Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Uppskeruhátíð

Við héldum smá uppskeruhátíð heima í gær. Ég og Rakelin bökuðum kanilsnúða í tilefni dagsins og þegar Hrund kom heim fóru þær mægður út og tóku upp kartöflurnar okkar. Uppskeran var ekkert rosaleg enda settum við ekkert það mikið niður en þetta er bara akkúrat mátulegt fyrir okkur. Ég eldaði lambafillé með pótötlunum og kryddaði með helling af hvítlauk og auðvitað heimaræktuðu rósmaríni. Namminamm!

Svo er rauðhaus að byrja að æfa fótbolta á laugardaginn og ætlum við í leiðangur á eftir að reyna að finna einhverja íþróttaskó og stuttbuxur. Spennan er í hámarki og það eina sem vantar að Rakelar mati er að Arnór Ingi, besti vinurinn, byrji að æfa líka. Hún er einmitt heima hjá honum núna í góðu yfirlæti vænti ég og líklega að reyna að selja vininum hugmyndina um fótboltann.

Fór í 36 vikna vaxtarsónar áðan og krílið hefur aðeins bætt á sig, er ekki lengur undir meðaltali heldur akkúrat á línunni. Sáum bollukinnar og hendur og lítinn mallakút sem reis og hneig en ljósan sagði það hraustleikamerki, barnið væri að gera öndunaræfingar. Sprundin kom með og við ljómuðum báðar þegar við sáum að krílið var búið að snúa sér og komið á haus!!! Nú er bara að vona að það skorði sig sem fyrst og haldi kyrru fyrir. Mig var farið að gruna að það væri búið að snúa sér þar sem það gekk svo mikið á um helgina. Hendur og fætur stungust út í bumbuna og voru fyrirvaraverkirnir nokkuð sárir. Vaknaði aðfaranótt sunnudags að farast í lífbeininu og þurfti að vagga mér í mjöðmunum og labba aðeins um gólf meðan það versta gekk yfir. Duglegi unginn minn örugglega að koma sér fyrir.

Er á fullu að þvo barnaföt og bleiur og rúmföt og svo kemur mamma á morgun og við ætlum að strauja. Við Sprundin keyptum um helgina sæng handa krílinu, lök og bala með skiptborði sem hægt er að festa á baðkarið og þá er bara allt að verða komið.

Er að verða pínu spennt.


35

35 dagar. Jæks. Hugsaði ég þar sem ég sat á brotna skrifborðsstólnum okkar og naut þess (ekki) að finna hvernig allt vatn í líkamanum stefndi niður í fætur til að búa til Shrektær. Var á bumbuspjallinu mínu á netinu og varð litið á teljarann minn sem hefur svo skemmtilega sýnt hvernig barnið stækkar, komið með háðskar athugasemdir og talið niður fyrir mig dagana fram að fæðingu.

35 dagar fram að settum degi. Allt í einu rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds. Sjitt, hvað það er stutt í þetta.

'Varstu fyrst að fatta það þarna' spurði Hrund hneiksluð þegar ég deildi þessu með henni um kvöldið.

Uuuuuu. Já. Gerði mér nú alveg grein fyrir því að það væri farið að styttast í þetta en fattaði ekki að það væri svon stutt. Og krílið gæti alveg komið fyrr (og seinna auðvitað en ég reyni að hugsa sem minnst um það). Hrund er voða stressuð. Segist ekki meika það ef ég þarf að fara í keisara, meikar ekki að horfa á mig kveljast í fæðingu, meikar ekki hitt og þetta. Greyið. Ég er viss um að þegar á reynir á hún eftir að vera kletturinn minn en hún er skíthrædd um að standa sig ekki.

Er svo fegin að vera búin að undirbúa svona mikið því enn er eitthvað eftir að gera. Neyddi Hrund til að opna fyrir mig háaloftið í gær.

'Af hverju viltu fara þarna upp' vildi hún vita ströng á svip.

'Ég ætla bara aðeins að kíkja' sagði ég og flúði augnaráðið sem hún gaf mér.

Þetta var skammarugnarráðið hennar sem hún notar þegar ég reyni of mikið á mig og er að drepast á eftir. Þá þarf ég stundum að taka fyrir augun þegar hún spyr grimmt: 'Hvað varstu að gera Díana? Kallaru þetta að slaka á?'

'Það er ekkert hægt að kíkja, það er svo mikið drasl. Að hverju ætlarðu að leita' vildi hún vita.

'Taubleiunum sem hafa gufað upp og þú hefur ekki getað fundið og gallanum til að taka barnið heim í'.

Hún lét sig ekki og neitaði að opna. Ég lét mig ekki og neitaði að hætta að þrjóskast við. Spúsan gafst upp og opnaði.

Ég brölti upp. Ó, hvað ég brölti upp og um og niður og blés eins og hvalur og stundi. En ég fann bleiurnar!!! Djöfulsins snillingur er ég. Og gallann. Náði líka í ungbarnastykkið af bílstólnum sem ég ætlaði að þvo og teppið sem Rakel fór með heim af spítalanum. Núna er allt komið inn á bað og í næstu viku byrja ég að þvo allt. Er búin að kaupa besta þvottaefnið fyrir taubleiurnar (ligg á taubleiuspjalli og sanka að mér góðum ráðum) og öll krílafötin bíða bara eftir að verða þvegin og strokin. Mamma ætlar að koma á fimmtudaginn næsta og strauja hreina þvottinn (ég ekki straubretti eða neitt og er engan veginn eins spennt fyrir því að strauja og mamma) og þá er bara allt að verða tilbúið. Vantar bala fyrir bleiur og barn og sæng en annars er þetta bara komið held ég. Eftir tvær vikur fer ég svo að setja í spítalatöskuna og svona. Oh, þetta er svo spennandi.

Fór til fæðingarlæknis í gær og var ákveðið að taka mig af samdráttarlyfjunum og setja mig á háþrýstilyf sem hafa reynst vel á meðgöngu. Bara svo að þrýstingurinn hækki ekki. Komst að því að ástæðan fyrir því að kúlusúkk situr er líklega að ég er með svolítið hjartalaga leg. Um leið og læknirinn fór að tala um það sem mögulega ástæðu mundi ég að í fyrstu skoðun í tækniferlinu var mér sagt að þannig væri einmitt legið í mér. Ekki mikið og ekkert til að hafa áhyggjur af en eins og fallegt hjarta í laginu. Barninu finnst því betra að vera svona á hlið. Það er allavega enn með rassinn hátt yfir grindinn og ekki skorðað svo það gæti alveg snúið sér. Ég er eiginlega hætt að vera stressuð. Svona nokkurn veginn.

Vorum á foreldrafundi áðan og komumst að því að Rakel segir okkur eiginlega ekki neitt sem er í gangi í leikskólanum. Flott starf í gangi en ekkert sem henni finnst ástæða til þess að deila með okkur. Hún finnur voða litla þörf hjá sér til þess að tala um daginn í leikskólanum og vill bara heyra sögur úr vinnunni hjá Hrund. Ef maður spyr hvað hafi verið í hádegismat kemur fjarrænt blik í augun, löng þögn og svo segir hún bara eitthvað. Aldrei það sem var í matinn.

Allavega lýst okkur vel á komandi vetrarstarf þennan síðasta vetur sem stelpan okkar er í leikskóla. Trúi því ekki varla að að ári liðnu verði ég með eina skólastelpu og einn tæplega eins árs kút.

Magnað.

 


Lítill rass

Ég er svo frústreruð yfir að barnið skuli snúa litlum rassi niður að ég er að missa það. Veit að ég er rétt að sigla inn í 35 vikur en það er nú algengast að börn séu búin að skorða sig hjá frumbyrjum á þessum tíma svo það er smá pressa. Ég bara fríka út af tilhugsuninni um vendingu, sitjandi fæðingu og keisara. Mér finnst þetta allt hryllilegt.

Er að reyna ölll möguleg ráð til þess að snúa þessum þrjóskupúka. Púða undir rass og fætur upp í loft (fjandanum erfiðara að komast úr þessari stellingu þegar maður er eins og hvalur). Tók svona fílalabb eða bjarnarlabb í gær, beygi mig niður og set hendurnar í gólfið og labba þannig með beina fætur og hendur og dilla mjöðmunum. Hélt ég myndi deyja við þetta og er núna að farast í bakinu. Lýsti svo með vasljósi rétt fyrir ofan lífbeinið en það á að fá forvitinn kríli til að snúa sér. Árangurinn af þessu var enginn nema auknir samdrættir þar sem barnið boraði sér út í hægri hlið með hausinn UPP, ekki NIÐUR. Ætla að standa á höndum í sundi um helgina og halda öllu hinu áfram. 

Fæðingin er eitthvað sem ég hef hlakkað svo mikið til en núna er ég bara stressuð og leið.


Bloggtími

Já, það er algjörlega kominn tími á blogg. Hef ekki nennt að blogga þar sem tölvan er í uppreisn og bendillinn hefur öðlast sjálfstæðan vilja. Hann hoppar og skoppar á milli orða eins og honum hentar og ég skrifa einatt ofan í það sem ég hef þegar skrifað. Líklega eitthvað stillingaratriði ofar mínum skilningi.

Kom því loksins í verk að reyna að setja tónlist inn á ipodinn minn sem hefur verið með vesen frá fæðingu og fór í viðgerð í mars. Tókst ekki. Langt í frá. Ég fór hins vegar í svo vont skap að ég hafðist varla við í eigin návist.

Dagarnir líða svo hratt. Finnst ég rétt ráða við þetta eina námskeið sem ég er í. Ég vakna með stelpunum mínum og stússa svo eitthvað, legg mig smá og borða, geri eitthvað af viti og þá er kominn tími til að hökta út að sækja Rakel.

Raðaði krílafötum í kommóður (komnar tvær fínar inn í herbergi, ein ný og ein mjög gömul) í gær eftir að hafa sorterað eftir stærð. Þarna bíða þau þess að verða þvegin og strokin. Þarf aðeins að fara í gegnum einhver útiföt og finna til eins og eitt stykki hlýja peysu og teppi og svona. Dúnsængin sem við ætluðum að nota og Rakelin svitnaði í sem sköllóttur ungi virðist eitthvað úr sér gengin enda kannski bara búin að þjóna sínum tilgangi. Við stefnum því á kaup á nýrri sæng fyrir kúlusúkk og mig langar voða í ein ný rúmföt handa því líka, annars eigum við nokkur sett. Ætla líka að kaupa ullarföt í Janusbúðinni og lök á vögguna og þá erum við í góðum málum.

Setti taubleiur og innlegg í kassa inn á bað. Fer að þvo þetta hvað úr hverju. Innlegg úr lífrænu efni eins og bambus og hampi þarf að þvo svona þrisvar til þess að þau verði vatnsheld. Svo þarf að setja ullarfitu í ullarbrókina og þvo hinar bleiurnar og bleiubuxurnar eins og einu sinni. Hlakka ekkert smá til að taka saman heimferðarfötin. Smekkbuxur prjónaðar af tengdó (grænar, auðvitað) og gul peysa og húfa prjónað af mömmu þegar hún var 14 og notað af mér og systkinum. Undir eitt stykki græn samfella með uglum. Svo bara fallegt teppi ofan á kút og í bílstól.

Vil ekki vera búin að undirbúa allt of snemma fyrir krílið, þá fer ég bara að bíða. Mér hrýs reyndar hugur við því að vera í þessu ástandi í kannski 8 vikur í viðbót (ef ég skyldi ganga fram yfir). Ég var varla búin að lýsa því yfir að mér liði vel þrátt fyrir að eiga í vandræðum með svefn og brjóstsviða þegar verkirnir fóru að hellast yfir mig. Bar þá undir Hrund og við höldum þetta grindargliðnun. Þrýstingurinn niður á mitt allra heilagasta er hrikalegur og mér líður eins og lífbeinið sé að klofna. Fæ pílur og stingi á svæðinu og þetta er vægast sagt vont. Samkvæmt mínum lestri eru stingir í leggöngum á þessum tíma yfirleitt alltaf tengdir því að barnið er að skorða sig og bora sér niður í grind. En mitt kríli er sitjandi, getur það skorðað sig þannig? Veit einhver? Oh my. Annars er ég hreint ekkert viss um að ég myndi fatta það ef það snéri sér. Það lá næstum á hlið um daginn og þarf því ekki að snúa sér nema hálfhring auk þess sem fylgjan er framan á og dempar svo mikið. Ég finn aðallega hreyfingar og brölt eins neðarlega og mögulegt er og labba eftir því. Eins og ég sé með steypuklump í klofinu. Ef þetta voru of nánar lýsingar þá bara sorrý. Þetta er líf mitt núna. Vil að barnið verði eins lengi og það þarf í bumbunni en ÁÁÁÁÁÁ.

Síðasta helgi var góð. Roadtrip með mömmu á föstudag. Fórum upp á Skaga og lékum okkur. Gisti svo hjá henni þar sem Hrund fór út og ég ekki í stuði til að fara með eða vera ein heima. Jethro Tull tónleikar á laugardaginn og miðnæturheimsókn til tengdó. Litum aðeins inn á Barböru niðri í bæ. Bröns með Gyðu á sunnudag og bíó með múttu og Sprund. Geggjuð norsk mynd. Million Dollar Baby í tækinu um kvöldið, myndin sem við Hrund horfðum (ekki) á á fyrsta stefnumótinu (sem Alba var reyndar á líka því Hrund var of feimin til að vera ein með mér). Í þetta skiptið leiddumst við alla myndina og vorum ekkert feimnar.

Malarrif núna um helgina. Á eftir að segja Rakel sem mun líklega springa af gleði. Talar víst ekki um neitt annað við pabbann sem var orðinn heldur þreyttur í því í hringferðinni í sumar að Rakel bæri alla staði saman við Malarrif sem auðvitað hafði vinninginn. Okkur langar sumst að fara einu sinni áður en unginn fæðist en Hrund verður bara að sjá um allt, ég á nóg með að halda unganum inni.

Annars er ég að þyngjast um kíló á viku núna út af bjúg. Mér finnst það hræðilegt. Var að þyngjast um svona kíló á mánuði og var bara búin að ná 6 kílóum eftir 30 vikur en hef núna rokið upp. Sniff. Kjaga um eins og ég sé með bleiu, blaðran sem ég er. Búin að fá lánaða skó hjá tengdó, sem er með stærri fót en ég, þar sem ég kemst ekki í neitt sem ég á. Ekki í NEITT.

Rakel fékk ný stígvel í gær því eins og venjuleg er komið gat á hin eftir nokkra mánaða notkun. Held að við eigum ein stígvél upp á lofti sem eru gatlaus, öll hin hafa farið í ruslið. Alveg sama hvaða gerð maður kaupir, barnið er skótausböðull. Rakel var á því að þegar sko litla barnið hennar væri 4 ára og hún 4 ára þá mætti barnið fá stígvélin lánuð. Alltaf til í að deila þessi elska. Átti samt bágt með að skilja að þegar litla systkinið (reynum stundum að segja henni að hún sé að fara að eignast systkini og við mömmurnar barn en hún talar alltaf um litla barnið sitt) verður orðið 4 ára þá verði hún orðin 8 ára og líkurnar á því að þessi stígvél endist eitthvað frekar en önnur séu hverfandi.

Annars er hún að fara í heimsón til vinar síns eftir leikskóla og er mjög spennt yfir því. Var svo búin að panta að hafa pizzudag í dag og átti ekki til orð þegar ég sagðist kunna að búa til pizzudeig, finnst ég alveg mögnuð. Svo það verður pizzuföndur og svo súkkulaðihaframjölssmákökur með spelti og hráskykri í eftirrétt sem ég bakaði í fyrradag. Ýkt góðar og nokkuð hollar. Alltaf bakandi í þessari hreiðurgerð.

Ljósmóðir á eftir, skutl eftir lykli að Malarrifi, endurröðun skótaus á heimilinu, vonandi heimaverkefni ef það verður komið á netið og svo þarf að versla mat fyrir Rifið.

Best að byrja á einhverju.


Ha?

'Hæ!'

Ég hrökk upp úr hugleiðingun mínum þar sem ég stikaði í átt að skólanum þegar ég heyrði glaðlega kveðjuna. Leit upp og sá strák sem ég þekkti ekki.

'Hvað segirðu gott?'

Ég starði á hann og reyndi að koma honum fyrir mig. Var þetta vinur minn? Skólafélagi? Gamalt hösl? Velti því smástund fyrir mér hvort ég ætti að þykjast þekkja hann en var hreinlega of uppgefin. Ákvað að segja satt.

'Veistu, ég man bara ekkert eftir þér.'

Núna var það hann sem starði á mig. Skrítinn á svip.

'Neeeei, djók. Ég er að rugla, þú lítur bara alveg eins út og stelpa sem ég var að kynnast í gær!'

Fjúkket. Ég hélt að meðgönguþokan væri orðin svo slæm að ég þekkti ekki lengur mína eigin vini en svo hafði þessi strákur bara kynnst óléttri, hálflatinu, með gleraugu og krullur daginn áður.

 

Ég var svo hrikalega ólétt í gær. Svaf illa nóttina áður. Vaknaði eins og venjulega til að pissa og emjaði lágt þegar ég þurfti að stíga í fæturna. Það sem eitt sinn voru fætur en er núna orðið að samkomustað alls vökva í líkamanum. Lá svo heillengi andvaka og reyndi að finna góða stellingu sem ég gat andað í og þrýsti ekki á magann því þá vill maturinn koma upp úr mér. Maginn er líklega kominn upp að lungum á þessum tímapunkti.

Vaknaði úrill og var pirruð við stelpurnar mínar. Plantaði mér í sófann eftir að þær voru farnar og lærði. Var búin á hádegi og fékk mér þá að borða og sá að ég hafði 45 mín. til að leggja mig. Sofnaði um leið en var allt of heitt og svaf illa. Vaknaði sveitt og með svo öran hjartslátt að ég hélt að hjartað væri á leið út úr brjóstinu. Bjúgskoðun leiddi í ljós enn verri bjúg en um morguninn.

Stóð um stund og horfði á baðkarið. Velti því fyrir mér hvort væri minna erfitt að sturta mig í því eða leggjast í það og ákvað að fara í stutt bað. Lét renna allt of heitt vatn í baðið og var alveg að stikna. Gleymdi að þvo mér um hárið. Ætlaði aldrei að komast upp úr karinu.

Dauðbrá þegar ég leit í spegil eftir að hafa klætt mig og greitt mér. Hárið enn undarlega úfið og andlitið eins og gasblaðra. Bjúgurinn farinn að setjast á andlitið líka og búa til poka undir augunum. Meira að segja varirnar voru eins og ég væri með bráðaofnæmi. Allt einhvern veginn svo þrútið og of stórt fyrir andlitið. Reyndi að setja á mig augnblýant til þess að lappa upp á útlitið en var svo sveitt eftir allt of heitt baðið að allt rann til.

Afi var kominn að sækja mig, var á leið í vaxtasónar. Ein, því Sprundin komst ekki með. Reyndi að koma mér í einu skóna sem ég get notað þess dagana. Velkta leðursandala sem ég keypti í Costa Rica. Eru venjulega hólkvíðir og notalegir. Nota þá alltaf á Malarrifi á veturna, þá í hnausþykkum ullarsokkum. Kom hægri fæti með naumindum í skóinn en fann böndin skerast inn í ristina. Allt stoppaði á miðri rist á vinstra fæti. Hökti niður stigann hálf í skónum og löðursveitt. Þurfit svo mikið að pissa. Eða leið þannig. Vissi að barnið var bara að hnoðast á blöðrunni.

Skrúfaði niður rúðuna í bílnum hjá afa og hékk hálf út úr bílnum alla leiðina. Mætti stelpu í dyrunum á fósturgreiningardeild og fannst hún gefa mér undarlegt auga. Hún var greinilega að koma úr 12 vikna sónar, engin bumba sjáanleg, allt útlit hraustlegt og hún fersk með bros á vör og sónarmyndir í hendi. Sá smá óöryggi í augum hennar þegar hún sá mig, svona 'sjitt á ég eftir að líta svona út eftir 20 vikur eða nennir þessi gella ekkert að gera fyrir útlitið lengur ...'

Ljósan var svo mikið að drífa sig að ég varla sá barnið mitt. Ég sem var búin að hlakka svo til. Hún mældi bumbuling og höfuð en ég sá varla nokkuð annað en misgráa fleti. Jú, einu sinni sá ég tvo fætur standa beint upp í loftið og lítið nef gægjast út á milli. Óþekktaranginn sem var kominn í höfuðstöðu er búinn að snúa sér og situr á rassinum með fæturna upp undir rifbeinum á mér! Þegar ég hélt að það væri að skorða sig með látum um daginn hefur það verið að snúa sér! Ég ætla rétt að vona að það snúi sér aftur, ég fæ kvíðakast af því að hugsa um keisara. Sá svo rétt glitta í bollukinnar og svo var allt búð. Þurfti bókstaflega að draga upplýsingarnar upp úr konunni. Hún sagði að allt væri eðlilegt en ég vildi vita hversu stórt krílið er. Það er tæp tvö kíló, aðeins undir meðallagi og ætti að vera um 14 merkur ef það fæðist eftir fulla meðgöngu. Svo eru auðvitað alltaf einhver skekkjumörk. Gott að vita að háþrýstingurinn hefur ekki slæm áhrif og það nærist vel. Anginn minn litli.

Hökti út og afi keyrði mig upp í skóla. Var glöð að hitta Anton eftir að hafa hitt ókunna strákinn fyrir utan og við röltum okkur í tíma. Ég var svo syfjuð að ég heyrði varla orð, barðist bara við að halda mér vakandi. Hugsaði mér gott til glóðarinnar í pásunni og bjó mig undir að fara að kaupa mér rjúkandi heitt kaffi þegar Anton benti mér á að kaffistofan væri lokuð. Ég get svo svarið það að ég táraðist. Var komin með svo mikinn bjúg eftir að sitja með fæturnar niður í svona langan tíma að þegar tímanum lauk gat ég varla gengið. Og skammaðist mín. Ökklar hvergi sjáanlegir og fætur jafnbreiðir frá hné og niður. Um kvöldið náði bjúgurinn sögulegu hámarki og ég kallaði á Hrund til að sýna henni Frankensteinbýfurnar. Hafði lúmskt gaman af viðbrögðunum. Hún var alvarlega sjokkeruð.

Þrátt fyrir miserfiða daga er ég algjörlega ástfangin af bumbunni minni. Óléttan hefur svo sannarlega tekið á en er samt það besta sem ég hef upplifað. Það tók mig smá tíma að leyfa mér að vera þreytt á henni stundum, það er mjög algengt hjá fólki sem hefur haft svona mikið fyrir óléttunni að því finnist það ekki hafa rétt á að barma sér. Kvarta pínu.

Ég gæti hreinlega ekki verið óléttari og þrátt fyrir að það taki á er það himneskt um leið.

Væri samt alveg sátt þótt fæturnir á mér litu ekki svona út (holurnar hjá ökklunum eru eftir sokkana):

 

p9080005.jpg

p9080004.jpg

 


Afkastamiklar

Við afköstuðum svo sannarlega miklu um helgina. Fórum í IKEA á laugardaginn og fundum fína kommóðu og fleira sem okkur vantaði. Fengum okkur að borða á veitingastaðnum og fórum svo í bíó á UP, yndislega skemmtileg mynd og svo falleg ástasrsaga í henni að tárin láku niður kinnarnar á mér. Enduðum í læri hjá mömmu og við mömmurnar dormuðum í sófanum eftir svefnlitla nótt. Ég nuddaði axlirnar á Hrund og Rakel fór í læknisleik með fæturna á mér. Eitthvað sem ég gerði við mömmu þegar ég var lítil og fæ að njóta núna. Rakel nuddaði tærnar og strauk með blautri 'bónil' (bómull), dásamlegt alveg hreint.

Eyddum svo þremur tímum í tiltekt þegar unginn var sofnaður. Hrund þreif inni á baði (og það var miiiiiikið að þrífa eftir að flísalagninguna og allt hitt) og ég fór í gegnum baðskápinn og hirslur inni á baði og frammi á gangi og gerði fínt. Ólýsanlega góð tilfinning að hafa fínt inni á baðherbergi aftur. Kannski tveir dagar í að við getum farið í sturtu, vantar bara fúgu og málningu. Jibbí!!!

Fórum í fjórar búðir í gær að versla ýmislegt sem okkur vanhagaði um. Og það eftir að hafa skriðið um uppi á háalofti og leitað að sæng og rúmfötum fyrir barnið sem var svo ekkert þar. Það er dótið. Ég var enn þá þreytt eftir ferðina í IKEA og tiltekt gærdagsins og fór áfram á þrjóskunni einni saman. Er samt svo ánægð með hvað við vorum duglegar. Gerðum smá pásu og borðuðum á Energia. Við Hrund fengum okkur uppáhalds pastaréttinn okkar sem hefur fylgt okkur síðan við kynntumst og Rakel fékk skyr, brauð og kakó. Föttuðum í miðri máltíð að við Hrund áttum 4 1/2 árs sambandsafmæli og ekki slæmur dagur til þess að halda upp á það. Með Rakelina okkar og að stússa fyrir kotið okkar. Eftir allar búðarferðinar drifum við okkur í sund og komum allar uppgefnar heim um kvöldið. Rakel fór beint að sofa og Hrund að dútla við smáatriði í eldhúsinu. Ótrúlegt hvað þau taka langan tíma. Það er ekki til neitt sem heitir einfalt í svona framkvæmdum ... Við horfðum svo á  Miss Congeniality með hinni ofurflottu Söndru Bullock í tilefni dagsins og knúsuðumst ærlega og leið svo vel.

Núna fer þetta allt að koma hérna heima. Parketlistarnir á dagskrá í vikunni og auðvitað sturtan og svo verður bráðum hægt að þrífa rækilega og gera fínt.

Vaxtasónar og tími í skólanum á morgun. Bíð spennt.


Myndir

Var óóóótrúlega dugleg og bjó til nýtt albúm inni á Barnalandi, sumarfrísalbúm. Bætti svo líka við í bumbumyndalbúmið hérna inni. Endilega skoða.

Loksins helgi þar sem við getum gert eitthvað allar þrjár saman og Hrund er ekki föst í vinnu hérna heima. Tengdapabbi er enn að vinna í sturtunni og það er dót út um allt en eldhúsið er nær klárt og Hrund byrjuð að festa parketlistana. Get ekki beðið eftir að komast í sturtu, algjört hell að brölta um í baðkarinu með kúluna. Hlakka líka til þegar allt er orðið fínt og mamma kemur að hjálpa mér að þrífa. Bráðum get ég farið að þvo taubleiur og föt og undirbúa fyrir barnið. Komin með bílstól, ömmustól, burðarsjal, vöggu, bleiur og föt. Erum á leið í IKEA að kaupa kommóðu fyrir barnafötin og fleira sem vantar í nýja eldhúsið.

Fórum í vinnupartý hjá Hrund í gær. Ekkert smá gaman að hitta fólkið sem spilar svona stórt hlutverk í lífi hennar. Greinilegt að hún hefur talað út í eitt um mig og bara sagt fallega hluti. Borðuðum grillmat og sungum við píanóundirleik og fórum svo heim. Vorum heillengi að mæla og máta inni í svefnherbergi og plana hvernig við munum breyta áður en barnið fæðist. Spjölluðum og knúsuðumst þangað til klukkan var allt of margt.

Ætla að fara að gera kaffi handa Sprundinni og fá mér eitthvað í gogginn.

Góðir dagar.

ps. Gleymdi, fór aftur í rit upp á spítala í gær og þrýstingurinn hefur ekki hækkað í vikunni sem er ÆÐI. Vona bara að hann haldi sér svona.


Haust

Ég sýndi Rakel gulnuð laufin á trjánum meðfram veginum í gær. Hún vildi fyrst meina að þau væru svona vegna þess að vorið væri að koma. Þegar ég sagði að það væri nú frekar vegna haustsins sem væri handan við hornið var hún handviss um að það kæmi á fimmtudaginn.

Sem er í dag. Samkvæmt Rakelinni byrjar haustið í dag. Og það getur bara alveg verið.

Það sem mig langaði lítið í skólann í byrjun vikunnar. Og fékk andnauð og extra þrýsting í höfuðið þegar ég fór að lesa námsáætlanir, allt svo erfitt og svo mikið og orkan svo lítil. Eins og alltaf var það spjall við mömmu sem bjargaði deginum. Ákvað að þiggja boð hennar um að sækja Rakel á þriðjudögum (jafnvel á móti tengdó sem einnig var búin að bjóðast til þess) svo ég gæti farið í tímann sem ég hef mestan áhuga á, Ritstjórn og fræðileg skrif. Sendi póst á kennarann sem ég þekki og á örugglega eftir að gefa mér smá séns vegna komandi barnsfæðingar og svona. Líður bara mjög vel með þess ákvörðun og Sprundin studdi hana eins og allt annað sem ég ákveð að gera.

Fór svo og hitti bestu mömmu í heimi í gær og hringdi símtöl og náði í vottorð og keypti bækur og get núna strikað heilmikið út af almenna tékklistanum. Mamma er að faxa umsóknirnar um fæðingarorlof og fæðingarstyrk í töluðum orðum og ég er að fara að læra. Las í nýju bókunum í gær og er að fara að ritstýra fyrstu greininni minni. Íha.

Mamma reddað ömmustól áðan, hún situr nú ekkert með hendur í skauti fyrir 9 á morgnana, og ég er búin að finna fullkominn, notaðan bílstól á netinu. 17000 kr fyrir stól upp í 18 kíló, þetta hefði ekki getað verið betri prís. Það er hins vegar slegist um hann svo ég ætla að drífa mig sem fyrst og athuga hvort ég get ekki nælt í hann. Svo megum við sækja vögguna í dag. Fjúff. Þetta er allt að koma.

Á eftir kemur besti vinur Rakelar, Arnór Ingi, í heimsókn til hennar. Þvílík spenna hjá rauðhaus. Þau eru algjörar samlokur þessir tveir bogamenn. 

En núna hlakka ég bara til að vera í skólanum. Fann skólafiðringinn kunnulega hellast yfir mig þegar ég las The Craft of Research. Djöfull getur verið gaman að læra eitthvað nýtt.

Komin rúmar 32 vikur í dag. Barnið er um 2 kíló og 40 cm. Ég var nú rétt rúm 2 kíló þegar ég fæddist og 45 cm en samt hörkutól. Fer í vaxtasónar næsta þriðjudag og þá fáum við einhverja hugmynd um hvað unginn er orðinn stór. Get ekki beðið eftir að sjá litla ljósið mitt í sónar einu sinni enn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband