Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Rauðhaus

'Er amma hennar mammíar með þér' spurði Rakelita í hálsakotið á mér í gær eftir að hafa tekið æpandi og öskrandi glöð á móti mér. 'Meinaru mamma mín, amma Alla' spurði ég. 'Já' svaraði kríli. Því miður var hún ekki með mér.

Inni í eldhúsi beið mín blár plastkaffibolli, Rakelin var búin að hella upp á kaffi handa mér. 'Þetta er kaffi handa mammíar' tilkynnti hún. Mammíar?

'Hey, mammí! Ég á hugmynd! Sagði kríli í morgun uppi í stóra rúmi. Hrund neitaði að vakna svo Rakel brá á það ráð að lækna hana (það var sumst hugmyndin). Hún náði í læknadótið sitt, setti á sig hjúkkukappa og boraði einhverju dóti inn í bakið á Hrund. (Það virkaði ekki, Hrund neitar enn á koma á fætur.) 

Rakel vildi endilega fá að taka litla nuddtækið mitt með sér inn í herbergi. Ég vildi vita af hverju þar sem þetta væri bara til að nota þegar manni væri illt í vöðvunum. 'En ég nuddir mig alltaf þegar mér er illt' sagði barnið og því til sönnunar nuddaði hún tækinu upp og niður eftir litlum handlegg. Ég sagði að hún mætti bara fá það lánað næst þegar henni væri rosa illt.

'Heitir þetta bjór?' spurði hún og lyfti upp tveggja lítra kókflösku sem af einhverjum ástæðum var inn í stofu. Nei. Nei, nei, nei.

'Ég ætlar að mælar þig' sagði hún og var mætt með málband. Mældi mig í bak og fyrir og kvað upp dóm: 'Þú ert 40 kíló mammí' (I wish!!!). 'En þú' spurði ég. Hún mældi sig og þuldi upp: 'Ég er sjöhundruð og tvö og sex kíló.' Hvorki meira né minna'

Núna er hún að gefa Rósu frænku, sem er í kaffi, sítrjónu með brauði. 'Viltu disk eða ekki' spurði hún fyrst. Náði svo í disk og sítrjónu með brauði og varaði hana við því að þetta gæti verið súrt.

'Hver er best í heimi' spurði ég hana. Það stóð ekki á svarinu: 'Ég' sagði hún. 'Hver er klárust í heimi' spurði hún'. Ég sagðist ekki vita það. 'Ég' sagði hún. 'En hvað er ég mest í heimi' vildi ég vita'. Henni varð ekki orða vant frekar en fyrri daginn: 'Þú ert, þú strjórnir mest í heimi'. Þar hafið þið það. Í hennar heimi stjórna ég mest. Eða strjórnir ég.

Áðan var hún að skoða dýrabókina sína. 'Sérðu, páull' sagði hún og benti á beinagrind af risaeðlu. Páull? 

Núna er hún að tala í símann sinn. Hún á einhvern gamlan síma sem hefur samkvæmt henni hringt stanslaust í allan morgun.

En nú verð ég að fara, ég á að fara að borða sítrjónu.

Vona bara að Sprundin fari einhvern tíma á fætur. Það væri nú skemmtilegra að hafa hana með í fríið!

Knús á stelpurnar í vinnunni.  


Freytt

Já, ég er heldur freytt (eins og rauðhaus segir) í dag. Þið vorkennið mér kannski ekkert þar sem ég er að fara í frí en hvað manneskja með barn hvílir sig og sefur út í fríi? Ég og Sprund erum aldrei eins þreyttar og í fríum.

Vinnufamilían fór á Esjuna í gær. Þetta er ekki grín. Loksins hef ég fundið einhvern sem vill ganga eitthvað með mér. Mikið svakalega fór ég samt í taugarnar á sjálfri mér þar sem klöngraðist upp. Spikið hristist, maginn dúaði og rassinn öðlaðist sjálfstæðan vilja fyrir utan það að hægja á mér. Það eina sem fór ekki í taugarnar á mér voru brjóstin enda vel reyrð undir íþróttatoppnum. (Sem bæ ðe vei er ógisslega fleginn. Af hverju í ósköpunum keypti ég mér fleginn íþróttatopp? En asnalegt. Ég hlýt innst inni að vera svona heilluð af eigin brjóstaskoru. Ég sem óskaði þess hér á árum áður að vera flatbrjósta.) Síðast þegar ég lagði í þetta fjall var ég létt sem lauf og blés varla úr nös enda í dúndurformi. Núna var annað upp á teningnum og á meðan svitinn lak niður andlit mitt og bak stóð ég á öskrinu inn í mér. Ég hljómaði í mínu eigin höfði líkt og snarbilaði austur-evrópski leikfimikennarinn minn í Melaskóla (sem var rekinn eftir að strákur í bekknum mínum drukknaði næstum því í sundi, brjálæðingurinn kenndi okkur nebla líka sund): 'Koma soooo! Ekki hætta! Ekki vera auuuuumingi! Ertu FÁVITI?' Ég var bara skíthrædd við sjálfa mig og gerði eins og mér var skipað. Enda enginn aumingi.

Vitur kona sagði mér eitt sinn að lífshamingja mín ylti á því að ég kæmi vel fram við sjálfa mig. Hún sagði mér að koma eins fram við mig og ég kæmi fram við barnið mitt. Aldrei nokkurn tíma myndi ég öskra svona á rauðhaus. Ég er greinilega ekki góð í þessu.

Við höfðum ætlað okkur upp að steini en komumst ekki alla leið vegna hnausþykkrar þoku. Áðum í staðinn og drukkum kakó og spjölluðum. Höfum hér með ákveðið að fara aftur í ágúst sem er bara frábært.

Rauðhaus kemur heim á eftir og ég er að vinna í því að setja mig í mömmugírinn. Ekki það að það eru engin handtök eins æfð hjá mér og þau sem umönnun barnsins krefst: Skeina, skera, mata, þurrka, fæða, klæða, greiða, strjúka, klappa, knúsa, breiða ofan á, kyssa, þvo og þrífa. Stelpurnar í vinnunni buðu mér að hita mig upp með því að skamma þær aðeins. Nei, djöfull er það það leiðinlegasta sem ég geri. Og þar með talið að ryksjúga. Held ég sleppi því í vinnunni.

Það verður ljúft að fara í frí. Ekki það að mér finnst ég rétt byrjuð að vinna. Þetta hefur bara verið yndislegt sumar. Núna þegar allar vinkonur mínar eru út í rassagati er kærkomið að eignast nýja vini. Stelpurnar í vinnunni eru þeir skemmtilegustu og mestu ljúflingar sem ég hef hitt lengi. Og Sprundin veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Konan hennar sem aldrei hefur þurft neinn tíma fyrir sjálfa sig og hefur á köflum verið svo necia (þurfandi) að hún hefur verið að kæfa hana (þ. e. Sprundina) talar allt í einu látlaust um vinnuna og vinina, fer á vinnudjömm og í göngur og skemmtir sér konunglega.

Ekki það að mér hafi leiðst áður. Ég var alveg sátt. Ég hins vegar fattaði ekki að ég gæti alveg verið að skemmta enn þá meira. Mér fannst bara svo yndislegt að eignast fjölskyldu, lítinn rauðhaus og mjúka konu, fallegt heimili og fjölskyldulíf, að ég gaf mig alla. Þreif og eldaði, hugsaði um konuna og barnið og lærði þess á milli. Ég fílaði það í botn og hef alveg hugsað mér að gera það áfram. Það er bara svo mikilvægt að eiga sér fleiri en eitt líf. Það er frábært að vera mamma og kærasta en ég verð líka að vera bara Díana Rós. Vona bara að Sprundin mín átti sig á því og skilji að hún er mér ekkert minna dýrmæt þótt ég sé hætt að vera svona necia. Við vorum reyndar að ræða þetta um daginn og vorum alveg sammála um að það væri kominn tími til að vera kannski aðeins meira sundur og með vinum okkar. Það að eiga maka af sama kyni getur skapað mjög sérstakar aðstæður. Það verður óneitanlega þannig að þið eigið sömu vinina og eins skemmtilegt og það er verður að passa það aðeins. Það er svo mikilvægt fyrir fólk í sambandi að eiga sína vini sem og sameiginlega.

Og þá er ég búin að koma þessum hugleiðingum frá mér.

Allavega held ég að við Sprundin höfum gott af því að fara í sumarfrí og hnoðast hvor í annarri og auðvitað afkvæminu.

Ég blogga svo bara þegar ég er búin að vera viku á Malarrifi eða jafn vel ekkert fyrr en eftir hringferðina.

Já, já, já. Ég ætla að vera dugleg við að vera betri við sjálfa mig. Ég get þetta. No hay clavo.


Magasár

Ég er alveg að fá magasár af stressi yfir öllu sem ég ætla að koma í verk í þeassari viku. Það er samt alls ekki neitt leiðinlegt, bara mikið. Á eftir ætla ég að bruna í Everest og fá nýja tjaldstöng í stað þeirrar ónýtu (eftir Hvalfjörðinn). Svo ætlum við Sprundin í bíó ef hún skiptir ekki um skoðun (hún heldur því stundum fram að henni finnist leiðinlegt í bíó). Á morgun fer ég í mat til mömmu og svo á Esjuna með vinnufamilíunni. Á fimmtudaginn þarf ég að pakka fyrir Malarrif og hitta og kveðja Kötlu sem ég sé ekki meir áður en hún flytur til Þýskalands. Á föstudaginn verð ég að þrífa aðeins, vil ekki koma heim í skít, og svo er það bara sumarfrí. Mitt yndislega Snæfellsnes með vatnsskorti og símasambandsleysi.

Núna ákalla ég veðurguðina. Vil ekki að það rigni of mikið á okkur blómarósirnar á Esjunni á morgun.

Ok. Mi madre bíður úti á bílastæði, verð að hlaupa.


Nei

Ég segi nei við fyrirsögn.

Hrund náði í krílið eftir vinnu á föstudag. Barnið talaði að sjálfsögðu látlaust alla leiðina heim. Tók það fram að hún hefði ekki fengið nammi, ekki sett það í vasann og ekki borðað það. Aumingja barnið veit að nammi er ekki í boði fyrir hana (nema í undantekningartilvikum) í stelpukotinu. Ég hef nú reynt að segja henni að hjá pabba ráði pabbi og þar sé í lagi að borða smá nammi ef hún man að bursta tennurnar vel. Barnið tók líka fram við mömmu sína að Karíus og  Baktus kæmu í tennurnar ef hún borðaði nammi. (Ekkert má maður segja, barnið fær það á heilann hvort sem það er kuldaboli, Karíus og Baktus eða eitthvað annað.) Og af orðum þess að dæma er barnið kom með nóg af þeim köllum: 'Karíus og Baktus eru bara hálfvitar'. Þar hafið þið það.

Rauðhaus var mjög ör þann tíma sem hún var hjá okkur. Það reyndist henni mjög erfitt að setja sig inn í heimilislífið og þær reglur sem því fylgja eftir langan tíma hjá pabba sínum. Ég og Hrund vorum komnar með ógeð af okkur sjálfum, endalaust eitthvað að röfla. Krílið mitt var bara ekki alveg eins og hún á að sér að vera. En ég skil það, hún er bara lítið barn og verður jafn rugluð á lífinu og aðrir. T. d. ég.

Þrátt fyrir það skemmtum við okkur vel. Fórum út að borða á Ítalíu á föstudaginn og Rakel fékk kúluís á eftir. Vildi endilega piparmyntukúlu og át hana alla þótt henni þætti bragðið augljóslega nokkuð skrítið. Hún sofnaði fast og svaf eins og engillinn sem hún er. Köngulóarfóbían hennar virðist þó vera að færa sig eitthvað upp á skaftið og núna er hún farin að fá köngulóarmartraðir. Ég vaknaði um miðja nótt við það að strumpur stóð við rúmstokkinn og sagði með kökkinn í hálsinum: 'Mammí, mammí mín, það er könguló'. Hún fékk mömmuknús og skreið aðeins upp í stóra rúm. Tilkynnti svo stuttu seinna að köngulóin væri farin og að hún væri tilbúin til að fara inn í sitt rúm. Svaf svo þar til hálf ellefu (fór að sofa klukkan hálf níu).

Um morguninn fékk Rakel að hjálpa mömmu sinni að gera kaffi handa mér sem er mesta sport í heimi. Á meðan hvíslaði hún og neyddi mömmu sína til að gera slíkt hið sama. Hún var viss um að ég væri sofandi og vildi ekki vekja mig þessi elska.

Við horfðum svo allar á Múmínálfana sem hún hafði fengið að 'kaupa' (hún skilur ekki hugtakið leigja) í sjoppunni kvöldið áður. Eftir þá tókum við okkur til og fórum niður í Nauthólsvík. Greyið stelpan hélt að við værum að fara að hitta afa Douglas. Hún hefur aldrei baðað sig svona úti (fyrir utan sund) nema úti í Svíþjóð hjá honum. Þrátt fyrir fjarveru afans skemmti hún sér konunglega. Hlýddi engu sem við sögðum og svaraði öllu með nei-i en það skríkti í henni af kátínu þar sem hún henti sér til sunds, renndi sér í rennibrautinni eða hljóp um ströndina. Bjarndís og Einar Ernir komu þegar leið á daginn og Rakel og Einar eyddu klukktíma í að renna sér á rassinum (eða maganum eða andlitinu, get svo svarið það) niður einhvern hól.

Það var svangt, 'fyst' (þyrst) og þreytt barn sem pabbinn kom að sækja. En að mér sýndist kátt og glatt. Þegar hún kemur frá honum á fimmtudaginn ætla ég að vera þolinmóð og gefa henni aðlögunartíma áður en ég minni á þær reglur sem gilda. Stundum finnst mér ég ömurleg mamma og stundum mjög góð. Yfirleitt reyni ég bara að gera mitt besta og vona að það dugi til.

Við Hrund opnuðum bjór (trúið þið þessu?) eftir að skottan var farin. Svefn sótti að Hrund og á meðan hún lagði sig drakk ég bjór, hlustaði á The Knife (mér varð svo hugsað til þín elsku Oddný mín, manstu?) í botni (sem virtist ekki trufla Hrund hið minnsta) og bara var einhverf. Hrund skreiddist á lappir og fór svo niður í bæ að hitta vinkonur sínar. Ég var ekki tilbúin að fara (klukkan eitt um nótt) og eyddi þremur tímum í að blogga, lesa blogg, hlusta á ipodinn í botni (ég hef örugglega skemmt í mér heyrnina) og taka myndir af sjálfri mér. Fór loks eftir þetta allt (eða um fjögur) niður í bæ. Eins og ég sagði í fyrri bloggum hef ég bara verið týnd í naflanum á sjálfri mér.

Hrund fór austur í gær að hitta pabba sinn og ég talaði í símann allt kvöldið. Fyrst í tvo tíma við Oddnýju og svo í tæpan einn og hálfan við Kötlu. Það var bara mjög gott og nauðsynlegt.

Ég er að vona að naflaskoðun minni sé lokið. Ég er hreinlega komin með svo mikið ógeð af sjálfri mér að ég hefst ekki við í eigin návist.

 


Je minn

Ég er með ljóð á heilanum. Mikið ofboðslega er ég sjálfhverf þessa dagana.

Ég blogga um helgina þegar ég hef fundið leið út úr naflanum á mér. 


Neeeeeiiiiiiii

Kannski er betra að skrifa færslur þegar maður er edrú. Það sem ég var að skrifa þurrkaðist út! . Skrifaði færslu rétt áðan og veit ekkert hvað gerðist. Hún þurrkaðist allavega út. En hér er ljóð eftir mig:

Ég dáist að þessum ljóðskáldum

sem fara í viðtöl og eru

 svo vel máli farin og not orð

sem ég myndi aldrei nota  og

semja svo ljóð um minningagreinar,

fólk og fyllerí og e-ð sem heitir

endurómun uppgufunar eða e-ð

álíka. Svo er skáldið jafn gamalt mér

en svo hnyttið og

háfleygt að það hlýtur að hafa

æft sig í mörg hundruð ár.

 

Ég er bara alltof sjálfhverf til

að vera að skrifa um táfýlu

fólks út í  bæ. Og alltof einföld

sál til að geta átt í svona djúpum

samræðum. Mér finnst bara gott

að kyssa konuna mína

kaffikossi. borða pulsu með

öllu og drekka kókómjólk.

Og fínt að skrifa um það líka.

Í mesta lagi samt undir rós.

 

 

Skrifaði  meira áðan. En er búin að gleyma því! 


*Fliss*

Krakkar mínir

Var með eitthvað gott í hausnum áðan, er auðvitað búin að geyma því. Tölvan er of hæg.

Barnið aftur farið til pabba síns. Ég hef bara verið að missa mig í bjórnum síðan ég varð barnlaus.

Er núna að hlusta á 'Big girls are beautiful' með Mika. Ó, já. Það er víst satt.

'Ef þið bara vissuð' er setning sem er eins og rauður þráður í einu ljóða minna.

Og í alvöru. Ef þið bara vissuð hvað ég er að hugsa.

*Fliss*

ps. Nei, shjitt. Búin að gleyma því.

pps. Hvenær í ósköpunum verð ég fullorðin? 


Eitt það besta í heimi ...

... er að skrifa ljóð. Eða það finnst mér. Ég á ógrynni af ljóðum á lausum blöðum út um allt, í tugum dagbóka, í ljóðabókinni minni og í höfðinu. Eins og ljóð yfirleitt, eru þau einstaklega sjálfhverf og endurspegla líðan mína og hugsanir í það og það skiptið. Sá sem vill kynnast mér allri, öllu því sem ég hef til að bera, mínum kostum og göllum, ætti að lesa ljóðin mín. Það væri hins vegar kannski hægara sagt en gert þar sem ég leyfi ekki öllum að lesa þau. Ansi væri ég þá allsber eitthvað. Þegar ljóðabókin kom út leið mér á tímabili eins og ég hefði verið húðflett. Nú myndu allir sjá hvað ég væri klikkuð. Hvað var ég að pæla að sýna fólki allar mínar myrkustu hugsanir. Og hvað ef fólk áttaði sig á því hver manneskjan var sem ég orti um af svo miklum hita. Hvað ef þessi manneskja kæmist að því hún væri eldurinn sem stöðugt logaði í mér.

?

Ég var 18 ára og einstaklega dramatísk. Ég komst yfir þetta og leið ágætlega eftir að hafa verið afhjúpuð (að mér fannst, það var ekki eins og allir í heiminum hefðu lesið bókina).

Ég á ljóðum líf mitt að launa. Og það meina ég bókstaflega. Hefði ég ekki haft hæfileikann til að færa hugsanir mínar í orð hefðu mörg augnablik í lífi mínu verið mér ofviða. Erfiðustu árin mín á ég erfitt með að muna og lengi vel vildi ég ekki muna þau. Fyrir ekki svo löngu áttaði ég mig á því að ég gæti aldrei litið almennilega fram á við fyrr en ég tækist á við fortíðina. Fyrir mig virkar ekki sú aðferð að gleyma. Ég verð að muna og læra að vera sátt við allt það sem ég hef gert, þær ákvarðanir sem ég tók og fyrst og fremst verð ég að sætta mig við þetta kjánastrik sem ég var svo lengi vel. Það hefst ekkert upp úr því að hata sjálfan sig annað eymd.

Ég týndi til öll ljóð sem ég fann frá þessu tímabili og mikið lifandis skelfingar ósköp fannst mér erfitt að vera manneskja. Sérstaklega sú sem ég var. Sum ljóðin eru svo háðsk og kaldhæðin að mér varð hverft við. En sú aðferð mín að sjá spaugilegu hliðarnar á lífinu, þótt kaldhæðnar væru, fleytti mér áfram.

Í seinni tíð er bjartara yfir ljóðunum mínum. Ljóðin mín um barnið mitt einasta eru svo uppfull af gleði og ást að það hlýtur að duga öllum heiminum. Hin ótalmörgu ljóð sem ég samdi til Sprundarinnar minnar í tilhugalífinu sýna lífið sem hún kveikti í mér á ný eftir að mér hafði fundist svo lengi að ég hefði misst það frá mér.

Það var einhver ástæða fyrir því að ég byrjaði að skrifa um þetta en hún er löngu gleymd.

Með aldrinum finnst mér aðeins auðveldara að vera manneskja. Kannski af því að ég hef lært það (og er enn að læra) og er orðin aðeins betri í því.

Ég held ég hafi bara haft allt of mikinn tíma til að hugsa á meðan barnið hefur verið hjá pabba sínum og undanfarna daga hefur mér fundist pínu erfitt að vera manneskja.

Þegar ég verð stór held ég bara að ég verði flott manneskja.

ps. Ég held að það sé of mikið að hafa heilsuhorn á hverjum degi. Bara allt of mikið af upplýsingum fyrir fólk líka. Ætla því að hafa það nokkrum sinnum í viku. Er ekki búin að ákveða hversu oft enn þá. Ég get hins vegar sagt ykkur í dag að ljóð hafa einstök áhrif á geðheilsuna.

Annars kemur mömmugullið heim á eftir og verður yfir nótt. Við mömmurnar ætlum bara að knúsast í henni, ekki fara í neinar heimsóknir eða neitt heldur njóta þess að vera fjölskylda.

pps. Í dag held ég að sólin í sinninu sé risin upp frá dauðum.


Úff

Ég hef bara ekki andlega geðheilsu til að blogga neitt almennilega þessa daga. Mér líður enn þá eins og einhver hafi kippt fótunum undan mér og neiti að setja mig niður. Ég svíf því bara um í háloftunum (eins viðbjóðslega lofthrædd og ég er) ein og yfirgefin af bloggandanum.

Ég svík hins vegar ekki Hlífina og hér er heilsuhornið hennar:

KÍWI er eitthvað sem maður ætti að venja sig á að borða. Þessi krúttaði ávöxtur innheldur rúmlega þrisvar sinnum meira af C-vítamíni en appelsína eða um 180 mg í hverjum 100 g. Auk þess er það stúfullt af andoxunarefnum og öflugt í baráttunni við sýkingar. Algjört möst fyrir reykingarmenn.

Þetta, og annað í heilsuhorninu, er eftir minni bestu vitund og upplýsingum. Ekki drepa mig ef ég skrifa einhverja vitleysu. 


Handa Hlíf ...

... og öllum hinum kemur hér heilsuhornið og verður tvöfalt í dag þar sem ég skrifaði ekkert í gær:

Efni sem viturlegt væri að forðast er efnið TRICLOSAN sem finna má í nær öllum antibacterial vörum líkt og sápu, tannkremi og snyrtivörum. Efnið er oft mengað af svokölluðum dioxin efnum og eru þau krabbameinsvaldandi auk þess að geta veikt ónæmiskerfið, skert frjósemi og valdið fósturskaða.

TALKÚM sem finna má í hinum ýmsu vörum fyrir börn, í svitalyktareyði og í andlitspúðri er algjör viðbjóður. Það inniheldur kemískt efni áþekkt asbesti og getur aukið líkurnar á krabbameini í eggjaleiðurum.

Að lokum smá fróðleiksmoli: Aðeins 11 prósent af 10.500 innihaldsefnum í hinum ýmsu snyrtivörum hafa verið rannsökuð og því ekkert vitað um möguleg skaðleg áhrif þeirra.

Hallelúja.

Enginn mættur í vinnu enn og minns geðveikt einmana. Kannski er liðið að forðast mig.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband