Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Sneplar

Það eru sneplarnir sem eiga hug minn allan í dag. Peningarnir.

Við neyðumst til að láta mála þakið í sumar, getum ekki færst undan því lengur.

Kemur í ljós að svalirnar okkar leka og eru að valda skemmdum á svölunum fyrir neðan og húsinu sjálfu. Við þurfum að laga þetta helst í gær. Það þarf að þétta svalirnar.

Sturtubotninn er ónýtur og að hruni kominn. Lekur eins og allt annað hér. Neyðumst til að laga hann.

Bíllinn er lélegur í gang. Getum ekki sett hann í fleiri viðgerðir, hann situr á hakanum.

Bílalánið hækkar og afborgunin á mánuði er 8000 kr hærri en hún væri ef Ísland hefði ekki hrunið.

Lánið af íbúðinn hækkar eins og enginn sé morgundagurinn.

Ég fæ nær engin námslán eftir þessa önn, búin að fá lán fyrir næstum öllum einingum BA-námsins.

Hrund er í vinnu þar sem launin eru rétt yfir lágmarkslaunum.

Sparireikningurinn okkar er dáinn, við eigum nær ekkert eftir á honum, kreppan át hann.

Ég get ekki sofið fyrir peningaáhyggjum.

Ef einhver á aukapening má hann styrkja okkur.

 

Svo hefur sumt fólk í alvöru efni á því að fara til útlanda í sumar?

Er það eðlilegt þegar aðrir eiga ekki bót fyrir boruna á sér?


Eitur

Það var mikið að maður fór að sjá fréttir á borð við þessa að neðan hér heima þar sem allt er svo eftir á í svona efnum að það er ótrúlegt. Það sem ég hef röflað yfir þessu efni við vini og vandamenn og nota engar hreinlætisvörur sjálf, hvorki fyrir mig né barnið (og Hrund þrjóskupúki næstum ekki heldur), sem innihalda paraben.

Fariði nú að skipta út vörum. Það þarf ekki að gerast allt í einu og það þarf ekki að vera ógó dýrt.

http://mbl.is/mm/frettir/taekni/2009/04/27/kynthroska_sjo_ara/?ref=fpmestlesid

 


Loksins

Íslendingar eru komnir með nóg af bláu hendinni. Heimurinn er kominn með nóg af nýfrjálshyggju. Við viljum svarta forseta, lesbíur á þing, vinstri stjórn, ESB-umræður.

Nær helmingur þingmanna er konur. VÚHÚ.

Svona á þetta að vera.

Helvítis focking fock.

Ég barði í pott og hrópaði vanhæf ríkistjórn, kaus eftir því sem og meirihlutinn og ...

... loksins.

 

 

ps. Ég nenni bara alls ekki að fara í pólitískar umræður í kommentakerfi og frábið mér athugsemdir frá hard core Sjálfstæðismönnum. Ég ætla bara að njóta breytinganna, breytts andrúmslofts og vera á mínu bleika skýi.

Takk fyrir.


Trivial

Mamma kom með ágætist líkingu áðan þegar ég hringdi í hana miður mín yfir því að enn einu sinni væri komið að því að sækja Rakel á leikskólann eftir dag sem ekki fór í neitt (nema þvott og uppvask og eitthvað álíka) en átti að vera helgaður BA-ritgerð. Ég sendi leiðbeinandanum mínum póst áðan þar sem ég sagði honum að ég léti mig hverfa af vettvangi í bókstaflegri merkingu um leið og ég tæki fram þessa BA-ritgerð. Ég er hrokkin í svo mikinn baklás og er full vanmætti og vonleysi sem aftur veldur því að mér er fyrirmunað að skrifa staf. Yfir því verð ég svo leið og reið og kalla mig aumingja og þá get ég enn síður skrifað. Ég sagði þetta nú ekki allt en eitthvað af því og bætti svo við að ég myndi líklegast ekki hafa neitt til að senda honum á morgun.

Og það hefur aldrei. ALDREI. Verið vandamál fyrir mig að skrifa.

En mamma sagði að þetta væri eiginlega orðið eins og í Trivial Persuit þegar maður er á köku og getur ómögulega svarað einhverju sem maður þó veit einungis vegna álagsins við það að vera á kökuspurningu. Ég get ekki skrifað þessa ritgerð af því að ég veit að þetta er BA-ritgerðin.


Malarrif

Við þangað á eftir. Það verður yndislegt eins og alltaf, get ekki beðið ...

Var að taka það sem ég er búin með af BA-ritgerðinni fram. Úff, ég fæ enn þá bara grænar bólur af því að hugsa um hana og mér fallast hendur þegar ég hugsa um að skrifa eitthvað meira í henni. Ég á aldrei eftir að útskrifast.

Æ jú, ég get þetta. Verð að geta þetta.


Fullorðin

Jæja þá sótti mín um meistaranám í dag. Hagnýt ritstjórn og útgáfa skal það vera þótt Jóhannes Gísli mentor minn hafi orðið nokkuð sár þar sem ég sveik hann um fræðimanninn sem hann sér í mér. Ég sé ekki þennan fræðimann. Skrif eru bara mínar ær og kýr.

Best að reyna að koma þessari BA-ritgerð saman sem fyrst.

Meistaranám. Já mín er bara orðin fullorðin.


Úps

Ég er bara ekki í sambandi þess önn. Var að fatta áðan að ég þarf að skila inn umsókn um framhaldsnám á morgun og er ekkert tilbúin með þetta. Er búin að slá inn eitthvað um námsferil og starfsferil og skrifa greinargerð um það af hverju mig langar í þetta nám. Þarf að hringja á skrifstofuna á eftir og fá betri upplýsingar og finna tvo meðmælendur. Eins gott að Jóhannes Gísli kennari, leiðbeinandi minn og yfirmaður minn síðastliðin tvö sumar vilji vera meðmælandi minn. Og veit ekkert hvern ég get fengið annan.

Ég veit nú ekkert hvað mér fannst um þess páska. Hrundin svaf alla daga að sjálfsögðu og vakti allar nætur. Ég mun seint venjast hennar svefnvenjum. Rakel var hjá pabba sínum og á daginn vissi ég stundum ekkert hvað ég átti af mér að gera. Þegar þyrnirós vaknaði seint og síðar meir dúlluðum við okkur eitthvað og meira að segja skelltum okkur út að borða og í bíó. Ég var hjá mömmu allan páskadag og fram undir miðnætti og Hrund borðaði hjá sinni mömmu. Ákváðum að prófa að hafa þetta svona og ég skemmti mér bara mjög vel með minni mömmu og systkinum. Hafði nú voða litla lyst á þessu páskaeggi reyndar.

Rakel kom svo heim í gær og þá færðist nú fjör í leikinn. Ég faldi þrjú pappapáskaegg og eina bók úti í garði og hún leitaði og skemmti sér vel. Náðum svo í hjólið hennar upp á loft og tókum hjálpardekkin af. Við tók svo 3 tíma göngu-/hjólatúr í Laugardalnum. Tókum okkur pásu og fengum okkur pulsu og ís í blíðunni en vorum annars á fullu. Elsku rauðhausinn hrundi oft af hjólinu en grét bara þrisvar. Einu sinni þegar hún skellti hökunni í stýrið, einu sinni þegar hún hrundi niður af grindverki og lenti illa á sínu heilagasta svæði (var að æfa sig í jafvægislistinni) og einu sinni þegar hún skutlaðist af hjólinu í grófa möl. Á. Annars datt hún mun oftar en það en var svo hugrökk og dugleg. En barnið gat hjólað!!! Þvílíkt stolt og gleði sem fyllti brjóst mitt þegar ég sá ungann minn bruna niður grasbrekku. Ein! Duglegust. Það var best að æfa sig í grasinu og hún skemmti sér svo vel litli brjálæðingurinn þar sem hún húrraði niður brekkuna. Tók sér svo pásu og lék sér í kastala á meðan við mæður sátum á bekk og létum sólina baka okkur. Náði svo nokkrum góðum sprettum á leiðinni til baka líka og þetta er bara næstum komið hjá henni. Ætlum að taka hjólið með okkur í bústaðinn á Malarrifi næstu helgi svo hún geti fullkomnað listina.

Við vorum allar dauðþreyttar þegar við komum heim og gerð var líkamsskoðun á Rakel og græðandi krem borið á verstu skrámurnar. Augun ljómuðu við allt hrósið sem við gáfum henni. Litla hetjan mín. Ég kryddaði kjúkling og þræddi grænmeti á pinna og Hrund grillaði í fyrsta skipti á þessu ári. Ljúffengt alveg hreint. Borðuðum svo ís og grillaðan ananas í eftirrétt. Rakel var sett í heitt bað með róandi og græðandi Calendulamjólk og fékk lesna nýju bókina um Línu lansokk.

En núna er fríið bara búið. Ég er aftur komin í skrif BA-ritgerðar (eða um leið og ég er búin að skila inn þessari umræddu umsókn). OJ. Bíllinn fór að bila aftur daginn eftir viðgerðina svo að hann fer á verkstæði á morgun. VÚHÚ. Hlakka svo til að borga viðgerð tvö á hálfum mánuði og núna örugglega drulludýra þar sem það þarf að kaupa einhvern varahlut. Stefni að því að borga einhvern hluta af bílaláninu niður um næstu mánaðaramót. Það þýðir ekkert annað.

Æ, ég er bara ótrúlega þreytt og himininn er grár. 


Vor og strigaskór

'Er komið vor mammí' vildi ungi vita í gærmorgun.

'Já, það er það nú eiginlega.'

'Má ég þá ekki fara í nýju strigaskónum' sagði hann spenntur.

Úps. Ég hafði víst sagt í hálfkæringi að þegar vorið kæmi mætti hún fara í strigaskónum, ég hafði gleymt því en barnið með límheilann ekki. Ég gat sannfært hana um að bíða ögn lengur, meira vor og strigaskór vær handan við hornið.

Laugardagurinn okkar var kósý. Eyddum honum í búðarráp með tengdó og enduðum svo í mat hjá mömmu. Á sunnudaginn var það ferming fyrir austan, ekki beint uppáhaldið mitt en veislan var ágæt bara. Veðrið var guðdómlegt og Rakel skottaðist úti með afa Þóri.

Ég og Hrund veltum fremingunni hennar Rakelar fyrir okkur og fengum hnút í magann, þyrftum við að bjóða hálfu Íslandi? Ég vona innilega að hún fermi sig ekki, við mæður erum ekki einu sinni í þjóðkirkju og þar sem það er búið að ferma systkini mín á ég ekki von á því að fara í kirkju næstu árin, vil ekkert með hana hafa né það sem hún stendur fyrir. Við Hrund trúum á eitthvað æðra manninum, einhvern alheimsanda og miðlum þeirri trú til Rakelar. Hún kann nokkrar bænir sem fela í sér ósk um vernd á næturnar en eru ekki guði til lofs og dýrðar. Ég er ekki hrifin af faðirvorinu af þeim sökum. Eignumst við Hrund fleiri unga verða þeir ekki skírðir höfum við ákveðið, vil ekki hafa mína unga í söfnuði. Ég réði víst litlu um Rakel svo hún er í þjóðkirkjunni, hún getur þá breytt því seinna ef hún vill. Skipulögð trúarbrögð og rit eins og Biblían mættu hverfa fyrir mér og ég held að fólk ætti að vera meðvitaðra um hvað skírn og ferming felur í sér. Fólk setur sig oft á háan hest og dæmir t.d. múslima og hversu samofið allt þeirra líf er trúnni. En hvað með kristna trú, hún loðir við ALLT í okkar samfélagi og ekki á góðan hátt finnst mér.

En nóg um þetta í bili. Sem betur fer eru 10 ár í fermingu Rakelar. Eða ekki.

Við tókum einn rúnt í IKEA eftir fermingu og keypt sitthvað til að fegra heimilið. Borðuðum ódýran kvöldmat í kaffeteríunni og fórum svo heim að skreyta fyrir páskana. Eða Rakel. Hún hoppaði um af spenningi, hvað þá þegar við fórum út að klippa greinar sem við settum svo í vasa og hún fékk að skreyta. Henni fannst 'yndislegt að skutlast svona út' tilkynnti hún. Um kvöldið las ég langa bók sem af einhverjum sökum hafði týnst í bókaflóðinu í hillunum hennar. Mikið fjör að lesa nýja bók. Svo sagði ég henni frá páskaegginu sem hún fengi frá mæðrum, pappaegg og inni í því væru hin ýmsu leyndarmál. Það síðasta hvíslaði ég og augun í barninu urðu eins og undirskálar. Hún vildi endilega leita úti að egginu svo ætli við mæður 'skutlumst' ekki út og felum eggið plús einhver fleiri lítil sem verða eingöngu fyllt rúsínum. Í stóra egginum verður líklega lítið súkkulaðiegg í álpappír, rúsínur og múmínálfakex, jafnvel eitthvað lífrænt nammi án sykurs að sjálfsögðu.

Krílið verður hjá pabba sínum yfir páskana en við fáum hana á annan í páskum og höldum okkar páska þá. Verðum með góðan mat, páskaeggjaleit- og át. Við tókum þá ákvörðun fyrir einhverjum árum að vera alltaf bara heima á páskunum, á jólunum reynum við að heimsækja fjölskyldur okkar og fá í heimsókn og skipta okkur samviskusamlega á milli en á páskunum erum við bara þrjár. Við Hrund ákváðum að borða á páskadag í sitthvoru lagi og hjá okkar mæðrum, verður gaman að breyta til og prófa það. Og vá hvað ég hlakka til að borða páskaegg. Hrund keypti eitthvað risaegg handa okkur í vinnunni sem er víst stútfullt af nammi. Jeij.

Ætla að skila spænskuritgerð á morgun og um eða eftir páska fer ég að einbeita mér aftur að BA-ritgerðinni. Ég næ nú líklega ekki að klára hana fyrr en í sumar en betra er seint er aldrei.

Þetta er allt að koma.

(Sem er bæ ðe vei titill á bók eftir Hallgrím Helgason sem allir verða að lesa).


Búin

Kláraði spænskuritgerð í gær.

Loksins.

Þið getið ekki ímyndað ykkur léttinn.

Núna get ég einbeitt mér aðeins að þessari BA-ritgerð.

Það er helgi og sólin skín í gegnum gluggann. Unginn situr næst mér í sófanum, við erum báðar mettar af hafragraut svona snemma morguns.

Hugur minn hvarflar til sumarsins. Ég vona að það verði jafn gott og í fyrra.

Mig langar að flytja til Svíþjóðar.

Ég vil ekki vera hjá Kaupþingi núna eftir að SPRON fór á hausinn. Þetta er næstum sama drullumallið núorðið en ekki alveg.

Vonandi röltir Bjarndís yfir til okkar með vagninn og snúlluna á eftir.

Ef það er eitthvað sem ég hef lært í lífinu þá er það það að oft gerir maður sér ákveðnar hugmyndir um hvernig eitthvað á að vera eða verða, jafn vel dreymir um það. Það verður sjaldan alveg eins og maður hafðir ímyndað sér það. En það þýðir ekki að allt sé ónýtt, fullkomin stjórn á ekki að vera það eina sem þú sættir þig við. Hlutirnir eins og þeir verða, burtséð frá þínum hugmyndum um þá, geta líka verið góðir. Ég er að æfa mig í því að sætta mig við orðinn hlut þótt ég hefði viljað hafa hann eitthvað öðruvísi. Annars verð ég aldrei hamingjusöm.

 


Einmitt

Facebook hefur keypt höfundarétt af öllum upplýsingum af barnaland.is. Þetta þýðir að Facebook á núna allar upplýsingar sem notendur barnaland.is hafa sett inn. Hægt er að fá nánari upplýsingar á þessari Facebook grúppu

Þetta kemur upp þegar ég skrái mig á Barnaland.

Grín?

Ekki svo fyndið.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband