegar vel og sé farið rétt að því er það í lagi. Það má alveg spyrja mig hvort ég hafi myndað mér skoðun eða hafi áhuga á því að heyra baráttumál viðkomandi. Mér finnst hins vegar fyrir neðan allar hellur þegar frambjóðendur kynna sig með nafni og segjast vera með manni í þessum og þessum tíma (ég kveiki yfirleitt ekki á neinum perum þar sem ég er með afbrigðum félagslega heft og þekki fæsta sem eru með mér í tímum) og 'ætlaði bara að athuga hvort ég hefði ekki þinn stuðning?'. Því miður, nei, það hefurðu ekki. En hlakka til að sjá þig í næsta tíma vinkona. Öööhhh. (tveir sætir strákar komu heim til mín í gær með atkvæðaseðil og leyfðu mér að kjósa, eins og siður er víst þegar fólkt er veikt heima, snilld).

 Druslaðist í skólann í dag þótt þreytan og slappleikinn neiti að yfirgefa mig. Glápti mest út í loftið, ófær um að hugsa og meðtaka spænskuna sem vall út úr kennaranum. Er haldin annarlegum (þ. e. ekki í merkingunni undarlegum heldur 'önn' í ef.-legum= annarlegum) skólaleiða. Hann kemur og fer. Yfirleitt tekur brennandi áhugi og metnaður við. Bíð því kaflaskila.

Fór og fékk mér fiskisúpu og mömmu eftir tíma. Fiskisúpu fyrir kaldan kroppinn og mömmu fyrir sálina. Er hressari eftir það. Komin heim, tilbúin í forna málið og hljóðfræði. Á í vandræðum með það seinna. Finnst verkefnin fjandanum erfiðari. Ekki spillir fyrir að ég held að Einar Freyr kærasti Hlífar ,sem var að vinna með mér í sumar (og kærastinn hennar líka þótt hann væri í öðru verkefni), sé aðstoðarkennari. Hef á tilfinningunni að álit hans á færni minni í íslensku og almennu brjóstviti verði orðið að engu í lok annar (ég veit að það er ógesslega asnalegt að lesa um sig  í 3. persónu Hlíf, er nokkuð viss um að þú lesir þessa færslu). Það er bara svo skrítið að vera með aðstoðarkennara sem kannski voru með manni í tímum eða að vinna með manni. Fannst ýkt fyndið að hitta Hlíf í sumar og vinna með henni þar sem hún hafði verið aðstoðarkennari í einhverju námskeiði á hverri önn síðan ég byrjaði í skólanum. Manni finnst maður hálf berrassaður og kjánalegur og verður ýkt feimin. Allavega ég. 

Ég vildi að ég yrði ekki alltaf svona sjóveik. Var að skoða bækling frá Norrænu og jösses hvað ég væri til í að ferðast með henni og taka svo Lególand og elsku Sverige áður en haldið yrði heim aftur. Við gætum allar þrjár verið í blómakjólum og með sumarhatta eins á myndinni í bæklingnum.

Ég hef reynt sjóveikisarmbönd og sjóveikispillur. Síðast þegar ég tók frerju var það með lýðháskólanum í Danmörku, við vorum að koma frá Prag og tókum ferju yfir til Danmerkur einhvers staðar frá. Fyrst tókum við nátla ferju frá Danmörku og þá tók ég eina pillu. Lá á klósettgólfinu alla ferðina og kúgaðist án þess að æla. Oddný vinkona lá á næsta bás. Á leiðinni til baka ákváðum við að taka tvær. Ég hef aldrei farið í aðra eins vímu á ævi minni. Við stauluðumst um borð í ferjuna ó svo hátt upp á sjóveikispillum og lágum svo á gólfinu í setustofunni algjörlega rotaðar og slefuðum í vímunni. Mér var flökurt í marga daga á eftir.

Og svo get ég alls ekki flogið lengur. Grenja bara eins og krakki og er með ólæti. Það vantar bara að ég geri í buxurnar af hræðslu.

Ég verð að fara að læra menn og konur. 


Hugmyndsnauð

Get ekki varpað fram neinum fyrirsögnum, hugsanir mínar eru seigfljótandi. Öll orka líkamans fer í að lækna mig. Hélt að ég myndi vera nokkuð hress í dag en er alveg jafn slöpp og í gær.

Get ekki lært spænsku. Horfi bara á verkefnið og skil ekki neitt. Neyddi mig til að hlusta tíma á netinu sem ég missti af í morgun og held ég láti það duga. Fékk svo mikið samviskubit yfir slugsi (sem er nátla ekki slugs þegar maður er veikur) að ég hringdi í mömmu. Hún getur alltaf róað mig. Hún sagði að það skiptu mesta máli að ég yrði frísk, svo gæti ég lært. Rétt hjá henni. Ég held ég leggi mig. Get ekki haldið augunum opnum.

Rakelin hefur beðið spennt efir 'sprengjudegi'. Ég held hún tengi hann við flugelda en þá kallar hún sprengjur. Við reyndum að segja henni í gær að það væri sprengidagur og að það þýddi að þá borðaði maður þangað til maður væri að springa. Hún meðtók þetta ekki alveg. Og þó. Ég hafði ekki orku í meira en að hita franskar og pizzu handa krílinu í kvöldamt (mér finnst hræðilegt að hafa ekki orku í að gefa henni almennilegt að borða, fiskt og kartöflur og sallat og þannig) og hún át tvær pizzusneiðar (sem hún gerir aldrei, sérstaklega ekki ef það er eitthvað með, hún er ekkert rosalega hrifin af pizzu) og bað um meira af frönskum og svo borðaði hún hálfa bolludagsbollu með öllu tilheyrandi. Og þambaði bæði vatn og mjólk. Ég er ekki vön að leyfa henni að borða svona mikið (enda gerir hún það sjaldan, nema kannski þegar hún borðar haustkex eða cheerios, þetta tvennt er það besta sem hún veit og það verður að skammta henni) en ég varð í gær, þetta var mjög áhugavert.

'Er sprengjudagur búinn' spurði hún hálf leið í morgun. Við sögðum hann liðinn en nú væri hins vegar öskudagur og hún mætti fara í búninginn sinn. Hún var svo öskrandi glöð og hoppaði um og á okkur Hrund sem kveinkuðum okkur. Hún fór himinsæl í leikskólann, sætasti læknirinn í bænum.

Barnið var að drepast úr leiðindum þegar leið á daginn í gær, sérstaklega þar sem við höfðum ekki nógu mikla orku til að leika við hana. 'Má ég ekki bara fara til pabba' bað hún seinnipartinn þegar henni fannst nóg um athafnaleysið í mæðrum sínum. Eftir kvöldmat og bað sögðum við að hún mætti leika sér á meðan við horfðum á fréttirnar og svo myndum við lesa. Fimm mínútum síðar var hún mætt inn í stofu: 'Ég er alveg búin að leika mér svona og svona og svona mikið' sagði hún og notaði putta og hendur til að sýna okkur umfang leiksins. Við sögðum að það væri nú ekki mikið annað að gera en að fara þá að sofa. 'Góða nótt' sagði þá ormurinn, fór inn í herbergi, slökkti ljósin og lagðist upp í rúm. Whot?

Við héldum inn á eftir henni skömmu seinna og sögðum henni að klukkan væri bara tíu mínútur yfir sjö. Hún ætti líka eftir að fá meðalið og bursta tennurnar. Hún sættist á það að taka með sér bækur inn í stofu og skoða upp í sófa á meðan við horfðum á hrömungarnar í sjónvarpinu. Svo las hún hátt og snjallt fyrir sjálfa sig og hló undarlegum hlátri, skríkti og veinaði og ég veit ekki hvað.

Við heyrðum ekki orð af fréttunum.

Barnið er snillingur.


Aumingja við

Það er ekki laust við að sjálfsvorkunnin sé alveg að fara með okkur hérna í kotinu. Við Sprundin stynjum í kór og drögum á eftir okkur lapprinar þegar við neyðumst til að standa upp.

Rakel er ýkt dugleg, farin að taka lyf í töfluformi. Gott að sleppa við bragðvonda vökvann. Svo troðum við í okkur Ab-mjólk og asidofílustöflum (nenni ekki að gá hvernig þetta er skrifað) til þess að vinna á móti sveppamyndun og öllu því sem fylgir pensilíni. Þetta er ekki það besta fyrir magan og flóruna þar. En hallelúja. Hálsbólgan er að hjaðna!

Rakelin er heima þar sem hún smitar þótt hún sé annars frísk. Streptókokkar er algjör faraldur á leikskólanum. Þegar ég hringdi þangað í morgun til að tilkynna hana veika var þegar búið að tilkynna þrjú önnur börn með þetta.

Það tekur á að sinna henni en sem betur fer en hún yndislegur dundari. Kemur fram öðru hvoru og biður um fá að hlusta á eitthvað eða bara til að fá knús. Situr núna inni í tjaldinu sínu og perlar og hlustar á dýrin í Hálsaskógi. Var að minnsta kosti að því. Nú berast undarlegir dynkir frá herberginu hennar sem segja mér að hún sitji ekki róleg og stillt.

Ég afrekaði það að vaska upp áðan. Það hefur ekki verið gert lengi sökum veikinda. Ég tók þetta í tveimur hollum og gat varla staðið upprétt á meðan. En það hafðist.

Æ, ógesslega leiðinlegur pistill.

'Mamma og mammí' gall í barninu á læknavaktinni í gær. 'Hafið þið aldrei eignast barn?' spurði hún. Ég sagði henni að við ættum hana og spurði hvort hún væri ekki barn.  Hún sagðist vera það en fannst mun merkilegra að hún væri með barn í maganum. 'Það er aaalveg að brjótast út' sagði hún og blés út magann. Barnið er með börn á heilanum.

Um daginn þuklaði hún brjóstin á mér og velti því fyrir sér hvort það væri mjólk í þeim. 

 


Púff

Svo ég haldi aðeins áfram ...

Atli á verkstæðinu sagðist viss um að bílaumboðið myndi borga dráttarbíl svo við hringdum og losnuðum við að draga bílinn sjálfar.

Morguninn var sveittur og erfiður. Hrund ætlaði sér í skólann og skellti sér í sturtu. Ég fór inn á bað til að tala við hana og kom að henni þar sem hún hékk utan í sturtuveggnum.'Það er að líða yfir mig' stundi hún náhvít í framan. Ég hellti í hana hreinum appelsínusafa til að ná upp blóðskykrinum og svo baksaði hún (eða er það bagsa?) dágóða stund við að koma sér í föt. Ég hafði sem betur fer tekið þá ákvörðun að hætta mér ekki í sturtu.

Rakel var hress og bollaði mig með bolluvendinum sínum. Ég rauk svo með hana í leikskólann á snjóþotunni og var löðursveitt og magnvana þegar ég kom heim. Hrund fór og lét kallana á dráttarbílnum fá bíllykilinn, játaði sig sigraða og lagðist fyrir. Ég reyndi eftir fremsta megni að prófarkalesa spænskufyrirlesturinn minn og náði að byrja á úrdrættinum fyrir hina nemendurna. Svo gat ég ekki meir. Skreið upp í sófa og glápti aðeins á video og fór því næst upp í rúm og svaf af mér daginn með Hrund.

Við skreiddumst svo á fætur og náðum í molann og fórum á læknavaktina. Vorum vissar um að við værum komnar með streptókokka. Sem reyndist rétt. Og reyndar Rakel líka. Sem betur fer er hún ekkert lasin og pensilínið kemur líklega í veg fyrir það. Hún verður samt að vera heima á morgun þar sem hún smitar enn þá.

Við drusluðumst og náðum í bílinn. Rafgeymirinn var orðinn lélegur svo nýr var settur í sem er alveg fyrirtak. Þetta gerðist allt á hárréttum tíma. Bílaumboðið borgar svo brúsann.

Ég fór og keypti hamborgara handa okkur Rakel þar sem ég get ekki fyrir mitt litla líf hugsað, hvað þá matreitt. Hrund hélt sig inn í stofu á meðan við borðuðum og reyndi að þræla í sig appelsínu. Hún er svo hræðilega klígjugjörn svona lasin og með viðurstyggilega hálsbólgu. Hún skilur ekkert í því að ég geti borðað. Hálskirtlarnir á mér eru helmingi bólgnari en hennar, það blæðir úr þeim og þeir lafa niður í kokið. Jammí. Ég sagði henni að lystarleysi hrjáði mig sjaldan, því miður.

Ein af ömmunum reddaði okkur grímubúning, barnið verður læknir og er það bara gott og blessað. Sá ekki fyrir mér að við hefðum orku eða tíma til að vesenast í þessu.

Er að hugsa um að leggjast í fangið á Sprundinni og horfa á fréttir. Á eftir verð ég að sjálfsögðu að framleiða bollur fyrir barnið.

Púff, hvað allt vex mér í augum. Og ég sem var frekar löt í síðustu viku og veik í þessari hef ansi mikið að vinna upp í skólanum.

Best ég taki einn dag í einu. 


Úff

Klukkan er ekki orðin hálf átta og ég ætti að vera að njóta þess að vera sofandi. Ég vaknaði hins vegar klukkan sex, hafði þá verið að vakna alla nóttina á hálftíma fresti, og klukkan sjö gafst ég upp og fór á fætur. Orsökin mun vera svaðaleg hálsbólga og almennur slappleiki.

Það mætti kannski segja að ég væri eins og drullutuska. Umsjónarkennarinn minn í 9. bekk spurði einmitt eitt sinn þáverandi bestu vinkonu mína af hverju ég væri svona eins og drullutuska. Hann var viss um að ég væri í dópi og rugli og útlitið fannst honum eftir því, allavega þennan tiltekna dag. Vinkonan hrækti því á hann að ég hefði verið að keppa í frjálsum íþróttum alla helgina, álagið hefði verið mikið og lítið um svefn. Það skal tekið fram að þessi athugasemd var ekkert einsdæmi og ég ekki eina skotmarkið. Karlinn var afskaplega sérstakur. Ég og vinkonan tókum hann á teppið fyrir útskrift í 10. bekk. Og að sjálfsögðu varð allt brjálað og voða mikið mál út af því.

Mamma segir að ég hafi verið fínn unglingur. Ég minnist þess að ég hafi verið ansi uppreisnargjörn, kjaftfor og þver. Ég hins vegar gætti systkina minna og hjálpaði til á heimilinu óumbeðin mitt í allri þvermóðskunni svo ég hef varla verið alslæm. Ekki má gleyma því að ég æfði íþróttir og spilaði á hljóðfæri. Hurru, kannski ég hafi verið fyrirmyndarunglingur. Nei, samt ekki ...

Sumst. Helgin fór mest í veikindi og vesen. Það sem Hrund hélt að væri vöðvabólga og bakverkur á föstudagskvöldi reyndust vera beinverkir og byrjun á flensu. Hún var samtals vakandi í tvo tíma á laugardaginn en lá annars dúðuð undir sæng með sinn 40 stiga hita. Hún vaknaði svo á hádegi í gær og var ögn skárri. Þá var ég einmitt farin að finna fyrir hálsbólgu og höfuðverk. Dreif mig í Bónus svo því væri aflokið áður en ég legðist líka. Sem ég ætla heim á nýja bílnum er hann alveg dauður. Það var hægt að kveikja ljósin og einnig var ljós í mælaborðinu svo við vorum ekki vissar um hvort hann væri rafmagnslaus þótt allt annað benti til þess. Til þess að gera langa og leiðinlega sögu stutt þurfti ég að ræsa Hrund og fleira lið. Startkaplar virkuðu ekki og við fundum engan krók á bílnum svo ekki gátum við dregið hann á verkstæði. Eigum einmitt tíma á verkstæði í dag, á að lagfæra áðurnefnda löm á hurð.

Manualinn/handbólkin var heima þar sem við höfðum verið að glugga í hana. Þegar við komum heim var flett og kom í ljós að krókar áttu að vera einhver staðar í bílnum. Hrund fór aftur út um kvöldið og tók allt sundur í skottinu. Fann loks krók inn í dekkinu. Við ætlum því að reyna að draga bílinn á verkstæðið á eftir þegar Hrund er í gati í skólanum.

Eins gott að bílaumboðið borgi þetta. Við vorum ekki að kaupa okkur nýjan bíl til þess að lenda í þessu. ÓGESSLEGA pirrandi.

Núna er ég búin með heita vatnið mitt með sítrónunni og hunanginu. Það hjálpað lítið. Ég er enn gráti næst þegar ég kyngi. Er oft búin að skoða upp í mig í leit að hvítum deplum, bólgan er það mikil að ég gæti verið með streptókokka. Sem er helvíti.

Verð að fara og draga stelpurnar mínar á lappir. Það er svo gaman að vekja þær. Eða þannig. Úff. 


Laugardagsþankar

Varúð: Í þessari færslu nota ég hin ýmsu blótsyrði. Ekki fyrir viðkæma. 

 

 Ég og Hrund fórum á djammið í gær og skemmtum okkur konunglega. Það sem mér finnst leiðinlegt við djamm eru leigubílaraðir og ÓGEÐSLEGIR GAURAR.

Er ekki bara hægt að láta mann í fock**** friði?

Nei, klárlega ekki.

Ég get ekki fengið að dansa í friði án þess að vera með einhverja graða tittlinga utan í mér. Það þýðir ekkert að segja að maður sé lesbía, trúlofaður og upptekinn við að dansa VIÐ KONUNA SÍNA.

Flestum þessum perrum finnst bara geggjað að fylgjast með okkur Hrund. Eins og við séum einhverjir helvítis sýningargripir, leikarar í persónulegri klámmynd eða draumórum þeirra. Mér finnst þetta óþolandi.  Ég heimta það að borin sé virðing fyrir mér, konunni minni og okkar sambandi.

Í gær var einmitt einhver skítur sem fylgdi mér eins og skugginn. Stelpurnar reyndu að olnboga hann í burtu og ég reyndi oft að útskýra fyrir honum ég hefði minna en engan áhuga á honum. Hann hlustaði ekki og fannst bara voða hot að horfa á okkur Hrund dansa.

Einhvern veginn tókst honum (sennilega vegna áfengis í blóði mínu) að þröngva upp á mig kossi. Þetta gerðist svo snöggt að eitt andartak hélt ég að þetta væri einasta konan mín. Þegar hann tróð tunguni upp í munninn á mér áttaði ég mig og hrinti honum óblíðlega í burtu.

Ég var bara brjáluð. Mest inn í mér. Gekk ekki berserksgang eða neitt þannig. Helvítis dónaskapur er þetta.

Á leiðinni út af staðnum sat hann líka fyrir mér. Hélt hann ætlaði að rífa af mér fötin í von um að fá mig til að vera.

Það versta er að yfirleitt þegar ég fer út að skemmt mér lendi ég í svona gaurum. Oft hitti ég líka frábæra stráka. Eins og Tryggva besta frænda í gær. Við knúsuðumst og sögðum hvort öðru hvað okkur fyndist hitt fyndið og skemmtilegt og hvað okkur þótti vænt um hvort annað.

Allavega. Hegðun svona skíthæla er ekki réttlætanleg. Ég þoli ekki svona yfirgang. Og ég dansa ekki við og kyssi konuna mína í þeim tilgangi einum að uppfylla einhverja draumóra hjá karlmönnum.

Nei þýðir nei, fjandinn hafi það.

Ég neita að láta koma svona fram við mig. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband