Ammili ...

... en engin veisla held ég.

 Ég hef bara aldrei lent í því að enginn komist í afmælið mitt, á ekki afmæli á þannig tíma og hef nú ekki mikið haldið upp á það síðan ég var tvítug. Boðið mínum bestustu í bjór og skrall þegar þær voru allar hérna en annars ekkert. Afmælið í fyrra var reyndar alveg eðal.

Datt svo í hug að halda afmælið upp í bústað og bauð alls 12-14 manns held ég en býst við að Hrund komist og jú Rósa, annars enginn. VÚHÚ.

Það er víst Mímisþing þessa afmælishelgi svo ég get gleymt íslenskunemunum sem ég bauð. Hinar vinkonurnar allar uppteknar og afar óvíst hvort frændur komast.

Hnuss.


ÖSKUR

Öskur og læti í mínu lífi. Ekkert nema helvítis gröfur og vörubílar og loftborar og háværir hamrar endafokikinglaust í þessar götu. Pétur er að missa vitið og tekur daga þar sem hann getur ekkert annað en öskrað. Núna situr hann hokinn og starir út í tómið. Ég öskraði vel valin blótsyrði út í alheiminn áðan sem ekki sála heyrði fyrir helvítis drununum hérna.

Og svo er SANDUR Í VATNINU. Og eitthvað annað rusl og ég er viðurstyggilega þyrst.

Allir iðnaðarmenn Íslands sem enn eru með atvinnu hljóta að vinna í götunni minni.

Það eina sem ég vil er kjötsúpa og ró og friður.

Mamma ætlar að elda kjötsúpu og bjóða mér í hana bráðum.

Það er ef ég verð ekki búin að missa vitið og rjúka froðufellandi út á götu til að henda gaffli í skítugar gröfur.

Ró og friður held ég ekki að sé á dagskrá.


Langt síðan síðast

Jább, mjög langt síðan ég bloggaði síðast.

Kannski er það af því að ég er komin með svo langar neglur að ég á erfitt með að pikka á lyklaborðið.

Kannski er það af því að ég hef ekkert að segja akkúrat núna.

Kannski er það af því að það gengur svo mikið á í mínu lífi núna að ég hef varla tíma til að læra, hvað þá blogga.

En ef þið eruð alveg að deyja úr forvitni þá hefur lífið gengið sinn vanagang.

Vorum ýmislegt að stússa síðustu helgi, litla fjölskyldan. Ég gerðst einnig svo fræg að fara á mína fyrstu árshátíð síðan í menntaskóla. Hún var bara ágæt í alla staði.

Ég er komin með vinnu í sumar.

Mér gengur ekki of vel að læra.

Mér finnst Gauragangur æðislega fyndin bók, hef ekki lesið hana í mörg ár en hef þó lesið hana líklega um 10 sinnum.

Fékk Gyðuna heim í hádeginu um daginn og hún nærði mig bæði andlega og líkamlega.

Sef ósköp illa, vakna billjón sinnum og er andvaka inn á milli og er svo þreytt að ég veit varla hvað ég heiti.

Var að setja myndir inn á rakelsilja.barnaland.is

Sakna pabba.

ps. Mikið svakalega er ósmekklegt að troða möguleikanum ' Deila á facebook' hjá kommentakerfinu. Ég er ekki á þessu rugli.


Ble

Hef ekkert að segja í rauninni.

Rakel er öll í líffræðinni þessa dagana. Vorum í afmæli hjá ömmu í fyrradag og Unnur frænka sem er að undirbúa sig fyrir læknisnám var að kenna Rakel. Hnoðrinn segir mér því reglulega hvar bringubeinið er. Lýsti því svo fyrir okkur með tilþrifum í gær hvernig barkakýlið kæmi upp úr hálsinum þegar verið væri að kyrkja mann.

Já!!!

Hló svo næstum af sér rassgatið þegar mæður útskýrðu fyrir henni hvernig vökvi yrði að pissi og hvar það kæmi út. Ætlaði aldrei að trúa okkur.

Þegar hún verður stóra systir ætlar hún að fá að fara í tölvuleik. Nei, sagði harðbrjósta móðir. Rakel átti bara ekki til orð. Hélt að allt gerðist þegar hún yrði stóra systir. Ég sagði að hún gæti fengið að fara í stafa- og reiknisleiki þegar hún yrði 6 ára. Henni finnst ég núna pínu ömurleg. Hún var að meina Spidermantölvuleik.

Annars er hún bara yndisleg. Svo krúttleg þegar hún borðar appelsínu. Fullkomin með rjóðar kinnar og úfið hár, nýkomin úr leikskólanum. Með mest dillandi hlátur í heimi. Svo hrikalega klár. Gæti étið hana nýkvaknaða í grænum flónelsnáttfötum með síða hárið út um allt.

Hef pínu áhyggjur af vinnu í sumar. Veit ekki hvort ég fæ vinnu í háskólanum. Sumir eru beðnir um að vinna en ég þarf að sækja um. Greinilega ekki nógu klár, bara svona semi. Ætla að þjarma að Jóhannesi kennara, leiðbeinandi mínum og yfirmanni síðastliðin tvö sumur.

Búin með 8 blaðsíður í BA-ritgerð. Nokkuð ánægð með það. Við skulum svo sjá hvort Jói hakkar það sem komið er í sig, er að fara að hitta hann eftir smá.

Fór í Jurtaapótekið áðan og mig langar bara að eiga heima þar. Ekkert heillar mig eins mikið og bækur og jurtir. Ilmurinn af þessu tvennu er himneskur. Ég ætla að hafa herbergi helgað þessu tvennu í húsinu mínu þegar ég verð stór.


Úff

Netið er nú meiri kellingin. Liggur á upplýsingum og drefir þeim til allra sem vilja þótt sá sem upplýsingarnar varða hafi aldrei gefið leyfi til þess. Engu hægt að eyða út, allt er þarna að eilífu og elur á forvitni fólks sem ekki er lengur eðlilega forvitið heldur jaðrar njósnastarfsemin við pervisma. Sjúkleg árátta er þetta að vita allt um alla. Lenti í því um daginn á spjalli sem ég er stundum á að manneskja skrifar þráð og spyr mig spurningar. Ég svara í einkaskilaboði en einhver önnur siðblind manneskja svarar fyrir mig inni á þræðinum og lætur í té upplýsingar sem ég vildi alls ekki að allir gætu lesið. Hvur andskotinn er að fólki.

Og ég fer ekki ofan af því að Fésið elur á þessari vitleysu. Mér finnst það ógeðslegt. Spjallið sem ég er á er að minnsta kosti nafnlaust.

Mamma fór á námskeið í fyrradag um öryggi netsins eða eitthva álíka og snéri af því með velgju og nojaðri en allt. Ég bað hana vinsamlega að segja mér ekki hvað hefði komið fram þarna, ég vissi alveg nógu vel hversu óöruggt netið væri. Hún sagði mér samt einhver atriði sem fram komu, varð að deila hryllingnum með einhverjum. Úff.

Besta barnið er hjá pabba sínum og unir þar líklega vel við sitt. Vinnufjölskyldan eina sanna kom í heimsók á föstudag og snæddi kjúkling og drukkum við mojito. Spiluðum og spjölluðum og þótti ósköp vænt hvor um aðra. Fengum Hrund og Anton í smá heimsókn en svo fór Hrund niður í bæ og hitt fólkið heim ekki löngu seinna. Ég gekk frá og vaskaði upp og horfði svo aðeins á Friends. Mér finnst mjög vont að vera ein heima og sef alltaf mjög illa. Er eins og mamma að hlusta eftir barninu sínu og var því mjög fegin að Hrund rúllaði inni rétt eftir að ég var komin upp í rúm.

Hrund svaf svo allan laugardaginn eins og henni einni er lagið en ég, mamma og litla sys fórum á búðarrölt og ótrúlegt en satt fann ég æðislegan kjól og flöskugræna skó. Vel brúklegt á árshátíð eftir viku og svo bara endalaust eftir það. Kjólllinn var nær allur í boði mömmu og systirin fann á mig bæði flíkina og benti mér á skóbúðina með skónum. Bestar í heimi þessar tvær.

Við Hrund lögðum okkur þegar ég kom heim, Hrund strax orðin þreytt eftir tveggja tíma vöku. Ætluðum niður í bæ í afmæli Q bar eftir það en nenntum því svo ekki. Tókum fram 1500 bita púsl sem við eigum og föndruðum við það í nokkra tíma. Ég fór svo að sofa en Hrund blessunin skreið ekki upp í rúm fyrra um átta í morgun!!! Ég á seint eftir að venjast þessum svefnvenjum. Finnst líka hundleiðinlegt að hún eyði öllum pabbahelgum í að sofa fjandinn hafi það. Ég þarf athygli!!!

Núna er ég svöng og þreytt þar sem ég sef alltaf svo illa. Búhú, ég á svo bágt alltaf hreint. Við mamma erum að hugsa að skreppa á bókamarkaðinn í Perlunni en svo veit ég ekki hvað ég geri. Ætli Hrund vakni ekki um kvöldmatarleytið.

Ég gæti lært.

Nei, grín.


Öskudagur

Ég dröslaði litlum, slöppum rauðhaus í leikskólann í gær. Litla andlitið ljómaði þegar ég sagði henni að það væri öskudagur og hún mætti loksins fara í sjóræningjabúninginn sinn og fara á ball í leikskólanum.

Hún ætlaði hins vegar varla að hafa það á leikskólann, svo orkulítil var hún. En hún sló köttinn úr tunnunni og borðaði pulsu og svo kom ég að sækja hana.

Ég vann svo heilt spænskuverkefni á meðan hún dundaði sér inni í herbergi, það fer stundum ekkert fyrir þessum engli.

Mamman tók svo heldur betur flottar myndir af henni í búningnum með Pétur á höfðinu, ekta sjóræningi alveg hreint.

Pabbi hennar tók hana í morgun, næstu dagar eru hans og komið að honum að snýta og strjúka og lesa og knúsa.

Haldiði svo ekki að barnið hafi logið því að okkur að pabbi hennar segði að hún mætti skeina sig sjálf og svo logið því að pabba sínum að við mæður segðum að hún mætti skeina sig sjálf. Maður þarf greinilega að vara sig á þessu, barnið er farið að plata án þess að blikna.

Best að skrifa aðeins í ritgerðinni.


Nei takk

'Viltu ís ástin mín?'

'Nei, takk'

???

Já, rauðhaus er orðin svona líka veikur. Og eitthvað slen í Sprundinni minni sem ég skrifa á þá staðreynd að hún fer yfirleitt að sofa klukkan þrjú á næturnar. Rauðhaus stóð við rúmstokk mæðra í nótt og saug upp í nefið. Var snýtt og strokið um ennið og kom þá í ljós að hún var brennheit. Var lengi að sofna aftur og lá svo bara í rúminu og volaði þar til mæður drösluðu sér á fætur. Var með nokkuð háan hita og öll ómöguleg, hefur held ég bara ekki orðið svona veik í tvö ár!

Ekki vildi hún borða nema eitt vínber, borðaði þrjár skeiðar af súpu í hádeginu og vildi hvorki sjá djús né bollu í tilefni dagsins.

Hafði ekki einu sinni orku í að labba né sitja upprétt og lá bara í sófanum og horfði á mynd með mæðrum. Við lögðum okkur svo allar, ég er sjálf ekki sú hressasta.

Bauð barninu að lita en hún hafði ekki orku í að sitja. Fannst þetta nú einum of mikið af því góða svo ég mældi hana aftur og var hitinn þá kominn í yfir 40 gráður. Við skelltum því hitalækkandi stíl í óæðri endann á krílinu og fórum með hana á læknavaktina til öryggis. Eyru, lungu og kok var allt í lagi, krílið er með svona slæma flensu. Svo slæma að hún vildi ekki ís. Oh my lord.

Mér finnst ekki spennandi að vera sjálf með þyngsli í höfði og almennan slappleika. Ég dey úr stressi ef ég verð lasin.

Mæðurnar gæddu sér svo á bollum og barnið húkti á stól á meðan og borðaði nokkur vínber. Liggur nú upp í sófa með móður og glápir. Lítið annað sem hún hefur orku í litla skinnið.

Hún var hins vegar eiturhress um helgina. Skoppaði í íþróttaskóla og blaðraði alla leiðina á Selfoss til afa Þóris. Lá í gólfinu og lék sér og fór út að leika með afa. Áttum afar kósý dag fyrir austan og við kyrnur ekki síðra kvöld. Fórum í bollukaffi til ömmu á sunnudaginn og svo í rólegheit og mat til mömmu. Óksöp notalegt allt saman.

Annars er ég alveg rugluð. Þann 18. febrúar voru fjögur ár upp á dag síðan við Hrund kynntumst (ekki sambandsafmæli). 17. febrúar trúlofuðum við okkur (fyrir þremur árum) og 6. mars eigum við sambandsafmæli. Best að hafa þetta rétt.

Matarlystin mín er allavega í góðu lagi, ætla að fara að malla eitthvað fyrir mig og konuna, stinga öðrum stíl í barnið, sussa og bía og vona svo heitt og innilega að hún geti sofið í nótt og þar af leiðandi við mæðurnar líka.

Er treyttur núna.


HAHA

Rósa var nýbúin að horfa á þetta þegar hún fór að lesa færsluna mína um "vondar" mömmur.

Passar ekkert smá vel saman:


Rauðhaus

'Hún talar látlaust!' sagði mamma í gær þegar við kyrnur komum heim.

Og svo hristist hún öll af hlátri þegar hún sagði okkur frá öllu því sem barnið hafði gubbað út úr sér.

'Og spurningarnar!' bætti hún við.

I know!!! Barnið spyr eeeeendalaust. T.d. hvert við erum að fara, að gera hvað, af hverju, af hverju ekki eitthvað annað, voru mæður bara að pissa á klósetti eða pissa og kúka, hvað er í matinn, hvaða dýr hleypur hraðast, hvað er einn plús enn, af hverju er það tveir, hver á þennan staf, hvenær eignast ég systkini, hvenær ætlið þið að gifta ykkur, á ég afmæli eftir viku, hvenær er öskudagur, núna, eða kannski núna, eða núna?

Reyndar segir hún aldrei hvenær heldur hverning.

Hvernig kemur öskudagur.

Með látum giska ég á.

 

Vi kyrnur ákváðum að keyra á Stokkseyri í gær á fara á Fjöruborðið. Ætluðum á Asíu niður í bæ en langaði svo allt í einu að keyra aðeins út úr bænum svo við brunuðum á Stokkseyri. Klúðruðum því að fara Þrengslin þar sem við vorum ekki alveg að fylgjast með en skemmtum okkur konunglega í bílnum, spjölluðum og hlustuðum á Lhasa, söngkonu sem við fílum báðar og var eitt af því fyrsta sem við hlustuðum á saman. Kvöldið sem ég tók Hrund á löpp fór ég með hana heim og setti Lhasa á fóninn. Var svo steinhissa þegar hún fór að syngja með, þekkti engan sem vissi hver hún væri yfir höfuð nema mömmu.

Þegar á Stokkseyri var komið skelltum við okkur í kraftgalla og röltum svo hönd í hönd í rokinu um svæðið. Fengum okkur að borða eftir göngutúrinn og vá hvað þetta var gott. Mér finnst humar álíka girnilegur og hráir sniglar og áferðin svipuð og á steiktum sniglum en humarsúpan á staðnum finnst mér rosa góð. Við fengum okkur þannig í forrétt og Hrund gæddi sér bara á mínum humri líka. Fengum okkur svo lambakjöt í aðalrétt og þetta er án efa það besta sem ég hef fengið. Þetta var sjúklega gott. Ég gat hvorki klárað súpuna né aðalréttinn og stóð á blístri og eftir að Hrund hafði dregið mig að landi átti hún pínu erfitt með að anda. Það var svoooo heitt þarna inn að við vorum orðnar kafrjóðar í framan. Á tímabili leið mér eins og það væri að líða yfir mig, ég var komin úr gönguskónum en var samt að stikna á tánum og það finnst mér sko verst af öllu.

Þetta var yndisleg máltíð og ótrúlega kósý að keyra til baka í myrkrinu. Fengum okkur súkkulaðikökusneið til þess að taka með og borðuðum hana svo þegar heim var komið, í náttfötunum og undir sæng.

Aðalstyrktarfélagar þessarar ferðar voru Edda móða sem gaf okkur pening í jólagjöf og mamma krútt sem gaf okkur pening í tilefni afmælanna tveggja. Takk kærlega fyrir það.


Ammili

Í dag er góður dagur.

Í gær áttum við kyrnur þriggja ára trúlofunarafmæli og í dag eigum við fjögra ára sambandsafmæli.

Vúhú!

Ég var að reyna útskýra afmælið okkar fyrir Rakel í gær. Erfitt að útskýra trúlofun fyrir fjögra ára gömlu barni. En hún skildi að einn daginn ætlum við að gifta okkur.

'Hvenær' vildi rauðhaus vita

'Kannski í sumar eða eitthvað, ég veit það ekki alveg' sagði mammí

'Kemur þá ekki barn þegar þið giftið ykkur' spurði rauðhaus vongóður

'Ég veit það ekki alveg engillinn minn'

'Ef þið viljið gifta ykkur í dag þá máið þið það alveg'

'Takk ljósið mitt'

 

Mamma kemur að passa á eftir og við spúsan ætlum að gera okkur glaðan dag. Fá okkur göngutúr kannski og fara út að borða.

Góður dagur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband