Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Útilega og sumarfrí

'Vaxa muffins á tré' vildi barnið vita þar sem við sátum í bílnum, átum muffins og stefndum á Úlfljótsvatn. Bwaahaha ... Sæta stelpa.

Útilegan var æði. Alveg frábær. Aðstaðan mjög góð og veðrið ekki síðra. Lentum reyndar í bjálaðri umferðarteppu á leiðinni út úr bænum en við Sprundin hlustuðum bara á útvarpið og Rakelin lagði sig aðeins. Slóum svo upp tjaldi þegar við komum á áfangastað, grilluðum hamborgara og nutum kvöldsólarinnar.

Á laugardaginn fékk Rakel að renna sér óteljandi ferði í risastórum hoppukastala sem var á svæðinu á meðan við kyrnum sáum varla út úr augunum fyrir mýi. Enduðum með flugnanet á höfðinu sem var ótrúlega ljúft en Rakel vildi ekki sjá það. Eftir hoppukastala fékk hún að leika sér aðeins á öllum þremur leikvöllum svæðisins og svo fengum við okkur grillað brauð í hitanum. Það var nefnilega steikjandi hiti og ég var hreinlega að leka niður þegar sólin braust fram úr skýjunum.

Ákváðum að munda veiðistöngina eftir hádegismat og var það hin mesta skemmtun þrátt fyrir engan afla. Rakel var komin úr öllum nema stuttermabolnum og buslaði í vatninu. Hún sýndi svo ótrúleg tilþrif við veiðmennskuna og stóð með beran bossann úti í vatninu og kastaði eins og atvinnumaður án allrar hjálpar. Ég stóð hreinlega á öndinn af hrifningu. Hrund undi sér líka vel og á tímabili sat hún með veiðistöngina, bros á vör og fjarrænt blik í augum á meðan Rakel skríkti í vatninu og ég kom mér fyrir á bakinu með sólina á andliti og bumbu. Yndislegt alveg hreint.

Grilluðum að sjálfsögðu kvöldamt og lékum okkur. Fengum okkur svo kakó og kleinur fyrir svefninn og lágum heillengi allar þrjár inni í tjaldi, lásum, knúsuðumst og spjölluðum.

Sunnudagurinn var líka heitur en svolítið vætusamur. Náðum að taka góðan sprett á hjólabát sem var skemmtilegt en brjálæðislegt púl. Rakel sat í fremri röð og skipaði fyrir eins og herforingi á meðan ólétta konan og reykingarmanneskjan reyndu að hjóla á móti straumnum. Pökkuðum því næst saman öllu hafurtaskinu og héldum í bæinn. Kíktum í heimsókn til tengdó sem kom færandi hendi frá útlöndum að venju, fengum svooo fallegar samfellur á krílið og föt á Rakel. Fórum í pottinn og í mat til mömmu og höfðum það ótrúlega gott.

Í morgun náði Robbi í Rakel og verður hún með honum í sumarfríi í tvær vikur. Þau ætla í ferðalag svo við mömmurnar sjáum krílið ekkert fyrr en laugardaginn 11. júli, hrikalega langt þangað til eitthvað en þau munu skemmta sér og við Sprundin getum notið þess að vera barnlausar.

Þyrfti samt helst að fá fríi á mánudegi til þess að jafna mig eftir svona ferðalög, er alveg hrikalega syfjuð eitthvað ...


...

Meinti að okkur vantaði bílstól, ekki barnastól, verður lítið mál að redda honum. Ömmustólinn þarf heldur ekki strax en er voða gott að hafa. Bílstólinn myndum við leigja þar sem þeir eru foc**** rándýrir.

Var í mælingunni áðan og er rétt á mörkunum. Á líklega eftir að enda á lyfjum en vonandi ekki strax. Fór hálfan hring í barnavöruversluninni Ólavía og Ólíver og sjiiiiitt hvað allt er dýr. Minnti mig reyndar á að okkur vantar skiptitösku þar sem sú sem var notuð fyrir Rakel var komin í hengla. Sérstakar skiptitöskur kosta þetta frá 10.000 sem er algjör geðveiki. Sá að ódýrasta borðið með bala kostar 10.000, eitthvað um 6000 án bala. Ekkert rosalegt en samt alveg slatti. Maður notar þetta ekki svo lengi. Spurning um að láta balann bara nægja þangað til þau geta bara farið í baðkarið. Get fengið fallega vöggu með dýnu fyrir rúmar 12.000 en hún er reyndar ekki á hjólum.

Annars er ég ekkert mjög stressuð yfir þessu, finnst stússið alveg skemmtilegt. Lifði bara í þeim misskilingi að við ættum allt sem er kannski ekki alveg raunin. En bara gaman að skoða og pæla ...


Fnff

'Það sést í annað rasskinnið á þér' kallað Rakel á eftir svefndrukkinni móður sinni um þrjú í nótt. Hún vaknaði tvisvar með stuttu millibili, einu sinni til að pissa held ég (annað hvort er ég andvaka eða rotuð í óléttunni og ég rétt rumskaði við bröltið í þeim í fyrra skiptið) og svo stuttu seinna við martröð. 'Ég dreymdi illa' grét hún og ég sagði henni að koma upp í. Þegar hún var augljóslega búin að jafna sig (var farin að blaðra út í eitt eins og henni einni er lagið) sendi ég Hrund með hana inn í rúm. Hún getur enn haldið á henni, eitthvað sem ég get engan veginn þessa dagana. Þegar Sprundin skreiddist inn í rúm fannst Rakel svo nauðsynlegt að benda henni á að nærbuxurnar sætu ekki rétt eins og áður segir frá. 'Ég kalla ekki oft á þig' gólaði hún. 'Ekki heldur þegar þú sefur ...'

Annars var krílið ekki sátt við að vera sakað um að sparka lítið og var með partý í gær. Skýr skilaboð sem enduðu með einu svo kröftugu sparki um kvöldmatarleytið að ég hrökk við og missti næstum næringarríka pulsuna, sem ég var að borða, úr höndunum. Litla partýljón.

'Má ég finna barnið mitt sparka í kvöld þegar þú ferð að sofa' bað Rakel um daginn. Vissi að mamman hafði fengið að finna spark á þeim tíma og vildi vera með. Getur ekki beðið eftir að finna fyrir litla barninu sínu. Ég held að það hljóti að fara að koma að því og segi henni það á hverjum degi.

Annars var mamma í Fjarðarkaupum í gær og var sko heitt í hamsi í morgun á leið í vinnu. Hún hafði séð það svart á hvítu, eða bleikt á bláu, sem ég vissi ... Föt niður í pínkustærðir eru mismunandi eftir því hvort þau eru ætluð stelpu eða strák. Á nýfædd börn er ekki hægt að kaupa hvítar samfellur, það er nauðsynlegt að merkja börnin strax og gefa þeim kynhlutverk.

'Rosalega er þetta allt bleikt' varð Hrund að orði þegar við fórum í gegnum barnafötin hennar Rakelar sem hún notaði fyrsta árið. Allt gefins eða meira og minna. 'Svona er þetta þegar fólk veit kynið' benti ég henni á. Fólk er svo heilaþvegið að það ræður ekki við sig og gefur 'stelpu'- og 'strákaföt'. Þetta gerir mig klikkaða. Maður þarf liggur við að halda því leyndu í nokkra daga á eftir fæðingu líka hvers kyns barnið er svo maður fá ekki allt bleikt eða blátt á sængina.

Sem betur fer held ég að það hafi ekki farið fram hjá neinum að ég og Hrund berjumst gegn því að kynhlutverkum sé þröngvað upp á Rakelina og að sjálfsögðu mun það verða eins með næsta barn.  Sem betur fer held ég að fólk viti að í okkar huga er grænt og gult og fjólublátt og rautt og appesínugult og allir hinir litirnir flottir fyrir stráka og stelpur.

Verð að róa mig niður áður en ég fer í mælingu á eftir hjá ljósunni á þessum blessaða háþrýstingi sem ég er með.

Annars er miklu meira sem þarf að redda fyrir barnið en ég bjóst við. Það er hlutum. Það vantar barnastól, vöggu, borð og bala ofan í til að baða barnið í og ömmustól. Ætla líka að kaupa burðarpoka eða sling og vil eiga svoleiðis alveg frá fyrstu vikunum. Ætla að reyna að komast á burðarsjalakynningu. Ofantalið ætla ég að reyna að fá lánað en veit ekki alveg frá hverjum. Bílstólinn leigi ég en borðið og balann sem Rakel átti er Robbi búinn að gefa frá sér. Ætli við kaupum ekki eitthvað þar sem við stefnum hvort sem er á haug af börnum. Veit ekki.

Stefnum á útilegu á föstudaginn. Fórum í gær til afa og fengum lánaða veiðistöng, Rakel langar svo hrikalega mikið til að veiða. Ætlum á Úlfljótsvatn en þar er veiðileyfi inni í 1000 kallinum sem maður borgar fyrir gistingu. Fórum í gær og keyptum nesti og erum orðnar ýkt spenntar.

Mamma mína sætasta fínasta á afmæli í dag. Flottasta og bestasta kona sem ég veit um. Þakka fyrir hana á hverjum degi. Til hammara með ammara elsku múttistinn minn, þú er alveg eðal og hefur alltaf verið.


Fjölskyldan

Núna er litli unginn okkar orðinn 26 cm og hálft kíló! Bara pínkulítil manneskja finnst mér. Hár og augabrúnir er farið að vaxa og hvít blóðkorn farin að myndast. Barnið fer nú að bregðast við hávaða og strokum á maga og slíku. Komin 22 vikur í dag. Ótrúlegt.

Er farin að finna vel fyrir hreyfingum. Fylgjan dempar auðvitað en ég finn sko alveg krílið hnoðast alla daga. Þau hljóta að sparka í svefni þessi kríli því annars sefur þetta barn aldrei. Held að það snúi eitthvað undarlega þessa dagana því ég hef ekki fundið eins mörg spörk undanfarið og sérstaklega hafa þau verið mjög neðarlega. Örvænti samt ekki þar sem það er dagamunur á þessu hjá krílunum. Spörkin eru nógu mörg á dag til þess að ég sé róleg. Tók dopplerinn fram í morgun og hlustaði á hjartsláttinn. Geri það reglulega þótt ég finni fyrir unganum, þetta er svo yndislegt hljóð.

Annars var ég svo hamingjusöm í gær eitthvað. Það er svo langt síða við stelpurnar mínar höfum átt rólega stund eftir vinnu og leikskóla, það kemur í mig stússfílingur með sumrinu og við höfum endalaust eitthvað verið að útrétta. Ekkert svoleiðis í gær. Þegar ég kom heim vorum stelpurnar að þæfa ull og leika sér, kátar og glaðar. Ég hófst handa við matseldina og naut mín við það að venju. Þegar lasagnað var komið í ofninn settist ég hjá Hrund inni í stofu og við bjuggum til útilegutékklista. Erum komnar með tékklista fyrir Malarrif en vantaði þennan. Heyrðum blaðrið í rauðhaus þar sem hún lék sér með nýju dýrin sem við gáfum henni inni í herberginu sínu.

Við borðum svo og Rakel vildi fá að vita hvað við hefðum gert í vinnunni. Hún elskar þegar mamma hennar segir sögur af leikskólanum og svo segir hún sjálf frá með tilþrifum. Ég setti Rakel í bað og á meðan hún kafaði með sundgleraugun sín sat ég hjá Hrund inni í eldhúsi og spjallaði við hana meðan hún vaskaði upp. Skar svo niður fullt af ávöxtum sem við borðuðum í eftirrétt. Þegar Rakelin var komin upp í rúm kúrðum við Hrund uppi í sófa og horfðum á sjónvarp. Eftir gott bað fékk ég stórt og mikið knús frá konunni minni, eitt spark í bumbuna frá krílinu og þá var ég tilbúin fyrir svefninn. Las auðvitað aðeins fyrst.

Er hægt að biðja um meira?


Helgin

Yndisleg helgi. Var ásamt rest af vinnufjölskyldu og einu viðhengi boðin í mat til Antons á föstudaginn. Einstaklega ljúfur matur og ljúfur félagsskapur. Náði í Sprundina seint um kvöldið og við skelltum okkur í afmæli til Nínu fínu sem við rákumst á fyrir tilviljun á fimmtudaginn. Ekkert smá gaman að hitta hana og algjör nostalgía að standa úti á palli heima hjá foreldrum hennar í Grundarlandi. Hitti líka Aldísi æskuvinkonu sem var æði. Við Hrund fórum svo niður í bæ á Barböru og hittum Ölbu og allar hinar lessurnar sem við vorum einmitt að spá í hvar væru eiginlega. Höfum lítið sem ekkert stundað þenna stað en verður líklega breyting þar á eftir þetta. Títa er að vinna á barnum og það var ekkert smá gaman. Ég gat, þrátt fyrir óléttuna sem reglulega minnir á sig, dansað nær stanslaust í rúma tvo tíma. Hrund fylgdi mér í bílinn um fjögur um nóttina og hélt svo aðeins djamminu áfram með Ölbu.

Eftir sturtu á laugardaginn fór ég svo í græna útskriftardressið og skellti mér á útskrift. Var svo stolt af mér að hafa þetta af eftir allt sem á undan er gengið og svo glöð fyrir að vera ólétt og deila þessum degi með konunni, mömmu og systkinunum yndislegu að ég var alveg að fara að skæla. Er á einhverju svakalega gráttímabili þessa dagana.

Ég fékk að ráða för það sem eftir lifði dags og dró Sprundina með mér í Kringluna. Hún keypti sér buxur og tvo boli fyrir afmælispeninginn og ég eina peysu og svo keyptum við pínkulitlar smekkbuxur, erum báðar með algjört smekkbuxnablæti. Að hennar áeggjan fórum við svo á læknavaktina þegar búðirnar lokuðu þar sem ég var orðin svo slæm í vinstri þumalputtanum. Fór fyrst að finna fyrir óþægingdum fyrir viku og skrifaði þau á bjúg. Verkjaði í kjúkuliðinn (eða hvað þetta heitir) og átti erfitt með beygja puttann. Þetta hefur svo smá versnað og í gær gat ég ekki beygt puttann sem var stokkbólginn. Kom í ljós að hringur sem ég hef verið með á fingrinum í mörg ár var farin að þrengja allmikið að og er það óléttubjúgnum skemmtilega að kenna. Hringurinn þrengdi að sinunum í puttanum sem aftur olli svona líka svæsinni sinaskeiðabólgu. Ég er sem sagt með sinaskeiðabólgu í kjúkuliðnum á þumalputta. Hringurinn er farinn af og ég komin með stífan plástur svo ég noti liðinn sem minnst og hann jafni sig sem fyrst.

Sprundin bauð mér út að borða eftir læknisheimsóknina og svo kúrðum við uppi í sófa og vorum voða ástfangnar sem er svo gaman.

Í dag skreið Hrund um uppi á háalofti og henti niður til mín fatapokum. Næstu tímarnir fóru svo í að flokka barnaföt af Rakel og pakka niður aftur. Gott að fá yfirlit yfir þetta, sérstaklega ungbarnafötin. Eins og mig minnti eru þau hrikalega bleik enda ekki eitt einasta snifsi keypt af okkur. Margt samt sem má nýta. Vantar helst pínkulitlar samfellur og heilgalla og ég væri nú alveg til í einhverjar síðerma samfellur í fallegum litum. Spurning líka um að kaupa útigalla, svolítið stór þessi minnsti sem við eigum.

Er búin að gera tékklista og ætla að vinna í því að týna til, fá lánað eða kaupa það sem er á honum. Það er víst hellingur sem þarf að undirbúa fyrir svona lítið kríli.

Rakelin kemur heima á mogun. Get ekki beðið. Finnst hún alltaf nýkomin frá pabba sínum þegar hún fer aftur.


Hátíð og tau

17. júní var í alla staði góður. Fórum í útskriftarveislu til Rósu og þar á eftir á víkingahátíðina í Hafnarfirði líkt og síðastliðin 3 ár. Rakel fékk gasblöðru og var ekki lengi að velja sér dýrustu Spidermanblöðruna. Fékk líka litla leirflautu sem maður fyllir með vatni og blæs í og þá gefur hún frá sér fuglahljóð. Ég hef sjaldan séð neitt eins fallegt og ljómandi andlit stelpunnar minnar þegar hún komst upp á lagið með að flauta eftir að hafa baslað við það smá stund. Gráblá augun galopin og dansandi freknur á kartföflunebbanum sem lyftist upp um leið og varirnar í brosi sem náði hringinn. Óvenjumikið af krökkum með nammisnuð á hátíðinni og ég pældi í því í fyrsta skipti að Rakel hefur aldrei fengið neitt þannig. Auðvitað algjör óþarfi en möguleikinn hafði bara aldrei hvarflað að mér. Vil halda því þannig sem lengst. Við fengum okkur bara rjúkandi kjötsúpu mæðgurnar og nutum mannlífsins.

Fórum svo í heimsókn til tengdó og á eftir kúrðum við Hrund upp í sófa og horfðum á mynd. Eitthvað sem Hrund finnst pínu erfitt að gera með mér þessa dagana þar sem meðgönguþokan hefur verið að aukast undanfarið og ég er orðin hræðilega utan við mig. Þetta veldur því að ég skil ekki plottið í sögunni, fylgi ekki söguþræði og þarf sífellt að spyrja Hrund að einhverju. Hún er hins vegar alltaf svo þolinmóð þessi elska.

Fór á taubleiukynningu í gær sem ég kom reyndar sjálf í kring. Fannst ekki seinna vænna að byrja á þessu. Þetta er frekar dýr startpakki svo það er gott að kaupa þetta smám saman. Sé fyrir mér að ef ég kaupi allt sem ég vil og miða þá við að barnið verði með taubleiur á leikskólanum og ég þvoi bleiur annan hvern dag kosti þetta um 60.000 krónur. Að meðaltali kosta bréfbleiur fyrir eitt barn um 240.000 krónur. Fyrir utan það að það tekur eina bréfbleiu 500 ár að eyðast. Viðbjóður. Auk þess er hægt að nýta taubleiurnar á næstu börn eða selja þær. Þetta borgar sig margfalt. Og þið sem vitið ekkert um þetta: Þetta er alveg hrikalega auðvelt.

Ég ætla að nota prefolds til að byrja með (og venjulegar gasbleiur í bland). Þetta eru óbleiktar, gamaldags taubleiur sem búið er að sauma á ákveðinn hátt og svo brotnar til að fá bleiulögun. Svo kaupir maður festingu sem tyllt er í bleiuna til að halda henni saman. Utan yfir eru notaðar bleiubuxur og er nóg að eiga 2-3 buxur. Þetta er auðveldlega hægt að nota allt fyrsta árið (og allt bleiutímabilið ef maður vill) og ég stefni að því, sérstaklega á meðan ég eða Hrund erum heima með barnið. Svo ætla ég að safna one size vasableium og all in one til að eiga þegar barnið fer á leikskóla og ef maður er eitthvað á ferðinni. Það væri æði að eiga 10-15 stykki. Vasableiurnar eru með innleggi sem stungið er í vasa inn í bleiunni og dregur í sig rakann. Ef barnið pissar bara má svo taka það innlegg og setja annað inn í bleiuna sjálfa (næst barninu, ekki í vasann) og þá er hægt að nota bleiuna tvisvar. Þessar bleiur eru fljótar að þorna og mjög þægilegar og ýkt flottar. Góðar á leikskólann. All in one eru akkúrat það, innleggin eru saumuð inn í bleiuna og þessar eru hvað líkastar bréfbleiunum. Eru aðeins ódyrari en þessar fyrri en koma í stærðum (one size er fyrir svona 4-16 kíló með stillanlegum smellum og riflás). Þetta er bara hrikalega spennandi og sniðugt. Svo er hægt að fá gjafabréf sem er mjög hentugt ef einhver vill gefa okkur og krílinu eitthvað.

Ég var ekkert smá spennt þegar ég kom heim og sýndi Sprundinni sem brosti yfir ákafa mínum. Var svo glöð að hún skyldi taka vel í þetta og leyfa mér að ráða þessu bara, hefði ekki viljað vera í sporum þeirra á kynningunni sem fengu ekki leyfi frá manninum sínum eða áttu eftir að fá það. Annars byggja fordómar gagnvart tauinu á fáfræði, þetta er ekki eins mikið mál og áður, hreinlega ekkert mál. Hverjum er ekki sama um eina auka vél. Keypti líka eina pínkulitla bambusbleiu en bambusinn er mjöööög rakadrægur svo hún er fín á nóttunni fyrir lítil kríli. Keypti einnig babmusinnlegg sem ég get skellt í bleiuna til að auka rakadrægni. Greip svo með mér samfelluframlengingar þar sem taubleiurnar taka sumar (ekki allar) aðeins meira pláss en bréfið og þá er gott að geta lengt samfellurnar smá utan um litla rassa.

Sjitt hvað þetta er spennandi.

Sem ég handfjatlaði allar þessar litlu bleiur sló það mig allt í einu að við Hrund erum að fara að eignast barn. Minntist einmitt á þetta við hana fyrr um daginn þar sem við skoðuðum barnaföt í Hagkaup. Við höfðum svolítið fyrir þessari baun og vorum búnar að þrá hana svo lengi, bíða svooo lengi eftir að fá að byrja að föndra við hana, og markmiðið var alltaf að ég yrði ólétt. Hugsuðum aldrei svo langt að við myndum á endanum fá barnið okkar í hendurnar.

Ég get ekki beðið. Eða jú, ég get beðið því það er gaman líka. En vó, er eiginlega bara að átta mig á því núna að erum að fara að eignast barn. Erum búnar að kaupa agnarlitlar buxur, húfu, vettlinga og skó. Ótrúlega gaman að skoða þessi litlu föt. Ætla að reyna að gefa mér tíma um helgina til að fara í gegnum barnaföt a Rakel.

Hlakka til.


Bústaður og fleira

Vorum á Malarrifi um helgina. Löng helgi hjá okkur þar sem við Sprundin tókum okkur frí í gær. Eins og alltaf var þetta ótrúlega ljúft. Krafturinn frá jöklinum skall á okkur um leið og við stigum út úr bílnum og sól skein í heiði mestan part helgarinnar. Rakel var svo heppin að fá að fara með mömmu og co. á hádegi á föstudegi og var að sjálfsögðu úti frá því að hún mætti á svæðið og þangað til hún var neydd heim. Hafði hvorki tíma til að pissa né borða eins og venjulega og fór í göngur með öllum úr fjölskyldunni (við vorum þarna 10), algjörlega óþreytandi.

Ég neyddist hins vegar til að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég er að verða nokkuð ólétt. Ég átti mjög erfitt með að fara seint að sofa með liðinu og vakna svo með Rakel án þess að leggja mig á daginn og það er hægara sagt en gert að leggja sig með fullt hús af fólki. Varð mjög skapstygg á tímabili og grét af þreytu í fanginu á Hrund á einum tímapunkti, alveg búin á því. Svona gerir kúlusúkkið mann dramatískan, þið verðið bara að afsaka þetta.

En sumst. Dvölin var í alla staði vel heppnuð.

Annars gleymdi ég að segja ykkur að við stelpurnar mínar settum niður kartöflur í síðustu viku. Það var hörkupúl því fyrst þurfti að stinga upp allt illgresið og hreinsa beðið. Kúlan þvældist fyrir mér og bakið kvartaði en þetta var fjör. Hjálpuðumst allar að og borðuðum svo pizzu og kex í kvöldsólinni í garðinum.

'Þetta er ER strákur' sagði Rakel og hvessti á mig augun í pottinum hjá tengdó um daginn. Ég spurði hana hvort kynið hún héldi að við myndum  fá, var bara að athuga hvort hún hefði skipt um skoðun. Við mæður reyndum svo að sannfæra hana um að bæði kynin væru skemmtileg. Bentum henni líka á að mömmur fengju ekki að ráða kyninu. 'Nei, bara stóru systur', sagði þá gormurinn og synti í burtu. Útrætt mál.

Ég er allt í einu orðin spennt fyrir barninu og er að gera Hrund vitlausa með plönum. Hún þolir ekki plön. 'Við skulum tala um þetta þegar þú ert að undirbúa þig undir að fara að eiga' sagði hún í gær og gerði mig öskuvonda. Ég lofaði að hætta að tala endalaust í hringi en herberginu okkar vil ég breyta upp úr svona 34 viku ef allt er á góðu róli og hafa allt tilbúið ekki löngu seinna. Ætla þangað til að dúlla mér sjálf við undirbúning, er búin að gera tossalista yfir það sem við þurfum að eiga. Eitthvað þarf að kaupa en flest eigum við eða getum fengið lánað.

Svo er barnið farið að sparka á fullu. Finn spörk öðru hvoru allan daginn og alltaf sterkari og sterkari hreyfingar. Hrund er líka farin að finna en ég hef sjálf ekki fundið utan á enn þá. Þetta kemur allt :)

Útskrift á laugardaginn. Maður er orðinn fullorðinn. 

Ætlum í Kringluna á eftir að athuga með nærföt á stækkandi Rakel. Ætlum líka að kaupa einhver agnarlítil barnaföt á kúlusúkkið. Ég get ekki beðið.


20 vikna sónar

Vorum í hinum langþráða sónar áðan. Allt var á sínum stað og eins og það átti að vera. Barnið lá á grúfu og sýndi okkur sætasta rassinn, ekkert smá krúttlegur. Horfði beint á okkur, veifaði og sýndi listir sínar. Fylgjan er alveg framan á eins og mig hafði grunað en ekki fyrirstæð sem ég er mjög þakklát fyrir. Ljósunni sýndist sem svo að það hefði líklega blætt frá fylgjukanti þegar blæddi hjá mér á 7. viku og 13. viku en það er ekkert sár lengur og engin einustu merki um fylgjulos sem var það sem ég hafði svo miklar áhyggjur af.
 
Við fengum ekki að vita kynið og ég er mjög sátt með þá ákvörðun. Trúi varla enn þá að ég hafi fengið að sjá þetta vel skapaða barn með oggulitla höku, nebba og þrýstnar varir. Og það er mitt! Okkar!

Dásamlegt kraftaverk.


Hálfnuð!!!

Ótrúlegt en satt, meðgangan er hálfnuð. Mér hefur fundist þessi tími hrikalega lengi að líða en aðeins hraðar þó eftir að síþreytan minnkaði og ógleðin fór. Eftir því sem líður lengra frá síðustu blæðingu verð ég rólegri og tíminn fer að líða hraðar. Ef allt kemur vel út úr 20 vikna sónar á morgun ætla ég að biðja spúsuna um að ná í barnfötin upp á loft svo ég geti skoðað, flokkað og sett í kassa. Vantar líka yfirsýn yfir það sem við eigum og það sem okkur vantar.

Svo þarf ég að fara að komast á taubleiukynningu þar sem mig langar að fara byrja að sanka nokkrum þannig að mér. Ætla að nota gömlu, góðu gasbleiurnar fyrst og cover yfir og fara svo helst yfir í one size bleiur þegar barnið eldist. Á samt eftir að nota bréfið í bland, þegar við förum í heimsókn og svona en vona að mér gangi vel með tauið.

Svo vil ég mála eldhúsið og fá listana upp inni í svefnherbergi (einhver sem vill koma og saga fyrir mig og bora þar sem Hrund er ekkert á leiðinni að gera þetta??? Já, ég er mjög bitur yfir þessu, hún vill bara smíða hjá öðru fólki) og láta laga sturtuna en iðnaðarmaðurinn sem átti að gera það hefur gufað upp og ekkert látið heyra í sér. Bíð líka eftir málaranum sem ætlar að mála þakið.

Svo mikið að gera krakkar mínir.

Inn á milli reyni ég samt að hugsa ekki of mikið og stressa á mig hlutunum og hugsa bara um kúlusúkkið. Það er núna komið með smá hár og pínulitlar augabrúnir og það er óðum að sléttast úr húðinni þar sem það er að safna fituforða. Innra eyrað er að þróast og ekki langt í það að barnið geti munað lög eftir fæðingu sem ég syng fyrir það núna. Á ungi.is stendur þetta

Vöðvar barnsins styrkjast með hverjum deginum. Lappirnar eru í réttum hlutföllum við líkamann frá og með þessum tímapunkti. Hreyfingar barnsins verða nú enn flóknari og líkari fimleikum en áður. Þessar hreyfingar verða líklega daglegt brauð og þá sérstaklega þegar móðirin leggst út af. Barnið vex hratt og er nú um helmingur af þeirri stærð sem það verður í við fæðingu en aðeins um 12% af þeirri þyngd sem þá verður. Nú er barnið um 22,5 cm langt og 380 grömm.

Dásamlegt.

Sónar á morgun og ég er svo hrikalega stressuð eitthvað. Vona bara að það sé allt í lagi með krílið. Og fyrir þá sem ekki vita það þá ætlum við ekki að fá að vita kynið og ég vona að krílið sýni okkur það ekki óumbeðið.

Meira á morgun.


Myndir

Ég er búin að setja tvö ný albúm inn á rakelsilja.barnaland.is. Það fyrra heitir mars-maí og seinna maí-júní. Ég á flottasta barn í heimi.

Það varð nú ekki mikið úr niðursetningu útsæðis í gær. Einhvern veginn hef ég líka á tilfinningunni að við munum ekki gera neitt af því sem við ætluðum að gera í garðinum í sumar. Nema kannski setja niður þessar kartöflur með Rakel einhvern tímann.

Þó ég reyni að passa mig vel og drekki vatnslosandi te í tíma og ótíma vaknaði ég með hrikalegan bjúg í gær. Og harðsperrur í vinstri kálfanum. Fékk svo mikinn sinadrátt um nóttina að kálfinn er enn að jafna sig. Leið svo eins og húðin væri að springa utan af fótunum og var svo illt undir iljunum að ég gat varla gengið. Ég þyrfti helst að fara í sund á hverjum degi. Eftir vatnsdrykkju og tedrykkju leið mér ögn skár og við Hrund skutumst út að kaupa okkur eitthvað að borða og ná okkur í spólu. Láum svo bara í sófanum allan daginn og höfðum það ótrúlega kósý. Lögðum okkar stutta stund og héldum svo glápinu áfram. Mjög langt síðan við höfum átt svona dag. Ég hef mjög gaman að því að gera ekki neitt, það er ekki svo langt í það að við verðum með barn allar helgar sem ég er fullkomlega sátt við. Ætla samt að ljóta letilífsins þangað til.

Svo fíla ég garðinn svona úfinn. Það dugir mér að maðurinn í kjallarnum slái öðru hvoru en annars vekja of vel snyrtir garðar hjá mér óhug. Mér finnst skriðsóleyin falleg þótt hún sé skaðvaldur og trén svo sæt svona eins og þau greiði sér aldrei.

Annars langar mig svo að mála eldhúsið en þarf til þess hjálp Hrundar. Hún er margt fallegt þessi elska en ekki beint framtakssöm heima hjá sér þótt hún hlaupi svo til handa og fóta ef einhver annar en ég biður hana um eitthvað. Er ekki einhver til í að biðja hana um að hjálpa mér að mála eldhúsið og koma restinni af listunum upp inni í herbergi eftir að það flæddi í desember (bara hálft ár síðan og allavega 2-3 mánuðir síðian listarnir voru komnir inn í hús)???

Kannski ég hætti þessu röfli og vinni til tilbreytingar.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband