Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
28.1.2009 | 20:21
-
Nú eru ekki lengur punktar heldur er komin lína. Hún er kannski dauf en hún er sýnileg.
Fékk yndislegt símtal í dag. Átti ekki von á því en þótti svo innilega vænt um það og leið miklu betur á eftir.
Ég á svo góða vini. Á hverjum degi gleðst ég yfir því.
Svo á ég líka litla konu sem er alltaf svo mikið lasin. Þótt hún vilji ekki kannast við það og ekki hætta að reykja og ekki taka vítamín. Hún var veik alla síðustu viku og er eitthvað slöpp aftur núna. Við vonum að það sé ekki vegna þess að hún var að skafa fúguna í sturtunni í gær en hún er öll í sveppum. Namminamm. Hún er líka alveg að farast í bakinu greyið.
Hún skrölti með mér og rauðhaus í Bónus en var alveg búin á eftir. Ég gerði því hennar heimilisverk líka og var svo búin að gera svaka fínt fyrir hana þegar hún var búin að lesa fyrir Rakel. Lét renna í sjóðheitt bað og setti út í það algjöra töfrablöndu: Birkisafa, appelsínuilmkjarnaolíu og kvefolíu. Allt lífrænt og til þess gert að hreinsa öndunarfæri og slaka á vöðvum. Hún liggur þarna núna umkringd kertum með kaffi og súkkulaði og appelsínusafa með klökum. Tók svo til hrein föt og kókosolíu og setti sjampó og handklæði við baðkarsbrúnina svo hún þurfi ekkert að teygja sig eða beygja.
Sjitt hvað hún á góða konu.
Barnið er svo að springa úr gleði yfir því að Gyðan komi með að sækja hana á morgun. Hún er búin að bíða alla vikuna.
Hún sagði okkur daginn að Elísabet Rós og Gyða væru bestu vinkonur hennar. Bogamannsklíkan.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.1.2009 | 20:04
Þrír punktar
'Komiði stelpur'
Sagði hreinn og strokinn rauðhaus eftir kvöldmat. Hún stóð þarna á gólfinu í blómanáttfötum, apainniskóm og röndóttum náttslopp með blautt, rautt hárið í grænni teygju og horfði á okkur grábláum augum. Fullkomin í mínum grænu.
'Hvert'
Vildu mæður vita.
'Inn í stofu að dansa'
Og svo gerðum við það.
Stelpurnar.
Is it medicine. Sungum við. Og vorum glaðar.
26.1.2009 | 20:20
..
Sko, þetta mjakast. Síðasta þunglyndisfærsla var . en er núna .. Tveir punktar eru betri en einn.
Ég vildi ég gæti sagt ykkur öllum hvað er í gangi svo þið hélduð ekki að ég væri alveg búin að missa það en það gengur bara ekki. Og er kannski líka óþarfi.
Ég er bara búin að sofa 11 tíma samtals síðastliðna þrjá sólarhringa. Ég held að það geri hvern sem er andlega vanheilan. Ég bar ligg og stari upp í loftið þótt líkaminn öskri á svefn. Hugurinn hefur alltaf verið sterkari líkamanum.
Annars sagði stelpukona við mig í dag að ég væri að ganga í gegnum erfitt tímabil og mætti alveg eiga erfitt. Það sem skipti mestu væri að vinna sig út úr hlutunum og það væri ég að gera. Flott hjá mér.
Stundum þarf bara að segja einföldustu hluti við mann. Sérstaklega þegar það er vonlaust að bara harka af sér.'Það er í lagi að þú sért leið.' Já, ok. Þá líður mér strax betur.
Yfir í annað. Sat á biðstofu í dag og las Vikuna. Frekar leiðinleg aflestrar en í henni var þetta gullkorn frá barni á aldrinum 4-8 ára: Þegar einhver elskar þig segir hann nafnið þitt öðruvísi. Þú bara veist að nafnið er öruggt í munninum á þeim.'
Nákvæmlega. Alltaf eru það börnin sem hitta naglann á höfuðið.
Rakel var líka með ást á hreinu þegar ég spurði hana hvað hún væri:
'Þú ert ást.'
Ekki í fyrsta skipti sem hún segir það við mig. Knúsaði mig einmitt um daginn og sagði að ég væri ást.
Í sturtunni áðan var mamman að útskýra hvað foreldrar væru. Fólk sem á börn. Ekki endilega sem fæðir börn þar sem hvorki pabbar né allar mömmur gera það heldur fólk sem eignast barn á einhvern hátt.
Eftir sturtu sátum við inni í eldhúsi og borðuðum sjúklegasta bestasta æðislegasta eftirrétt sem ég hef búið til og nokkurn tíma hefur verið borðaður. Og þá. Já, þá héldum við áfram að spjalla um foreldra og Hrund sagði í gríni:
'Oooooog í næstu viku lærum við hvað amma og afi eru.'
'Og kind' bætti Rakel við, alltaf með á nótunum.
Já, í næstu viku lærum við um kindina krakkar mínir.
Við og spúsan stefnum á rúmið klukkan níu í kvöld svo það er best að ég fari að kústa tennur og fái konuna til að ýta á hnútana í öxlunum aðeins.
Þriðja vikan í skólanum. Og ég bara í bullinu.
Haldiði að ég geti þetta???
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.1.2009 | 11:39
Myndir
Loksins búin að setja inn myndir frá afmælinu hennar Rakelar, jólum og áramótum.
Kíkið á rakelsilja.barnaland.is
Svo fór ég á 'Viltu vinna millljarð' í gær og fannst hún æði. Bókin er góð og þótt myndin sé ekki alveg eins er hún ekkert síðri. Mæli með þessu.
23.1.2009 | 10:19
.
Það er svo merkilegt með lífið að það gefur manni stundum ekkert færi á að lifa því, ekkert rými til þess að njóta þess. Undanfarna daga hef ég verið að einbeita mér að því að tóra, að hafa það af, að gefast ekki upp og missa ekki endanlega sjónar á bjartsýninni og voninni sem er okkur öllum svo lífsnauðsynleg.
Lífið tekur ekkert tillit til aðstæðna, spyr ekki að tímasetningu, gefur manni ekki tíma til þess að undirbúa sig. Og daglegt líf í kringum mann heldur áfram þótt maður sjálfur komist ekki úr sporunum.
Ef það er eitthvað sem ég mun aldrei jafna mig á þá er það hversu ósanngjarnt lífið er. Stundum svo mikið að ég verð öskuill.
Stundum þannig að ég hef ekki orku til neins. Ekki til að fara í skólann, ekki til að læra, ekki til að hugsa um sjálfa mig eða fjölskylduna. Og alls ekki til að blogga.
Stundum er svo sárt að draga andann.
Ég ætla út að ganga á eftir. Verð að koma mér í almennilega hreyfingu aftur. Get ekki hugsað mér að hoppa í takt við lífsglatt fólk í Baðhúsinu. Vil frekar ganga í frostinu með hús og tré eins og skjólveggi sitt hvoru megin við mig. Með tónlistina í eyrunum svo hátt stillta að mér verði ómögulegt að heyra eigin hugsanir.
Ég myndi allavega segja að þetta væri mjög heilsusamleg leið til þess að reyna að hætta að finna til.
15.1.2009 | 16:43
Ekki lengi að því
Það er að fá mér nýjan síma. Núna getið þið aftur byrjað að senda mér skilaboð og lífga upp á tilveru mín.
Enn er skólaleiðinn gífurlegur. Eftir viku þarf ég að vera búin að gera gífurlega mikið fyrir ritgerðina. Held ég geymi það þangað til á síðustu stundu. Ég nenni eiginlega ekki heldur í Barnamálið. Letin bara á mig alla. Eldmóðurinn hefur yfirgefið mig. Ég man ekki hvað metnaður er. Ekki einu sinni félagslífið freistar mín akkúrat núna. Ég vil bara horfa á sjónvarp og lesa.
14.1.2009 | 09:59
Oh
Gemsinn minn er alveg að verða batteríislaus og það er ekki hægt að hlaða hann, batteríið er greinilega að gefa sig. Held ég neyðist til að kaupa nýjan síma en veit ekki hvenær ég kemst í það, kannski á eftir. Þannig ef ég svara ekki í símann eða ignora sms þá vitið þið af hverju. Munið bara heimasímann.
Mikið svakalega nenni ég ekki þessari önn. Hefði helst viljað vera í þessu eina spænskunámskeiði sem ég á eftir, skrifa ritgerðina og vinna smá með en það er mjög óvíst hvort það er einhverja vinnu að fá. Veit ekki hvernig ég ætla að hafa þetta.
Ég er bara þreytt í heilanum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2009 | 17:33
Helgin
Ég var nú svo full megnið af helginni að ég er ekki viss um hvað gerðist.
Nei. Það er lygi.
Glápti á sjónvarp með spúsunni á föstudagskvöldið. Fórum svo snemma að sofa eins og öldruðum hjónakyrnum sæmir. Fórum í Bónus af illri nauðsyn á laugardaginn og á eftir til mömmu þar sem ég hrærði í vöfflur sem ég svo bauð upp á með sultu og rjóma. Las á meðan skottið var í bílaleik og Hrund einbeitti sér að nýjasta áhugamálinu sem er að þæfa. Hún bjó til þetta líka fína ipodhulstur handa mér og eyddi megninu af deginum í það. Borðuðum hakk og tacoskeljar af bestu lyst hjá mömmu áður en við fórum heim þar sem Rakelin skreið undir sæng, ég horfði á mynd og Sprundin lagði parketið inni í svefnherbergi. HALELÚJA. Lögðumst heldur betur sáttar til svefns í síðasta skiptið (vonandi) í stofunni.
Robbi leit inn á sunnudaginn og knúsaði krílið sitt. Var látinn hjálpa til við að bera húsgögn. Ég er helvíti sterk, sterkari en Hrund segir hún (og það er líklega rétt) en hún vill samt alltaf endilega bera allt fyrir rósina sína. Hún bar því með Robba á meðan ég töfraði fram skyr, flatkökur og eggjasalat. Eftir það og heilmikið af ávöxtum náðum við stelpurnar mínar í mömmu og Bebe og skelltum okkur í Kolaportið. Við keyptum 10 bækur (ég bara kemst í vímu innan um bækur, þvílíkar gersemar) og eitthvað kínverskt töfrapúsl sem þær mæðgur liggja yfir öllum stundum. Gáfum svo soltnum öndum, frosnum svönum og frekum gæsum brauð og fengum okkur sjálfar kakó og með því á eftir.
Héldum svo í Hagkaup að kaupa fisk sem við keyptum en auk þess náðum við í þrenn skópör á gríslinginn á 4500 krónur. Mér finnst alltaf svo blóðugt að kaupa eitt par á barnið á rétt um 5000 krónur, þetta endist svo stutt. Mér finnst líka mikið að eyða hátt í 10.000 krónum í strigaskó á skóböðulinn minn á sumrin. Þetta voru því kostakaup fyrir okkur mæðurnar. Keyptum eitt par af strigaskóm, eina fína kuldaskó (græna, reimaða, úr leðri, sjúklega flottir) og svo græn kuldastígvél fyrir næsta vetur. Húsmóðirin í okkur er aldrei langt undan. Stundum finnst mér ótrúlega fyndið og skrítið að reka heimili, vera húsmóðir, eiga konu og barn sem þarf stöðuga athygli. Hvað þá að kaupa dót á útsölu fyrir heimilið, ekki sjálfa mig, og vera ýkt ánægð með það. Einu sinni, fyrir löngu, gat ég ekki ímyndað mér að ég myndi fíla þetta líf. Ég bara vissi ekki betur.
Pétur sætasti fíni fær nú að fara út úr búrinu á hverjum degi. Hann vill hins vegar hels húka upp á gardínustöng eftir æfingarnar sínar og lætur okkur færa sér búrið sem hann svo hoppar inn í. Ég finn það á mér að bráðum mun hann leyfa okkur að gefa sér far á puttanum. Duglegur strákur.
Best ég fara að malla eitthvað ofan í stelpurnar mínar.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.1.2009 | 12:20
ARG
http://www.ns.is/ns/upload/files/neytendabladid/soja.pdf
Þið verðið að lesa þessa grein, hún er stutt og skýr. Það er langt síðan ég fór að heyra um slæm áhrif soya, og þá erfðabreytts soya, í mat. Lífrænt soya er í lagi enda unnið eins og það á að gera og ekki fullt af eiturefnum. Mér finnst svakalegt hvernig viðbjóðurinn er tengdur skertri frjósemi, eins og segir í greinnni hefur frjósemi karla minnkað um helming á síðustu 40 árum. Fólk í dag er ekki eins frjótt og áður, það er alveg á hreinu og það eru lífshættir okkar sem valda þessu. Prófið að skoða innihaldslýsingar og þá sjáið þið soyamjöl í mjög mörgu. Maður er í nokkuð góðum málum ef maður sleppir skyndibitamat og mjög unnum vörum. Svo er bara að kaupa eins mikið lífrænt og maður getur. ÉG VEit! Það er ógisslega dýrt. En ef við Hrund getum keypt nokkrar vörur á mánuði fyrir okkar litla pening þá getið þið það líka. Það þarf bara viljann til þess. Og það er ekki erfitt að verða pínu lífrænn. Ef ég gat 'lífrænað' Hrundina þá geta allir orðið pínu lífrænir. Í alvöru. Þetta er hormónaviðbjóður, þetta stökkbreytta soya, og að sálfsögðu framleitt í gróðaskyni. Ég verð alveg brjáluð yfir svona pólitík.
Farin að tala við leiðbeinandann minn. Ógisslega fullorðins að vera að fara skrifa BA-ritgerð
Sjitt. Er að missa af strætó.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2009 | 10:52
púff
Andinn bara vill ekki koma yfir mig á nýju ári og ég hef enga þörf fyrir að blogga. Þetta hlýtur samt að fara að koma, ég lofa. Get allavega sagt ykkur að lekinn var ekki eins mikill og við héldum fyrst, eða sko afleiðingar hans voru ekki eins slæmar og við héldum. Erum búnar að vera að þurrka steypuna og er hún bara að verða tilbúin til að fá á sig nýtt gólfefni, við þurfum ekki að leggja nýjar flísar, bara laga aðeins til og erum komnar með eina glænýja þvottavél í boði tengdó. Ég er að segja ykkur það, það er búið að fjárfesta svo mikið í okkur Hrund að við getum aldrei hætt saman. Eins gott að löngunin til þess komi ekki upp.
Ég hef ekki þyngst í jólafríinu. Þetta er kraftaverk. Nei, þetta er afrakstur þrotlausrar vinnu sem er rétt að byrja. Það þýðir samt ekki að ég sé ekki feitabolla en ég er allavega feitabolla sem er ekki að fitna.
Rakel hefur sérstakan stað fyrir bogamenn í lífi sínu enda bogamaður af bestu gerð sjálf. Finnst Tristan bróðir Hrundar úber kúl gaur og Elísabetu sína hefur hún elskað frá fyrstu sýn. Sambandið milli þeirra er sérstakt og einstaklega fallegt. Og svo sagði ég rauðhaus í gær að á morgun værum við að fara hitta Gyðu sem hún hefur hitt einu sinni áður. Það var í sumar og þær urðu strax bestu vinkonur og léku sér svo fallega að ég fékk tár í augun. Barnið mundi alveg hver Gyða var. Fór strax að rifja upp atriði úr leiknum þeirra og ég bara átti ekki til orð. Vissi ekki að börn væru svona minnug.
Held ég sé alveg að verða búin að ákveða mig. Held ég ætli í master í hagnýtri ritstjórn og útgáfu.
Frá því á aðfangadag hef ég verið frísk í samtals fjóra daga. Fyrst var ég með flensu í viku og þá frá og með aðfangadegi, var svo frísk í tæpa þrjá daga en fékk þá streptókokka og í dag er ég frísk. 7-9-13.
Einkunnir voru sæmilegar, ein átta, tvær átta fimm og ein nía. Ég er hins vegar ekki ánægð með aðra átta fimmuna og er viss um að ég hafi átt að fá hærra. Er að vinna í þessu.
Rakel er engill í lífi okkar, ég elska hana meira með hverju árinu, hún er brjálæðislega vel heppnuð manneskja og einstaklega vel upp alin sem gerir henni lífið auðveldara. Hún hefur mýkstu hendurnar og fallegustu orðin og í faðmlagi hennar er að finna tilgang lífsins.
Yfir og út í bili.
ps. Jól og áramót voru sérstaklega vel heppnuð, ljúf og loðin.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar